Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 23. maí 2005

Gunnar Örlygsson

Á fundi sem haldinn var sl. miðvikudag kom saman hópur fólks sem kallar sig „frambjóðendur og stuðningsmenn Frjálslynda flokksins í suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2003.“ Samþykkti hópurinn ályktun þar sem harmað var að Gunnar Örlygsson hefði sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við sjálfstæðismenn. Í ályktuninni er Gunnar ennfremur hvattur til að sýna drengskap og segja af sér þingmennsku svo Frjálslyndi flokkurinn megi á ný eiga fjóra fulltrúa á Alþingi. Þetta væri í senn sanngjörn og lýðræðisleg krafa.

Það er nefnilega það. Fyrir það fyrsta efast ég um að þarna hafi verið á ferð allir þeir yfir tvö þúsund kjósendur sem mér skilst að hafi kosið Frjálslynda flokkinn í suðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar. Í annan stað þá væri fróðlegt að vita hvað þessu annars ágæta fólki fyndist um þá ákvörðun Ólafs F. Magnússonar að halda sæti sínu í borgarstjórn þrátt fyrir að hafa gengið úr Sjálfstæðisflokknum í lok árs 2001 og í framhaldinu til liðs við Frjálslynda flokkinn?

Var það ekki lýðræðisleg og sanngjörn krafa að Ólafur segði af sér sem borgarfulltrúi fyrst hann sagði skilið við borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna samkvæmt formúlu áðurnefnds hóps? Var það ekki ósanngjarnt gagnvart sjálfstæðismönnum að þar með var borgarfulltrúum þeirra fækkað um einn? Það hlýtur að vera ef hugmyndin er að sama reglan gildi um alla. Nema það eigi eitthvað annað við þegar slíkt bitnar á Sjálfstæðisflokknum en einhverjum öðrum?

---

Þjóðaratkvæði um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins mun fara fram í Frakklandi nk. sunnudag. Benda síðustu skoðanakannanir til þess að Frakkar hyggist hafna henni með naumum meirhluta. Hafa forystumenn sambandsins keppst við það á undanförnum mánuðum að spá heimsendi og jafnvel rúmlega það ef stjórnarskránni verður hafnað af frönskum kjósendum. Hafa yfirlýsingarnar ekki verið sparaðar í þeim efnum. Nú síðast sagði Michel Barnier, utanríkisráðherra Frakka, í dag að ef stjórnarskránni yrði hafnað í Frakklandi myndi það þýða pólitískt hrun Evrópusambandsins, hvorki meira né minna.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem forystumenn innan Evrópusambandsins viðhafa slíkar heimsendayfirlýsingar ef líklegt er að almenningur í einu eða fleiri aðildarríkjum sambandsins vilji ekki leggja blessun sína yfir eitthvað samrunaskrefið innan þess - þ.e. í þau fáu skipti sem almenningur er hafður með í ráðum. Er skemmst að minnast þess þegar Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, spáði því rétt fyrir þjóðaratkvæðið um evruna þar í landi haustið 2003 að ef Svíar höfnuðu henni myndi það þýða hörmungar fyrir sænskt efnahagslíf. Eins og kunnugt er afþökkuðu Svíar evruna og síðan hefur sænskt efnahagslíf blómstrað og staðið mun betur að vígi en efnahagslíf evrusvæðisins. Þegar Persson var spurður að því á blaðamannafundi á síðasta ári hvers vegna heimsendaspár hans hefðu ekki gengið eftir sagðist hann ekki vita það og var þá hlegið að honum.

---

Talsvert hefur verið fjallað um það að undanförnu í fjölmiðlum að ef fer sem horfir muni fæðingar á Íslandi ekki verða nægar til að viðhalda fjölda Íslendinga til lengri tíma litið. Þetta eru sannarlega slæmar fréttir og aðvörunarljós sem full ástæða er til að taka mark á og bregðast við. Víðast hvar á meginlandi Evrópu er þetta fyrir löngu orðið að vandamáli sem eykst með hverju árinu sem líður. Margar þjóðir í Evrópu eru í þeim sporum að þeim fjölgar ekki með náttúrulegum hætti vegna þess að mun fleiri deyja en fæðast. Fæðingar eru sem sagt ekki nægar. Ráðamenn í þessum löndum hafa gríðarlegar áhyggjur af þessari þróun og þá ekki sízt með tilliti til lífeyrisskuldbindinga, en fjölmennar kynslóðir Evrópubúa munu á næstu árum fara á eftirlaun sem fámennari kynslóðir munu þurfa að standa undir.

---

Og meira af fundahöldum. Landsfundur Samfylkingarinnar fór fram nú um helgina. Var fundurinn reyndar furðu tíðindalítill og má í raun segja að lítið hafi gerzt á honum sem komið hafi á óvart. Helzt var kannski óljóst hver yrði kjörinn varaformaður flokksins en niðurstaða formannskjörsins kom sennilega engum á óvart. Ég vil nota tækifærið og óska Ingibjörg Sólrún Gísladóttir til hamingju með kjörið. Þetta eru vissulega gleðifréttir fyrir alla þá sem ekki vilja sjá Samfylkinguna sem aðila að næstu ríkisstjórn enda mun kjör Ingibjargar að öllum líkindum draga enn frekar en áður úr líkunum á að það geti gerzt.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband