Leita í fréttum mbl.is

Valdatafl í Þýskalandi – kosningar framundan

Angela Merkel

Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, hefur tilkynnt að Þjóðverjar muni ganga að kjörborðinu og kjósa þing í september. Er það ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er hann tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn þar var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja.

Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði þá völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Eftir tapið um helgina er Schröder því nauðugur sá kostur að leita álits kjósenda, mun fyrr en hann hefði þurft að gera að öllu eðlilegu. Samkvæmt könnunum nú bendir allt til öruggs sigurs hægrimanna í næstu kosningum. Einn er þó galli þýskra hægrimanna - og hann nokkuð stór. Þeir hafa ekki enn getað með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir hægriblokkina í komandi þingkosningum. Lengi hefur stefnt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri og ekki tekist að ná völdum fyrir þrem árum.

Mörgum þótti hann þá orðinn of gamall og virka þreytulegur og vilja því að annar leiðtogi leiði baráttu hægrimanna að þessu sinni. Eru uppi öflugar raddir þess efnis að Merkel fái að taka slaginn og skora kanslarann á hólm í þessum kosningum. Er það óneitanlega bæði sögulega séð réttast, miðað við styrkleika CDU, og það að Merkel hefur ekki fengið tækifærið enn til að leiða bandalagið og reyna á styrk sinn pólitískt. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 64 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir.

Stoiber hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Stefnir allt í að samstaða muni nást innan nokkurra daga um að Merkel leiði hægriblokkina. Verða hægrimenn að leysa þessi mál fyrir lok mánaðarins og hefja kosningabaráttuna formlega og með leiðtoga til taks sem taki við embætti kanslara fari kosningar í takt við kannanir. Það er auðvitað svo að hægrimenn fara ekki að láta innbyrðis deilur þeirra tveggja um hnossið eyðileggja sigurmöguleika þegar sigurinn er handan við hornið skv. könnunum. Menn verða að sættast á samstöðu og það sem kemur heildinni fyrir bestu. Að mínu mati hefur Merkel þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með þýsku netfréttunum þessa dagana, enda nóg um að vera nú.

Staðan er þó ekki það einföld að Schröder geti einhliða boðað til kosninga. Gert er ráð fyrir að kjörtímabilið sé fjögur ár og ekkert getur breytt því nema samþykkt vantrausts á ríkisstjórnina í þinginu eða þá það að forsetinn rjúfi þingið í kjölfar hennar. Það stefnir flest í að kanslarinn fari fyrri leiðina, boði vantraustskosningu í júnímánuði og stjórnin falli fyrir eigin tilstilli og því verði knúið á um kosningar með þeim hætti. Þýska þingið starfar út júnímánuð og því verður slík kosning að koma til fyrir lok mánaðarins. Er mun líklegra að kanslarinn geri það heldur en að leita til forsetans, hægrimannsins Horst Köhler, sem er auðvitað svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar. Hann vill frekar knýja kosninguna í gegn með eigin ákvörðun og láta þingið slíta kjörtímabilinu með eigin hætti. Eftir að slík tillaga hefur verið samþykkt verða kosningar að fara fram innan 60 daga. Felli þingið tillöguna getur forsetinn gripið sjálfkrafa inn í að henni lokinni án þess að kanslarinn hafi beðið um það.

Er ljóst að slík tillaga verður samþykkt, enda nýtur hún meirihlutafylgis innan þingsins, bæði Jafnaðarmannaflokkurinn og kristilegir demókratar styðja tillöguna heilshugar: jafnaðarmenn því þetta er neyðartafl úr vondri stöðu og kristilegir því þeir vilja koma stjórninni frá og stóla á kosningasigur. Síðast var þessari aðferð til að rjúfa þing og boða til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins beitt árið 1983. Hægrimaðurinn Helmut Kohl varð kanslari án kosninga árið 1982 er slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi jafnaðarmanna og frjálslyndra demókrata og þeir fóru í samstarf með hægrimönnum í CDU/CSU. Þá missti Helmut Schmidt völdin og Kohl tók við eftir vantraustskosningu innan þingsins. Kohl vildi sjálfur hljóta umboð þjóðarinnar til verka og boðaði vantraust um eigin stjórn árið 1983 og kusu þingmenn hægriblokkarinnar gegn eigin stjórn til að knýja á kosningar. Þær vann Kohl með nokkuð afgerandi mun.

Enginn vafi leikur á því að Schröder ætlar að nota þetta fyrirkomulag til að snúa taflinu sér í vil og treystir á að hægriblokkin komi sér ekki saman um leiðtoga og verði ósamstíga í kosningabaráttunni. Hann ætlar að reyna á samstöðu stjórnarandstöðunnar til að tryggja sjálfan sig í sessi og reyna með því að halda völdum þriðja kjörtímabilið í röð. Lítil gleði er innan herbúða Jafnaðarmannaflokksins með þessa ákvörðun, enda stendur flokkurinn illa í könnunum og samstarfsflokkur þeirra, Græningjar horfa algjörlega með hryllingi til kosninga í ljósi nýlegra hneykslismála tengdum leiðtoga þeirra, Joschka Fischer utanríkisráðherra, og ljóst að þeir standa mjög höllum fæti. Það er þó ljóst að kosningar eru handan við hornið, sama hvað hver vill í stöðunni. Ljóst er að sú kosningabarátta sem brátt hefst í Þýskalandi verður beinskeytt og full af krafti. Allt verður lagt í sölurnar.

Þáttaskil gætu verið framundan í þýskum stjórnmálum. Það er allavega alveg kristaltært að verði Angela Merkel kanslari mun það breyta pólitísku litrófi stjórnmálanna í Þýskalandi og marka söguleg þáttaskil ekki síður. Það verður spennandi að fylgjast með þessari kosningabaráttu, enda er hætt við að jafnaðarmenn og Schröder kanslari muni leggja allt í sölurnar til að halda völdum. Það eitt er því ljóst við upphaf þessarar kosningabaráttu að mikil átök eru framundan um völdin í Þýskalandi.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband