Leita í fréttum mbl.is

Þarf sérstök lög um fjölmiðla?

Um fjölmiðla eiga aðeins að gilda sömu lög og sett eru á önnur fyrirtæki. Fjölmiðlar þurfa að lifa við framboð og eftirspurn eins og allar aðrar neysluvörur. Alveg eins og eigendum Myllunnar er heimilt að ákveða sjálfir hvernig brauð þeir framleiða er eigendum fjölmiðla heimilt að ákvarða rekstur og ritstjórnarstefnu sína. Myllan þarf hins vegar að gera grein fyrir því hvað vörur þeirra innihalda og gefa upp grundvallar-upplýsingar um vöru og starfssemi sína. Það sama þarf að gilda um fjölmiðla. Hafa skal í huga að umræðan um ritstjórnarstefnu fjölmiðla annars vegar og eignarhalds á fjölmiðlum hins vegar er ekki sami málaflokkurinn.

En hver veittir fjölmiðlum aðhald? Svarið liggur auðvitað í því að það eru neytendurnir sjálfir sem veita þeim aðhald eins og öllum öðrum fyrirtækjum. Ef einstaklingur er óánægður með Húsasmiðjuna verslar hann í Byko, ef hann er óánægður með Krónuna verslar hann í Bónus og svo framvegis. En þá vaknar spurningin, en ef það er ekkert val?

Ef svo bæri til að einn aðili næði hér eignarhaldi á öllum fjölmiðlum er auðvitað komin upp staða sem væri óbærileg til skamms tíma litið. Hér skal viðukennt að það eru jú fjölmiðlar sem stjórna meira og minna umræðunni í landinu þó að ekki sé dregið úr afstöðu minni til þess að þeir séu ekki fjórða valdið. En það væru ekki eðlilegar aðstæður á þjóðmálaumræðunni ef henni væri stjórnað af einum manni eða einu fyrirtæki. Slíkar aðstæður hafa komið upp fyrir utan fjölmiðlamarkaðinn. Icelandair var um tíma eina flugfélagið sem hélt uppi áætlunarflugi til og frá Íslandi. Ekki voru sett sér lög um flugsamgöngur til og frá landinu vegna þessa. Hins vegar leysti markaðurinn úr þessu sjálfur þegar komið var á fót flugfélagi í samkeppni við Icelandair. Það sama gildir um fjölmiðla. Þess vegna ber stjórnvöldum að tryggja það að hér sé svigrúm til frjálsrar samkeppni. Það gera þau með því að setja samkeppnislög og hafa sem mest frelsi fyrir menn til að athafna sig.

Ef hér á landi væri aðeins starfandi ein matvöruverslun þá er það markaðarins að skera úr um hvort þörf sé á fleirum eða ekki. Ef starfræktar eru tvær verslanir en aðeins eftirspurn eftir einni er það neytenda að skera úr um hvor það er sem starfar áfram. Ekki er hægt að koma í veg fyrir (nema með sérstakri lagasetningu) að einn aðili eignist meirihluta fjölmiðla en hafa skal í huga að magn fjölmiðla takmarkast ekki við þá sem nú koma út. Ef einhver er ósáttur við að einn aðili eignist alla þá fjölmiðla sem nú koma út ætti sá hinn sami að stofna fjölmiðil og auka þannig framboð á fjölmiðlum. Um þessar mundir koma til að mynda út fjögur dagblöð. Ef einhver hefur hug á að bæta því fimmta við munu neytendur sjálfir skera úr um hvort að þörf sé á fimm dagblöðum. Nú, ef ekki þá þarf væntanlega eitt eða fleiri dagblað að víkja af markaðnum. Þá er það einnig neytenda að skera úr um hvaða blað það verður. Þetta er aðeins gróft dæmi um frjálsa samkeppni.

Starfsheiður fjölmiðlamanna
Það ætti að vera kappsmál hvers fjölmiðlamanns að vera góður í starfi sínu. Hver fjölmiðlamaðurinn á fætur öðrum á Íslandi hefur sagt ef eigendur fjölmiðilsins sem hann starfaði fyrir myndi skipta sér af fréttaflutningi að þá myndi hann/hún ganga út. Þetta hjómar allt saman mjög vel ef satt reynist en hins vegar hefur annað komið á daginn. Nú er ekki óeðlilegt þó að eigendur móti ritstjórnarstefnu síns fjölmiðils. Hins vegar væri það óásættanleg vinnuaðstaða fyrir fréttamenn ef eigendur skiptu sér í sífellu af einstaka fréttum þeirra. Þeir blaða- og fréttamenn sem starfa á íslenskum fjölmiðlum vita það einir hvort að svo sé eða ekki. En það ætti að vera metnaður hvers fjölmiðlamanns að vanda verk sín og vinna þau af kostgæfni, heiðarleika og sanngirni. Það gerir hann sjálfan og fjölmiðilinn sem hann vinnur á traustverðan og eykur virðingu hans. Enginn fjölmiðlamaður vill vera þekktur fyrir að hlýða yfirskipun eigenda fjölmiðilsins. Hins vegar er það alveg ljóst að blaðamenn flytja ekki neyðarlegar fréttir af eigendum sínum. Þeir verða því sjálfir að meta hvernig þeir vernda starfsheiður sinn.

Ólafur Teitur Guðnason skrifar vikulega pistla í Viðskiptablaðið þar sem hann gagnrýnir ýmsa starfshætti fjölmiðla og veitir þeim þar vissulegt aðhald. Hann er vel að því kominn þar sem hann er sjálfur reyndur blaðamaður og þekkir því til verka. Það er hins vegar athyglisvert að flestir þeir sem orðið hafa fyrir gagnrýni af hans hálfu hafa tekið því illa og gefið í skyn að þar sé vegið að starfsheiðri þeirra. Fæstir hafa þó geta hrakið gagnrýnina. Það er nauðsynlegt fyrir fjölmiðlamenn að fá gagnrýni innan frá eins og pistlar Ólafs Teits eru dæmi um.

En fyrst og fremst eru það neytendur sem veita fjölmiðlunum aðhald. Fjölmiðar hafa aðeins þá ábyrgð að gera sig trúverðuga í augum neytenda og það gera þeir væntanlega með heiðarleika, hreinskilni og vandvirkni. Ef vandamál koma upp á fjölmiðlamarkaði mun markaðurinn sjálfur sjá um að refsa þeim sem gerast brotlegir og verðlauna þá sem vinna samkvæmt lögum og reglum.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband