Leita í fréttum mbl.is

Þjóðarhreyfingin og opnunartími búða. (úr einu í annað)

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands telja Íslendingar nú 293.291 manns.
Íslendingar nálgast nú óðfluga 300 þús. en það er ekki það sem þessi pistill fjallar um.
Lítill hópur manna sem hefur kosið að kalla sig þjóðarhreyfingu hóf stórt og mikið átak fyrir um tveimur mánuðum síðan til að kaupa auglýsingu í stórblaðinu New York Times. Ég hef áður tjáð mig um þetta svokallaða átak. Það sem er athyglisvert er að sá hópur sem myndar þessa ,,hreyfingu” spannar aðeins um 0.0016% þjóðarinnar. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi að fjögurra manna hópur myndi samtök, nema jú ef samtökin kjósa að kalla sig Þjóðarhreyfingu og ætla sér síðan í kjölfarið að hasla sér völl sem talsmenn þjóðarinnar erlendis.

En eins og áður sagði ákvað þessi hópur að hefja stórt og mikið átak fyrir auglýsingunni. Haldinn var blaðamannafundur þar sem um 0,0034% þjóðarinnar bættist við og mótmælti harðlega ákvörðun lýðræðislega kjörna fulltrúa þjóðarinnar um að styðja pólitískt innrás Bandamann í Írak.
Þarna voru s.s. komin um 0,0051% þjóðarinnar sem ætlaði sér að tala fyrir tæplega 300 þúsund manns.

Haft var eftir einum talsmanna hreyfingarinnar að um 5.000 manns hefðu styrkt átakið og nú hefði safnast rúmlega 3 milljónir króna, en það er það sem þurfti fyrir auglýsingunni. Gott og vel. Fimm þúsund manns er svo sem ágætis fjöldi.
Reyndar ekki mikið miðað við það að söfnunin tók rúmlega tvo mánuði og samkvæmt „Þjóðarhreyfingunni“ voru pottþétt 80% þjóðarinnar andsnúnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ekki förum við að kalla forsvarsmenn hreyfingarinnar lygara þannig að við skulum gefa okkur að fimm þúsund manns hafi séð á eftir fjármagni í söfnunina. Það sem er athyglisvert við það er að aðeins 1,7% þjóðarinnar styrkti þá í raun og veru átakið mikla. Hvar voru þá hin 78,3% þjóðarinnar sem voru samkv. ,,Þjóðarhreyfingunni" svona rosalega mikið á móti stuðningi ríkisstjórnarinnar við bandamenn?

Og áfram smá talnaleikur. Auglýsingin kostar 2,9 milljónir króna. Það þýðir að þeir 5.000 manns sem styrktu söfnunina hafa gefið 580 kr. á mann. Vissulega má vera að einhver afgangur sé að söfnuninni og þá hafa menn greinilega gefið meira. Ef að 5.000 manns hringdu í söfnunarsíma hreyfingarinnar hafa safnast um 5 milljónir. Gaman væri að vita ef svo er og hvort að peningurinn fari þá í raun og veru „óskiptur“ til Rauða Krossins eins og fyrr hafði verið samið um.

Nú gæti einhver sagt að aðeins tveir menn hafi tekið þessa „afdrífaríku“ ákvörðun og það telji nú ekki margar prósentur. Hins vegar má ekki gleyma því að þessir ,,tveir” menn eru lýðræðislega kosnir til að fara með þessi mál. En það er nú önnur umræða.

En staðreynd málsins er nú sú að aðeins 1,7% þjóðarinnar styrktu málefnið.
Já, hreyfingin taldi það gefa sér rétt til að tala fyrir þjóðina.
Lýðræðið eins og það leggur sig?

Opnunartími búða
Og út í annað. Dómsmálaráðherra lagði í vikunni fram frumvarp um að rýmka um opnunartíma verslana á hátíðisdögum. Hingað til hafa lög um þetta verið frekar ósanngjörn þar sem ,,stórar” bensínstöðvar hafa mátt hafa opið en ekki verslanir. Árið 2003 lokaði lögreglan 10-11 verslun með valdi þar sem tekin hafði verið ákvörðun um að hafa opið. Gott og vel, brotin voru lög um opnunartíma verslana og slíkt á auðvitað ekki að gera.
Málið er hins vegar að það eiga ekki að vera slík lög til. Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvenær landinn má versla og hvenær ekki. Vissulega er málið ekki svo einfalt þar sem líka er verið að hugsa um frítíma og hvíldarrétt starfsfólks. Sú umræða á að fullu rétt á sér og að sjálfsögðu þurfa að vera leikreglur á milli atvinnurekenda og í þessu tilfelli VR um að starfsfólk hafi rétt á hvíld.

Formaður VR var ekki par hrifinn af ákvörðun ráðherrans af því að VR hafði ekki verið haft með í ráðum. Ég tel ekki að sú viðleitni eigi rétt á sér af því að það eina sem ráðherran er að gera er að rýmka rétt verslunareigenda til að hafa opið eins og þeim þykir þurfa, m.ö.o. hann er að koma í veg fyrir það að laganna verðir þurfi að mæta og loka búðunum vegna þess að þau eru að brjóta lög um opnunartíma.Það er síðan samningsatriði milli eigenda fyrirtækjanna og starfsmanna (já, eða VR) að semja um vinnutíma og svo frv. Það væri t.a.m. ekki ósennilegt að umræddir helgidagar yrðu „löglegir“ frídagar fastráðins starfsfólks og ef að búðir vildu hafa opið yrðu þeir að kalla inn aukafólk eða að bjóða það góð laun að starfsfólkið vilji vinna að fúsum og frjálsum vilja. Um slíkt yrði samið í kjarasamningum. Það mál kemur hins vegar löggjöf Dómsmálaráðherra ekkert við og ég styð þetta frumvarp hans heilshugar.

Ganga mætti enn lengra í þessum málum en Björn Bjarnason hefur hér stigið fyrsta skrefið

Gísli Freyr Valdórsson


Fjárfesting í heilbrigðismálum

Á þessum tíma árs er eðlilegt að líta yfir farinn veg og hugsa fram í tímann.
Ein hugmynd sem viðruð hefur verið síðustu dægrin er að fjárfesta til framtíðar í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Davíð Oddson, eins og kunnugt er, hefur talað um að peningarnir sem fást fyrir síðustu stóru einkavæðingu ríkisins, hinnar löngu tímabæru sölu Landsímans, verði notaðir til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Síðan hafa ýmsir til þess kallaðir túlkað orð hans, og þykir líklegast að hér sé átt við að nýta tilfærslu Hringbrautar til að byggja yfir Landspítala-Háskólasjúkrahús á lóð hans við fyrrnefnda götu. Jafnframt, jafnvel, að leggja niður starfssemina annars staðar, þar með talið í gamla Borgarspítalanum í Fossvogi, sem myndi þá líklega verða að einhvers konar öldrunarheimili.

Það verður óneitanlega sjónarsviptir af Borgarspítalanum (eða Landspítala-Fossvogi í dag), en það tap sem hvarf hans var þjóðinni er þegar orðið, þegar endanlega voru sameinuð í eitt batterí annars vegar þjónustusalinn, spítalinn, sem í tilviki Borgarspítalans var í eigu Borgarinnar og hins vegar þjónustukaupandinn, ríkið og þar áður sjúkrasamlögin, sem voru í umsjón sveitarfélaganna, svo í því tilfelli var borgin reyndar einnig báðum megin við borðið.

Aukið álag á velferðarkerfi þjóða
Um allan hinn vestræna heim er álagið á félags- og heilbrigðiskerfi þjóða að aukast vegna minnkandi fæðingartíðni og aukinnar gránunar samfélagsins, eins og það er kallað, þ.e. að hlutfall eldra fólks í samfélaginu eykst. Nýlega var sýndur listi í DV yfir 10 elstu þjóðir í Evrópu, sem betur fer er Ísland ekki enn komið í það ástand, svo enn er tími til að grípa í taumana. Þar var Mónakó allra þjóða elst, með um 22 prósent þjóðarinnar sem eldri borgara, en síðan voru flestar hinar þjóðirnar, hvort tveggja Vesturevrópskar þjóðir ýmsar, svo og í austrinu, þar má nefna Búlgaría, með um 17.5 prósent þjóðarinnar sem eldri borgara.

Víða er fæðingartíðnin orðin mjög lág, jafnvel í hefðbundnum fjölskyldusamfélögum eins og Ítalíu og Spáni, þannig að þessar þjóðir eru langt frá því að endurnýja sig, sem leiðir auðvitað til hlutfallslegrar fjölgunar gamals fólks. Ástandið hérlendis, hvar fjölskyldan hefur verið sterk, þó blikur séu á lofti í þeim efnum líkt og biskupinn, forsetinn og forsætisráðherra hafa bent á, hefur ekki verið mjög slæmt. En nú hefur fæðingartíðnin minnkað niður fyrir 2.1, sem er nauðsynleg tala svo þjóðin endurnýji sig og farið niður í 1.9 barn á konu.

Þetta er ekki einungis slæmt fyrir samfélag okkar, sem sárlega þarf á fjölgun að halda, verandi smáþjóð í stóru landi, heldur er þetta líka slæmt beint fyrir afkomu fólks í landinu til lengri tíma litið. Áhrifin eru kannski ekki jafn bein og á meginlandi Evrópu og hjá þeim sem treyst hafa á bandaríska almannatryggingakerfið þar sem við höfum borið gæfu til að byggja upp öflugt lífeyrissjóðakerfi sem byggir á uppsöfnun réttinda og peninga, sem og að við erum að byrja að byggja upp séreignalífeyrissjóði, hvort tveggja byggir á því að vinnandi fólk á Íslandi leggur fyrir til mögru árana þegar vinnugetan skerðist.

Slíku er ekki að dreifa víðast hvar þar sem þeir sem treysta á velferðarkerfi síns lands fá frá þeim sem eru vinnandi og eru að borga inn í kerfið í dag, það er gegnumstreymiskerfi þar sem engir peningar safnast upp, heldur eru þeir borgaðir út jafnóðum. Þetta leiðir augljóslega til þess vanda að eftir því sem fleiri eru þiggjendur í kerfinu á móti þeim sem borga inn í kerfið verður álagið á þá sem borga inn meira, og í raun jafnvel það mikið að kerfið hefur ekki efni á að borga jafn mikið og þeir ættu með réttu að fá miðað við hve mikið þeir hafa borgað gegnum árin, og miðað við hvað þeir sem þáðu úr kerfinu fengu á meðan hinir borguðu inn í það.

Þetta er t.d. vandamál í Bandaríkjunum þar sem um 40 vinnandi manns voru um hvern einn sem var gamall eða veikur og lifði á kerfinu (social security) þegar Rosevelt kom því á en er núna komið niður í um 3 á hvern einn og stefnir fljótlega í 2 og síðan er ljóst að fljótlega nær kerfið ekki lengur að standa undir sér. Svipaður vandi blasir við víða um heim og er Ísland ekki undanskilið, þó lífeyrismálin séu í betra horfi hér en víðast annars staðar, vegna þess að enn eru inni í almannatryggingakerfinu allur heilbrigiðskostnaður sem og stór hluti öldrunarþjónustu og annar slíkur kostnaður.

Ágætis hugmynd er að nota peningana sem koma úr sölu Landsímans til að komast fyrir þau vandamál sem kerfið stefnir í, þó varla sé það endanleg lausn á þeim vandræðum að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Brýnt er að stöðva þá þróun að sífellt meira af umsvifum og tekjum ríkissjóðs fari í heilbrigðiskerfið og ýmsan bráðavanda sem sífellt virðist vera að koma upp innan þess. Sérstaklega þegar haft er í huga að eftir því sem þjóðin eldist verður álagið á heilbrigðiskerfið, og þá jafnframt ríkissjóð þeim mun meira.

Missir af íslenska sjúkrasamlagakerfinu
Það er óneitanlega missir af gamla íslenska sjúkrasamlagakerfinu og hefðu menn mátt vera íhaldssamari þegar það var lagt niður og frekar bætt ókosti þess, heldur en kasta því algerlega, sérstaklega þar sem núverandi fyrirkomulag ber enga framtíðarlausn í sér.
Enn þarf vinnandi fólk að borga fyrir þá sem eru sjúkir og gamlir eða á annan hátt þyggjendur í kerfinu af eigin launum gegnum skattana og ekki er ríkið að spara þetta
fé launamannsins til notkunar þegar hann þarf á því að halda. Það hafði jú ýmsa ókosti,
svo sem allt of marga og litla sjóði, en þeir hefðu eflaust verið sameinaðir eins og sveitarfélögin sem um þá sáu og þannig orðið færri og sterkari líkt og þau. Einnig var kerfið í raun gegnumstreymiskerfi, þótt víða hafa einhverjir sjóðir eflaust safnast upp,
en annars staðar hugsanlega skuldir myndast.

Helstu kostirnir voru aðskilnaðurinn milli kaupenda og seljenda þjónustunnar, sem og
að áður fyrr meðan kerfið var við lýði var sérstakt sjúkrasamlagsgjald (sjúkrasjóðsgjald) tekið af hverjum manni, og gat þá sérhver launamaður séð á launaseðli sínum hve mikið af sköttum sínum fóru í heilbrigðiskerfið. Nú er það aðhald sem kerfið hafði óneitanlega af þessu horfið inn í botnlaust hyldýpi ríkiskerfisins með því að nú fær heilbrigðiskerfið allt sitt fé úr ríkissjóði. Þessu þarf að breyta, og væri það góð fjárfesting að nota söluhagnaðinn af Landsímanum til að brúa bilið frá núverandi kerfi yfir í uppsöfnunarkerfi með einhvers konar sameignar- og eða séreignasjúkrasjóðssparnaðarfyrirkomulagi. Einn helsti missir af gamla kerfinu fyrir íhaldsmanninn er að auðveldara hefði verið að komast út úr því yfir í einhvers konar tryggingakerfi enda fól það í sér meiri ábyrgð einstaklingsins, hægt hefði verið að leyfa launamanninum að borga frekar tryggingafélagi fyrir alhliða sjúkratryggingu í stað þess að borga í sjúkrasjóð.

Umbætur á almannatryggingakerfum
Bandaríkjamenn eru að fara út í erfiðar aðgerðir til að komast fyrir þann vanda sem kerfi þeirra stefnir í, með umbótum á sjúkrasjóðs- og almannatryggingakerfi sínu sem áhugavert verður að fylgjast með hvernig til tekst, því þótt við séum ekki lengur með sjúkrasjóði, munum við eiga við sama vanda að stríða, hann er bara ekki jafn sýnilegur og því í raun mun hættulegri.

Einn helsti vandinn sem við þeim blasir er að allir þeir umframpeningar sem hingað til hafa komið inn í kerfið hafa að mestu verið notaðir til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum, með öðrum orðum, ríkinu hefur verið lánað þetta fé. Þannig að skuldbindingar ríkisins vegna kerfisins eru orðnar gríðarlegar og þannig er það í raun eins og okkar kerfi er í dag, allt falið undir altumlykjandi huliðshjúp ríkissjóðs og ósundurliðaðrar skattheimtu hans.

Við þurfum að fara að hugsa til framtíðar í þessum málum. Fæstum Íslendingum í yngri kantinum þætti ásættanlegt að þurfa að borga alla ævi sína skatta og gjöld en horfa svo fram á að þegar þeir verða veikir, sem er þeim mun algengara sem menn eru eldri, eða þurfa á ýmissi öldrunarþjónustu að halda að þá verði ekki til nægir peningar til að veita þeim þessa þjónustu. Nú þegar er farið að skera niður hérlendis hvaða þjónusta er veitt án endurgjalds og hvað þarf að borga sértaklega fyrir á öldrunarheimilum til dæmis, sífellt þarf að borga fyrir fleiri hluti beint.

Það þarf að færa kerfið úr því að vera gegnumstreymiskerfi, þar sem vinnandi fólk dagsins í dag borgar fyrir þá sem eru veikir í dag, í uppsöfnunarkerfi ekki ósvipað lífeyrissjóðunum, helst meira í ætt við séreignalífeyrissparnaðinn a.m.k. að einhverju leyti alla vega, líkt og hugmyndir eru um vestanhafs. Þannig mætti komast fyrir þann vanda að með því að þjóðin eldist meira hlutfallslega, verði kerfið meiri byrði á þeim fáu sem verða vinnandi miðað við þá sem verða á lífeyri eða á annan hátt eru þiggjendur í kerfinu. Slíkt uppsöfnunarkerfi myndi auka nauðsynlegan sparnað í þjóðfélaginu en margir hagfræðingar hafa hvatt til aukins sparnaðar hérlendis.

Auðvitað yrði myndun slíks kerfis flókin þó mögulega væri hægt að fá lífeyrissjóðina inn í það og þyrfti ýmis tæknileg útfærsla að koma til svo hægt sé að tryggja að allir hefðu sem víðtækust réttindi til heilbrigðisþjónustu, hvort sem þeir verða veikir snemma eða seint á lífsleiðinni sem og að ríkið þyrfti eflaust að hlaupa undir bagga með þeim sem allra verst hafa það eða samfélagið á annan hátt. Ríkið á einungis að sjá um ákveðið grunnöryggisnet, að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda, ekki að gera almenning að ölmusuþegum í gegnum ríkisrekin heilbrigðiskerfi.

Aukin ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu kemur þjóðfélaginu í heild til góðs
Nauðsynlegt er að auka ábyrgð fólks á eigin heilsu, við vitum sífellt betur nú til dags hvað það er sem við þurfum að gera til að tryggja langlífi og góða heilsu og auðvitað er ekki nema sanngjarnt að sá sem stundar líkamsrækt af kappi, borðar rétt og á annan hátt fjárfestir miklum tíma, vinnu og orku í að halda líkama sínum við, uppskeri af því með minni heilbrigðiskostnað ásamt auðvitað lengra og betra lífi. En umfram allt þarf að aðskilja milli kaupanda þjónustunnar, hvort sem það er einstaklingurinn beint, eða hann í gegnum ríkið eða einhvers konar trygginga eða sjóðafyrirkomulag, og söluaðila, hvort sem þeir eru vegna stærðarhagkvæmni sameinaðir í einn stóran Landspítala á einum stað, eður ei, og nýta þannig kosti einkarekstursins í að veita þjónustuna. Væri ein leið til þess að bjóða út rekstur nýs hátæknisjúkrahúss sem nú virðist á teikniborðinu.

Höskuldur Marselíusarson


Schengen hefur dregið úr landamæraöryggi Íslands

Hefur Schengen-samstarfið þýtt meira öryggi fyrir Ísland eða hefur það dregið úr öryggi landsins? Sem kunnugt er gengur samstarfið út á að landamæraeftirlit á svokölluðum innri landamærum samstarfsins er fellt niður en eftirlit á ytri landamærum þess aukið að sama skapi. Þannig þurfa Íslendingar, á ferð um þau lönd sem aðild eiga að Schengen, ekki að framvísa vegabréfum sínum en þurfa eftir sem áður að hafa þau ætíð meðferðis ef eftir þeim verður óskað af viðkomandi yfirvöldum. Á móti kemur að fólk, sem kemur til Íslands frá öðrum aðildarríkjum samtarfsins, þarf ekki heldur að framvísa nokkrum persónuskilríkjum við komuna til landsins og getur í raun allajafna gengið beint inn í landið án nokkurra afskipta íslenzkra yfirvalda.

Veikari landamæragæzla
Ýmsir hafa orðið til að benda á þá staðreynd að við höfum glatað að miklu leyti því öryggi sem felst í náttúrulegum landamærum okkar með aðildinni að Schengen. Þannig má nefna að þann 18. október 2002 sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, í ræðu að ekki væri um það deilt að landamæraeftirlit á Íslandi hefði veikst við aðildina að Schengen. Ennfremur sagði hann að þörfin fyrir samstarf eins og Schengen kynni að horfa nokkuð öðruvísi við eyríkjum eins og Íslandi, en löndum á meginlandi Evrópu, „sem af landfræðilegum ástæðum hafi alla burði til að halda uppi öflugu landamæraeftirliti og ná að því leyti sama eða jafnvel mun betri árangri en að er stefnt með Schengen-samstarfinu. Niðurstaðan í Bretlandi og á Írlandi varð sú, að þeir myndu áfram gæta sjálfir eigin landamæra, en niðurstaðan hér varð sem kunnugt er [...] sú að flytja eftirlit með landamærum okkar frá Keflavík alla leið til Mílanó, Madrid og Mykonos, svo dæmi séu tekin, svo traustvekjandi sem það kann annars að þykja, og leggja í staðinn traust okkar og trúnað á sameiginlega gagnabanka Schengen-samstarfsins.“

Í þessu sambandi má rifja upp til hvaða aðgerða var gripið vegna vorfundar Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem haldinn var hér á landi árið 2002. Þá var tekin sú ákvörðun að taka upp vegabréfaeftirlit gagnvart fólki sem kom frá öðrum löndum á Schengen-svæðinu, í því skyni að tryggja betur öryggi fundarins, og var raunar gripið til sama ráðs í tilefni af heimsókn forseta Kína til landsins sama ár. Heimild er fyrir slíkri tímabundinni upptöku vegabréfaeftirlits í samningnum um Schengen og hafa önnur aðildarríki Schengen gripið til þessara aðgerða í hliðstæðum tilfellum, s.s. vegna leiðtogafundar Evrópusambandsins um innflytjendamál á Spáni 2002 og í Danmörku í tengslum við fund æðstu stjórnenda ríkja Evrópusambandsins í desember sama ár.

Mansal gert auðveldara...
Þó yfirlýst markmið Schengen-samstarfsins sé m.a. að efla eftirlit með ytri landamærum þess hefur það þó gengið misvel í framkvæmd. Eftir að Ísland gekk í Schengen sjáum við Íslendingar um landamæraeftirlit fyrir aðrar aðildarþjóðir Schengen og þær fyrir okkur, þar á meðal ýmis ríki í austan- og sunnarverðri Evrópu þar sem landamæraeftirlit er ósjaldan mjög slakt, þá ekki sízt í nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins sem urðu formlega aðilar að sambandinu þann 1. maí sl. Fólk sem sleppur inn fyrir landamæri Schengen getur allajafna komizt óáreitt til Íslands án þess að íslenzk yfirvöld hafi í raun nokkuð um það að segja, en árlega er talið að hundruðir þúsundir manna sleppi ólöglega inn fyrir landamæri Schengen og oftar en ekki fyrir tilstilli glæpasamtaka sem sérhæfa sig í slíku smygli gegn háum greiðslum.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í apríl sl. að þýzka lögreglan hefði varað við því að stækkun Evrópusambandsins til austurs myndi auðvelda glæpamönnum að smygla fíkniefnum og ólöglegum innflytjendum til Vestur-Evrópu. Eftirlit á austurlandamærum Evrópusambandsins yrði ekki eins öflugt eftir stækkunina og áður. M.a. væri hætta á því að landamæraverðir með lág laun freistuðust til að þiggja mútur. Síðastliðið haust var síðan grein frá því í norska blaðinu Aftenposten að Europol varaði við vaxandi umsvifum alþjóðlegrar glæpastarfsemi innan sambandsins eftir stækkun þess til austurs. Stækkunin hefði m.a. haft það í för með sér að ýmsar mafíur í Austur-Evrópu, sem áður höfðu aðeins takmörkuð umsvif í Vestur-Evrópu, hefðu fært sig mjög upp á skaftið í þeim efnum. Einkum væri þar um að ræða fíkniefnasmygl, mansal og vændi en einnig væri stundum um að ræða tengsl við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi.

Í þessu sambandi má ennfremur nefna að í Fréttablaðinu 26. marz á síðasta ári var greint frá því að Útlendingastofnun teldi sig hafa ástæðu til að ætla að nokkur hundruð ólöglegra innflytjenda væru búsett hér á landi. Telja verður sennilegt að tengsl séu á milli þess og aðildar Íslands að Schengen og er full ástæða til að kanna þau mál frekar.

...og sömuleiðis fíkniefnasmygl
Eins og fram kemur hér að ofan er sömu sögu að segja um smygl á fíkniefnum til Vestur-Evrópu að sögn þýzku lögreglunnar. Stækkun Evrópusambandsins hefur gert aðilum í þeim bransa auðveldara með að stunda iðju sína. Þetta snertir okkur Íslendinga með beinum hætti vegna aðildar okkar að Schengen, en smygl á fíkniefnum til Íslands er einmitt einkum stundað frá Evrópu, þá einkum frá Danmörku og Hollandi. Þetta kemur heim og sama við umsögn embættis Lögreglustjórans í Reykjavík um Schengen-samstarfið, en embættið var beðið um að gefa álit sitt á samstarfinu af alsherjarnefnd Alþingis þegar aðildin var þar til skoðunar á sínum tíma:

„Með því [Schengen-samstarfinu] verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víða slakt innan svæðisins og sums staðar eru uppi allt önnur viðhorf til fikniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í sex af aðildarríkjum Schengen hafa t.d. verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna „til eigin nota". Reynslan sýnir að takmörkuð landamæravarsla hefur slæm áhrif t.d. í Svíþjóð og Danmörku, að mati hlutaðeigandi aðila. Ljóst er að stór hluti þeirra fíkniefna, sem flutt eru til landsins, koma frá Evrópu. Mest af því sem lögreglan leggur hald á, kemur með farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með takmörkuðu eftirliti þar og annars staðar minnka að öllu óbreyttu möguleikar tollgæslu til eftirlits með innflutningi fíkniefna.“

Hvers vegna var Schengen samþykkt?
Að öllu þessu sögðu er von að menn spyrji sig hvers vegna aðildin að Schengen hafi verið samþykkt. Í áðurnefndri ræðu frá því í október 2002 svaraði Davíð Oddsson þessari spurningu: „Það er út af fyrir sig ekkert launungarmál að ákvörðun um aðild að Schengen-samstarfinu var eingöngu tekin af einni pólitískri ástæðu, þ.e. til að viðhalda þeirri skipan, sem komið var á með norræna vegabréfasambandinu fyrir meira en 40 árum.” Þarna á Davíð við vegabréfasamstarf Íslands við hin Norðurlöndin sem hefði að öðrum kosti fallið úr gildi þar sem þau voru á leið í Schengen. En það er von að menn spyrji sig að því hversu þungt þessi rök hafi vegið í ljósi allra þeirra ókosta sem aðildinni ljóslega fylgja.

Fleiri ókosti Schengen-samstarfsins mætti nefna til sögunnar en hægt er í stuttri grein. En í ljósi framangreinds hljóta flestir a.m.k. að setja stórt spurningamerki við það hvort það sé virkilega okkur Íslendingum í hag að vera aðilar að Schengen. Við höfum náttúruleg landamæri, eins og Davíð Oddsson benti réttilega á í ræðu sinni, og ættum því hæglega að geta haldið uppi öflugara landamæraeftirliti en stefnt er að með Schengen. Bretar eru í hliðstæðri stöðu og við í þessum efnum og ákváðu af þeirri ástæðu að standa utan samstarfsins þó þeir komi að því engu að síður upp að vissu marki. Ljóst er að aðildin að Schengen hefur tvímælalaust dregið úr landamæraöryggi Íslands eins kom fram í máli Davíðs og því full ástæða til að endurskoða ákvörðunina um aðild að samstarfinu enda vægast sagt erfitt að sjá hvernig kostir hennar geti réttlætt gallana.

Hjörtur J. Guðmundsson


Skattar að lækka: Gott mál

Rétt er að minna á það sem ríkistjórnin er að gera í skattamálum um þessar mundir. Það þarf að auglýsa það vel og vandlega. Stefna Sjálfstæðisflokksins er að skila sér, eins og við er að búast.

Vinstri-grænir hafa sagt að þessar skattalækkanir gagnist ekki réttu fólki. Er það?

  1. Verið er að afnema eignaskatt. Stór hópur eignaskattsgreiðanda er fólk sem komið er yfir sjötugt, 24% af tekjum ríkisins af eignarskattinum kemur frá þessu fólki. Meirihluti þeirra er með minna 1,5 milljónir í árstekjur. Þetta kemur öldruðum sem sagt vel. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt verið gagnrýndur fyrir að hugsa ekki nægilega vel um aldraða...
  2. Skattleysismörk munu hækka um 20%.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hverjum það hjálpar mest.
  3. Barnabætur hækka um 2400 milljónir.
    Það hljóta allir að sjá að það hjálpar fjölskyldufólki með lágar og millitekjur.

Ef að Vinstri-grænir telja þetta fólk ekki ,,rétt fólk”, þá er ég illa svikinn.

En skattalækkanirnar hafa verið gagnrýndar á fleiri forsendum.
Sumir segja að þetta sé allt eitt allsherjar svindl, og tala um að nýir duldir skattar éti þetta allt saman upp – og vísa til hækkunar á komugjöldum á sjúkrahús, svo eitthvað sé nefnt.
Ég vil fremur borga nokkrum hundraðköllum meira í komugjöld og bifreiðargjöld, og borga lægri skatta í staðinn, enda eru umrædd gjöld óravegu frá því að éta upp allar skattalækkanirnar. Hófleg komugjöld gefa mönnum smá kostnaðarvitund, sérstaklega þegar kostnaður ríkisins kemur líka fram. Fólk þarf að sjá að allt þetta sem menn geta fengið ,,ókeypis”, er ekkert ókeypis, heldur rosalega dýrt. Þeir sem borga eru allir vinnandi menn, líka þú. Að sjálfsögðu á að koma til móts við t.a.m. öryrkja eða þá sem ekki geta borgað eins og aðrir.

Það er líka frábært að hinn ,,sérstaki tekjuskattur” verði aflagður, og að tekjuskatturinn lækki almennt. Þetta er hvetjandi. Nú er meiri hagur í því að gera sig að verðmætara vinnuafli með því að mennta sig eða taka að sér erfiðari verkefni í vinnu, þar sem að skattarnir munu ekki éta eins mikið upp af ávinningnum og áður. Þetta mun auka verðmætasköpun.
Skattalækkanir skapa verðmæti

Málflutningur Samfylkingarinnar
Það er hollt og lærdómsríkt að skoða aðeins málflutning Samfylkingarinnar í þessu máli.
Þeir vildu lækka skatta fyrir kosningar, en nú ekki. Þeir vildu ekki lækka matarskatt fyrir kosningar, en nú vilja þeir það. Þeir eru sjaldan samkvæmir sjálfum sér, og vita yfirleitt ekki hvað þeir vilja. Þeir segja ávallt það sem þeir halda að menn vilji heyra hverju sinni, eða það sem kemur sér verst fyrir andstæðinga þeirra. Þeir eru stefnulaus flokkur.
Ef að þeir stjórnuðu hér væri hér stefnulaus stjórn.

Það ætti að segja meira en mörg orð, að á meðan ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins lækkar og afnemur skatta, að þá hækkar R-listinn, undir forystu félagshyggjuaflanna útsvarið og önnur gjöld. Þetta er munurinn á hægri stefnu og vinstri stefnu í framkvæmd.

Sindri Guðjónsson


Ögmundur og Palestína, kosningar í Palestínu

Ögmundur Jónasson, þingmaður hefur undanfarna viku verið á ferð í Palestínu ásamt öðrum verkalýðsleiðtoga, Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambandsins.
Já, Ögmundur er er ekki bara þingmaður heldur líka verkalýðsforingi. Hann er formaður BSRB og titlar sig oft sem slíkan. Ferð þessi er farin í boði palestínskra verkalýðshreyfinga fyrir milligöngu félagsins Ísland – Palestína. (ÍP)

Það er svo sem ekki í frásögu færandi þó að þeir vinirnir, Ögmundur og Eiríkur fari saman til útlanda. Það sem hins vegar er athugunarvert er að á sama tíma og Ögmundur mælir götur Palestínu notar hann vefsíðu sína til að bera út fordóma og áróður gegn Ísraelsmönnum.

Auðvitað ríkir hér á landi málfrelsi og menn hafa rétt til að hafa skoðanir. Það er hins vegar spurning hvernig menn afla sér upplýsinga og koma þeim á framfæri. Að fara í “guided tour” um Palestínu í fylgd palestínumanna er eins og að hafa farið árið 1958 með áróðursmannni Stalínstjórnarinnar um Sovétríkin. Að sjálfsögðu fær maður bara aðra hlið á málinu. Það að Ögmundur noti vefsíðu sína til tjá sig er heldur ekki ámælisvert en hins vegar hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til þingmanna að þeir skoði málin rökrétt og skoði báðar hliðar málsins áður en þeir bera út áróður og alls kyns vitleysu. Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum, en Ögmundi virðist ekki finnast mikilvægt að skoða þær báðar. Það eru einkennileg vinnubrögð fyrrverandi blaðamanns.

Um skrif Ögmundar
Ekki ætla ég hér að taka öll atriði í skrifum Ögmundar og setja þau undir smásjá.
Hér á eftir eru þó nokkur dæmi sem gefa hugmyndir af skrifum hans annars vegar og raunveruleikanum hins vegar: (Það sem er tekið af vefsíðu Ögmundar er skástrikað)

„Það er óhuggulegt að verða vitni að því þegar heilaþvegið fólk, iðulega óharðnaðir unglingar í hernum, framkvæmir illvirki eins og Ísraelar óumdeilanlega fremja á Palestínumönnum.”

Vissulega er það óhuggulegt ef það er rétt sem Ögmundur talar hér um. Hins vegar virðist Ögmundur aðeins horfa á þetta mál frá annarri hliðinni. Eru ungir palastínskir drengir (og stúlkur) sem sprengja sig í loft upp í strætisvögnum og kaffihúsum kannski ekki heilaþvegin? Tekið skal skýrt fram að hér er ég ekki að segja að allt sem Ísraelsmenn hafa aðhafst á svæðunum sé afsakanlegt eða rétt. Langt því frá. En að þjálfa upp hryðjuverkamenn er ekkert annað en heilaþvottur.

„Á kvöldgöngu fyrir svefninn sáum við þrjá bryndreka rétt hjá hótelinu. Inn um rúðurnar mátti greina ísraelska hemenn rýna í vegakort. Þeir voru greinilega að ákveða hvar ætti að bera niður í nótt, hvar skyldi tekið hús á mönnum – svona til að halda hinni hernumdu þjóð við efnið; til að minna á hver stjórnar og hver hlýðir, hver hefur valdið og hverjum ber að sýna undirgefni.”

Veit Ögmundur Jónasson s.s. út á hvað hernaðartækni Ísraelsmanna snýst eða gaf hann sér bara það sem víst að þeir væru þarna að brugga eitthvað slæmt. Hvað er þetta annað en hlutdrægur áróður?

Ögmundur talar um ,,áróður zíonista” og líkir Ísraelum við Nasista. (í grein 8.1.2005) Maður hefði haldið að þingmenn komnir á besta aldur væru lausir við kynþáttafordóma. Hvað ætli myndi gerast ef að Björn Bjarnason (sem hér er tekinn sem dæmi af því að hann er með öfluga heimasíðu sem oft hefur vakið athygli) myndi fara í ferðalag til Ísraels skrifa þaðan að hann hefði séð unga palestínska drengi og þeir hafi greinilega verið að ákveða hvaða strætó þeir gætu nú sprengt og myndi í nokkra daga skrifa um hvað Palestínumenn væru vondir og illa innrættir? Ég held að íslenskir fjölmiðlar létu nú eitthvað í sér heyra. Hann yrði sakaður um fórdóma, kynþáttahatur „zionisma” og svo frv.

Ögmundur kallar varnarmúr Ísraelsmanna „kynþáttamúrinn illa.”
Hann tekur hins vegar ekki fram að múrinn var byggður af nauðsyn eftir stanslausar sjálfsmorðsárásir palenstínskra ungmenna í Ísrael. Það er auðvitað ekki eðlilegt að almenningur í Ísrael geti ekki farið í strætó eða á kaffihús án þess að eiga það á hættu að vera sprengdir í loft upp með naglaprengjum og fleiru. Ef að Ögmundur sér sérstaka ástæðu til þess að fordæma þennan múr þarf hann einnig að fordæma sjálfsmorðsárásir palestínumanna. Það er ekki bara hægt að skoða aðra hliðina á málinu, eins og hann gerir. Hins vegar gefur Ögmundur sér það að þegar nokkrir ísraelskir hermenn skoða kort séu þeir með eyðileggingarstarfsemi í huga. Athyglisvert.
Einnig er rétt að nefna að eftir að viðkomandi varnarmúr var byggður hefur sjálfsmorðsárásum stórlega fækkað í Ísrael. Skiptir það Ögmund engu máli?

Kosningar í Palestínu
Í gær, sunnudag voru haldnar frjálsar kosningar í Palestínu.
Eftir að guðfaðir hryðjuverkanna, Yasser Arafat, lést nýlega hefur heimsbyggðin fylgst með athygli með gangi mála hjá palanstínsku heimastjórninni. Leiðtogar úti um allan heim horfa í fyrsta skipti í mörg ár fram á að friðarviðræður geti hafist af einhverju viti. Sharon hefur sýnt vilja til að draga til baka landnemabyggðir gyðinga og hefur í raun síðustu vikur og mánuði lagt sitt pólitíska líf undir til að sjá frið á milli þjóðanna. Nú liggur ljóst fyrir að Abbas bar sigur úr bítum og verður forseti heimastjórnar Palestínu. Hann þykir ekki spilltur eins og forveri sinn og er líklegur til að stíga skref í átt til friðar.
Sitt sýnist hverjum um Abbas. Sumir hafa trú á því að hann geti komið friðarviðræðum á eitthvert skrið. En eitt skulum við athuga. Þegar hann var forsætisráðherra komust friðarviðræður á eitt besta skrið sem þær hafa komist á í mörg ár. Hann neyddist hins vegar til að segja af sér af því að hann gat ekki unnið undir Arafat.
Ekki minnist Ögmundur á það. Skiptir kannski heldur ekki máli?

Eins og áður sagði er fyrrverandi forseti heimastjórnarinnar, Arafat, látinn.
Aftur og aftur tókst honum að koma í veg fyrir frið í sínu eigin landi. Bill Clinton fyrrv. Bandaríkjaforseti reyndi að koma á friði með Arafat og Barak (fyrrv. forsætisráðh. Ísraels) sumarið 2000. Þegar allt virtist vera að ganga upp hafnaði Arafat samningunum og allt fór í háaloft. Fræg eru orð Clintons þegar hann kvaddi Arafat. Arafat þakkaði honum fyrir að reyna en Clinton opnaði hurðina fyrir hann og sagði,
“I´m a faliure and you´ve maid me one. This is your fault.”

Arafat kom fram í vestrænum fjölmiðlum og talaði um að hann hefði viljað frið, síðan fór hann til Palestínu og kallaði ,,Jihad, Jihad, Jihad.” Engum manni í sögunni hefur tekist að vera í jafn mikilli mótsögn við sjálfan sig eins og Yasser Arafat.

Fleiri verða orð mín um þetta mál ekki nú. Það er vonandi að góðir menn taki nú við stjórninni í Palestínu og útrými hryðjuverkasamtökum eins og Hamas. Þá fyrst er hægt að horfa í átt til friðar.
Eins og staðan er í dag er líklegast að Abbas takist að stíga skref í átt til friðar.

Að lokum
Til að gæta allrar sanngirni bendi ég fólki að lesa sjálft pistla Ögmundar á heimasíðu hans. Þeir eru skrifaðir dagana 4. – 10. janúar 2005. Ögmundur á vissulega hrós skilið fyrir að halda úti lifandi heimasíðu þar sem kjósendur hafa aðgang að honum. Það er mikil vinna að halda úti heimasíðu. Rétt er að taka fram að grein þessi er ekki skrifuð gegn Ögmundi eða árás á persónu hans sem slíka. Að sama skapi er það ekki tilgangur minn að réttlæta allar þær aðgerðir sem Ísraelar hafa framkvæmt á þessu svæði. Hins vegar er einhliða skoðun Ögmundar á þessum málum gagnrýnisverð.

Einnig tek ég fram að þó að ég tali nokkrum sinnum í greininni um ungt palestínufólk sem framið hefur sjálfsmorðsárásir á ég að sjálfsögðu ekki við alla Palestínumenn. Það þarf oftast mjög fáa til að koma slæmu orði á alla. Í báðum þessum löndum er fólk sem þráir ekkert annað en frið, langþráðan frið. Að sama skapi er í báðum löndum fólk sem engan áhuga hefur á friði.

Gísli Freyr Valdórsson

Einnig bendi ég þeim sem áhuga hafa á þessum málum að lesa eftirfarandi greinar:
Honestreporting.com er mjög góð síða sem fer yfir helstu fréttir sem berast frá Ísrael og Palestínu. Þar er einnig að finna „minningargrein” um Yasser Arafat og tekur fyrir í grófum dráttum bæði ævi og hryðjuverkaferil hans.
Friðjón R. Friðjónsso skrifaði mjög góða grein á sus.is um homma í Palestínu.
Hér er gott dæmi um lélega blaðamennsku og „tilbúna” mynd frá svæðinu.
Sindri Guðjónsson hefur áður skrifað um þessi mál á þessu vefriti.


Ávöxtur Sósíalismanns

Í þessum pistli ætla ég að ræða um Kúbu, og skoða hvaða árangri menn hafa náð þar með sósíalískri efnahagsstjórn sinni. Sósíalistar, sem vilja að ríkið eigi og reki flest eða öll fyrirtæki, sem telja friðhelgi eignaréttarins, arðbær og vel rekin stórfyrirtæki í einkaeign og sjálfsákvörðunrrétt einstaklingsins hættulegan fyrir hagsmuni heildarinnar, ættu að líta til Kúbu, taka vel eftir, og snúa baki við hugmyndafræði sinni, sem er að öllu leyti órökrétt og hefur reynst algerlega ömurlega í framkvæmd.
Ég ætla að byrja á því að lýsa eymd hins venjulega Kúbverja, og að því loknu ræða orsakir eymdarinnar, sem er hin sósíalíska efnahagsstjórn.

Heilbrigðiskerfið á Kúbu er einn stór brandari. Hillur í apótekum þar sem heimamenn mega versla með pesetum eru tómar, hér um bil engin lyf fást. Í sérstökum apótekum fyrir erlenda ferðamenn svigna hillurnar undan úrvali. Þar má aðeins versla fyrir erlenda mynt, pesetinn er einskins nýtur þar. Heimamenn betla á götum úti til að fá lyf. Þeir biðja útlendinga, eða þá sem hafa fengið vinnu í ferðamannaiðnaði ríkisins. Kúba er fræg fyrir að vera með ókeypis heilbrigðiskerfi fyrir alla, nóg er af læknum, og heimsóknir þeirra eru á kostnað ríkisins. Það hjálpar hins vegar lítið þegar ekki er hægt að gefa mönnum sýklalyf, insúlín, hjartalyf, o.s.frv. Oft hafa læknar engin önnur úrræði en að aflima menn, eða segja mönnum hvernig lyf þeir eigi að reyna að betla af ferðamönnum. Kúbverskur almenningur getur ekki einu sinni útvegað sér verkjalyf.

Áður en Castro tók við völdum var Kúba með eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi samkvæmt World Health Organisation, með hátt hlutfall af læknum á hvern íbúa, hærra en t.d. í Englandi. Ungbarnadauði var t.a.m. lægri á Kúbu en í Frakklandi og Ítalíu, og Kúbverjar borðuðu þriðja mest allra þjóða Rómönsku Ameríku. Í dag borða Kúbverjar minnst allra þjóða Rómönsku Ameríku, en þeir eru enn með hátt hlutfall lækna.

Ég las nýlega grein þar sem sagt var frá Miguel nokkrum, sem er háskólamenntaður, talar þrjú tungumál, og starfar sem örygisvörður í vindlaverksmiðju. Hann langar að vinna í ferðamannaiðnaðinum, en mjög fáir komast þar að. Hann fær greiddar 225 peseta á mánuði, sem samsvarar um 10 dollurum. Þetta eru dæmigerð Kúbversk mánaðarlaun.

Kúbverjar mega aðeins versla mat fyrir peseta, í búðum sem ekki eru ætlaðar ferðamönnum. Í þessum búðum er aldrei hægt að kaupa grænmeti, ávexti, mjólk eða ost. Ekki er hægt að treysta því að vörur eins og sápa, tannkrem, salt, eða eldspýtur séu til, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta, og hvaðeina annað geta ferðamenn keypt í sérstökum verslunum. Þetta má að sjálfsögðu einnig kaupa á hótelum, en Kúbumenn mega ekki koma inn fyrir andyrið á þeim.

Almenningur á Kúbu býr í hverfum sem líta ver út en verstu hverfi Evrópu og Bandaríkjanna. Centro Habana, eitt fjölmenasta íbúahverfi Kúbu, hefur t.d. verið líkt við Dresden eins og hún leit út eftir að hún var sprengd.

En hversvegna er þetta svona ömurlegt?
Róttækir vinstrimenn vilja meina að það hljóti að vera eithvað annað en hin góða og göfuga hugmyndafræði Marx sem valdi þessum hörmungum. Ýmsir vinstrimenn um heim allan afsaka ástandið á Kúbu með gamalli tuggu: ,,Þetta er allt Bandaríkjamönnum að kenna.” – og vísa þá til viðskiptabanns Bandaríkjamanna á Kúbu. Það er hinsvegar í raun fáránlegt að skella skuldinni á viðskiptabannið. Bandaríkjamenn eru eina landið á svæðinu sem er með viðskiptabann gegn Kúbu. Kúba getur verslað og skipt við hvaða þjóð aðra í öllum heiminum. Hvers vegna halda menn að eina þjóðin sem hafi eitthvað að bjóða Kúbu sé Bandaríkin? Staðreyndin er sú að allar þjóðir Evrópu, Asíu og Rómönsku Ameríku eiga viðskipti við Kúbu. Hvers vegna auðgast Kúbverjar ekki af þessum viðskiptum? Hvers vegna hafa þeir svo lítið að bjóða? Það er vegna þess að efnahagskerfi Kúbu er Sósíalískt. Á Kúbu er enginn Henry Ford, Jón Ásgeir, Michael Dells, né nokkur sjálfstæður atvinnurekandi eða athafnamaður til verðmætasköpunar.
Slíkir menn yrðu settir í steininn.

Ástæða fátæktar Kúbu er sú að hin klassísku mannréttindi frjálshyggjunnar eru virt að vettugi. Þar er ekkert frelsi einstaklingsins, engin friðhelgi eignaréttarins, ekkert tjáningarfrelsi. Það eru engir starfsmenn í einkageiranum. Enginn vinnur hjá neinum nema ríkinu. Að eiga viðskipti við Kúbu, er að eiga viðskipti við kúbverska ríkið. Fjárfestar borga ríkinu beint, og verkamenn ríkisins fá aðeins pínulítið í sinn hlut. Hagsmunir ,,heildarinnar” ráða öllu. Engin má skara fram úr, enginn má ná árangri, enginn má verða ríkur af eigin rammleik, því þá er hann ,,arðræningi”, og því verða ekki til mikil verðmæti – það er engin hvatning. Sökudólgurinn er hugmyndafræði og efnahagsstjórn sósíalismanns.

Á Kúbu er óendanlegur munur á ríkum og fátækum, á þeim sem eiga og eiga ekkert.
Þar er ógnarstór gjá milli stétta. Þetta er ávöxtur sósílismanns.

Sindri Guðjónsson


Þessi pistill er að miklu leyti byggður á þremur greinum sem ég fann á þessari slóð:
www.libertyforcuba.com/
A Leftist "Indictment" of Communist Cuba
Bad Cuban Medicine Cuba on No Dollars a Day


Feluleikur í Okurveitunni

Í fyrradag (4. janúar) lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar yrði falið að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 1998. Þar skyldi lagt mat á arðsemi þeirra fjárfestinga s.s. Línu.net, Tetra Ísland og Rafmagnslínu. Einnig gerði tillagan ráð fyrir því að bornar yrðu saman upphaflegar áætlanir um fjárútlát til umræddra fyrirtækja og raunveruleg útgjöld til þeirra. Tillagan náði ekki fram að ganga enda var svo sem ekki við öðru að búast en að R-listinn gerði allt til að koma í veg fyrir samþykkt tillögunnar því sennilega væri fátt óþægilegra fyrir listann en það að þessar staðreyndir kæmust fram í dagsljósið – hvað þá í hámæli. Raunar virðist vera að R-listinn noti OR gjarnan sem felustað til að hylja hvers kyns óráðsíu og yfirsjónir. Enginn virðist jú betur til þess fallinn að hylja slóð óráðsíunnar en brellumeistarinn Alfreð Þorsteinsson.

Sennilega hefur þó engan órað fyrir því hvaða afgreiðslu tillagan hlyti. Áðurnefndur Alfreð kom með ,,breytingartillögu” sem þó virtist lítið eiga skylt við hina upphaflegu tillögu sem lögð var fram. Það stóð þó ekki á Stefáni Jóni Hafstein, sem stýrði fundinum, að aðstoða við brellur Alfreðs og afgreiða hina nýju tillögu sem breytingartillögu.
Hin nýja tillaga var þess efnis að borgarstjóra yrði falið að láta gera óháða úttekt á fjárfestingu fyrirtækja opinberra aðila í fjarskiptafyrirtækjum frá árinu 1998 þar sem jafnframt yrði leitast við að leggja mat á arðsemi þessara fjárfsestinga.
Þessi ,,breytingartillaga” fékkst að sjálfsögðu samþykkt.

Það er ekkert annað! Ekki einasta drepur R-listinn málinu á dreif með þessu útspili heldur arkar hann ótrauður áfram þá braut að seilast langt út fyrir verksvið sitt á kostnað borgarbúa! Vissulega verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða úttektarinnar verður, og eflaust má finna fleiri dæmi um það að ríki og sveitarfélög hafi fjárfest í fjarskiptafyrirtækjum með misjöfnum árangri. Það er þó ekki sjáanlegt hvers vegna það ætti að vera hlutverk eins sveitarfélags að fara ofan í saumana á því.
Það má líkja þessu við það að bæjarstjórn Trékyllisvíkur ákveddi í krafti meirihluta síns að bæjarstjóranum yrði falið að gera úttekt á kostnaði íslenska ríkisins af uppbyggingu sendiráða erlendis og arðsemi þeirra fyrir þjóðarbúið – allt á kostnað útsvarsgreiðenda í Trékyllisvík, og í þeim tilgangi einum að draga athyglina frá einhverju óþægilegu máli heima fyrir! Það er löngu tímabært að R-listinn fari að nota fé okkar borgarbúa í þarfari verkefni og hætti að safna frekari skuldum með svona uppátækjum.

Vissulega kann að vera að R-listinn skjóti sig í fótinn með þessu tiltæki. Vart verður að finna í skýrslunni dæmi um annað sveitarfélag þar sem tapað fé vegna austurs í fjarskiptafyrirtæki nemur milljörðum líkt og raunin er varðandi Línu.net. Þar hefur fjármunum borgarbúa bókstaflega verið kastað á glæ eins og sjá mátti í áramótaskaupinu.

Það hlýtur að sæta furðu hve lítinn áhuga fjölmiðlar hafa sýnt því að kryfja málefni
R-listans og Orkuveitunnar, ekki síst í ljósi þess hve sumir þeirra hafa virst óþreytandi við að gagnrýna landstjórnina, ýmist með réttu eða röngu. Óneitanlega læðist að sá grunur að meira aðhald væri veitt af hendi ákveðinna fjölmiðla ef aðrir en vinstri menn sætu við stjórnvölinn í borginni. Vissulega er eðlilegt að sveitarstjórnarstiginu sé nokkru minni gaumur gefinn í almennri umræðu, en hafa ber í huga að um stærsta sveitarfélag landsins er að ræða og um leið höfuðborg þess. Hér er um stórmál að ræða og Reykvíkingar eiga rétt á að vita hvernig hér er haldið á málum.

Þorsteinn Magnússon


Hugsum um peninga

Nú er ungi sjálfstæðismaðurinn ekki að hvetja til græðgi eða eintómrar peningahyggju, þvert á móti. Hins vegar eru mikið af peningum í umferð í landinu og því ekki úr vegi að ungt fólk taki skynsamlega afstöðu til þeirra, sé duglegt að vinna fyrir þeim og fari vel með þá í framtíðinni. Samt sem áður eru fulltrúar stjórnmálaflokka í landinu sem láta sér það litlu skipta hvernig fólk fer með peninga. Ekki það að það eigi nokkuð að koma stórnmálaflokkum við, en vinstri menn virðast hvað eftir annað taka upp hanskann fyrir þá sem hafa að sjálfsdáðum komið sér í fjárhagsleg vandræði. Þegar upp koma vandamál er það ríkinu að kenna og nú undanfarið er farið að kenna bönkunum um.

Steingrímur J. Sigfússon hefur t.d. kennt ríkisstjórninni um það glapræði að selja ríkisbankanna og þ.a.l. hafi fjármálaheimurinn farið á „vitlausa“ braut og allt sé hér á leiðinni norður og niður. Vinstri menn voru mikið á móti sölu ríkisbankanna og börðust hart gegn því. Í dag kenna þeir bæði ríkinu og bönkunum um hvernig „komið er fyrir“ fjölda manns. Staðreyndin er reyndar sú að fjölda fólks er að taka lán sem það ræður ekki við, kaupir hitt og þetta og leyfir sér ýmsan munað sem það hefur ekki efni á.

Þar er hins vegar hvorki efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar né bönkunum um að kenna. Annar þingmaður stjórnarandstöðunnar, Jóhanna Sigurðardóttir, reynir ítrekað að slá pólitískar keilur með því að ætla að taka upp hanska „litla mannsins“ og fylla hann af efnislitlum loforðum um að ef hann kýs vinstri flokkana næst muni líf hans verða svo miklu miklu betra. Smá hagfræðiþekking og heilbrigð skynsemi segir okkur auðvitað að lífið er ekki svona einfalt.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og núverandi ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar hafa lagt á sig mikla vinnu s.l. áratug við að skapa hér hagsæld og velmegun fyrir alla landsmenn. Það hefur tekist af því að mikillar hagsýnni hefur verið gætt og menn hafa myndað hér stöðugleika sem ekki er auðvelt að raska. Þetta hefði ekki tekist ef hér hefði setið vinstri stjórn. Menn hafa sýnt skynsemi og aukið frelsi markaðarins til að hagsæld gæti orðið. Vinstri flokkarnir boða þveröfuga stefnu. Það að hækka lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur og ýmsar aðrar bætur er ekki spurning um mannréttindi né sanngjarna eða góða efnahagsstjórn. Vinstri menn telja sig vera að tala fyrir „fátæka manninn“ og fyrir kosningar lofa þeir fólki öllu fögru sem ekki vinnur sjálft fyrir laununum sínum. Nú er ekki verið að gera lítið úr láglaunafólki né því fólki sem hefur einhverja fötlun sem kemur í veg fyrir að það geti unnið sér inn laun. Maður hugsar sig samt tvisvar um þegar öryrkjum fjölgar hratt og uppi eru stanslausar kröfur í þjóðfélaginu um hærri bætur hér og hærri bætur þar.

Lág laun eru ekki helsta ástæða fátæktar á Íslandi. Til er of mikið að fólki sem fer hreinlega illa með peninga sína, tekur kolrangar ákvarðanir í lífinu og svo þegar allt er komið í koll, kennir það öðrum um.

Höfum eitt á hreinu; þó svo að bankarnir auglýsi grimmt allskonar lán og yfirdrætti, þá þýðir það ekki að þeir séu að gefa út fría peninga. Það að unglingur gangi í unglingaklúbb bankanna og fari síðan og kaupi sér tölvu á láni (væntanlega með undirskrift foreldra) þýðir ekki að hann hafi verið neyddur til þess. Það að maður fari í dag, taki nýtt húsnæðislán og endurnýi allt innbúið á 4,15% vöxtum þýðir ekki að bankinn eða sú hagsæld í landinu sem nú ríkir hafi neytt viðkomandi aðila til að fara á eyðslufyllerí.

Samfélagið er allt sem betur fer að breytast í þá átt að ríkisafskipti eru að verða minni og fólk verður meira og meira ábyrgara fyrir sínu eigin lífi. Þetta þóknast vinstri mönnum illa. Þeir vilja halda fólki í fátæktargildrum með því að hækka bætur og eyða eins miklu og þeir mögulega geta af fjármagni ríkissins. Staðreynd málsins er einfaldlega sú að allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að vinna sér til hnífs og skeiðar. Þegar fólk getur auðveldlega lifað af bætum frá ríkinu er engin hvatning né drifkraftur til að gera neitt. Hvernig væri nú ef vinstri menn hættu að setja menn í flokka eins og „litli maðurinn“ og „fátæki maðurinn“ og áttuðu sig á því að til að hagsæld skapist fyrir alla þá þarf frelsi einstaklingsins að vera í fyrirrúmi sem og frelsi markaðarins. Það er einstaklinganna sjálfra að sækjast eftir því sem þeirra er og undir þeim sjálfum komið að halda því og fara vel með það sem þeir hafa í höndunum.

Það skal tekið skýrt fram hér að ekki er verið að gera lítið úr því fólki sem hefur minna á milli handanna en flestir aðrir. Hins vegar er gagnrýnisvert hvernig vinstri flokkar ætla sífellt að festa fólk í sama fari með eintómum innihaldslausum loforðum.

Ég hvet fólk til þess að vera duglegt og fara vel með það fjármagn sem það hefur á milli handanna. Að vera ríkur hefur ekkert með það að gera hvað maður hefur í tekjur heldur hvað maður eyðir litlu og auðvitað í hvað maður eyðir. Hugsum um peninga með skynsemi.

Gísli Freyr Valdórsson

Greinin birtist áður þann 28.des 2004 á sus.is


Norðmenn eru ekki á leið í ESB

Talið er afar ólíklegt að Evrópusambandsaðild verði tekin á dagskrá í Noregi á næstu árum. Ástæðan er ekki sízt stjórnmálalandslagið í landinu, en þrátt fyrir að tveir stærstu stjórnmálaflokkar Noregs, Verkamannaflokkurinn og Hægri flokkurinn, séu fylgjandi aðild þá eiga þeir ekki samleið í neinum öðrum stórum málaflokki.
Því er talið útilokað að þeir myndi ríkisstjórn saman og fyrir vikið ekki í kortunum að mynduð verði ríkisstjórn í Noregi að óbeyttu sem sett gæti aðild að Evrópusambandinu á dagskrá, enda allir hinir flokkarnir meira eða minna andsnúnir aðild.

Þingkosningar verða í Noregi á þessu ári en flestir virðast þó sammála um að Evrópumálin verði ekki eitt af aðalmálunum í kosningabaráttunni, þ.á.m. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra landsins. Norskir Evrópusambandssinnar hafa raunar lýst því yfir að þeir muni ekki mæla með því að Norðmenn sæki um aðild að Evrópusambandinu í þriðja skiptið nema það sé nokkuð öruggt að hún verði samþykkt.
Það yrði ekki gott fyrir þeirra málstað að þurfa að fara með þriðja nei-ið til Brussel,
en eins og kunnugt er hafa Norðmenn tvisvar hafnað aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæði, 1972 og 1994. Raunar virðist það vera nokkuð almenn skoðun í Noregi að ekkert vit sé í að sækja um aðild að sambandinu að nýju nema það endi örugglega með aðild.

Stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa yfirleitt verið í meirihluta í skoðanakönnunum upp á nokkur prósentustig í gegnum tíðina. Sjálfstæðissinnar hafa þó alltaf komizt með reglulegu millibili í meirihluta inn á milli, síðast í ágúst sl.
Hafa stjórnmálaskýrendur sagt í því sambandi að fylgi við aðild sé hvorki nógu mikið í Noregi nú né nógu stöðugt til þess að hægt sé að hugleiða nýjar aðildarviðræður af einhverri alvöru. Oft áður hafi verið mun meiri og stöðugari stuðningur við aðild en nú. Aðrir hafa bent á að í raun sé spurning hversu mikið skoðanakannanir, sem gerðar eru þegar engin sérstök barátta er í gangi á milli stuðningsmanna og andstæðinga Evrópusambandsaðildar, segi til um niðurstöðu hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu
um málið komi einhvern tímann til hennar.

Í því sambandi hefur t.a.m. verið bent á það hvernig leikar fóru í Svíþjóð á síðasta ári þegar kosið var um það hvort taka ætti upp evruna þar í landi eða ekki.
Þegar sænska ríkisstjórnin ákvað að setja málið í þjóðaratkvæði höfðu skoðanakannanir ítrekað sýnt að mikill meirihluti Svía styddi upptöku evrunnar. Síðan hófst barátta andstæðra fylkinga og niðurstaðan varð, eins og kunnugt er, að sænskir kjósendur höfnuðu evrunni með afgerandi hætti. Fleiri dæmi væru um slíka þróun mála.
Það sé því full ástæða til að fara varlega í það að draga of miklar ályktanir af skoðanakönnunum sem gerðar eru þegar ekki er virkilega verið að takast á um málið.

Hjörtur J. Guðmundsson


Höldum í jólin!

Jólin eru gengin í garð. Undanfarnar vikur höfum við búið okkur undir hátíðina og nú fáum við enn einu sinni að njóta hennar, helst með hefðbundum hætti.

Jólahald okkar staðfestir nefnilega og sannar hve vanaföst við erum í eðli okkar og viljum endilega hafa allt í föstum skorðum. Það kemur skýrt fram í siðum og venjum einstaklinga og fjölskyldna þar sem jólamaturinn á helst að vera sá sami ár eftir ár, vandamönnum er boðið á sama tíma og í fyrra og jólaskreytingarnar heima fyrir eru með sama hætti og þær hafa alltaf verið. Þannig líður okkur best.Þess vegna er ástvinamissir, einmanaleiki, heilsubrestur og fátækt aldrei sárara en einmitt á jólum – því þá getur hátíðin ekki orðið eins og áður.

Slík íhaldssemi er sannarlega dyggð en einnig skýr vísbending um ríka þörf okkar fyrir öryggi og vissu í heimi umróts og óvissu.Það á vel við því kjarni kristinna jóla er einmitt öryggi og vissa. Allt frá því englarnir sögðu hirðunum á Betlehemsvöllum að óttast ekki, hefur gleðiboðskapurinn um velþóknun Guðs, kærleika og umhyggju í garð mannkyns breiðst út um mestallan heiminn, kynslóð eftir kynslóð.

Hér á landi hefur fæðingu frelsarans verið fagnað frá því landnám hófst. Kynslóðirnar hafa lifað og dáið, glaðst og syrgt, notið og þjáðst, en allar átt þessa kjölfestu, styrk og æðruleysi þeirra sem vita sig undir velþóknun Guðs í meðbyr og mótlæti.

Í einum fallegasta jólasálminum okkar yrkir sr. Valdimar Briem:

„Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.“

Þessar andstæður eru dýpt þess boðskapar sem jólin snúast um og byggja á. Litla barnið í jötunni í Betlehem er Guð himnanna. Almáttugur Guð er orðinn ósjálfbjarga barn. Hann, sem á allt, er rúinn öllu og algjörlega háður umhyggju annarra.Þannig kemur Kristur til okkar á jólum og afstaða okkar skiptir máli, vilji okkar skiptir máli, viðbrögð okkar skipta máli. Ekki nægir að samsinna; þörf er svars í verki.Þjóðfélag okkar byggir á kristnum grundvelli eins og samfélögin í nágrannalöndunum. Á þeim grundvelli hefur mótast ábyrgðarkennd, umhyggja og samhjálp sem við viljum áreiðanlega öll varðveita og viðhalda.Engin bygging stenst ef grundvöllur hennar er fjarlægður. Það á einnig við um samfélagsbygginguna. Jólin minna okkur á að kærleiksboðskapur kristinnar trúar er veigamikill hluti af grundvelli hennar sem við vildum ekki vera án.

Höldum í hefðirnar og njótum þess að hafa allt í föstum skorðum – en gleymum ekki kjarnanum, tilefninu, fæðingu frelsarans.Látum ljós hans lýsa okkur á jólum og um alla framtíð. Verum í liði ljóssins og stuðlum að því að gleðiboðskapur kristninnar berist áfram til komandi kynslóða hér á landi – og um víða veröld.

Guð gefi okkur sannan jólafögnuð, frið í hjarta og vissu um velþóknun Guðs sem hvorki breytist né bregst, hvað sem yfir dynur.

Sr. Ólafur Jóhannsson


Ritstjórnarviðhorf - Óþarfa afskipti Samkeppnisstofnunar

Í dag birtist frétt í Fréttablaðinu þess efnis að Samkeppnisstofnun hefði farið þess á leit við forsvarsmenn Smáralindar að þeir hættu að birta auglýsingu þar sem barn syngur jólalag umvafið jólaseríu sem kveikt var á, ,,svo ekki þyrfti að koma til frekari afskipta stofnunarinnar" eins og segir í fréttinni. Samkeppnisstofnun ákvað að blanda sér í málið eftir að hafa fengið ábendingu frá Herdísi Storgaard, verkefnisstjórna barnaslysavarna Lýðheilsustöðvar (já, það opinbera embætti er til).

Sigurjón Heiðarsson hjá Samkeppnisstofnun sagði að auglýsingin væri talin stangast á við ákvæði í samkeppnislögum sem varðaði meðal annars hugsanleg áhrif auglýsinga á börn. Þannig er nú það. Auglýsingin er talin stangast á við hugsanleg áhrif á börn.
Ekki er öll vitleysan eins. Við vitum auðvitað öll að foreldrar eru ekki í stakk búnir að passa börnin sín og flest börn á Íslandi er einmitt það vitlaus að þau vefja sig inn í jólaseríu og kveikja á henni við minnsta tilefni.

Hafa ber í huga að Samkeppnisstofnun er sú stofnun sem mest hefur kvartað undan peningaleysi til að sinni ,,mikilvægum" verkefnum sínum. Stjórnarandstaðan hefur tekið undir í grátkórnum og sagt að efla beri stofnunina til muna og hana megi ekkert skorta.

Ég legg til að Samkeppnisstofnun (fyrst hún er á annað borð til) taki sér fyrir hendur eitthvað annað en að eyða tíma í að hóta verslunareigendum ef þeir birta ,,rangar" auglýsingar og ef þeir gleyma að verðmerkja vöru rétt og svo frv.

Gísli Freyr


Gleðileg jól Úkraína

Á sunnudaginn kemur, annan dag jóla, ganga Úkraínumenn að kjörborðinu þriðja sinni á innan við tveimur mánuðum. Í fyrri umferð kosninganna sem fram fór 31. október hlaut enginn frambjóðandi hreinan meirihluta og þurfti því að kjósa aftur milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Seinni umferðin fór fram 21. nóvember síðastliðinn og var hin opinbera niðurstaða sú að Yanukovych forsætisráðherra hefði sigrað með tæplega þriggja prósentustiga mun. Flestir þekkja í grófum dráttum atburðarásina sem fylgdi í kjölfarið. Strax vöknuðu miklar grunsemdir um að brögð hefðu verið í tafli við framkvæmd kosninganna og svo fór að hæstiréttur landsins ógilti úrslit þeirra.

Með nokkurri einföldum – en jafnframt sanni – má segja að Yanukovych þessi sé fulltrúi afturhaldsaflanna í landinu en mótframbjóðandi hans, Viktor Yushchenko leiðtogi stjórnarandstöðunnar vill stíga skref í átt til frelsis. Hann vill aukna samvinnu við vesturlönd á meðan Yanukovych vill líta meira til valdhafanna í Kreml.

Úkraína hefur aðeins búið við sjálfstæði í 13 ár, þ.e. frá því að Sovétríkin leystust upp.
Í landinu búa um 48 milljónir manna. Tæpur þriðjungur þeirra lifir undir fátæktarmörkum samkvæmt nýlegri skýrslu CIA. Samt eru í landinu miklar auðlindir, einkum í formi jarðefna, s.s. olíu og jarðgass – svo dæmi séu tekin. Nánari upplýsingar um land og þjóð er að finna í fyrrnefndri skýrslu.

Fullvíst má telja að aukið frelsi í atvinnulífi og viðskiptum í landinu sé lykillinn að aukinni hagsæld líkt og annars staðar. Landið er enn að verulegu leyti í fjötrum ríkisforsjár – sem eru leifar frá alræðistímanum. Þrátt fyrir breytt stjórnarform hefur gengið fremur hægt að breyta löggjöfinni til samræmis við lýðræðislegt skipulag.

Þó Viktor Yushchenko teljist sennilega ekki sérlegur hægrimaður á vestrænan mælikvarða verður að telja hann mun líklegri en andstæðing hans til að hrinda nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Það er því óskandi að Úkraínumenn beri gæfu til þess að kjósa rétt á sunnudaginn kemur og að engin brögð verði í tafli að þessu sinni.

Þorsteinn Magnússon


Morð í Fallujah?

Stríð eru alltaf slæm og ljót. Þar gerist margt sem miður fer og í nútímanum sjáum við allt, bæði það góða og slæma. Við sjáum sigrana en einnig mistökin. Það vill reyndar þannig til að fjölmiðlum finnst mikilvægara að sýna mistökin.

Um daginn sáum við myndir í sjónvarpinu af ungum bandarískum hermanni þegar honum varð það á að skjóta ,,óvopnaðan” mann fyrir framan myndatökumann NBC sjónvarpsstöðvarinnar.

Þetta var að sjálfsögðu vatn á myllu þeirra sem telja stríðið í Írak ólöglegt og telja bandaríkjaher vera fremja stríðsglæpi í stórum stíl.

Það er ekki tilgangur minn hér að taka upp hanskann fyrir þann hermann sem skýtur óvopnaðan mann með köldu blóði. Ekkert réttlætir slíkt morð .Hins vegar hefur komið í ljós að ,,saklausi” Írakinn sem þarna á að hafa legið særður í rólegheitum í moskvu í Fallujah var vopnaður byssu, handsprengju og við fulla heilsu.

Flokkurinn sem réðist inn í þessa moskvu höfðu lent í svipuðum aðstæðum daginn áður. Byrjað var að sprengja fyrir utan og þegar það var talið óhullt var ráðist inn í moskvuna.
Í einu horninu lá ,,slasaður" íraskur andspyrnumaður (sem Magnús Þór Hafsteinsson alþm. styður af fullum hug) og þóttist vera sofandi/dauður. Þegar amerísku hermennirnir komu nær til að athuga líðan hans sneri hann sér að sér og skaut annan þeirra í mjöðmina. Félagi hermannsins var fljótur að bregðast við áður en hryðjuverkamaðurinn gat skotið aftur.

Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum.

Ég ætla s.s. ekkert að hafa fleiri orð um þetta ákveðna mál. En ég bendi áhugasömum að skoða hér pistil eftir Michael Reagan (son Ronalds Reagan fyrrv. Bandaríkjaforseta).
Hann tekur upp aðra hlið á málinu sem ekki fer mikið fyrir í fjölmiðlum.
Það hentar víst ekki þeim fjölmiðlum sem eru sjálfir á móti þessu stríði.

Gísli Freyr Valdórsson


Ritstjórnarviðhorf - Listaverkakaup ríkisins

Mikið hefur verið skeggrætt síðustu daga kaup ríkisstjórnarinnar á teikningum listamannsins Sigmund frá Vestmanneyjum. Halldór Ásgrímsson reiddi út heilar
18 milljónir fyrir um 10.000 teikningar og til stendur að setja upp safn í Eyjum með þessum verkum. ( sem einkaaðilar hefðu ekki geta gert ??)

Sitt sýnist hverjum um þetta mál. Flestir eru sammála um að Sigmund sé hæfileikaríkur og teikningar hans vissulega efni í góða bók og eiga vel heima á góðu og skemmtilegu safni.

Mikið hefur þó heyrst að peningunum hefði betur verið varið í hitt og betur varið í þetta.

En hvernig hefði verið að eyða þessum peningum ekki...?


Evrópusambandið og kvótakerfið

Sumir þeir, sem lítt spenntir eru fyrir kvótakerfinu, eiga það til að segja að það sé eins gott að við göngum bara í Evrópusambandið þar sem við ráðum hvort sem er ekkert yfir Íslandsmiðum eins og staðan er í dag. Yfirráðin yfir þeim séu í höndunum á fámennri klíku manna hér á landi. Jafnvel heyrir maður því fleygt að rétt væri að ganga í sambandið allt að því einvörðungu í því skyni að koma meintu höggi á umrædda aðila. Þetta segja menn allajafna án þess að hafa góða yfirsýn yfir málið og án þess að hafa kynnt sér staðreyndir þess til hlítar. Það er vitanlega til marks um mikla skammsýni að láta andúð á einhverjum aðilum ráða afstöðu sinni til pólitískra álitamála og sérstaklega jafn víðfems málaflokks og Evrópumálanna.

En hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á ágæti kvótakerfisins þá eru flestir sammála um að ef við Íslendingar gengjum í Evrópusambandið myndi kvótakerfið sem slíkt halda sér þar sem sambandið hefur ekki bein afskipti af því með hvaða hætti aðildarríkin skipta þeim kvóta sem það úthlutar þeim. Þannig hefur verið bent á að hliðstætt kvótakerfi sé við líði í Hollandi eins og hér á landi. Aftur á móti myndi aðild Íslands að Evrópusambandinu þýða að stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum myndi að nær öllu leyti færast til sambandsins og þar með talið t.a.m. ákvörðun heildarkvóta. Íslendingar myndu auk þess ekki lengur sitja einir að veiðum við Ísland eins og ítrekað hefur komið fram í máli forystumanna innan sambandsins á undanförnum árum.

Lengi getur vont versnað
Annars ætti öllum að vera ljóst, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, að hversu slæmt sem ýmsum kann að þykja íslenzka kvótakerfið þá er fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins augljóslega verri. Nægir þar sennilega að nefna tíðar fréttir á undanförnum árum af hruni fiskistofna í lögsögu sambandsins og nú síðast fyrir nokkrum dögum síðan. Er nú svo komið að Evrópusambandið hefur loksins ákveðið að grípa til aðgerða og boðað niðurskurð aflaheimilda upp á tugi prósenta sem mun þýða að leggja þarf fiskiskipum í þúsundatali innan sambandsins með tilheyrandi efnahagskerppu í sjávarúrvegshéruðum og fólksflótta frá þeim sem nægur mun vera fyrir.

Þó hafa fiskifræðingar ráðlagt ráðamönnum Evrópusambandsins mun meiri niðurskurð og jafnvel fiskveiðibönn á ákveðnum svæðum og hafa lengi varað þá við því hvernig mál væru að þróast. Þannig kallaði t.d. Brezka vísindaakademían, æðsta vísindastofnun Bretlands, sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins „hneyksli“ fyrir rúmu ári síðan og sakaði það um að ákvarða meiri heildarkvóta en fiskistofnar þyldu og stuðla þannig að hruni þeirra. Evrópusambandið er hins vegar löngu orðið frægt fyrir að hunza ráðleggingar vísindamanna í þessum efnum.

Sótt á önnur mið
Vegna sífellt verra ásigkomulags eigin fiskimiða Evrópusambandsins hefur það sótt í stöðugt meira mæli í mið ýmissa annarra ríkja, þá ekki sízt í Vestur-Afríku. Fiskistofnum í lögsögu þessara ríkja hefur hrakað mjög á undanförnum árum og segja heimamenn að gömul og góð mið séu nú ekki svipur hjá sjón. Segja ríkin þessa þróun fyrst og fremst til komna vegna Evrópusambandsins sem þau hafa sakað um ofveiði og fyrir að virða ekki fiskveiðisamninga.

Einnig hefur Evrópusambandið sózt eftir að komast í mið ýmissa annarra þjóða og má þar t.a.m. nefna Grænlendinga og Norðmenn svo ekki sé minnzt á okkur Íslendinga. Þannig gerði sambandið t.a.m. þá kröfu, þegar samningaviðræður voru í gangi um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fyrir rúmum áratug síðan, að kveðið væri á í honum um að sambandinu væri úthlutað ákveðnum kvóta í íslenzkri lögsögu.
Það er því afar einkennilegt að sumir skuli halda að ef við Íslendingar sæktum um aðild að Evrópusambandinu myndi það sætta sig við það að við sætum ein að miðunum við Ísland. Eitthvað sem forystumenn sambandsins hafa aldrei ljáð máls á heldur þvert á móti sagt að við gætum ekki litið á miðin við Ísland sem eitthvað einkamál okkar ef við gerðumst þar aðilar.

Nóg til að afskrifa aðild
Það er því ljóst að þegar menn tala um Evrópusambandsaðild sem einhvers konar lausn frá kvótakerfinu þá vaða menn í villu. Ljóst er að Evrópusambandsaðild myndi ekkert bæta í þeim efnum. Annars má auðvitað aldrei gleyma því að þó sjávarútvegsmálin spili stórt hlutverk í umræðum um Evrópumálin hér á landi þá er margt annað sem gerir það að verkum að hagsmunum þjóðarinnar yrði ekki borgið með aðild að Evrópusambandinu. Ókostirnir í tengslum við sjávarútvegsmálin eru hins vegar svo miklir að þeir einir eru í raun nóg til að afskrifa aðild.

Því má heldur ekki gleyma að utan Evrópusambandsins höfum við Íslendingar margfalt meira um það að segja hvernig staðið er að stjórn fiskveiða við Ísland en raunin væri nokkurn tímann innan sambandsins. Við kjósum það fólk sem tekur ákvarðanirnar í þessum málum eins og staðan er í dag. Innan Evrópusambandsins væru þau völd hins vegar fyrst og fremst í höndum embættismanna í Brussel sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð frá almenningi.

Hjörtur J. Guðmundsson

Þess má geta að greinin er rituð út frá stöðu mála eins og hún er í dag. Eins og getið er í henni myndu yfirráðin yfir sjávarútvegsmálum hér við land færast að mestu leyti til Evrópusambandsins ef við Íslendingar gerðumst þar aðilar. Því er í raun engin trygging fyrir því að sambandið muni ekki skipta sér í framtíðinni af því hvernig aðildarríkin skipta þeim aflaheimildum sem sambandið úthlutar þeim. Ef til þess kæmi vita menn heldur ekkert með hvaða hætti þau afskipti yrðu, en hingað til hefur slíkt þó yfirleitt gengið út á það að sífellt meira vald hefur fluzt frá aðildarríkjunum og til sambandsins.

Birtist einnig í Morgunblaðinu þann 17. desember 2004


Uppáhalds stjórnmálamaðurinn minn: Alain Madelin

Ég á mér uppáhalds stjórnmálamann. Hann heitir Alain Madelin og er franskur.
Ég dáist fyrst og fremst að hugdirfsku hans – að standa fyrir frelsis hugsjónir sínar með djörfum og áberandi hætti, í landi þar sem ríkis-vinstri kúgun er með allra vinsælasta móti. Í landinu eru þrír byltingasinnaðir kommúnistaflokkar, sem fá til samans um 5% fylgi. Síðan eru það lýðræðissinnarðir kommúnistar, sem eru miklu stærri en byltingaflokkarninr til samans.
Hægra megin við lýðræðiskomma-flokkinn, eru frönsku ,,vinstri-grænir” og hafa þeir drjúgt fylgi og Sósíalistaflokkurinn (flokkur Mitterand) sem er stærsti flokkur landsins til skiptis við flokk Chirac.
Svo kemur miðjuflokkurinn UDF, sem er nú í stjórnarstarfi með flokki Chirac. Þeir eru einskonar Framsókn/Samfylking að mér sýnist. Svo er það ,,hægri” flokkur Chirac UMP, sem hefur eitthvað um 25% flygi að ég held, og er í stjórn, og málamyndar duglega við samstafsflokk sinn og hina ofur vinstrisinnuðu stjórnarandstöðu.
Svo er að sjálfsögðu til þjóðernisflokkurinn FN, sem hefur að mínu mati ekkert með vinstri og hægri að gera. Þetta er einsmálsflokkur, sem nýtur aðalega óánægjuflygis, og vill herða innflytjendalöggjöfina. Hvers vegna FN er svo flokkaður sem hægri flokkur er mér ofviða að skilja.

Í þessu landi sósíalismanns, þar sem fyrirtæki fá greidda vissa upphæð frá ríkinu fyrir hvern mann sem þeir hafa í vinnu, og atvinnuleysið og samneyslan hafa ráðið ríkjum, skín ein vonarglæta, Alain Madelin.

Í Frakklandi eru kjör aðstæður til landbúnaðar, og hvergi betra að rækta vín o.fl.
Málmar finnast í fjöllum, og allt er til alls. Samt er efnahagsástandið betra á hinu kalda Íslandi. Ástandið hefur að sjálfsögðu skánað undir Chirac.

Hér á eftir koma tilvitnanir í Alain Madelin, sem ég hef þýtt úr frönsku.

Atvinnumál:

,,Það er ekki erfitt að skapa störf fyrir ungt fólk með opinberu fé, en sá sem sáir slíkum störfum, uppsker tálvon og skatta.”  1997

,,Atvinnuleysi orsakast af skorti á sköpunargleði, og hömlum á frjálsum viðskiptum.”
1995

,,Til þess að fjölga störfum, þarf að fjölga vinnuveitendum, og eyða þeim hindrunum sem eru í vegi þeirra...”
1995

,,Karlar og konur sem eiga fyrirtæki mynda hið skapandi og ábyrga Frakkland, en verða dag eftir dag fyrir barðinu á ásökunum, reglugerða fargani og óskiljanlegum skrifræðis eyðublöðum. Þau vita hvað orðin ,,gjalddagi”, ,,ógreiddur” og ,,uppgjör” þýða. Þau hafa of lengi verið látin afskiptalaus, og jafnvel fyrirlitin af stjórnvöldum og fjölmiðlum.”
1995 (Mitterand hafði verið við völd – Kommaflokkarnir í löggjafarþinginu, og hinir vinstrisinnuðu fjölmiðlar Frakklands búnir að gera atvinnulífinu lífið leitt. – Chirac vann kosingarnar þetta ár, og tók við...)

Um laga og reglugerða fargan:

,,…8000 lög, 40.000 reglugerðir, og 17000 blaðsíðna lögbirtingarblað á hverju ári, að ógleymdum 20.000 reglugerðum frá Evrópusambandinu. Þessar stöðugu árásir, þetta endalausa áreiti yfirvalda, það kæfir allt frumkvæði manna og lífið sjálft.”
Þetta sagði Alain 1993 um ástand mála í Frakklandi.

(Evrópusambandið er orðið miklu aðgangsharðara í dag heldur en árið 1993. Ástandið þá var barnaleikur, miðað við það sem við horfum uppá í dag. Í þessu sambandi vil ég benda á frétt sem birtist þann 12.12.2004 á heimssyn.is þar sem kemur framað kostnaður efnahagslífsins vegna reglugerðafargans Evrópusambandsins í dag sé 83
billjónir króna (83.000.000.000.000 króna) á ári hverju í tapaðri framleiðni.)

Skattamál:

,,Þeim mun meiri skattlagning á vinnu, þeim mun minni hvatning til vinnu.”
Ræða flutt þann 12. des. 1994 í París.

Þar höfum við það.

Alain Madelin þrufti að segja af sér ráðherrastól, en hann var ráðherra í ríkisstjórn Chirac. Frakkar gátu ekki þolað að hafa mann sem vildi frelsi einstaklingsins og ríkisbáknið burt. Hver er sinnar gæfu smiður.

Sindri Guðjónsson


Ritstjórnarviðhorf - Saddam Hussein handsamaður

Þann 13.desember s.l. var liðið ár síðan Saddam Hussein var handsamaður.

Þegar Saddam náðist, fögnuðu íbúar Bagdad ógurlega. Útvarpsstöðvarnar spiluðu gleði og fagnaðar tónlist og menn keyrðu um göturnar syngjandi og hrópandi af gleði.
Al-Zaman, sem er frjálst dagblað sem gefið er út í Bagdad sagði frá handtöku Saddams sem hinum bestu tíðindum:

,,Handtaka Saddams er enn eitt vonartáknið um hreint og réttlátt Írak, langt frá myrkri fortíð, fullri af dýflisum og leyniþjónustu, sem lét mörg þúsund Íraka hverfa, vegna orðs, hvísls, eða vegna skoðanna.”   Al-Zamann, 16.desember 2003.

Gallup gerði skoðannakönnun síðastliðinn mars í Írak, þar sem m.a. var spurt:
"Í ljósi alls þess sem þú kannt að hafa þurft að þola vegna innrásarinnar, finnst þér að það hafi verið þess virði að hrinda Saddam Hussein frá völdum?"
Niðurstöður könnunarinnar eru athyglisverðar,
61% sögðu já, innan við 30% nei, restin var óákveðin.

Ritsjórn Íhald.is


„Ekkí í mínu nafni“

Það er athyglisvert þessa dagana að fylgjast með félagsskap nokkrum hér í bæ sem kosið hefur að kalla sig Þjóðarhreyfinguna. Þarna starfar vinnuhópur fjögurra einstaklinga sem telur sig hafa vit fyrir þjóðinni og ætlar nú að taka sér það fyrir hendur að tala fyrir hönd þjóðarinnar erlendis. Nýjasta uppátæki „Þjóðarhreyfingarinnar“ (sem er samsett af fjórum einstaklingum) er að standa fyrir söfnun á fé meðal landsmanna og er ætlunin að kaupa auglýsingu í The New York Times. Með auglýsingunni ætlar þessi félagsskapur að biðjast afsökunar fyrir hönd allra Íslendinga á stuðningi Íslands við innrásina í Írak?

Það er vert að skoða nokkur atriði varðandi þetta.
Skv. yfirlýsingu „hreyfingarinnar“ á að standa í auglýsingunni, „Við, Íslendingar, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og „viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.“

Síðar í yfirlýsingunni segir að ákvörðunin hafi aðeins verið tekin af tveimur mönnum. Þetta er einmitt það sem þessir fjórir einstaklingar, ásamt nokkrum listamönnum, eru að skammast yfir. Að lítill hópur manna hafi tekið ákvörðun fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Þá er ekki úr vegi að spyrja: Hvaðan kemur forsvarsmönnum hinnar sjálfskipuðu "Þjóðarhreyfingar" vald til að tala fyrir hönd Íslendinga á alþjóðavettvangi, já eða bara yfir höfuð? Hvort sem það er á síðum The New York Times eða annars staðar? Hvaða lýðræðislega umboð hafa þessir einstaklingar til þess að tala fyrir hönd þjóðarinnar sem slíkrar? Ekki nokkurt einasta.

Þessi hreyfing telur sig þó geta lagt nöfn allra Íslendinga við þessa auglýsingu. Reyndar liggur ekkert fyrir á þessari stundu hversu margir Íslendingar studdu umtalaða innrás. Það sem liggur hins vegar fyrir er að enn situr sama ríkisstjórn sem í lýðræðislegum kosningum var veitt endurnýjað umboð til stjórnarmyndunar stuttu eftir að stuðningur við innrásina var ákveðinn. Þjóðarhreyfingin var að vísu ekki til þá.

Annað sem vert er að velta fyrir sér. Það er ljóst að það er ekki stríðshrjáð Írak sem á hug allan og hjarta hreyfingarinnar. Í áðurnefndri yfirlýsingu segir: „Verði afgangur af söfnunarfénu, rennur hann óskiptur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáðum borgurum í Írak.“ Hvers vegna ekki að nota allan peninginn sem safnast í mannúðarmál í stað þess að stríðshrjáðir borgarar Írak séu bara látnir mæta afgangi þegar The New York Times hefur fengið sitt?

Ef að Þjóðarhreyfingin ætlar að biðja írösku þjóðina afsökunar, af hverju kaupa þeir þá ekki auglýsingu í íröskum fjölmiðli? Það er til nóg af þeim, þeir lifa góðu lífi, og ná vel til Íraka. Í dag starfa fjölmiðlar í Írak án afskipta Bandaríkjamanna og hafa fullt málfrelsi. Það er alveg ljóst. Ætli margir Írakar lesi The New York Times? Hver skyldi vera tilgangurinn með þessu uppátæki? Að biðja Íraka afsökunar? Að lina þjáningar stríðshrjáðra borgara í Írak? Eða kannski bara að upphefja þá sem standa að uppátækinu? Svo þeir fái kannski viðtal við sig í The New York Times í kjölfarið auk annarrar fjölmiðlaumfjöllunar? Spurning.
Getur verið að hreyfingin sé að vinna sér inn stig meðal vinstrimanna hér á landi og geta sér orðstír erlendis á sama tíma?

Á sama tíma eru þingmenn stjórnarandstöðunnar aða fara fram á að Íslendingar láti taka sig af lista hina viljugu þjóða. Þannig hefur stjórnarandstaðan, þjóðarhreyfingin og örfáir listamenn sameinast um að þeir telji innrás þessa ólöglega og það sem verra er, óréttmæta. Helst bera þeir fyrir sig orð Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann lýsti því yfir í viðtali fyrr í haust að hann „teldi“ að innrásin væri ólögleg af því að Öryggisráð S.Þ. hefði ekki samþykkt hana. Hins vegar hefur innrásin aldrei verið úrskurðuð ólögleg og enginn ákæra verið gefin út. Það að leika sér að orðum annars vegar og fella dóm hins vegar er ekki það sama og skýr skil ættu að vera þar á milli.

Aldrei heyrði maður þingmenn stjórnarandstöðunnar og hvað þá heila „þjóðarhreyfingu” hefja upp raust sína þegar Saddam Hussein, synir hans og annað hyski, gengu um Írak, nauðgandi, drepandi og rænandi þegna sína því að lifa í frelsi og velmegun. Ekki er ekki við öðru að búast en þessir sömu aðilar vilji að Saddam Hussein sé enn við völd. Það liggur ljóst fyrir að nauðsynlegt var að koma manninum frá og einnig liggur ljóst fyrir að sá hinn sami reyndi að framleiða gereyðingarvopn og það sem ennþá verra er, ekki er ljóst hvað hann ætlaði sér að gera með þau. Það að vopnin finnist ekki í dag gerir innrásina ekki ólögmæta né óþarfa. Vitað er að Saddam Hussein átti vopn og af einhverjum ástæðum sá hann ástæðu til að vísa vopnaeftirlitsmönnum SÞ úr landi. Hins vegar virðist enginn vita hvar þessi vopn eru en hafa skal í huga að hingað til hafa heldur engin merki fundist um að þau hafi verið eyðilögð.

Þeir íslensku ráðamenn sem tóku þá ákvörðun að styðja innrás bandamanna inn í Írak til að koma Saddam Hussein frá völdum eiga hrós skilið fyrir djarfa ákvörðun. Írakar munu í framtíðinni standa í þakkaskuld við hinar „viljugu” þjóðir.

Gísli Freyr Valdórsson

Birtist einnig í Morgunblaðinu þann 10. des 2004


Að löggjafinn hagi sér syndsamlega...

Ég las nýlega bók eftir Davíð Þór Björgvinsson sem heitir Lögskýringar. Á síðu 21 í bókinni er kafli sem heitir Grunnforsendur við lögskýringar.,,Með því er átt við þær forsendur sem menn gefa sér, jafnvel án þess að hugsa sérstaklega út í þær” svo ég vitni beint í Davíð.

Ein þessara forsendna er sú að ,,löggjafinnhagi sér skynsamlega, eða hafi a.m.k. ætlað sér það.”

Nú vill svo til að undanfarin ár hefur hópur Íslendinga í raun gefið sér það að þeir sem farið hafa með löggjafavaldið í landinu hagi sér að jafnaði SYNDsamlega, eða hafi a.m.k. ætlað sér það.

Þetta er eins konar sjálfkrafa afstaða sem sumir hafa haft t.d. gagnvart Davíð Oddssyni. Allar hans gerðir virðast vera skoðaðar í ljósi þess að honum hafi staðið illt eitt til. Þó er mönnum ómögulegt að skyggnast inn í huga hans, og menn geta því ekki vitað hvaða hvatir liggja að baki í raun.

Hversu oft hefur maður ekki heyrt það sagt – að Davíð Oddson sé spilltur, hann hafi verið við völd lengi og vald spilli...

Fjölmiðlafrumvarpið var lagt fram til þess eins að Davíð gæti náð sér niður á einkaóvini sínum, Jóni Ásgeiri...

Tekjutenging við maka örorkubótaþega orsakast af mannfyrirlitningu og virðingarleysi Davíðs gagnvart öryrkjum...

Davíð og Halldór studdu innrásina í Írak, til þeiss eins að múta Bandaríkjamönnum til þess að halda herstöðinni í fullum rekstri í Keflavík...

Ríkisstjórnin er við völd til þess eins að tryggja að gráðug stórfyrirtæki geti hagnast á almenningi...

Sala ríkisfyrirtækja er til þess eins að hygla einkavinum Davíðs...

Og svo framvegis...

Málið er að fólk sem gefur sér þessar neikvæðu forsendur fyrirfram,
getur aldrei litið málin hlutlausum augum.

Sjálfstæðismaður nokkur átti tal við vinstrisinnaðan kunningja sinn.
Eftir að sjálfstæðismaðurinn hafði reynt að útskýra einhverja ákvörðun ríkisstjórnarinnar fyrir vinstrimanninum, var honum svarað á þessa leið: ,,Þú gefur þér bara að menn hafi ætlað að reyna að gera eitthvað gott! (Hneyksli) Veistu ekki að ríkisstjórnin er spillt? Davíð er búinn að sitja svo lengi, og valdið spillir!”

Svona hugsunarháttur er óþolandi!

Margur telur mig sig.

Sindri Guðjónsson


86 ára ártíð íslenzks fullveldis

Um þessar mundir fögnum við Íslendingar 86 ára ártíð íslenzks fullveldis. Með sambandslögunum, sem tóku gildi þann 1. desember árið 1918, var Ísland loksins viðurkennt sem frjálst og fullvalda ríki. Þetta var einkum ávöxtur áratuga baráttu Íslendinga fyrir aukinni sjálfstjórn. Aðstæður voru og þjóðinni afar hagstæðar árið 1918. Fyrri heimstyrjöldin 1914-1918 hafði m.a. haft það í för með sér að nokkuð los hafði komið á tengsl Íslands við Danmörku. Hugmyndir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða fengu ennfremur ríkari hljómgrunn í lok styrjaldarinnar og töldu dönsk stjórnvöld sig í betri stöðu til að endurheimta hluta af hertogadæminu Slésvík, sem Danir höfðu misst til Þjóðverja (Prússa) árið 1864, ef þau sýndu Íslendingum samningslipurð. Þegar sambandslögin tóku gildi hafði Ísland verið undir yfirráðum erlendra ríkja í meira en sex og hálfa öld; fyrst Norðmanna frá 1262 til 1397 og síðan Dana frá 1397 til 1918. Fyrir þann tíma höfðu Íslendingar verið sjálfstæðir í meira en 350 ár. Án efa hefur ákveðinn vonarneisti alltaf lifað með þjóðinni um að hún myndi einn dag endurheimta frelsi sitt og öðlast stjórn yfir eigin málum í þær aldir sem hún bjó við erlend yfirráð.

Það var þó ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar sem vonir þjóðarinnar fóru að glæðast um aukna sjálfstjórn. Var það fyrst og fremst fyrir ötula og ósérhlífna framgöngu margra mætra Íslendinga og fór þar fremst í flokki sjálfstæðishetja Íslendinga, Jón Sigurðsson. Með sambandslögunum varð Ísland aðeins í konungssambandi við Danmörku, en nær öll völd yfir landinu fengu Íslendingar í eigin hendur. Danir fóru þó áfram með utanríkismál í umboði íslenzkra stjórnvalda. Annað sem sambandslögin höfðu í för með sér var m.a. að Danir sáu áfram um eftirlit með fiskveiðum í landhelgi Íslands unz íslenzk stjórnvöld tækju þau mál yfir sem gerðist fáum árum síðar. Ríkisborgararéttur var aðskilinn, en ríkisborgarar beggja landa nutu eftir sem áður gagnkvæmra réttinda í báðum löndunum.

Kveðið var á um að Hæstiréttur Danmerkur skyldi áfram vera æðsta dómsvald í íslenzkum málum unz íslenzkur hæstaréttur tæki til starfa, sem varð strax árið 1920.
Að lokum var síðan gert ráð fyrir því að eftir árslok 1940 gæti þing hvorrar þjóðar krafizt þess að sambandslögin yrðu endurskoðuð. Með sambandslögunum urðu þáttaskil í langvinnri baráttu Íslendinga fyrir stjórnfrelsi. Með þeim varð fullvalda íslenzkt ríki loksins staðreynd og opnað á sambandsslit við Danmörku og stofnun sjálfstæðs ríkis innan aldarfjórðungs.

Þannig markar fullveldisdagurinn 1. desember í raun ekki síður mikilvæg tímamót í sögu okkar Íslendinga en lýðveldisdagurinn 17. júní og í raun mikilvægari. Ljóst er að langmest ávannst í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar með sambandslögunum 1. desember 1918. Má segja að lýðveldisstofnunin hafi í raun verið lokapunkturinn á því sem opnað var á með sambandslögunum.

Ég vil óska Íslendingum öllum til hamingju með íslenzkt fullveldi í 86 ár.
Það er von mín að við munum áfram öðlast gæfu til að standa vörð um fullveldi landsins svo að áfram verði hægt að halda upp á þessi mikilvægu tímamót um alla framtíð.

Heimild: Einar Laxness: Íslandssagan a-ö. Reykjavík. 1977.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband