Bloggfærslur mánaðarins, maí 2005
Mánudagur, 9. maí 2005
Mánudagspósturinn 9. maí 2005
Ekki kom á óvart að brezki Verkamannaflokkurinn skyldi hafa sigur í þingkosningunum í Bretlandi sem fram fóru sl. fimmtudag. Hins vegar verður sigurinn að teljast í bezta falli varnarsigur eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Flokkurinn hefur nú aðeins þingmeirihluta upp á 67 þingsæti miðað við 167 eftir kosningarnar 2001. Þetta þýðir að mjög erfitt kann að reynast fyrir Tony Blair að koma ýmsum málum í gegnum þingið á kjörtímabilinu, ekki sízt í ljósi þess að fjölmargir af hans eigin þingmönnum eru honum andsnúnir og þá einkum þeir sem eru mjög vinstrisinnaðir. Er talið líklegt að stutt sé orðið eftir af setu Blairs á stóli forsætisráðherra og að Gordon Brown, fjármálaráðherra, muni fyrr en síðar taka við.
Taki Brown við, sem er frekar spurning um hvenær en ekki hvort, þykir líklegt að Verkamannaflokkurinn muni sveigjast nokkuð til vinstri, en undir stjórn Blairs hefur flokkurinn færst meira til hægri en nokkurn tímann áður. Þessu hafa vinstrimenn innan hans kunnað afar illa sem og margir kjósenda hans. Hins vegar er ekki neinum almennilegum valkosti fyrir að fara vinstramegin við Verkamannaflokkinn. Þetta hefur þýtt að Blair hefur talið sig nokkið öruggan með að vinstrimenn upp til hópa kysu ekki annað en flokkinn þrátt fyrir að vera ósáttir við að hann hafi færst til hægri og sömuleiðis ekki sízt við þá ákvörðun Blairs að ráðast inn í Írak.
Þó er talið að Frjálslyndum demókrötum hafi tekizt að laða til sín talsvert af vinstrisinnuðu óánægjufylgi, þá sjálfsagt ekki sízt vegna andstöðu sinnar við Íraksstríðið. Frjálslyndi demókrataflokkurinn er þó í raun ekki mjög vinstrisinnaður heldur miðjuflokkur. Íhaldsflokkurinn græddi hins vegar sennilega lítið á að gagnrýna Blair fyrir lygar í tengslum við Íraksmálið, a.m.k. þegar kom að þeim kjósendum sem andvígir eru Íraksstríðinu, enda flokkurinn ekki andvígur innrásinni í Írak sem slíkri heldur aðeins gagnrýninn á það hvernig Blair stóð að þeirri ákvörðun að taka þátt í henni.
Íhaldsmenn bættu við sig 33 þingsætum sem er í sjálfu sér talsverður árangur en þeir höfðu vitanlega sett sér að komast í ríkisstjórn. Það var þó nokkuð ljóst að það myndi sennilega ekki takast ef marka mátti skoðanakannanir þó allt hefði auðvitað getað gerzt á kjördag, ekki sízt ef margir af kjósendum Verkamannaflokksins hefðu ekki neytt kosningaréttar síns. Það var einmitt það sem Blair og forystumenn flokksins óttuðust hvað mest og hvöttu því kjósendur hans til að sitja ekki heima.
Annað sem hugsanlegt er að gerist, þegar Gordon Brown tekur við sem forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, er að flokkurinn, sem og ríkisstjórnin, verði minnan Evrópusambandssinnuður en verið hefur hingað til. Þetta er þó auðvitað engan veginn víst. Hins vegar hefur Brown jafnan verið talinn mun meiri efasemdarmaður um samrunann innan Evrópusambandsins en Blair, einkum þegar kemur að evrunni.
En hvernig sem mál munu þróast er ljóst að næsta kjörtímabil mun að öllum líkindum reynast ríkisstjórn Verkamannaflokksins erfitt.
---
Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, benti á það í umræðum á Alþingi á dögunum, um málefni félagsskaparins Mannréttindaskrifstofu Íslands, að Amnesty International, sem aðild á að skrifstofunni, væri þeirrar skoðunar að mannréttindaskrifstofur ættu ekki að búa við opinberan stuðning. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi, sagði það vera misskilning að Amnesty leggðist gegn opinberum framlögum til mannréttindamála. Amnesty hafnaði sjálft styrkjum til að geta starfað í löndum þar sem einræði eða ógnarstjórn ríki.
Einmitt já. Ef þetta væri virkilega raunin, hvers vegna segir Amnesty International þá ekki bara að samtökin þiggi aðeins fé frá lýðræðislegum stjórnvöldum? Það væri ekkert að því ef það sem Jóhanna segir væri í reynd rétt. Þarna er þó augljóslega aðeins um að ræða verulega slappa tilraun til að réttlæta þá þversögn að Amnesty International telji það lykilatriði, til að tryggja sjálfstæði samtakanna, að þiggja ekki opinber fjárframlög á sama tíma og þau telja það lykilatriði að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái opinber fjárframlög til að tryggja sjálfstæði hennar. Þverstæðan er auðvitað alger!
---
Ég minntist á nýja dagblaðið um daginn, Blaðið. Í frétt á Stöð 2 um daginn, í tilefni af því að fyrsta eintak blaðsins var gefið út, var m.a. haft eftir Sigurði G. Guðjónssyni, stjórnarformanns útgáfufélags blaðsins, að það yrði fréttablað með almennum fróðleik en að áherzlur verði þó aðrar en fyrir væru. Blaðið yrði frjálst og óháð, skrifað af gamalreyndum og nýjum blaðamönnum og af þeim sökum sagðist Sigurður telja að Blaðið yrði allt öðruvísi en þau blöð sem fyrir væru á markaðinum. Ég verð nú að segja eins og er að þó ég fagni útgáfu Blaðsins, sem viðleitni til að auka fjölbreytni á íslenzkum fjölmiðlamarkaði, og óski aðstandendum þess alls hins bezta þá kem ég illa auga á þá meintu sérstöðu sem blaðinu er ætlað að hafa umfram þau blöð sem fyrir eru út frá þessum orðum Sigurðar.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 6. maí 2005
Blair heldur velli – breytingar framundan?
Verkamannaflokkurinn sigraði í bresku þingkosningunum í gær. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Verkamannaflokksins sem hann sigrar í þrennum kosningum í röð, en flokkurinn hefur nú setið við völd allt frá því að hann vann sögulegan sigur á Íhaldsflokknum þann 2. maí 1997. Í dag er leiðtogi flokksins, Tony Blair forsætisráðherra, 52 ára. Það er því ástæða fyrir hann vissulega til að gleðjast á þessum degi, enda hefur hann með þessum sigri náð þeim glæsilega árangri að leiða flokk þrisvar í röð til sigurs í breskum stjórnmálum. Er hann aðeins annar stjórnmálamaðurinn í sögu landsins sem nær þeim áfanga. Margaret Thatcher leiddi Íhaldsflokkinn til sigurs í þingkosningunum 1979, 1983 og 1987. Hún sat í embætti forsætisráðherra lengur en nokkur annar á 20. öld, í heil ellefu og hálft ár, á árunum 1979-1990.
Með kosningasigrinum í gær hefur því Tony Blair markað sér sögulegan sess og er orðinn sigursælasti leiðtogi í sögu Verkamannaflokksins, sem var stofnaður árið 1900. Þrátt fyrir að forsætisráðherrann geti glaðst yfir þeim árangri að hafa leitt flokkinn til sigurs í kosningunum marka úrslitin ekki eintóma gleði. Verkamannaflokkurinn missti mikið fylgi í kosningunum og þingmeirihluti hans hefur minnkað til muna. Í stað þess að hann hafi verið rúm 160 þingsæti er hann nú um 70. Það blasir því í senn bæði annað pólitískt landslag og nýr pólitískur veruleiki við Tony Blair á afmælisdeginum, eftir að hann hefur tryggt sér þriðja kjörtímabilið við stjórnvölinn. Búast má við því að hann þurfi nú mun frekar að semja við óánægjuöflin í flokknum og það verði því bæði erfiðara fyrir hann að ná í gegn málum sínum gegnum þingið og að stjórnarandstaðan eigi auðveldara með að höggva í hann og veita honum pólitíska áverka í ljósi naumari meirihluta.
Í þau átta ár sem Tony Blair hefur verið forsætisráðherra hefur hann getað farið sínu fram í ljósi gríðarlega öflugs þingmeirihluta og ekki þurft í raun að taka tillit til vinstrisinnaðasta arms flokksins. Hann hefur í raun getað farið sína leið og látið þar við sitja. Með þessum úrslitum breytist staðan að því leyti að nú reynir til muna á sáttasemjarataktík forsætisráðherrans til að þoka málum í gegn. Hann verður að spila meiri millileiki og venjast því að vera með brothættari meirihluta sem gæti leitt til þess að vissir þingmenn verði honum óþægur ljár í þúfu og leiki meiri sóló. Blair hefur því veikst til muna og verður vart úr þessu hinn sterki leiðtogi sem keyrir mál í gegn og þarf ekki að láta óánægjuöfl innan flokksins ráða stefnumótun sinni. Nú þegar meirihlutinn er aðeins um 70 sæti breytist því staðan að þessu leyti.
Má búast við að umræðan magnist enn frekar um það nú hvort Blair muni sitja til loka kjörtímabilsins. Fyrir kosningarnar staðfesti Blair að þetta væri hans seinasta kosningabarátta og hann ætlaði sér ekki að sitja lengur en út kjörtímabilið. Segja má að Verkamannaflokkurinn hafi í þessum kosningum unnið sigur þrátt fyrir Blair en ekki vegna hans, eins og í þingkosningunum 1997 og 2001 þegar hann var markaðssettur sem hinn öflugi og vinsæli leiðtogi. Í kosningabaráttu seinustu vikna hefur þessu verið allt öðruvísi farið. Verkamannaflokkurinn sem hefur verið byggður utan um vinsældir Blair seinasta áratuginn flaggaði öðrum ráðherra flokksins sem leiðtoga-material en hélt Blair á kantinum. En stjörnuljómi hans er farinn og segullinn á almenning er annar maður. Segja má að Brown sé orðinn forsætisráðherraefni kratanna, en Blair sitji eftir til hliðar sem leiðtoginn sem sé að fara að hætta eða sé þarna en sé þarna meira punt og skraut.
Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari þessara kosninga, en ekki Tony Blair eins og í hinum tveim kosningasigrum flokksins. Blair vissulega leiðir flokkinn áfram til valda í hið sögufræga þriðja kjörtímabil en hann er ekki sá sem er aðalstjarnan í raun, eins merkilegt og það hljómar. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Sást þetta best af nýlegri skoðanakönnun sem sýndi að væri Brown leiðtogi flokksins myndi hann hljóta 48% atkvæða. Hann fylgdi Blair eftir hvert fótmál og var sá sem mesta athyglin snerist um. Segja má að Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum.
Þetta er merkileg þróun í ljósi þess hvernig Blair hefur alltaf verið aðalsegull flokksins á kjósendur. Nú var hann hinsvegar eins og aðskotahlutur. Flokkurinn vissi varla hvernig ætti að auglýsa hann upp og beindu því miðpunktinum að mestu annað og fengu Brown fram í sviðsljósið með forsætisráðherranum. Sterk staða Blair í breskum stjórnmálum hefur því breyst mjög seinustu árin og ekki síst mánuðina og þessi kosningaúrslit munu leiða til þess að umræðan magnast um hvenær hann muni víkja. Líklegast er að það gerist á kjörtímabilinu að Blair víki af sviðinu og afhendi eftirmanni sínum innan flokksins valdataumana. Það er frekar ólíklegt að þau valdaskipti muni eiga sér stað við lok kjörtímabilsins eins og hann hafði sagt og langlíklegast að það gerist innan tveggja ára að nýr húsbóndi verði kominn í Downingstræti 10. Langlíklegast er að sá eftirmaður verði fjármálaráðherra hans, hinn fyrrnefndi Gordon Brown.
Úrslit kosninganna eru viss vonbrigði fyrir Íhaldsflokkinn. Í þriðja skipti í röð tapar hann fyrir Tony Blair og Verkamannaflokknum og þarf að halda áfram stjórnarandstöðu sinni og leita að nýjum megingrunni og tilveru á pólitískum vettvangi. Sú breyting hefur þó vissulega orðið á núna að flokkurinn hefur styrkst. Hann bætti við sig mörgum þingsætum í þessum kosningum og náði kjöri í mörgum kjördæmum sem Verkamannaflokkurinn hefur ráðið yfir. Það er vissulega styrkleiki og íhaldsmenn munu væntanlega byggja á því í vinnu komandi ára. Það er enginn vafi á því í mínum huga að íhaldsmenn verða að hefja nýja sókn og nýja vinnslu á sóknarfærum í hægristefnu á komandi árum. Michael Howard tókst í þessari kosningabaráttu að taka vissa grunnvinnu í að efla grunn flokksins og náði að styrkja hann mjög í kosningabaráttu seinustu vikna. Flokkurinn er samhentari og öflugri nú en áður í stjórnarandstöðu seinustu átta ára.
En betur má ef duga skal fyrir íhaldsmenn. Það er ljóst að flokkurinn hefur náð að bæta við sig rúmlega 30 þingsætum og hefur náð að lyfta sér af þeim botni sem hann fór á í afhroðinu mikla 1997 og bætti sig verulega frá kosningunum 2001, þegar flokkurinn í raun stóð í stað. Nú er hinsvegar komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hvort Michael Howard leiðir það starf er óvíst, en hitt er ljóst að hann á stóran þátt í að sú grunnvinna hefur hafist af krafti.
Frjálslyndir demókratar styrktu stöðu sína í kosningunum og náðu sínum bestu kosningaúrslitum í marga áratugi. Undir forystu leiðtoga síns, Charles Kennedy, hefur flokkurinn styrkt sig sem þriðja aflið í breskum stjórnmálum og hefur eflt sig í pólitíska litrófinu og hefur leitt flokkinn af krafti og fylgt eftir árangri forvera síns, Paddy Ashdown. Enginn vafi leikur á því að afstaða flokksins í Íraksstríðinu fyrir tveim árum hafi styrkt flokkinn. Hann var eini flokkurinn sem tjáði afgerandi andstöðu gegn stríðinu og hefur náð fylgi út á það með greinilegum hætti. Segja má þó að sú andstaða hafi rist dýpra en það, enda var Verkamannaflokkurinn klofinn í málinu og leiddi það til þess að margir öflugir forystumenn hans fóru þaðan. Sérstaklega vakti athygli að hinn brottrekni þingmaður úr flokknum, George Galloway, náði kjöri í Bethnal Green og felldi þingmann kratanna, hina þeldökku Oonu King. Þau úrslit gerðu marga krata orðlausa og flutti Galloway mikla ádrepu yfir Blair og sínum gamla flokki er hann fagnaði sigrinum.
Það var þreytulegur en þó glaður Tony Blair sem ávarpaði stuðningsmenn sína í Sedgefield í gærkvöldi eftir að hann náði þar kjöri í sínum síðustu þingkosningum. Hann var ánægður með sigur sinn í kjördæminu og flokksins á landsvísu. Það var þó ljóst af tali hans og fasi að sigurinn er mjög súrsætur. Meirihluti hans er eins og fyrr segir mun tæpari en áður og svigrúm hans til forystu í takt við það sem verið hefur er mjög takmarkað. Við blasir að kjósendur séu að senda honum þau skilaboð að hans tími sé liðinn. Við blasir að breytingar verði brátt í breskum stjórnmálum. Eftir tæplega áratug á valdastóli eru augljós þreytumerki á pólitískri forystu Tony Blair og pólitískt leiðarljós hans hefur leitt flokksmenn inn á braut sigurs en þó markast leiðin framundan af nokkurri óvissu. Við blasir þó að vaktaskipti verði fyrr en seinna og Gordon Brown setjist við stýrið á þessu kjörtímabili. Eitt merkilegasta slagorð kosningabaráttunnar var jú Vote Blair Get Brown.
Enginn vafi er á því að Tony Blair hefur stefnt að því að slá met hinnar kraftmiklu járnfrúar, Margaret Thatcher, sem sat lengur á forsætisráðherraferli en aðrir í seinni tíma stjórnmálasögu. Vissulega getur Blair náð því, enda náð kjöri á valdastól á kjörtímabil sem getur varað í allt að fimm ár. Ef hann situr til loka þess án þess að boða til kosninga áður hefur hann setið samfellt í þrettán ár og hefur þá náð að skáka frú Thatcher. Blair er ekki gamall maður, aðeins 52 ára og fagnar þeim árafjölda á afmælisdegi sínum í dag. En líkurnar á því að forsætisráðherrann sitji tímabilið á enda teljast vart miklar. Þreyta kjósenda og ekki síður flokksmanna með pólitíska forystu Blairs er orðin mjög greinileg. Vaktaskipti blasa því við á komandi árum. Breytingar eru framundan. Þrátt fyrir sögulegan sigur og nokkurn áfanga stendur afmælisbarn dagsins á krossgötum. Þrátt fyrir að vera orðinn sigursælasti leiðtogi vinstrimanna í pólitískri sögu landsins er óneitanlega að koma endastöð hjá Tony Blair á pólitískum leikvangi.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 4. maí 2005
Why bother? Determinants of tournout in the European elections
Nú þegar Evrópusambandið er að vaxa og þróast í áttina að sameinaðri Evrópu er ekki úr vegi að menn velti fyrir sér kosningahegðun og kosningaþáttöku þeirra íbúa sem þar búa. Frá því að Rómarsáttmálinn var undirritaður hefur Evrópusambandið verið að stækka og telur nú 25 lönd. (voru fimmtán lengi vel). En þó svo að ákveðnir stjórnmálamenn og öfl einbeiti sér að því að Evrópa verði sambandsríki er ekki þar með sagt að allir íbúar Evrópu fylgi þeim fast á eftir í skoðunum og deili með þeim þessum vilja. Fjarri fer því. Dæmi um mikla andstöðu innan mikilvægra Evrópulanda sjáum við í auknum mæli t.d. hjá almenningi í Bretlandi og stjórnvöldum á Ítalíu. En gott og vel. Þessi greinagerð fjallar ekki um tilvist Evrópusambandsins og ekki stendur til að koma með rök með eða á móti því sem sambandið stendur fyrir. Hérna verður skoðuð kosningahegðun íbúa sambandsins og aðallega miðað við þingkosningarnar til Evrópuþingsin 1999.
Mikko Mattila (stjórnmálafræði, Háskólanum í Helsinki) rannsakaði kosningaþátttöku fimmtán (þá allra) ríkja árið 1999. Hann bar þátttöku í þeim kosningum saman við þátttöku í kosningum áður og bar upp ýmsar kenningar um það af hverju kosningaþátttakan var eins og raun bar vitni og hvað mætti gera til að bæta hana. Rannsókn hans byggir bæði á tölulegum staðreyndum og fyrri rannsóknum. Hann veltir fyrir sér ýmsum kenningum um kosningahegðun Evrópubúa og reynir að finna þær breytur sem valda því af hverju fólk kýs eða kýs ekki.
Léleg kosningaþátttaka
Ekki er til nein ein skýring á því af hverju kosningaþátttaka til Evrópuþings er ekki meiri en raun ber vitni. Hægt er að telja til nokkrar ástæður þess að fólk gefur sér ekki tíma til að mæta á kjörstað og nýta sér réttindi sín til að kjósa. Sumir myndu telja að menn ættu að nýta sér það að geta haft áhrif á gang mála. En í framhaldi af þeirri hugsun vaknar auðvitað upp sú spurning um það hvort að fólki finnist það vera að hafa einhver áhrif á gang mála í Evrópu og ESB með því að kjósa.
Allar tölur sýna að því ,,nær sem kosningar eru því meiri er kosningaþátttaka, sbr. að kosningaþáttaka er meiri í sveitastjórnarkosningum en Alþingiskosningum á Íslandi. Þannig er hægt að draga upp þá kenningu að fólki finnist það ekki vera að hafa raunveruleg áhrif á gang mála á Evrópuþinginu með því að fara og kjósa. [T.d. mætti rökstyðja þetta þannig að maður sem búsettur er í Þrándheimi finnst hann ekki vera að hafa áhrif á gang mála með því að kjósa frambjóðenda frá Osló á þing Evrópusambandsins. Innsk. Höfundar gfv.]
Það er auðvitað erfitt að gefa sér það að fólki finnist það ekki vera að hafa áhrif eins og í áðurnefndu dæmi. Það eru innanlandsstjórnir aðildaríkjanna sem taka ákvarðanir um skatta og innanríkismál og því er óljóst hvaða ímynd íbúar Evrópu hafa af Evrópuþingi og enn óljósara er hvaða kröfur þeir gera til þingsins almennt. (Rétt er að taka fram að það er ekki hægt að gefa sér hvað fólk hugsar í rannsóknum sem þessu. Þetta er hins vegar alveg rökrétt sjónarmið. Bara ekki hægt að flokka sem háða breytu)
Verðmæti þess að kjósa
Það er hægt að segja að það kosti eitthvað að kjósa. Fólk tekur sér tíma frá amstri dagsins og fer á kjörstað. Væntanlega hafa flestir einnig eytt einhverjum tíma í að kynna sér menn og málefni líðandi stunda. Þá koma upp hlutir eins og hvort að kosningar séu haldnar á virkum degi eða um helgi, hvort að þær séu um sumar eða um vetur og svo frv. Þetta er allt gild rök fyrir því hvort að fólk kemur á kjörstað eða ekki.
Hafa skal í huga að það eru einstaklingar sem kjósa en ekki þjóðir. Það er þess vegna erfitt að segja að einhverjir ákveðnir aðilar kjósi ekki eða eitthvað í þá áttina. Á hinn bóginn er ekki að hægt að flokka niðurstöðurnar öðruvísi en eftir þjóðum.
Ef við gefum okkur að fólk hafi nú áhuga á kosningunum, og telji í framhaldi af því að atkvæði þess skipti máli, hvað er það þá sem dregur fólk á kjörstað? Skv. rannsóknum Mattila myndi kosningaþátttaka strax aukast um 10% ef að kosningar yrðu alltaf haldnar um helgi. Fólk er upptekið á virkum dögum við vinnu, skóla og svo frv. Þetta telur Mattila að megi leysa með því að kjósa um helgi eins og áður sagði. Hann tekur málið reyndar aðeins lengra og leggur til að kosið verði á t.d. sunnudögum og mánudögum til að mæta kröfum þeirra sem vilja kjósa á virkum dögum.
Mattila gefur sér einnig að kosningaþátttaka myndi snaraukast ef fólk yrði skyldað til að kjósa. Þá erum við auðvitað komin á grátt svæði hvað varðar frelsi fólks og þarna eru kosningarnar í raun orðnar mjög ,,dýrar. En þetta er hins vegar gert í nokkrum löndum. Þar er skylda að kjósa. Þá veltir maður samt fyrir sér hvort að fólk sé á annað borð að kjósa eftir málefnum eða hugsjónum eða hvort að það er bara að uppfylla þessu ákveðnu skyldu sem á þeim hvílir. Þó svo að fólk mæti á kjörstað af skyldu þýðir það ekki að það hafi kynnt sér menn og málefni þess sem verið er að kjósa um.
Einnig er velt upp þeirri hugmynd (án þess þó að segja hvort hún sé rétt eða röng) að halda kosningar til Evrópuþings á sama tíma og verið er að kjósa í viðkomandi landi. Það er auðvitað mjög flókið mál og nánast óframkvæmalegt. Að sjálfsögðu væri hægt að gera það í einu og einu landi en til að kosningar til Evrópuþings séu markvissar þarf líklega að kjósa á sama tíma um öll sætin sem þýðir að allar þjóðirnar þyrftu að gera það á sama tíma. Hægara sagt en gert. En Mattila veltir sér ekki mikið upp úr þessari hugmynd. Dregur hana bara upp á yfirborðið.
Tenging og tilfinning Evrópubúa við Evrópuþingið
Eins og áður kemur fram telur Mattila að í einhverjum tilfellum finni kjósendur þeir ekki geta haft áhrif á Evrópuþingið. Einnig kom áður fram að það er ekki vitað hvaða kröfu kjósendur gera til þingsins.
Hins vegar telur Mattila að kosningaþátttaka gæti aukist ef að kjósendur gætu hafa meiri áhrif á val kjörinna fulltrúa á þingið með öðrum hætti en að fara bara og kjósa. Það eru tvö atriði sem dregin eru upp.
Annars vegar væri mögulegt að hafa opna lista þar sem kjósendur gætu ekki aðeins merkt við einn lista heldur einnig fært menn til á honum og gert ,,nauðsynlegar breytingar. Hins vegar gefur Mattila sér að það væri hægt að færa fulltrúa nær kjósendum með því að það væri ekki aðeins kosinn fulltrúi fyrir landið heldur kjósi sýslurnar/kjördæmin sér fulltrúar sem síðan fer fyrir hönd sýslunnar og landsins á Evrópuþingið. Gróft dæmi ef slíkt færi fram á Íslandi: T.d. myndi SV-land og Suðurland kjósa einn fulltrúa saman og Vestfirðir, Norðurland og Austurland kjósa sér annan. Þessi tveir yrðu síðan fulltrúar Íslands á þinginu. Þarna erum við aftur komin á Þrándheim Osló dæmið sem minnst var í upphafi.
Mattila leggur einnig fram þá kenningu ( og byggir hana á öðrum rannsóknum) að fyrir suma skipti ESB meira máli en aðra, þ.e.a.s. það virtist mismikilvægt að kjósa og hafa áhrif frá einu landi til annars. Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu. Í löndum sem eru að koma ný inn í sambandið er kosningaþátttakan mun meiri en annarsstaðar. Þá ríkir mikill áhugi um sambandið og fólk er að öllu líkindum vel upplýst um starfssemi þess þar sem síðustu árin hefur farið fram mikil umræða í viðkomandi landi um evrópumál. Í þeim löndum sem lengi hafa verið í Evrópusambandinu virðist fólk jafnvel missa áhugann á málefnum þess og sér lítinn tilgang í að mæta á kjörstað.
Einnig er hægt að skoða hvað íbúar Evrópusambandsins telja sig vera að ,,græða fjárhagslega á veru sinni þar. Þau lönd sem þiggja mikið frá Evrópusambandinu virðast vera með nokkuð góða kosningaþátttöku á meðan þau lönd sem borga mikið í sambandið virðast ekki hafa áhuga á að mæta á kjörstað. Það hefur einnig með það að gera hvernig tilfinningar og tengingar fólk hefur við Evrópusambandið. Áður minntist ég á að vaxandi óánægja er meðal almennings í Bretlandi með Evrópusambandið. Finnst mörgum að Bretar séu að taka á sig hluti sem þeir vilja ekki og á sama tíma borga mikla peninga í sambandið. Þetta verður til þess að hluti þjóðarinnar hunsar kosningarnar og telur þær ekki koma sér við. Menn geta svo deilt um hvort að það sé rétt eða rangt þar sem þeir sem kjósa ekki hafa ekki áhrif á gang mála.
Hvað virkar best?
Það hefur ekki verið auðvelt fyrir Mattila að taka saman upplýsingar um kosningaþátttökuna árið 1999 og vinna upp úr þeim bæði kenningar um kosningarnar og að ætla að setja fram tölur og staðreyndir um hvernig hlutirnir hefðu getað verið ef hitt og þetta hefði verið tekið með inn í reikninginn.
En hann býr til formúlur sem ,,reikna út hvernig kosningaþátttakan var og hvernig hún hefði getað orðið betri. (hann þarf auðvitað enga formúlu til að sjá hvernig kosningarnar voru þar sem það lág fyrir. Hins vegar notað hann þær upplýsingar til að fylla upp í formúluna.
Kosningaþáttakan á fyrrnefndum kosningum er í raun háða breytan í fyrstu formúlunni sem Mattila setur upp. Þar byggir hann gruninn að formúlunni með þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum. Í raun mætti segja að þarna sé hún hrá og ekkert hafi áhrif á hana og enginn samanburður liggur við formúluna. Þess vegna segir hún okkur ekkert svo mikið nema bara það sem þegar hefur gerst.
Í annarri formúlunni bætir hann inn í formúluna staðbundnu kosningunum í hverju landi fyrir sig. Þannig er hægt að bera saman eitt ákveðið land hvernig kosningaþátttakan var í þingkosningum þess lands og hvernig hún er svo í Evrópuþingkosningunum 1999. Þá er mælikvarðinn annar og ,,heima þingkosningarnar eru orðin háða breytan. Niðurstöðurnar úr þessari formúlu eru s.s. ekki bindandi þar sem mikill munur er á einstökum þjóðum ESB. Í sumum löndum er kosningaþátttaka alltaf lítil og en það sem kemur á óvart eru lönd eins og Svíþjóð þar sem kosningaþátttaka er oftast um og yfir 80% en í Evrópu-kosningunum var þátttakan undir 40%. Með því að fella þátttökuna í heimakosningunum inn í formúluna er komin marktækari formúla.
En ennþá er formúlan ekki fullkomlega marktæk. Kosningar geta farið fram um helgi í landi A en á virkum degi í landi B og því erfitt að bera þau lönd saman samkv. staðlaðri formúlu. Samt reynir Mattila að breyta formúlunni þannig að hægt sé að útiloka öll skekkjumörk.
Það sem við fáum mest út úr þriðju formúlunni er að með henni er hægt að vissu leyti að sjá ,,hvað hefði geta orðið og ,,hvað gæti orðið. Með því að skoða kosningaþátttöku í staðbundnum kosningum er nokkurn veginn hægt að spá fyrir um hvernig kosningin ætti að koma út í Evrópukosningum. Þannig byggir Mattila upp töflu sína sem birtist á bls. 465 í skýrslunni.
Kosningaþátttaka var rétt rúmlega 50% en með því að leggja upp formúluna vill Mattila meina að kosningaþátttakan gæti verið rétt yfir 60%. Skilyrðin eru að það séu opnir lista, kosið eftir héröðum og að kosið sé um helgi. Með því að skoða hvernig kosningaþátttak var t.d. um helgar er hægt að bæta því inn í formúluna og sjá fyrir um hvernig það hefði haft áhrif á heildarútkomuna. Auðveldast er að tala um Evrópusambandið í heild sinni hér heldur en að fara að útlista eina og eina þjóð.
Það eru greinilega margir hlutir sem hafa áhrif á kosningaþátttöku og mikið rannsóknarverkefni að finna út hvaða aðstæður hafa áhrif á kosningahegðun almennings. Í þessu ákveðna tilfelli eru Evrópulöndin mjög ólík hvað varðar menningu hegðun, sögu, íhaldssemi, þjóðernisgildi og svo frv. þannig að það er erfitt að setja alla undir einn hatt. Hins vegar leysir ,,formúla 3 þann vanda þar sem hægt er að setja inn hins ýmsu skilyrði inn í hana til að fá rökgilda niðurstöðu.
Kenningarnar sanna sig að nokkru leyti sjálfar og úrtakið er að sjálfssögðu allir þeir Evrópubúar sem eiga aðild að Evrópusambandinu. (þ.e.a.s. árið 1999)
En af hverju svona?
Það erfitt fyrir 1.árs stjórnmálafræðinema að ætla að gagnrýna ritgerð/skýrslu annars stjórnmálafræðings sem greinilega hefur miklu meiri reynslu og þekkingu en undirritaður. Mikko Mattila tekur sér erfitt verkefni fyrir hendur og leysir með sóma. Að sjálfsögðu er hann mikið að velta fyrir sér hlutunum sem áhrif hafa á kosningarhegðun íbúa þeirra landa sem aðild eiga að ESB.
Persónulega tel ég að það eigi vel við að fólki finnist það ekki vera að hafa áhrif á gang mála í Evrópu með því að kjósa á Evrópuþing. Þingið er að mestu áhrifalaust (þó svo að völd þessu séu smátt og smátt að aukast) og lýðræðikerfið í Evrópusambandinu hefur verið veikt hingað til. Ríkum þjóðum finnst þau borga of mikið til að ,,halda uppi fátækari þjóðum (á meira við í dag en árið 1999 þar sem austur Evrópu löndin hafa komið inn síðan þá) og hunsa því að miklu leyti þátttöku í störfum sambandsins. Þannig tel ég að Evrópusambandið sé orðinn leikklúbbur hinnar opinberu ,,elítu og snýst meira orðið um skrifræði en fókusinn sem upphaflega var á að mynda tollabandalag og fríverslun er að mestu horfinn. Samt skal ég viðurkenna það eru s.s. ekki góð rök að hunsa kosningar af því að maður ,,fílar ekki eitthvað við málið. Léleg kosningaþátttaka er alltaf svartur blettur á þjóðum sem eyddu mikilli orku í að öðlast réttinn til að kjósa.
Mattila kemur hins vegar með góðar athugasemdir um hvernig lækka megi þann þröskuld sem oft virðist vera á kosningaþátttöku. En það á alveg eins við annars staðar. Kosningaþátttaka myndi líklega minnka á Íslandi ef við myndum byrja að kjósa á miðvikudögum en ekki laugardögum ( að sama skapi myndi kosninga ,,stemningin minnka). Fólk getur átt við lista með því að stroka út nöfn, kjörfulltrúar eru átómatískt nálægt kjósendum af því að við búum í litlu landi.
En rannsókn Mattila er áhugaverð fyrir þessar formúlur og það er gaman að sjá hvernig hægt er að ,,reikna út hegðun manna eftir stærðfræðiformúlu.
(Ritgerð þessi var unnin sem verkefni í Samanburðarstjórnmálum - GFV)
Gísli Freyr Valdórsson
Mánudagur, 2. maí 2005
Mánudagspósturinn 2. maí 2005
Enn er komin upp umræða í fjölmiðlum um félagsskapinn Mannréttindaskrifstofu Íslands og kröfur um að íslenzkir skattgreiðendur verði látnir fjármagna starfsemi hans. Ég hef áður fjallað um þetta mál hér og sama er að segja um hið ágæta vefrit Andríki.is. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur ennfremur ítrekað fjallað um þetta mál á heimasíðu sinni Björn.is. Forsaga málsins er í stuttu máli sú að ráðuneyti dómsmála og utanríkismála hafa á undanförnum árum hvort um sig fengið úthlutað árlega fjórum milljónum króna til að verja til mannréttindamála. Þessi framlög hafa síðan 1999 eingöngu runnið til eins aðila sem vinnur að mannréttindamálum, Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fyrir vikið hefur öðrum aðilum, sem starfa að sömu málum, ekki staðið þessi framlög til boða.
Sérstakur samningur var á milli stjórnvalda og Mannréttindaskriftofu Íslands um þetta fjárframlag sem m.a. gerði ráð fyrir því að hluti af upphæðinni sem skrifstofan fékk úthlutað rynni til Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Um áramótin 2003-2004 ákvað Mannréttindaskrifstofa Íslands einhliða að láta Mannréttindastofnuninni ekki lengur í té hluta framlagsins frá stjórnvöldum. Þetta fréttu stjórnvöld hins vegar ekki fyrr en sl. sumar en þó ekki frá Mannréttindaskrifstofunni heldur Mannréttindastofnun Háskólans. Um sama leyti óskaði Mannréttindaskrifstofan eftir auknu framlagi frá stjórnvöldum til starfsemi sinnar.
Í kjölfarið var málið eðlilega endurskoðað af stjórnvöldum, enda hafði Mannréttindaskrifstofan í raun rift samningnum um fjárveitinguna frá hinu opinbera með því að hætta að veita hluta hennar til Mannréttindastofnunar Háskólans. Var loks ákveðið að það fé, sem ráðuneytum dómsmála og utanríkismála væri úthluta til mannréttindamála á fjárlögum, yrði ekki lengur eyrnamerkt aðeins einum aðila sem starfaði að mannréttindamálum heldur yrði öllum slíkum aðilum heimilað að sækja um styrk af því fé. Einfaldlega yrði gætt jafnræðis í þessum efnum ólíkt því sem áður var þegar Mannréttindaskrifstofan sat ein að fjárframlaginu.
Þetta þykir Mannréttindaskrifstofu Íslands óásættanlegt og telur það lykilatriði til að tryggja sjálfstæði skrifstofunnar að hún fái úthlutað fé frá stjórnvöldum. Furðulegt er í því sambandi að velta fyrir sér þeirri staðreynd að Íslandsdeild Amnesty International, sem er aðili að Mannréttindaskrifstofunni, segir í stefnuskrá sinni að samtökin þiggi ekki fé frá stjórnvöldum né stjórnmálaflokkum einmitt í því skyni að tryggja sjálfstæði sitt. Þessu er greinilega eitthvað öfugt farið með Mannréttindaskrifstofuna. Þverstæðan er auðvitað alger!
Ákvörðun stjórnvalda hefur m.a. verið kölluð árás á mannréttindi á Íslandi og sagt að Mannréttindaskrifstofunni sé haldið í fjársvelti. Staðreyndin er einfaldlega sú, eins og margoft hefur komið fram hjá stjórnvöldum og fleirum, að einkaaðilar geta ekki ætlazt til þess að vera áskrifandi að fjárframlögum úr vösum skattgreiðenda eins og Mannréttindaskrifstofan virðist halda í þessu tilfelli.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004