Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 16. maí 2005

Sigurður Kári KristjánssonUpplýst var á Alþingi sl. mánudag að innan við 6,5% af lagagerðum Evrópusambandsins hafi verið tekin upp í íslenzka löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) þann rétt rúma áratug sem Ísland hefur verið aðili að því. Þetta er í hrópandi ósamræmi við ítrekaðar fullyrðingar Evrópusambandssinna hér á landi á undanförnum árum um að við höfum verið að taka yfir 70-80% og jafnvel 90% af löggjöf sambandsins vegna EES-samningsins. Hefur þetta verið eitt af lykilatriðunum í áróðri þeirra fyrir því að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, þ.e. að við værum að taka yfir nær alla löggjöf sambandsins og því væri allt eins gott að ganga bara alla leið inn í það.

En nú hefur sem sagt verið sýnt fram á svo um munar að þessar fullyrðingar hafa aðeins verið ómerkilegur áróður og blekkingar. Vil ég benda á afar frábæra úttekt vefritsins Andríki.is á málinu á dögunum og ekki síðri grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, alþingismanns, um það.

---

Gunnar Örn Örlygsson tók þá ákvörðun í vikunni að segja skilið við Frjálslynda flokkinn og ganga til liðs við sjálfstæðismenn. Ekki er hægt að segja að þetta hafi gerzt óvænt en margir höfðu lengi átt von á að til þessa kynni að koma fyrr en síðar. Samstarfserfiðleikar Gunnars við varaformann flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, hafa lengi legið fyrir sem og við formanninn Guðjón Arnar Kristjánsson. Segir Gunnar að þeir hafi meira eða minna hunzað hann og ekki bætti úr skák að flokkurinn, sem Gunnari var sagt að væri hægriflokkur, var sífellt að þróast meira til vinstri.

Ég þekki þetta sjálfur vel enda var ég í tæpt ár í Frjálslynda flokknum áður en ég gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Ástæða þess að ég sagði skilið við frjálslynda var einmitt m.a. sú að mér finnst flokkurinn vera orðinn svo keimlíkur Samfylkingunni að ég sé varla muninn á þeim. Og víst er að fleiri eru þeirrar skoðunar en ég og Gunnar Örlygsson. Þannig mætti t.d. vitna í Egil Helgason sem sagði fyrr á árinu í pistli á Vísi.is að vissulega væri margt til í því að Frjálslyndi flokkurinn hafi „verið furðu langt til vinstri í mörgum málum - nánast alltaf samhljóma Samfylkingu eða VG.“

Það sem hefur kannski verið merkilegast við þetta allt saman eru viðbrögð ýmissa á vinstrivængnum við ákvörðun Gunnars og þá auðvitað sérstaklega forystumanna Frjálslynda flokksins. Fjöldi manns í íslenzkri pólitík hefur vitanlega skipt um flokka í gegnum tíðina, þetta er ekkert nýtt. Frjálslyndi flokkurinn var t.a.m. stofnaður að mestu leyti af óánægðu fólki úr Sjálfstæðisflokknum, margir af forystumönnum Samfylkingarinnar hafa verið í fleiri en einum flokki í gegnum tíðina og sama er að segja um Vinstri-græna. Þetta er þannig engan veginn einhver einstæður atburður í Íslandssögunni þó það mætti halda það af viðbrögðum sumra.

Ýmsir hafa síðan orðið til þess að benda á að forystumenn allra stjórnarandstöðuflokkanna hafi sl. haust gengið á eftir Kristni H. Gunnarssyni með grasið í skónum þegar Framsóknarflokkurinn setti hann út úr öllum nefndum á vegum flokksins. Hafi þeir viljað að Kristinn segði skilið við Framsókn og gengi til liðs við þá. Þá var það sem sagt í góðu lagi að menn færu á milli flokka, en nú má það hins vegar ekki að mati forystumanna Frjálslynda flokksins. Einnig hefur verið bent á það þegar Ólafur F. Magnússon gekk úr borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og í kjölfarið til liðs við frjálslynda. Þá mátti slíkt alveg, en ekki nú.

Nei, svona tvöfeldni dæmir aðeins þá sem hana gerast sekir um sjálfa. Ákvörðun Gunnars hefur klárlega ekki verið léttvæg, menn leika sér ekki að því að taka slíkar ákvarðanir. Hann verður þó auðvitað fyrst og fremst að eiga hana við sjálfan sig og sína kjósendur. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar hins vegar að sjálfsögðu öllu góðu fólki sem gengur til liðs við flokkinn og er tilbúið að starfa að þeim hugsjónum sem hann stendur fyrir. Gunnar er því velkominn í hópinn.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband