Leita í fréttum mbl.is

Ég tek ofan fyrir hr. Karli Sigurbjörnssyni

Ég vil taka ofan fyrir hr. Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands, fyrir að hafa ekki látið Samtökin ’78 komast upp með að vaða yfir sig með furðulegri rangtúlkun á orðum hans í viðtali við NFS á dögunum. Í viðtalinu sagði Karl að hjónabandið ætti það inni hjá þjóðinni að því væri ekki kastað á sorphaugana. Samtökin 78 ákváðu að túlka ummæli Karls sem svo að hann teldi að sambönd samkynhneigðra ættu heima á haugunum sem er ekkert annað en grófur útúrsnúningur. Eins og Karl útskýrði skilmerkilega í fréttum NFS sl. laugardag (af einhverjum ástæðum var fréttin ekki birt á Vísir.is þó finna megi hana þar á stafrænu formi), og augljóst ætti að vera hverjum sem er, þá átti hann með orðum sínum við það að ef hjónabandið yrði ekki lengur aðeins skilgreint sem samband karls og konu heldur samband tveggja einstaklinga óháð kyni eins og sumir vilja þá væri búið að breyta algerlega inntaki hugtaksins eins og það hefur verið í aldir og því þar með verið kastað fyrir róða.

Það þarf að ræða málefni samkynhneigðra á málefnalegan og opinn hátt eins og önnur. Það hljóta flestir að geta tekið undir, sama hvaða skoðun þeir annars kunna að hafa á málinu. En það verður svo sannarlega ekki gert með því að snúa gróflega út úr ummælum manna í því skyni, eins og Karl benti réttilega á í fréttum NFS á laugardaginn, að koma í veg fyrir að andstæð sjónarmið heyrist. Sú skoðanakúgun og sá fasismi sem felst í pólitískum rétttrúnaði mun ekki stuðla að neinni lausn í þessum efnum frekar en öðrum. Telji Samtökin 78, sem og aðrir þeir sem styðja þeirra sjónarmið, sig hafa góðan málstað að verja ættu þau varla að hafa áhyggjur af því þó einhverjir viðri önnur sjónarmið í málinu en þau sem samrýmast þeirra eigin. Ef samtökin hins vegar finna hjá sér þörf til að snúa út úr orðum þeirra sem aðrar skoðanir hafa, kalla þá illum nöfnum eða annað þvíumlíkt – þá segir það sennilega meira en margt annað um málefnalega stöðu þeirra sem og annarra sem kjósa að brúka slík meðöl.

Það virðist því miður vera svo að það sé alveg sama hvað þeir, sem hafa önnur sjónarhorn á þessi mál en Samtökin ’78, segja, allt skal það úthrópað sem fordómar og fáfræði, algerlega óháð því hvort viðkomandi geti fært rök fyrir máli sínu eða ekki. Það er því ekki annað að sjá en að það sé skoðun samtakanna að fordómar og fáfræði séu ekki einmitt það sem hugtökin fela í sér heldur það að hafa ákveðnar skoðanir á málefnum samkynhneigðra og aðrar ekki. Slík misnotkun á grafalvarlegum hugtökum í pólitískum tilgangi er einungis til þess fallin að grafa undan alvarleika þeirra í hugum fólks og ber að fordæma, sama hver gerist sekur um slíkt.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband