Leita í fréttum mbl.is

Kynbundinn launamunur

Runólfur Ágústsson rektor viðskiptaháskólans á Bifröst greindi frá því í fréttum RÚV síðastliðinn laugardag að hátt í 50% munur væri á launum nýlega útskrifaðra karla og kvenna frá skólanum en skólinn kannaði nýlega stöðu og störf útskrifaðra viðskiptafræðinga og lögfræðinga. Runólfur sagðist telja meginskýringuna vanmat atvinnulífsins á vinnukrafti kvenna og að þessi kynbundni launamunur væri hneisa. Við útskrift frá skólanum nýverið undirrituðu rektor og félagsmálaráðherra samning um að við skólann yrði stofnað rannsóknarsetur vinnuréttar og jafnréttismála. Félagsmálaráðherra lagði til við þetta tækifæri að undirbúið yrði að veita sérstakar viðurkenningar til þeirra fyrirtækja sem sköruðu fram úr í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði sérstaklega með tilliti til launa og stöðu kvenna í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum. Einnig kom fram hjá Runólfi að til stendur að stofna átakshóp meðal kvenna í útskriftarhópi næsta háskólaárs í því skyni að styðja þær og efla en meðal annars verður farið með þeim í gegnum ráðningarferli og slíkt. Í þriðja lagi stendur til að kynna íslensku atvinnulífi þessar niðurstöður og fá fyrirtækin í lið með skólanum við að breyta þessu.

Ónothæf mæling?
Degi síðar var rætt við Ara Edvald framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í kvöldfréttum þar sem hann sagði könnun viðskiptaháskólans ónothæfa sem mælingu á launamun milli karla og kvenna og færði góð rök fyrir þeirri skoðun sinni. Í könnuninnni er ekki að reynt að mæla launamun fyrir sambærileg störf heldur er hún fyrst og fremst vísbending um hvernig þessu tiltekna fólki vegnar á fyrstu árum sínum í atvinnulífinu eftir útskrift. Fram kom að sjónarmið samtakanna er að óskynsamlegt er að mismuna fólki á vinnumarkaði á grundvelli nokkurs annars en hæfni og vinnuframlags – annað feli í sér óstjórn. Ari sagði einnig að verið gæti að konur geri ekki nægilega miklar kröfur þegar þær ganga til samninga um laun og vísaði í samtöl sín við ýmsa aðila úr atvinnulífinu um fólk sem kemur í starfsviðtöl.

Sennilegar skýringar
Telja verður afar ósennilegt að fyrirtæki hafi það að meðvitaðri stefnu að borga konum lægri laun en körlum. Hví ættu þau að hafa slíka stefnu? Hvaða hagsmunum væru þau að þjóna með því? Laun eru að meginstefnu niðurstaða frjálsra samninga milli atvinnurekanda og launþega. Samtök vinnuveitenda og launþega semja í kjarasamningum um tiltekin lágmarkskjör. Svo semja einstakir launþegar gjarnan við vinnuveitendur sína um betri kjör. Þar er hlutverk vinnuveitandans fyrst og fremst það að ná samningi sem er sem hagstæðastur fyrir fyrirtækið innan þess ramma sem lög og kjarasamningar marka. Ef viðsemjandinn gerir tiltölulega lágar kröfur er lítill hvati fyrir vinnuveitandann að semja um mun hærri laun en krafan lýtur að. Þetta hlýtur skynsamt fólk að sjá.

Ég tel þannig að Ari eigi kollgátuna þegar hann bendir á hugsanlegar skýringar á launamun kynjanna. Það kemur líka heim og saman við könnun sem Verlsunarráð gerði fyrir nokkrum árum þar sem fram kom að konur gera að meðaltali um 30% lægri launakröfur en karlar.

Taka verður undir orð Ara um að óskynsamlegt er fyrir fyrirtæki að mismuna fólki á grundvelli annars en hæfni og vinnuframlags. Í þeim efnum er engin ástæða til að ætla annað en að konur standi að jafnaði jafnfætis körlum. Hæfir stjórnendur umbuna því starfsfólki sem stendur sig vel. Því má ætla að í fyllingu tímans hverfi sá kynbundni launamunur sem nú er til staðar. En til að svo verði verða konur jafnt sem karlar að vera ófeimnar við að gera hæfilegar launakröfur.

Vondar leiðir
Sumir hafa lagt til róttækari aðgerðir til að sporna við launamuninum en Runólfur og félagar á Bifröst. Meira að segja hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi um sérstaka stofnun sem hefði svipaðar heimildir og Samkeppnisstofnun til að gera innrásir í fyrirtæki og leggja hald á gögn í því skyni að fletta ofan af hugsanlegri mismunun! Síðan væri hægt að beita fyrirtæki viðurlögum ef í ljós kæmi að einstaklingur fengi lægri laun en einstaklingur af gagnstæðu kyni fyrir sambærilegt starf! Slíkar hugmyndir eru óhæfa og mega aldrei verða að veruleika. Hvers vegna segi ég það? Jú, því að í raun væri með því verið að afnema samningsfrelsið á vinnumarkaðinum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og öllum til tjóns. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á ég m.a. við að líklegt má telja að slíkt myndi hægja verulega á hjólum atvinnulífsins með tilheyrandi aukaverkunum svo sem auknu atvinnuleysi. Um veruleg höft á atvinnulífið væri að ræða. Svipað má segja um hugmyndir um lögbundna kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja. Með slíkum aðgerðum væri verið að skerða með óforsvaranlegum hætti – að mínu áliti – frelsi eigenda fyrirtækjanna til að velja þá stjórnendur sem þeir treysta best. Ef ég á fyrirtæki, hvers vegna ætti ég ekki að mega ráða hverjir stýra því? Ef þrjár vinkonur stofna fyrirtæki og leggja sjálfar út í tilheyrandi kostnað, hvers vegna mega þær ekki stýra því sjálfar án þess að vera skikkaðar til að skipa karl með sér í stjórnina??

Aðrar leiðir
Aðrar leiðir eru farsælli til að ná þeim markmiðum sem um ræðir. Það er engin ástæða til að ætla að konur þurfi að ná lakari samningum en karlar ef þær gera á annað borð nægar kröfur, eins og ég hef þegar komið inn á. Sé það rétt hjá Runólfi að atvinnulífið hafi vanmetið þær konur sem skólinn hefur útskrifað ættu viðkomandi konur að krefjast launa í samræmi við hæfni sína enda hljóta að vera til aðrir vinnuveitendur sem meta þær að verðleikum. Að sama skapi er full ástæða til að ætla að konum í stjórnum fyrirtækja fjölgi eftir því sem fleiri konur hasla sér völl í viðskiptum og sanna hæfni sína í fyrirtækjarekstri. Það er hagur fyrirtækja að velja sem hæfasta stjórnendur, en að ganga ekki fram hjá hæfri konu vegna karls sem hefur minni hæfni. Einnig er morgunljóst að eftir því sem konur fjárfesta meira í atvinnulífinu fjölgar þeim konum sem geta gert kröfu um stjórnarsæti á grundvelli eignarhlutar í viðkomandi félagi.

Sú leið sem félagsmálaráðherra leggur til – að verðlauna fyrirtæki sem skara fram úr í jafnréttismálum er góð að því leyti að hún er hvetjandi án þess að vera íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Einnig er bara gott um það framtak Bifrestinga að segja að koma á fót áðurnefndum átakshóp enda má leiða að því líkur eins og áður er vikið að að oft þurfi konur að temja sér að gera ríkari kröfur í sínum starfssamningum til að fá þau laun sem þær eiga skilið.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband