Leita í fréttum mbl.is

Feluleikur í Okurveitunni

Í fyrradag (4. janúar) lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar yrði falið að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 1998. Þar skyldi lagt mat á arðsemi þeirra fjárfestinga s.s. Línu.net, Tetra Ísland og Rafmagnslínu. Einnig gerði tillagan ráð fyrir því að bornar yrðu saman upphaflegar áætlanir um fjárútlát til umræddra fyrirtækja og raunveruleg útgjöld til þeirra. Tillagan náði ekki fram að ganga enda var svo sem ekki við öðru að búast en að R-listinn gerði allt til að koma í veg fyrir samþykkt tillögunnar því sennilega væri fátt óþægilegra fyrir listann en það að þessar staðreyndir kæmust fram í dagsljósið – hvað þá í hámæli. Raunar virðist vera að R-listinn noti OR gjarnan sem felustað til að hylja hvers kyns óráðsíu og yfirsjónir. Enginn virðist jú betur til þess fallinn að hylja slóð óráðsíunnar en brellumeistarinn Alfreð Þorsteinsson.

Sennilega hefur þó engan órað fyrir því hvaða afgreiðslu tillagan hlyti. Áðurnefndur Alfreð kom með ,,breytingartillögu” sem þó virtist lítið eiga skylt við hina upphaflegu tillögu sem lögð var fram. Það stóð þó ekki á Stefáni Jóni Hafstein, sem stýrði fundinum, að aðstoða við brellur Alfreðs og afgreiða hina nýju tillögu sem breytingartillögu.
Hin nýja tillaga var þess efnis að borgarstjóra yrði falið að láta gera óháða úttekt á fjárfestingu fyrirtækja opinberra aðila í fjarskiptafyrirtækjum frá árinu 1998 þar sem jafnframt yrði leitast við að leggja mat á arðsemi þessara fjárfsestinga.
Þessi ,,breytingartillaga” fékkst að sjálfsögðu samþykkt.

Það er ekkert annað! Ekki einasta drepur R-listinn málinu á dreif með þessu útspili heldur arkar hann ótrauður áfram þá braut að seilast langt út fyrir verksvið sitt á kostnað borgarbúa! Vissulega verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða úttektarinnar verður, og eflaust má finna fleiri dæmi um það að ríki og sveitarfélög hafi fjárfest í fjarskiptafyrirtækjum með misjöfnum árangri. Það er þó ekki sjáanlegt hvers vegna það ætti að vera hlutverk eins sveitarfélags að fara ofan í saumana á því.
Það má líkja þessu við það að bæjarstjórn Trékyllisvíkur ákveddi í krafti meirihluta síns að bæjarstjóranum yrði falið að gera úttekt á kostnaði íslenska ríkisins af uppbyggingu sendiráða erlendis og arðsemi þeirra fyrir þjóðarbúið – allt á kostnað útsvarsgreiðenda í Trékyllisvík, og í þeim tilgangi einum að draga athyglina frá einhverju óþægilegu máli heima fyrir! Það er löngu tímabært að R-listinn fari að nota fé okkar borgarbúa í þarfari verkefni og hætti að safna frekari skuldum með svona uppátækjum.

Vissulega kann að vera að R-listinn skjóti sig í fótinn með þessu tiltæki. Vart verður að finna í skýrslunni dæmi um annað sveitarfélag þar sem tapað fé vegna austurs í fjarskiptafyrirtæki nemur milljörðum líkt og raunin er varðandi Línu.net. Þar hefur fjármunum borgarbúa bókstaflega verið kastað á glæ eins og sjá mátti í áramótaskaupinu.

Það hlýtur að sæta furðu hve lítinn áhuga fjölmiðlar hafa sýnt því að kryfja málefni
R-listans og Orkuveitunnar, ekki síst í ljósi þess hve sumir þeirra hafa virst óþreytandi við að gagnrýna landstjórnina, ýmist með réttu eða röngu. Óneitanlega læðist að sá grunur að meira aðhald væri veitt af hendi ákveðinna fjölmiðla ef aðrir en vinstri menn sætu við stjórnvölinn í borginni. Vissulega er eðlilegt að sveitarstjórnarstiginu sé nokkru minni gaumur gefinn í almennri umræðu, en hafa ber í huga að um stærsta sveitarfélag landsins er að ræða og um leið höfuðborg þess. Hér er um stórmál að ræða og Reykvíkingar eiga rétt á að vita hvernig hér er haldið á málum.

Þorsteinn Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband