Leita í fréttum mbl.is

„Þú skalt ekki morð fremja“

Bandaríski fáninn„Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið.“ Þannig hljóðar hluti 37. greinar samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi barnsins frá 1992. Ég hugsa að fáir séu ósáttir við þessa grein sáttmálans. Samt er það þannig að það var ekki fyrr en 1. mars síðastliðinn að tímamótaúrskurður féll í Hæstarétti Bandaríkjanna þegar fimm af níu dómurum réttarins komust að þeirri niðurstöðu að það að taka einstakling sem fremur brot sín áður en hann nær 18 ára aldri af lífi standist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna. Með þessu eru Bandaríkin að slást í lið með yfirgnæfandi meirihluta þjóða heimsins sem hafa lagst gegn því að beita þessari grimmilegu og ómannúðlegu refsingu á óharðnaða unglinga og börn.

Síðan 1990 hafa átta ríki tekið afbrotamenn sem fremja glæpi sína áður en þeir ná 18 ára aldri af lífi en það eru auk Bandaríkjanna: Jemen, Kína, Kongó, Íran, Nígería, Pakistan og Sádí Arabía. Þegar litið er yfir þennan lista sést að Bandaríkin eru eina ríkið sem við teljum í hópi vest¬rænna lýðræðisþjóða sem hafa stundað þessa vafasömu iðju. En það er ekki allt og sumt. Ef litið er á grafið hér til hliðar sem sýnir fjölda aftaka þessara átta ríkja á einstaklingum sem frömdu brot sín áður en þeir náðu 18 ára aldri á síðustu 15 árum sést að Bandaríkin bera ábyrgð á 19 af þeim 39 aftökum sem fram fóru. Það ríki sem kemur næst á eftir er rétt rúmlega hálfdrættingum Bandaríkjanna en í Íran hafa 10 einstaklingar verið teknir af lífi á tímabilinu. Þetta eru skelfilegar tölur og Bandaríkjunum síður en svo til tekna. Þær eru þó í fullkomnu samræmi við tölur yfir heildarfjölda aftaka í heiminum en Íran og Bandaríkin auk Kína bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að því að deyða menn svo um munar en yfir 80% þeirra aftaka sem fram fóru árið 2003 voru framkvæmdar í löndunum þremur.

Árið 2004 voru fjögur ungmenni tekin af lífi í heiminum, eitt í Kína og þrjú í Íran. Það sem af er árinu 2005 hefur eitt ungmenni verið tekið af lífi svo vitað sé en 19. janúar tóku yfirvöld í Íran Iman Farokhi af lífi fyrir glæp sem hann framdi þegar hann var á sautjánda aldursári. Klerkastjórnin Íranska var hins vegar svo óforskömmuð að sama dag hélt sendinefnd á vegum stjórnvalda því fram í Genf að engin börn undir 18 ára aldri væru tekin af lífi í landinu.

Aftökur barna er fyrirbæri sem á ekki að þekkjast í nútímasamfélagi og er sem betur fer á undanhaldi. Þróunin er sú að þær þjóðir sem enn iðka þessa grimmúðlegu iðju eru undantekningar frá norminu og eru gagnrýndar á alþjóðavettvangi fyrir aftökur sínar. Það var raunar orðið þannig að fyrir úrskurð Hæstaréttar Bandaríkjanna voru Bandaríkin eina ríki heimsins sem viðurkenndi aftökur sínar á afbrotamönnum undir lögaldri og framkvæmdi þær fyrir opnum tjöldum.

Það er smánarblettur á lýðræðisríkinu Bandaríkjunum að hafa allt þar til í ár talið standast lög og stjórnarskrá að taka börn af lífi. Ég fagna þeirri breytingu sem varð með tímamótadómi Hæstaréttar Bandaríkjanna en sú staðreynd að yfirvöld í Bandaríkjunum skuli yfir höfuð taka sér þann rétt að ákvarða hver þeirra þegna fái að lifa og hvenær hann skuli deyja er engu minni smánarblettur. Réttur manna til lífs er æðri öllum öðrum og nokkuð sem enginn á að geta tekið frá mönnum. Ríkið á ekki að hafa það í hendi sér að afnema rétt þegna sinna til lífs. Það er ekki hlutverk þess.

Ég vona að Bandaríkjamenn beri gæfu til að afnema dauðarefsinguna alveg. Þróunin meðal þjóða heims síðustu áratugi hefur verið í átt til afnáms. Árið 1977 hélt Amnesty International alþjóðlega ráðstefnu í Stokkhólmi um dauðarefsingar. Þá höfðu aðeins 16 þjóðir afnumið dauðarefsingu að fullu. Í dag eru þessar þjóðir orðnar yfir 80. Það hlýtur að verða endingin að allar þjóðir heims snúi baki við þessari grimmúðlegu refsingu enda er fátt sem mælir með henni.

Gunnar R. Jónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband