Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2005

Mánudagspósturinn 1. ágúst 2005

Mótmæli flutningabílstjóra á föstudaginn (þó vitanlega ekki allra flutningabílstjóra) voru alveg svakalega sniðug. Þeir mótmæltu hækkun á olíugjaldi með því að eyða olíu, en mótmælin gengu út á það eins og kunnugt er að aka löturhægt um miklar umferðagötur í Reykjavík og þá einkum þær leiðir sem íbúar borgarinnar notuðu til að aka út úr bænum á leið á útihátíðir eða eitthvert annað sem þeir kusu að halda um verzlunarmannahelgina. Mótmælin voru því ekki bara þannig úr garði gerð að þau bitnuðu á almennum borgurum sem ekkert höfðu til sakar unnið heldur má gera ráð fyrir að þau hafi hafizt með því að mótmælendurnir fylltu á olíutanka flutningabifreiða sinna.

Ýmsar yfirlýsingar talsmanns mótmælendanna í fjölmiðlum voru síðan oftar en ekki vægast sagt stórundarlegar. Allt frá því að gera að því skóna að fjármálaráðherra hefði skipað fulltrúum mótmælendanna að koma til fundar við sig (síðar kom í ljós að mótmælendur höfðu sjálfir óskað eftir fundi með ráðherra en síðan afþakkað hann) yfir í að segja að það yrði bara að hafa það ef mótmælin leiddu til þess að slys yrðu á fólki eða einhvers þaðan af verra. Sagði talsmaðurinn í sjónvarpsfréttum að slys yrðu í umferðinni og ef fólk vildi forðast þau ætti það að halda sig í rúminu. Svona lagað nær auðvitað engri átt.

Það gildir einfaldlega það sama um þessi mótmæli eins og þau við Kárahnjúkavirkjun og önnur slík að það er í góðu lagi að fólk mótmæli svo lengi sem það er gert á friðsaman og lýðræðislegan hátt og án þess að saklaust fólk verði fyrir barðinu á þeim. Hvort sem um er að ræða fólk á leiðinni í sumarfrí eða fólk sem er að sinna vinnunni sinni. Annað er auðvitað ekkert annað en ofbeldi sem er ekki bara algerlega óásættanlegt heldur líka afskaplega ólíklegt til að vekja samúð almennings með umræddum aðgerðum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt í Fréttablaðinu 5. ágúst 2005)


Ótækar aðgerðir flutningabílstjóra

Sem kunnugt er hafa flutningabílstjórar boðað aðgerðir í dag til að mótmæla breytingum á skattlagningu díselolíu sem varð um síðastliðin mánaðamót sem fól í sér verulega hækkun vörugjalds á díselolíu ásamt afnámi þungaskatts. Bílstjórarnir hafa hótað því að loka helstu samgönguæðum til og frá borginni til að undirstrika óánægju sína með umrædda skattlagningu. Svo virðist sem þeir ætli að virða að vettugi aðvaranir lögreglu og ábendingar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og fleiri aðila um þá augljósu hættu sem aðgerðirnar geta skapað. Þegar þetta er ritað hafa flutningabílstjórar hafið aðgerðir sínar og aka í löngum lestum um götur borgarinnar. Ekki hafa þeir þó enn gert alvöru úr þeim hótunum sínum að loka umferðaræðum þó aðgerðirnar hafi þegar valdið nokkrum töfum á umferð.

Það er einkennilegt að bílstjórarnir skuli kjósa að beina aðgerðum sínum gegn hagsmunum almennings með svo róttækum hætti sem raun ber vitni. Bílstjórarnir eiga í útistöðum við löggjafann og stjórnvöld vegna íþyngjandi ákvarðana þeirra en kjósa samt sem áður að grípa til aðgerða sem bitna harðast á almenningi sem ekkert hefur haft með áðurnefndar ákvarðanir að gera. Þeir velja háannatíma um mestu ferðahelgi ársins til aðgerða sinna og kjósa að tefja og trufla saklausa borgara sem eru á leið í fríið. Af málflutningi forsvarsmanns þeirra má ráða að þeir skeyti engu um þá hættu sem þeir skapa með aðgerðunum. Aðgerðirnar eru fráleitt til þess fallnar að vekja samúð almennings með málstað bílstjóranna – þvert á móti eru þær mjög til þess fallnar að afla þeim óvinsælda. Einnig má á það benda að margir hinna almennu borgara hafa sjálfir orðið fyrir barðinu á umræddum breytingum, þ.e. þeir sem reka olíuknúna bíla og aka mikið. Það er kaldhæðnislegt að aðgerðir bílstjóranna skuli í ofanálag bitna á því fólki.

Fulltrúar lögregluyfirvalda hafa lýst því yfir að aðgerðunum verði mætt af fullri hörku. Annað væri enda óeðlilegt enda ótækt að fámennur þrýstihópur komist upp með að lama að stórum hluta helstu samgönguæðar landsins – enda um brot bæði á hegningarlögum og umferðarlögum að ræða geri bílstjórarnir alvöru úr sínum ítrustu hótunum.

Bílstjórar sem aðrir verða að sæta því að þeir geta ekki komist upp með að kúga stjórnvöld til hlýðni við sig með ofstopa og yfirgangi. Málstaður þeirra hefur fram til þessa notið nokkurrar samúður hjá mér eins og m.a. má sjá af nýlegum skrifum mínum í pistli sem nýverið birtist á vef ungra sjálfstæðismanna. Sú samúð mín fer ört dvínandi eftir því sem aðgerðunum vindur fram.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


Óþjóðalýður við Kárahnjúka

Það mátti vera ljóst þegar tjaldbúðarhaldarar reyndu að höfða til þess óþjóðalýðs sem sett hefur mark sitt á samkomur eins og G8 fundinn í Skotlandi nýlega um að koma hingað til lands og taka þátt í mótmælunum við Kárahnjúka að þau yrðu allt annað en friðsæl. Og það kom á daginn, líkt og fréttir undanfarinna daga hafa leitt í ljós. Eitthvað verður það að teljast undarlegur skilningur á friðsælum mótmælaaðgerðum að beita ofbeldisaðgerðum eins og að klippa kynningarbæklinga, mála á skilti, bíla, hús og annar slíkur vandalismi, og reyna að stöðva framkvæmdir með valdi, líkt og að standa fyrir vinnandi mönnum, skera á bíldekk, stela lyklum úr bílum og jafnvel hlekkja sig við þá.

,, Mótmælin hafi verið friðsamleg og samskipti við verkamenn vinaleg þar til lögregla kom á svæðið. Hún hafi skipað mönnum á vinnuvélunum sem fólkið var hlekkjað við að setja vélarnar í gang.”

Úr yfirlýsingu mótmælenda:

Augljós hljóta að þykja öfugmælin í þessari yfirlýsingu, þar sem samskipti hvar annar aðilinn beitir aðferðum sem þessum eru sögð friðsæl og vinaleg. Flestir vörubílstjórar sem ég þekki til eru sjálfstæðir verktakar og hafa tekjur sínar af atvinnutækjum sínum og langtímafjárfestingum, bílunum, sem þessir ofbeldismenn ætla að stöðva með þessum aðferðum. Þannig eru þeir að reyna að svipta menn lifibrauði sínu, enda geta tafir þýtt mikinn fjárhagslegan skaða ef í óefni fer. Skiptir þar í raun ekki hvort um sé að ræða littla vörubílaeigandann sem tekið hefur að sér verkefni við fluttning jarðefna, eða stóri verktakinn sem fengið hefur sér marga undirverktaka, á því er einungis stigsmunur, en ekki eðlismunur.

En þar er kominn lykillinn að eðli slíkra hópa atvinnumótmælenda sem leggja að jöfnu baráttu fyrir verndun náttúrunnar og baráttu gegn kapítalisma. Og þá er það jafnframt skiljanlegra hví þessir erlendu aðilar leggja næst leið sína frá fundi leiðtoga átta helstu iðnríkja heims, hvar mótmælin snerust að mestu gegn því aukna frjálsræði sem ríkir í heimsviðskiptum, hingað til lands. Iðnvæðing litla Íslands þykir alls ekki nógu sniðugt að því er virðist, eigum við heldur að hundsa allan ávinning sem kapítalisminn og nýting náttúruauðlindanna getur skilað okkur og gerast sýningargripir fyrir erlenda auðjöfra sem hingað leggja leið sína fjórðung úr ári. Ekki nema von maður spyrji.

Athygliverð eru ummæli Birgittu Jónsdóttur, eins af skipuleggjendum mótmælanna aðspurð um hvort þeir ætluðu að virða afturköllun leyfis til uppsetningar búðanna á núverandi landi:

„Ég hef ekki trú á öðru. Það hefur alltaf verið ætlunin að búðirnar sjálfar séu fullkomlega löglegar,“ segir Birgitta,

Getur verið að þarna sé hún að vísa í að skipuleggjendur hafi alltaf ætlað að horfa í gegnum fingur sér með að sumir tjaldbúðagestir beittu ólöglegum, ófriðsömum ofbeldisaðgerðum eins og þeim sem við höfum séð eiga sér stað undanfarið? Þá falla um sjálft sig rök þau sem Benóný Ægisson notaði í bréfi sínu til landeigenda, um að hópurinn hafi ekki brotið gegn skilyrðum fyrir notkun landsins undir búðirnar.

Athyglivert hefur verið að heyra rök mótmælendanna gegn virkjuninni og stóriðju yfir höfuð, enda voru þessi sömu rök notuð á sínum tíma þegar farið var í lýðræðislega umræðu hér á landi um þessa framkvæmd og þar á undan um byggingu Eyjabakkavirkjunar, sem betur fer var hætt við og virkjun við Kárahnjúka ákveðin í staðinn sem sáttalausn. Má segja að þessir aðilar komi fullseint inn í umræðuna, enda langflestir þeirra útlendingar og kæmi því ekki á óvart þó sumir myndu kalla þetta afskipti af innanríkismálum okkar, enda búið að taka þessa ákvörðun eftir þeim lýðræðislegu leikreglum sem við höfum kosið að byggja samfélagið og sameiginlegar ákvarðanir þess á fyrir löngu.

Þó að sú ákvörðun hafi ekki farið eins og þessi litli hópur, sem dregið hefur til sín erlenda ofstopamenn, vildi og að friðsöm mótmæli á sínum tíma hafi ekki dugað til að sannfæra þjóðina um málstað þeirra. Það réttlætir einfaldlega ekki að gripið sé til eignarspjalla og ofbeldis þó einhverjir andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar telji að friðsöm mótmæli hafi ekki skilað nægilegum árangri. Þeim er auðvitað frjálst að mótmæla eins og öðrum sé það gert með friðsömum hætti í samræmi við leikreglur lýðræðisins. En með ofbeldi og skrílshætti, eins og þeim sem átti sér stað á Kárahnjúkum á dögunum, eru menn einfaldlega að leggja lýðræðið til hliðar og lýsa því yfir að það sé í góðu lagi að það sé gert telji menn sig ekki geta náð markmiðum sínum með lýðræðislegum hætti.

Þar með eru þeir að gefa öðrum, sem kunna að vera þeirrar skoðunar að lýðræðið nægi þeim ekki til að ná markmiðum sínum, tilefni til að gera slíkt hið sama. Slíkt framferði er einungis til þess fallið að grafa undan lýðræðinu.

Höskuldur Marselíusarson


Mánudagspósturinn 25. júlí 2005

Össuri Skarphéðinssyni, fyrrv. formanni Samfylkingarinnar, er tíðrætt um aðkomu Gísla Marteins Baldurssonar að borgarmálunum í grein sem birtist í Blaðinu 20. júlí sl. undir fyrirsögninni „Gísli Marteinn og efinn“. Össur talar þar um að honum finnist Gísli hikandi í því hvernig hann hyggist beita sér í borgarmálunum og segir m.a. af því tilefni að Gísli sé haldinn því „sem er hættulegast stjórnmálamanni – óvissu um hvert beri að stefna.“ Össur segir Gísla vera að bíða eftir niðurstöðu skoðanakönnunar frá Gallup, um það hvern fólk vilji sjá sem leiðtoga sjálfstæðismanna í borginni, áður en hann tilkynnir hvort hann ætli að sækjast eftir leiðtogasætinu eða ekki.

Þetta er auðvitað vægast sagt furðuleg nálgun hjá Össuri í ljósi þess Gísli hefur ekki sagt að hann ætli sér að verða leiðtogi sjálfstæðismanna í borginni. Fjölmiðlar hafa hins vegar sótt hart að honum og spurt hann ítrekað að því og eðlilega hefur hann ekkert útilokað. Þess utan hefur hann einungis sagt að hann sækist eftir einu af efstu sætunum á lista sjálfstæðismanna, eitthvað sem einungis hlýtur að teljast eðlilegt fyrir metnaðarfullan stjórnmálamann. Enn er talsverður tími til stefnu og ekkert sem segir að Gísli þurfi að taka endanlega ákvörðun í þessum efnum strax.

En hvað sem því annars líður þá er ég nú ekki viss um að Össur sé beint bezt til þess fallinn að væna aðra um stefnuleysi. Samfylkingin undir hans forystu þótti ekki beint stefnufastasti stjórnmálaflokkur landsins. Össur segir í grein sinni að það virki „aldrei vel þegar stjórnmálamenn láta reka fyrir vindum skoðanakannana.“ Samfylkingin hefur einmitt ósjaldan verið sökuð um að dansa eftir því hvað skoðanakannanir hafa sagt hverju sinni og það ekki að ástæðulausu eins og dæmin sanna. Tökum bara eitt gott dæmi um þetta.

Í upphafi árs 2002 var skoðanakönnun frá Gallup birt sem sýndi að mikill meirihluti landsmanna væri hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Í kjölfarið tilkynnti Össur að Samfylkingin hyggðist setja aðild að sambandinu á oddinn fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Þessu lýsti hann yfir reglulega allt það ár og síðan var farið út í sérstaka póstkosningu á meðal félagsmanna Samfylkingarinnar um haustið sem fær án efa sinn sess í sögubókunum fyrir einstaklega ólýðræðislega framkvæmd og lélega þátttöku.

Meirihluti þeirra fáu félagsmanna Samfylkingarinnar, sem höfðu fyrir því að taka þátt í póstkosningunni, heimiluðu að aðild að Evrópusambandinu yrði sett á stefnuskrá flokksins. Síðan gerðist það í upphafi árs 2003 að skoðanakannanir voru birtar sem sýndu að staðan hefði algerlega snúizt við og að mikill meirihluti landsmanna væri nú á móti aðild að sambandinu. Stuttu síðar tilkynnti Össur að aðild yrði ekki sett á oddinn í kosningabaráttu Samfylkingarinnar.

Og þetta er svo sannarlega aðeins eitt dæmi af fjölmörgum þar sem Össur hefur gerzt sekur um stefnuleysi og að dansa eftir því hvað skoðanakannanir hafa sagt hverju sinni. Þannig að kannski hefur hann nú séð að sér í þeim efnum og tilgangurinn með greininni verið að miðla af eigin reynslu. En ef sú er raunin þá hefur hann greinilega alveg gleymt að taka það fram í henni.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt í Blaðinu 28. júlí 2005)


Ríkisútvarpið á krossgötum

Óhætt er að fullyrða að Ríkisútvarpið sé á krossgötum. Á þessu ári eru 75 ár liðin frá stofnun þessa rótgróna ríkisfjölmiðils. Um þessar mundir eru einnig að eiga sér stað breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, hefur sagt starfi sínu lausu og hættir eftir rúman mánuð, þann 1. september nk. Þann dag tekur hann til starfa í utanríkisþjónustunni og mun í vetur verða sendiherra Íslands í Kanada. Deilt var um störf Markúsar í vetur samhliða fréttastjóraráðningu hjá fréttastofu útvarps og hann hefur nú ákveðið að skipta um vettvang. Hefur hann starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Markús Örn sat í borgarstjórn 1970-1985 og var um tíma forseti borgarstjórnar. Hann varð formaður útvarpsráðs í byrjun níunda áratugarins og var ráðinn eftirmaður Andrésar Björnssonar á útvarpsstjórastóli árið 1985.

Markús Örn var ráðinn borgarstjóri árið 1991 er Davíð Oddsson varð forsætisráðherra og hætti þá sem útvarpsstjóri. Hann var borgarstjóri í þrjú ár en hóf aftur störf hjá RÚV er hann var ráðinn framkvæmdastjóri útvarps árið 1996. Markús Örn var að nýju ráðinn sem útvarpsstjóri árið 1997 og tók við starfinu af Pétri Guðfinnssyni við starfslok hans, en Pétur hafði lengi verið framkvæmdastjóri Sjónvarps og var ráðinn útvarpsstjóri er sr. Heimir Steinsson lét af störfum árið áður og tók að nýju við fyrra starfi sínu sem prestur á Þingvöllum. Nú þegar að Markús Örn er á útleið, endanlega að því er virðist óneitanlega, úr starfi útvarpsstjóra og lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu eftir langt starf blasir við að breytingar blasi við hjá Ríkisútvarpinu og þar þurfi að stokka verulega upp. Jafnframt er ljóst að starf útvarpsstjóra hefur breyst mjög í tímanna rás og við eftirmanni Markúsar Arnar blasi nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Í gær rann út umsóknarfrestur um embætti útvarpsstjóra. Er fresturinn rann út höfðu 22 lagt inn umsókn, þ.á.m. reynt fjölmiðlafólk og áhugafólk um ríkisfjölmiðilinn af ýmsu tagi ennfremur. Margt hefur breyst í fjölmiðlaumhverfinu á undanförnum árum og við Ríkisútvarpinu blasir allt annað landslag á fjölmiðlamarkaði en fyrir einungis átta árum er Markús Örn Antonsson var öðru sinni ráðinn til starfa á útvarpsstjórastól. Því vakti það óneitanlega athygli að þegar þetta mikla starf, stjórnendastarf þessarar öflugu fjölmiðlastofnunar ríkisins voru ekki gerðar neinar hæfniskröfur eða útlistað nánar hverskonar aðila væri auglýst eftir eða hvaða sýn hann hefði til verkefnisins. Í grunninn tel ég mikilvægt að á þessum stóli sitji aðili sem hafi starfað að fjölmiðlum, þekki starfsumhverfið því mjög vel og sé sviðsvanur á þessum vettvangi. Meðal umsækjenda eru margir slíkir aðilar.

Við blasir að á 75 ára afmæli sínu að Ríkisútvarpið sé í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasi við stofnuninni. Við blasir að breyta þurfi til í innra kerfi Ríkisútvarpsins. Var að mínu mati alveg sláandi að lesa umfjöllun Morgunblaðsins um RÚV fyrr á árinu. Hún sannaði svo ekki varð um villst að Ríkisútvarpið sé á algjörum villigötum og taka verði rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati með rekstrartölum sem komu fram í umfjöllun Moggans. Í stuttu máli sagt kom þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og hafi nemið ríflega 1400 milljónum króna. Ennfremur kom fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið.

Er ekki hægt lengur að fljóta sofandi að feigðarósi er kemur að málefnum RÚV.
Taka verður hlutina til endurskoðunar og stokka allhressilega upp. Fyrir nokkrum mánuðum lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, fram á Alþingi frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Ánægjuefni var að slíkt frumvarp skyldi loks lagt fram eftir margar tilraunir menntamálaráðherra af hálfu Sjálfstæðisflokksins til að stokka upp stöðuna og færa RÚV til nútímans. Í frumvarpi ráðherrans er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi. Það hefur verið skoðun mín til fjölda ára að ríkið eigi ekki að vera á fjölmiðlamarkaði eða eigi allavega að draga sig meira út úr honum. Eins og fram hefur komið verða afnotagjöldin lögð niður og er áætlað að nefskattur komi til sögunnar í staðinn.

Ein mikilvæg breyting sem blasir við er að til sögunnar mun koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunni er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Eins og öllum varð ljóst í deilunum um ráðningu fréttastjóra útvarpsins í mars og apríl á þessu ári er útvarpsráð barn síns tíma. Sú skipan mála sem það er byggt á og eðli þess við að fara yfir umsóknir og meta þær er fyrir löngu gengin sér til húðar. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint.

Eins og ég hef sagt alla tíð frá því að menntamálaráðherra lagði fram frumvarp sitt harma ég að ekki sé gengið lengra í átt til nauðsynlegra breytinga á RÚV. Jákvæðir punktar eru þá helst tilkoma rekstrarstjórnarinnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Rekstrarlegar forsendur verða loks meginstef hjá RÚV. Hinsvegar er slæmt að farin sé einhver málamiðlunarleið að hætti Framsóknar og endað í einhverju sameignarfélagsformi en ekki farið beint í hlutafélagaformið, sem er hið eina og réttasta í grunninum sem forsenda. Þetta frumvarp verður rætt á þingi í haust samhliða umræðu um ný fjölmiðlalög. Er hárrétt að bæði sé rætt á sama tíma, enda nátengd mál að mínu mati sem þurfa að vinnast samtvinnað í gegnum þingið.

Þegar að Þorgerður Katrín lagði fram frumvarp sitt undir lok þingvetrarins hafði stjórnarandstaðan auðvitað skoðanir á því. Sumt átti að vera svona en ekki með öðrum hætti og allt eftir því. Merkilegust var þó óneitanlega tillaga VG um framtíðarsýn fjölmiðlabatterís ríkisins. Kom þar fram sá vilji flokksins að koma á fót dagskrárráði í RÚV. Það myndi auðvitað miðstýra dagskrárgerð. Það er ekki að spyrja að framtíðarsýn VG - miðstýringaráráttan er sjaldan fjarri þeim. Eins og fyrr segir um frumvarp menntamálaráðherra tel ég það ágætt skref en þó ekki gott að öllu leyti. Sem hægrisinnuðum einstakling í stjórnmálalitrófinu tel ég það í raun afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Menn eru að veita RÚV alltof mikið fríspil til að vera á markaðnum. Með því getur RÚV staðið að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins, t.d. á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum fjölmiðlunar.

Þetta vinnur algjörlega gegn mínum grunnskoðunum um RÚV. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verði að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það höfum við í SUS auðvitað sagt til fjölda ára og allir vita afstöðu okkar til málsins. Mér hefur alla tíð þótt tímaskekkja að ríkið standi í þessum rekstri. Margir tala um að nauðsynlegt sé að ríkið reki útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar og reyna að réttlæta tilveru ríkisstöðva á ýmsan hátt, til að reyna að viðhalda úreltu systemi. Að mínu mati er óeðlilegt að ríkið standi í því að kaupa erlent afþreyingarefni í samkeppni við einkastöðvar og hafi á dagskrá t.d. Sjónvarpsins. Meginhluti þess efnis sem þar er getur vel verið á dagskrá einkastöðvanna. Eina forsendan að mínu mati fyrir því að ríkið reki sjónvarpsstöð er sú að þar væri innlent menningar- og afþreyingarefni að öllu leyti eða allavega ráðandi hluti af dagskránni. Þannig er það ekki í dag, langt frá því. Meginefnið er erlent efni.

Eins og fyrr segir blasir nýtt fjölmiðlaumhverfi við nýjum útvarpsstjóra. Er mikilvægt að við starfinu taki fjölmiðlamanneskja sem þekkir sviðið mjög vel og þau verkefni sem við blasa. Vona ég að menntamálaráðherra ráði til starfans þann aðila sem er líklegur til að stýra þessu fleyi rétta átt, í markvissa átt til uppstokkunar og breytinga og leiði vinnuferlið þar með öðrum hætti og taki til hendinni. Ekki veitir af því ef RÚV á að standa undir nafni sem fjölmiðill allra landsmanna, en ekki safnhaugur erlends afþreyingarefnis t.d. í sjónvarpi. Reyndar má segja að Rás 1 sé flaggskip útvarpsstöðvanna. Þar er áhugavert efni allan daginn. Með aldrinum hef ég lært sífellt betur að meta það sem þar er boðið upp á. Þar er innlend dagskrá í hávegum höfð og öflug dagskrárgerð sem RÚV getur vissulega verið stolt af. Hinsvegar hef ég aldrei skilið tilvist Rásar 2 og tel rétt að hún verði lögð niður sem fyrst.

Fyrir fjórtán árum er Markús Örn Antonsson varð borgarstjóri var starfið auglýst, sem eðlilegt er. Að lokum var ráðinn til starfans klerkur utan úr sveit, mikill heiðursmaður og menningarlega sinnaður maður vissulega. Hinsvegar hafði hann litla sem enga reynslu af fjölmiðlastörfum og ekki verið þekktur fyrir afrek á þeim vettvangi. Hef ég jafnan verið þeirrar skoðunar að þá hafi átt að ráða þá manneskju sem var öflugust á því sviði að leiða RÚV sem fjölmiðlafyrirtæki. Margir urðu hissa við val þáverandi menntamálaráðherra og það var umdeilt mjög lengi hvernig að því var staðið. Nú, sem þá auðvitað, er það menntamálaráðherra sem heldur á þessu ferli og það er Þorgerðar Katrínar að velja til starfans þann sem hún vill að vinni á sínum forsendum og leiði RÚV með þeim hætti sem frumvarp hennar gerir ráð fyrir að RÚV verði á komandi árum. Verður fróðlegt að sjá hver sá aðili verður.

Við blasir enn harðnandi samkeppni hjá RÚV. 365 – ljósvakamiðlar hafa ákveðið að hefja útsendingar á fréttastöð í sjónvarpi sem muni ganga í allavega 16 tíma á dag og halda úti fréttaveitu til landsmanna í gegnum daginn. Spyrja má sig að því hver tilgangur RÚV sé orðinn ef hægt ef einkaaðilar geta haldið úti fréttaveitu með þessum tagi sem gengur allan daginn og getur með því haldið á almannavarnarhlutverkinu sem RÚV hefur jafnan haft. Frægt varð annars að RÚV varð síðust allra til að segja frá frægum Suðurlandsskjálftum fyrir fimm árum. Þar fór almannavarnargildið fræga út í veður og vind. Sjónvarpið sýndi frá EM í fótbolta og lét leikina halda áfram þrátt fyrir stöðu mála og útvarpið var mun seinna með fréttirnar en Bylgjan sem hélt vel á þessari stórfrétt. Með tilkomu fréttastöðvar af þessu tagi er komin fréttaveita sem haldið getur á stórfréttum allan sólarhringinn, hvað svo sem RÚV gerir.

Óneitanlega tel ég að 365 skjóti boltanum mjög hátt með því að starta þessari fréttastöð. Það má deila um hvort pakkinn muni ganga eða þá hvort að menn séu að tefla á vöð sem halda ekki. En tillagan er djörf og ef hún gengur er kominn fjölmiðill sem mun byggjast upp sem öflug fréttaveita til allra landsmanna, í gegnum sjónvarpið, netið og útvarpið – allt í senn. Þannig að við blasir að RÚV er á öðrum tilvistargrunni þegar að nýr útvarpsstjóri sest á skrifstofu sína í haust og tekur til við að stjórna þessu rótgróna fjölmiðlaveldi ríkisins. Spyrja má sig að því hvort sá risi er á brauðfótum eða muni geta aðlagað sig að breyttum tímum með auðveldum hætti samhliða breytingunum sem steðja að þessu gamla veldi. Sótt er allavega harkalega að honum og fróðlegt hvernig nýr yfirmaður stjórnar fleytunni á þeirri vegferð sem framundan er. Það mun allavega að ég tel fljótt reyna á hvernig hann heldur á verkefninu sem framundan er.

Grunnur alls sem ég ætlast til á næstunni af menntamálaráðherra við val þessa yfirmanns fjölmiðlaveldis ríkisins er að fagmanneskja í fjölmiðlunarstörfum taki við starfinu og þar verði nýjar og ferskar hugmyndir aðalsmerki. Það verður merkilegt að sjá til verka nýja útvarpsstjórans í vetur og hvaða breytingar, ef nokkrar, muni koma með nýjum húsbónda. Það er þó alveg ljóst að nýr útvarpsstjóri hefur stórt og mikið verkefni fyrir höndum og næg úrlausnarefni bíða hans eða hennar er tekið verður til við það sem bíður á skrifborðinu í Efstaleiti.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Umræður á villigötum

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur tilnefnt alríkisdómarann John Roberts í embætti hæstaréttardómara í stað Sandra Day O'Connor, sem hefur sagt af sér embætti sökum aldurs. Sandra Day O´Connor var fyrsta konan til að verða hæstaréttardómari en það var Ronald Reagan sem hana tilnefndi. En það er nú önnur saga.

Robert er fimmtugur að aldri. Hann er útskrifaður með lögfræðipróf frá Harvard og hefur um nokkurt skeið unnið við opinbera stjórnsýslu í Washington DC. Hann vann m.a. á lögfræðiskrifstofu Hvíta Hússins í tíð Ronald Reagans og var um tíma aðstoðarmaður Williams Rehnquists, núverandi forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann hefur síðan 2003 verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington en Bush forseti skipaði hann einnig í það embætti.

Hér fer smá lýsing á stöðu Roberts sem höfð er beint upp úr mbl.is: ,,Roberts þykir íhaldssamur í skoðunum og gæti átt erfiða tíma fyrir höndum þegar Bandaríkjaþing fjallar um útnefninguna þótt hann eigi stuðningsmenn bæði meðal repúblikana og demókrata. Frjálslyndir hópar segja, að Roberts hafi tekið afstöðu í málum, sem fjalla um málfrelsi og trúfrelsi og gæti sem hæstaréttardómari þrengt þessi réttindi. Þá segja hópar, sem berjast fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Robers hefur hins vegar sagt sjálfur, að dómur réttarins í málinu Roe gegn Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur, jafngilti lögum í landinu og hann muni virða þau lög þrátt fyrir persónulegar skoðanir.”

Ekki hef ég svo sem sérstaka skoðun á því hvaða dómara Bush forseti velur. Það er auðvitað innaríkismál í BNA. En þann 1. júlí s.l. tilkynnti Sandra Day O’Connor um afsögn sína og síðan þá hafa farið fram heitar umræður um næsta dómara sem tæki sæti hennar í hæstaréttir. Vinstri menn segjast vera ,,hræddir” um að forsetinn velji of harðan hægri íhaldsmann í embættið sem enga virðingu beri fyrir m.a. rétti kvenna til fóstureyðinga, hjónaböndum samkynhneigðra og svo frv. Hægri menn hafa lagt á það að áherslu að forsetinn velji einhvern sem stendur með rétti barna til lífs, varðveiti hjónaband milli karls og konu og svo frv. Já það eru skiptar skoðanir um þessi mál. Hvort sem um er að ræða Bandaríki Norður Ameríku eða önnur lönd.

En það verður aftur sem áður áhugavert að sjá hvernig fréttir verða fluttar af tilnefningunni. Ekki kæmi mér á óvart að bæði Stöð 2 og fréttastofa Ríkissjónvarpsins eigi eftir að minnast á Robert sem íhaldsaman hægrimann sem sé á móti fóstureyðingum og mála þannig mynd af honum að hann sé ekki hæfur í embætti dómara. Það er einnig áhugavert hvernig vinsti menn taka upp umræðu um þessi mál. Vinstrimenn sem sífellt tala um að vilja aukið lýðræði og aukna umræðu um ýmsa hluti vilja hana bara svo lengi sem þeir geta stjórnað henni.

Tökum tilnefningu Bush sem dæmi. Nú er greinilegt að meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum er sammála Bush í siðferðismálum, t.a.m. málefnum samkynhneigðra og réttinum til fóstureyðinga. Bush var lýðræðislega kosinn og hefur því rétt til að tilnefna dómara. En það er ekki nóg. Öldungadeild þingsins þarf síðan að samþykkja tilnefninguna. Gott og vel. Þingið var nú líka lýðræðislega kosið. En hvernig bregðast vinstri menn við. Þeir eru ,,hræddir” um að einhver verði tilnefndur sem ekki er fylgjandi þeirra skoðunum. Í stað þess að sætt sig við að lýðræðið hafi fengið að ráða beita þeir brögðum með því að mála upp svarta mynd að þeim sem ekki eru sammála skoðunum þeirra.

Það er alveg ótrúlegt hvernig þeir mála sjalfa sig upp sem frelsishetjur hvað eftir annað. Flestir vinstrimenn í BNA telja að þeir séu að halda upp grundvallarmannréttindum og rétti kvenna með því að berjast fyrir frjálsum rétti fóstureyðinga. Þeir sem hins vegar eru á annari skoðun eru íhaldssamir öfgamenn sem enga virðingu bera fyrir mannréttindum. Að sama skapi eru þeir sem ekki styðja rétt samkynhneigðra til að ganga í lögbundið hjónaband hommahatar og aftuhaldsseggir. Já, það vantar sko ekki málefnalegheitin hjá vinstri mönnunum.

Eitt sinn átti ég í viðræðum við nokkrar vinstri sinnaðar konur. Þær voru að tala um það að þær vildu að Ríkið niðurgreiddi getnaðarvarnir fyrir unglinga. Þegar ég var inntur álits á þessu sagði ég að sjálfsögðu að Ríkið ætti ekki að skipta sér af kynlífi unglinga og hvað þá að nota skattpeninga til að niðurgreiða það. Þetta fannst þeim nú ekki mikið vit í. En svo lagði ég upp annað dæmi. Segjum sem svo að Ríkið ákveði að eyða X mikilli upphæð í að niðurgreiða getnaðarvarnir. Þar er Ríkið farið að skipta sér af kynlífi og barneignum. Síðan kæmist önnur stjórn til valda sem segði, ,,Jæja, nú hættum við að eyða X mikilli upphæð í getnaðarvarnir unglina, en eyðum sömu upphæð í kennslu um skírlífi fyrir hjónaband.” Þetta sló nú ekki alveg í gegn hjá vinstri sinnaða saumaklúbbnum. Talað var um hægri öfgar, mannréttindabrot og allan þann pakka.

Það er alveg greinilegt að vinstri menn vilja eins og áður sagði hafa umræður í gangi ef að þeir geta stjórnað þeim en ef á annað borð einhver er með aðra skoðun þá er sú skoðun hvað eftir annað máluð upp sem öfgar, mannréttindabrot, þröngsýni, afurhaldssemi og svo frv.

Rétt er að taka fram að ritstjórn Íhald.is hefur ekki lýst sig andsnúna hjónaböndum samkynhneigðra.
Það sem hér er skrifað að ofan er skrifað umræðunnar vegna.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia

Mánudagspósturinn 18. júlí 2005

Í Fréttablaðinu 12. júlí sl. birtist frétt undir fyrirsögninni „Það er vilji þjóðarinnar að haldið verði í málskotsréttinn“. Sennilega væri ekki hægt að kveða fastar að orði þó reynt væri. Þegar fréttin er lesin er þessa mjögsvo afgerandi fullyrðingu hins vegar hvergi að finna. Í henni er rætt við Jónínu Bartmarz, þingmann Framsóknarflokksins sem sæti á í nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Er m.a. vitnað í hana þar sem hún segir: „Ég held að það sé ekki vilji þjóðarinnar að afnema málskotsréttinn ...“ Það er nefnilega það. Jónína segist halda að þjóðin vilji halda í málskotsréttinn en Fréttablaðið telur sig hins vegar vera í aðstöðu til að fullyrða að svo sé á grundvelli orða hennar. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?

Annars hefur umræðan um hinn svokallaða „málskotsrétt“ forseta Ísland verið all merkileg á köflum. Þannig mætti t.a.m. nefna aðeins eitt atriði. Eins og þekkt er eru forystumenn Samfylkingarinnar iðnir við að tala um að innleiða þurfi beinna lýðræði á Íslandi, halda fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur o.s.frv. (reynslan sýnir reyndar að yfirleitt er slíkt tal úr þeirri átt talið eitt). En þrátt fyrir það hafa þeir sett sig upp á móti þeirri hugmynd að sett verði ákvæði í stjórnarskrána í stað ákvæðisins um „málskotsréttinn“ svonefnda þar sem kveðið verði á um að almenningur geti með einhverjum hætti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um ákveðin mál að eigin frumkvæði og án þess milliliðar sem aðkoma forsetans að málinu óneitanlega felur í sér. Þetta er auðvitað að því gefnu að menn séu þeirrar skoðunar að forsetinn hafi raunverulega það vald að synja lögum frá Alþingi staðfestingar sem ég notabene er ekki.

Forystumenn Samfylkingarinnar hafa annars farið í mun fleiri hringi í þessu máli en bara þennan  - eins og þeirra er von og vísa. Þannig hafa þeir t.a.m. ásamt fleirum í stjórnarandstöðunni sakað ríkisstjórnina um að hafa „haft af þjóðinni“ þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin á síðasta ári. Á sama tíma vilja þeir að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem það hefur beinlínis verið stundað í gegnum tíðina að fara í kringum vilja almennings í þjóðaratkvæðagreiðslum ef hann hefur ekki verið í samræmi við vilja forystumanna sambandsins. Þ.e.a.s. auðvitað í þau sárafáu skipti sem almenningi þar á bæ hefur verið leyft að tjá hug sinn til einhverra samrunaskrefanna innan þess með þeim hætti.

Þetta er annars t.a.m. í stíl við það þegar forystumenn Samfylkingarinnar hafa haldið því fram að stjórnvöld rækju ekki sjálfstæða utanríkisstefnu gagnvart Bandaríkjastjórn. Á sama tíma vilja þeir hins vegar að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem ljóst er að engin sjálfstæð utanríkisstefna yrði rekin af hálfu okkar Íslendinga kæmi til aðildar. Kveðið er á um sameiginlega utanríkisstefnu sambandsins í fyrirhugaðri stjórnarskrá þess eins og kunnugt er og þó stjórnarskráin sé vissulega í uppnámi, og óvíst hvort hún taki einhvern tímann gildi, þá hafa forystumenn Evrópusambandsins lýst því yfir að jafnvel þó svo verði ekki beri að halda áfram því starfi sem þegar er hafið við að koma á sérstöku embætti utanríkisráðherra sambandsins, sjálfstæðri utanríkisstefnu þess sem og utanríkisþjónustu sem smám saman er ætlað að koma í stað sjálfstæðra utanríkisþjónusta aðildarríkjanna.

Þessi framganga forystumanna Samfylkingarinnar er auðvitað alveg gríðarlega trúverðug. Annars er það nú auðvitað svo að það kemur lítið á óvart að þeir séu sjálfum sér ósamkvæmir og tali í endalausa hringi. Slíkt er fyrir löngu orðið fremur að reglu en undantekningu.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Bush-blinda og galdrakarlar

Ólafur Hannibalsson skrifar oft greinar í miðopnu Fréttablaðsins. Ólafur er vel meinandi maður, en haldinn fjórða-stigs Bush-blindu. Bush-blinda lýsir sér í krónískum ásökunum um illt innræti og vafasaman ásetning bandarískra stjórnvalda. Þessi blinda er til í fimm stigum, og lýsir hæsta stigið sér þannig, að öll vandamál heimsins eru talin orsök Bush, vina hans (t.a.m. Blairs eða Davíðs), og ýmissa forvera Bush í forsetastól Bandaríkjanna. Bush er þó ætíð verstur allra, enda afar illa gefinn, lesblindur og siðblindur.

Þann 29. júní birti Fréttablaðið grein eftir Ólaf sem heitir „Vald og veruleiki“. Í grein þessari segir Ólafur um innrásina í Írak: „Átyllan reyndist engin; Saddam átti engin gereyðingarvopn. Allur undirbúningur styrjaldarinnar var byggður á lygum, fölskum veruleika sem var búinn til í Washington með því að hagræða skýrslum leyniþjónustanna og laga staðreyndir eftir hentugleikum.“ Undir lok greinarinnar segir hann svo: „Stjórnvöld kæra sig kollótt um hverju lesendur virtra fjölmiðla, eins og New York Times, trúa, það sem skiptir máli er hvað hægt er að fá hinn breiða fjölda til að trúa, hvaða blekkingum þarf að beita, hvaða lygar þarf að spinna upp til þess að skapa það andrúmsloft að hægt sé að hefja stríð.“

Í þessari grein er samsagt ákveðin samsærikenningin sett fram, hana er hægt að orða svona: „Bush, og pörupiltar hans í Hvíta húsinu, vildu fara í stríð í Írak. Til þess að fá stuðning almennings fengu þeir þá hugmynd að búa til sögu þess efnis að Saddam Hussein ætti gereyðingarvopn. Áróðursvél Bush-stjórnarinnar sá svo um að reyna að láta almenning halda að þessi saga væri sönn.“

Það sem ég skil ekki varðandi þessa meintu blekkingarvél, er hvernig Bush tókst að fá ýmsa stríðsandstæðinga eins og Jacques Chirac, Hillary Clinton og ýmsa demókrata sem ekki höfðu síðri aðstöðu en Bush til að vita hver sannleikurinn væri í málinu, t.a.m. eins og fyrrum utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Clintons, í lið með sér til að dreifa „lyginni“ til almennings.

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, sagði þann 16. október 2002: „Það sem er í húfi hér, er að svara þeirri ógn sem stafar af gereyðingarvopnum Íraka. Baghdad-stjórnin hefur notað slík vopn í fortíðinni, og við höfum sannanir sem benda til þess að Íraksstjórnin hafi verið að framleiða fleiri slík vopn undanfarin fjögur ár í fjarveru vopnaeftirlitsins.“

Hillary Clinton sagði þann 10 október 2002: „Á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan vopnaeftirlitið fór, hefur Saddam unnið að því að byrgja sig upp af efna-og sýklavopnum, koma sér upp eldflaugum og hefjast handa við kjarnorku áætlun. Hann hefur einnig aðstoðað og veitt hryðjuverkamönnum hæli, meðal annars Al-Qaeda mönnum, þó að ekkert bendi til þess að hann hafi verið viðriðin árásirnar 11. september. Þrátt fyrir það er ljóst að sé hann látinn óáreittur, mun Saddam auka getu sína til að heyja efna- og sýklavopnastríð, og mun halda áfram að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum.“

William Cohen, fyrrum varnarmálaráðherra Clintons, sagði eftirfarandi í apríl 2003: „Ég er algerlega fullviss um að það séu vopn... Ég sá sannanir fyrir því árið 1998 þegar vopnaeftirlitsmönnum var meinaður aðgangur að vöruhúsum, og þeir sáu stóra trukka ferja vopnin úr húsunum í þrjár klukkustundir áður en þeir fengu inngöngu.“

Ég gæti haldið endalaust áfram að vitna í ýmsa frammámenn um heim allan, fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum, og leyniþjónustustarfsmenn ýmissa landa og mikla stríðsandstæðinga sem sögðu að gereyðingarvopn væru í Írak. Já, Bush „samsærisvélin“ teygði anga sína víðar en ætla mætti. Hún var jafnvel byrjuð að útbreiða þessar „lygar“ áður en Bush komst til valda. Bill Clinton sagði árið 1998: „Samfélag þjóðanna gæti séð meira af þeirri ógn sem stafar af Írak: Rautt land sem á gereyðingarvopn, er tilbúið að nota þau, eða afhenda þau hryðjuverkamönnum. Ef að við bregðumst ekki við í dag, mun Saddam og allir þeir sem fylgja í fótspor hans verða enn sterkari og djarfari á morgun.“ Starfsmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna sagði árið 1998: „Enn þann dag í dag, eru Írakar langt frá því að hafa afvopnast, samkvæmt mjög trúverðugum upplýsingum sem við hjá UNSCOM (vopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna) höfum aflað. Írakar eiga enn sýklavopn, eins og miltisbrand, botulinum toxin og clostridium perfringens, í nægilega miklum mæli til að fylla marga tugi af sprengjum og eldflaugaoddum. Þeir hafa einnig getuna til að halda áfram að framleiða þessi vopn. Írakar eiga líklega nokkur tonn af VX taugagasi, sarin taugagasi, og sinnepsgasi, sem geymt er í sperngjum og eldflaugaoddum...“

Það er að er sjálfsögðu aðeins ein leið til að eiga við galdrakarl eins og Bush sem fær vini og óvini í fortíð og framtíð til að útbreiða „Búss-neskar“ villukenningar um írösk gereyðingarvopn. Safna saman sprekum og halda galdrabrennu.

Sindri Guðjónsson


Eignarréttur bænda gjarnan fótum troðinn

Sem kunnugt er er langmestur hluti byggilegs landsvæðis utan þéttbýlis á Íslandi í eigu bænda. Um þessi landsvæði gilda enn að mörgu leyti nokkuð forneskjulegar reglur sem eru einkum til þess fallnar að binda hendur jarðeigenda. Þessar reglur bera keim af óhóflegri forræðishyggju yfirvalda og takmarka rétt eigenda til hagnýtingar og ráðstöfunar landsins.

Á síðasta ári tóku gildi ný jarðalög, lög 81/2004. Með þeim var að nokkru aflétt þeim hömlum sem áður voru við lýði en þó hefði með réttu mátt stíga stærri skref í þá átt. Ég ætla að taka nokkur dæmi úr jarðalögum og fleiri lögum þar sem eignarrétti landeigenda eru reistar skorður.

Taka lands úr landbúnaðarnotum
Samkvæmt 5.-7. grein jarðalaga er óheimilt að taka land sem nýtt er til landbúnaðar eða nýtanlegt er til slíkrar starfsemi til annarra nota nema að fengnu sérstöku leyfi landbúnaðarráðherra. Umsókn um slíkt til ráðherra þarf að fylgja uppdráttur staðfestur af skipulagsyfirvöldum. Fari svo að landbúnaðarráðherra veiti umrætt leyfi – sem engan veginn er öruggt – öðlast leyfið fyrst gildi við þinglýsingu. Þessi áskilnaður um að leyfið öðlist fyrst gildi við þinglýsingu er nýmæli í hinum nýju lögum og því er hið nýja ákvæði jafnvel meira íþyngjandi fyrir landeiganda en ákvæði eldri laga.

Með öðrum orðum er bóndi sem vill til dæmis nýta hluta lands síns undir sumarbústaðabyggð eða aðra starfsemi sem ekki fellur undir landbúnað háður leyfi landbúnaðarráðherra og skipulagsyfirvalda til þess arna. Slíkt fyrirkomulag hlýtur að virka letjandi á framkvæmdagleði manna og ekki er í fljótu bragði sjáanleg nauðsyn þess að reisa þessar skorður við landnotkun eigenda. Hvað varðar yfirvöldin um það hvernig menn nota sínar landareignir, svo fremi að nýtingin skerði ekki hagsmuni annarra?

Takmarkanir á framsali
Með nýju jarðalögunum urðu umtalsverðar úrbætur varðandi rétt landeigenda til framsals á landinu. Eldri lög kváðu á um forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðunum og raunar var samþykki sveitarstjórnar áskilið til að sala gæti átt sér stað og einnig samþykki opinberrar nefndar sem bar heitið jarðanefnd. Meira að segja hafði sveitarstjórnin heimild til þess að krefjast þess að verð eignarinnar yrði metið af dómkvöddum mönnum ef henni þótti verðið óeðlilegt, og gilti það verð þá sem söluverð! Þannig var loku fyrir það skotið að verð eignanna réðist af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði. Hér erum við ekki að tala um einhverja forneskju heldur lög sem giltu allt þar til á síðasta ári! Sem betur fer hefur þessu nú verið breytt með hinum nýju lögum. Raunar vildi landbúnaðarráðherra viðhalda forkaupsrétti sveitarfélaga á jörðunum en meirihluti landbúnaðarnefndar Alþingis hlutaðist til um að það ákvæði var fellt út úr frumvarpinu – góðu heilli fyrir landeigendur.

Ennþá er þó fyrir hendi forkaupsréttur ábúenda jarða, þeirra sem setið hafa jarðirnar í sjö ár eða lengur. Þeir geta líkt og sveitarfélögin gátu samkvæmt eldri lögum krafist mats dómkvaddra manna á verðinu, telji þeir verðið vera ,,bersýnilega ósanngjarnt”. Verðið samkvæmt matinu gildir þá sem söluverð. Þannig eru í vissum tilvikum enn fyrir hendi verulegar hömlur á því að verð jarðanna ráðist á frjálsum markaði þó úrbæturnar séu miklar frá eldri lögum. Þess má loks geta að 31. grein skipulags og byggingarlaga felur í sér nokkuð víðtækar forkaupsréttarheimildir sveitarfélaga.

Byggingarleyfi
Í 43. grein skipulags og byggingarlaga segir að:

,,Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.”

Ákvæði IV. kafla laganna, sem vísað er til, taka til ,,hvers kyns bygginga ofan jarðar og neðan.”

Slíkar reglur geta vissulega átt rétt á sér upp að vissu marki þegar um er að ræða öryggismál og það að mannvirkin séu nægilega trygg, meðal annars að teknu tilliti til þess að nýir eigendur mannvirkisins eiga rétt á því að það uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur um öryggi og frágang. Hins vegar má leiða að því líkur að of langt sé gengið þegar engar breytingar má gera á mannvirkjunum án sérstaks leyfis. Þá má spyrja hvaða hagsmuni verið er að vernda með því að banna mönnum að rífa niður gömul hús í dreifbýli, nema þeir hafi til þess tilskilin leyfi. Sérstök sjónarmið geta þó átt við um friðaðar byggingar sem hafa minjagildi. Rétt er að hafa í huga að byggingarleyfin eru gjaldskyld og því fellur kostnaður af skriffinskunni óhjákvæmilega á landeigendur. Auðveldara er að réttlæta hömlur sem þessar í þéttbýli vegna sjónarmiða nábýlisréttar, þó svo að þar megi vissulega einnig huga að breytingum.

Hagnýting auðlinda í eignarlöndum
Verulegar hömlur eru settar á nýtingu manna á auðlindum í eignarlöndum sínum samkvæmt auðlindalögum.

Lögin taka til nýtingar auðlinda svo sem jarðefna, jarðhita og grunnvatns. Almennt er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi ráðherra, þó allnokkrar undantekningar séu gerðar frá því í lögunum. Samkvæmt 6. grein laganna hefur landeigandi ekki einu sinni forgangsrétt að nýtingarleyfi fyrir auðlindir í landi sínu nema hann hafi fyrst sótt um leyfi til rannsókna á þeim! Réttur landeigenda til nýtingar grunnvatns og jarðhita takmarkast við ákveðið umfang og miðast að mestu við eigin afnot. Þannig eru verulegar hömlur á því að hann geti til dæmis sett á stofn hitaveitu eða vatnsveitu á eigin vegum og selt þannig öðrum orkuna. Raunar kveða lögin á um forgangsrétt sveitarfélaganna til þess arna. Þá hafa lögin að geyma eignarnáms- og bótaákvæði. Meðal annars er kveðið á um að ef samkomulag næst ekki milli landeigandans og þess aðila sem auðlindina vill nýta um endurgjald getur ráðherra tekið landið eignarnámi. Þannig er komið í veg fyrir að landeigandinn geti selt öðrum orkuna á markaðsverði þrátt fyrir að hún sé unnin af hans landgæðum.

Að lokum
Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum dæmum um það að eignarréttur landeigenda í dreifbýli sé skertur. Fleiri dæmi mætti að ósekju nefna, til dæmis um ýmsar aðrar hömlur sem skipulags og byggingarlög fela í sér. Það er umhugsunarefni hvort ekki megi víða stíga skref í þá átt að minnka þær takmarkanir á eignarréttinum sem áður var vikið að.

Þó ber vissulega að fagna þeim víðtæku úrbótum sem urðu með hinum nýju jarðalögum sem tóku gildi í fyrra. Þar er ekki síst fyrir að þakka meirihluta landbúnaðarnefndar sem tók af skarið í veigamiklum atriðum eins og áður er getið. Sem kunnugt er hefur verð jarða farið mjög hækkandi síðustu misserin. Ekki er ósennilegt að nefndar lagabreytingar eigi einhvern þátt í því þar sem menn hafa nú meira svigrúm til að semja um verð við sölu landareigna sinna auk þess sem söluferlið er nokkuð einfaldara. Þannig komast bændurnir nær því að hljóta réttlátt verð fyrir eignirnar.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


Mánudagspósturinn 11. júlí 2005

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, ritaði grein í Morgunblaðið 28. júní sl. undir fyrirsögninni „Evrópa er svarið“ þar sem hann fjallaði um þá stjórnmálakreppu sem Evrópusambandið er í um þessar mundir. Eins og kunnugt er er sú kreppa einkum tilkomin í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir rúmum mánuði síðan og ekki bætti úr skák að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins skyldu ekki geta komið sér saman um hvernig fjármagna ætti sambandið á næstu árum. Það var annars löngu orðið tímabært að eitthvað að marki heyrðist frá íslenzkum Evrópusambandssinnum um stöðuna innan sambandsins en þeir hafa nær algerlega þagað þunnu hljóði um þau mál síðan hún kom upp. Svo neyðarlegt hefur þetta ástand raunar verið að pólitískir andstæðingar þeirra hafa beinlínis óskað eftir því opinberlega að þeir tjáðu sig nú eitthvað um málið.

En svo vikið sé að grein Andrésar þá byrjar hann hana á því m.a. að segja að líkja mætti erfiðleikum Evrópusambandsins við vaxtarverki unglings sem væri „að breytast í fullorðna manneskju.“ Í kjölfarið þessara orða veltir maður því óneitanlega fyrir sér í hvað sambandið er nákvæmlega að breytast að mati Andrésar? Eitt ríki? Og í framhaldi af því hvenær megi búast við því að þessir vaxtaverkir Evrópusambandsins taki enda? Eða má eiga von á slíkum vandræðalegum afsökunum úr herbúðum Evrópusambandssinna um alla framtíð í hvert sinn sem eitthvað bjátar á hjá sambandinu?

Andrés segir síðan að mörg stór mál bíða Evrópusambandsins og nefnir þar m.a. fyrirhugaða aðild Búlgaríu, Rúmeníu og Króatíu sem og aðildarviðræður við Tyrki. Tilgangurinn með því að nefna þetta til sögunnar er ljóslega sá að reyna að sýna fram á að engan bilbug sé að finna á sambandinu þrátt fyrir stjórnmálakreppuna. Miklar líkur verða þó að teljast á því að búið væri að leggja öll áform um frekari stækkun Evrópusambandsins á hilluna um óákveðinn tíma ef forystumenn sambandsins hefðu ekki verið búinir að gefa þessum ríkjum opinberlega loforð um að hefja við þau aðildarviðræður á ákveðunum tíma áður en núverandi aðstæður komu upp. Enda lýstu ýmsir forystumenn Evrópusambandsins yfir efasemdum, eftir höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskránni, um að rétt væri að halda áfram með frekari stækkunaráform. Rökin fyrir því að halda áfram í þeim efnum eru því ekki þau að allt sé í himnalagi innan Evrópusambandsins, sem augljóslega er ekki raunin, heldur þau að það yrði aðeins til að auka á álitshnekk sambandsins út á við ef það hætti við að hefja viðræður við umrædd ríki eins og til stóð.

Síðan segir Andrés að erfiðleikar, eins og þeir sem Evrópusambandið glímir við um þessar mundir, séu ekki nýjir af nálinni í sögu sambandsins en að það hafi áður staðið slíkt af sér. Hann bætir síðan við að því sé þó ekki að neita að aðstæðurnar núna séu mun flóknari en áður eftir að aðildarríki Evrópusambandsins eru orðin 25 og hvert með sínar áherzlur. Sem notabene er einmitt einn helzti veikleiki sambandsins. Það þarf þó auðvitað ekki að hafa mörg orð um það að þó Evrópusambandið hafi staðið ýmislegt af sér hingað til (þá aðallega með ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og þekkt er) þýðir það vitanlega ekki að það muni ávallt verða raunin. Evrópusambandið er auðvitað ekki eilíft frekar en önnur mannanna verk þó margur sanntrúaður Evrópusambandssinninn kunni e.t.v. að halda það. Hvað annars kemur út úr þeirri kreppu sem sambandið er í núna veit auðvitað enginn.

Andrés viðurkennir síðan að höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskrá Evrópusambandsins hafi verið pólitískt áfall fyrir sambandið – enda sennilega ekki annað hægt. Hann viðurkennir ennfremur að forystumenn Evrópusambandsins hafi ekki verið í takti við almenning í aðildarríkjum þess og segir síðan að þeir verði „að finna þá tónlist sem íbúar Evrópu [lesist Evrópusambandsins] eru tilbúnir að hlusta á.“ Þetta hljómar allt mjög vel hjá Andrési þó hann hafi mér vitanlega ekki séð ástæðu til að nefna þetta áður. En svo segir Andrés: „Það er hins vegar ljóst að öll skynsamlega (!) rök hníga að því að finna sameiginlega leið til að þróa Evrópu [lesist aftur Evrópusambandið] áfram.“ Þróa Evrópusambandið hvert áfram? Hvernig sér Andrés þá þróun fyrir sér? Nú erum við s.s. komin aftur að unglingnum með vaxtarverkina. Og það sem meira er, hver eru öll þessi skynsamlegu rök? Þau fylgdu ekki með í greininni þó að um vægast sagt ansi mikla fullyrðingu sé að ræða.

En það á sem sagt að hlusta á almenning í aðildarríkjum Evrópusambandsins en samt að halda áfram á sömu braut í þróun sambandsins. Öðruvísi verða orð Andrésar varla skilin. Hvernig gengur þetta upp? Hvað ef almenningur vildi t.d. vinda ofan af Evrópusambandinu og breyta því bara í einfalt fríverzlunarsvæði? Það er sennilega ekki mikil hætta á að hlustað yrði á slíkt af hálfu forystumanna sambandsins enda auðvitað um að ræða kolrangt svar, svona eins og „nei“ í þeim tiltölulega fáu þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið um samrunaskref innan þess.

Andrés segir svo að aðildarríki Evrópusambandsins muni finna lausn á þeirri stjórnmálakreppu sem sambandið er í því það sé „ekki nein önnur skynsamleg leið til fyrir þau varðandi framtíðina, hvort sem er félagslega, stjórnmálalega og efnahagslega.“ Fullyrðingagleðin heldur áfram og allur rökstuðningur heldur að sama skapi áfram að vera víðsfjarri. Það má vel vera að fyrir Andrési og mörgum skoðanabræðrum hans sé hér um að ræða eitthvert náttúrulögmál en svo er þó langt því frá í raunveruleikanum.

Ég held að það sé tímabært fyrir Evrópusamtökin að þau upplýsi hvernig þau sjái fyrir sér þróun Evrópusambandsins í framtíðinni. Ertu Evrópusamtökin hlynnt fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins? Eru þau hlynnt því að því verði breytt í eitt ríki? Það væri sérstaklega áhugavert að fá svar við þessum spurningum í ljósi þess að samtökin eru aðilar að regnhlífarsamtökunum European Movement sem einmitt hafa það sem sitt helzta markmið að stuðla að því að Evrópusambandinu verði breytt í sambandsríki („united federal Europe“) ef marka má heimasíðu þeirra. Eru Evrópusamtökin hlynnt þessu markmiði? Ef svo er ekki, hvað eru þau þá að gera í þessum félagsskap?

Svar við þessari spurningu er einmitt ekki sízt áhugavert í ljósi fullyrðingar Andrésar um að ljóst sé „að hræðsluáróður andstæðinga Evrópusambandsins um yfirþjóðlegt vald og súperríki Evrópu“ eigi ekki við rök að styðjast. Það þarf þó ekki annað en að lesa fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins (fyrir þá sem leggja í það) til að sjá hver hugmyndin með henni er öðru fremur. Reyndar er alveg nóg að lesa fyrsta hluta hennar til þess. Þess utan er auðvitað alveg merkilegt að því sé haldið fram að Evrópusambandið sé ekki yfirþjóðlegt vald því það er nákvæmlega það sem sambandið er. Stjórnvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins verða þannig að fara eftir ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi sambandsins og hvers vegna? Jú, vegna þess að ákvarðanirnar eru teknar af yfirþjóðlegu valdi sem þau hafa gengizt undir.

Andrés lýkur svo grein sinni á enn einni fullyrðingunni: „Smáríkin innan ESB bera ekki skarðan hlut frá borði í stækkaðri Evrópu og ef eitthvað er þá eru smærri ríkin að styrkja stöðu sína í Evrópu nútímans.“ Það er nefnilega það og sem fyrr er allur rökstuðningur víðsfjarri. Annars er ég þó það sæmilegur í landafræði að ég efa stórlega að Evrópa hafi eitthvað stækkað að ráði á undanförnum árum. En að öllu gamni slepptu er þarna auðvitað átt við Evrópusambandið eins og áður þegar talað er um Evrópu enda eitt lykilatriðið í áróðri Evrópusambandssinna að telja fólki trú um að Evrópa og Evrópusambandið sé eitt og hið sama. Það þarf þó varla mikla skynsemi til að sjá í gegnum slíkt þó Evrópusambandssinnar haldi greinilega að hægt sé að telja fólki trú um hvaða vitleysu sem er.

Og að lokum með vísan í fyrirsögnina á grein Andrésar; Ef Evrópusambandið er svarið, hver er þá spurningin?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Næsta síða »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband