Bloggfærslur mánaðarins, maí 2005
Miðvikudagur, 1. júní 2005
Kynbundinn launamunur
Runólfur Ágústsson rektor viðskiptaháskólans á Bifröst greindi frá því í fréttum RÚV síðastliðinn laugardag að hátt í 50% munur væri á launum nýlega útskrifaðra karla og kvenna frá skólanum en skólinn kannaði nýlega stöðu og störf útskrifaðra viðskiptafræðinga og lögfræðinga. Runólfur sagðist telja meginskýringuna vanmat atvinnulífsins á vinnukrafti kvenna og að þessi kynbundni launamunur væri hneisa. Við útskrift frá skólanum nýverið undirrituðu rektor og félagsmálaráðherra samning um að við skólann yrði stofnað rannsóknarsetur vinnuréttar og jafnréttismála. Félagsmálaráðherra lagði til við þetta tækifæri að undirbúið yrði að veita sérstakar viðurkenningar til þeirra fyrirtækja sem sköruðu fram úr í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði sérstaklega með tilliti til launa og stöðu kvenna í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum. Einnig kom fram hjá Runólfi að til stendur að stofna átakshóp meðal kvenna í útskriftarhópi næsta háskólaárs í því skyni að styðja þær og efla en meðal annars verður farið með þeim í gegnum ráðningarferli og slíkt. Í þriðja lagi stendur til að kynna íslensku atvinnulífi þessar niðurstöður og fá fyrirtækin í lið með skólanum við að breyta þessu.
Ónothæf mæling?
Degi síðar var rætt við Ara Edvald framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í kvöldfréttum þar sem hann sagði könnun viðskiptaháskólans ónothæfa sem mælingu á launamun milli karla og kvenna og færði góð rök fyrir þeirri skoðun sinni. Í könnuninnni er ekki að reynt að mæla launamun fyrir sambærileg störf heldur er hún fyrst og fremst vísbending um hvernig þessu tiltekna fólki vegnar á fyrstu árum sínum í atvinnulífinu eftir útskrift. Fram kom að sjónarmið samtakanna er að óskynsamlegt er að mismuna fólki á vinnumarkaði á grundvelli nokkurs annars en hæfni og vinnuframlags annað feli í sér óstjórn. Ari sagði einnig að verið gæti að konur geri ekki nægilega miklar kröfur þegar þær ganga til samninga um laun og vísaði í samtöl sín við ýmsa aðila úr atvinnulífinu um fólk sem kemur í starfsviðtöl.
Sennilegar skýringar
Telja verður afar ósennilegt að fyrirtæki hafi það að meðvitaðri stefnu að borga konum lægri laun en körlum. Hví ættu þau að hafa slíka stefnu? Hvaða hagsmunum væru þau að þjóna með því? Laun eru að meginstefnu niðurstaða frjálsra samninga milli atvinnurekanda og launþega. Samtök vinnuveitenda og launþega semja í kjarasamningum um tiltekin lágmarkskjör. Svo semja einstakir launþegar gjarnan við vinnuveitendur sína um betri kjör. Þar er hlutverk vinnuveitandans fyrst og fremst það að ná samningi sem er sem hagstæðastur fyrir fyrirtækið innan þess ramma sem lög og kjarasamningar marka. Ef viðsemjandinn gerir tiltölulega lágar kröfur er lítill hvati fyrir vinnuveitandann að semja um mun hærri laun en krafan lýtur að. Þetta hlýtur skynsamt fólk að sjá.
Ég tel þannig að Ari eigi kollgátuna þegar hann bendir á hugsanlegar skýringar á launamun kynjanna. Það kemur líka heim og saman við könnun sem Verlsunarráð gerði fyrir nokkrum árum þar sem fram kom að konur gera að meðaltali um 30% lægri launakröfur en karlar.
Taka verður undir orð Ara um að óskynsamlegt er fyrir fyrirtæki að mismuna fólki á grundvelli annars en hæfni og vinnuframlags. Í þeim efnum er engin ástæða til að ætla annað en að konur standi að jafnaði jafnfætis körlum. Hæfir stjórnendur umbuna því starfsfólki sem stendur sig vel. Því má ætla að í fyllingu tímans hverfi sá kynbundni launamunur sem nú er til staðar. En til að svo verði verða konur jafnt sem karlar að vera ófeimnar við að gera hæfilegar launakröfur.
Vondar leiðir
Sumir hafa lagt til róttækari aðgerðir til að sporna við launamuninum en Runólfur og félagar á Bifröst. Meira að segja hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi um sérstaka stofnun sem hefði svipaðar heimildir og Samkeppnisstofnun til að gera innrásir í fyrirtæki og leggja hald á gögn í því skyni að fletta ofan af hugsanlegri mismunun! Síðan væri hægt að beita fyrirtæki viðurlögum ef í ljós kæmi að einstaklingur fengi lægri laun en einstaklingur af gagnstæðu kyni fyrir sambærilegt starf! Slíkar hugmyndir eru óhæfa og mega aldrei verða að veruleika. Hvers vegna segi ég það? Jú, því að í raun væri með því verið að afnema samningsfrelsið á vinnumarkaðinum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og öllum til tjóns. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á ég m.a. við að líklegt má telja að slíkt myndi hægja verulega á hjólum atvinnulífsins með tilheyrandi aukaverkunum svo sem auknu atvinnuleysi. Um veruleg höft á atvinnulífið væri að ræða. Svipað má segja um hugmyndir um lögbundna kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja. Með slíkum aðgerðum væri verið að skerða með óforsvaranlegum hætti að mínu áliti frelsi eigenda fyrirtækjanna til að velja þá stjórnendur sem þeir treysta best. Ef ég á fyrirtæki, hvers vegna ætti ég ekki að mega ráða hverjir stýra því? Ef þrjár vinkonur stofna fyrirtæki og leggja sjálfar út í tilheyrandi kostnað, hvers vegna mega þær ekki stýra því sjálfar án þess að vera skikkaðar til að skipa karl með sér í stjórnina??
Aðrar leiðir
Aðrar leiðir eru farsælli til að ná þeim markmiðum sem um ræðir. Það er engin ástæða til að ætla að konur þurfi að ná lakari samningum en karlar ef þær gera á annað borð nægar kröfur, eins og ég hef þegar komið inn á. Sé það rétt hjá Runólfi að atvinnulífið hafi vanmetið þær konur sem skólinn hefur útskrifað ættu viðkomandi konur að krefjast launa í samræmi við hæfni sína enda hljóta að vera til aðrir vinnuveitendur sem meta þær að verðleikum. Að sama skapi er full ástæða til að ætla að konum í stjórnum fyrirtækja fjölgi eftir því sem fleiri konur hasla sér völl í viðskiptum og sanna hæfni sína í fyrirtækjarekstri. Það er hagur fyrirtækja að velja sem hæfasta stjórnendur, en að ganga ekki fram hjá hæfri konu vegna karls sem hefur minni hæfni. Einnig er morgunljóst að eftir því sem konur fjárfesta meira í atvinnulífinu fjölgar þeim konum sem geta gert kröfu um stjórnarsæti á grundvelli eignarhlutar í viðkomandi félagi.
Sú leið sem félagsmálaráðherra leggur til að verðlauna fyrirtæki sem skara fram úr í jafnréttismálum er góð að því leyti að hún er hvetjandi án þess að vera íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Einnig er bara gott um það framtak Bifrestinga að segja að koma á fót áðurnefndum átakshóp enda má leiða að því líkur eins og áður er vikið að að oft þurfi konur að temja sér að gera ríkari kröfur í sínum starfssamningum til að fá þau laun sem þær eiga skilið.
Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is
Mánudagur, 30. maí 2005
Mánudagspósturinn 30. maí 2005
Frakkar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Frakklandi í gær eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Um 56% franskra kjósenda afþökkuðu stjórnarskrána á meðan aðeins um 44% samþykktu hana. Þegar frönsk stjórnvöld ákváðu að setja málið í þjóðaratkvæði á síðasta ári sýndu skoðanakannanir mikinn meirihluta Frakka hlynntan stjórnarskránni. Verð ég að viðurkenna að ég þorði ekki að gera ráð fyrir að munurinn yrði svona mikill á fylkingum stuðningsmanna og andstæðinga stjórnarskrárinnar og sjálfsagt á það við um mun fleiri en bara mig. Skoðanakannanir höfðu undir það síðasta bent til þess að stjórnarskránni yrði hafnað með á bilinu 51-55% atkvæða. Þetta er því væntanlega mun meira afgerandi niðurstaða en bjartsýnustu andstæðingar stjórnarskrárinnar hafa þorað að vona.
En hvert verður framhaldið? Ég ritaði reyndar grein í lengra lagi í fyrradag um þetta mál allt sem síðan birtist á vefriti Sambands ungra sjálfstæðismanna í gær. Þar fór ég ansi ítarlega yfir málið að ég tel og fjallaði m.a. um það hvert framhaldið kynni að verða ef Frakkar höfnuðu stjórnarskránni. Helzta spurningin í því sambandi er kannski hvað Tony Blair ákveður að gera. Notar hann tækifærið og reynir að losa sig undan því að þurfa að leggja stjórnarskrána í dóm brezkra kjósenda? Eða verður hann við hvatningum annarra forystumanna Evrópusambandsins um að önnur aðildarríki sambandsins haldi sínu striki við afgreiðslu stjórnarskrárinnar þrátt fyrir að Frakkar hafi hafnað henni?
Ég held að Blair hljóti að ákveða að breyta engu um það að halda þjóðaratkvæðið í Bretlandi. Þá bæði vegna þess að hann hefur ítrekað sagt á undanförnum vikum að brezk stjórnvöld muni ekki láta afgreiðslu Frakka eða annarra aðildarríkja Evrópusambandsins hafa áhrif á það hvort þau haldi þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi eða ekki og einnig, og ekki síður, vegna þess að hann, ásamt öðrum leiðtogum aðildarríkja sambandsins, skuldbatt sig til að láta afgreiða stjórnarskrána í heimalandi sínu við formlega undirritun hennar sl. haust.
Allar líkur verða því að teljast á því að stjórnarskrármálið haldi áfram eins og ekkert hafi í skorizt. Síðan muni forystumenn Evrópusambandsins setjast niður, þegar öll aðildarríki sambandsins hafa tekið afstöðu til stjórnarskrárinnar, og fara yfir það hversu mörg þeirra hafi hafnað henni og hvernig og hvort hægt sé að komast framhjá því með einhverjum hætti. Líkleg leið verður að teljast sú að haldnar verði nýjar þjóðaratkvæðagreiðslur í þeim ríkjum, þá hugsanlega með eitthvað breyttu sniði og öðrum spurningum þannig að líklegra verði að málið verði samþykkt. Hliðstætt og gert var í Írlandi þegar Nice-sáttmálanum var hafnað þar í landi um árið.
Þannig að forystumenn Evrópusambandsins eru varla af baki dottnir þó um sé vissulega að ræða gríðarlegt kjaftshögg. Þeir munu leita leiða til að komast framhjá vilja almennings í þessu máli með einum eða öðrum hætti eins og þeir hafa gert við ófá tækifærin hingað til þegar almenningur hefur ekki viljað dansa í takt og leggja blessun sína yfir stöðugt meiri pólitískan, efnahagslegan og félagslegan samruna innan Evrópusambandsins.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 27. maí 2005
Valdatafl í Þýskalandi – kosningar framundan
Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, hefur tilkynnt að Þjóðverjar muni ganga að kjörborðinu og kjósa þing í september. Er það ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er hann tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn þar var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja.
Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði þá völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Eftir tapið um helgina er Schröder því nauðugur sá kostur að leita álits kjósenda, mun fyrr en hann hefði þurft að gera að öllu eðlilegu. Samkvæmt könnunum nú bendir allt til öruggs sigurs hægrimanna í næstu kosningum. Einn er þó galli þýskra hægrimanna - og hann nokkuð stór. Þeir hafa ekki enn getað með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir hægriblokkina í komandi þingkosningum. Lengi hefur stefnt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri og ekki tekist að ná völdum fyrir þrem árum.
Mörgum þótti hann þá orðinn of gamall og virka þreytulegur og vilja því að annar leiðtogi leiði baráttu hægrimanna að þessu sinni. Eru uppi öflugar raddir þess efnis að Merkel fái að taka slaginn og skora kanslarann á hólm í þessum kosningum. Er það óneitanlega bæði sögulega séð réttast, miðað við styrkleika CDU, og það að Merkel hefur ekki fengið tækifærið enn til að leiða bandalagið og reyna á styrk sinn pólitískt. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 64 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir.
Stoiber hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Stefnir allt í að samstaða muni nást innan nokkurra daga um að Merkel leiði hægriblokkina. Verða hægrimenn að leysa þessi mál fyrir lok mánaðarins og hefja kosningabaráttuna formlega og með leiðtoga til taks sem taki við embætti kanslara fari kosningar í takt við kannanir. Það er auðvitað svo að hægrimenn fara ekki að láta innbyrðis deilur þeirra tveggja um hnossið eyðileggja sigurmöguleika þegar sigurinn er handan við hornið skv. könnunum. Menn verða að sættast á samstöðu og það sem kemur heildinni fyrir bestu. Að mínu mati hefur Merkel þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með þýsku netfréttunum þessa dagana, enda nóg um að vera nú.
Staðan er þó ekki það einföld að Schröder geti einhliða boðað til kosninga. Gert er ráð fyrir að kjörtímabilið sé fjögur ár og ekkert getur breytt því nema samþykkt vantrausts á ríkisstjórnina í þinginu eða þá það að forsetinn rjúfi þingið í kjölfar hennar. Það stefnir flest í að kanslarinn fari fyrri leiðina, boði vantraustskosningu í júnímánuði og stjórnin falli fyrir eigin tilstilli og því verði knúið á um kosningar með þeim hætti. Þýska þingið starfar út júnímánuð og því verður slík kosning að koma til fyrir lok mánaðarins. Er mun líklegra að kanslarinn geri það heldur en að leita til forsetans, hægrimannsins Horst Köhler, sem er auðvitað svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar. Hann vill frekar knýja kosninguna í gegn með eigin ákvörðun og láta þingið slíta kjörtímabilinu með eigin hætti. Eftir að slík tillaga hefur verið samþykkt verða kosningar að fara fram innan 60 daga. Felli þingið tillöguna getur forsetinn gripið sjálfkrafa inn í að henni lokinni án þess að kanslarinn hafi beðið um það.
Er ljóst að slík tillaga verður samþykkt, enda nýtur hún meirihlutafylgis innan þingsins, bæði Jafnaðarmannaflokkurinn og kristilegir demókratar styðja tillöguna heilshugar: jafnaðarmenn því þetta er neyðartafl úr vondri stöðu og kristilegir því þeir vilja koma stjórninni frá og stóla á kosningasigur. Síðast var þessari aðferð til að rjúfa þing og boða til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins beitt árið 1983. Hægrimaðurinn Helmut Kohl varð kanslari án kosninga árið 1982 er slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi jafnaðarmanna og frjálslyndra demókrata og þeir fóru í samstarf með hægrimönnum í CDU/CSU. Þá missti Helmut Schmidt völdin og Kohl tók við eftir vantraustskosningu innan þingsins. Kohl vildi sjálfur hljóta umboð þjóðarinnar til verka og boðaði vantraust um eigin stjórn árið 1983 og kusu þingmenn hægriblokkarinnar gegn eigin stjórn til að knýja á kosningar. Þær vann Kohl með nokkuð afgerandi mun.
Enginn vafi leikur á því að Schröder ætlar að nota þetta fyrirkomulag til að snúa taflinu sér í vil og treystir á að hægriblokkin komi sér ekki saman um leiðtoga og verði ósamstíga í kosningabaráttunni. Hann ætlar að reyna á samstöðu stjórnarandstöðunnar til að tryggja sjálfan sig í sessi og reyna með því að halda völdum þriðja kjörtímabilið í röð. Lítil gleði er innan herbúða Jafnaðarmannaflokksins með þessa ákvörðun, enda stendur flokkurinn illa í könnunum og samstarfsflokkur þeirra, Græningjar horfa algjörlega með hryllingi til kosninga í ljósi nýlegra hneykslismála tengdum leiðtoga þeirra, Joschka Fischer utanríkisráðherra, og ljóst að þeir standa mjög höllum fæti. Það er þó ljóst að kosningar eru handan við hornið, sama hvað hver vill í stöðunni. Ljóst er að sú kosningabarátta sem brátt hefst í Þýskalandi verður beinskeytt og full af krafti. Allt verður lagt í sölurnar.
Þáttaskil gætu verið framundan í þýskum stjórnmálum. Það er allavega alveg kristaltært að verði Angela Merkel kanslari mun það breyta pólitísku litrófi stjórnmálanna í Þýskalandi og marka söguleg þáttaskil ekki síður. Það verður spennandi að fylgjast með þessari kosningabaráttu, enda er hætt við að jafnaðarmenn og Schröder kanslari muni leggja allt í sölurnar til að halda völdum. Það eitt er því ljóst við upphaf þessarar kosningabaráttu að mikil átök eru framundan um völdin í Þýskalandi.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 25. maí 2005
Hvar eru feministarnir núna?
Í byrjun ársins var skipt um mann í brúnni á Útlendingastofnun og Hildur Dungal tók við af Georgi K. Lárussyni sem forstjóri stofnunarinnar. Georg stóð sig vel í starfi forstjóra að mínu mati, en hefur nú horfið til nýrra starfa sem forstjóri Landhelgisgæzlunnar og á klárlega eftir að gera góða hluti á þeim vettvangi líka. Þann tíma sem Hildur hefur gengt starfi forstjóra Útlendingastofnunar er ekkert sem gefur mér tilefni til að ætla annað en að hæf manneskja sé á ferð og hef ég enga ástæðu til að ætla annað en að stofnunin sé í góðum höndum þar sem hún er.
Það var þó ekki ætlunin með þessari grein að fjalla sérstaklega um forstjóraskiptin hjá Útlendingastofnun heldur hitt að við það tækifæri sem Hildur tók við sem forstjóri kíkti ég fyrir tilviljun á starfsmannalistann hjá stofnuninni. Rak ég strax augun í það að óvenjumargar konur starfa hjá stofnuninni miðað við karlpeninginn. Af 32 starfsmönnum stofnunarinnar eru aðeins tveir karlmenn. Persónulega gæti mér ekki verið meira sama þar sem ég tel kyn fólks ekki eiga að skipta máli við ráðningar í störf heldur hæfni þess, auk þess sem ég tel mig ekki hafa neina ástæðu til að ætla annað en að allar þær 30 konur, sem hjá stofnuninni starfa, séu vel að störfum sínum komnar.
Hins vegar gat ég ekki annað en velt því fyrir mér í ljósi þessa hvar fulltrúar íslenzkra feminista væru núna. Hvers vegna þeir væru ekki búnir að vekja á þessu athygli og mæta fyrir utan stofnunina og mótmæla því að þarna væri brotið gróflega gegn rétti íslenzkra karlmanna til að skipa helming starfsmanna Útlendingastofnunar og hananú. A.m.k. gætu feministar vakið á þessu athygli opinberlega og krafist endurbóta, svona ef þeir vildu vera sjálfum sér samkvæmir. Kannski hafa þeir ekki vitað af þessu en þeir ættu a.m.k. einhverjir að gera það núna.
Ég á þó ekki von á því að íslenzkir feministar bregðist við þessari hvatningu. Annað væri þó án efa uppi á teningnum ef dæmið væri á hinn veginn, 30 karlar og aðeins tvær konur. Þá yrði sjálfsagt allt vitlaust í herbúðum feministanna og rúmlega það. Ég persónulega tel vitanlega allar hugmyndir um einhverja kynjakvóta vera út í hött enda þeirrar skoðunar að kyn eigi ekki að skipta máli í þessum efnum heldur einungis hæfni fólks til að gegna viðkomandi stöðum eins og fyrr segir.
Það er einu sinni alveg klárt mál að hagsmunum þjóðfélagsins í þessu sambandi byggjast á því að hver einstaklingur gegni þeirri stöðu sem hann er hæfastur til að gegna, eða því sem næst, og það á svo sannarlega ekki samleið með hugmyndum um að öllum sviðum þjóðfélagsins eigi að skipta til helminga á milli kvenna og karla. Fyrst og síðast erum við einstaklingar, óháð kyni.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Mánudagur, 23. maí 2005
Mánudagspósturinn 23. maí 2005
Á fundi sem haldinn var sl. miðvikudag kom saman hópur fólks sem kallar sig frambjóðendur og stuðningsmenn Frjálslynda flokksins í suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2003. Samþykkti hópurinn ályktun þar sem harmað var að Gunnar Örlygsson hefði sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við sjálfstæðismenn. Í ályktuninni er Gunnar ennfremur hvattur til að sýna drengskap og segja af sér þingmennsku svo Frjálslyndi flokkurinn megi á ný eiga fjóra fulltrúa á Alþingi. Þetta væri í senn sanngjörn og lýðræðisleg krafa.
Það er nefnilega það. Fyrir það fyrsta efast ég um að þarna hafi verið á ferð allir þeir yfir tvö þúsund kjósendur sem mér skilst að hafi kosið Frjálslynda flokkinn í suðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar. Í annan stað þá væri fróðlegt að vita hvað þessu annars ágæta fólki fyndist um þá ákvörðun Ólafs F. Magnússonar að halda sæti sínu í borgarstjórn þrátt fyrir að hafa gengið úr Sjálfstæðisflokknum í lok árs 2001 og í framhaldinu til liðs við Frjálslynda flokkinn?
Var það ekki lýðræðisleg og sanngjörn krafa að Ólafur segði af sér sem borgarfulltrúi fyrst hann sagði skilið við borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna samkvæmt formúlu áðurnefnds hóps? Var það ekki ósanngjarnt gagnvart sjálfstæðismönnum að þar með var borgarfulltrúum þeirra fækkað um einn? Það hlýtur að vera ef hugmyndin er að sama reglan gildi um alla. Nema það eigi eitthvað annað við þegar slíkt bitnar á Sjálfstæðisflokknum en einhverjum öðrum?
---
Þjóðaratkvæði um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins mun fara fram í Frakklandi nk. sunnudag. Benda síðustu skoðanakannanir til þess að Frakkar hyggist hafna henni með naumum meirhluta. Hafa forystumenn sambandsins keppst við það á undanförnum mánuðum að spá heimsendi og jafnvel rúmlega það ef stjórnarskránni verður hafnað af frönskum kjósendum. Hafa yfirlýsingarnar ekki verið sparaðar í þeim efnum. Nú síðast sagði Michel Barnier, utanríkisráðherra Frakka, í dag að ef stjórnarskránni yrði hafnað í Frakklandi myndi það þýða pólitískt hrun Evrópusambandsins, hvorki meira né minna.
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem forystumenn innan Evrópusambandsins viðhafa slíkar heimsendayfirlýsingar ef líklegt er að almenningur í einu eða fleiri aðildarríkjum sambandsins vilji ekki leggja blessun sína yfir eitthvað samrunaskrefið innan þess - þ.e. í þau fáu skipti sem almenningur er hafður með í ráðum. Er skemmst að minnast þess þegar Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, spáði því rétt fyrir þjóðaratkvæðið um evruna þar í landi haustið 2003 að ef Svíar höfnuðu henni myndi það þýða hörmungar fyrir sænskt efnahagslíf. Eins og kunnugt er afþökkuðu Svíar evruna og síðan hefur sænskt efnahagslíf blómstrað og staðið mun betur að vígi en efnahagslíf evrusvæðisins. Þegar Persson var spurður að því á blaðamannafundi á síðasta ári hvers vegna heimsendaspár hans hefðu ekki gengið eftir sagðist hann ekki vita það og var þá hlegið að honum.
---
Talsvert hefur verið fjallað um það að undanförnu í fjölmiðlum að ef fer sem horfir muni fæðingar á Íslandi ekki verða nægar til að viðhalda fjölda Íslendinga til lengri tíma litið. Þetta eru sannarlega slæmar fréttir og aðvörunarljós sem full ástæða er til að taka mark á og bregðast við. Víðast hvar á meginlandi Evrópu er þetta fyrir löngu orðið að vandamáli sem eykst með hverju árinu sem líður. Margar þjóðir í Evrópu eru í þeim sporum að þeim fjölgar ekki með náttúrulegum hætti vegna þess að mun fleiri deyja en fæðast. Fæðingar eru sem sagt ekki nægar. Ráðamenn í þessum löndum hafa gríðarlegar áhyggjur af þessari þróun og þá ekki sízt með tilliti til lífeyrisskuldbindinga, en fjölmennar kynslóðir Evrópubúa munu á næstu árum fara á eftirlaun sem fámennari kynslóðir munu þurfa að standa undir.
---
Og meira af fundahöldum. Landsfundur Samfylkingarinnar fór fram nú um helgina. Var fundurinn reyndar furðu tíðindalítill og má í raun segja að lítið hafi gerzt á honum sem komið hafi á óvart. Helzt var kannski óljóst hver yrði kjörinn varaformaður flokksins en niðurstaða formannskjörsins kom sennilega engum á óvart. Ég vil nota tækifærið og óska Ingibjörg Sólrún Gísladóttir til hamingju með kjörið. Þetta eru vissulega gleðifréttir fyrir alla þá sem ekki vilja sjá Samfylkinguna sem aðila að næstu ríkisstjórn enda mun kjör Ingibjargar að öllum líkindum draga enn frekar en áður úr líkunum á að það geti gerzt.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 20. maí 2005
Tilvistarkreppa breska Íhaldsflokksins
Fullyrða má að úrslit bresku þingkosninganna þann 5. maí sl. hafi verið eilítil vonbrigði fyrir breska Íhaldsflokkinn og forystumenn hans. Þrátt fyrir að úrslitin hafi hvergi nærri verið eins slæm og í tveim fyrri kosningum þar áður, 1997 og 2001, voru þau samt sem áður ekki viðunandi. Hinsvegar er það óneitanlega svo að þó að Verkamannaflokkurinn hafi unnið sögulegan sigur og náð að tryggja sér völd þriðja kjörtímabilið standa þeir eftir með veikari meirihluta og brothættari stöðu. Þrátt fyrir það varð það vonbrigði fyrir íhaldsmenn að ná ekki 200 þingmönnum á breska þingið. Sálfræðilega var það í raun sá þröskuldur sem þeir höfðu sett sér fyrir kosningarnar. Næðist það markmið ekki væru það slæm úrslit tákn um það að kjósendur væru að senda flokknum þau skilaboð að hann væri ekki verðugur þess að taka við valdataumunum í landinu og þyrfti að fara í allsherjar naflaskoðun. Vissulega var flokkurinn alveg á mörkum þess að ná 200 þingsætum en lykilmarkmið kosninganna náðist ekki og í kjölfar þess tekur við uppstokkun.
Nú er óneitanlega spurt: hvaða breytingar þurfa að verða á breska Íhaldsflokknum? Fyrst og fremst tel ég stöðu þeirra eftir kosningarnar vera byggða á því að flokkurinn sé ekki að spila á þær áherslur sem mestu skipta. Það vantar aðra útfærslu af hægristefnu í lykilpunkta flokksins og hefur gert um nokkurn tíma að mínu mati. Segja má að Michael Howard hafi þrátt fyrir þessi úrslit mátt vel við una að sumu leyti. Honum tókst, þrátt fyrir að honum tækist ekki að tryggja sér forsætisráðherrastólinn og lyklavöldin í Downingstræti 10, að byggja vissan grunn undir flokkinn. Hann náði með forystu sinni að endurheimta þá virðingu sem flokknum hafði skort eftir afhroðið í þingkosningunum 1997, þegar John Major féll af valdastóli og tapaði fyrir Tony Blair, sem heillaði þá landsmenn og leiddi Verkamannaflokkinn til stærsta kosningasigurs í landinu í marga áratugi. Þrátt fyrir tap að þessu sinni vissulega er breski Íhaldsflokkurinn samhentari nú en lengi áður og menn voru í seinustu kosningum sameinaðir í að vinna saman sem heild.
Þingkosningarnar 2001 voru gríðarleg vonbrigði fyrir íhaldsmenn. Þeir náðu aðeins að bæta við sig einu þingsæti frá afhroðinu 1997. Þá voru fáir sem spáðu því að flokkurinn ætti séns í kosningunum næstu, enda hafði sterkur meirihluti Blair haldið miklu forskoti sínu. Eftir kosningarnar sagði William Hague, eftirmaður Majors á leiðtogastóli, af sér leiðtogaembættinu með hvelli strax daginn eftir kosningarnar. Vali á leiðtoga hafði verið breytt og í stað þess að þingflokkurinn og forystumenn innan hans veldu leiðtogann voru það flokksmenn sjálfir sem völdu leiðtogann í kjörinu 2001. Við tók því póstkosning um leiðtogaembættið - var kosið á milli Iain Duncan Smith og Kenneth Clarke. Duncan Smith vann nokkurn sigur og hann tók við leiðtogakeflinu um haustið 2001. Alla tíð var forysta hans misheppnuð, honum skorti bæði kraftinn og þokkann til að leiða fleytuna áfram. Fór það svo á árinu 2003 að jafnvel hörðustu flokkshestar íhaldsmanna voru algjörlega vissir um tap í næstu kosningum. Forysta Duncan Smith var dæmd misheppnuð.
Í októberlok 2003 leiddi fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins vantrauststillögu til höfuðs Duncan Smith. Var hún samþykkt og hann neyddist til að segja af sér leiðtogastöðunni. Í byrjun nóvember gaf Michael Howard kost á sér til leiðtogastöðunnar og náðist full samstaða um hann. Var endurkoma hans í forystu breskra stjórnmála nokkuð glæsileg og margra mati allnokkuð óvænt. Hann var reyndur stjórnmálamaður og lengi áður verið í forsvari flokksins. Hann hefur setið á breska þinginu frá 1983 og varð ráðherra árið 1990 á svipuðum tíma og valdauppstokkunin innan flokksins varð í kjölfar brotthvarfs Margaret Thatcher í forystusveit breskra stjórnmála árið 1990. Sat Howard í stjórn John Major allan forsætisráðherraferil hans. Hann var atvinnumálaráðherra 1990-1992, umhverfisráðherra 1992-1993 og innanríkisráðherra 1993-1997. Eftir ósigur flokksins í kosningunum 1997 gaf Howard kost á sér í leiðtogakjöri flokksins. Fleyg urðu ummæli Ann Widdecombe um hann er leiðtogakjörið fór fram: There is something of the night about him. Howard tapaði í leiðtogakjörinu og varð minna áberandi í forystunni.
En í árslok 2003 var tími Howard loks kominn. Í kjölfar leiðtogaskiptanna jókst fylgi flokksins verulega og á tímabili á árinu 2004 bjuggust við því að hann gæti í raun fellt Blair af valdastóli, sem tekinn var að dala allverulega í vinsældum vegna Íraksmálsins. Segja má að Verkamannaflokkurinn hafi brugðist við óvinsældum Blair með því að setja Gordon Brown í fremstu víglínu kosningabaráttu flokksins á þessu ári með Blair og með því hafi flokkurinn í raun unnið kosningasigurinn sögulega, þann þriðja í röðinni. Þó að Michael Howard hafi ekki tekist ætlunarverkið, eins og fyrr segir, hefur breski Íhaldsflokkurinn óneitanlega styrkst til mikilla muna. Hann hefur öðlast trúna á sig og náð vissulega mun sterkari stöðu í þinginu og getur mun betur nú höggvið í þingmeirihlutann sem hefur látið verulega á sjá. En í stjórnmálum er barist um völd og áhrif. Það er það sem baráttuafl alls snýst um. Án þeirra fer óneitanlega svo að viðkomandi flokkar og stjórnmálamenn hafa ekki áhrif.
Það er mitt mat að þó að Howard hafi ekki verið leiðtoginn sem færði Íhaldsflokknum völdin í Downingstræti og forystuna í þinginu í Westminster verði hans minnst sem leiðtogans sem sameinaði flokkinn til átaka og vann þann grunn sem nauðsynlegur er til að byggja á. Á þeim grunni er hægt að byggja upp flokk sem getur komist til valda og náð þeim virðingarsess sem breskir íhaldsmenn hafa þráð mjög í stjórnarandstöðu seinustu átta ára. Michael Howard hefur nú tilkynnt að hann ætli sér að stíga til hliðar, hann ætlar að hætta sem leiðtogi fyrir árslok. Í spjallþætti David Frost á BBC um seinustu helgi talaði þessi margreyndi stjórnmálamaður út um stöðuna, bæði hvað sig varðaði og ekki síður Íhaldsflokkinn í heild sinni. Hann sagði að flokknum hefði mistekist að ná sambandi við kjósendur. Að mati hans þarf flokkurinn að vera öflugri í hægristefnu sinni og verða meiri málsvarar ferskra tækifæra í hægrimennsku nútímans. Flokkurinn þurfi í senn bæði að breyta áherslum í takt við það sem venjulegir Bretar vilja og takast að finna sömu bylgjulengd og kjósendur vilja.
Sú sem færði breska Íhaldsflokknum einn mesta valdasess sinn á síðustu öld og tryggði áhrif hans í breskum þjóðmálum um langa hríð var Margaret Thatcher. Undir forystu hennar var bresku samfélagi gjörbreytt á níunda áratugnum. Með járnkrafti var hvert stórmálið leitt til lykta; staða bresks efnahagslífs batnaði gríðarlega, stjórn var komið á útgjöld ríkissjóðs, hlutur ríkisins í efnahagslífinu var minnkaður til muna og síðast en ekki síst tók hún til hendinni og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Hún tók á verkalýðsfélögunum og barði þau til hlýðni miskunnarlaust og sagði ómögulegt að láta stjórnast af dyntum þeirra. Margaret Thatcher var umdeildur stjórnmálamaður, hún var hinsvegar stjórnmálamaður framkvæmda og markaði sér stefnu sem ekkert mannlegt gat beygt frá því að yrði að veruleika. Nú í dag er þessarar öflugu forystukonu minnst fyrir það helst að hafa breytt ekki bara bresku samfélagi, heldur í senn forystumynstri breskra stjórnmála. Hún breytti auðvitað sínum flokki og leiddi hann í gegnum þessa tíma, en ekki síður stjórnarandstöðunni. Vart má á milli sjá nú hvor flokkurinn fylgir meira grunnáherslum hennar.
Segja má að breski Íhaldsflokkurinn hafi verið sjálfum sér verstur þegar Margaret Thatcher var í raun ýtt til hliðar af eigin flokksmönnum í nóvembermánuði 1990. Á augnabliksandartaki óvinsælda í skoðanakönnunum og tímabundnu mótstreymi var farsælasta forystumanni flokksins á 20. öld lykilstjórnmálamanni breskra stjórnmála í marga áratugi ýtt til hliðar. Þá atburðarás má lesa í bókinni The Downing Street Years. Sú saga er rituð snilldarlega af frú Thatcher sjálfri. Á einum dagparti í nóvember 1990 rann upp fyrir henni ljós sú staða sem hún var komin í. Henni hafði mistekist mjög naumlega að sigra í leiðtogakjöri flokksins, hafði talið sig örugga og einbeitti sér ekki með þeim krafti að kjörinu sem hún hefði gert ef hún hefði skynjað stöðuna betur. Á köldu fimmtudagssíðdegi í London í nóvember 1990 gerði Margaret Thatcher sér grein fyrir því að jafnvel hennar nánustu samverkamenn á 15 ára leiðtogaferli og 11 ára forsætisráðherraferli voru að segja henni pent að hér væri komið að leiðarlokum. Hún gæti ekki unnið þingkosningarnar 1992 og hún gæti ekki unnið leiðtogaslaginn. Jafnvel hennar nánustu samherjar í ríkisstjórn og lykiláróðursmeistarar voru að gefa hana upp á bátinn.
Það er enginn vafi á því þegar pólitísk saga Bretlands er skoðuð 15 árum eftir afsögn Margaret Thatcher í nóvember 1990 að það var röng ákvörðun íhaldsmanna að láta hana fara. Hún átti að standa og falla með verkum sínum og leiða flokkinn áfram. Henni átti að vera treyst fyrir því að fara í kosningarnar 1992 og skilja bæði við flokkinn og bresk stjórnmál með öðrum hætti. Ég tel að breski Íhaldsflokkurinn sé enn í rusli, stefnulega sem forystulega séð eftir það óráð margra íhaldsmanna að gefa forystu Thatcher upp á bátinn, líkt og varð árið 1990. Þó að John Major hafi með naumindum tekist að halda völdum í kosningunum 1992 hefur flokkurinn verið ein rúst eftir að Thatcher fór frá og flokkurinn átt í mikilli tilvistarkreppu. Eyðimerkurganga seinustu átta ára er því afleiðing þess að flokkurinn veiktist hugsjónalega séð sem forystulega og er enn að vinna úr þeirri krísu sem fylgdi brotthvarfi Margaret Thatcher. Segja má að sú eyðimerkurganga gæti tekið langan tíma enn. Það fer þó auðvitað allt eftir því hvernig haldið verður á spilunum innan breska Íhaldsflokksins.
Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hinsvegar vantar breskum íhaldsmönnum verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrir nokkrum vikum. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram.
Ljóst er að margir muni sækjast eftir leiðtogastöðunni og þar muni þingmenn til fjölda ára og nýjir þingmenn leitast eftir forystu flokksins: fulltrúar bæði gamla og nýja tímans. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig inn á þetta kjörtímabil og eru að hefja leitina að þeim sem á að leiða þá alla leið í Downingstræti 10. Framundan á krossgötunum er því langur vegur. Nú vantar íhaldsmönnum rétta leiðtogann inn í framtíðina til að tryggja að þeir nái í mark með áherslur sínar og lykilmarkmið. Spennandi tímar eru því framundan í breskum stjórnmálum að mínu mati. En í grunninn séð veltur allt þetta á íhaldsmönnum sjálfum. Vilja þeir komast til valda? Vilja þeir stokka sig og flokkinn upp með það að markmiði að ná aftur fyrri sess? Þetta er allt undir þeim sjálfum vissulega komið.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 18. maí 2005
„Þú skalt ekki morð fremja“
Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið. Þannig hljóðar hluti 37. greinar samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi barnsins frá 1992. Ég hugsa að fáir séu ósáttir við þessa grein sáttmálans. Samt er það þannig að það var ekki fyrr en 1. mars síðastliðinn að tímamótaúrskurður féll í Hæstarétti Bandaríkjanna þegar fimm af níu dómurum réttarins komust að þeirri niðurstöðu að það að taka einstakling sem fremur brot sín áður en hann nær 18 ára aldri af lífi standist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna. Með þessu eru Bandaríkin að slást í lið með yfirgnæfandi meirihluta þjóða heimsins sem hafa lagst gegn því að beita þessari grimmilegu og ómannúðlegu refsingu á óharðnaða unglinga og börn.
Síðan 1990 hafa átta ríki tekið afbrotamenn sem fremja glæpi sína áður en þeir ná 18 ára aldri af lífi en það eru auk Bandaríkjanna: Jemen, Kína, Kongó, Íran, Nígería, Pakistan og Sádí Arabía. Þegar litið er yfir þennan lista sést að Bandaríkin eru eina ríkið sem við teljum í hópi vest¬rænna lýðræðisþjóða sem hafa stundað þessa vafasömu iðju. En það er ekki allt og sumt. Ef litið er á grafið hér til hliðar sem sýnir fjölda aftaka þessara átta ríkja á einstaklingum sem frömdu brot sín áður en þeir náðu 18 ára aldri á síðustu 15 árum sést að Bandaríkin bera ábyrgð á 19 af þeim 39 aftökum sem fram fóru. Það ríki sem kemur næst á eftir er rétt rúmlega hálfdrættingum Bandaríkjanna en í Íran hafa 10 einstaklingar verið teknir af lífi á tímabilinu. Þetta eru skelfilegar tölur og Bandaríkjunum síður en svo til tekna. Þær eru þó í fullkomnu samræmi við tölur yfir heildarfjölda aftaka í heiminum en Íran og Bandaríkin auk Kína bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að því að deyða menn svo um munar en yfir 80% þeirra aftaka sem fram fóru árið 2003 voru framkvæmdar í löndunum þremur.
Árið 2004 voru fjögur ungmenni tekin af lífi í heiminum, eitt í Kína og þrjú í Íran. Það sem af er árinu 2005 hefur eitt ungmenni verið tekið af lífi svo vitað sé en 19. janúar tóku yfirvöld í Íran Iman Farokhi af lífi fyrir glæp sem hann framdi þegar hann var á sautjánda aldursári. Klerkastjórnin Íranska var hins vegar svo óforskömmuð að sama dag hélt sendinefnd á vegum stjórnvalda því fram í Genf að engin börn undir 18 ára aldri væru tekin af lífi í landinu.
Aftökur barna er fyrirbæri sem á ekki að þekkjast í nútímasamfélagi og er sem betur fer á undanhaldi. Þróunin er sú að þær þjóðir sem enn iðka þessa grimmúðlegu iðju eru undantekningar frá norminu og eru gagnrýndar á alþjóðavettvangi fyrir aftökur sínar. Það var raunar orðið þannig að fyrir úrskurð Hæstaréttar Bandaríkjanna voru Bandaríkin eina ríki heimsins sem viðurkenndi aftökur sínar á afbrotamönnum undir lögaldri og framkvæmdi þær fyrir opnum tjöldum.
Það er smánarblettur á lýðræðisríkinu Bandaríkjunum að hafa allt þar til í ár talið standast lög og stjórnarskrá að taka börn af lífi. Ég fagna þeirri breytingu sem varð með tímamótadómi Hæstaréttar Bandaríkjanna en sú staðreynd að yfirvöld í Bandaríkjunum skuli yfir höfuð taka sér þann rétt að ákvarða hver þeirra þegna fái að lifa og hvenær hann skuli deyja er engu minni smánarblettur. Réttur manna til lífs er æðri öllum öðrum og nokkuð sem enginn á að geta tekið frá mönnum. Ríkið á ekki að hafa það í hendi sér að afnema rétt þegna sinna til lífs. Það er ekki hlutverk þess.
Ég vona að Bandaríkjamenn beri gæfu til að afnema dauðarefsinguna alveg. Þróunin meðal þjóða heims síðustu áratugi hefur verið í átt til afnáms. Árið 1977 hélt Amnesty International alþjóðlega ráðstefnu í Stokkhólmi um dauðarefsingar. Þá höfðu aðeins 16 þjóðir afnumið dauðarefsingu að fullu. Í dag eru þessar þjóðir orðnar yfir 80. Það hlýtur að verða endingin að allar þjóðir heims snúi baki við þessari grimmúðlegu refsingu enda er fátt sem mælir með henni.
Gunnar R. Jónsson
Mánudagur, 16. maí 2005
Mánudagspósturinn 16. maí 2005
Upplýst var á Alþingi sl. mánudag að innan við 6,5% af lagagerðum Evrópusambandsins hafi verið tekin upp í íslenzka löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) þann rétt rúma áratug sem Ísland hefur verið aðili að því. Þetta er í hrópandi ósamræmi við ítrekaðar fullyrðingar Evrópusambandssinna hér á landi á undanförnum árum um að við höfum verið að taka yfir 70-80% og jafnvel 90% af löggjöf sambandsins vegna EES-samningsins. Hefur þetta verið eitt af lykilatriðunum í áróðri þeirra fyrir því að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, þ.e. að við værum að taka yfir nær alla löggjöf sambandsins og því væri allt eins gott að ganga bara alla leið inn í það.
En nú hefur sem sagt verið sýnt fram á svo um munar að þessar fullyrðingar hafa aðeins verið ómerkilegur áróður og blekkingar. Vil ég benda á afar frábæra úttekt vefritsins Andríki.is á málinu á dögunum og ekki síðri grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, alþingismanns, um það.
---
Gunnar Örn Örlygsson tók þá ákvörðun í vikunni að segja skilið við Frjálslynda flokkinn og ganga til liðs við sjálfstæðismenn. Ekki er hægt að segja að þetta hafi gerzt óvænt en margir höfðu lengi átt von á að til þessa kynni að koma fyrr en síðar. Samstarfserfiðleikar Gunnars við varaformann flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, hafa lengi legið fyrir sem og við formanninn Guðjón Arnar Kristjánsson. Segir Gunnar að þeir hafi meira eða minna hunzað hann og ekki bætti úr skák að flokkurinn, sem Gunnari var sagt að væri hægriflokkur, var sífellt að þróast meira til vinstri.
Ég þekki þetta sjálfur vel enda var ég í tæpt ár í Frjálslynda flokknum áður en ég gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Ástæða þess að ég sagði skilið við frjálslynda var einmitt m.a. sú að mér finnst flokkurinn vera orðinn svo keimlíkur Samfylkingunni að ég sé varla muninn á þeim. Og víst er að fleiri eru þeirrar skoðunar en ég og Gunnar Örlygsson. Þannig mætti t.d. vitna í Egil Helgason sem sagði fyrr á árinu í pistli á Vísi.is að vissulega væri margt til í því að Frjálslyndi flokkurinn hafi verið furðu langt til vinstri í mörgum málum - nánast alltaf samhljóma Samfylkingu eða VG.
Það sem hefur kannski verið merkilegast við þetta allt saman eru viðbrögð ýmissa á vinstrivængnum við ákvörðun Gunnars og þá auðvitað sérstaklega forystumanna Frjálslynda flokksins. Fjöldi manns í íslenzkri pólitík hefur vitanlega skipt um flokka í gegnum tíðina, þetta er ekkert nýtt. Frjálslyndi flokkurinn var t.a.m. stofnaður að mestu leyti af óánægðu fólki úr Sjálfstæðisflokknum, margir af forystumönnum Samfylkingarinnar hafa verið í fleiri en einum flokki í gegnum tíðina og sama er að segja um Vinstri-græna. Þetta er þannig engan veginn einhver einstæður atburður í Íslandssögunni þó það mætti halda það af viðbrögðum sumra.
Ýmsir hafa síðan orðið til þess að benda á að forystumenn allra stjórnarandstöðuflokkanna hafi sl. haust gengið á eftir Kristni H. Gunnarssyni með grasið í skónum þegar Framsóknarflokkurinn setti hann út úr öllum nefndum á vegum flokksins. Hafi þeir viljað að Kristinn segði skilið við Framsókn og gengi til liðs við þá. Þá var það sem sagt í góðu lagi að menn færu á milli flokka, en nú má það hins vegar ekki að mati forystumanna Frjálslynda flokksins. Einnig hefur verið bent á það þegar Ólafur F. Magnússon gekk úr borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og í kjölfarið til liðs við frjálslynda. Þá mátti slíkt alveg, en ekki nú.
Nei, svona tvöfeldni dæmir aðeins þá sem hana gerast sekir um sjálfa. Ákvörðun Gunnars hefur klárlega ekki verið léttvæg, menn leika sér ekki að því að taka slíkar ákvarðanir. Hann verður þó auðvitað fyrst og fremst að eiga hana við sjálfan sig og sína kjósendur. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar hins vegar að sjálfsögðu öllu góðu fólki sem gengur til liðs við flokkinn og er tilbúið að starfa að þeim hugsjónum sem hann stendur fyrir. Gunnar er því velkominn í hópinn.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 13. maí 2005
Umræða um Evrópumálin?
Ófáir stuðningsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið eiga það til að kvarta sáran yfir því að ekki sé næg umræða um Evrópumálin hér á landi. Þrátt fyrir þær umkvartanir má ætla að fá mál hafi verið rædd eins mikið og eins ítarlega hér á landi hin síðari ár en samband okkar við Evrópusambandið og stöðu okkar í Evrópu almennt. Sú umræða hefur þó eins og kunnugt er ekki leitt til þess að Ísland gengi í sambandið sem betur fer en það mun einmitt vera ástæðan fyrir téðum umkvörtunum íslenzkra Evrópusambandssinna.
Ekki er nefnilega annað að sjá en að þeim þyki umræður um Evrópumálin ekki vera umræður um Evrópumálin nema þær séu á þeirra forsendum, þ.e. að þær snúist um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Þetta hefur sýnt sig margoft. Ófá eru dæmin um það að forystumenn íslenzkra Evrópusambandssinna hafi fagnað því að umræðan um Evrópumálin hafi hafizt á ný í þau fáu skipti sem eitthvað hefur gerzt sem þeir hafa talið vera sínum málstað til framdráttar á liðnum árum.
Gott dæmi er grein sem Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ritaði á heimasíðu sína í ágúst á síðasta ári þar sem hann talaði um að það væri alltaf ánægjulegt þegar umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu færi af stað hér á landi. Fram að þeim tíma sem greinin var skrifuð hafði þó umræðan alls ekkert hætt og þurfti því ekki að hefjast á ný. A.m.k. var ekkert lát á að við sjálfstæðissinnar ræddum málin með virkum hætti. Ágúst hins vegar hafði ekki ritað grein um Evrópumálin í ár áður en hann reit umrædda grein ef marka má það efni sem finna má á heimasíðunni hans.
Tilefni greinar Ágústar var fundur norrænna krataforingja hér á landi sl. sumar þar sem þeir lýstu því m.a. yfir að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eins og þeim komi það eitthvað við hvernig við Íslendingar högum okkar utanríkismálum. En sem sagt, með þessari yfirlýsingu fannst Ágústi umræðan um Evrópumálin aftur hafa hafizt hér á landi þar sem verið var að fjalla um málin á forsendum Evrópusambandssinna.
Annað ágætt dæmi er grein sem Björgvin G. Sigurðsson, annar þingmaður Samfylkingarinnar, ritaði í lok árs 2003 í Morgunblaðið þar sem hann sagði marga hafa orðið fyrir vonbrigðum með litla umræðu um málaflokkinn það árið. Þarna átti hann væntanlega við eigin skoðanabræður enda var engan bilbug að finna á okkur sjálfstæðissinnum það árið þó umræðan hafi kannski verið með rólegra móti. Sem kunnugt er fór nefnilega allur vindur úr íslenzkum Evrópusambandssinnum í upphafi kosningabaráttunnar fyrir alþingiskosningarnar 2003 í kjölfar þess að Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, ákvað að setja Evrópusambandsaðild ekki á oddinn fyrir kosningarnar eftir að skoðanakannanir höfðu ítrekað sýnt að mikill meirihluti Íslendinga væri andvígur aðild.
Þannig að það er sem sagt ekki umræða um Evrópumálin að mati íslenzkra Evrópusambandssinna nema hún fari fram á þeirra forsendum. Þeir sem tala fyrir því að Ísland eigi ekkert erindi í Evrópusambandið eru ekki að ræða málin samkvæmt þeirra áliti. Þessi afstaða Evrópusambandssinna er væntanlega beintengd þeirri forlagahyggju sem einkennir gjarnan málflutning þeirra. Þ.e. að halda því fram að Ísland muni fyrr eða síðar neyðast til þess að ganga í Evrópusambandið og því þýði ekkert að vera að spyrna við fótum (sem er auðvitað talsverð breyting frá því fyrir nokkrum árum síðan þegar Evrópusambandssinnar vildu gjarnan meina að við værum að missa af einhverri hamingjulest til paradísar með því að ganga ekki í sambandið). Umræðan um Evrópumálin hljóti því ávallt að miðast við það að Ísland gangi í Evrópusambandið að þeirra mati. Önnur nálgun á málinu flokkast ekki undir það að ræða málin.
Þetta sjónamið er auðvitað út í hött og lýsir í bezta falli ótrúlegri þröngsýni. Að einblínt sé svona á einn og aðeins einn mögleika fyrir okkur Íslendinga í samskiptum okkar við Evrópusambandið er ekki beint til marks um mikla víðsýni. Það sést nefnilega alltaf betur að íslenzkir Evrópusambandssinnar vilja ekki ræða aðra möguleika í þessum efnum en aðild að sambandinu. Öðrum möguleikum sjá þeir allt til foráttu og það jafnvel án þess að þeir hafi fengið sérstaka athugun eins og sú leið að gera tvíhliða samninga við Evrópusambandið eins og Svisslendingar hafa gert. Nei, Evrópusambandsaðild er það eina sem þessir menn virðast sjá og vilja ræða. Og svo saka þeir aðra um þröngsýni.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Miðvikudagur, 11. maí 2005
Nasistar: Vinstri öfgamenn
Frétt undir yfirskriftinni ,,Berlín: Ganga nýnasista stöðvuð birtist á textavarpi ríkisútvarpsins þann 8.maí síðastliðinn. Í fréttinni voru nasistarnir kallaðir hægri öfgamenn, og ganga þeirra kölluð mótmælaganga hægri öfgamanna. Það er ekki bara fráleitt að kalla nasista hægri öfgamenn, heldur er um alveg fáránlega grófa mótsögn að ræða. Ég veit satt að segja ekki hvernig mönnum hefur tekist að klína nasistunum uppá hægri menn. Stefna nasista hefur ekkert sameiginlegt með stefnu eiginlegra hægriflokka.
Orðið nasisti er dregið af fullu heiti þess ömurlega stjórnmálaflokks sem nasistarnir tilheyrðu, the National Socialist German Workers' Party, sem útleggst á íslensku á þessa leið: Þýski verkamannaflokkur þjóðernis sósíalista. Nasistar eru semsagt sósíalistar. Þeir eru um margt líkir gömlu sovésku kommúnistunum, Castro, Che Guevara og félögum frá Kúpu, og fleirum sem barist hafa fyrir alræði öreiganna og gegn kúgun auðmanna. Þessum rótæklingum hefur hinsvegar einungis tekist að útbreiða fátækt, vosbúð, stjórnlyndi, einræði, tortryggni, ófrið og öfund um heiminn, en það er annað mál.
Þjóðernis Sósíalistar (Nasistar) börðust meðal annars fyrir eftirfarandi málum:
1. Þeir vildu banna vexti og fjármagnstekjur, því slíkt var álitið arðrán.
2. Börðust fyrir þjóðnýtingu fyrirtækja, og voru á móti allri einkavæðingu.
3. Kröfðust þess að arði af stóriðnaði yrði dreift til almennings.
4. Kröfðust ríkulegra framlaga frá ríkinu til að framfleyta öldruðum.
5. Þeir kröfðust þess að jarðir landeigenda yrðu teknar eignanámi, og engar bætur áttu að koma fyrir. Þetta skyldi gert í þágu heildarinnar, í þágu almennings. Nasistar, eins og aðrir vinstri öfgamenn, virtu friðhelgi eignaréttarins að vettugi. Það var ein af megin kenningum Karl Marx og Friedrich Engels að uppræta skyldi einkaeign, svo að ég býst við að þeir félagar hefðu kannski getað unað sér vel í flokknum.
6. Auka tækifæri hæfileikaríkra barna fátæks fólks til menntunar.
7. Auka útgjöld til heilbrigðismála, og að ríkið útvegaði öllum betri læknisþjónustu.
8. Miðstýrðu þjóðfélagi með sterku ríkisvaldi.
Þegar nasistar komust til valda var efnahagslífið keyrt áfram með hagsmuni ríkisvaldsins í huga. Þeir þjóðnýttu af miklum móð. Ríkið átti að reka sem flest fyrirtæki. Einkaeignir voru gerðar upptækar í Þýskalandi eftir að Hitler komst til valda í stórum stíl, líkt og gert var í Sovétríkjunum þegar kommúnistar komust til valda og á Kúpu eftir hina sósíalísku byltingu þar svo dæmi séu tekin.
Menn ættu að sjá af framansögðu að það er algerlega út í hött að kalla nasista hægri öfgamenn. Þeir eru miklu fremur vinstriöfgamenn.
Sindri Guðjónsson
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004