Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2005

Mánudagspósturinn 31. október 2005

Síðan hvenær hætti Ísland að vera landfræðilegur hluti Evrópu? Ég hef stundum velt þessari spurningu fyrir mér þegar ég hef heyrt ýmsa talsmenn Evrópusambandsins hér á landi predika nauðsyn þess að Ísland gerist aðili að Evrópu. Þessar vangaveltur hafa þó eðlilega verið meira í gamni en alvöru. Menn þurfa sennilega að vera ansi illa upplýstir til að geta ekki gert greinarmun á Evrópu og Evrópusambandinu, auk þess að vita að Evrópusambandið hefur ekkert með það að gera hvort Ísland teljist hluti af Evrópu eða ekki.

Neikvæð skírskotun
En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir er þetta eitt af grundvallaratriðunum í áróðursvélum Evrópusambandssinna, hvort heldur sem er hér á landi eða víðast hvar í Evrópu. Þannig heita ófá samtök Evrópusambandssinna nöfnum eins og “Bretland í Evrópu”, “Svíþjóð í Evrópu”, “Eistland í Evrópu” o.s.frv. svo ekki sé minnzt á “Evrópusamtökin”. Í ljósi þessa kemur sú spurning eðlilega upp í hugann hvers vegna slík samtök eru ekki látin heita t.d. “Bretland í ESB”, “Svíþjóð í ESB”, “ESB-samtökin” o.s.frv.?

Ástæðan fyrir þessu er í sjálfu sér ekki flókin og flestum sennilega ljós. Stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu, erlendir sem innlendir, vita einfaldlega eins vel og aðrir að Evrópusambandið hefur ekkert sérstaklega jákvæða skírskotun í hugum almennings. Það hefur ítrekað komið í ljós á undanförnum árum, bæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og skoðanakönnunum. Af þeim sökum sjá Evrópusambandssinnar sig knúna til að reyna að nota einhverja aðra beitu á almenning sem þeir telja vænlegri - og þar kemur Evrópa til sögunnar.

ESB er ekki Evrópa
Í framhaldi af þessu er þeirri firru beinlínis haldið að fólki að með því að standa fyrir utan Evrópusambandið séu viðkomandi lönd að standa fyrir utan Evrópu sem slíka. Ef ríki hins vegar gangi í Evrópusambandið séu þau að gerast aðilar að Evrópu eins hjákátlegt og það nú hljómar. Í samræmi við þetta er síðan hamrað á því að þeir sem voga sér að gagnrýni Evrópusambandið séu á móti Evrópu sem slíkri.

Staðreyndin er hins vegar sú að menn geta hæglega verið miklir Evrópusinnar þó þeir séu ekki hrifinir af Evrópusambandinu sem slíku og því að Ísland verði hreppur í hinu fyrirhugaða evrópska stórríki. Evrópusambandið og Evrópa eru einfaldlega ekki sami hluturinn í raunveruleikanum þó svo kunni kannski að vera í höfðinu á einhverjum blindum stuðningsmönnum skriffinskubáknsins í Brussel.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður í Fréttablaðinu 6. nóvember 2003)


Þurrkum Kúbu af yfirborði jarðar

Íhald.is neitar að viðurkenna tilvist Kúbu og telur að það beri að tortrýma eyjunni sem allra fyrst. Við viljum sjá heiminn án Kúbverja og viðurkennum ekki þjóðríkið Kúbu. Við hvetjum sem flesta til að hefja árásir á eyjuna og þurrki þannig út þann smánarblett sem Kúba er. Já, og eitt í viðbót, þeir sem ekki viðurkenna þessa tortrýmingarkenningu geta nú ekki átt von á góðu lífi þegar dagar þeirra hér eru taldir.

 - Það sem hér er skrifað á undan er auðvitað bara bull og ég vona nú að enginn fari að leika það eftir. En gefum okkur nú umræðunnar vegna að ég hefði meint þetta og héldi þessari skoðun minni út reglulega. Tökum málið aðeins lengra og segjum að ég sé ekki bara einhver maður úti í bæ sem hefur þessa skoðun heldur þjóðarleiðtogi sem held út þessari skoðun opinberlega og sé á sama tíma að reyna að komast yfir kjarnorkuvopn.

Segjum nú að George W. Bush bandaríkjaforseti, sem flestir vestrænir fjölmiðlar og vinstrimenn hafa af einhverjum ástæðum haldið fram að sé nú dálítið klikkaður, myndi láta hafa eftir sér að það beri að eyða Kúbu. Já, ég held það myndi heyrast hljóð úr horni. Ólafur Hannibalsson væri mættur með alla hina þrjá í Þjóðarhreyfingunni til að mótmæla þessari geðveiki forsetans. Sr. Örn Bárður myndi mæta í Silfrið til að segja að þessi maður væri nú klikkaður og honum væri stjórnað af hægri öfga mönnum sem halda fram þessari skoðun en þessi skoðun væri nú ekki samkvæmt hinni helgu bók. Stjórnarandstaðan myndi heimta að ríkisstjórnin fordæmdi þessi orð og að utanríkisráðherra sliti tafarlaust stjórnarsambandinu við Bandaríkin. Fyrstu fréttir allra fjölmiðla myndu snúast um það að nú væri forsetinn alveg genginn af göflunum. Það myndi sem sagt, allt fara á annan endann. Maður er alveg búinn að sjá kaósið fyrir sér.

Og hvað hefur Bush forseti oft verið sakaður um. Jú, hann er víst trúaður maðurinn. Já, það trúaður segja margir að hann telur sig vera í ,,heilögu stríði” til að kristna múslimaheiminn. Aftur og aftur hefur maður heyrt að hægri kristnir öfgamenn mati forsetann á einhverri endalausri vitleysu. Frægt var þegar Pat Robinson, frægur sjónvarpspredikari í Bandaríkjunum, lýsti yfir þeirri skoðun sinni fyrir stuttu að réttast væri að CIA réði Hugo Chaves, forseta Venesúela af dögum. Allt ætlaði um koll að keyra og meira að segja íslenskir fjölmiðlar sáu ástæðu til að segja fréttir af þessum skrýtnu orðum predikarans. Já, þeir eru stórhættulegir þessir predikarar.
Ekki þótti þó ástæða að taka fram í fréttunum að Hvíta Húsið fordæmdi þessi orð og tók skýrt fram að þau væru skoðun Robinsons eins og ekki forsetans.

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans sagði í ræðu í fyrradag að hann vildi að Ísraelsríki yrði „þurrkað af yfirborði jarðar“. Jafnframt neitaði hann alfarið að viðurkenna ríki gyðinga og vildi sem áður alls engin tengsl við Ísrael. Og þetta sagði hann ekki í einkaspjalli við vin sinn heldur á ráðstefnu Tehran sem bar yfirskriftina The World without Zionism eða Heimurinn án síonisma. Hann sagði einnig að, „þeir sem viðurkenna Ísrael munu brenna í heiftareldi hinnar íslömsku þjóðar.”

En Ahmadinejad hefur einnig notað trúnna máli sínu til stuðnings. Það gerði hann þó ekki nema að litlum hluta í þessari ræðu en fyrr í sumar lýsti Ahmadinejad því yfir, er hann var kjörinn forseti, að tímaskeið ,,kúgunar, einræðis og óréttlætis væri lokið” og bætti því við að senn myndi ,,íslamska byltingin ná til heimsbyggðarinnar allrar.” Embættismenn í Íran reyndu í gær að gera lítið úr orðum forsetans og sögðu að hann væri aðeins að vitna í orð erkiklerksins Ayatollah Khomeini sem vildi tortíma Ísrael.
Einmitt. Þá horfir þetta auðvitað allt öðru vísi við er það ekki?

Skemmst er frá því að segja að enginn fjölmiðill nema Mbl.is sá ástæðu til að fjalla um málið fyrr en í gær þegar flestir þjóðarleiðtogar vestrænna ríkja fóru að fordæma ræðuna opinberlega. Fyrr þótti þetta víst ekki frétt.

Kannski þykir þetta ekki frétt af því að svona ræður heyrast hvað eftir annað íslömskum ríkjum. Á hverjum föstudegi er ræðum útvarpað og sjónvarpað úr moskvum Palestínu. Þar eru ekki á ferð sjálfstæðir ,,sjónvarpspredikarar” heldur eru múslimaklerkar þeir sem flytja ræður af útrýmingu Ísraels starfsmenn heimastjórnar Palestínu.

Og hvar eru allir friðarsinnarnir núna? Í gær var framin fyrsta sjálfsmorðsárás í Ísrael í átta mánuði. Hvar er Magnús Þór núna til að fordæma þessi ofbeldisverk? Hann sem taldi sig vera talsmann friðarisns í vor.  
Hvar er Ísland-Palestína til að fordæma þennan verknað sem skaðað gæti friðarferlið á svæðinu? Vill Ísland-Palestína kannski ekki að þarna verði friður?
Hvar er stjórnarandstaðan núna? Af hverju er ekki farið fram á að ríkisstjórnin fordæmi ræðuna?
Og af hverju fordæmir nýr utanríkisráðherra ekki ræðuna?
Þarna er þjóðarleiðtogi sem stendur í stappi við Sameinuðu Þjóðirnar út af kjarnorkuáætlun lands síns og talar á sama tíma um að vilja eyða nágrannaríki sínu.
Ekkert athugavert við það, er það nokkuð?

En þeir eru stórhættulegir þessir ameríkanar, sérstaklega prédikararnir!

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia

Pylsugerð Íslenska Alþýðulýðveldinsins, sameign í þágu lands og þjóðar!

Félag Andstæðinga Markaðsafla og Áhugafólk um Pylsugerð (FAMÁP) leggur til að SS og Norðlenska verið þegar í stað þjóðnýtt, enda krefjast almannahagsmunir þess. Búa á til úr þessum fyrirtækjum Pylsugerð ríkisins. Íslenskar pylsur eru mikilvægur þáttur íslenskrar menningar, og mikilvægt er að gott pylsugerðarfyritæki í almanna eigu útvegi okkur pylsur á sem lægstu verði.

Bæði SS og Norðlenska eru einkafyrirtæki. Þau framleiða pylsur fyrst og fremst til að græða. Þau leggja því of mikið á góðmetið. Þjóðinni yrði betur borgið ef að pylsuframleiðsla yrði í höndum ríkisfyrirtækis sem ekki hefur hagnaðinn einan að markmiði sínu, og getur því selt ódýrari pylsur. Pylsugerðarfyrirtæki eiga að vera sameign okkar allra.

Er það ekki á svipuðum forsendum sem menn hafa mótmælt hverri einkavæðingunni á fætur annarri?

,,Berlínarmúrinn er löngu fallinn en þeir múrar sem hugmyndaheimur
Samfylkingarinnar hýrist innan, standa greinilega enn óbrotnir."
- Davíð Oddsson

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 24. október 2005

Eins og kunnugt er ályktaði Samband ungra sjálfstæðismanna gegn umsókn Ísland um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á þingi sínu sem haldið var í Stykkishólmi 39. september - 2. október sl. Ályktunin sem samþykkt var á þinginu var svohljóðandi:

„Ungir sjálfstæðismenn telja að hætta eigi við framboð um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Ljóst þykir að kostnaðurinn við aðildarferlið, og þá kosningarbaráttu sem heyja þarf vegna aðildar, er gríðarlegur. Jafnframt liggur fyrir að seta í ráðinu muni hafa stóraukin útgjöld til utanríkismála í för með sér sem næg þykja fyrir. Þá hefur engan veginn verið gerð nægileg grein fyrir því hvaða verkefnum Ísland mun beita sér fyrir í Öryggisráðinu eða öðrum ávinningi af setu landsins.“

Á þinginu lýsti nýkjörinn formaður SUS, Borgar Þór Einarsson, því yfir að hann hyggðist leggja fram samhljóða tillögu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og var greint frá því í fjölmiðlum að þinginu loknu. Skemmst er frá því að segja að af þessu varð þó ekki og veltir maður því eðlilega fyrir sér hvað hafi eiginlega valdið því...

---

Og í tilefni af því að forystumenn Samfylkingarinnar vilja víst endilega taka upp evru hér á landi í staðinn fyrir íslenzku krónuna. Ég hef nú áður komið inn á það á þessum vettvangi hversu fáránleg sú hugmynd er en það virðast þó engin takmörk vera fyrir því hversu misheppnuð evran er. Nú síðast var greint frá því í Financial Times að evran hefði verið einn veikasti gjaldmiðill heimsins á þessu ári. Þegar 58 helztu gjaldmiðlar heimsins voru bornir saman að þessu leyti kom í ljós að evran var aðeins í 50. sæti.

Ástæðuna fyrir þessu segir blaðið einkum vera stýrivaxtastefna Seðlabanka Evrópusambandsins og sáralítill hagvöxtur á evrusvæðinu. Vitnað er í Mario Mattera, sérfræðing í gjaldeyrismálum hjá Metzler bankanum í Þýzkalandi, sem segir að það sé hvorki útlit fyrir mikinn hagvöxt á evrusvæðinu né vaxtastig sem geti laðað að sér fjárfesta. Mattera bætti því síðan við að miklar efasemdir væru uppi um að Evrópusambandið gæti komið á þeim efnahagsumbótum sem nauðsynlegar væru til að koma evrusvæðinu á réttan kjöl.

Er þetta það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Sveinn Hannesson vilja að Ísland verði hluti af? Þetta blessaða fólk veit augljóslega ekki nokkurn skapaðan hlut hvað það er að tala um.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Aðstöðuleysi til módelsvifflugs mótmælt

Módel-svifflugfélagið Gustur mótmælir aðstöðuleysi til módel-svifflugs hér á landi. Nauðsynlegt er að reisa áttstrent fjall, í það minnsta 250 metra hátt. Toppurinn á fjallinu verður að vera sæmilega slétt gras. Bílvegur þarf að vera uppá fjallið. Með þessu væri hægt að stunda módel-svifflug í öllum vindáttum. Best væri að hið opinbera borgaði.

Enginn af meðlimum Gusts hefur sérstakan áhuga á tónlist, íslenska listdansflokknum, knattspyrnu, reiðmennsku, handbolta eða öðrum málum. Skattpeningum okkur, eins og annarra, hefur þó verið varið í aðstöðuuppbyggingu, niðurgreiðslur og styrki til þessara mála.

Öllum áhugamálum Íslendinga á að gera jafnt undir höfði, ef að veita á fé til þeirra úr opinberum sjóðum. Vegleg uppbygging knattspyrnuvalla, glæsileg tónlistarhús, reiðhallir og annað slíkt á kostnað skattgreiðanda er ekki réttlætanlegt nema að jafnræðis sé gætt. Vera má að færri hafi áhuga á módel-svifflugi en knattspyrnu og ýmsum öðrum tómstundum sem ríkisvaldið styrkir, og er það hugsanlega sökum þess að ríkisvaldið hefur ýtt undir iðkun annarra tómstunda með skattpeningum okkar í Gusti, og á kostnað útbreiðslu okkar eigin áhugamáls. Burtséð frá hversu vinsælt eða óvinsælt okkar áhugamál er (en við erum þó í það minnsta 200), þá hefur enginn rétt til að þvinga okkur til að niðurgreiða annarra manna hobbí. Við lítum þannig á að peningum okkar hafi verið stolið áratugum saman. Það er þjófnaður þegar að fjármunir eru teknir úr vasa eins, gegn vilja hans, til að nota í þágu einhvers annars.

Nú er komið að skuldadögum. Nýta skal nú opinbert fé í þágu módel-svifflugs, ellegar skal hið opinbera snúa sér að málum sem koma ríkisvaldinu við, og láta almenning huga að eigin tómstundum.

Sindri Guðjónsson


Engu gleymt og ekkert lært

,,Þetta sýnir að hann hefur engu gleymt og ekkert lært," var það sem umræðustjórnmálamaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði að segja um fráfarandi formann Sjálfstæðisflokksins eftir setningarræðu hans á landsþingi flokksins í Kastljósviðtlali s.l. fimmtudag.
Ingibjörg lét þessi orð falla þegar hún var spurð álits á fyrrnefndri ræðu.

Ekki hafði Ingibjörg fyrir því að útskýra hvað hún ætti við með þessum orðum enda er það ekki vaninn í umræðustjórnmálum að útskýra slíkt. Hún tók hins vegar ræðunni illa og vildi lítið kannast við að hlutirnir væru í ólagi hjá Samfylkingunni.

Davíð Oddsson minntist á evruna í ræðu sinni. Gagnrýndi hann Samfylkinguna fyrir að fara fram með illa undirbúið mál og fyrir að hafa staðreyndirnar ekki á hreinu. Þessu tók Ingibjörg að sjálfsögðu illa. Hins vegar eru rök hennar fyrir upptöku evrunnar engin. Ingibjörg legst á lágt plan stjórnmálanna með því að koma fram með tillögu og hefur ekkert fyrir sér í henni heldur vill hún að aðrir komi með nógu góð rök gegn henni.

Þannig segir hún sjálf í viðtalinu: ,,Og ég segi einfaldlega, og sagði þá, að það á að snúa sönnunarbyrðinni við. Það er að segja að það fólk sem telur að evran geti verið vænlegur kostur, geti aukið útflutningstekjur Íslendinga, að hún geti aukið velferð okkar, að það fólk á ekki alltaf að þurfa að sanna mál sitt heldur hinir sem vilja halda uppi þeirri viðskiptahindrunum sem felst í krónunni. Að þeir eigi að þurfa að segja okkur af hverju það sé farsælast fyrir þjóðina að halda upp þessari viðskiptahindrun.”

Það er nefninlega það. Velkomin í hugarheim umræðustjórnmála.

Já, það stendur sko ekki á henni Ingibjörgu að koma inn í efnahagsumræðuna. Hún varpar fram illa hugsuðum skoðunum og gerir gott betur, neitar að færa rök fyrir máli sínu.

Á öðrum stað í viðtalinu segir hún að Davíð sé ,,ekki stór” maður eftir ræðu sína. Það má s.s. ekki gagnrýna Samfylkinguna eða stefnu hennar og þá er maður kominn niður fyrir virðingu sína.
Takk fyrir umræðustjórnmálin.

Af Ingibjörgu er það annars að frétta að auk þess að bera upp þá tillögu að taka upp evruna helst í gær þá vill hún nú hækka skatta. Ingibjörg hefur s.s. engu gleymt frá því að hún var borgarstjóri. Hún er varla komin inn í þing þegar hún er farin að tala fyrir illa hugsuðum málefnum s.s. skattahækkunum og fl.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia

Mánudagspósturinn 17. október 2005

Nú er á enda vel heppnaður 36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Það sem stendur upp úr er án nokkurs vafa frábær setningarræða Davíðs Oddssonar, nú fyrrverandi formanns flokksins, sem hann flutti sl. fimmtudag fyrir troðfullri Laugardalshöllinni. Óhætt er að segja að ræðan hafi lagst afar vel í fundarmenn sem sáu ítrekað ástæðu til að klappa fyrir henni á meðan Davíð flutti hana og enn meira þegar flutningi hennar var lokið. Sérstaklega er mér minnisstætt mikið klapp vegna ummæla hans um Evrópusambandið sem og það hvernig Samfylkingin hefur nálgast Evrópumálin. Var í tvígang klappað á meðan Davíð fjallaði um þau mál.

Ræðu Davíðs má annars nálgast á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, bæði á textaformi sem og upptöku af flutningi hennar. Hvet ég alla til að kynna sér hana sem ekki hafa gert það nú þegar og vil ennfremur nota tækifærið til að hvetja til þess að hún verði með einum eða öðrum hætti gefin út. Það skemmir síðan ekki fyrir að ræðan hefur greinilega farið afskaplega illa í marga pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf indælt. Hafa þeir brugðist við með vandræðakenndu fálmi eins og m.a. er fjallað um í  Staksteinum Morgunblaðsins í dag.

Hafi hins vegar einhver verið í vafa um pólitíska slagsíðu Fréttablaðsins ætti sá vafi nú að vera endanlega horfinn. Í forsíðufrétt blaðsins um opnunarræðu Davíðs var lögð áherzla, ekki á ræðuna sjálfa, heldur á gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, á hana. Fyrirsögnin var tilsniðin í samræmi við það og allt eftir því. Fyrirsögnin var: „Viðbrögð við gagnrýni Davíðs Oddssonar á Samfylkinguna og forsetann: Eins og biturt fórnarlamb.“ Síðari hlutinn er tilvitnun í Ingibjörgu en ekki þótti þó ástæða til að setja það í það minnsta inn í gæsalappir heldur er því slengt upp eins og um hverja aðra staðreynd væri að ræða.

Síðan er fréttin sem vísað er til inni í blaðinu skoðuð og þar er ekki minnzt á umrædda gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar. Gagnrýninni, sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði auðvitað átt að vera algert aukaatriði, er slegið upp sem aðalatriði í stað ræðunnar sjálfrar og hvers vegna? Hver skyldi tilgangurinn með því hafa verið? Eðlileg blaðamennska? Nú er í sjálfu sér ekkert að því frá sjónarhóli blaðamannsins þó kannað væri með skoðun einhverra á ræðunni en að gera aukaatriði að aðalatriði og slá því upp á forsíðu blaðsins hefur augljóslega ekkert með fagleg vinnubrögð að gera. Þetta er ekkert annað en pólitísk misnotkun á Fréttablaðinu sem auðvitað er langt því frá að vera eitthvað nýtt.

Til samanburðar má nefna að forsíðufrétt Fréttablaðsins, um upphaf landsfundar Samfylkingarinnar sl. vor, byggðist ekki á gagnrýni Davíðs Oddssonar á setningarræðu Össurar Skarphéðinssonar. Reyndar hefði Davíð aldrei tekið þátt í slíku enda hefur hann látið þess getið að hann hafi alltaf lagt áherzlu á að láta eins lítið á sér bera í fjölmiðlum og hann hafi getað þegar aðrir flokkar hafi verið með sína landsfundi. Þetta þætti honum sjálfsögð og eðlileg kurteisi. En það er greinilega misjafnt hversu vel fólk er alið upp.

Reyndar var það svo að þó minnzt væri á setningarræðu Össurar í forsíðufrétt Fréttablaðsins daginn eftir setningu landsþings Samfylkingarinnar þá féll hún algerlega í skuggann af annarri pólitískri slagsíðu Fréttablaðsins, afdráttarlausum stuðningi þess við það að Ingibjörg Sólrún næði kjöri sem formaður flokksins. Fyrirsögnin á forsíðunni var: „Búist við sigri Ingibjargar“. Og síðan var rétt imprað á ræðu Össurar í lok fréttarinnar. Vitnað var í tvær tengdar fréttir inni í blaðinu, á bls. 4 og 16.

Maður hefði svona fyrirfram haldið að á fjórðu síðunni yrði fjallað um setningarræðu formanns flokksins en það var þó aldeilis ekki heldur var þar fjallað um ræðu varaformannsins, Ingibjargar Sólrúnar. Á bls. 16, lengst inni í blaðinu, var síðan loks fjallað um ræðu Össurar. Hvergi í blaðinu var hins vegar að finna einu einustu frétt um álit stjórnmálamanna úr öðrum flokkum á því sem fram kom í ræðum Ingibjargar eða Össurar. Einhver önnur formúla hefur greinilega verið í notkun á ritstjórnarskrifstofum Fréttablaðsins þá en raunin er í dag.

Reyndar var nálgun Kastljóssins á ræðu Davíðs á fimmtudagskvöldið sömuleiðis fyrir neðan allar hellur. Ingibjörg Sólrún var þar sem kunnugt er fengin í drottningarviðtal í sjónvarpssal til að tjá sig um ræðuna fáeinum mínútum eftir að Davíð hafði lokið flutningi hennar. Hvað hefði verið sagt ef þetta hefði verið gert í vor með öfugum formerkjum? Davíð verið fenginn í drottningarviðtal í sjónvarpssal strax eftir ræðu Ingibjargar á landsfundi Samfylkingarinnar til að segja álit sitt á henni?? Að vísu hefði Davíð aldrei tekið þátt í slíkum skrípaleik eins og áður segir.

Á eftir var rætt við Karl Th. Birgisson, blaðamann og fyrrv. framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, og Ólaf Teit Guðnason, blaðamann. Tjáði Karl sig þar um ræðuna vinstri hægri og var síðan beðinn að gefa henni einkunn í lokin af þáttarstjórnendunum þó hann hefði viðurkennt í viðtalinu að hann hefði hvorki heyrt né lesið ræðuna! Það kom þó ekki í veg fyrir að hann léti eins og hann væri sérfróður um innihald hennar og þess umkominn að gagnrýna hana á alla lund. Sá er þó auðvitað munurinn á Ríkissjónvarpinu og Fréttablaðinu í þessum efnum að um er að ræða hefðbundin vinnubrögð hjá því síðarnefnda.

En svo komið sé aftur að meðhöndlun Fréttablaðsins á ræðu Davíðs þá var hún einungis hið bezta mál þegar allt kemur til alls enda ljóst að blaðið gerði lítið annað með þessu útspili sínu en að staðfesta rækilega það sem kom fram í ræðunni um stöðu fjölmiðlamála á Íslandi sem og það sem Davíð og fleiri hafa sagt um þau mál fyrr og síðar.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Veljum íslenska vinstrimenn

Fyrirsögn þessi kann að hljóma hálf einkennilega og er vart í anda íhaldsins. Ég er ekki að leggja til að fólk fari að kjósa Vinstri-græna og Samfylkinguna. Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að íslenskir vinstrimenn hafi ákveðna kosti umfram flesta erlenda vinstrimenn. Þeir eiga það til að taka fyrirvaralausar u-beygjur til hægri í einstaka málum. Hvar annarstaðar en hér flykkjast vinstrimenn út á götur til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda til að takamarka völd auðhrings? Hvar annarstaðar finnum við vinstrimenn sem berjast gegn lögum um hringamyndun á markaði? Hinn miðju-sækni Sjálfstæðisflokkur hefur gott að smá aðhaldi frá hægri stöku sinnum, og ekki er það verra þótt aðhaldið komi frá Samfylkingunni.

Þeir Baugsmenn ættu að vita að hag þeirra er þeim mun betur borgið eftir því sem markaðurinn er frjálsari og skattar á fyrirtæki og fjármagnstekjuskattur lægri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið stór skref til að leysa markaðinn undan höftum ríkisvaldsins og hafa lækkað skatta á fyrirtæki og fjármagnstekjuskattinn svo um munar. En það má alltaf gera betur. Það er spurning hvort að þeir Baugsmenn ættu ekki að taka upp samstarf við menn hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn? Væri ekki bara ljómandi gott að veita hinu málamyndandi miðju-moðs-blaði, Mogganum, sem hvetur Sjálfstæðisflokkinn til að færa sig yfir á miðjuna í leiðurum sínum, ærlega ráðningu?

Ókeypis fréttablað inn á heimili landsins, með ærlegri hægri slagsíðu í boði Baugs, myndi gera Moggann með öllu óþarfan.

Sindri Guðjónsson


Tvöfeldni á háu stigi

Frjálslyndi flokkurinn hefur sem kunnugt er sent erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem óskað er eftir rökstuddu áliti hans á því hvort Gunnari Örlygssyni, alþingismanni, hafi verið heimilt að segja skilið við flokkinn sl. vor og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Vilja frjálslyndir meina að þingsæti Gunnars sé flokksins en ekki hans og honum hafi því ekki verið heimilt að flytja það með sér yfir í raðir sjálfstæðismanna og þannig styrkja þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar.

Sigurður Líndal, lagaprófessor, tjáði sig um þetta uppátæki Frjálslynda flokksins í fréttum Bylgjunnar 5. október sl. og sagðist efast stórlega um að málið væri tækt til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Stjórnarskrá lýðveldisins væri alveg skýr hvað þessa hluti varðaði, þingmenn væru ekki bundnir af öðru en eigin sannfæringu.

Sagðist Sigurður undrast erindi frjálslyndra í ljósi þessa. Það væri alveg skýrt af ákvæðum stjórnarskrárinnar að Gunnari hefði verið heimilt að yfirgefa Frjálslynda flokkins og ganga til liðs við annan. Í 48. grein stjórnarskrárinnar segir orðrétt: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir að sannfæringu sinni og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Eins og ég hef annars fjallað um áður hér á Íhaldinu er nálgun Frjálslynda flokksins á þessu máli öllu hin undarlegasta. Á sama tíma og frjálslyndir hafa hamast gegn Gunnari fyrir að hafa sagt skilið við sig og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn sáu þeir ekkert að því á sínum tíma – og sjá ekki enn – að Ólafur F. Magnússon skyldi segja skilið við borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna í lok árs 2001 og ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn í kjölfar þess.

Ólafur hefði auðvitað átt, samkvæmt formúlu frjálslyndra, að segja af sér sem borgarfulltrúi í stað þess að halda embættinu enda væntanlega skoðun þeirra að það hafi verið Sjálfstæðisflokksins en ekki Ólafs, ekki satt? Nei, það gilda víst einhverjar aðrar formúlur í herbúðum Frjálslynda flokksins þegar slíkt beinist gegn öðrum en þeim sjálfum.

Annað dæmi um þessa tvöfeldni má nefna en það var fyrir ári síðan þegar Kristinn H. Gunnarsson var settur út úr öllu þingnefndarstarfi á vegum Framsóknarflokksins. Þá báru formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna víurnar í hann og buðum honum að ganga til liðs við sig. Þá þótti ekkert að því þó þingmaður færði sig um set yfir í annan flokk vegna þess að honum þætti óbærilegt í eigin flokki því það hefði komið niður á ríkisstjórninni.

Það nýjasta í þessum efnum eru upphrópanir sumra um að Gunnar ætli sér að koma í veg fyrir að varamaður hans geti tekið sæti á Alþingi í vetur. Síðan hvenær eiga varaþingmenn einhverja heimtingu að taka sæti á Alþingi? Þetta eru varaþingmenn sem einungis er ætlað að hlaupa í skarðið ef svo illa vill til að viðkomandi þingmenn geti ekki sinnt störfum sínum sem skyldi. Í gegnum tíðina hafa ófáir varaþingmenn aldrei tekið sæti á Alþingi án þess að ástæða hafi þótt til að gera sérstakt mál út af því. En nú þykir allt í einu ástæða til þess.

Ég held að það sé ekkert nema gott um það að segja ef Gunnar hyggst leggja sig fram við að sinna vinnunni sinni í vetur eins og hann á að gera. Ég næ ekki þeim málflutningi að hann sé með því að svína á einhvern eins og sumir hafa viljað orða það. Varaþingmenn eiga einfaldlega enga kröfu um að taka sæti á þingi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Mánudagspósturinn 10. október 2005

Niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna voru einkar ánægjulegar. Sjálfstæðisflokkurinn mældist þar með 44% fylgi og hafði þá farið upp um heil átta prósetustig frá því mánuði áður. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um það hverju þetta sætti og margir viljað tengja það við breytingar á forystu flokksins. En hvað sem þessu veldur eru þetta ánægjulegar fréttir og verður fróðlegt að fylgjast með næstu könnunum.

En það er annað sem vakti ekki síður athygli í þessari skoðanakönnun en góður árangur Sjálfstæðisflokksins. Fylgi Samfylkingarinnar heldur nefnilega áfram að minnka eins og raunin hefur verið frá því í vor þegar formannsskipti urðu í flokknum og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við taumunum. Mér skilst að ástæða þess að skipt var um manneskju í brúnni hafi verið óánægja margra flokksmanna með fylgi Samfylkingarinnar.

Samfylkingin ætlaði sér að verða stærsti stjórnmálaflokkur landsins eftir síðustu alþingiskosningar sem kunnugt er en það gekk ekki eftir frekar en önnur markmið hennar fyrir kosningarnar. Flokkurinn fékk þá aðeins 31% fylgi og náði því ekki þeim 35 prósenta múr sem talað var um að ná þyrfti. Sá múr var reyndar færður niður í 30% rétt fyrir kosningarnar þegar sýnt þótti að Samfylkingin myndi ekki standa undir þeir væntingum að komast yfir 35 prósentin.

Um það leyti er Ingibjörg Sólrún tók við sem formaður Samfylkingarinnar í maí sl. mældist fylgi flokksins 34%, í júní mældist það 33%, í júlí 32% og í ágúst var það svo komið niður í 30%. Í síðustu skoðanakönnun Gallup fyrir september var fylgi flokksins svo aðeins 29% og verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig næstu kannanir verða í þessu sambandi líka. Ef fylgið heldur áfram að lækka – og jafnvel þó það stæði bara í stað á þessum slóðum – hljóta menn að spyrja sig að því hvers vegna þeir hafi eiginlega verið að skipta um foringja í flokknum?

Ekki veit ég nákvæmlega frekar en aðrir hvers vegna fylgi Samfylkingarinnar hefur stöðugt farið lækkandi undanfarna mánuði en það er engu að síður nokkuð ljóst að Ingibjörg Sólrún hefur ekki beint verið að slá í gegn þann tíma sem liðinn er síðan hún var kjörin formaður flokksins. Hún hefur gert hvert axarskaftið á fætur öðru og má þar m.a. nefna algerlega misheppnaða og tilefnislausa gagnrýni á það hvernig staðið var að sölu Landssímans nú í sumar.

Ingibjörg Sólrún hefur komið manni fyrir sjónir sem ráðvilltur og örvæntingarfullur stjórnmálamaður síðan hún tók við taumunum í Samfylkingunni og skyldi engan undra. Ég var persónulega mjög ánægður með það að hún skyldi verða kosin sem formaður flokksins enda er ég sannfærður um að hún sé að mestu útbrunnin sem stjórnmálamaður og standi engan veginn undir þeim vætningum sem gerðar eru til hennar. Fyrir utan það að Samfylkingin með hana sem formann er langtum ólíklegri til að verða aðili að ríkisstjórn en ella.

Síðasta útspil Ingibjargar og Samfylkingarinnar er dæmigert fyrir þá örvæntingu sem virðist fara vaxandi innan flokksins, þ.e. að lýsa því yfir að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Hver vill ganga í Evrópusambandið núna eins og staðan er þar innanborðs bæði pólitískt og efnahagslega og bara að öllu leyti??? Það er allt í bullandi krísu þarna sem enginn sér fyrir endann á. Sennilega verstu krísu sem sambandið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir.

Og evran? Evran er gangandi lík ef marka má sífellt fleiri virta aðila í alþjóðlega fjármálageiranum. Ber þar einkum að nefna annan stærsta banka heimsins, HSBC í London. Bendi að öðru leyti á nýlega grein eftir mig hér á Íhaldinu sem ég reit fyrir skemmstu um evruna og slæma stöðu hennar. Rétt er þó að geta þess að þar var aðeins stiklað á því helzta í því sambandi og er engan veginn um tæmandi yfirlit að ræða um það svartnætti sem evran er stödd í og raunar verið meira eða minna stödd í síðan hún var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill í byrjun árs 2002.

Og Samfylkingin ætlar víst að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi á næstunni um að kannaðir verði kostir og gallar þess að taka upp evruna hér á landi. Bíddu, starfrækir forsætisráðuneytið ekki sérstaka nefnd um Evrópumálin þar sem Samfylkingin hefur sína fulltrúa? Hvers vegna leggur flokkurinn þá ekki fram þessa tillögu í þeirri nefnd sem sérstaklega var sett á laggirnar til að kanna þetta mál og hefur kannski nú þegar gert það?

Annars er Samfylkingunni meira en frjálst mín vegna að óska eftir því, hvort sem það er á Alþingi eða annars staðar, að kannaðir verði kostir og gallar þess fyrir Ísland að taka upp evruna. Engar líkur geta talizt á að niðurstaða slíkrar athugunar yrðu Ingibjörgu Sólrúnu og co. að skapi sé faglega og eðlilega að því verki staðið.

Eins og áður segir er ekki nóg með að evrusvæðið sé á góðri leið með að verða ein rjúkandi rúst heldur liggur fyrir að upptaka hennar hér á landi myndi engan veginn henta íslenzku efnahagslífi. Auk þess sem evran verður ekki tekin upp hér á landi nema samhliða aðild að Evrópusambandinu með öllum þeim ókostum sem slíkur gjörningur myndi hafa í för með sér fyrir Ísland.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Næsta síða »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband