Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 30. maí 2005

Frakkar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Frakklandi í gær eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Um 56% franskra kjósenda afþökkuðu stjórnarskrána á meðan aðeins um 44% samþykktu hana. Þegar frönsk stjórnvöld ákváðu að setja málið í þjóðaratkvæði á síðasta ári sýndu skoðanakannanir mikinn meirihluta Frakka hlynntan stjórnarskránni. Verð ég að viðurkenna að ég þorði ekki að gera ráð fyrir að munurinn yrði svona mikill á fylkingum stuðningsmanna og andstæðinga stjórnarskrárinnar og sjálfsagt á það við um mun fleiri en bara mig. Skoðanakannanir höfðu undir það síðasta bent til þess að stjórnarskránni yrði hafnað með á bilinu 51-55% atkvæða. Þetta er því væntanlega mun meira afgerandi niðurstaða en bjartsýnustu andstæðingar stjórnarskrárinnar hafa þorað að vona.

En hvert verður framhaldið? Ég ritaði reyndar grein í lengra lagi í fyrradag um þetta mál allt sem síðan birtist á vefriti Sambands ungra sjálfstæðismanna í gær. Þar fór ég ansi ítarlega yfir málið að ég tel og fjallaði m.a. um það hvert framhaldið kynni að verða ef Frakkar höfnuðu stjórnarskránni. Helzta spurningin í því sambandi er kannski hvað Tony Blair ákveður að gera. Notar hann tækifærið og reynir að losa sig undan því að þurfa að leggja stjórnarskrána í dóm brezkra kjósenda? Eða verður hann við hvatningum annarra forystumanna Evrópusambandsins um að önnur aðildarríki sambandsins haldi sínu striki við afgreiðslu stjórnarskrárinnar þrátt fyrir að Frakkar hafi hafnað henni?

Ég held að Blair hljóti að ákveða að breyta engu um það að halda þjóðaratkvæðið í Bretlandi. Þá bæði vegna þess að hann hefur ítrekað sagt á undanförnum vikum að brezk stjórnvöld muni ekki láta afgreiðslu Frakka eða annarra aðildarríkja Evrópusambandsins hafa áhrif á það hvort þau haldi þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi eða ekki og einnig, og ekki síður, vegna þess að hann, ásamt öðrum leiðtogum aðildarríkja sambandsins, skuldbatt sig til að láta afgreiða stjórnarskrána í heimalandi sínu við formlega undirritun hennar sl. haust.

Allar líkur verða því að teljast á því að stjórnarskrármálið haldi áfram eins og ekkert hafi í skorizt. Síðan muni forystumenn Evrópusambandsins setjast niður, þegar öll aðildarríki sambandsins hafa tekið afstöðu til stjórnarskrárinnar, og fara yfir það hversu mörg þeirra hafi hafnað henni og hvernig og hvort hægt sé að komast framhjá því með einhverjum hætti. Líkleg leið verður að teljast sú að haldnar verði nýjar þjóðaratkvæðagreiðslur í þeim ríkjum, þá hugsanlega með eitthvað breyttu sniði og öðrum spurningum þannig að líklegra verði að málið verði samþykkt. Hliðstætt og gert var í Írlandi þegar Nice-sáttmálanum var hafnað þar í landi um árið.

Þannig að forystumenn Evrópusambandsins eru varla af baki dottnir þó um sé vissulega að ræða gríðarlegt kjaftshögg. Þeir munu leita leiða til að komast framhjá vilja almennings í þessu máli með einum eða öðrum hætti eins og þeir hafa gert við ófá tækifærin hingað til þegar almenningur hefur ekki viljað dansa í takt og leggja blessun sína yfir stöðugt meiri pólitískan, efnahagslegan og félagslegan samruna innan Evrópusambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband