Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2005

Mánudagspósturinn 31. janúar 2005

Róbert Marshall lét af störfum hjá Stöð 2 fyrir helgi eftir að hafa haldið því fram í fréttum stöðvarinnar að kvöldi 26. janúar sl. að Ísland hefði verið komið á lista „hinna viljugu og staðföstu þjóða“ áður en ríkisstjórnarfundur var haldinn 18. mars 2003. Hafði hann mislesið dagsetningar í tveggja ára gamalli frétt frá CNN og þar af leiðandi dregið rangar ályktanir um það hvenær stjórnvöld hefðu lýst yfir stuðningi við innrásina í Írak.
Sagðist Róbert með uppsögn sinni vilja axla ábyrgð á mistökum sínum og að ljóst væri að með áðurnefndri frétt hefði trúverðugleiki hans skaðast og að eina leiðin til að takast á við þann veruleika væri að segja starfi sínu lausu. Hann sagðist þó hafa í hyggju að gegna formennsku í Blaðamannafélagi Íslands áfram. Er það auðvitað vel að menn axli ábyrgð sína. Sumir hafa þó haldið því fram að í raun bæri Páli Magnússyni, fréttastjóra Stöðvar 2, að gera slíkt hið sama vegna ábyrgðar sinnar sem yfirmanns Róberts.

Nú gæti annars einhverjum dottið í hug að spyrja að því hvort Róbert hefði ekki verið þegar búinn að glata trúverðugleika sínum vegna framkomu hans í fjölmiðlamálinu á síðasta ári? Eins og kunnugt er fór hann þar fremur óðslega, þá einkum við að safna undirskriftum gegn fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hvatti hann þar samherja sína á völdum fjölmiðlum ekki aðeins til að hringja, djöflast og láta öllum illum látum við að safna undirskriftunum heldur einnig til að fá fólk til að skrifa undir jafnvel þótt það væri hlynnt frumvarpinu eins og greint var frá á sínum tíma í því ágæta vefriti Vefþjóðviljanum.

Á föstudaginn skilst mér síðan að Róbert hafi sagt í fréttum Stöðvar 2 að hann teldi að áfram þyrfti að ýta á ríkisstjórnina í Íraksmálunum því ekki væru öll kurl komin til grafar. Eitthvað segir manni að þarna hafi hann komið aðeins upp um sig og að í þessum orðum sé kannski að einhverju leyti að finna skýringu á flumbruganginum við gerð fréttarinnar um stuðning ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak?

---

Utanríkismálanefnd Alþingis ákvað á föstudaginn að hætta að dreifa fundargerðum til þeirra 32 einstaklinga sem hafa fengið þær hingað til. Samkvæmt fréttatilkynningu frá nefndinni er þetta gert til að tryggja sem besta meðferð trúnaðargagna en á skömmum tíma hafi tvisvar komið upp tilvik sem varði meðferð á trúnaðarupplýsingum. Er ekki laust við að maður furði sig á að fullorðnum einstaklingum sé ekki treystandi til að halda trúnað og þá ekki sízt þegar um er að ræða upplýsingar sem varða þjóðaröryggi. Þetta er að öðru leyti sambærilegt þegar stefnuræðum forsætisráðherra var lekið í fjölmiðla. Þetta er auðvitað til algerrar skammar!

Þegar stefnuræðum forsætisráðherra var lekið á sínum tíma í Stöð 2 var t.a.m. bent á það á Vefþjóðviljanum að einhvers staðar í þingsölum Alþingis sæti þingmaður sem vissi að um leið og fréttamönnum stöðvarinnar þóknaðist að opna munninn þá væri hann fokinn. Stöð 2 væri komin með sinn eigin vasaþingmann. Spurning er hvort það hafi verið umræddur vasaþingmaður sem lak upplýsingum um fundi utanríkismálanefndar í Fréttablaðið? Ég vona allavega svo sannarlega að það séu ekki margir á Alþingi með slíkt ömurlegt innræti.

---

Og fleira gerðist í vikunni. Þessi fróðlegu orð voru t.a.m. látin falla: „Þessi ríkisstjórn er búin að sitja allt of lengi. Hún er orðin löskuð og geðstirð eftir ýmis erfið mál og menn virðast ekki lengur hafa neinn áhuga á því sem þeir eru að gera.“ Þetta sagði engin önnur en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í viðtali við Fréttablaðið þann 27. janúar sl. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem hún og fleiri kratar hafa sagt eitthvað í þessa veru, en mín spurning er hins vegar þessi: Ef þetta er skoðun Ingibjargar á ríkisstjórninni, hvað þá með R-listann? Það vill nefnilega svo skemmtilega til að hann hefur stjórnað Reykjavíkurborg ári lengur en núverandi ríkisstjórn hefur stjórnað landinu eða frá árinu 1994. Og ef ríkisstjórnin er löskuð eftir mörg erfið mál, hvað má þá segja um R-listann?

---

Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar fóru fram Í Írak í gær og var kosningaþátttakan um 60% sem er fram úr björtustu vonum. Einkum með það í huga að andstæðingar lýðræðislegrar þróunar í Írak reyndu allt til að reyna að koma í veg fyrir þær og höfðu m.a. hótað þeim dauða sem létu sjá sig á kjörstað. Þeir létu heldur ekki sitja við orðin ein og myrtu a.m.k. 44 með árásum á kjörstaði, þar af voru níu sjálfsvígstilræðismenn. Það er vonandi að þetta verði upphafið að því að það takist að koma á stöðugleika og friði í landinu.

---

Og svo er það að lokum hið verðandi evrópska sambandsríki í austri. Greint var frá því í fréttum fyrir helgi að efnahagur Evrópusambandsins væri í tómu tjóni og ekki útlit fyrir að aðildarríki sambandsins stæðu undir væntingum í þeim efnum. Hvað er nýtt? Evrópusambandið setti sér það markmið árið 2000 að verða öflugasta, upplýstasta og samkeppnishæfasta markaðssvæði heimsins árið 2010. Flestir eru þó sammála um að sambandið sé lengra frá því markmiði í dag en það var árið 2000, þ.á.m. ófáir forystumenn Evrópusambandsins sjálfs. Fyrirheitna landið?

Hjörtur J. Guðmundsson


Þegar Hafdís fór til Valhallar

Ég er áhugamaður um stjórnmál og les reglulega pólitískar síður, þ.á.m. vefrit Ungra Jafnaðarmana, Pólitík.is. Sjaldan er ég nú sammála skrifum Ungra Jafnaðarmanna en kann þó að meta að ungt fólk noti fjölmiðla, (t.a.m. netið) til að koma á framfæri pólitískum skoðunum sínum og hugmyndafræði.

En síðustu helgi rakst ég hins vegar á grein eftir Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur þar sem fjallað var um sýningu á myndinni Fahrenhype 9/11 sem fram fór í Valhöll 13. janúar sl. Sjálfur var ég á þessari sýningu og eftir að hafa lesið grein Hafdísar fór ég að efast um að við hefðum verið á sömu sýningu. Ég man allavega að mörgu leyti allt öðruvísi eftir ýmsu sem Hafdís nefnir í grein sinni og get ég því ekki orða bundist með að gera nokkrar athugasemdir í þeim efnum. Ég sé mig tilneyddan til að svara þessari grein þar sem Hafdís Erla segir í flestum tilfellum rangt frá og notar á sama tíma vefritið Pólitík.is til að ráðast með ósanngjörnum hætti á Unga Sjálfstæðismenn.

Fyrir það fyrsta er ekki hægt að skilja grein Hafdísar öðruvísi en að einungis hafi einstaklingar úr röðum repúblikana komið fram í myndinni.
Þetta er ekki rétt enda komu ýmsir demókratar þar einnig fram, þ.á.m. Ed Koch, sem var borgarstjóri New York-borgar frá 1978 til 1989 fyrir demókrata og sat þar áður í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrataflokkinn og Zell Miller, sem er öldungardeildarþingmaður fyrir Demókrataflokkinn og fyrrverandi ríkisstjóri Georgíu. Einnig mætti nefna til sögunnar Dick Morris, sem hefur starfað fyrir báða flokkana en er þekktastur fyrir að hafa verið kosningastjóri Bills Clintons í forsetakosningunum 1996.

Hafdís nefnir einmitt Zell Miller til sögunnar í grein sinni, suðurríkjamanninn með kúrekahattinn sem staddur var á sveitasetri sínu. Hún hefur sennilega gleymt að nefna að hann væri demókrati sem annars kom alveg skýrt fram í myndinni. En gott og vel. Hafdís gagnrýnir líkingarmynd sem Miller dróg upp um að s.l. sumar hafi hann orðið var við eitraðan snák í garði sínum og án þess að taka málið fyrir nefnd eða eitthvað því um líkt þá drap hann snákinn með skóflu. Það er ekki óalgengt að fólk noti líkingarmyndir til að lýsa kenningum, atburðum, lífsháttum og svo frv. Það að Hafdís taki því þannig að hann hefði viljað berja og drepa hryðjuverkamenn með skóflu er bæði barnalegt og segir meira um tilgang skrifa hennar heldur en lýsingarmynd þingmannsins.

Lýsing Hafdísar á veru sinni í Valhöll þetta umrædda kvöld er annars mjög dramatísk, eins og t.d. þegar hún talar um að hún hafi sigið niður í „leðurklætt Valhallarsætið og sundlað" vegna þess að myndin fór eitthvað illa í hana. Þó það sé nú út af fyrir sig aukaatriði þá er sá galli á þessari frásögn að sætin í fundarsalnum í Valhöll eru alls ekki leðurklædd. Það má vel vera að þetta sé ekki viljandi gert hjá henni en ég stórefa það að hún hafi setið í sama sætinu í um þrjá tíma og ekki tekið eftir því hvort að það hafi verið leðurklætt eða ekki. Fyrir utan það eru venjulegir „samkomustólar” sjaldnast úr leðri. Hafdís reynir á þennan hátt að draga upp dökka mynd að starfi Sjálfstæðisflokksins.

Hafdís leggur mikla áherslu á það í grein sinni hversu mikilvægt sé að vera málefnalegur sem er auðvitað sjónarmið sem ég get tekið fullkomlega undir. En það er oft auðveldara að ráðleggja öðrum góða siði en að tileinka sér þá sjálfur. Hún talar um að sá fyrsti sem tekið hafi til máls í umræðunum eftir sýningu myndarinnar hafi talað um að nauðsynlegt væri að kynna sér báðar hliðar svo hægt væri að mynda sér rökstudda skoðun.
En síðan hafi þessi einstaklingur, sem Hafdís segir hafa verið SUS-ara, lýst því yfir að „afturhaldskommatittir hefðu sko engan áhuga á að kynna sér eitt eða neitt sem ekki samræmdist þeirra þröngsýnu skoðun," og bætt við að hann þyrði að veðja að það væri enginn jafnaðarmaður í salnum. Síðan hafi hann hlegið „svo undir tók í Valhöll."
Enn vantar ekki dramatíkina. Gallinn er bara sá að þetta er ekki rétt.

Í fyrsta lagi þekki ég þennan strák og veit fyrir víst að hann er ekki meðlimur í SUS þó Hafdís gefi sér að svo sé. Í annan stað notaði hann aldrei hugtakið „afturhaldskommatittur" og í þriðja lagi sagði hann einfaldlega að hann ætti ekki von á því að t.d. margir ungir jafnaðarmenn hefðu áhuga á að sjá Fahrenhype 9/11 miðað við þau viðbrögð sem hann hefði fengið við myndinni frá fólki sem hann þekkti á vinstrivængnum. Það getur hins vegar passað að hann hafi sagt eitthvað á þá leið að hann þyrði að veðja að enginn ungur jafnaðarmaður væri í salnum en ekki varð ég var við að hann hefði hlegið eitthvað sérstaklega að því, hafi hann gert það, og alls ekki á jafn dramatískan hátt og ætla má af grein Hafdísar. Það hefði varla farið framhjá manni. Hver tilgangur Hafdísar er með því að bæta þarna inn „afturhaldskommatittur” veit ég ekki. Dæmi hver fyrir sig.

Hins vegar tók Hafdís til máls nokkru síðar og sagðist vera ungur jafnaðarmaður og því væri a.m.k. einn slíkur þarna. Brást þessi kunningi minn við því með því að brosa og segja: ,,Jæja...," sem ég skildi sem svo að hann viðurkenndi að hafa hlaupið á sig (og reyndar sagði hann við mig og fleiri síðar um kvöldið að hann hefði verið full fljótur á sér þarna). Við þetta hló hins vegar allur salurinn hins vegar.
En hver er annars munurinn á því að gefa sér að engir ungir jafnaðarmenn væru í salnum og því að gefa sér að umræddur einstaklingur væri í SUS? Ég sé hann ekki. Þannig að kannski Hafdís ætti að líta sér aðeins nær áður en hún skammar aðra fyrir að vera ómálefnalegir?

Síðan segist Hafdís hafa verið í vonlausri stöðu í umræðunum eftir myndina vegna þess að hún hafi verið eina stelpan. Það er heldur ekki rétt þar sem t.a.m. hún sat við hliðina á vinkonu sinni en fyrir utan það, hvað kom kynferði fólks málinu við þarna?
Það voru alveg greinilega nokkrir þarna á hliðstæðri bylgjulengd og hún og hefði maður haldið að það væri það sem máli skipti í þessu sambandi, skoðanir fólks, en ekki kyn þess. Síðan segir Hafdis að hún hafi líka verið eini „afturhaldskommatitturinn" á svæðinu, en hún hafi nú ekki látið það neitt á sig fá og hellt sér út í „brennheitar umræður við SUSarana um Íraksstríðið, áróður og Bush." Reyndar notaði hún ekki orðið „afturhaldskommatittur” þetta kvöld heldur sagðist hún einfaldlega vera jafnaðarmaður.
Þarna gengur hún s.s. enn lengra og gefur sér að allir þarna, aðrir en hún, hafi verið meðlimir í SUS. Varla verður þetta skilið öðruvísi, nema hún hafin algerlega hunsað aðra þarna. Annars mætti halda á allri greininni að hún væri tilraun til að gera einhvern píslarvott úr greinarhöfundinum.

Annar félagi minn sem þarna var staddur minntist á íslamfasisma, og útskýrði það að hin fasísku öfl eins og Al-Quada og skyldir hópar væru að misnota sér nafn Íslam, og höfðuðu til fátækra, lítt upplýstra hópa oftasts ungs fólks með hatri sínu á vesturlöndum og lýðræðis og frelsisgildum þeirra. Hér var alls ekki átt við Íslam almennt, eða hin ýmsu íslömsku lönd og ríkisstjórnir þeirra, eins og Hafdís ýjar að. Baráttan er ekki milli kristni og Íslam, og var alls ekki átt við það – það þarf reyndar ótrúlegt hugmyndaflug og fyrirfram gefnar skoðanir á mönnum og málefnum til að komast að þeirri niðurstöðu – heldur milli öfgaafla sem berjast í nafni Íslam gegn öllum vestrænum menningar og lýðræðisgildum annars vegar og hins vegar frelsisþenkjandi íbúa allra landa.

Jæja, ekki þarf að lengja þetta mál mikið meira. Þó svo að Hafdís Erla hafi komið á áhugaverða bíósýningu hjá Sambandi Ungra Sjálfstæðismanna, farið síðan heim til sín og logið upp grein um atburðarásina gef ég mér ekki að allir Ungir Jafnaðarmenn myndu gera slíkt. Skrif hennar eru ómálefnaleg á allan hátt og einkennast af barnaskap.
Það er eitt að takast á á pólitískum vettvangi og skiptast á skoðunum en annað að búa til sögur, reyna að sverta sína pólitísku andstæðinga með lygum og tilbúningi. Ég vona að Ungir Jafnaðarmenn og ritsjórn Pólitík.is fari ekki að starfa á þeim vettvangi sem Hafdís Erla leggur þarna upp með heldur haldi áfram að veita okkur Sjálfstæðismönnum harða samkeppni í málefnaskoðunum og verði áfram verðugur og sanngjarn andstæðingur. Í framhaldi af því geta ungliðahreyfingarnar og aðrir notað vefrit sín til að takast á málefnalegan og sanngjarnan hátt og þurfa ekki að eyða dýrmætum tíma í að skrifa og svara á þessum grundvelli sem hér hefur verið gert.

Gísli Freyr Valdórsson


Mánudagspósturinn 24. Janúar 2005

Hin sjálfskipaða Þjóðarhreyfing fjögurra einstaklinga birti margumrædda auglýsingu sína í bandaríska blaðinu The New York Times sl. föstudag. Þar var þess m.a. krafizt að Ísland yrði tekið af listanum yfir þau ríki sem studdu innrás bandamanna í Írak fyrir hálfu öðru ári síðan. Þar var það ennfremur fullyrt að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu brotið lög með því að taka þá ákvörðun að styðja innrásina án samráðs við Alþingi. Daginn eftir var greint frá því á Mbl.is að þessi listi væri ekki lengur til samkvæmt fréttum Reuters fréttastofunnar og að hann hefði ekki verið notaður í marga mánuði. Bandarísk stjórnvöld hefðu tekið nýjan lista í gagnið, um það leyti sem hinn eldri var lagður af, og á honum væru aðeins þau ríki sem lagt hefðu til hermenn í Írak. Frá þessu var m.a. greint í erlendum fjölmiðlum vel áður en Þjóðarhreyfingin svonefnda lagði af stað með umrætt uppátæki sitt, t.a.m. af AFP-fréttastofunni í október sl.

Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, lýsti svo þeirri skoðun sinni í viðtali við Stöð 2 á laugardag að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu verið í fullum lögformelgum rétti með að lýsa yfir stuðningi Íslands við innrásina í Írak og hefðu ekki þurft að gera það í samráði við Alþingi. Maður spyr sig því óhjákvæmilega að því hvers vegna forsvarsmenn hinnar svokallaðrar Þjóðarhreyfingar hafi ekki verið búnir að vinna heimavinnuna sína sem skyldi í þessum efnum. Þess í stað var bara vaðið af stað með látum og kastað til höndunum í samræmi við það á kostnað annarra.
Ekki vildi ég vera einn af þeim sem greiddi fyrir þennan brandara í The New York Times. En það er þeirra mál sem það gerðu.

---

Nýjasta hugmynd aðdáendaklúbbs Bobbys Fischer á Íslandi er að hérlend stjórnvöld veiti honum íslenzkan ríkisborgararétt því annars framselji japönsk stjórnvöld karlinn til Bandaríkjanna. Þetta er nú meiri vitleysan allt saman og byrjaði með því að honum var boðið dvalarleyfi hér á landi á þeim forsendum að hann hefði einhver sérstök tengsl við landið. Maðurinn lék skák hér í eitt skipti fyrir 30 árum síðan og það vildi bara svo til að sú skák fór fram á Íslandi. Það er ekki eins og það hafi verið fyrir sérstaka ósk Fischers að svo yrði. Skilst reyndar að hann hafi helzt ekkert vilja koma hingað til lands.

Svo á Fischer vissulega góðan vin hér á landi, Sæmund Pálsson, og án þess að mér komi til hugar að gera lítið úr þeim vinskap þá get ég ómögulega séð að þetta tvennt sé nóg til að réttlæta veitingu íslenzks ríkisborgararéttar. Hversu víða hefur Fischer annars leikið skák í heiminum? Hvers vegna datt engri annarri ríkisstjórn í hug að skipta sér af málum hans nema þeirri íslenzku? Ekki einu sinni þýzkum stjórnvöldum kom það til hugar þó Fischer sé af þýzkum ættum. Hvers vegna?
Nei, mín afstaða er einföld: Bobby Fischer, nei takk!

---

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti í upphafi vikunnar að boðað yrði til þingkosninga í landinu þann 8. febrúar nk. Þó ekki verði sagt að fyrirvarinn sé langur þá er þetta ekkert sem ætti að koma á óvart enda legið í loftinu síðan fyrir jól a.m.k. að boðað yrði til kosninga í fyrra lagi. Kjörtímabilið rennur ekki út fyrr en eftir níu mánuði en samkvæmt dönskum lögum getur sitjandi ríkisstjórn boðað til kosninga talsvert fyrr hugnist henni svo.
Nú hef ég ekki kannað það sérstaklega en ég geri ráð fyrir að þetta sé fyrirkomulag sem komið hafi verið á áður en skoðanakannanir komu til sögunnar eða a.m.k. áður en notkun þeirra varð eins mikil og raun ber vitni í dag.

Fyrir vikið boða ríkisstjórnir í Danmörku gjarnan til þingkosninga nokkru áður en kjörtímabilið rennur út ef þær telja skoðanakannanir þá vera sér hliðhollar. Þetta gerði stjórn jafnaðarmanna líka í lok árs 2001 þegar hún var við völd og taldi sig vera í góðum málum. Hins vegar þróuðust mál þannig að kosningabaráttan snerist öll um málefni innflytjenda og því voru jafnaðarmenn ekki viðbúnir. Fyrir vikið töpuðu þeir kosningunum og hægriflokkarnir komust til valda. Annars er það skemmtilegasta við kosningarnar núna fyrir mína parta að ég verið einmitt úti í Kaupmannahöfn bæði í aðdraganda kosninganna og á kjördag.

---

Þórunn Sveinbjarnardóttir var innt álits á því í fjölmiðlum fyrir helgi að trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið í Fréttablaðið um það sem fjallað var um á fundi í utanríkismálanefnd Alþingis 21. marz 2003, en Þórunn á sæti í nefndinni. Sagði hún að það væri hábölvað að upplýsingarnar væru komnar fram á þennan hátt því þetta þýddi að bæði aðal- og varafulltrúar í utanríkismálanefnd lægju undir grun. Síðan var hún spurð að því hvort það, sem hún var sögð hafa sagt á þessum fundi í frétt blaðsins, væri rétt og sagði hún svo vera eftir því sem hún minnti. Þarna hefði Þórunn auðvitað átt að segja að hún gæti ekkert sagt til um það hvort þetta væri rétt eða ekki enda væri hún bundin trúnaði. En þess í stað ákvað hún að vera beggja vegna borðsins, fyrst gagnrýndi hún lekann harðlega en staðfesti svo að hann væri réttur.

---

Greint var frá því á dögunum að atvinnuleysi á Íslandi hefði mælst 2,5% síðustu þrjá mánuði ársins 2004. Það kallast nú varla slæmt. Til samanburðar má nefna að í Þýzkalandi var atvinnuleysið á sama tíma um 10% og sama er að segja um Frakkland. Reyndar er sömu sögu að segja um meðalatvinnuleysið innan Evrópusambandsins alls. Þetta kann að virka voðalega hrífandi á suma hér á landi, sem eiga sér víst þá ósk heitasta að Ísland gerist aðili að sambandinu, en einhvern veginn á ég persónulega bágt með að deila þeirri hrifningu.

---

Fjallað var síðan um að hundruðir erlendra iðaðar- og verkamanna störfuðu án tilskilinna leyfa á höfuðborgarsvæðinu, bæði í viðhaldi eldri húsa og í nýbyggingum, að sögn Samiðnar. Þetta kemur svo sem ekki á óvart í ljósi yfirlýsinga Georgs K. Lárussonar, fyrrv. forstjóra Útlendingastofnunar, í Fréttablaðinu sl. vor um stofnunin hefði ástæðu til að ætla að hundruðir ólöglegra innflytjenda væru búsett á Íslandi. Þau ummæli Georgs komu mér mjög á óvart enda hélt ég að þetta væri ekki vandamál hér á landi. En hér er vitanlega um að ræða mál sem stjórnvöld þurfa að fara vel ofan í saumana á.

---

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í fréttum Stöðvar 2 á laugardaginn að svonefndur Framtíðarhópur Samfylkingarinnar, sem hún veitir formennsku, vildi að Ísland yrði boðberi friðar í heiminum. Bíddu eitthvað kannast ég við þetta, er þetta ekki nákvæmlega það sama og Ástþór Magnússon hefur predikað um árabil?
Það vantar ekki frumleikann.

---

Sá svo í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sl. fimmtudag að verið var að veita verðlaun á vegum Félags kvenna í atvinnurekstri. Nú hef ég ekkert nema gott um þennan félagsskap að segja, en þegar ég sá fréttina datt mér þetta í hug: Hvað ætli yrði sagt ef stofnað yrði Félags karla í atvinnurekstri? Hvað myndi Femínistafélag Íslands segja við því? Kæmi mér ekki á óvart að slíkt yrði úthrópað sem hin argasta karlremba og tilraun til að setja karlavígi á laggirnar.

Hjörtur J. Guðmundsson


Glæpir í Guantanamo

Þó að ég sé jákvæður í garð utanríkisstefnu Bandaríkjamanna, og hafi stundum reynt að koma til skila þeirra hlið á ýmsum málum, að þá er þessi pistill ekki til þess gerður að hygla þeim.

Eins og allkunna er, þá reka Bandaríkjamenn fangabúðir í Guantanamo flóa á Kúpu. Þar eru menn sem sitja í varðhaldi án dóms og laga. Þessir menn sæta einnig einhverjum pyntingum, þó að ég telji mögulegt að sögusagnir um grimmd fangavarða í þeirra garð kunni að vera eitthvað ýktar.

Ég hef reynt að finna greinar um málið í hægrisinnuðustu og ,,staðföstustu” vefritum sem ég þekki til að kynna mér hlið Bandaríkjamanna. Það er erfitt að segja hvað það er sem fer nákvæmlega fram í Guantanamo fangelsinu, og er það einmitt vandamálið.
Það er þó ljóst að menn eru beittir einhverju ofbeldi til þess að knýja menn til að láta upplýsingar sem að gagni gætu komið í té. Eitt er víst, að þegar allt fór úrskeiðis í Abu Graif voru nýkomnir til starfa þar ,,yfirheyrslu sérfræðingar” og yfirmenn frá Guantanamo fangelsinu. Það virðist ekki hafa haft jákvæð áhrif á meðferð fanga þar.

Það er tvennt sem ég hef að athuga við Guantanamo:

Í fyrsta lagi er ekki réttað yfir mönnum, (nema þá ef til vill í leynum), og mönnum er haldið án þess að ákveðin ákæra sé lögð fram. Á miðöldum mátti refsa mönnum fyrir það að vera þjófar eða vondir menn almennt, þó að ekkert ákveðið tilvik um þjófnað eða glæp væri fyrir hendi. Síðan mótuðust reglur þess efnis að einungis mætti ákæra og dæma menn fyrir ákveðna glæpi, en ekki bara fyrir það að vera glæpamaður almennt. Mér sýnist Bandaríkjamenn vera að hverfa aðeins til starfshátta miðalda í Guantanamo í þeim skilningi að menn eru ekki alltaf settir í varðhald fyrir það að hafa framið eitthvað tiltekið afbrot, sem hægt er að benda á, og dæma fyrir, heldur virðist sem einhverjum mönnum sé haldið fyrir það að vera líklega afbrotamenn, án þess að vera ákærðir fyrir neitt sérstakt. Bretar geta ekki leyft sér að hneppa IRA-hryðjuverkamenn í varðhald, án þess að ákæra þá og gefa þeim tækifæri á réttarhöldum og þar af leiðandi málsvörn. Bandaríkjamenn ættu ekki heldur að leyfa sér að hneppa menn í varðhald án ákæru og réttarhalda. Hlutirnir þurfa að vera gerðir opinberlega, en ekki í leynum og án eftirlits. Eftirlitsleysi og ,,leynimakk” af þessu tagi býður hættunni heim – stjórnvöld gætu misnotað vald sitt.

Í örðu lagi finnst mér miðaldalegt að beita pyntingum til upplýsingaöflunar.

Enginn maður skal sæta pyntingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. – 5. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Þess má geta að Bandaríkjamenn neita því að pyntingar þeirra í garð fanganna séu ómannúðlegar. Þær eru pyntingar engu að síður, og ég fæ ekki betur séð en að þær séu ómannúðlegar.

Bandaríkjamenn verða að vera öðrum fyrirmynd í þessum efnum til þess að geta betur staðið vörð um réttlætið og frelsið um víða veröld, og staðið gegn ofríki einræðisstjórna í garð þegna sinna. Það var gott að sjá mann dæmdan í 10 ára fangelsi vegna framferði síns í Abu Graif, og fleiri eiga eftir að vera ákærðir í tengslum við það mál. Breskir dómstólar munu einnig fljótlega dæma breska hermenn sem sekir gerðust um pyntingar í Írak. Þetta eru skref í rétta átt. Hæstiréttur Bandaríkjanna (US Supreme court) komst að þeirri niðurstöðu í nýlegu máli að ekki mætti hafa fangana í Guantanamo í haldi án ákæru og réttarhalda að eilífu. Það styttist því vonandi í það að stjórnvöld í Bandaríkjunum endurskoði aðferðir sínar eitthvað í þessum efnum.

Þess má geta að lokum, að fangarnir í Guantanamo eru ekki allir alsaklausir góðborgarar, þó að sumir haldi því fram. Abdullah Mehsud, sem sleppt var úr fangabúðunum fór til að mynda rakleitt til Pakistan, tók þar kínverska gísla, og umvafði þá dínamít sprengjum. Það er full ástæða fyrir Bandaríkjamenn að halda úti fangabúðum og slíku. Það þarf hinsvegar að gera hlutina með öðrum hætti. Rétta á yfir mönnum og ekki á að beita líkamsmeiðingum, að minnsta kosti ekki gagnvart mönnum sem aldrei hafa fengið tækifæri til þess að reyna að sína fram á sakleysi sitt, telji þeir sig saklausa, fyrir hlutlausum og sanngjörnum dómstóli.

Einræðisherrar og ofríkismenn (eins og t.d. Castro á Kúbu, og stjórnvöld í Íran) sem halda mönnum í varðhaldi án dóms og laga, setja menn í hlekki, svipta þá svefni, láta þá svelta og hvaðeina, geta nú borið fyrir sig að þetta geri nú Bandaríkjamenn líka.

Hér getur þú lesið ávarp fulltrúa Bandaríkjamanna, sem er og fyrrum þolandi pyntinga, á ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1998. Saga hans er gott dæmi um hvað getur gerst ef að eftirlitslausar pyntingar sem stundaðar eru af stjórnvöldum fara úr böndunum.

Sindri Guðjónsson


Þjóðarhreyfingin og opnunartími búða. (úr einu í annað)

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands telja Íslendingar nú 293.291 manns.
Íslendingar nálgast nú óðfluga 300 þús. en það er ekki það sem þessi pistill fjallar um.
Lítill hópur manna sem hefur kosið að kalla sig þjóðarhreyfingu hóf stórt og mikið átak fyrir um tveimur mánuðum síðan til að kaupa auglýsingu í stórblaðinu New York Times. Ég hef áður tjáð mig um þetta svokallaða átak. Það sem er athyglisvert er að sá hópur sem myndar þessa ,,hreyfingu” spannar aðeins um 0.0016% þjóðarinnar. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi að fjögurra manna hópur myndi samtök, nema jú ef samtökin kjósa að kalla sig Þjóðarhreyfingu og ætla sér síðan í kjölfarið að hasla sér völl sem talsmenn þjóðarinnar erlendis.

En eins og áður sagði ákvað þessi hópur að hefja stórt og mikið átak fyrir auglýsingunni. Haldinn var blaðamannafundur þar sem um 0,0034% þjóðarinnar bættist við og mótmælti harðlega ákvörðun lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar um að styðja pólitískt innrás Bandamann í Írak.
Þarna voru s.s. komin um 0,0051% þjóðarinnar sem ætlaði sér að tala fyrir tæplega 300 þúsund manns.

Haft var eftir einum talsmanna hreyfingarinnar að um 5.000 manns hefðu styrkt átakið og nú hefði safnast rúmlega 3 milljónir króna, en það er það sem þurfti fyrir auglýsingunni. Gott og vel. Fimm þúsund manns er svo sem ágætis fjöldi.
Reyndar ekki mikið miðað við það að söfnunin tók rúmlega tvo mánuði og samkvæmt „Þjóðarhreyfingunni“ voru pottþétt 80% þjóðarinnar andsnúnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ekki förum við að kalla forsvarsmenn hreyfingarinnar lygara þannig að við skulum gefa okkur að fimm þúsund manns hafi séð á eftir fjármagni í söfnunina. Það sem er athyglisvert við það er að aðeins 1,7% þjóðarinnar styrkti þá í raun og veru átakið mikla. Hvar voru þá hin 78,3% þjóðarinnar sem voru samkv. ,,Þjóðarhreyfingunni" svona rosalega mikið á móti stuðningi ríkisstjórnarinnar við bandamenn?

Og áfram smá talnaleikur. Auglýsingin kostar 2,9 milljónir króna. Það þýðir að þeir 5.000 manns sem styrktu söfnunina hafa gefið 580 kr. á mann. Vissulega má vera að einhver afgangur sé að söfnuninni og þá hafa menn greinilega gefið meira. Ef að 5.000 manns hringdu í söfnunarsíma hreyfingarinnar hafa safnast um 5 milljónir. Gaman væri að vita ef svo er og hvort að peningurinn fari þá í raun og veru „óskiptur“ til Rauða Krossins eins og fyrr hafði verið samið um.

Nú gæti einhver sagt að aðeins tveir menn hafi tekið þessa „afdrífaríku“ ákvörðun og það telji nú ekki margar prósentur. Hins vegar má ekki gleyma því að þessir ,,tveir” menn eru lýðræðislega kosnir til að fara með þessi mál. En það er nú önnur umræða.

En staðreynd málsins er nú sú að aðeins 1,7% þjóðarinnar styrktu málefnið.
Já, hreyfingin taldi það gefa sér rétt til að tala fyrir þjóðina.
Lýðræðið eins og það leggur sig?

Opnunartími búða
Og út í annað. Dómsmálaráðherra lagði í vikunni fram frumvarp um að rýmka um opnunartíma verslana á hátíðisdögum. Hingað til hafa lög um þetta verið frekar ósanngjörn þar sem ,,stórar” bensínstöðvar hafa mátt hafa opið en ekki verslanir. Árið 2003 lokaði lögreglan 10-11 verslun með valdi þar sem tekin hafði verið ákvörðun um að hafa opið. Gott og vel, brotin voru lög um opnunartíma verslana og slíkt á auðvitað ekki að gera.
Málið er hins vegar að það eiga ekki að vera slík lög til. Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvenær landinn má versla og hvenær ekki. Vissulega er málið ekki svo einfalt þar sem líka er verið að hugsa um frítíma og hvíldarrétt starfsfólks. Sú umræða á að fullu rétt á sér og að sjálfsögðu þurfa að vera leikreglur á milli atvinnurekenda og í þessu tilfelli VR um að starfsfólk hafi rétt á hvíld.

Formaður VR var ekki par hrifinn af ákvörðun ráðherrans af því að VR hafði ekki verið haft með í ráðum. Ég tel ekki að sú viðleitni eigi rétt á sér af því að það eina sem ráðherran er að gera er að rýmka rétt verslunareigenda til að hafa opið eins og þeim þykir þurfa, m.ö.o. hann er að koma í veg fyrir það að laganna verðir þurfi að mæta og loka búðunum vegna þess að þau eru að brjóta lög um opnunartíma.Það er síðan samningsatriði milli eigenda fyrirtækjanna og starfsmanna (já, eða VR) að semja um vinnutíma og svo frv. Það væri t.a.m. ekki ósennilegt að umræddir helgidagar yrðu „löglegir“ frídagar fastráðins starfsfólks og ef að búðir vildu hafa opið yrðu þeir að kalla inn aukafólk eða að bjóða það góð laun að starfsfólkið vilji vinna að fúsum og frjálsum vilja. Um slíkt yrði samið í kjarasamningum. Það mál kemur hins vegar löggjöf Dómsmálaráðherra ekkert við og ég styð þetta frumvarp hans heilshugar.

Ganga mætti enn lengra í þessum málum en Björn Bjarnason hefur hér stigið fyrsta skrefið

Gísli Freyr Valdórsson


Fjárfesting í heilbrigðismálum

Á þessum tíma árs er eðlilegt að líta yfir farinn veg og hugsa fram í tímann.
Ein hugmynd sem viðruð hefur verið síðustu dægrin er að fjárfesta til framtíðar í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Davíð Oddson, eins og kunnugt er, hefur talað um að peningarnir sem fást fyrir síðustu stóru einkavæðingu ríkisins, hinnar löngu tímabæru sölu Landsímans, verði notaðir til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Síðan hafa ýmsir til þess kallaðir túlkað orð hans, og þykir líklegast að hér sé átt við að nýta tilfærslu Hringbrautar til að byggja yfir Landspítala-Háskólasjúkrahús á lóð hans við fyrrnefnda götu. Jafnframt, jafnvel, að leggja niður starfssemina annars staðar, þar með talið í gamla Borgarspítalanum í Fossvogi, sem myndi þá líklega verða að einhvers konar öldrunarheimili.

Það verður óneitanlega sjónarsviptir af Borgarspítalanum (eða Landspítala-Fossvogi í dag), en það tap sem hvarf hans var þjóðinni er þegar orðið, þegar endanlega voru sameinuð í eitt batterí annars vegar þjónustusalinn, spítalinn, sem í tilviki Borgarspítalans var í eigu Borgarinnar og hins vegar þjónustukaupandinn, ríkið og þar áður sjúkrasamlögin, sem voru í umsjón sveitarfélaganna, svo í því tilfelli var borgin reyndar einnig báðum megin við borðið.

Aukið álag á velferðarkerfi þjóða
Um allan hinn vestræna heim er álagið á félags- og heilbrigðiskerfi þjóða að aukast vegna minnkandi fæðingartíðni og aukinnar gránunar samfélagsins, eins og það er kallað, þ.e. að hlutfall eldra fólks í samfélaginu eykst. Nýlega var sýndur listi í DV yfir 10 elstu þjóðir í Evrópu, sem betur fer er Ísland ekki enn komið í það ástand, svo enn er tími til að grípa í taumana. Þar var Mónakó allra þjóða elst, með um 22 prósent þjóðarinnar sem eldri borgara, en síðan voru flestar hinar þjóðirnar, hvort tveggja Vesturevrópskar þjóðir ýmsar, svo og í austrinu, þar má nefna Búlgaría, með um 17.5 prósent þjóðarinnar sem eldri borgara.

Víða er fæðingartíðnin orðin mjög lág, jafnvel í hefðbundnum fjölskyldusamfélögum eins og Ítalíu og Spáni, þannig að þessar þjóðir eru langt frá því að endurnýja sig, sem leiðir auðvitað til hlutfallslegrar fjölgunar gamals fólks. Ástandið hérlendis, hvar fjölskyldan hefur verið sterk, þó blikur séu á lofti í þeim efnum líkt og biskupinn, forsetinn og forsætisráðherra hafa bent á, hefur ekki verið mjög slæmt. En nú hefur fæðingartíðnin minnkað niður fyrir 2.1, sem er nauðsynleg tala svo þjóðin endurnýji sig og farið niður í 1.9 barn á konu.

Þetta er ekki einungis slæmt fyrir samfélag okkar, sem sárlega þarf á fjölgun að halda, verandi smáþjóð í stóru landi, heldur er þetta líka slæmt beint fyrir afkomu fólks í landinu til lengri tíma litið. Áhrifin eru kannski ekki jafn bein og á meginlandi Evrópu og hjá þeim sem treyst hafa á bandaríska almannatryggingakerfið þar sem við höfum borið gæfu til að byggja upp öflugt lífeyrissjóðakerfi sem byggir á uppsöfnun réttinda og peninga, sem og að við erum að byrja að byggja upp séreignalífeyrissjóði, hvort tveggja byggir á því að vinnandi fólk á Íslandi leggur fyrir til mögru árana þegar vinnugetan skerðist.

Slíku er ekki að dreifa víðast hvar þar sem þeir sem treysta á velferðarkerfi síns lands fá frá þeim sem eru vinnandi og eru að borga inn í kerfið í dag, það er gegnumstreymiskerfi þar sem engir peningar safnast upp, heldur eru þeir borgaðir út jafnóðum. Þetta leiðir augljóslega til þess vanda að eftir því sem fleiri eru þiggjendur í kerfinu á móti þeim sem borga inn í kerfið verður álagið á þá sem borga inn meira, og í raun jafnvel það mikið að kerfið hefur ekki efni á að borga jafn mikið og þeir ættu með réttu að fá miðað við hve mikið þeir hafa borgað gegnum árin, og miðað við hvað þeir sem þáðu úr kerfinu fengu á meðan hinir borguðu inn í það.

Þetta er t.d. vandamál í Bandaríkjunum þar sem um 40 vinnandi manns voru um hvern einn sem var gamall eða veikur og lifði á kerfinu (social security) þegar Rosevelt kom því á en er núna komið niður í um 3 á hvern einn og stefnir fljótlega í 2 og síðan er ljóst að fljótlega nær kerfið ekki lengur að standa undir sér. Svipaður vandi blasir við víða um heim og er Ísland ekki undanskilið, þó lífeyrismálin séu í betra horfi hér en víðast annars staðar, vegna þess að enn eru inni í almannatryggingakerfinu allur heilbrigiðskostnaður sem og stór hluti öldrunarþjónustu og annar slíkur kostnaður.

Ágætis hugmynd er að nota peningana sem koma úr sölu Landsímans til að komast fyrir þau vandamál sem kerfið stefnir í, þó varla sé það endanleg lausn á þeim vandræðum að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Brýnt er að stöðva þá þróun að sífellt meira af umsvifum og tekjum ríkissjóðs fari í heilbrigðiskerfið og ýmsan bráðavanda sem sífellt virðist vera að koma upp innan þess. Sérstaklega þegar haft er í huga að eftir því sem þjóðin eldist verður álagið á heilbrigðiskerfið, og þá jafnframt ríkissjóð þeim mun meira.

Missir af íslenska sjúkrasamlagakerfinu
Það er óneitanlega missir af gamla íslenska sjúkrasamlagakerfinu og hefðu menn mátt vera íhaldssamari þegar það var lagt niður og frekar bætt ókosti þess, heldur en kasta því algerlega, sérstaklega þar sem núverandi fyrirkomulag ber enga framtíðarlausn í sér.
Enn þarf vinnandi fólk að borga fyrir þá sem eru sjúkir og gamlir eða á annan hátt þyggjendur í kerfinu af eigin launum gegnum skattana og ekki er ríkið að spara þetta
fé launamannsins til notkunar þegar hann þarf á því að halda. Það hafði jú ýmsa ókosti,
svo sem allt of marga og litla sjóði, en þeir hefðu eflaust verið sameinaðir eins og sveitarfélögin sem um þá sáu og þannig orðið færri og sterkari líkt og þau. Einnig var kerfið í raun gegnumstreymiskerfi, þótt víða hafa einhverjir sjóðir eflaust safnast upp,
en annars staðar hugsanlega skuldir myndast.

Helstu kostirnir voru aðskilnaðurinn milli kaupenda og seljenda þjónustunnar, sem og
að áður fyrr meðan kerfið var við lýði var sérstakt sjúkrasamlagsgjald (sjúkrasjóðsgjald) tekið af hverjum manni, og gat þá sérhver launamaður séð á launaseðli sínum hve mikið af sköttum sínum fóru í heilbrigðiskerfið. Nú er það aðhald sem kerfið hafði óneitanlega af þessu horfið inn í botnlaust hyldýpi ríkiskerfisins með því að nú fær heilbrigðiskerfið allt sitt fé úr ríkissjóði. Þessu þarf að breyta, og væri það góð fjárfesting að nota söluhagnaðinn af Landsímanum til að brúa bilið frá núverandi kerfi yfir í uppsöfnunarkerfi með einhvers konar sameignar- og eða séreignasjúkrasjóðssparnaðarfyrirkomulagi. Einn helsti missir af gamla kerfinu fyrir íhaldsmanninn er að auðveldara hefði verið að komast út úr því yfir í einhvers konar tryggingakerfi enda fól það í sér meiri ábyrgð einstaklingsins, hægt hefði verið að leyfa launamanninum að borga frekar tryggingafélagi fyrir alhliða sjúkratryggingu í stað þess að borga í sjúkrasjóð.

Umbætur á almannatryggingakerfum
Bandaríkjamenn eru að fara út í erfiðar aðgerðir til að komast fyrir þann vanda sem kerfi þeirra stefnir í, með umbótum á sjúkrasjóðs- og almannatryggingakerfi sínu sem áhugavert verður að fylgjast með hvernig til tekst, því þótt við séum ekki lengur með sjúkrasjóði, munum við eiga við sama vanda að stríða, hann er bara ekki jafn sýnilegur og því í raun mun hættulegri.

Einn helsti vandinn sem við þeim blasir er að allir þeir umframpeningar sem hingað til hafa komið inn í kerfið hafa að mestu verið notaðir til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum, með öðrum orðum, ríkinu hefur verið lánað þetta fé. Þannig að skuldbindingar ríkisins vegna kerfisins eru orðnar gríðarlegar og þannig er það í raun eins og okkar kerfi er í dag, allt falið undir altumlykjandi huliðshjúp ríkissjóðs og ósundurliðaðrar skattheimtu hans.

Við þurfum að fara að hugsa til framtíðar í þessum málum. Fæstum Íslendingum í yngri kantinum þætti ásættanlegt að þurfa að borga alla ævi sína skatta og gjöld en horfa svo fram á að þegar þeir verða veikir, sem er þeim mun algengara sem menn eru eldri, eða þurfa á ýmissi öldrunarþjónustu að halda að þá verði ekki til nægir peningar til að veita þeim þessa þjónustu. Nú þegar er farið að skera niður hérlendis hvaða þjónusta er veitt án endurgjalds og hvað þarf að borga sértaklega fyrir á öldrunarheimilum til dæmis, sífellt þarf að borga fyrir fleiri hluti beint.

Það þarf að færa kerfið úr því að vera gegnumstreymiskerfi, þar sem vinnandi fólk dagsins í dag borgar fyrir þá sem eru veikir í dag, í uppsöfnunarkerfi ekki ósvipað lífeyrissjóðunum, helst meira í ætt við séreignalífeyrissparnaðinn a.m.k. að einhverju leyti alla vega, líkt og hugmyndir eru um vestanhafs. Þannig mætti komast fyrir þann vanda að með því að þjóðin eldist meira hlutfallslega, verði kerfið meiri byrði á þeim fáu sem verða vinnandi miðað við þá sem verða á lífeyri eða á annan hátt eru þiggjendur í kerfinu. Slíkt uppsöfnunarkerfi myndi auka nauðsynlegan sparnað í þjóðfélaginu en margir hagfræðingar hafa hvatt til aukins sparnaðar hérlendis.

Auðvitað yrði myndun slíks kerfis flókin þó mögulega væri hægt að fá lífeyrissjóðina inn í það og þyrfti ýmis tæknileg útfærsla að koma til svo hægt sé að tryggja að allir hefðu sem víðtækust réttindi til heilbrigðisþjónustu, hvort sem þeir verða veikir snemma eða seint á lífsleiðinni sem og að ríkið þyrfti eflaust að hlaupa undir bagga með þeim sem allra verst hafa það eða samfélagið á annan hátt. Ríkið á einungis að sjá um ákveðið grunnöryggisnet, að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda, ekki að gera almenning að ölmusuþegum í gegnum ríkisrekin heilbrigðiskerfi.

Aukin ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu kemur þjóðfélaginu í heild til góðs
Nauðsynlegt er að auka ábyrgð fólks á eigin heilsu, við vitum sífellt betur nú til dags hvað það er sem við þurfum að gera til að tryggja langlífi og góða heilsu og auðvitað er ekki nema sanngjarnt að sá sem stundar líkamsrækt af kappi, borðar rétt og á annan hátt fjárfestir miklum tíma, vinnu og orku í að halda líkama sínum við, uppskeri af því með minni heilbrigðiskostnað ásamt auðvitað lengra og betra lífi. En umfram allt þarf að aðskilja milli kaupanda þjónustunnar, hvort sem það er einstaklingurinn beint, eða hann í gegnum ríkið eða einhvers konar trygginga eða sjóðafyrirkomulag, og söluaðila, hvort sem þeir eru vegna stærðarhagkvæmni sameinaðir í einn stóran Landspítala á einum stað, eður ei, og nýta þannig kosti einkarekstursins í að veita þjónustuna. Væri ein leið til þess að bjóða út rekstur nýs hátæknisjúkrahúss sem nú virðist á teikniborðinu.

Höskuldur Marselíusarson


Schengen hefur dregið úr landamæraöryggi Íslands

Hefur Schengen-samstarfið þýtt meira öryggi fyrir Ísland eða hefur það dregið úr öryggi landsins? Sem kunnugt er gengur samstarfið út á að landamæraeftirlit á svokölluðum innri landamærum samstarfsins er fellt niður en eftirlit á ytri landamærum þess aukið að sama skapi. Þannig þurfa Íslendingar, á ferð um þau lönd sem aðild eiga að Schengen, ekki að framvísa vegabréfum sínum en þurfa eftir sem áður að hafa þau ætíð meðferðis ef eftir þeim verður óskað af viðkomandi yfirvöldum. Á móti kemur að fólk, sem kemur til Íslands frá öðrum aðildarríkjum samtarfsins, þarf ekki heldur að framvísa nokkrum persónuskilríkjum við komuna til landsins og getur í raun allajafna gengið beint inn í landið án nokkurra afskipta íslenzkra yfirvalda.

Veikari landamæragæzla
Ýmsir hafa orðið til að benda á þá staðreynd að við höfum glatað að miklu leyti því öryggi sem felst í náttúrulegum landamærum okkar með aðildinni að Schengen. Þannig má nefna að þann 18. október 2002 sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, í ræðu að ekki væri um það deilt að landamæraeftirlit á Íslandi hefði veikst við aðildina að Schengen. Ennfremur sagði hann að þörfin fyrir samstarf eins og Schengen kynni að horfa nokkuð öðruvísi við eyríkjum eins og Íslandi, en löndum á meginlandi Evrópu, „sem af landfræðilegum ástæðum hafi alla burði til að halda uppi öflugu landamæraeftirliti og ná að því leyti sama eða jafnvel mun betri árangri en að er stefnt með Schengen-samstarfinu. Niðurstaðan í Bretlandi og á Írlandi varð sú, að þeir myndu áfram gæta sjálfir eigin landamæra, en niðurstaðan hér varð sem kunnugt er [...] sú að flytja eftirlit með landamærum okkar frá Keflavík alla leið til Mílanó, Madrid og Mykonos, svo dæmi séu tekin, svo traustvekjandi sem það kann annars að þykja, og leggja í staðinn traust okkar og trúnað á sameiginlega gagnabanka Schengen-samstarfsins.“

Í þessu sambandi má rifja upp til hvaða aðgerða var gripið vegna vorfundar Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem haldinn var hér á landi árið 2002. Þá var tekin sú ákvörðun að taka upp vegabréfaeftirlit gagnvart fólki sem kom frá öðrum löndum á Schengen-svæðinu, í því skyni að tryggja betur öryggi fundarins, og var raunar gripið til sama ráðs í tilefni af heimsókn forseta Kína til landsins sama ár. Heimild er fyrir slíkri tímabundinni upptöku vegabréfaeftirlits í samningnum um Schengen og hafa önnur aðildarríki Schengen gripið til þessara aðgerða í hliðstæðum tilfellum, s.s. vegna leiðtogafundar Evrópusambandsins um innflytjendamál á Spáni 2002 og í Danmörku í tengslum við fund æðstu stjórnenda ríkja Evrópusambandsins í desember sama ár.

Mansal gert auðveldara...
Þó yfirlýst markmið Schengen-samstarfsins sé m.a. að efla eftirlit með ytri landamærum þess hefur það þó gengið misvel í framkvæmd. Eftir að Ísland gekk í Schengen sjáum við Íslendingar um landamæraeftirlit fyrir aðrar aðildarþjóðir Schengen og þær fyrir okkur, þar á meðal ýmis ríki í austan- og sunnarverðri Evrópu þar sem landamæraeftirlit er ósjaldan mjög slakt, þá ekki sízt í nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins sem urðu formlega aðilar að sambandinu þann 1. maí sl. Fólk sem sleppur inn fyrir landamæri Schengen getur allajafna komizt óáreitt til Íslands án þess að íslenzk yfirvöld hafi í raun nokkuð um það að segja, en árlega er talið að hundruðir þúsundir manna sleppi ólöglega inn fyrir landamæri Schengen og oftar en ekki fyrir tilstilli glæpasamtaka sem sérhæfa sig í slíku smygli gegn háum greiðslum.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í apríl sl. að þýzka lögreglan hefði varað við því að stækkun Evrópusambandsins til austurs myndi auðvelda glæpamönnum að smygla fíkniefnum og ólöglegum innflytjendum til Vestur-Evrópu. Eftirlit á austurlandamærum Evrópusambandsins yrði ekki eins öflugt eftir stækkunina og áður. M.a. væri hætta á því að landamæraverðir með lág laun freistuðust til að þiggja mútur. Síðastliðið haust var síðan grein frá því í norska blaðinu Aftenposten að Europol varaði við vaxandi umsvifum alþjóðlegrar glæpastarfsemi innan sambandsins eftir stækkun þess til austurs. Stækkunin hefði m.a. haft það í för með sér að ýmsar mafíur í Austur-Evrópu, sem áður höfðu aðeins takmörkuð umsvif í Vestur-Evrópu, hefðu fært sig mjög upp á skaftið í þeim efnum. Einkum væri þar um að ræða fíkniefnasmygl, mansal og vændi en einnig væri stundum um að ræða tengsl við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi.

Í þessu sambandi má ennfremur nefna að í Fréttablaðinu 26. marz á síðasta ári var greint frá því að Útlendingastofnun teldi sig hafa ástæðu til að ætla að nokkur hundruð ólöglegra innflytjenda væru búsett hér á landi. Telja verður sennilegt að tengsl séu á milli þess og aðildar Íslands að Schengen og er full ástæða til að kanna þau mál frekar.

...og sömuleiðis fíkniefnasmygl
Eins og fram kemur hér að ofan er sömu sögu að segja um smygl á fíkniefnum til Vestur-Evrópu að sögn þýzku lögreglunnar. Stækkun Evrópusambandsins hefur gert aðilum í þeim bransa auðveldara með að stunda iðju sína. Þetta snertir okkur Íslendinga með beinum hætti vegna aðildar okkar að Schengen, en smygl á fíkniefnum til Íslands er einmitt einkum stundað frá Evrópu, þá einkum frá Danmörku og Hollandi. Þetta kemur heim og sama við umsögn embættis Lögreglustjórans í Reykjavík um Schengen-samstarfið, en embættið var beðið um að gefa álit sitt á samstarfinu af alsherjarnefnd Alþingis þegar aðildin var þar til skoðunar á sínum tíma:

„Með því [Schengen-samstarfinu] verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víða slakt innan svæðisins og sums staðar eru uppi allt önnur viðhorf til fikniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í sex af aðildarríkjum Schengen hafa t.d. verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna „til eigin nota". Reynslan sýnir að takmörkuð landamæravarsla hefur slæm áhrif t.d. í Svíþjóð og Danmörku, að mati hlutaðeigandi aðila. Ljóst er að stór hluti þeirra fíkniefna, sem flutt eru til landsins, koma frá Evrópu. Mest af því sem lögreglan leggur hald á, kemur með farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með takmörkuðu eftirliti þar og annars staðar minnka að öllu óbreyttu möguleikar tollgæslu til eftirlits með innflutningi fíkniefna.“

Hvers vegna var Schengen samþykkt?
Að öllu þessu sögðu er von að menn spyrji sig hvers vegna aðildin að Schengen hafi verið samþykkt. Í áðurnefndri ræðu frá því í október 2002 svaraði Davíð Oddsson þessari spurningu: „Það er út af fyrir sig ekkert launungarmál að ákvörðun um aðild að Schengen-samstarfinu var eingöngu tekin af einni pólitískri ástæðu, þ.e. til að viðhalda þeirri skipan, sem komið var á með norræna vegabréfasambandinu fyrir meira en 40 árum.” Þarna á Davíð við vegabréfasamstarf Íslands við hin Norðurlöndin sem hefði að öðrum kosti fallið úr gildi þar sem þau voru á leið í Schengen. En það er von að menn spyrji sig að því hversu þungt þessi rök hafi vegið í ljósi allra þeirra ókosta sem aðildinni ljóslega fylgja.

Fleiri ókosti Schengen-samstarfsins mætti nefna til sögunnar en hægt er í stuttri grein. En í ljósi framangreinds hljóta flestir a.m.k. að setja stórt spurningamerki við það hvort það sé virkilega okkur Íslendingum í hag að vera aðilar að Schengen. Við höfum náttúruleg landamæri, eins og Davíð Oddsson benti réttilega á í ræðu sinni, og ættum því hæglega að geta haldið uppi öflugara landamæraeftirliti en stefnt er að með Schengen. Bretar eru í hliðstæðri stöðu og við í þessum efnum og ákváðu af þeirri ástæðu að standa utan samstarfsins þó þeir komi að því engu að síður upp að vissu marki. Ljóst er að aðildin að Schengen hefur tvímælalaust dregið úr landamæraöryggi Íslands eins kom fram í máli Davíðs og því full ástæða til að endurskoða ákvörðunina um aðild að samstarfinu enda vægast sagt erfitt að sjá hvernig kostir hennar geti réttlætt gallana.

Hjörtur J. Guðmundsson


Skattar að lækka: Gott mál

Rétt er að minna á það sem ríkistjórnin er að gera í skattamálum um þessar mundir. Það þarf að auglýsa það vel og vandlega. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að skila sér, eins og við er að búast.

Vinstri-grænir hafa sagt að þessar skattalækkanir gagnist ekki réttu fólki. Er það?

  1. Verið er að afnema eignaskatt. Stór hópur eignaskattsgreiðanda er fólk sem komið er yfir sjötugt, 24% af tekjum ríkisins af eignarskattinum kemur frá þessu fólki. Meirihluti þeirra er með minna 1,5 milljónir í árstekjur. Þetta kemur öldruðum sem sagt vel. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt verið gagnrýndur fyrir að hugsa ekki nægilega vel um aldraða...
  2. Skattleysismörk munu hækka um 20%.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hverjum það hjálpar mest.
  3. Barnabætur hækka um 2400 milljónir.
    Það hljóta allir að sjá að það hjálpar fjölskyldufólki með lágar og millitekjur.

Ef að Vinstri-grænir telja þetta fólk ekki ,,rétt fólk”, þá er ég illa svikinn.

En skattalækkanirnar hafa verið gagnrýndar á fleiri forsendum.
Sumir segja að þetta sé allt eitt allsherjar svindl, og tala um að nýir duldir skattar éti þetta allt saman upp – og vísa til hækkunar á komugjöldum á sjúkrahús, svo eitthvað sé nefnt.
Ég vil fremur borga nokkrum hundraðköllum meira í komugjöld og bifreiðargjöld, og borga lægri skatta í staðinn, enda eru umrædd gjöld óravegu frá því að éta upp allar skattalækkanirnar. Hófleg komugjöld gefa mönnum smá kostnaðarvitund, sérstaklega þegar kostnaður ríkisins kemur líka fram. Fólk þarf að sjá að allt þetta sem menn geta fengið ,,ókeypis”, er ekkert ókeypis, heldur rosalega dýrt. Þeir sem borga eru allir vinnandi menn, líka þú. Að sjálfsögðu á að koma til móts við t.a.m. öryrkja eða þá sem ekki geta borgað eins og aðrir.

Það er líka frábært að hinn ,,sérstaki tekjuskattur” verði aflagður, og að tekjuskatturinn lækki almennt. Þetta er hvetjandi. Nú er meiri hagur í því að gera sig að verðmætara vinnuafli með því að mennta sig eða taka að sér erfiðari verkefni í vinnu, þar sem að skattarnir munu ekki éta eins mikið upp af ávinningnum og áður. Þetta mun auka verðmætasköpun.
Skattalækkanir skapa verðmæti

Málflutningur Samfylkingarinnar
Það er hollt og lærdómsríkt að skoða aðeins málflutning Samfylkingarinnar í þessu máli.
Þeir vildu lækka skatta fyrir kosningar, en nú ekki. Þeir vildu ekki lækka matarskatt fyrir kosningar, en nú vilja þeir það. Þeir eru sjaldan samkvæmir sjálfum sér, og vita yfirleitt ekki hvað þeir vilja. Þeir segja ávallt það sem þeir halda að menn vilji heyra hverju sinni, eða það sem kemur sér verst fyrir andstæðinga þeirra. Þeir eru stefnulaus flokkur.
Ef að þeir stjórnuðu hér væri hér stefnulaus stjórn.

Það ætti að segja meira en mörg orð, að á meðan ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins lækkar og afnemur skatta, að þá hækkar R-listinn, undir forystu félagshyggjuaflanna útsvarið og önnur gjöld. Þetta er munurinn á hægri stefnu og vinstri stefnu í framkvæmd.

Sindri Guðjónsson


Ögmundur og Palestína, kosningar í Palestínu

Ögmundur Jónasson, þingmaður hefur undanfarna viku verið á ferð í Palestínu ásamt öðrum verkalýðsleiðtoga, Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambandsins.
Já, Ögmundur er er ekki bara þingmaður heldur líka verkalýðsforingi. Hann er formaður BSRB og titlar sig oft sem slíkan. Ferð þessi er farin í boði palestínskra verkalýðshreyfinga fyrir milligöngu félagsins Ísland – Palestína. (ÍP)

Það er svo sem ekki í frásögu færandi þó að þeir vinirnir, Ögmundur og Eiríkur fari saman til útlanda. Það sem hins vegar er athugunarvert er að á sama tíma og Ögmundur mælir götur Palestínu notar hann vefsíðu sína til að bera út fordóma og áróður gegn Ísraelsmönnum.

Auðvitað ríkir hér á landi málfrelsi og menn hafa rétt til að hafa skoðanir. Það er hins vegar spurning hvernig menn afla sér upplýsinga og koma þeim á framfæri. Að fara í “guided tour” um Palestínu í fylgd palestínumanna er eins og að hafa farið árið 1958 með áróðursmannni Stalínstjórnarinnar um Sovétríkin. Að sjálfsögðu fær maður bara aðra hlið á málinu. Það að Ögmundur noti vefsíðu sína til tjá sig er heldur ekki ámælisvert en hins vegar hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til þingmanna að þeir skoði málin rökrétt og skoði báðar hliðar málsins áður en þeir bera út áróður og alls kyns vitleysu. Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum, en Ögmundi virðist ekki finnast mikilvægt að skoða þær báðar. Það eru einkennileg vinnubrögð fyrrverandi blaðamanns.

Um skrif Ögmundar
Ekki ætla ég hér að taka öll atriði í skrifum Ögmundar og setja þau undir smásjá.
Hér á eftir eru þó nokkur dæmi sem gefa hugmyndir af skrifum hans annars vegar og raunveruleikanum hins vegar: (Það sem er tekið af vefsíðu Ögmundar er skástrikað)

„Það er óhuggulegt að verða vitni að því þegar heilaþvegið fólk, iðulega óharðnaðir unglingar í hernum, framkvæmir illvirki eins og Ísraelar óumdeilanlega fremja á Palestínumönnum.”

Vissulega er það óhuggulegt ef það er rétt sem Ögmundur talar hér um. Hins vegar virðist Ögmundur aðeins horfa á þetta mál frá annarri hliðinni. Eru ungir palastínskir drengir (og stúlkur) sem sprengja sig í loft upp í strætisvögnum og kaffihúsum kannski ekki heilaþvegin? Tekið skal skýrt fram að hér er ég ekki að segja að allt sem Ísraelsmenn hafa aðhafst á svæðunum sé afsakanlegt eða rétt. Langt því frá. En að þjálfa upp hryðjuverkamenn er ekkert annað en heilaþvottur.

„Á kvöldgöngu fyrir svefninn sáum við þrjá bryndreka rétt hjá hótelinu. Inn um rúðurnar mátti greina ísraelska hemenn rýna í vegakort. Þeir voru greinilega að ákveða hvar ætti að bera niður í nótt, hvar skyldi tekið hús á mönnum – svona til að halda hinni hernumdu þjóð við efnið; til að minna á hver stjórnar og hver hlýðir, hver hefur valdið og hverjum ber að sýna undirgefni.”

Veit Ögmundur Jónasson s.s. út á hvað hernaðartækni Ísraelsmanna snýst eða gaf hann sér bara það sem víst að þeir væru þarna að brugga eitthvað slæmt. Hvað er þetta annað en hlutdrægur áróður?

Ögmundur talar um ,,áróður zíonista” og líkir Ísraelum við Nasista. (í grein 8.1.2005) Maður hefði haldið að þingmenn komnir á besta aldur væru lausir við kynþáttafordóma. Hvað ætli myndi gerast ef að Björn Bjarnason (sem hér er tekinn sem dæmi af því að hann er með öfluga heimasíðu sem oft hefur vakið athygli) myndi fara í ferðalag til Ísraels skrifa þaðan að hann hefði séð unga palestínska drengi og þeir hafi greinilega verið að ákveða hvaða strætó þeir gætu nú sprengt og myndi í nokkra daga skrifa um hvað Palestínumenn væru vondir og illa innrættir? Ég held að íslenskir fjölmiðlar létu nú eitthvað í sér heyra. Hann yrði sakaður um fórdóma, kynþáttahatur „zionisma” og svo frv.

Ögmundur kallar varnarmúr Ísraelsmanna „kynþáttamúrinn illa.”
Hann tekur hins vegar ekki fram að múrinn var byggður af nauðsyn eftir stanslausar sjálfsmorðsárásir palenstínskra ungmenna í Ísrael. Það er auðvitað ekki eðlilegt að almenningur í Ísrael geti ekki farið í strætó eða á kaffihús án þess að eiga það á hættu að vera sprengdir í loft upp með naglaprengjum og fleiru. Ef að Ögmundur sér sérstaka ástæðu til þess að fordæma þennan múr þarf hann einnig að fordæma sjálfsmorðsárásir palestínumanna. Það er ekki bara hægt að skoða aðra hliðina á málinu, eins og hann gerir. Hins vegar gefur Ögmundur sér það að þegar nokkrir ísraelskir hermenn skoða kort séu þeir með eyðileggingarstarfsemi í huga. Athyglisvert.
Einnig er rétt að nefna að eftir að viðkomandi varnarmúr var byggður hefur sjálfsmorðsárásum stórlega fækkað í Ísrael. Skiptir það Ögmund engu máli?

Kosningar í Palestínu
Í gær, sunnudag voru haldnar frjálsar kosningar í Palestínu.
Eftir að guðfaðir hryðjuverkanna, Yasser Arafat, lést nýlega hefur heimsbyggðin fylgst með athygli með gangi mála hjá palanstínsku heimastjórninni. Leiðtogar úti um allan heim horfa í fyrsta skipti í mörg ár fram á að friðarviðræður geti hafist af einhverju viti. Sharon hefur sýnt vilja til að draga til baka landnemabyggðir gyðinga og hefur í raun síðustu vikur og mánuði lagt sitt pólitíska líf undir til að sjá frið á milli þjóðanna. Nú liggur ljóst fyrir að Abbas bar sigur úr bítum og verður forseti heimastjórnar Palestínu. Hann þykir ekki spilltur eins og forveri sinn og er líklegur til að stíga skref í átt til friðar.
Sitt sýnist hverjum um Abbas. Sumir hafa trú á því að hann geti komið friðarviðræðum á eitthvert skrið. En eitt skulum við athuga. Þegar hann var forsætisráðherra komust friðarviðræður á eitt besta skrið sem þær hafa komist á í mörg ár. Hann neyddist hins vegar til að segja af sér af því að hann gat ekki unnið undir Arafat.
Ekki minnist Ögmundur á það. Skiptir kannski heldur ekki máli?

Eins og áður sagði er fyrrverandi forseti heimastjórnarinnar, Arafat, látinn.
Aftur og aftur tókst honum að koma í veg fyrir frið í sínu eigin landi. Bill Clinton fyrrv. Bandaríkjaforseti reyndi að koma á friði með Arafat og Barak (fyrrv. forsætisráðh. Ísraels) sumarið 2000. Þegar allt virtist vera að ganga upp hafnaði Arafat samningunum og allt fór í háaloft. Fræg eru orð Clintons þegar hann kvaddi Arafat. Arafat þakkaði honum fyrir að reyna en Clinton opnaði hurðina fyrir hann og sagði,
“I´m a faliure and you´ve maid me one. This is your fault.”

Arafat kom fram í vestrænum fjölmiðlum og talaði um að hann hefði viljað frið, síðan fór hann til Palestínu og kallaði ,,Jihad, Jihad, Jihad.” Engum manni í sögunni hefur tekist að vera í jafn mikilli mótsögn við sjálfan sig eins og Yasser Arafat.

Fleiri verða orð mín um þetta mál ekki nú. Það er vonandi að góðir menn taki nú við stjórninni í Palestínu og útrými hryðjuverkasamtökum eins og Hamas. Þá fyrst er hægt að horfa í átt til friðar.
Eins og staðan er í dag er líklegast að Abbas takist að stíga skref í átt til friðar.

Að lokum
Til að gæta allrar sanngirni bendi ég fólki að lesa sjálft pistla Ögmundar á heimasíðu hans. Þeir eru skrifaðir dagana 4. – 10. janúar 2005. Ögmundur á vissulega hrós skilið fyrir að halda úti lifandi heimasíðu þar sem kjósendur hafa aðgang að honum. Það er mikil vinna að halda úti heimasíðu. Rétt er að taka fram að grein þessi er ekki skrifuð gegn Ögmundi eða árás á persónu hans sem slíka. Að sama skapi er það ekki tilgangur minn að réttlæta allar þær aðgerðir sem Ísraelar hafa framkvæmt á þessu svæði. Hins vegar er einhliða skoðun Ögmundar á þessum málum gagnrýnisverð.

Einnig tek ég fram að þó að ég tali nokkrum sinnum í greininni um ungt palestínufólk sem framið hefur sjálfsmorðsárásir á ég að sjálfsögðu ekki við alla Palestínumenn. Það þarf oftast mjög fáa til að koma slæmu orði á alla. Í báðum þessum löndum er fólk sem þráir ekkert annað en frið, langþráðan frið. Að sama skapi er í báðum löndum fólk sem engan áhuga hefur á friði.

Gísli Freyr Valdórsson

Einnig bendi ég þeim sem áhuga hafa á þessum málum að lesa eftirfarandi greinar:
Honestreporting.com er mjög góð síða sem fer yfir helstu fréttir sem berast frá Ísrael og Palestínu. Þar er einnig að finna „minningargrein” um Yasser Arafat og tekur fyrir í grófum dráttum bæði ævi og hryðjuverkaferil hans.
Friðjón R. Friðjónsso skrifaði mjög góða grein á sus.is um homma í Palestínu.
Hér er gott dæmi um lélega blaðamennsku og „tilbúna” mynd frá svæðinu.
Sindri Guðjónsson hefur áður skrifað um þessi mál á þessu vefriti.


Ávöxtur Sósíalismanns

Í þessum pistli ætla ég að ræða um Kúbu, og skoða hvaða árangri menn hafa náð þar með sósíalískri efnahagsstjórn sinni. Sósíalistar, sem vilja að ríkið eigi og reki flest eða öll fyrirtæki, sem telja friðhelgi eignaréttarins, arðbær og vel rekin stórfyrirtæki í einkaeign og sjálfsákvörðunrrétt einstaklingsins hættulegan fyrir hagsmuni heildarinnar, ættu að líta til Kúbu, taka vel eftir, og snúa baki við hugmyndafræði sinni, sem er að öllu leyti órökrétt og hefur reynst algerlega ömurlega í framkvæmd.
Ég ætla að byrja á því að lýsa eymd hins venjulega Kúbverja, og að því loknu ræða orsakir eymdarinnar, sem er hin sósíalíska efnahagsstjórn.

Heilbrigðiskerfið á Kúbu er einn stór brandari. Hillur í apótekum þar sem heimamenn mega versla með pesetum eru tómar, hér um bil engin lyf fást. Í sérstökum apótekum fyrir erlenda ferðamenn svigna hillurnar undan úrvali. Þar má aðeins versla fyrir erlenda mynt, pesetinn er einskins nýtur þar. Heimamenn betla á götum úti til að fá lyf. Þeir biðja útlendinga, eða þá sem hafa fengið vinnu í ferðamannaiðnaði ríkisins. Kúba er fræg fyrir að vera með ókeypis heilbrigðiskerfi fyrir alla, nóg er af læknum, og heimsóknir þeirra eru á kostnað ríkisins. Það hjálpar hins vegar lítið þegar ekki er hægt að gefa mönnum sýklalyf, insúlín, hjartalyf, o.s.frv. Oft hafa læknar engin önnur úrræði en að aflima menn, eða segja mönnum hvernig lyf þeir eigi að reyna að betla af ferðamönnum. Kúbverskur almenningur getur ekki einu sinni útvegað sér verkjalyf.

Áður en Castro tók við völdum var Kúba með eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi samkvæmt World Health Organisation, með hátt hlutfall af læknum á hvern íbúa, hærra en t.d. í Englandi. Ungbarnadauði var t.a.m. lægri á Kúbu en í Frakklandi og Ítalíu, og Kúbverjar borðuðu þriðja mest allra þjóða Rómönsku Ameríku. Í dag borða Kúbverjar minnst allra þjóða Rómönsku Ameríku, en þeir eru enn með hátt hlutfall lækna.

Ég las nýlega grein þar sem sagt var frá Miguel nokkrum, sem er háskólamenntaður, talar þrjú tungumál, og starfar sem örygisvörður í vindlaverksmiðju. Hann langar að vinna í ferðamannaiðnaðinum, en mjög fáir komast þar að. Hann fær greiddar 225 peseta á mánuði, sem samsvarar um 10 dollurum. Þetta eru dæmigerð Kúbversk mánaðarlaun.

Kúbverjar mega aðeins versla mat fyrir peseta, í búðum sem ekki eru ætlaðar ferðamönnum. Í þessum búðum er aldrei hægt að kaupa grænmeti, ávexti, mjólk eða ost. Ekki er hægt að treysta því að vörur eins og sápa, tannkrem, salt, eða eldspýtur séu til, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta, og hvaðeina annað geta ferðamenn keypt í sérstökum verslunum. Þetta má að sjálfsögðu einnig kaupa á hótelum, en Kúbumenn mega ekki koma inn fyrir andyrið á þeim.

Almenningur á Kúbu býr í hverfum sem líta ver út en verstu hverfi Evrópu og Bandaríkjanna. Centro Habana, eitt fjölmenasta íbúahverfi Kúbu, hefur t.d. verið líkt við Dresden eins og hún leit út eftir að hún var sprengd.

En hversvegna er þetta svona ömurlegt?
Róttækir vinstrimenn vilja meina að það hljóti að vera eithvað annað en hin góða og göfuga hugmyndafræði Marx sem valdi þessum hörmungum. Ýmsir vinstrimenn um heim allan afsaka ástandið á Kúbu með gamalli tuggu: ,,Þetta er allt Bandaríkjamönnum að kenna.” – og vísa þá til viðskiptabanns Bandaríkjamanna á Kúbu. Það er hinsvegar í raun fáránlegt að skella skuldinni á viðskiptabannið. Bandaríkjamenn eru eina landið á svæðinu sem er með viðskiptabann gegn Kúbu. Kúba getur verslað og skipt við hvaða þjóð aðra í öllum heiminum. Hvers vegna halda menn að eina þjóðin sem hafi eitthvað að bjóða Kúbu sé Bandaríkin? Staðreyndin er sú að allar þjóðir Evrópu, Asíu og Rómönsku Ameríku eiga viðskipti við Kúbu. Hvers vegna auðgast Kúbverjar ekki af þessum viðskiptum? Hvers vegna hafa þeir svo lítið að bjóða? Það er vegna þess að efnahagskerfi Kúbu er Sósíalískt. Á Kúbu er enginn Henry Ford, Jón Ásgeir, Michael Dells, né nokkur sjálfstæður atvinnurekandi eða athafnamaður til verðmætasköpunar.
Slíkir menn yrðu settir í steininn.

Ástæða fátæktar Kúbu er sú að hin klassísku mannréttindi frjálshyggjunnar eru virt að vettugi. Þar er ekkert frelsi einstaklingsins, engin friðhelgi eignaréttarins, ekkert tjáningarfrelsi. Það eru engir starfsmenn í einkageiranum. Enginn vinnur hjá neinum nema ríkinu. Að eiga viðskipti við Kúbu, er að eiga viðskipti við kúbverska ríkið. Fjárfestar borga ríkinu beint, og verkamenn ríkisins fá aðeins pínulítið í sinn hlut. Hagsmunir ,,heildarinnar” ráða öllu. Engin má skara fram úr, enginn má ná árangri, enginn má verða ríkur af eigin rammleik, því þá er hann ,,arðræningi”, og því verða ekki til mikil verðmæti – það er engin hvatning. Sökudólgurinn er hugmyndafræði og efnahagsstjórn sósíalismanns.

Á Kúbu er óendanlegur munur á ríkum og fátækum, á þeim sem eiga og eiga ekkert.
Þar er ógnarstór gjá milli stétta. Þetta er ávöxtur sósílismanns.

Sindri Guðjónsson


Þessi pistill er að miklu leyti byggður á þremur greinum sem ég fann á þessari slóð:
www.libertyforcuba.com/
A Leftist "Indictment" of Communist Cuba
Bad Cuban Medicine Cuba on No Dollars a Day


Næsta síða »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband