Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 26. desember 2005

Einhverjir kunna að hafa haldið (eða kosið að halda) að óeirðirnar í úthverfum franskra borga, sem stóðu hvað hæst í síðasta mánuði, hafi verið eitthvað sem bundið væri við Frakkland. Það er þó langt frá því að vera svo. Það eru til hverfi í flestum borgum í Vestur-Evrópu sem fólk veigrar sér við að fara inn í, þá ekki sízt vegna ofbeldis. T.a.m. í Stokkhólmi. Það fékk mikla athygli byrjun síðasta mánuðar þegar Nalin Pekgul, formaður Kvennasamtaka sænska Jafnaðarmannaflokksins, lýsti því yfir í viðtali við sænska ríkisútvarpið að hún og fjölskylda hennar hefðu ákveðið að flytja úr úthverfinu Tensta í Stokkhólmi.

Pekgul hafði búið í Tensta í 25 ár eða allt frá því hún kom fyrst til Svíþjóðar árið 1980 sem flóttamaður frá Kúrdistan 13 ára gömul. Hún er velþekktur stjórnmálamaður í Svíþjóð og var t.a.m. þingmaður á sænska þinginu fyrir jafnaðarmenn 1994-2002. Ástæða þess að Pekgul og fjölskylda hennar – eiginmaður og tvö börn – ákváðu að flytja frá Tensta er sú að trúaröfgar og ofbeldi hafa færst í aukana í hverfinu sem er að mestu leyti byggt innflytjendum. Hún sagði ennfremur í samtali við sænska ríkisútvarpið að hún teldi fjölskyldu sína ekki örugga lengur í hverfinu.

Hér fer á eftir þýðing á frétt sænska ríkisútvarpsins um viðtalið við Pekgul:

„Nalin Pekgul, þekktur jafnaðarmaður og talsmaður úthverfa sem að miklu leyti eru byggð innflytjendum, er að yfirgefa sitt eigið úthverfi Tensta vegna þess að hún telur að það sé orðið of óöruggt. „Tensta hefur orðið of hættulegt fyrir börnin,“ segir hún. ... Hún segir í samtali við P1 Studio Ett að ástæða þess að hún vilji flytja sé vaxandi ofbeldi og bókstafstrú í Tensta. Kornið sem fyllti mælinn var atvik sem átti sér stað í tengslum við markaðstorgið í Tensta sl. haust þar sem maður var særður skotsárum stutt frá heimili fjölskyldunnar. „Ég var á leið heim með syni mínum. Það var blóð úti um allt. Það er ekkert gamanefni fyrir átta ára gamalt barn að þurfa horfa upp á slíkt,“ segir Nalin Pekgul. Talið er að maðurinn hafi lifað af vegna þess að hann var í skotheldu vesti. Það veldur Nalin Pekgul einnig áhyggjum. „Ég gerði mér grein fyrir því þá að margir klæðast skotheldum vestum hér. Hvað hefur gerst hér hugsaði ég. Er þetta Tensta? Ég hlýt að hafa misst af því sem var að gerast hér á undanförnum árum.“

Nalin Pekgul segir að hún forðist að koma heim seint að kvöldi núorðið. „Einhver verður alltaf að koma til móts við mig á neðanjarðarlestarstöðinni ef ég kem seint heim,“ segir hún. ... Nalin Pekgul, sem er múslimi sjálf, hefur einnig tekið eftir því að íslömsk bókstafstrú hefur vaxið fiskur um hrygg í Tensta. Börnin hennar koma heim og furða sig á því að hún skuli ekki klæðast hijab og að fjölskyldan skuli ekki fara í mosku. Þau hafa einnig heyrt að múslimar séu betri en kristnir. „Mér líkar það ekki þegar sonur minn kemur heim og segir: „Mamma, við múslimar ljúgum ekki, en það gera kristnir því þeir eru guðlausir.“ Hann hefur þetta ekki frá okkur. Við gerðum ekki ráð fyrir þessum trúaröfgum,“ segir hún. Nalin Pekgul og fjölskylda hennar eru nú að leita að húsnæði í meira blönduðu hverfi af bæði innflytjendum og innfæddum Svíum.“

Hjörtur J. Guðmundsson
Hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband