Leita í fréttum mbl.is

Græðgi; úrelt hugtak sósíalista

Já, hún er alveg óþolandi þessi græðgisvæðing. Allaveg finnst hinum sósíalísku stjórnarandstöðuþingmönnum það. Og þetta er allt saman okkur hægri mönnunum að kenna. Við erum víst búnir að gera fólk svo gráðugt með því að segja því að það þurfi ekki að greiða háa skatta og gefa því von um að halda laununum sínum eftir sjálft. Já, og svo ýta lágir skattar á fyrirtæki víst líka undir græðgi. Þessir glæpamenn sem stunda fyrirtækjarekstur eru auðvitað bara gráðugir og hugsa bara um eigin hag.

Þetta er það sem heyrist reglulega frá vinstrimönnum, íslenskum sósíalistum. Steingrímur J. Sigfússon er í mörg ár búinn að tala um að hér sé allt á leiðinni til ansk... af því að græðgin sé svo mikil. Um daginn horfði ég á fréttaannál Stöðvar tvö frá árinu 1999. Það var kosningaár og að sjálfsögðu birtist viðtal við Steingrím þar sem hann sagði að hér færi allt niður ef sama ríkisstjórn sæti þá áfram. Nú þessi sama ríkisstjórn hefur lifað af tvær kosningar eftir það og ekki hefur ,,ástandið” versnað. Það hefur þvert á móti stórbatnað. Skattar eru að lækka og skuldir ríkisins á sama tíma. (gamla fréttaannála er hægt að nálgast á vef-TV á Vísi.is - stórskemmtilegt áhorf)

Jóhanna Sigurðardóttir er líka mjög skemmtilegur alþingismaður. Hún má eiga það að ólíkt flestum kollegum sínum í Samfylkingunni er hún oftast málefnaleg í umræðum sínum og hér skal ekki efast um þungbærar áhyggjur hennar af þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Gallinn við Jóhönnu er bara sá að hún heldur að flestir sem eiga yfir hundrað þúsund krónur í banka séu hálfgerðir glæpamenn og hafi stolið því frá þeim sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Kannski ekki málefnaleg gagnrýni hjá mér en lýsir samt í fáum orðum pólitík Jóhönnu. En við hægri menn og Jóhanna erum líklega sammála því að það er fólk sem hefur það ekki gott og það er markmið okkar allra að bæta úr því. Okkur greinir bara á hvernig það skuli gert. Það er efni í annan pistil.

En snúum okkur þá að græðginni. Jóhanna byrjaði árið á því að tala um græðgisvæðingu í pistli á heimasíðu sinni. Hún er ekki sú eina sem notar þetta orð óspart, græðgisvæðing. En hvað eiga vinstri menn eiginlega við þegar þeir tala um græðgisvæðingu? Hver er gráðugur? Hvar eru mörkin á milli þess eins að reka fyrirtæki annars vegar og vera gráðugur hins vegar? Er bakarinn hérna á horninu gráðugur? Er Jón Ásgeir gráðugur? Eru tannlæknarnir sem ráða gjaldskránni sinni sjálfir gráðugir? Eru forsvarsmenn Icelandair gráðugir en forsvarsmenn Iceland Express ekki? Meira að segja verkalýðsforingjar saka alla sem vel gengur í fjármálum um græðgi.

Þetta er allt spurningar sem eiga rétt á sér og vinstrisinnaðir stjórnmálamenn geta ekki svarað. Ef að bakari opnar bakarí, hvar liggja þá mörkin á milli þess að hann sé að reka lítið fyrirtæki eða að hann sé gráðugur? Ég geri ráð fyrir því að hann vilji að fyrirtæki sitt reki sig vel og með hagnaði. Er hann þá ekki gráðugur? Er Jói Fel gráðugur? Hann opnaði sínum tíma lítið bakarí á Holtavegi en er nú kominn með framleiðslu á ýmiss konar vörum, sjónvarpsþáttum, bókum og fl. Hann er líklega að efnast vel á þessu öllu saman. Er hann þá gráðugur í augum sósíalista? Ef svo er, hvenær varð hann þá gráðugur? Ef svar þeirra er að hann hafi orðið gráðugur í upphafi þá hljóta allir fyrirtækja eigendur stórir og smáir að vera gráðugir. Þeim langar öllum ganga vel.

Eru Baugsfeðgar gráðugir? Ef já, voru þeir þá gráðugir þegar þeir opnuðu litla búð í Skútuvogi eða þegar eignir þeirra fóru að telja í milljörðum? Þetta eru köld skilaboð stjórnmálamanna til atvinnulífsins. Það vill oft gleymast að þessi fyrirtæki sem eru svona rosalega ,,gráðug” skaffa mörg þúsund manns á Íslandi vinnu.

Eru menn orðnir gráðugir þegar þeir greiða forstjórum sínum háar upphæðir í laun? Ég mundi þvert á móti halda að þeir væru gjafmildir. Er að græðgi að borga stjórnendum fyrirtækja góð laun. Eða er það kannski hluti að ,,græðgisvæðingunni” að efna samning við fráfarandi forstjóra Icelandair? Hefðu menn frekar viljað að konan yrði svikinn um gerðan samning? Hvers konar skilaboð hefðu það verið til atvinnuþátttöku kvenna?

Já, það er hægt að spyrja sig endalaust. Vinstrimenn hafa að ég held engin svör við þessum spurningum heldur nota þeir orð eins og græðgisvæðing, mannréttindabrot, spillingu, lýðræði og svo frv. sem pólitískt vopn í baráttunni um völd. Þetta er þeirra ,,tískuhugtök” um þessar mundir og þýða orðið ekki neitt fyrir hinn almenna mann. Þegar ríkisstjórnin tekur ákvörðun sem vinstrimenn eru ósáttir við er það brot á lýðræði. Þegar ekki er gengið á eftir kröfum vinstrimanna er það mannréttindabrot, hvorki meira né minna. Þegar hæfir lögfræðingar eru ráðnir dómarar er það pólitísk spilling, jafnvel þó að ekki sé hægt að setja út á störf þeirra.

Stjórnmálamenn þurfa að vera ábyrgir orða sinna en ekki alltaf að gaspra eitthvað út í loftið sem missir síðan meiningu sína. Það er allt í lagi þó að Steingrímur, Jóhanna, Ingibjörg Sólrún og fleiri vilji koma hér á sósíalískri stjórn. Við vitum öll hvar þau standa í pólitík (nema kannski Ingibjörg Sólrún því hún er í pólitískri eyðimörk eftir að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum eins og bent er á hér.)

Eigum við að spyrja okkur hvernig efnahagsástandið væri ef hér hefði verið sósíalísk vinstri stjórn síðasta hálfan annan áratuginn. Þá væru þeir reyndar ekki að saka neinn um græðgi enda væri ekki jafnmikið fjármagn í umferð. Ætli væri ekki eins farið fyrir ríkiskassanum og Reykjavíkurborg, bæði skuldir og skattar á uppleið? Og allt í nafni samhjálpar og aukinnar þjónustu en ekki óráðsíu stjórnmálamanna.

Það hlýtur bara að vera að öllum sem langar að ganga vel í einhverju séu gráðugir.

Græðgi ; átfrekja, áköf löngun, girnd.
Íslenska Orðabókin

p.s. ég nota áberandi mikið orðið sósíalisti hér því þáð er furðulegt að þeir sem vilja hvað minnst kannast við hann eru vinstrimennirnir sjálfir sem aðhyllast sósíalisma.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband