Leita í fréttum mbl.is

Schengen hefur dregið úr landamæraöryggi Íslands

Hefur Schengen-samstarfið þýtt meira öryggi fyrir Ísland eða hefur það dregið úr öryggi landsins? Sem kunnugt er gengur samstarfið út á að landamæraeftirlit á svokölluðum innri landamærum samstarfsins er fellt niður en eftirlit á ytri landamærum þess aukið að sama skapi. Þannig þurfa Íslendingar, á ferð um þau lönd sem aðild eiga að Schengen, ekki að framvísa vegabréfum sínum en þurfa eftir sem áður að hafa þau ætíð meðferðis ef eftir þeim verður óskað af viðkomandi yfirvöldum. Á móti kemur að fólk, sem kemur til Íslands frá öðrum aðildarríkjum samtarfsins, þarf ekki heldur að framvísa nokkrum persónuskilríkjum við komuna til landsins og getur í raun allajafna gengið beint inn í landið án nokkurra afskipta íslenzkra yfirvalda.

Veikari landamæragæzla
Ýmsir hafa orðið til að benda á þá staðreynd að við höfum glatað að miklu leyti því öryggi sem felst í náttúrulegum landamærum okkar með aðildinni að Schengen. Þannig má nefna að þann 18. október 2002 sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, í ræðu að ekki væri um það deilt að landamæraeftirlit á Íslandi hefði veikst við aðildina að Schengen. Ennfremur sagði hann að þörfin fyrir samstarf eins og Schengen kynni að horfa nokkuð öðruvísi við eyríkjum eins og Íslandi, en löndum á meginlandi Evrópu, „sem af landfræðilegum ástæðum hafi alla burði til að halda uppi öflugu landamæraeftirliti og ná að því leyti sama eða jafnvel mun betri árangri en að er stefnt með Schengen-samstarfinu. Niðurstaðan í Bretlandi og á Írlandi varð sú, að þeir myndu áfram gæta sjálfir eigin landamæra, en niðurstaðan hér varð sem kunnugt er [...] sú að flytja eftirlit með landamærum okkar frá Keflavík alla leið til Mílanó, Madrid og Mykonos, svo dæmi séu tekin, svo traustvekjandi sem það kann annars að þykja, og leggja í staðinn traust okkar og trúnað á sameiginlega gagnabanka Schengen-samstarfsins.“

Í þessu sambandi má rifja upp til hvaða aðgerða var gripið vegna vorfundar Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem haldinn var hér á landi árið 2002. Þá var tekin sú ákvörðun að taka upp vegabréfaeftirlit gagnvart fólki sem kom frá öðrum löndum á Schengen-svæðinu, í því skyni að tryggja betur öryggi fundarins, og var raunar gripið til sama ráðs í tilefni af heimsókn forseta Kína til landsins sama ár. Heimild er fyrir slíkri tímabundinni upptöku vegabréfaeftirlits í samningnum um Schengen og hafa önnur aðildarríki Schengen gripið til þessara aðgerða í hliðstæðum tilfellum, s.s. vegna leiðtogafundar Evrópusambandsins um innflytjendamál á Spáni 2002 og í Danmörku í tengslum við fund æðstu stjórnenda ríkja Evrópusambandsins í desember sama ár.

Mansal gert auðveldara...
Þó yfirlýst markmið Schengen-samstarfsins sé m.a. að efla eftirlit með ytri landamærum þess hefur það þó gengið misvel í framkvæmd. Eftir að Ísland gekk í Schengen sjáum við Íslendingar um landamæraeftirlit fyrir aðrar aðildarþjóðir Schengen og þær fyrir okkur, þar á meðal ýmis ríki í austan- og sunnarverðri Evrópu þar sem landamæraeftirlit er ósjaldan mjög slakt, þá ekki sízt í nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins sem urðu formlega aðilar að sambandinu þann 1. maí sl. Fólk sem sleppur inn fyrir landamæri Schengen getur allajafna komizt óáreitt til Íslands án þess að íslenzk yfirvöld hafi í raun nokkuð um það að segja, en árlega er talið að hundruðir þúsundir manna sleppi ólöglega inn fyrir landamæri Schengen og oftar en ekki fyrir tilstilli glæpasamtaka sem sérhæfa sig í slíku smygli gegn háum greiðslum.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í apríl sl. að þýzka lögreglan hefði varað við því að stækkun Evrópusambandsins til austurs myndi auðvelda glæpamönnum að smygla fíkniefnum og ólöglegum innflytjendum til Vestur-Evrópu. Eftirlit á austurlandamærum Evrópusambandsins yrði ekki eins öflugt eftir stækkunina og áður. M.a. væri hætta á því að landamæraverðir með lág laun freistuðust til að þiggja mútur. Síðastliðið haust var síðan grein frá því í norska blaðinu Aftenposten að Europol varaði við vaxandi umsvifum alþjóðlegrar glæpastarfsemi innan sambandsins eftir stækkun þess til austurs. Stækkunin hefði m.a. haft það í för með sér að ýmsar mafíur í Austur-Evrópu, sem áður höfðu aðeins takmörkuð umsvif í Vestur-Evrópu, hefðu fært sig mjög upp á skaftið í þeim efnum. Einkum væri þar um að ræða fíkniefnasmygl, mansal og vændi en einnig væri stundum um að ræða tengsl við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi.

Í þessu sambandi má ennfremur nefna að í Fréttablaðinu 26. marz á síðasta ári var greint frá því að Útlendingastofnun teldi sig hafa ástæðu til að ætla að nokkur hundruð ólöglegra innflytjenda væru búsett hér á landi. Telja verður sennilegt að tengsl séu á milli þess og aðildar Íslands að Schengen og er full ástæða til að kanna þau mál frekar.

...og sömuleiðis fíkniefnasmygl
Eins og fram kemur hér að ofan er sömu sögu að segja um smygl á fíkniefnum til Vestur-Evrópu að sögn þýzku lögreglunnar. Stækkun Evrópusambandsins hefur gert aðilum í þeim bransa auðveldara með að stunda iðju sína. Þetta snertir okkur Íslendinga með beinum hætti vegna aðildar okkar að Schengen, en smygl á fíkniefnum til Íslands er einmitt einkum stundað frá Evrópu, þá einkum frá Danmörku og Hollandi. Þetta kemur heim og sama við umsögn embættis Lögreglustjórans í Reykjavík um Schengen-samstarfið, en embættið var beðið um að gefa álit sitt á samstarfinu af alsherjarnefnd Alþingis þegar aðildin var þar til skoðunar á sínum tíma:

„Með því [Schengen-samstarfinu] verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víða slakt innan svæðisins og sums staðar eru uppi allt önnur viðhorf til fikniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í sex af aðildarríkjum Schengen hafa t.d. verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna „til eigin nota". Reynslan sýnir að takmörkuð landamæravarsla hefur slæm áhrif t.d. í Svíþjóð og Danmörku, að mati hlutaðeigandi aðila. Ljóst er að stór hluti þeirra fíkniefna, sem flutt eru til landsins, koma frá Evrópu. Mest af því sem lögreglan leggur hald á, kemur með farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með takmörkuðu eftirliti þar og annars staðar minnka að öllu óbreyttu möguleikar tollgæslu til eftirlits með innflutningi fíkniefna.“

Hvers vegna var Schengen samþykkt?
Að öllu þessu sögðu er von að menn spyrji sig hvers vegna aðildin að Schengen hafi verið samþykkt. Í áðurnefndri ræðu frá því í október 2002 svaraði Davíð Oddsson þessari spurningu: „Það er út af fyrir sig ekkert launungarmál að ákvörðun um aðild að Schengen-samstarfinu var eingöngu tekin af einni pólitískri ástæðu, þ.e. til að viðhalda þeirri skipan, sem komið var á með norræna vegabréfasambandinu fyrir meira en 40 árum.” Þarna á Davíð við vegabréfasamstarf Íslands við hin Norðurlöndin sem hefði að öðrum kosti fallið úr gildi þar sem þau voru á leið í Schengen. En það er von að menn spyrji sig að því hversu þungt þessi rök hafi vegið í ljósi allra þeirra ókosta sem aðildinni ljóslega fylgja.

Fleiri ókosti Schengen-samstarfsins mætti nefna til sögunnar en hægt er í stuttri grein. En í ljósi framangreinds hljóta flestir a.m.k. að setja stórt spurningamerki við það hvort það sé virkilega okkur Íslendingum í hag að vera aðilar að Schengen. Við höfum náttúruleg landamæri, eins og Davíð Oddsson benti réttilega á í ræðu sinni, og ættum því hæglega að geta haldið uppi öflugara landamæraeftirliti en stefnt er að með Schengen. Bretar eru í hliðstæðri stöðu og við í þessum efnum og ákváðu af þeirri ástæðu að standa utan samstarfsins þó þeir komi að því engu að síður upp að vissu marki. Ljóst er að aðildin að Schengen hefur tvímælalaust dregið úr landamæraöryggi Íslands eins kom fram í máli Davíðs og því full ástæða til að endurskoða ákvörðunina um aðild að samstarfinu enda vægast sagt erfitt að sjá hvernig kostir hennar geti réttlætt gallana.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband