Leita í fréttum mbl.is

Einkavæðum bókasöfn

Almenningsbókasöfn eru líklega fastur liður í hverju sveitafélagi. Sveitafélögin hafa auðvitað gengið mislangt í að efla og/eða stækka sín bókasöfn en óhætt er að segja að í flestum sveitafélögum á Íslandi sé allavega eitt bókasafn. Í Reykjavík eru þau sjö auk þess sem bókabíllinn keyrir á milli og lánar út bækur. Alls starfa um eitt hundrað manns við bókasöfnin í Reykjavík. Þetta er allt saman í eigu borgarinnar og eiga stjórnmálaflokkarnir að sjálfsögðu sína fulltrúa í stjórn bókasafnanna. Enda engin betur til þess fallinn að sitja í stjórn bókasafna en stórnmálamenn.

Nú má alls ekki skilja það svo að ég sé á móti bókasöfnum. Þvert á móti. Sjálfur hef ég mjög gaman að fara á bókasafn og finna mér góða bók til lestur, afla mér upplýsinga, skoða tímarít og jafnvel leigja videomyndir. Bókasöfnin eru skemmtileg og góð viðbót í tilveru okkar. En það þýðir ekki að hið opinbera þurfi að eiga og reka þau.

Það eru nokkur vandamál tengd almenningsbókasöfnum.

Í fyrsta lagi þá er krafa sett á skattgreiðendur að borga fyrir þjónustu sem sumir þeirra nota alls ekki. Það er fullt að fólki sem ekki notar bókasöfn og á því ekki að þurfa að greiða fyrir þau. Það fólk sem notar söfnin ætti að greiða kosnaðinn af þeim.

Í öðru lagi þá eru bókasöfn ekki bráðnauðsynleg. Þó svo að ekki væru til almenningbókasöfn þá þýðir það ekki endilega að fólk verði uppiskroppa með lesefni. Til eru bókabúðir, tímarit og svo auðvitað internetið. Auðvitað væri úrvalið minna en það væri ekki heimsendir þó að ekki væru til almenningsbókasöfn.

Í þriðja lagi þá bitnar opinber rekstur sem þessi alltaf á einkaaðilum. Bókasöfn eru jafnvel að stíga inn á svið þar sem einkaaðilar geta vel sinnt, s.s. videoleigu, kaffisölu og aðgang að internetinu svo eitthvað sé nefnt. Ef einkaaðili vildi opna bókasafn þyrfti hann að keppa við hið opinbera. Það er erfið samkeppni.

Í fjórða lagi þá hafa almenningbóksöfn lítilla hagsmuna að gæta. Arðsemiskrafan er engin. Innkaupin eru í höndum örfárra opinberra starfsmanna (sem ákveða í raun hvað hentar almenningsbókasafni). Og þarna er auðvitað farið með opinbert fé. Hver ákveður t.d. hvaða málverk skal keypt til að skreyta veggina á bókasöfn allra bæjarbúa? Er einhver verðstýring á því? Líklega ekki mikil.

Í fimmta lagi þá hefur það sýnt sig á s.l. árum að einkarekstur er betri en opinber rekstur. Það er athyglisvert að af hundrað starfsmönnum borgarbókasafnanna eru 88,2% ánægðir í starfi. Hins vegar eru aðeins 15% ánægðir með launin sín.

Bókasöfn eru eins og hvert annað fyrirtæki. Bankar, símafyrirtæki, útgerðir, verktakar og mörg önnur fyrirtæki sem áður voru í eigu hins opinbera eru öll betur komin í höndum einkaaðila. Bókasöfn ættu ekki að vera undantekningin frá því. Það er lögmál markaðarins að leysa út því hvort og hvernig þau skuli vera rekin.

Á föstudaginn kemur framhald af þessari grein. Þá verður farið yfir hugsanlegar hugmyndir um einkavæðingu bókasafna og týpískum rökum vinstri manna (sem yfirleitt eru á móti einkavæðingu) svarað.

Gísli Freyr Valdórsson


Ég tek ofan fyrir hr. Karli Sigurbjörnssyni

Ég vil taka ofan fyrir hr. Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands, fyrir að hafa ekki látið Samtökin ’78 komast upp með að vaða yfir sig með furðulegri rangtúlkun á orðum hans í viðtali við NFS á dögunum. Í viðtalinu sagði Karl að hjónabandið ætti það inni hjá þjóðinni að því væri ekki kastað á sorphaugana. Samtökin 78 ákváðu að túlka ummæli Karls sem svo að hann teldi að sambönd samkynhneigðra ættu heima á haugunum sem er ekkert annað en grófur útúrsnúningur. Eins og Karl útskýrði skilmerkilega í fréttum NFS sl. laugardag (af einhverjum ástæðum var fréttin ekki birt á Vísir.is þó finna megi hana þar á stafrænu formi), og augljóst ætti að vera hverjum sem er, þá átti hann með orðum sínum við það að ef hjónabandið yrði ekki lengur aðeins skilgreint sem samband karls og konu heldur samband tveggja einstaklinga óháð kyni eins og sumir vilja þá væri búið að breyta algerlega inntaki hugtaksins eins og það hefur verið í aldir og því þar með verið kastað fyrir róða.

Það þarf að ræða málefni samkynhneigðra á málefnalegan og opinn hátt eins og önnur. Það hljóta flestir að geta tekið undir, sama hvaða skoðun þeir annars kunna að hafa á málinu. En það verður svo sannarlega ekki gert með því að snúa gróflega út úr ummælum manna í því skyni, eins og Karl benti réttilega á í fréttum NFS á laugardaginn, að koma í veg fyrir að andstæð sjónarmið heyrist. Sú skoðanakúgun og sá fasismi sem felst í pólitískum rétttrúnaði mun ekki stuðla að neinni lausn í þessum efnum frekar en öðrum. Telji Samtökin 78, sem og aðrir þeir sem styðja þeirra sjónarmið, sig hafa góðan málstað að verja ættu þau varla að hafa áhyggjur af því þó einhverjir viðri önnur sjónarmið í málinu en þau sem samrýmast þeirra eigin. Ef samtökin hins vegar finna hjá sér þörf til að snúa út úr orðum þeirra sem aðrar skoðanir hafa, kalla þá illum nöfnum eða annað þvíumlíkt – þá segir það sennilega meira en margt annað um málefnalega stöðu þeirra sem og annarra sem kjósa að brúka slík meðöl.

Það virðist því miður vera svo að það sé alveg sama hvað þeir, sem hafa önnur sjónarhorn á þessi mál en Samtökin ’78, segja, allt skal það úthrópað sem fordómar og fáfræði, algerlega óháð því hvort viðkomandi geti fært rök fyrir máli sínu eða ekki. Það er því ekki annað að sjá en að það sé skoðun samtakanna að fordómar og fáfræði séu ekki einmitt það sem hugtökin fela í sér heldur það að hafa ákveðnar skoðanir á málefnum samkynhneigðra og aðrar ekki. Slík misnotkun á grafalvarlegum hugtökum í pólitískum tilgangi er einungis til þess fallin að grafa undan alvarleika þeirra í hugum fólks og ber að fordæma, sama hver gerist sekur um slíkt.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


Mánudagspósturinn 9. janúar 2006

Eitt af því sem veldur íslenzkum Evrópusambandssinnum erfiðleikum í áróðri sínum fyrir því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið er fullveldið. Á sínum tíma voru íslenzkir Evrópusambandssinnar hlynntir því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið yrði lögfestur hér á landi og þvertóku þá fyrir að í honum fælist einhver fullveldisskerðing. Í dag er eitt af áróðursbrögðum þeirra að reyna að telja fólki trú um þá vitleysu að með því að ganga í Evrópusambandið myndi Ísland endurheimta það fullveldisafsal sem EES-samningurinn hafði í för með sér! M.ö.o. hafa menn þarna farið í heilan hring í málflutningi sínum og þetta er almenningi síðan boðið upp á.

Vissulega hefur EES-samningurinn í för með sér ákveðna fullveldisskerðingu fyrir Ísland þar sem við þurfum að taka upp í gegnum hann ákveðinn hluta af löggjöf Evrópusambandsins. Sá hluti er þó sáralítill af heildarlöggjöf sambandsins eins og kom berlega í ljós í úttekt skrifstofu EFTA á því sl. vor. Aðeins er um að ræða 6,5% löggjafar Evrópusambandsins sem fellur undir EES-samninginn en ekki 80% eins og forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna höfðu fram að því ítrekað haldið að þjóðinni og þ.á.m. sjálfskipaðir “Evrópusérfræðingar”. Sérfræðiþekkingin sú náði þó ekki lengra en þetta.

Staðreyndin er sú að ef Ísland gengi í Evrópusambandið er klárt mál að áhrif okkar yrðu sáralítil innan þess. Við höfum margfalt meira um eigin mál að segja eins og staðan er í dag en raunin yrði nokkurn tímann innan sambandsins. Og sama er að segja um áhrif okkar á alþjóðavettvangi. Þróunin innan Evrópusambandsins er með auknum hraða í þá átt að vægi aðildarríkjanna sé í samræmi við íbúafjölda þeirra og eðli málsins samkvæmt er sá mælikvarði okkur Íslendingum ekki beint hagstæður. Sem dæmi má nefna að á þing Evrópusambandsins myndum við í bezta falli fá þrjá fulltrúa af 730. Þessir þrír fulltrúar myndu síðan mjög ólíklega koma allir frá sama stjórnmálaflokknum þannig að óvíst er hvort þeir myndu endilega sjá einhverja ástæðu til að vinna saman nema í helzt í undantekningartilfellum.

Íslenzkir Evrópusambandssinnar virðast sumir halda að Ísland yrði stórveldi við það að ganga í Evrópusambandið og þannig hefur maður t.d. heyrt því fleygt frá slíkum aðilum að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins yrði ekkert vandamál fyrir okkur því þegar Ísland væri orðið aðili að því myndum við hafa svo gríðarleg áhrif á mótun hennar og gætum nánast breytt henni bara eins og okkur sýndist. Skemmst er nú frá því að segja að Bretar, eitt af stóru ríkjunum í Evrópusambandinu, hafa verið aðilar að því síðan árið 1972 og allar götur síðan reynt mikið til að breyta sjávarútvegsstefnu þess þannig að hún hentaði hagsmunum þeirra en án nokkurs árangurs.

Og svona mætti halda lengi áfram. Málið er einfaldlega það að við höfum ekkert í Evrópusambandið að gera þó einhverja íslenzka Evrópusambandssinna langi voðalega mikið til þess. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? Ísland er að koma svo margfalt betur út úr alþjóðlegum úttektum á árangri þjóða en nokkurn tímann Evrópusambandið, aftur og aftur og aftur. Nei, í Evrópusambandið höfum við ekkert erindi!

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


Besta Bítlalagið

Hver sem hefur fé af öðrum með valdi, eða með því að hóta honum einhverskonar ofbeldi eða frelsisskrerðingu, hefur gerst sekur við Almenn hegningarlög (nr.19 frá 1940). Þetta á þó ekki við um hið opinbera sem hefur einkarétt á því að taka peninga af fólki sem ekki vill láta þá af hendi. Þeir gera þetta í krafti þess að þeir einir mega beita ofbeldi. Flestir telja að þessi löglegi peninga stuldur ríkisins sé nauðsynlegur. Það þarf í það minnsta að halda uppi lögum og reglu, reka dómstóla og sjá um landvarnir svo að dæmi séu tekin. Verkefni þessi eru auðvitað fjármögnuð með skattheimtu.

En það eru ekki allir sem skilja að þetta ofbeldi hins opinbera ber að takmarka eins og frekast er unnt. Það er siðferðisleg skylda stjórnvalda að hafa skatta eins lága og hægt er því ekki er fallegt að stela, ekki einu sinni í þágu góðra málefna. Þetta segir sig sjálft. Ríkinu ber að hlífa mönnum við ofríki sínu eins og frekast er unnt. Bítlarnir urðu fyrir barðinu á stelvísum yfirvöldum Bretlands á sínum tíma, og sömdu við það tækifæri þetta ágæta lag:

Let me tell you how it will be
There's one for you, nineteen for me
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman

Should five per cent appear too small?
Be thankful I don't take it all
'Cause I'm the taxman, yeah I'm the taxman

If you drive a car, I'll tax the street,
If you try to sit, I'll tax your seat.
If you get too cold I'll tax the heat,
If you take a walk, I'll tax your feet.

Don't ask me what I want it for
If you don't want to pay some more
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman

Now my advice for those who die
Declare the pennies on your eyes
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman
And you're working for no one but me.

Sindri Guðjónsson


Græðgi; úrelt hugtak sósíalista

Já, hún er alveg óþolandi þessi græðgisvæðing. Allaveg finnst hinum sósíalísku stjórnarandstöðuþingmönnum það. Og þetta er allt saman okkur hægri mönnunum að kenna. Við erum víst búnir að gera fólk svo gráðugt með því að segja því að það þurfi ekki að greiða háa skatta og gefa því von um að halda laununum sínum eftir sjálft. Já, og svo ýta lágir skattar á fyrirtæki víst líka undir græðgi. Þessir glæpamenn sem stunda fyrirtækjarekstur eru auðvitað bara gráðugir og hugsa bara um eigin hag.

Þetta er það sem heyrist reglulega frá vinstrimönnum, íslenskum sósíalistum. Steingrímur J. Sigfússon er í mörg ár búinn að tala um að hér sé allt á leiðinni til ansk... af því að græðgin sé svo mikil. Um daginn horfði ég á fréttaannál Stöðvar tvö frá árinu 1999. Það var kosningaár og að sjálfsögðu birtist viðtal við Steingrím þar sem hann sagði að hér færi allt niður ef sama ríkisstjórn sæti þá áfram. Nú þessi sama ríkisstjórn hefur lifað af tvær kosningar eftir það og ekki hefur ,,ástandið” versnað. Það hefur þvert á móti stórbatnað. Skattar eru að lækka og skuldir ríkisins á sama tíma. (gamla fréttaannála er hægt að nálgast á vef-TV á Vísi.is - stórskemmtilegt áhorf)

Jóhanna Sigurðardóttir er líka mjög skemmtilegur alþingismaður. Hún má eiga það að ólíkt flestum kollegum sínum í Samfylkingunni er hún oftast málefnaleg í umræðum sínum og hér skal ekki efast um þungbærar áhyggjur hennar af þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Gallinn við Jóhönnu er bara sá að hún heldur að flestir sem eiga yfir hundrað þúsund krónur í banka séu hálfgerðir glæpamenn og hafi stolið því frá þeim sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Kannski ekki málefnaleg gagnrýni hjá mér en lýsir samt í fáum orðum pólitík Jóhönnu. En við hægri menn og Jóhanna erum líklega sammála því að það er fólk sem hefur það ekki gott og það er markmið okkar allra að bæta úr því. Okkur greinir bara á hvernig það skuli gert. Það er efni í annan pistil.

En snúum okkur þá að græðginni. Jóhanna byrjaði árið á því að tala um græðgisvæðingu í pistli á heimasíðu sinni. Hún er ekki sú eina sem notar þetta orð óspart, græðgisvæðing. En hvað eiga vinstri menn eiginlega við þegar þeir tala um græðgisvæðingu? Hver er gráðugur? Hvar eru mörkin á milli þess eins að reka fyrirtæki annars vegar og vera gráðugur hins vegar? Er bakarinn hérna á horninu gráðugur? Er Jón Ásgeir gráðugur? Eru tannlæknarnir sem ráða gjaldskránni sinni sjálfir gráðugir? Eru forsvarsmenn Icelandair gráðugir en forsvarsmenn Iceland Express ekki? Meira að segja verkalýðsforingjar saka alla sem vel gengur í fjármálum um græðgi.

Þetta er allt spurningar sem eiga rétt á sér og vinstrisinnaðir stjórnmálamenn geta ekki svarað. Ef að bakari opnar bakarí, hvar liggja þá mörkin á milli þess að hann sé að reka lítið fyrirtæki eða að hann sé gráðugur? Ég geri ráð fyrir því að hann vilji að fyrirtæki sitt reki sig vel og með hagnaði. Er hann þá ekki gráðugur? Er Jói Fel gráðugur? Hann opnaði sínum tíma lítið bakarí á Holtavegi en er nú kominn með framleiðslu á ýmiss konar vörum, sjónvarpsþáttum, bókum og fl. Hann er líklega að efnast vel á þessu öllu saman. Er hann þá gráðugur í augum sósíalista? Ef svo er, hvenær varð hann þá gráðugur? Ef svar þeirra er að hann hafi orðið gráðugur í upphafi þá hljóta allir fyrirtækja eigendur stórir og smáir að vera gráðugir. Þeim langar öllum ganga vel.

Eru Baugsfeðgar gráðugir? Ef já, voru þeir þá gráðugir þegar þeir opnuðu litla búð í Skútuvogi eða þegar eignir þeirra fóru að telja í milljörðum? Þetta eru köld skilaboð stjórnmálamanna til atvinnulífsins. Það vill oft gleymast að þessi fyrirtæki sem eru svona rosalega ,,gráðug” skaffa mörg þúsund manns á Íslandi vinnu.

Eru menn orðnir gráðugir þegar þeir greiða forstjórum sínum háar upphæðir í laun? Ég mundi þvert á móti halda að þeir væru gjafmildir. Er að græðgi að borga stjórnendum fyrirtækja góð laun. Eða er það kannski hluti að ,,græðgisvæðingunni” að efna samning við fráfarandi forstjóra Icelandair? Hefðu menn frekar viljað að konan yrði svikinn um gerðan samning? Hvers konar skilaboð hefðu það verið til atvinnuþátttöku kvenna?

Já, það er hægt að spyrja sig endalaust. Vinstrimenn hafa að ég held engin svör við þessum spurningum heldur nota þeir orð eins og græðgisvæðing, mannréttindabrot, spillingu, lýðræði og svo frv. sem pólitískt vopn í baráttunni um völd. Þetta er þeirra ,,tískuhugtök” um þessar mundir og þýða orðið ekki neitt fyrir hinn almenna mann. Þegar ríkisstjórnin tekur ákvörðun sem vinstrimenn eru ósáttir við er það brot á lýðræði. Þegar ekki er gengið á eftir kröfum vinstrimanna er það mannréttindabrot, hvorki meira né minna. Þegar hæfir lögfræðingar eru ráðnir dómarar er það pólitísk spilling, jafnvel þó að ekki sé hægt að setja út á störf þeirra.

Stjórnmálamenn þurfa að vera ábyrgir orða sinna en ekki alltaf að gaspra eitthvað út í loftið sem missir síðan meiningu sína. Það er allt í lagi þó að Steingrímur, Jóhanna, Ingibjörg Sólrún og fleiri vilji koma hér á sósíalískri stjórn. Við vitum öll hvar þau standa í pólitík (nema kannski Ingibjörg Sólrún því hún er í pólitískri eyðimörk eftir að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum eins og bent er á hér.)

Eigum við að spyrja okkur hvernig efnahagsástandið væri ef hér hefði verið sósíalísk vinstri stjórn síðasta hálfan annan áratuginn. Þá væru þeir reyndar ekki að saka neinn um græðgi enda væri ekki jafnmikið fjármagn í umferð. Ætli væri ekki eins farið fyrir ríkiskassanum og Reykjavíkurborg, bæði skuldir og skattar á uppleið? Og allt í nafni samhjálpar og aukinnar þjónustu en ekki óráðsíu stjórnmálamanna.

Það hlýtur bara að vera að öllum sem langar að ganga vel í einhverju séu gráðugir.

Græðgi ; átfrekja, áköf löngun, girnd.
Íslenska Orðabókin

p.s. ég nota áberandi mikið orðið sósíalisti hér því þáð er furðulegt að þeir sem vilja hvað minnst kannast við hann eru vinstrimennirnir sjálfir sem aðhyllast sósíalisma.

Gísli Freyr Valdórsson


Mánudagspósturinn 2. janúar 2006

Egill Helgason fjallar um tímaritið Þjóðmál í nýlegum pistli á Vísir.is. Þar segir hann m.a. að í tímaritinu sé að finna mikið af efni sem gott sé að lesa og ennfremur segir hann mikinn feng í að því virðist ætlað að endurspegla ólík hægrisinnuð sjónarmið. Því mati Egils er ég að sjálfsögðu sammála og má geta þess að mér þykir sjálfum oft áhugavert að lesa skrifin hans á Vísir.is og horfa á þáttinn hans. En annað slagið þykir mér Agli þó verða æði hált á svellinu eins og kemur vissulega fyrir flesta menn á einhverjum tímapunkti. Þannig segir hann áfram um efni Þjóðmála í áðurnefndum pistli: „Þarna eru greinar sem má flokka undir frjálshyggju [...], aðrar sem eru skrifaðar af virðulegri íhaldsmennsku og svo er þarna grein eftir Ragnhildi Kolka sem er dæmigerð fyrir þá hægrimenn sem eru fullir tortryggni gagnvart fjölmenningarsamfélaginu.“

Ég get ekki skilið þetta síðasta öðruvísi en svo að Egill sé þarna að skírskota til tortryggni í garð fjölmenningasamfélagsins með neikvæðum hætti. Ég veit hins vegar ekki betur en að hann hafi sjálfur skrifað á mjög hliðstæðum nótum og Ragnhildur um þessi mál í pistlum á Vísir.is fyrir fáeinum vikum, þá einkum í tengslum við óeirðirnar í Frakklandi. Þar skírskotaði hann m.a. í greinar sem birtar voru í hinu virta brezka tímariti The Spectator í nóvember sl. þar sem fjallað var með mun meira afgerandi hætti um þessi mál en nokkurn tímann í grein Ragnhildar (eða hefur verið gert af minni hálfu ef út í það er farið). Því til viðbótar sagði Egill í einum af pistlum sínum að vart yrði á móti því mælt að fjölmenningarhyggjan væri á síðasta snúningi í Evrópu, m.ö.o. að hún væri við það að sigla í strand. Og hvað er þá að því þó fólk sé tortryggið í garð hennar?!

Hins vegar er staðreyndin sú að fjölmenningarhyggjan (sem gengur í meginatriðum út á að mörg ólík þjóðfélög verði til innan eins þjóðfélags og er þannig andstaða þess sem nefnt hefur verið aðlögun) hefur þegar fyrir löngu siglt í strand. Fjöldi fólks er einfaldlega fyrst núna að þora að viðurkenna það og tala um það opinberlega, eitthvað sem það lagði ekki í áður vegna þeirrar fasísku pólitísku rétthugsunar sem gegnsýrt hefur alla "umræðu" um þessi mál hingað til, sagt fólki hvaða skoðanir það megi hafa á þeim og hverjar ekki og haldið því þannig í hugarfarslegri gíslingu. Þeir sem staðið hafa fyrir þessum fasisma og viðhaldið honum eru síðan oftar en ekki þeir sömu og slá sér hvað mest á brjóst og kalla sig einlæga lýðræðissinna. Staðreyndin er þó sú að pólitísk rétthugsun er sennilega eitthvert það ólýðræðislegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst undir sólinni. Þeir sem tala fyrir og beita sér fyrir slíkri skoðanakúgun geta aldrei talizt sannir lýðræðissinnar!

Það er allt annað mál að samfélög séu opin fyrir jákvæðum og uppbyggilegum erlendum áhrifum og straumum sem eiga samleið með þeim og aðlaga má með góðu móti að þeim samfélagsgerðum sem fyrir eru. Slíkt hlýtur auðvitað að teljast sjálfsagt og eðlilegt og sömuleiðis það að samfélög bjóði velkomna aðflutta einstaklinga sem eru tilbúnir að verða hluti af þeim og leggja það á sig sem þarf til að svo megi verða með aðstoð þeirra sem fyrir eru. Sennilega þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um þá staðreynd að gott fólk er alls staðar að finna algerlega óháð því hvaðan það er úr heiminum, uppruna, kynþætti eða nokkru slíku. Fyrst og síðast eru allir vitanlega einstaklingar og það er það sem máli skiptir. Þetta þarf þó vitanlega allt að eiga sér stað með ábyrgum og skynsömum hætti. Velheppnuð aðlögun aðfluttra einstaklinga að viðkomandi samfélögum er þar algert lykilatriði.

Sú vinstrisinnaða hugmyndafræði fjölmenningarhyggjan hefur aftur á móti einfaldlega verið vegin, metin og léttvæg fundin. Ófáar þjóðir hafa nú þurft að horfast í augu við þá staðreynd að fenginni biturri reynslu. Niðurstaðan er sú að þessi stefna gengur ekki upp frekar en kommúnisminn þó einhverjum kunni að þykja hún hljóma óskaplega vel á prenti. Það er þó ekki þar með sagt að slíkt virki vel í raunveruleikanum eins og sagan sýnir sennilega bezt. Fjölmenningarstefnan hefur ekki leyst nein vandamál heldur þvert á móti skapað fjöldann allan af þeim sem spurning er hvort nokkurn tímann verður hægt að finna lausnir á.

En fyrst ég minntist á Egil Helgason í byrjun greinarinnar þá hefur hann nú víst viðurkennt það, m.a. í viðtali við Blaðið fyrir ekki svo löngu síðan, að hann eigi það til að skipta annað slagið um skoðanir. Þetta mætti orða svo í bundnu máli með glettnu ívafi:

Egill fer í ótal hringi,
ekki í neinu á silfrið spar.
Hann ætti að vera inni á þingi,
íþróttin er stunduð þar.
(R.K.)

Með pólitískt rangthugsandi kveðju til Andra Óttarssonar Deiglupenna sem haldinn er þeirri óskhyggju (eða þráhyggju réttara sagt) að ég og við á Íhald.is höfum einhverjar annarlegar skoðanir þegar kemur að innflytjendamálum þó hann geti ekki fært fyrir því nein haldbær rök hvað þá meira. Aðeins dylgjur og innantómar fullyrðingar eru þar á boðstólum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Skattar lækka; er ríkisreksturinn of góður?

Nú um áramót lækkar skattprósentan um 1% sem er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar. Skattalækkun sem þessi er að sjálfsögðu af hinu góða enda skattar gjarnan of háir á Íslandi. Samkvæmt loforði stjórnarflokkana á skattprósenta ríkisvaldsins eftir að lækka um 2% til viðbótar við þau 2% sem hann hefur nú þegar lækkað um þessi áramót.

Að sama skapi hefur bæði erfðafjárskattur og eignarskattur verið afnuminn og það er greinilegt að slíkt afnám skatta kemur öllum vel, ekki síst eldra fólki sem hefur eytt allri sinni ævi í að vinna hörðum höndum til að eignast t.a.m. húsin sín og aðrar eigur.

Reyndar hefur útsvar sveitafélaga hækkað á flestum stöðum og þannig búið að ,,stela” hluta skattalækkunnar ríkisstjórnarinnar. Í flestum sveitafélögum stendur ekki til að lækka útsvarið. Á því eru þó örfáar untantekningar eins og Seltjarnarnes þar sem reksturinn er til fyrirmyndar. Það bæjarfélag er á sama tíma að lækka útsvar og lækka skuldir íbúa þess.

Nú stendur til að greiða upp mest allar skuldir ríkissjóðs. Það er ekki nóg með að skuldirnar lækki heldur sparar ríkið sér gífurlega mikið fjármagn sem annars ætti að fara í vaxtagreiðslur á þeim lánum sem fyrir voru. Skattar eru að lækka og stefna núverandi stjórnvalda er að lækka þá enn meira. Best yrði auðvitað að ríkisstjórnin og Alþingi tækju sig til og minnkuðu útgjöld ríkissins þannig að hægt sé að lækka skatta enn meir. Ymiss gæluverkefni, misnotkun ríkisfjármangs, óreiða og skipulagsleysi einkennir oft ríkisútgjöldin og það eru skattgreiðendur sem borga reikninginn. En svona á heildina litið er rekstur ríkisvaldsins góður. Allavega það góður að skattarnir eru að lækka.

En þá kemst maður ekki hjá því að spyrja sig, er hann kannski of góður? Og hvað á ég við með því. Jú, segjum sem svo að eftir tvö ár komist vinstri stjórn til valda. Við skulum nú vona okkar allra vegna að svo verði ekki en það gæti gerst. (minnir svoldið á launaverndar auglýsingarnar - ,,ég meina það gæti gerst”)

Þá myndi sú ríkisstjórn byrja með gott tromp á hendi, lágir skattar og litlar sem engar skuldir. Það er alveg fullkomið form fyrir vinstri menn. Á meðan hægri stjórn væri vís með að lækka skatta enn frekar en þeir verða vorið 2007 og taka til í ríkisútgjöldum þá geri ég ráð fyrir að vinstri menn sjái sér leik á borði við að keyra skattana og skuldirnar upp komist þeir til valda. Já, það er hægt að hækka bæði, sjáum til dæmis rekstur Reykjavíkurborgar.

Auðvitað munu vinstri menn aldrei fara út í kosningabaráttuna vorið 2007 með það loforð að skattar og skuldir verði búnar að hækka þegar kosið verður aftur 2011 (þ.e.a.s. ef að hugsanleg vinstri stjórn sitji í fjögur ár sem er ekki líklegt frekar en áður hér á landi.) En eins og sagan kennir okkur virðist það vera almennt að vinstri menn kunna lítið að fara með almannafé. Aftur nefni ég Reykjavíkurborg sem dæmi. Þar hefur almannfé horfið hraðar en borgarstjórarnir sjálfir og borgarbúum öllum er sendur reikningurinn, eða öllu heldur börnum núverandi borgarbúa því ef fer sem fram horfir eru það þau sem koma til með að borga reikninginn. Já, gjaldfrjálsi leikskólinn dugir því skammt.

Það er því mjög líklegt að ef vinstri stjórn kemst hér á muni hagvöxtur stöðvast að einhverju marki og sú uppsveifla sem hefur verið hér síðasta áratuginn mun sveiflast eitthvert annað en upp. Þess vegna þurfa hægri menn að vera duglegir við að koma málefnum sínum fram, ekki síst í efnahagsmálum. Hér má ekki verða ríkisstjórn sem verður lauslát í fjármálum eins og R-listinn hefur verið. Hvorki við né börnin okkar höfum efni á því né eigum það skilið.

Að öðru leyti óska ég lesendum öllum gleðilegs árs og þakka þær góðu móttökur sem Íhald.is hefur fengið.

Gísli Freyr Valdórsson


Ingibjörg Sólrún er tónlaus lúður í íslenskum stjórnmálum

,,Ef við byggjum í réttarríki væri Davíð Oddsson kominn á bak við lás og slá”
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 1987

,,Davíð nýtur valdanna, það fer ekki á milli mála. Ég man eitt sinn er ég sá hann niðri í miðbæ Reykjavíkur á 17. júní. Það gekk hann um ljómandi eins og barn í eigin afmæli. Ég held að Davíð upplifi tímamót í sögu Reykjavíkur eins og þau væru hans eigin. Það er eins og hann geti ekki gleymt því eitt augnablik að hann er borgarstjóri.”
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um Davíð Oddsson 1989

Í vor urðu formannsskipti í flokknum. Eftir mjög harða kosningabaráttu sigraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svila sinn, Össur Skarphéðinsson. Hún hafði tilkynnt framboðið tveimur árum áður eftir að flokkurinn hafði ekki náð takmarki sínu í þingkosningunum árið 2003. Ingibjörg hafði nokkrum mánuðum fyrir kosningar stigið inn í landspólitíkina og var þá orðinn forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Reyndar fór það alveg framhjá Samfylkingarmönnum að forsætisráðherra er ekki kosinn í beinni kosningu en það virtist litlu máli skipta. Samfylkingin náði eins og áður sagði ekki takmarki sínu í kosningunum.

Þá var settur á stofn sérstakur framtíðarhópur ,, til að móta og útfæra nánar þá stefnu flokksins sem samþykkt var á stofnfundi í maí árið 2000." Lítið hefur þó komið frá framtíðarhópnum sem hægt er að telja sem innlegg í stjórnmálaumræðuna.

Nú, þegar flokkurinn mælist með minna fylgi en nokkru sinni fyrr þá er það allt í einu ekki vandamál formannsins heldur vandamál ,,forystunnar.” Já, forystan þarf að bæta sig og koma sér saman um málefni til að vinna eftir. Að sjálfsögðu hvílir engin ábyrgð á formanninum. Það er forystan gott fólk. Þetta er allavega það sem ISG lét hafa eftir sér þegar hún var ynnt álits á slæmu gengi flokksins.

Reyndar hafa þingmenn flokksins að vissu leyti tekið undir þetta. Þegar tvær þingkonur Samfylkingarinnar sátu fyrir svörum í Silfri Egils fyrir örfáum vikum um lítið fylgi flokksins í skoðanakönnunum voru þær sammála um að flokkurinn þyrfti að móta sér framtíðarstefnu og leggja hana almennilega á borðið. Þær bættu því svo við að flokkurinn hefði verið að vinna að ákveðnum málum og verið að ,,móta sig innan frá.”

Þetta er allt mjög skrautlegar yfirlýsingar bæði formanns og þingmanna flokksins. Flokkurinn er búinn að fara í gegnum tvennar þingkosningar einu sinni í gegnum sveitarstjórnarkosningar. Það var búin til fyrrnefndur framíðarhópur til að móta og útfæra stefnuna og ekki nóg með það heldur veitti núverandi formaður flokksins honum forystu. Og árangurinn: Enginn.

Og í stað þess að ,,móta stefnuna” hefur Ingibjörg nú tekið upp á því að bjóða hinum og þessum ,,feitum” embættum í ríkisstjórn sem er ekki einu sinni til. Jónarnir tveir eru allt í einu orðnir helsta von formannsisn um vinsældir. Rétt er þó að taka fram að þetta var einhliða ákvörðun Ingibjargar en ekki þeirra fjölmörgu þingmanna sem hugsanlega hefðu áhuga á að taka ráðherrasæti í ríkisstjórn (verði hún nokkurn tímann til).

Nei, sannleikurinn er sá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er tónlaus lúður í pólitík. Hún talar þegar hún heldur að það komi sér vel. Yfirlýsingar eins og þær að frjálshyggja sé á undanhaldi, Ísland eigi að taka upp Evruna og að hækka beri fjármagnstekjuskatt eru aðeins laglausir tónar sem eiga að krydda á stjórnmálaumræðuna. Á meðan Ingibjörg talar um að frjálshyggjan sé á undan haldi er hver þjóðin á fætur annari að kjósa sér hægri stjórnir og allflestir sjá að vinstrimenn kunna lítið að fara með opinbert fé og málefni. Besta dæmi hérlendis er R-listinn.

Borgarstórnarferill Ingibjargar er til skammar (þó að hún skammist sín eflaust ekki) og pólitík hennar hefur í næstum tuttugu ár snúist um hatur á Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum en ekki eigin pólitískum hugsjónum. Nú þegar Davíð Oddsson er horfinn að sjónarsviði stjórnmálanna og Ingibjörgu hefur og mun aldrei takast að vinna hann í nokkrum kosningum þarf hún að finna sig í pólitík upp á nýtt. Ingibjörg virðist enga fasta stefnu hafa í nokkru máli og er fylgi flokksins eftir því.

Ef Ingibjörg kemst til valda vill hún ráða sem mestu sjálf. Þeir sem þekkja til starfa hennar í Reykjavíkurborg vita að hún starfar eftir eigin hug en talar út á við um ,,umræðustjórnmál” og ,,virkt lýðræði” sem er ekkert annað en innantómt blaður. Hún mun reyna að hefja samningaviðræður við ESB, hækka skatta og skuldir og skilja reikninginn eftir handa börnum okkar. Hún mun setja sína vini og kunningja í helstu stöður og jafnvel búa til nýjar ef þess þarf. Hún hefur gert þetta allt áður.

Nú af hverju er íhaldsmaðurinn að velta sér svona mikið upp úr Ingibjörgu og Samfylkingunni? Jú, ástæðan er einföld. Samfylkingin er upphaflega búin til til að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og veita honum aðhald og samkeppni. Á milli vinstri og hægri afla landsins eiga að vera átök og umræður um ólíkar skoðanir og málefni. Þau eiga hins vegar að vera málefnaleg og fara fram með heildarhag þjóðarinnar í huga. Ekki að byggjast upp af persónulegu hatri eins stjórnmálamanns á öðrum. Ef að Samfylkingin hefði skýra stefnu þá væri það verðugt verkefni að takast á við flokkinn á sönnum vettvangi stjórnmálanna. Það er ekki hægt í dag. Samfylkingin veit ekki einu sinni sjálf hvar hún vill staðsetja sig í stjórnmálum, hvernig eigum við þá að rökræða við þá á málefnalegum vettvangi?

Gísli Freyr Valdórsson




Ritstjórnarviðhorf - Góð grein á Vef-þjóðviljanum

Reyndar eru flestar greinar á Vef-þjóðviljanum mjög góðar.
Ég mæli þó sérstaklega með að fólk lesi grein vefritsins frá jóladag.
Greinina má nálgast hér.

Gísli Freyr


Mánudagspósturinn 26. desember 2005

Einhverjir kunna að hafa haldið (eða kosið að halda) að óeirðirnar í úthverfum franskra borga, sem stóðu hvað hæst í síðasta mánuði, hafi verið eitthvað sem bundið væri við Frakkland. Það er þó langt frá því að vera svo. Það eru til hverfi í flestum borgum í Vestur-Evrópu sem fólk veigrar sér við að fara inn í, þá ekki sízt vegna ofbeldis. T.a.m. í Stokkhólmi. Það fékk mikla athygli byrjun síðasta mánuðar þegar Nalin Pekgul, formaður Kvennasamtaka sænska Jafnaðarmannaflokksins, lýsti því yfir í viðtali við sænska ríkisútvarpið að hún og fjölskylda hennar hefðu ákveðið að flytja úr úthverfinu Tensta í Stokkhólmi.

Pekgul hafði búið í Tensta í 25 ár eða allt frá því hún kom fyrst til Svíþjóðar árið 1980 sem flóttamaður frá Kúrdistan 13 ára gömul. Hún er velþekktur stjórnmálamaður í Svíþjóð og var t.a.m. þingmaður á sænska þinginu fyrir jafnaðarmenn 1994-2002. Ástæða þess að Pekgul og fjölskylda hennar – eiginmaður og tvö börn – ákváðu að flytja frá Tensta er sú að trúaröfgar og ofbeldi hafa færst í aukana í hverfinu sem er að mestu leyti byggt innflytjendum. Hún sagði ennfremur í samtali við sænska ríkisútvarpið að hún teldi fjölskyldu sína ekki örugga lengur í hverfinu.

Hér fer á eftir þýðing á frétt sænska ríkisútvarpsins um viðtalið við Pekgul:

„Nalin Pekgul, þekktur jafnaðarmaður og talsmaður úthverfa sem að miklu leyti eru byggð innflytjendum, er að yfirgefa sitt eigið úthverfi Tensta vegna þess að hún telur að það sé orðið of óöruggt. „Tensta hefur orðið of hættulegt fyrir börnin,“ segir hún. ... Hún segir í samtali við P1 Studio Ett að ástæða þess að hún vilji flytja sé vaxandi ofbeldi og bókstafstrú í Tensta. Kornið sem fyllti mælinn var atvik sem átti sér stað í tengslum við markaðstorgið í Tensta sl. haust þar sem maður var særður skotsárum stutt frá heimili fjölskyldunnar. „Ég var á leið heim með syni mínum. Það var blóð úti um allt. Það er ekkert gamanefni fyrir átta ára gamalt barn að þurfa horfa upp á slíkt,“ segir Nalin Pekgul. Talið er að maðurinn hafi lifað af vegna þess að hann var í skotheldu vesti. Það veldur Nalin Pekgul einnig áhyggjum. „Ég gerði mér grein fyrir því þá að margir klæðast skotheldum vestum hér. Hvað hefur gerst hér hugsaði ég. Er þetta Tensta? Ég hlýt að hafa misst af því sem var að gerast hér á undanförnum árum.“

Nalin Pekgul segir að hún forðist að koma heim seint að kvöldi núorðið. „Einhver verður alltaf að koma til móts við mig á neðanjarðarlestarstöðinni ef ég kem seint heim,“ segir hún. ... Nalin Pekgul, sem er múslimi sjálf, hefur einnig tekið eftir því að íslömsk bókstafstrú hefur vaxið fiskur um hrygg í Tensta. Börnin hennar koma heim og furða sig á því að hún skuli ekki klæðast hijab og að fjölskyldan skuli ekki fara í mosku. Þau hafa einnig heyrt að múslimar séu betri en kristnir. „Mér líkar það ekki þegar sonur minn kemur heim og segir: „Mamma, við múslimar ljúgum ekki, en það gera kristnir því þeir eru guðlausir.“ Hann hefur þetta ekki frá okkur. Við gerðum ekki ráð fyrir þessum trúaröfgum,“ segir hún. Nalin Pekgul og fjölskylda hennar eru nú að leita að húsnæði í meira blönduðu hverfi af bæði innflytjendum og innfæddum Svíum.“

Hjörtur J. Guðmundsson
Hjorturg(a)hi.is


Gleðileg Jól

Ritstjórn Íhald.is óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.
Hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.

Jólakveðjur,
Ritstjórn Íhald.is


Þarf sérstök lög um fjölmiðla?

Um fjölmiðla eiga aðeins að gilda sömu lög og sett eru á önnur fyrirtæki. Fjölmiðlar þurfa að lifa við framboð og eftirspurn eins og allar aðrar neysluvörur. Alveg eins og eigendum Myllunnar er heimilt að ákveða sjálfir hvernig brauð þeir framleiða er eigendum fjölmiðla heimilt að ákvarða rekstur og ritstjórnarstefnu sína. Myllan þarf hins vegar að gera grein fyrir því hvað vörur þeirra innihalda og gefa upp grundvallar-upplýsingar um vöru og starfssemi sína. Það sama þarf að gilda um fjölmiðla. Hafa skal í huga að umræðan um ritstjórnarstefnu fjölmiðla annars vegar og eignarhalds á fjölmiðlum hins vegar er ekki sami málaflokkurinn.

En hver veittir fjölmiðlum aðhald? Svarið liggur auðvitað í því að það eru neytendurnir sjálfir sem veita þeim aðhald eins og öllum öðrum fyrirtækjum. Ef einstaklingur er óánægður með Húsasmiðjuna verslar hann í Byko, ef hann er óánægður með Krónuna verslar hann í Bónus og svo framvegis. En þá vaknar spurningin, en ef það er ekkert val?

Ef svo bæri til að einn aðili næði hér eignarhaldi á öllum fjölmiðlum er auðvitað komin upp staða sem væri óbærileg til skamms tíma litið. Hér skal viðukennt að það eru jú fjölmiðlar sem stjórna meira og minna umræðunni í landinu þó að ekki sé dregið úr afstöðu minni til þess að þeir séu ekki fjórða valdið. En það væru ekki eðlilegar aðstæður á þjóðmálaumræðunni ef henni væri stjórnað af einum manni eða einu fyrirtæki. Slíkar aðstæður hafa komið upp fyrir utan fjölmiðlamarkaðinn. Icelandair var um tíma eina flugfélagið sem hélt uppi áætlunarflugi til og frá Íslandi. Ekki voru sett sér lög um flugsamgöngur til og frá landinu vegna þessa. Hins vegar leysti markaðurinn úr þessu sjálfur þegar komið var á fót flugfélagi í samkeppni við Icelandair. Það sama gildir um fjölmiðla. Þess vegna ber stjórnvöldum að tryggja það að hér sé svigrúm til frjálsrar samkeppni. Það gera þau með því að setja samkeppnislög og hafa sem mest frelsi fyrir menn til að athafna sig.

Ef hér á landi væri aðeins starfandi ein matvöruverslun þá er það markaðarins að skera úr um hvort þörf sé á fleirum eða ekki. Ef starfræktar eru tvær verslanir en aðeins eftirspurn eftir einni er það neytenda að skera úr um hvor það er sem starfar áfram. Ekki er hægt að koma í veg fyrir (nema með sérstakri lagasetningu) að einn aðili eignist meirihluta fjölmiðla en hafa skal í huga að magn fjölmiðla takmarkast ekki við þá sem nú koma út. Ef einhver er ósáttur við að einn aðili eignist alla þá fjölmiðla sem nú koma út ætti sá hinn sami að stofna fjölmiðil og auka þannig framboð á fjölmiðlum. Um þessar mundir koma til að mynda út fjögur dagblöð. Ef einhver hefur hug á að bæta því fimmta við munu neytendur sjálfir skera úr um hvort að þörf sé á fimm dagblöðum. Nú, ef ekki þá þarf væntanlega eitt eða fleiri dagblað að víkja af markaðnum. Þá er það einnig neytenda að skera úr um hvaða blað það verður. Þetta er aðeins gróft dæmi um frjálsa samkeppni.

Starfsheiður fjölmiðlamanna
Það ætti að vera kappsmál hvers fjölmiðlamanns að vera góður í starfi sínu. Hver fjölmiðlamaðurinn á fætur öðrum á Íslandi hefur sagt ef eigendur fjölmiðilsins sem hann starfaði fyrir myndi skipta sér af fréttaflutningi að þá myndi hann/hún ganga út. Þetta hjómar allt saman mjög vel ef satt reynist en hins vegar hefur annað komið á daginn. Nú er ekki óeðlilegt þó að eigendur móti ritstjórnarstefnu síns fjölmiðils. Hins vegar væri það óásættanleg vinnuaðstaða fyrir fréttamenn ef eigendur skiptu sér í sífellu af einstaka fréttum þeirra. Þeir blaða- og fréttamenn sem starfa á íslenskum fjölmiðlum vita það einir hvort að svo sé eða ekki. En það ætti að vera metnaður hvers fjölmiðlamanns að vanda verk sín og vinna þau af kostgæfni, heiðarleika og sanngirni. Það gerir hann sjálfan og fjölmiðilinn sem hann vinnur á traustverðan og eykur virðingu hans. Enginn fjölmiðlamaður vill vera þekktur fyrir að hlýða yfirskipun eigenda fjölmiðilsins. Hins vegar er það alveg ljóst að blaðamenn flytja ekki neyðarlegar fréttir af eigendum sínum. Þeir verða því sjálfir að meta hvernig þeir vernda starfsheiður sinn.

Ólafur Teitur Guðnason skrifar vikulega pistla í Viðskiptablaðið þar sem hann gagnrýnir ýmsa starfshætti fjölmiðla og veitir þeim þar vissulegt aðhald. Hann er vel að því kominn þar sem hann er sjálfur reyndur blaðamaður og þekkir því til verka. Það er hins vegar athyglisvert að flestir þeir sem orðið hafa fyrir gagnrýni af hans hálfu hafa tekið því illa og gefið í skyn að þar sé vegið að starfsheiðri þeirra. Fæstir hafa þó geta hrakið gagnrýnina. Það er nauðsynlegt fyrir fjölmiðlamenn að fá gagnrýni innan frá eins og pistlar Ólafs Teits eru dæmi um.

En fyrst og fremst eru það neytendur sem veita fjölmiðlunum aðhald. Fjölmiðar hafa aðeins þá ábyrgð að gera sig trúverðuga í augum neytenda og það gera þeir væntanlega með heiðarleika, hreinskilni og vandvirkni. Ef vandamál koma upp á fjölmiðlamarkaði mun markaðurinn sjálfur sjá um að refsa þeim sem gerast brotlegir og verðlauna þá sem vinna samkvæmt lögum og reglum.

Gísli Freyr Valdórsson


Osama Hussein og Saddam Bin Laden - Annar hluti

Ég byrjaði á því að telja upp staðreyndir sem tengja stórn Saddams Hussein við al Qaeda síðastliðinn miðvikudag. Ég held hér áfram og byggi enn á bókinni Disinformation eftir Richard Miniter. Hver staðreyndin um sig sannar svo sem ekki endilega mikið, en þegar þeim er safnað saman, er óumdeilanlegt að tengsl al Qaeda og Íraka undir stjórn Saddams Husseins eru miklu meiri en “vel upplýstir” Evrópubúar þykjast vita. Því var einmitt nýlega haldið fram í Speglinum að alls engin tengsl hefðu verið milli þessara aðila. Því var svo bætt við að bandarískur almenningur hafi samt sem áður talið svo vera, og líklega væri um að kenna blekkingum bandarískra stjórnvalda... Speglinum skjátlast. Áfram með smjörið:

- Haustið 1998 lofuðu írösk stjórnvöld að aðstoða al Qaeda við þróun vopna. Íraski herforinginn Farouk al hijazi sagði í Mai 2003, að bin Laden hefði tekið Íraka á orðinu, og hefði beðið Íraka um sprengjur framleiddar í Kína (Kínverjar voru alltaf mjög duglegir við að selja Saddam Hussein vopn), og einnig beðið um frekari aðstöðu til æfinga.

- Abdul Rahman Yasin, al Qaeda maður sem gangsetti sprengjuna í árásinni á Tvíburaturnanna árið 1993, flúði til Írak. Í Tigrit, heimabæ Saddams Hussein, fundust gögn sem sanna að hann fékk bæði hús og mánaðarleg laun frá írösku stjórninni, eins og menn grunuð á tímum Clintons.

- ABC fréttastöðin flutti frétt um þetta árið 1994.

- Árásirnar 11. september voru að miklu leyti skipulagðar í Þýskalandi. Sex mánuðum áður en þær voru framkvæmdar handtók Þýska lögreglan starfsmenn írösku leyniþjónustunnar, sem grunaðir voru um njósnir. Arabískt blað, gefið út í París (al-Watan al-Arabi) flutti fréttir af þessu, og sögðu hantökuna tengjast áformum Íraka um að ráðast að bandaríska hagsmuni um víða veröld, í samstarfi við herskáa íslamska bókstafstrúarhópa, og var al Qaeda og bin Laden sérstaklega getið.

- Abbas al-Janabi sem lengi var sérstakur aðstoðarmaður Uday, sonar Saddams Hussein, flúði til Vesturlanda árið 1998, og sagði fréttamönnum aftur og aftur að bein og sterk tengsl væru milli Íraka og al Qaeda.

- Margir þeir sem segja að Írakar og al Qaeda menn hafi alls ekki tengst neinum böndum vitna í Zubaydah, mikilvægan al Qaeda mann, sem sagði það ólíklegt að bin Laden myndaði formlegt bandalag með Íraköum, því að það gæti haft í för með sér framsal á sjálfstæði al Qaeda. En þessi sami maður, Zubaydah, sagði einnig að æðstu menn al Qaeda, svo sem eins og Abu Musab al-Zarqawi, hefðu góð tengsl og gott samband við leyniþjónustu Íraka.

- Eftir að Talibanar höfðu verið hraktir frá völdum í Afganistan, hópuðust al Qaeda menn þaðan til Bagdad, og mynduðu þar starfstöð.

- Skjöl sem fundust í Írak sýna að al Qaeda foringinn Abu Musab al-Zarqawi lagðist inn á sjúkrahús Uday (sonar Saddams) eftir að hafa særst í bardögum við Bandaríkjamen í Afganistan.

- Eftir aðgerð dvaldist al-Zarqawi í þjálfunarbúðum í norður-Írak. Í oktober 2002, uþb ári áður en Bandamenn gerðu innrásina í Írak, var Lawerence Foley, bandarískur embættismaður, drepinn í Amman í Jórdaníu. Morðinginn sagðist hafa fengið fyrirskipanir og stuðning frá hóði al-Zarqawi í Írak.

- Írakar neituðu tvisvar að framselja al-Zarqawi.

- Bin Laden sendi Abu Abdullah al-Iraqi nokkrum sinnum til Írak á árunum 1997-2000 til að ná í eitraðar gastegundir. Samkvæmt Abu Abdullah al-Iraqi sjálfum, var samvinna hans við Íraka “árangursrík.”

- Í mai 2000 handóku Kúrdneskir andstæðingar Saddams Hussein, Mohamed Mansour Shahab, sem ráðinn hafði verið af Íraksstjórn til að flytja vopn til bin Laden í Afganistan.

- Hisham al-Hussein, sendiherra íraka í Filipseyjum var vísað úr landi fimm vikum áður en innrásin í Írak hófst, fyrir þær sakir að hafa rætt ítrekað í gsm síma við leiðtoga hryðjuverkahópa í samstarfi við al Qaeda, m.a. við leiðtoga Abu Sayyaf skömmu áður og eftir að samtökin höfðu spregnt naglasprengju í borginni Zamboanga sem varð 23 að bana.

Þetta er ágætt í bili... Ef skðaður er fyrstai og annan hluta þessa greinaflokks er hægt að sjá að samkvæmt býsna mörgum ólíkum heimildum áttu al Qaeda menn og Írakar í samstarfi, hvað svo sem spegillinn tautar og raular. Þriðji hluti verður birtur við fyrsta tækifæri.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 19. desember 2005

Forystuekla Samfylkingarinnar virðist engan endi ætla að taka. Á sínum tíma var mikið rætt um það innan flokksins að annað hvort þyrfti að fá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem þá var enn borgarstjóri Reykjavíkur, eða Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi sendiherra, til að taka við forystu hans. Svo fór að lokum, eins og kunnugt er, að Ingibjörg var kosin formaður flokksins sl. vor og síðan hefur fylgi flokksins bókstaflega hrunið ef marka má skoðanakannanir.

Fyrir vikið hafa þær raddir nú færst í aukana sem vilja að Jón Baldvin komi að forystu Samfylkingarinnar með einum eða öðrum hætti. M.ö.o. reyndist það ekki nóg að Ingibjörg Sólrún tæki við forystu flokksins eins og ófáir töldu. Hún hefur a.m.k. enn sem komið er ekki reynst sá sterki foringi sem stuðningsmenn hennar vildu meina að hún yrði. Raunar þvert á móti ef eitthvað er sem aftur hlýtur að valda því annars ágæta fólki talsverðu hugarangri.

Að öðru leyti er ekki hægt að túlka vangavelturnar um komu Jóns Baldvins að forystu Samfylkingarinnar öðruvísi en ákveðinn áfellisdóm yfir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún hafi einfaldlega ekki staðið undir þeim væntaningum sem gerðar voru til hennar. Að öðrum kosti væri auðvitað engin þörf á því að velta fyrir sér komu Jóns Baldvins að forystumálum flokksins.

---

Birti að öðru leyti hér grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu þann 14. desember sl. sem svar við gagnrýni á grein sem ég hafði áður skrifað í blaðið um fylgishrun Samfylkingarinnar.

Samfylkingarmenn í sárum

Hjálmtýr Heiðdal, kvikmyndagerðarmaður, ritaði grein í Morgunblaðið á dögunum og kvartaði sáran yfir því að ég og einhverjir fleiri hefðum að undanförnu tjáð okkur í blaðinu um fylgishrun Samfylkingarinnar sem átt hefur sér stað allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður flokksins sl. vor. Orðrétt segir hann um mína aðkomu að því máli: „Ungur maður að nafni Hjörtur J. Guðmundsson (einn af ritstjórum vefritsins íhald.is) gerir mikla atlögu sem eingöngu byggist á niðurstöðum skoðanakannana (Mbl. 6. des.). Allur málatilbúnaður hans hrynur ef næsta skoðanakönnun sýnir vaxandi gengi Samfylkingarinnar - Hjörtur er ekki málefnalegri en svo.“

Það er nefnilega það. Fyrst ber nú að geta þess að ég sagði aldrei neitt um það í greininni minni hvað framtíðin kynni að bera í skauti sínu í þessum efnum þó Hjálmtýr geri að því skóna, enda er ég eðli málsins samkvæmt ekki frekar en aðrir í aðstöðu til að segja neitt til um það. Eins og þeir vita sem lásu greinina var ég einungis að tala um það hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefði þróast frá því Ingibjörg var kjörin formaður flokksins sem er ekki beint eitthvað til að hrópa húrra fyrir! Það er annars furðulegt að á sama tíma og Hjálmtýr sakar mig um að vera ómálefnalegur skuli hann gera mér upp skoðanir með þessum hætti.

Í annan stað er merkilegt að Hjálmtýr (sem ég býst við að sé Samfylkingarmaður) reyni að gera lítið úr því að ég skuli hafa byggt mál mitt „eingöngu“ á skoðanakönnunum. Samfylkingin er nú fræg fyrir það að hafa í gegnum tíðina byggt heilu stefnurnar á að því er virðist litlu öðru en skoðanakönnunum. Yfirleitt hefur ekki þurft mikið meira en eina slíka könnun til þess. Sennilega er nóg að nefna Evrópumálin í því sambandi. Greinin mín var hins vegar byggð á heilum átta skoðanakönnunum, sex frá Gallup og tveimur frá Fréttablaðinu, sem allar bar að sama brunni. Fylgi Samfylkingarinnar hefur bókstaflega hrunið sl. sex mánuði!

Ég geri annars ráð fyrir því að næst þegar Samfylkingin vekur máls á einhverju á grundvelli skoðanakannana, ég tala nú ekki um ef aðeins verður um að ræða eina slíka, að þá muni Hjálmtýr skrifa grein í Morgunblaðið og kvarta yfir því hversu ómálefnaleg forysta flokksins er. Svona ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur. Greinin mín fjallaði um það hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefði þróast sl. sex mánuði og eðlilega byggði ég því mál mitt á skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í því sambandi. Ef Hjálmtýr veit um einhverja betri aðferð til að mæla fylgi stjórnmálaflokka á milli kosninga en slíkar kannanir þá gæti ég trúað að forsvarsmenn Gallup og hliðstæðra aðila yrðu áhugasamir að heyra meira um þá uppgötvun.

En að öllu gamni slepptu þá er staðreyndin einfaldlega sú að þetta er ekkert annað en væl í Hjálmtý með fullri virðingu fyrir honum og hans skoðunum. Það er hins vegar meira en skiljanlegt að stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar séu í einhverri tilvistarkreppu þessa dagana. Ekki lái ég þeim það. Hjálmtýr kvartar sáran yfir því m.a. að skuldinni af minnkandi fylgi Samfylkingarinnar sé skellt á Ingibjörgu. Er hún ekki formaður flokksins? Var ekki Össuri alltaf kennt um allt sem aflaga fór í þessum efnum þegar hann var formaður? Og ef þessa þróun má ekki rekja að miklu leyti til Ingibjargar, hvers þá?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Ályktun Veritas um viðskipti með landbúnaðarvörur

Veritas lýsir yfir ánægju sinni með þá yfirlýsingu Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong að Ísland sé tilbúið að draga verulega úr framleiðslutengdum stuðningi við innlendan landbúnað og lækka tolla að því tilskyldu að önnur ríki geri slíkt hið sama. Veritas vill þó hvetja íslensk stjórnvöld eindregið til að ganga skrefi lengra og setja öðrum ríkjum heimsins gott fordæmi með því að hefja sem allra fyrst vinnu við að draga úr þeim viðskiptahöftum sem við líði eru á Íslandi þegar kemur að verslun með landbúnaðarvörur óháð því hvað önnur ríki kunna að gera.

Veritas
www.veritas-iceland.com


Ráðuneytisstjórar fari og komi með ráðherrum

Það er ráð að skoða sífellt helstu hlutverk stjórnmálamanna og annara embættismanna er snýr að deglegri stjórn hins opinbera. Allt frá árinu 1991 hefur verið unnið staðfastlega að því að bæta rekstur ríkisins og gera hann skilvirkari. Það hefur tekist vel þó að enn sé langt í land. En miðstýringu stjórnmálamanna af daglegu lífi borgarans hefur verið aflétt að miklum hluta. Mörg stór ríkisfyrirtæki hafa verið seld, má þar helst nefna ríkisbankana tvo og nú nýlega Landssímann. Þar með hefur ríkið dregið verulega úr áhrifum sínum á fjármálamarkaði og hætt afskiptum af rekstri á fjarskiptamarkaði.

Flest verkefni á vegum ríkisins eru boðin út og þar er farið eftir fyrirfram ákveðnum lögum sem fylgst er með að farið sé eftir. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn ákveði sjálfir hverjir fái hvaða verkefni og svo frv.

En þó er eitt sem ég vil einnig sjá. Í dag er málum þannig háttað að ráðuneytisstjórar eru ráðnir til fimm ára í senn en það eru ráðherrarnir sjálfir sem þá skipa. Þannig getur ráðherra og ráðuneytisstjóri komið frá sitthvorum væng stjórnmálanna. Samkvæmt öllum lögum og reglum á þetta ekki að skipta máli þar sem ráðuneytisstjóranum ber að fara eftir skipunum ráðherrans enda er hann í vinnu fyrir hann. Honum ber að vinna af óhlutdrægni og hlutleysi. Hins vegar kennir raunveruleikinn okkur að þannig eru hlutirnir ekki alltaf. Ég tel að meiri árangur geti náðst í stefnumörkun hins opinbera ef að ráðuneytisstjórarnir fylgja ráðherrunum inn og út úr ráðuneytunum. Eini starfsmaðurinn sem það gerir í dag er aðstoðmaður ráðherra en hann sér um persónulega þjónustu við ráðherrann á meðan ráðuneytisstjórinn sér um daglegan rekstur ráðuneytisins og að koma stefnumálum ráðherrans og ríkisstjórnarinnar á framfæri. Þegar skipt er um forseta í Bandaríkjunum er jafnframt skipt um meirihluta starfsmanna í Hvíta Húsinu. Það sama gildir um önnur ráðuneyti þar í landi. Þannig getur forsetinn og aðrir ráðherrar komið málum sínum í gegn með aðstoð og ráðgjöf starfsfólks síns. Starfsmannastjóri Hvíta Hússins (sem er nokkurs konar ráðuneytisstjóri) sér um dagleg málefni ráðuneytissins fyrir hönd forsetans. Á Íslandi gætu ráðherrar auðveldað störf sín til muna með því að fá að ráða sjálfir ráðuneytisstjóra á meðan þeir gegna embætti.

Næstu verkefni
Næstu verkefni núverandi ríkisstjórnar er væntanlega að halda áfram einkavæðingu ríkissfyrirtækja og halda ríkisrekstrinum í góðu horfi. Varðandi starfsmannamál hins opinbera er mikilvægt að halda uppi gæða og árangursstjórnun. Opinberir starfsmenn þurfa að hafa sama vinnurétt og aðrir, hvorki meiri né minni. Það á að vera hægt að segja upp opinberum starfsmanni sannist að hann sé ekki að standa sig í starfi og/eða fari ekki eftir tilmælum yfirmanna sinna. Ráðherrar þurfa að hafa leyfi til að rifta ráðningasamningum forstöðumanna ríkisstofnana ef þeir eru ekki að standa sig. Það er ekki heilbrigt og ekki í takt við nýskipun í ríkisrekstri að forstöðumenn geti skilað stofnun sinni í halla ár eftir ár og samt haldið stöðu sinni. Það fengi enginn skipstjóri að sigla sama bátnum mörg ár ef hann veiðir ekki. Sama gildir um forstjóra og deildarstjóra almennra fyrirtækja í einkaeigu. Ef þeir standa sig ekki í starfi er skipt um ,,karlinn í brúnni.” Hið opinbera ætti ekki að vera undanskilið þessu.

Þá vakna væntanlega upp spurningar hvort að stjórnmálamenn geti beitt fólskubrögðum við að segja upp pólitískjum andstæðingum sínum. Svarið við því er einfalt. Ekki ef skipuritið er nógu skýrt og stjórnmálamenn fá ekki að ráða í störfin. Ráðherrann ætti ekki að geta rekið eða ráðið kerfisstjórann í ráðuneytinu. Það er væntanlega einhver deildarstjóri sem sér um það en ekki stjórnmálmaður. Að sama skapi hef ég áður tekið fram að það þarf að sýna fram á ástæðu ef segja á fólki upp.

Þá er það stóra spurningin. Eru embættismenn, já eða stjórnmálamenn, lýðræðinu hættulegir. Ég tel svo ekki vera. Svo lengi sem kerfið er opið og menn fara eftir stjórnsýslu og upplýsingalögum [1] munu embættismenn og stjórnmálamenn vega upp á móti hvor öðrum samfélaginu til góðs. Það gilda skýr lög um starfssemi embættismanna og eftir þeim ber að fara. Kosturinn við lýðræðið er jú auðvitað sá að við getum ,,losnað við ríkisstjórnina án þess að þurfa að skjóta hana.” [2]

Gísli Freyr Valdórsson

Grein þessi er unnin upp úr ritgerð sem fjallar um hvort að stjórnmálamenn og embættismenn séu hættulegir lýðræðinu. Ritgerðin mun birtast í heild sinni á www.veritas-iceland.com.


[1] Bæði stjórnsýslulögin og upplýsingalögin voru sett á í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Markmið þeirra var að gera kerfið gegnsærra og opnara.

[2] Hannes H. Gissurarson, Hvar á maðurinn heima? bls. 135


Osama Hussein og Saddam Bin Laden - Fyrsti hluti

Hér verður fjallað um tengsl stjórnar Saddams Hussein við al Qaeda. Af mjög miklu er að taka og verður því málinu gert skil í nokkrum hlutum. Efnið er unnið upp úr bókinni Disinformation eftir Richard Miniter. Margt áhugavert er að finna í henni.

- Myndir sem leiniþjónusta Malasíu tók í janúar 2000, sýna að Ahmed Hikmat Shakir, starfsmaður írösku leinþjónustunnar, var á fundum með al Qaeda liðum.

- Samkvæmt gögnum frá írösku leyniþjónustunni hitti Bin Laden fulltrúa írösku leiniþjónustunnar á fundi í Sýrlandi árið 1992.

- Samkvæmt leiniþjónustu Súdana áttu fulltrúar írösku leiniþjónustunnar fundi með bin Laden árið 1994 í Khartoum.

- Michael Scheuer, mikill og hávær andstæðingur Bush stjórnarinnar og fyrrum yfirmaður þeirrar CIA deildar sem fylgdist með bin Laden, skrifar í bók gefinni út árið 2002 að bin Laden og Írakar hafi náð tengslum í gegnum starfstöð al Qaeda í Khartoum.

- Samkvæmt grein í Weekly Standard, kom bin Laden sér í samband við stjórnvöld í Írak til að verða sér útum efna og sýkla vopn, sem hann ætlaði að nota gegn óvinum íslam á 10 áratugnum.

- Ítalska blaðið Corriere della Sera fjallaði um yfirmann írösku leiniþjónustunnar, Faruq al-Hijazi, sem var falið að hlúa að sambandi Íraka við al-Qaeda á seinni hluta tíunda áratugsins, og greindi frá ýmsum fundum á milli þessara aðila.

- Árið 1999 sagði hið vinstrisinnaða breska blað, Guardian, frá því að Faruq al-Hijazi, yfirmaður írösku leyniþjónustunnar, hefði farið til Khandahar í Afganistan til að ráðgast við al Qaeda, og til að bjóða bin Laden hæli í Írak.

- Árið 2000 lýsti stjórn Sádí-arabíu yfir hættuástandi um allt land, sökum þess að al Qaeda og Írak höfðu komist að samkomulagi um að gera sameiginlegar árásir á breska og bandaríska “hagsmuni” á Arabískaganum.

- Samkvæmt gögnum sem fundust eftir innrásina í Írak sendi al Qaeda háttsettan fulltrúa til Bagdad árið 1998 til að funda í 16 daga með íröskum stjórnvöldum. Írakar borguðu fyrir dvöl hans á glæsihóteli (herbergi 414 í Mansur al-Melia), og vonuðu að fundirnir yrðu til þess fallnir styrkja enn frekar tengslin við al- Qaeda.

- Í október 2000 var fulltrúi írösku leiniþjónustunnar, Salah Suleiman, handtekinn við landamæri Afganistian af stjórnvöldum í Pakistan eftir fundi með Ayman al-Zawahiri, næst æðsta manni al Qaeda.

- Qassam Hussein Muhammed, fyrrum starfsmaður írsösku leiniþjónustunnar sagði frá því í viðtali árið 2002, að hann hafi verið einn af 17 lífvörðum al- Zawahiri, er hann heimsótti Bagdad árið 1992. Hann sagði al Zawzhiri hafa dvalið á al-Rhasid hótelinu, og að honum hefði oft verið fylgt að höllum Saddams Hussein til funda. Svipaða sögðu sagði Abu Aman Amaleeki.

- Allawi sagði frá því í ítarlegu viðtali við dagblaðið Al-Hayat að al- Zawahiri hefði einnig dvalið í Írak í september árið 1999.

- Saddan Hussein bauð al-Zawahiri að vera viðstaddur ráðstefnuna “Popular Islamic Conference”

- Spænski músliminn Yusuf Galán (Luis Galán Gonzales) var ákærður af spænskum dómstólum fyrir sinn þátt í undirbúningi árásanna á Tvíburaturnanna. Við húsleit hjá honum fundust ýmis gögn sem tengdu hann við al Qaeda, svo og boð um að koma í veislu í íraska sendiráðinu í Madrid.

- Í stjórnstöð írösku leyniþjónustunnar fundust gögn um fjárhagsstuðning Bagdad stjórnarinnar við hryðjuverka hóp í Úganda sem tengist al Qaeda. Samkvæmt Daily Telegraph vildi þessi hópur stofna æfingastöð í Írak þar sem að undirbúa ætti menn fyrir heilagt stríð (jihad). Æfingastöðin átti að vera “International holy warrior network”.

- Dagblaðið Al Hayat sagði frá því þann 23 Maí 2005 að samkvæmt al Qaeda liðum í haldi, hefði að Saddam Hussein verið reiðubúinn til að hjálpa al Qaeda eftir árásir þeirra á Bandarísk sendiráð í Keníu og Tansaníu, svo og að Saddam Hussein hefði lýst yfir hrifningu sinni með USS Cole árásirnar í Jemen í október árið 2000.

- Hryðjuverkahópurinn Ansar al-Islam, tengdist bæði íraksstjórn og al-Qaeda. Foringi hópsins (Mullah Melan Krekar) sagði við Kúrdískt dagblað að hann hefði fundað reglulega með bin Laden og al Qaeda mönnum síðan árið 1988. Mullah Melan Krekar sagði að þegar að hann hefði skipulagt sjálfsmorðsárásir á Bandaríkjamenn árið 2001, hefði hann fengið styrk uppá 300.000 dollara frá al Qaeda. Krekar þessi er nú í varðhaldi í Hollandi. Hópur hans (Ansaar al-Islam) var og er hliðhollur Saddam Hussein, og starfar að mestu leyti í norður Írak, og gerir árásir á kúrdneska andstæðinga Saddams Hussein. Talsmenn Kúrda segja að starf Ansar al-Islam hafi verið fjármagnað af Bagdad stjórninni.

- Franska blaðið Le Monde sagði frá því í júlí á þessu ári, að Asnar al-Islam hafi verið stofnað með hjálp Saddams Husseins annars vegar, og al Qaeda hins vegar, til að berja á ,,vestrænum” Kúrdum og finna nýliða fyrir al Qaeda.

- Tvö hleruð símtöl frá árinu 2002 tengja bæði Saddam stjórnina og al Qaeda við Asnar al-Islam. Þau sanna fjárstuðning Íraksstjórnar við samtökin. Einnig kom fram að Saddam stjórnin og al Qaeda hefðu náð samkomulagi um hæli og skjól í norður Írak fyrir al Qaeda menn á flótta frá Afganistan.

- Meðlimur Asnar al-Islam, Rebwar Mohammed Abdul, sagði LA Times frá því að hann hefði séð fulltrúa Saddams Hussein með Krekar.

- Fangar úr röðum Asnar al-Islam í haldi Kúrda hafa staðfest tengsl við bæði Saddam stjórnina og al Qaeda.

- Írakinn Abu Mohammed sem flúði til Tyrklands, sagði Sunday Times að hann hefði séð menn bin Ladens í æfingabúðum í Írak árið 1997. Mohammed var á þeim dögum meðlimur í sérsveit Saddams Hussein, ,,Fedayeen”. Hann sagði m.a. frá því sem hann sá í Salam Park búðunum, suð vestur af Bagdad., sem reknar voru af írösku leyniþjónustunni. Þar sá hann menn æfa flugrán með alvöru Boeing 707 vélum. ,,Jamil Kamil herforingi og búðastjóri tók á móti okkur ásamt herforingjanum Ali Hawas. Ég sá þar hóp manna standa í röð til að fá að borða. Hawas sagði, ekkert vera að spá í þeim, þeir eru menn bin Laden. Þeir koma þér ekkert við.”

- Ravi Nessam, fréttamaður Associated Press segist hafa séð risastórar farþegaþotur í æfingabúðum Salam Park, og að þar hafi augljóslega verið hryðjuverka æfingar.

- Sabah Khodada fyrrum herforingi í íraksa hernum sagði í október 2001 í viðtali við PBS sjónvarpstöðin að Salam Park búðirnar væru sérhæfðar til að búa til hryðjuverkamenn og flytja þá út um allan heim. ,,Við æfðum flugrán og lestarrán, rændum strætis vögnum, hvernig undirbúa ætti sjálfsmorðsárásir, hvar best væri að koma fyrir sprengjum. Við æfðum okkur í að ræna flugvélum með einföldum hnífapörum...”

Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt talað um það að sauðvitlaus almenningur í Bandaríkjunum hafi talið vera tengsl milli Saddams Hussein og al-Qaeda. Sem betur fer vita Evrópu búar, skynsamir og vel upplýstir eins og þeir nú eru, að engin tengsl voru milli Saddam Hussein og al Qaeda. Er það?

Framhald á miðvikudaginn....

Sindri Guðjónsson


Ritstjórnarviðhorf - Margur telur mig sig

,,Flugufóturinn” útskýrir af sinni alkunnu gamansemi og gríni, að við á íhald.is/Veritas séum rasistar. Hér eru dæmi:

,,Helstu áhugamál hugdettunnar eru þannig: hreinleiki … kynstofna”

Meðal helstu skýrslna á vegum hugdettunnar má nefna:

3. ,,Þekktu frændur þína! - Úttekt á frændsemi Evrópuþjóða." Margir kalla þjóðir frændþjóðir sem ekki eru eru það (t.d. Finnar). Þetta er mikið vandamál.

Þá er fyrirhugað að hugdettan standi fyrir sérstakri fyrirlestraröð um norrænan kynstofn og hættur sem fylgja því að börn læri tungumál, önnur en germönsk.

Það er alveg einstakt að vera grunaður um kynþáttahyggju. Einn albesti vinur minn heitir Kusse Soka. Hann er frá Eþíópíu. Við hlupum saman, borðuðum saman, rúntuðum saman, horfðum saman á bíómyndir. Þegar ég var hvað mest með Kusse, var ég reglulega gestkomandi á heimilum Afríkumanna hérlendis. Mér fannst það mjög skemmtilegt og ánægjulegt, og var mér afar vel tekið... svona af ,,nasista” að vera (þ.e.a.s. ef marka má flugufótinn, þá er ég hálfgerður nasisti). Síðan átti ég mjög góðan vin frá Ghana, sem er nú aftur fluttur heim til sín. Ég er einhvers staðar með spólur sem hann lánaði mér sem ég gleymdi að skila honum... hvar voru þær nú aftur? Annar góður félagi minn heitir Jeannot. Hann er frá Madagascar. Við brölluðum ýmislegt. Nikolai, samnemandi minn og vinur í Háskólanum á Akureyri er frá Ghana. Hann hefur beðið mig að kenna sér á gítar. Ég hef aldrei séð neinn af öllum þessum stóra hópi af pólitískt rétthugsandi fólki úr röðum samnemenda minna ræða við hann. Við Nikolai hittumst um helgar.

Vonandi eignast Kusse fljótlega son. Það yrði skemmtilegt ef dóttir mín giftist honum, ef strákurinn yrði eitthvað líkur pabba sínum.

Þeir sem þykjast hafa innsýn inn í hugsunarhátt fólks sem það þekkir ekki neitt ættu að hugsa sinn gang.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 12. desember 2005

Dönsk stjórnvöld hafa í hyggju að draga verulega úr straumi innflytjenda til Danmerkur frá þróunarríkjum á næsta ári til viðbótar við það sem þegar hefur verið gert á undanfönum árum. Ástæða þessarar ákvörðunar eru ekki sízt skuggalegar upplýsingar úr svokallaðri velferðarskýrslu sem unnin hefur verið fyrir stjórnvöld og var gerð opinber sl. miðvikudag. Að sögn Claus Hjort Frederiksen, ráðherra atvinnumála í dönsku ríkisstjórninni, verður innflytendum frá þróunarríkjum á borð við Sómalíu, Íran, Írak og Líbanon fækkað verulega enda væri ljóst að þeir væru mikil fjárhagsleg byrði á dönsku samfélagi (hliðstæð rannsókn var gerð í Noregi í september). Frederiksen sagði að það yrði skilyrði fyrir því að fá að setjast að í Danmörku að fólk hefði þar vinnu.

"Við neyðumst einfaldlega til að taka upp nýja stefnu í innflytjendamálum. Útreikningar velferðarnefndarinnar eru skelfilegir og sýna meðal annars hve aðlögun innflytjenda hefur algerlega brugðist," sagði Frederiksen. Nefndin reiknaði m.a. út hvað það myndi þýða ef tekið yrði alveg fyrir straum innflytjenda frá vanþróuðum ríkjum til Danmerkur. Niðurstaðan var sú að þörfin fyrir sparnað í velferðarkerfinu á næstu áratugum myndi dragast saman um heil 75%.

Fyrir mánuði síðan lagði danska ríkisstjórnin til að það skilyrði yrði sett fyrir veitingu dansks ríkisborgararéttar að umsækjendurnir hefðu unnið í Danmörku í fjögur af síðustu fimm árum fyrir umsóknina. Þetta var ein a nokkrum tillögum stjórnarinnar um að þrengja lög um veitingu ríkisborgararéttar. Þessar kröfur eru hugsaðar til viðbótar við þær kröfur sem fyrir eru, m.a. að umsækjendur þreyti próf í danskri sögu og menningu auk prófs í dönsku. Ástæða þessara tillaga eru áhyggjur danskra stjórnvalda af því að nýjir ríkisborgarar kynnu að leggja minna til dansks samfélags en þeir fengju í gegnum félagslega aðstoð. Ekki verður annað séð en að nýja velferðarskýrslan renni stoðum undir þær áhyggjur.

Frá því að hægristjórn Anders Fogh Rasmussens tók við völdum í Danmörku í lok árs 2001 hafa Danir ekki tekið við eins mörgum flóttamönnum og innflytjendum en áður var. Þannig fór árlegur fjöldi útgefinna dvalarleyfa úr 5.156 árið 2000 í 2.447 árið 2003 samkvæmt tölum frá dönsku hagstofunni. Á sama tíma fór veiting dvalarleyfa á grundvelli fjölskyldusameiningar úr 10.021 niður í 4.791.

Með stuðningi Danska þjóðarflokksins hefur ríkisstjórnin Rasmussens komið á ströngum reglum um veitingu dvalarleyfa, dregið verulega út veitingu félagslegra bóta til innflytjenda og beitt sér fyrir því að tryggja að hælisleitendur sem neitað er um hæli í Danmörku yfirgefi landið, m.a. með því að svipta þá bótagreiðslum og sjá þeim eingöngu fyrir lágmarksframfærslu.

Rikke Hvilshøj, ráðherra innflytjendamála í dönsku ríkisstjórninni, sagði fyrir nokkrum dögum síðan að það væri ekki nokkur vafi í hennar huga að aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum, til að draga úr straumi innflytjenda til Danmerkur, hefðu skilað sér vel. „Eitt af því sem við höfum orðið að viðurkenna er að það skiptir máli hversu margir koma til landsins,“ sagði hún. „Það er gagnstæð fylgni á milli þess hversu margir koma hingað og hversu vel við getum tekið á móti þeim sem koma hingað.“

Hvilshøj sagði ennfremur að atvinnuleysi og léleg menntun væru mestu vandamálin sem innflytjendur í Danmörku stæðu frammi fyrir. Aðeins 46% innflytjenda frá þróunarlöndum væru vinnandi samanborið við 73% Dana. 60% ungra innflytjenda flosnuðu upp úr framhaldsskólum. Hvilshøj bætti við að yfirstandandi efnahagsuppsveifla í Danmörku og lítið atvinnuleysi væru réttu aðstæðurnar fyrir innflytjendur til að verða sér úti um atvinnu.

Hvilshøj sagði að aðlögun innflytjenda snerist ekki sízt um það að sannfæra þá um að taka dönskum gildum opnum örmum. Í sumum tilfellum sagði hún að innflytjendur yrðu að losa sig við menningarlegar og pólitískar hugmyndir frá heimalöndum sínum. „Að mínu mati ætti Danmörk að vera land þar sem væri svigrúm fyrir mismunandi menningar og trúarbrögð,“ sagði hún. „En sum gildi eru okkur engu að síður mikilvægari en önnur. Við neitum t.a.m. að draga lýðræðið í efa, jafnréttið og tjáningarfrelsið.“

Aðspurð hvað henni fyndist um umræðuna sem verið hefur undanfarna mánuði í Danmörku um frelsi fjölmiðla, eftir að danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti tólf teikningar af Múhameð, sagði Hvilshøj: „Fyrir mína parta þá reyni ég að passa það hvernig ég orða hlutina. Það hafa ýmis ummæli verið látin falla í þessari umræðu sem ég kann ekki við. Ég tel þó ekki að afstaða Dana hafi verið að snúast í auknum mæli gegn innflytjendum. Þvert á móti. Samanborið við önnur Evrópulönd höfum við mikla reynslu af þessum málum. Því getur fylgt sársauki að tala um suma hluti, en að þegja um þá leysir engin vandamál.“

(Birtist áður á ensku á vefritinu The Brussels Journal og á vefsíðu dönsku frjálshyggjuhugveitunnar The Copenhagen Institute.)

---

Því má bæta við að mér þótti ánægjulegt að sjá að hollenzka þingkonan Ayaan Hirsi Ali skyldi birta hluta af síðasta Mánudagspóstinum mínum á heimasíðunni sinni í síðustu viku. Hún birti þó eðli málsins samkvæmt ekki hluta af íslenzku útgáfunni af greininni heldur þeirri ensku sem birtist á The Brussels Journal. Eins og kunnugt er er Ayaan Hirsi Ali af sómölskum uppruna og hefur verið mjög gagnrýnin á íslam um árabil, ekki sízt vegna eigin reynslu.

Fyrir rúmu ári síðan neyddist hún til að fara í felur vegna morðhótana sem hún fékk vegna handrits sem hún skrifaði fyrir kvikmynd um kúgun kvenna í heimi íslam. Í byrjun þessa árs kom Hirsi Ali úr felum aftur en hefur síðan verið undir strangri öryggisgæzlu og það ekki að ástæðulausu. Nýverið fékk hún enn slíkar hótanir ásamt öðrum hollenzkum þingmanni sem gagnrýnt hefur íslamska bókstafstrú, Geert Wilders.

Kvikmyndagerðamaðurinn, Theo van Gogh, var myrtur á hrottalegan hátt af ungum múslima fyrir rúmu ári síðan á götu í Amsterdam um hábjartan dag fyrir þá “sök” að hafa gert kvikmyndina.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Sápukúlan Ingibjörg Sólrún

„Hvað er að gerast hjá Samfylkingunni?“ spurði vinkona mín mig á dögunum, en hún er stödd erlendis í námi. Átti hún þar við fréttir fjölmiðla um nýja skoðanakönnun Gallup á fylgi íslenzku stjórnmálaflokkanna, en Samfylkingin hefur bókstaflega verið í frjálsu falli í þeim efnum allt síðan í maí á þessu ári. Ég svaraði því til að flokkurinn hefði skipt um formann. Það væri ekki að sjá að neitt annað gæti útskýrt þessa þróun betur, enda hófst hún um leið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við sem formaður hans af Össuri Skarphéðinssyni. Ingibjörg væri auk þess búin að misstíga sig í fjölda mála síðan hún settist í formannsstólinn og verða ítrekað að athlægi af þeim sökum.

Eins og menn annars muna pantaði Ingibjörg formannsstólinn í Samfylkingunni árið 2003 og fór síðan í nám til London. Á þeim tveimur árum sem liðu frá því og þar til hún varð loks kosin formaður má gera fastlega ráð fyrir að ófáir stuðningsmenn hennar bæði innan flokksins og utan hans hafi byggt upp miklar vonir um það að hún myndi færa honum nýja og betri tíð þegar hún hefði tekið við sem formaður. Tvö ár eru mjög langur tími í pólitík og nógur tími til að byggja upp háar skýjaborgir sem lítil sem engin innistæða er síðan fyrir þegar á reynir.

Ófáir stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar höfðu á orði að þegar hún tæki við myndi það hafa í för með sér mikla fylgisaukningu fyrir Samfylkinguna. Að vísu átti það sama að gerast fyrir síðustu alþingiskosningar 2003, en þá var hún sem kunnugt er forsætisráðherraefni flokksins í stað Össurar sem þó var formaður hans. En útreið Samfylkingarinnar þá undir forystu Ingibjargar virtist ekki hafa mikil áhrif á stuðningsmenn hennar sem hafa sjálfsagt kennt Össuri um allt saman. Hann var jú formaður flokksins þó ekki hafi borið mikið á honum í kosningabaráttunni. A.m.k. langt því frá eins mikið og Ingibjörgu sem sjá mátti á ótölulegum fjölda auglýsinga og veggspjalda svo minnti á persónudýrkun í fyrrum austantjaldsríkjum.

Svo rættist draumurinn loksins sl. vor fyrir stuðningsmenn Ingibjargar og hún varð formaður Samfylkingarinnar m.a. með dyggum stuðningi Fréttablaðsins. Síðan fór fylgið strax að reitast af flokknum. Fylgið var 34% í maí þegar landsfundur Samfylkingarinnar var haldinn og Ingibjörg kosin formaður. Í júní var það 33%, í júlí 32% og í ágúst var það svo komið niður í 30% eða minna en kjörfylgi flokksins úr síðustu kosningum sem var 31%. Viðbrögð forystumanna Samfylkingarinnar voru þau sömu í allt sumar. Það væri ekkert að marka fylgið yfir sumartímann á meðan mestallt pólitískt starf lægi niðri. Þetta myndi allt breytast þegar kæmi fram á haustið og þing kæmi saman.

Gott og vel. Haustið kom og hvað gerðist? Fylgi Samfylkingarinnar fór niður í 29% í september. Og ballið var þar með ekki búið. Í október mældist fylgi flokksins 28% og í síðustu könnun Gallup var það komið í 25% sem er minna en fylgi Samfylkingarinnar í kosningunum 1999 þegar hún fékk 27% atkvæða! Samt er þingið komið saman og hefur auk þess verið starfandi í fleiri vikur. Það þarf að fara aftur til ágústmánaðar árið 2002 til að finna jafn slæma útkomu hjá Samfylkingunni í könnunum Gallup og nú, en þá var fylgi flokksins 24%. Fylgið hefur nú hrunið af Samfylkingunni í sex mánuði í röð! Og þvílík tilviljun að þetta skuli einmitt byrjar þegar Ingibjörg Sólrún hefur tekið við sem formaður flokksins ef menn halda virkilega að sú sé raunin.

Nei, þetta er sko engin tilviljun. Og hver skyldu svo viðbrögðin úr herbúðum Samfylkingarinnar vera núna? Það er ekki hægt að kenna sumrinu um lengur. Reyndar er víst ekki mikið um viðbrögð að ræða við síðustu könnuninni nema það að Ingibjörg segir „unnið að innra starfi“ Samfylkingarinnar og „að þessar tölur muni breytast.“ Það er nefnilega það. Fróðlegt væri að vita hvað hefði klikkað svona hressilega í innra starfi flokksins sl. sex mánuði ef það er skýringin á þessum ósköpum. En hvað sem því líður þá má sennilega gera fastlega ráð fyrir því að skýjaborgir stuðningsmanna Ingibjargar séu nú orðnar að martröð.

(Birtist áður í Morgunblaðinu 6. desember 2005)

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband