Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Samfylkingin, talsmenn umbóta í landbúnaði?

osisgSamfylkingin lagði það til á dögunum að verndartollar á matvælum yrðu lagðir niður. Það er afbragðs góð hugmynd. Ef að Samfylkingin kemst í ríkisstjórn eftir næstu kosningar mun ég heimta að loforð þetta komist í framkvæmd.

Formaður Bændasamtakanna brást illur við þessum hugmyndum, og sagði að þetta myndi þýða endalok íslensks landbúnaður. Ingibjörg Sólrún var ekki sammála þessu og sagði forræðishyggju og miðstýringu vera helsta mein íslensk landbúnaðar, og aftur hittir Ingibjörg naglann á höfuðið.

Samfylkingin er því orðinn einn helsti talsmaður raunverulegra umbóta í íslenskum landbúnaði. Hins vegar verða hægrimenn að setja einn varnagla við umbóta stefnu Samflykingarinnar. Það vill nefnilega svo til að Samfylkingin er einn helsti stuðningsflokkur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Evrópusambandið er eitt “landbúnaðar miðstýringar forræðishyggju framsóknar skrímsli”. Hvorki meira né minna en 46% að fjárlögum sambandsins renna í landbúnðainn. 46%!. Fyrr má nú rota en dauðrota. Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins kæmi skattgreiðendum á Íslandi ekki vel.

Sindri Guðjónsson
sindri79(a)gmail.com


Ómakleg árás

geirh1Arnar Þór Stefánsson ræðst á formann Sjálfstæðisflokksins með frekar ómaklegum hætti á Deiglunni í gær. Í grein sem hann kallar "Að þekkja sinn vitjunartíma í pólitík" gerir hann kröfu um að þeir þingmenn sem komu inn á þing 1991 eða fyrr þekki sinn vitjunartíma, standi upp og hætti.

"Höfundur þessa pistilis er þeirrar skoðunar að almennt séð séu 16 ár á þingi feykinógur tími til setu þar. Á þeim tíma geti þingmenn, þó einkum stjórnarþingmenn, komið mörgu því til leiðar sem þeir hafa sannfæringu fyrir, að minnsta kosti meginlínum í þeirri sannfæringu. Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem komu inn á þing árið 1991 eða fyrr hafa til að mynda haft öll tækifæri í þessum efnum og nýtt þau reyndar býsna vel. Nú er hins vegar að mati pistilshöfundar komið að leiðarlokum."

Þarna er ómaklega vegið að formanni Sjálfstæðisflokksins en hann hefur eins og allir þekkja, setið lengst sjálfstæðismanna sem hyggjast sitja áfram. Geir kom inn á þing 1987. Af stjórnarþingmönnum hafa einungis hann, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir setið síðan þá. Nú má vera að Arnar sé að beina orðum sínum að Guðna og Valgerði en þar sem hann kvartar undan því að þurfa að kjósa þaulsetið fólk í prófkjörum, þá held ég að hann sé að beina þessari ósk sinni til eigin flokksmanna. Þar hittir hann fastast fyrir formann flokksins. En Arnari finnst ekki nóg að velta formanninum. Hann vill líka slá af fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, samgönguráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá vill hann losna við fyrrverandi umhverfisráðherra og formann samgöngunefndar útaf þingi. Arnar er ekki að boða endurnýjun heldur hallarbyltingu!

Það er erfitt að segja hver ásetningur Arnars er. Arnar er úr Mosfellssveit og því er Brútusarlag hans gegn þingmanni heimabæjarins eftirtektarvert.

Lokaorð greinar Arnars eru:

"Þaulseta er ekki göfug hvort sem er í veislum eða á Alþingi. Það er almenn kurteisi að standa upp úr sætum sínum fyrir nýju fólki þegar menn hafa setið að borðum alltof lengi. Þessari kurteisi er almennt ekki fyrir að fara í nægjanlegum mæli hjá þeim þingmönnum sem komu inn á Alþingi vorið 1991 eða fyrr. Að þekkja sinn vitjunartíma er góður eiginleiki í pólitík sem öðru."

Það væri sniðugt fyrir Arnar að senda grein sína beint á eftirfarandi aðila í stað þess að vega að þeim undir rós. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem komu inn á þing 1991 eða fyrr eru: Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Geir H. Haarde, Guðmundur Hallvarðsson, Sigríður A. Þórðardóttir, og Sturla Böðvarsson.

Krafa Arnars nú er líka krafa um að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hætti afskiptum af pólitík eftir 8 ár, þá verður hún fimmtug. Guðlaugur Þór, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári  hætti á þingi ekki síðar en eftir 12 ár en þá verða þeir tveir fyrrnefndu um fimmtugt og Sigurður 45 ára, öllsömul greinilega "over the hill".

Það er ekki árafjöldinn sem ræður erindi manna heldur spurningin hvort viðkomandi stjórnmálamaður hafi sýn og markmið, hvort hann eigi hugsjónir og hugmyndir sem eiga erindi inn í sali alþingis. Það má vera að einhverjir þingmenn missi erindi sitt á 16 árum en sumir missa það enn fyrr. Það er sérstaklega sárt að sjá menn sem hafa gefið sig út fyrir að vera málsvarar einkaframtaks og frjálshyggju ausa úr sjóðum almennings um leið og þeir komast í aðstöðu til þess. Svoleiðis stjórnmálamenn missa erindi sitt strax og þeir svíkja hugsjónir sínar og þurfa engin 16 ár til.

Friðjón R. Friðjónsson
www.fridjon.blog.is


Kaupa múslimar Jótlandspóstinn?

jyllands-posten__228993sFyrr í þessum mánuði hvatti Ekmeleddin Ihsanoglu, framkvæmdastjóri samtakanna Organization of the Islamic Conference (OIC), auðuga múslima til þess að fjárfesta í vestrænum fjölmiðlum í því skyni að hafa áhrif á það hvernig þeir fjölluðu um íslam. Ráðstefna þessi fór fram í Sádi-Arabíu og hana sóttu einkum ráðherrar og aðrir embættismenn frá aðildarríkjum samtakanna. "Íslamskir fjárfestar ættu að setja fé sitt í stóru fjölmiðlafyrirtæki heimsins svo þeir geti haft áhrif á stefnu þeirra í gegnum stjórn þeirra," sagði Ihsanoglu og bætti því við að íslömsk ríki ættu að starfrækja sjónvarpsstöðvar á ensku til þess að breyta áliti heimsins á íslam.

OIC eru stærstu samtök múslima í heiminum með 57 aðildarríki innanborðs. Þann 7. desember á síðasta ári fordæmdu þau dönsk stjórnvöld fyrir að neita að beita sér gegn meintri andúð á múslimum í dönskum fjölmiðlum eftir að Jótlandspósturinn hafði birt 12 teikningar af Múhameð. Á blaðamannafundi í Jeddah 28. janúar sl. gagnrýndu samtökin dönsk stjórnvöld aftur harðlega fyrir að hafa ekki beðist afsökunar á teikningunum. "Dönsk stjórnvöld hafa, með því að verja dagblaðið og neita að ritskoða það með ótvíræðum hætti, hvorki þjónað hagsmunum tjáningarfrelsisins né stuðlað að framgangi markmiða fjölmenningarhyggjunnar, innanlands eða á alþjóðlegum vettvangi. Dönsk stjórnvöld hefðu átt að fordæma teikningarnar skilyrðislaust," sagði  Ihsanoglu af því tilefni.

eihsanoglu_stevensFramkvæmdastjórinn fagnaði ennfremur diplómatískum aðgerðum íslamskra ríkja gegn Danmörku og sagði að reiðin gegn landinu endurspeglaðist í því að múslimar sniðgengu danskar vörur. "Ef þeir hafa tjáningarfrelsið, þá hafa múslimar frelsi til að velja," sagði hann og aukinheldur að dönsk stjórnvöld "hefðu það ábyrgðarhlutverk að hafa stjórn á slíku efni sem æsti upp hatur og óumburðarlyndi gagnvart trúarbrögðum." Nú er s.s. hugmyndin að tryggja að vestrænir fjölmiðlar flytji aðeins fréttir sem múslimar eru sáttir við. Kaldhæðnin í þessu er hins vegar sú að helztu fjölmiðlar Vesturlanda gætu ekki verið meira undirgefnir múslimum en raunin er nú þegar.

Spurningin er hins vegar sú hvort Jótlandspósturinn muni verða fyrsta vestræna dagblaðið sem verður keypt og endanlega þaggað niður í gegnum íslamskt eignarhald?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður á ensku á The Brussels Journal)


Um frjáls viðskipti

free_tradeKanadíski rithöfundurinn John Ralston Saul hélt því fram í ræðu að frjáls viðskipti væru ekki leiðin til aukinnar hagsældar. Hann hélt því fram í sömu ræðu að besta leiðin að hagsæld þjóða væri að setja upp nógu skýr lög um milliríkjaviðskipti og jafnvel viðskiptahindranir sem kæmu í veg fyrir yfirburðastöðu stórfyrirtækja á alheimsmarkaði.

Ralston Saul endurspeglar hér viðhorf margra vinstri manna og þeirra sem almennt eru á móti hnattvæðingunni. Hann heldur því fram að hnattvæðingin sé rekin áfram á græðginni einni saman og í stað þess að stórfyrirtæki hafi ráðandi markaðsafl í sínu eigin landi nái þau ráðandi markaðsafli á alþjóðamörkuðum og minnka þannig frelsi manna til athafna og draga úr möguleikanum á velferðarþjónustu ríkja. Hann bendir á að fyrirtæki sem áður hafi borgað 45% tekjuskatt borgi nú í flestum löndum undir 20% skatt og það sé til komið af því ríkin vilja vera ,,samkeppnishæf á alþjóðamarkaði.” Saul heldur því fram að vegna þessara ,,lágu” skatta sé því minna fjármagn sem ríkin hafa til að sinna velferðarþjónustu og menntamálum.

Allt fjármagnið er að hans mati komið í hendurnar á þeim fáu sem hafa yfirtekið markaðinn. Andstæðingar hnattvæðingar telja að auður þjóðanna safnist á fáar hendur eftir því sem hnattvæðingin sé meiri. Með hugmyndina að ,,jafna” auð manna og þjóða að leiðarsljósi hafa þeir beitt sér gegn frjálsum viðskiptum og afnámi viðskiptahindranna.

Saul heldur því einnig fram, sem er mjög athyglisvert og vel þess virði að skoða, að stjórnmálamenn séu að afhenda alþjóðafyrirtækjum völd sín með því að opna fyrir frjáls viðskipti sem ýta undir frekari hnattvæðingu. Hann spyr hvernig fyrirtæki ætli sér að reka velferðarkerfi? Stjórnmálamenn og leiðtogar þjóðanna vita að hans mati hvað þjóðinni er fyrir bestu og hvernig kerfi þarf að reka í sínu eigin heimalandi. Hann telur að fyrirtæki eða ,,markaðurinn” sé ekki hæfur til að taka ákvarðanir um slíkt. Fyrirtæki sjái ekki um að reka velferðarkerfi einstakra þjóða eða sjá þeim fyrir menntun.

Af hverju hnattvæðing
Miðstýringu stjórnmálamanna af daglegu lífi borgarans hefur verið aflétt að miklum hluta. Mörg stór ríkisfyrirtæki hafa verið seld, má þar helst nefna ríkisbankana tvo og nú nýlega Landssímann. Svipuð þróun hefur átt sér stað erlendis. Þegar einkaaðilar eignast fyrirtækin (eða stofna sín eigin) þá hafa þeir fullkomið frelsi til að hefja útrás og athafna sig á alþjóðavísu. Íslensku bankarnir, Baugur, Össur, Marel og fleiri fyrirtæki hafa frelsi til að athafna sig erlendis.

Ástæðan fyrir hnattvæðingunni er eins og áður hefur komið fram að ríkin sjá sér hag í því að stunduð séu frjáls alþjóðaviðskipti. Jafnvel þó að einstaka ríki neiti af pólitískum ástæðum að gefa eftir höft sín á ákveðnar vörur (til dæmis Íslendingar með sjávarútveg og Frakkar með landbúnað) þá er í heildina litið viðurkennt að frjáls viðskipti efla hag þjóðanna. Það eru ekki ríkin sjálf sem standa í alþjóðviðskiptunum heldur leyfa þau fyrirtækjunum að sjá um slíkt.

En af hverju? Nálgumst við viðskipti við þriðja heiminn af kærleikanum einum saman? Líklega ekki. Við leitumst ekki því að skipta við ríki af því að okkur þyki svo vænt um fólkið þar. Hér skal nú ekki gert lítið úr bróðurkærleikanum en hafa ber í huga að manninum er einungis hæft að þykja vænt um sína nánustu, maka, börn, ættingja og svo framvegis, jafnvel þjóð ef þjóðin er lítil eins og Ísland. Nei, þjóðirnar sjá sér það í hag að stunda viðskipti sín á milli. Jafnvel þó að hlýtt sé hugsað til fátæku landanna í suðri og austri, er ljóst að það er beggja hagur að viðskipti eigi sér stað milli þeirra og ,,okkar.”

Það mál vel vera að vinstri menn hafi eitthvað til síns máls þegar þeir segja að einstaka fyrirtæki hafi ráðandi markaðsstöðu á alheimsmarkaði vegna hnattvæðingarinnar. Þá skal hins vegar minnast á að markaðurinn er opinn og í raun og veru endalaus. Það er alltaf hægt að stofna ný fyrirtæki og hefja rekstur. Það gildir sama lögmála í alþjóðaviðskiptum um samkeppni eins og annars staðar. Það er alveg rétt hjá John Ralston Saul að fyrirtæki sjá ekki um að reka velferðar- og menntakerfið. En hann gleymir því að frjáls milliríkjaviðskipti auka hagsæld þeirra þjóða sem taka þátt í þeim og skila fjármagni í ríkiskassann þó svo að það fjármagn sé ekki innheimt með beinni skattheimtu. Það er ljóst að sósíalisminn hefur blindað Saul að öllu leyti. Hagsæld milliríkjaviðskipta hefur ekkert með hægri-vinstri stjórnmál að gera. Hagsæld af milliríkjaviðskiptum er staðreynd.

Og þá er það stóra spurningin, stafar lýðræðinu ógn sökum hnattvæðingar? Svar mitt er að svo sé ekki. Eins og áður sagði hafa stjórnmálamenn minnkað ítök sín og þá sérstaklega í viðskiptum. Stjórnmálamenn geta í einhverjum tilvikum leyst ágreining um viðskiptasamninga milli ríkja og mótað stefnu alþjóðaviðskipta. Það eru hins vegar þeir einkaaðilar sem viðskiptin stunda sem sjá um restina.

Lýðræðinu stafar frekar ógn af alþjóðastofnunum eða fyrirbærum eins og Evrópusambandinu. Þegar lítill hópur manna tekur afdrífaríkar ákvarðanir fyrir fjöldann án þess að vera kosinn (líkt og framkvæmdarráð ESB gerir) er alltaf hætta á að lýðræðið sé á undanhaldi. Hér skal ekki fullyrt að slíkt eigi sér stað hvorki hjá Sameinuðu þjóðunum eða Evrópusambandinu en hættar er vissulega fyrir hendi. En eins og komið var að hér áður er alþjóðakerfið að mestu stjórnleysa og því lítil hætta á að lýðræðinu sé ógnað.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


Meiri umræðu um Evrópumálin!

Ég vil endilega meiri umræðu um Evrópumálin, því meiri því betra raunar. Evrópusambandssinnar virðast þeirrar skoðunar að meiri umræða um málaflokkinn sé þeirra málstað í hag. Að vísu hefur það ítrekað sýnt sig að í þeirra orðabók þýðir umræða um Evrópumálin ekki almenn umræða heldur umræða sem hefur það að útgangspunkti að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Umræða sem fær aðra niðurstöðu, sér í lagi þá að hagsmunum Íslands sé bezt borgið utan sambandsins, er því ekki umræða heldur eitthvað allt, allt annað.

Staðreyndin er sú að reynslan sýnir, bæði hér heima sem og erlendis, að aukin umræða um Evrópumálin leiðir allajafna til aukinnar andstöðu við Evrópusamrunann, eins og samrunaþróunin innan Evrópusambandsins hefur gjarnan verið kölluð - ekki til aukins stuðnings. Gildir þá einu hvort litið er til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um evruna í Svíþjóð 2003, þjóðaratkvæðagreiðslnanna um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins í Frakklandi og Hollandi á síðasta ári (sem notabene er engan veginn tímabært að afskrifa) eða þjóðaratkvæðagreiðslnanna um Evrópusambandsaðild í Noregi 1972 og 1994 svo dæmi séu tekin.

Í öllum þessum tilfellum töldu stjórnvöld að meirihlutastuðningur væri við umrædd samrunaskref í aðdraganda þess að ákvarðanir um þjóðaratkvæði voru teknar. En síðan fóru umræðurnar í gang og niðurstaðan var að meirihluti almennings hafnaði þeim. Rannsóknir í Frakklandi sýndu raunar að því meira sem fólk vissi um stjórnarskrá Evrópusambandsins og innihald hennar þeim mun líklegra var það til að hafna henni. Nú, þremur árum eftir að Svíar höfnuðu evrunni, er enn mikill meirihluti þeirra andvígur henni og langur vegur er frá því að Norðmenn séu á leiðinni í sambandið.

Hér á landi virðist tilhneigingin vera sú sama. Í byrjun árs 2002 sýndi skoðanakönnun Gallup að mikill meirihluti Íslendinga styddi aðild að Evrópusambandinu. Ári síðar, eftir að miklar umræður um Evrópumálin höfðu átt sér stað, bæði í kjölfar stofnunar Heimssýnar þá um sumarið og ítrekaðra yfirlýsinga forystumanna Samfylkingarinnar um að Evrópusambandsaðild yrði sett á oddinn hjá flokknum fyrir þingkosningarnar 2003, snerist spilið algerlega við og mikill meirihluti landsmanna var orðinn andvígur aðild samkvæmt könnunum.

Það er því alrangt þegar því er stundum haldið fram að við sjálfstæðissinnar viljum ekki að Evrópumálin séu rædd, hvort sem það er innan Sjálfstæðisflokksins eða annars staðar. Við viljum endilega að þessi mál séu rædd sem mest. Við viljum hins vegar að raunverulegar umræður um málaflokkinn eigi sér stað þar sem allar hliðar eru skoðaðar. Eins og áður segir teljast það hins vegar ekki umræður um Evrópumálin að mati Evrópusambandssinna nema niðurstaðan sé sú að Ísland eigi að afsala sér fullveldi sínu og ganga í Evrópusambandið.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birtist áður í Morgunblaðinu 13. september 2006)
 


Tónlaus Samfylking

Það er rúmlega mánuður síðan umræða um ofurlaun og ójöfnuð fór af stað í þjóðfélaginu. Þá hlupu sósíalistar upp til handa og fóta og létu öllum illum látum um það hvað lífið á Íslandi væri nú erfitt og vont. Allt í einu var ,,samfélagsleg ábyrgð” orðin útþynnt orðahugtak sem hver stjórnmálamaðurinn og verkalýðsfrömuðurinn notaði sér máli sínu til framdráttar í þeirri umræðu sem fór fram á þessum tíma. Nú er hins vegar liðinn meira en mánuður og umræðan löngu búin. Hvorki Össur, Ingibjörg, ASÍ, Guðni né nokkur annar virðist hafa áhyggjur af því lengur hvað fólk hefur það slæmt og hvað fáir útvaldir hafa það allt alltof gott.

En það er athyglisvert að skoða hvernig umræðan fór fram og hver niðurstaðan varð. Ekki stendur til að gera það hér í löngu máli en þó verður stiklað á stóru.

Um leið og Ríkisskattstjóri var búinn að sitja sveittur yfir því að taka til lista yfir þá sem mestu skattana hefðu greitt og sent fjölmiðlum (enda algjört forgangsatriði á þeirri stofnun) fór allt í háaloft. Allt í einu kom í ljós, vinstrimönnum til mikillar óánægju, að til væri fólk á Íslandi með allt of háar tekjur.

Fyrrnefndir sósíalistar byrjuðu á því að ráðast á þessa örfáu menn sem hafa svokölluð ,,ofurlaun” (sem reyndar eru ekki laun heldur ýmiss konar tekjur). Síðan átti að taka lífeyrissjóðina fyrir. Össur og Ingibjörg kölluðu á ,,samfélagslega ábyrgð” lífeyrissjóðanna sem ættu hlutabréf í þessu fjármálafyrirtækjum sem væru að borga allt of há laun. Allt í einu áttu lífeyrissjóðir að hætta að ávaxta fjármagn sitt eins mikið og mögulegt var því að um það bil 10 – 15 manns á Íslandi voru á allt of háum launum að þeirra mati. Þau reyndar töluðu aldrei um hvað væru eðlileg laun en það átti kannski ekkert að fylgja umræðunni?

Flestir þekkja framhaldið og því óþarft að hafa fleiri orð um það. Nema hvað. Er það ekki einkennilegt að málið hafi ekki verið alvarlegra en það að nú er þessari umræðu lokið. Segir það ekki eitthvað um það fólk sem hafði hvað háværustu orðin um þetta ,,hræðilega” ástand sem hér hafði myndast á landinu að umræðan hafi endað í ekki nema 3 vikur?

Nei, ég held að í enn eitt skiptið hafi hinn ,,tónlausi lúður” Samfylkingarinnar blásið innihaldslausu lofti. Íslendingar hafa það alla jafna nokkuð gott og sú staðreynd að nokkrir skuli hafi það ,,ofurgott” gerir aðra ekki fátækari. Það er hlægilegt (en reyndar líka hættulegt) að stjórnmálamenn hafi hvatt lífeyrissjóði landsins til að leggja til hliðar áætlun sína um að hámarka fé sjóðsfélaga og sinna frekar tilfinningastefnu sinni (stjórnmálamannanna).

Ætli ég myndi hafa það betur ef Lífeyrissjóður Verslunarmanna myndi taka fé sitt úr þeim fyrirtækjum sem fært hafa sjóðnum mikinn ávöxt til þess eins að lækka laun örfárra manna? Myndi Samfylkingin bæta mér það upp? Munum við eiga von á því í vetur að vinstri flokkarnir flytji frumvarp þar sem reynt verður að ,,komast yfir” þetta fjármagn? Guðni Ágústsson lét nú hafa eftir sér að ,,ríkið þyrfti að taka meira af þessu til sín” – það var eins og talað úr hjarta Marx og efni í aðra grein.

Góða helgi...

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


Góður félagsskapur?

Samkvæmt þessari frétt á Vísir.is voru nokkur helstu átrúnaðargoð íslenskra félagshyggjumanna saman komin á Kúbu í vikunni. Á meðan vinstri menn á Íslandi hallmæla Bush bandaríkjaforseta sem hættulegasta manni í heimi líta þeir á þessa ráðstefnugesti sem hin bestu og meinlausu skinn. En ekki hvað?

Ég er viss um að Sveinn Rúnar, Jón Ormur, Stefán Pálsson, Ögmundur og fleiri myndu kikna í hnjánum af því að hitta þessi vini sína. Þeir taki það til sín sem eiga.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


Kosningavetur framundan - verum vakandi

Nú fara prófkjörin að hefjast þar sem flokkarnir velja frambjóðendur sína fyrir kosningarnar næsta vor. Það verður gaman að fylgjast með því næstu vikur og mánuði þegar frambjóðendur fara að kynna sig og fyrir hvað þeir standa. Í sumum flokkum eins og Samfylkingunni til dæmis, skipta prófkjör litlu enda hafa menn verið færðir fram og til baka ef það hentar forystu flokksins. Gott dæmi er þegar minn ágæti kennari, Eiríkur Bergmann, var færður til á lista fyrir síðustu kosningar af því að allt í einu datt núverandi formanni í hug að gefa kost á sér í sæti á lista Samfylkingarinnar. Hún beið að sjálfsögðu þangað til að prófkjörinu væri lokið og þá þótti góð hugmynd að setja til hliðar fólk sem hafði lagt á sig mikla vinnu í prófkjöri, enda Samfylkingin fánaberi lýðræðisins. En þetta var nú smá útúrdúr svona strax í byrjun.

Í lok síðasta árs birti ég grein hér á síðunni þar sem ég velti því fyrir mér hvort að rekstur ríkisins sé of góður um þessar mundir. Það sem ég á við með því er að hér undanfarin ár hafa skattar verið að lækka (lítillega) og einnig hefur ríkið verið að greiða niður erlendar skuldir sínar sem í dag eru sáralitlar. Að borga skuldir og lækka skatta er eitthvað sem vinstri menn hafa aldrei verið hrifnir af. Í stað þess að greiða niður erlendar skuldir vildu vinstri menn á Alþingi frekar hirða hugsanlegar arðgreiðslur úr Símanum í ríkiskassann (sem þó komust ekki í hálfkvisti við vextina sem lögðust ofan á erlendu lánin).

Ef fer sem horfir verður ríkiskassinn rekinn með hagnaði aftur á næsta ári. Á síðasta ári var 130 milljarða tekjuafgangur af ríkinu (ég tel nauðsynlegt að tala hér um ,,ríkið” en ekki hið opinbera því flest sveitafélög á landinu stefna fjármálum sínum í aðra átt). Þrátt fyrir mikinn tekjuafgang hafði núverandi ríkisstjórn það ekki í sér að lækka skatta enn frekar þó fullt svigrúm væri til þess. Það er vissulega miður.

En fari það nú þannig að næsta sumar verði mynduð hér vinstri stjórn er full ástæða til að hafa áhyggjur. Þá hefur sú stjórn fullt tækifæri til að bæði hækka skatta og hækka skuldir ríkisins. Rekstur Reykjavíkurborgar s.l. 12 ár er gott dæmi. Þar byrjuðu skuldirnar að hækka mjög hratt og síðustu ár R-listans byrjuðu skattar og aukagjöld að hækka til að eiga fyrir þessu öllu saman. Vinstri stjórn gæti e.t.v. aukið aukið skuldirnar verulega á fjórum árum án þess að hækka skatta. Skattahækkunin fylgir þó fljótlega á eftir.

Það er því full ástæða fyrir þá sem er annt um efnahag landsins að hafa augun opin á komandi vetri. Stjórnmálamenn vilja gjarna lofa upp í ermina á sér þegar kemur að kosningum enda auðvelt að lofa að borga eitthvað með peningum sem maður á ekki sjálfur. Staðreyndin er hins vegar sú að nú er fullt svigrúm til skattalækkanna.

Brýnasta ,,útgjaldarverkefni” ríkissins er að tryggja varnir landsin, efla Landhelgisgæsluna og auka öryggi borgaranna. Þegar því hefur verið mætt er full ástæða til að lækka skatta og leyfa einstaklingum að njóta þess sjálfir sem þeir vinna sér inn.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


Schengen skapar óöruggari landamæri

Þann 25. ágúst sl. tóku Finnar á ný upp hefðbundið landamæraeftirlit gagnvart öðrum aðildarríkjum Schengen-samstarfsins eftir. Ástæðan var fundur evrópskra og asískra ráðamanna sem fram fór í Helsinki í dag og í gær. Á morgun verður hefðbundnu landamæraeftirliti aftur hætt. Ýmis önnur aðildarríki samstarfsins hafa gripið til þessara aðgerða á undanförnum árum vegna hliðstæðra atburða þar sem talin hefur verið þörf á auknu öryggi. Þ.m.t. við Íslendingar, t.d. vegna vorfundar Atlandshafsbandalagsins 2002 og heimsóknar forseta Kína til landsins þá um sumarið.

Það er því nokkuð ljóst að landamæraöryggi aðildarríkja Schengen-samstarfsins hefur ekki aukizt við aðildina. Ef það telzt liður í því að auka landamæraöryggi að hverfa til hefðbundins landamæraeftirlits eins og það var fyrir daga samstarfsins segir það sig væntanlega sjálft að staðan eftir aðildina að Schengen felur í sér minna öryggi. Annars þyrfti varla að hverfa til "gamla" fyrirkomulagsins þegar atburðir eiga sér stað þar sem talin er þörf á auknu öryggi.

Hægt væri að halda mun lengri tölu um Schengen-samstarfið, en ég læt nægja að þessu sinni að vitna í ávarp sem Davíð Oddsson, fyrrv. forsætisráðherra, hélt 18. október 2002 á málþingi Lögfræðingafélags Íslands um för yfir landamæri þar sem Davíð sagði m.a. að ekki væri hægt að bera á móti því að aðildin að samstarfinu hefði veikt landamæraeftirlit hér á landi:

"Markmið Schengen-samstarfsins er að tryggja frjálsa för fólks innan aðildarríkja þess með því að fella niður landamæravörslu á milli þeirra, en styrkja um leið eftirlit með ytri landamærum þeirra og svonefndra þriðju landa og koma upp öflugri lögreglusamvinnu í því skyni. Þetta má teljast eðlileg þróun á meginlandi Evrópu vegna þess að þar hafa ríkin fyrir löngu gefist upp á að halda uppi eftirliti á landamærum sín á milli. En málið kann að horfa nokkuð á annan veg við gagnvart eyríkjum, sem af landfræðilegum ástæðum hafa alla burði til að halda uppi öflugu landamæraeftirliti og ná að því leyti sama eða jafnvel mun betri árangri en að er stefnt með Schengen-samstarfinu. Niðurstaðan í Bretlandi og á Írlandi varð sú, að þeir myndu áfram gæta sjálfir eigin landamæra, en niðurstaðan hér varð sem kunnugt er sú - einkum af tryggð við grannríkin annars staðar á Norðurlöndum og svonefnt norrænt vegabréfasamband - að flytja eftirlit með landamærum okkar frá Keflavík alla leið til Mílanó, Madrid og Mykonos, svo dæmi séu tekin, svo traustvekjandi sem það kann annars að þykja, og leggja í staðinn traust okkar og trúnað á sameiginlega gagnabanka Schengen-samstarfsins."

---

Í dag er þess minnst að fimm ár eru liðin frá hinni hryllilegu og villimannlegu hryðjuverkaárás á Bandaríkin 11. september 2001. Við á Íhald.is vottum Bandaríkjamönnum, og sérstaklega þeim sem misstu ástvini í árásinni, samúð okkar og virðingu.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is

 


Gullkornið á sunnudegi

“Indeed, in my view mass migration and the management of immigration is now the greatest challenge facing all European governments. [...] We have to get away from the notion that anyone who wants to talk about immigration is somehow a racist.”
 
Dr. John Reid,
innanríkisráðherra Breta í ræðu hjá DEMOS 9. ágúst 2006.

 


Næsta síða »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband