Leita í fréttum mbl.is

Fjárfesting í heilbrigðismálum

Á þessum tíma árs er eðlilegt að líta yfir farinn veg og hugsa fram í tímann.
Ein hugmynd sem viðruð hefur verið síðustu dægrin er að fjárfesta til framtíðar í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Davíð Oddson, eins og kunnugt er, hefur talað um að peningarnir sem fást fyrir síðustu stóru einkavæðingu ríkisins, hinnar löngu tímabæru sölu Landsímans, verði notaðir til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Síðan hafa ýmsir til þess kallaðir túlkað orð hans, og þykir líklegast að hér sé átt við að nýta tilfærslu Hringbrautar til að byggja yfir Landspítala-Háskólasjúkrahús á lóð hans við fyrrnefnda götu. Jafnframt, jafnvel, að leggja niður starfssemina annars staðar, þar með talið í gamla Borgarspítalanum í Fossvogi, sem myndi þá líklega verða að einhvers konar öldrunarheimili.

Það verður óneitanlega sjónarsviptir af Borgarspítalanum (eða Landspítala-Fossvogi í dag), en það tap sem hvarf hans var þjóðinni er þegar orðið, þegar endanlega voru sameinuð í eitt batterí annars vegar þjónustusalinn, spítalinn, sem í tilviki Borgarspítalans var í eigu Borgarinnar og hins vegar þjónustukaupandinn, ríkið og þar áður sjúkrasamlögin, sem voru í umsjón sveitarfélaganna, svo í því tilfelli var borgin reyndar einnig báðum megin við borðið.

Aukið álag á velferðarkerfi þjóða
Um allan hinn vestræna heim er álagið á félags- og heilbrigðiskerfi þjóða að aukast vegna minnkandi fæðingartíðni og aukinnar gránunar samfélagsins, eins og það er kallað, þ.e. að hlutfall eldra fólks í samfélaginu eykst. Nýlega var sýndur listi í DV yfir 10 elstu þjóðir í Evrópu, sem betur fer er Ísland ekki enn komið í það ástand, svo enn er tími til að grípa í taumana. Þar var Mónakó allra þjóða elst, með um 22 prósent þjóðarinnar sem eldri borgara, en síðan voru flestar hinar þjóðirnar, hvort tveggja Vesturevrópskar þjóðir ýmsar, svo og í austrinu, þar má nefna Búlgaría, með um 17.5 prósent þjóðarinnar sem eldri borgara.

Víða er fæðingartíðnin orðin mjög lág, jafnvel í hefðbundnum fjölskyldusamfélögum eins og Ítalíu og Spáni, þannig að þessar þjóðir eru langt frá því að endurnýja sig, sem leiðir auðvitað til hlutfallslegrar fjölgunar gamals fólks. Ástandið hérlendis, hvar fjölskyldan hefur verið sterk, þó blikur séu á lofti í þeim efnum líkt og biskupinn, forsetinn og forsætisráðherra hafa bent á, hefur ekki verið mjög slæmt. En nú hefur fæðingartíðnin minnkað niður fyrir 2.1, sem er nauðsynleg tala svo þjóðin endurnýji sig og farið niður í 1.9 barn á konu.

Þetta er ekki einungis slæmt fyrir samfélag okkar, sem sárlega þarf á fjölgun að halda, verandi smáþjóð í stóru landi, heldur er þetta líka slæmt beint fyrir afkomu fólks í landinu til lengri tíma litið. Áhrifin eru kannski ekki jafn bein og á meginlandi Evrópu og hjá þeim sem treyst hafa á bandaríska almannatryggingakerfið þar sem við höfum borið gæfu til að byggja upp öflugt lífeyrissjóðakerfi sem byggir á uppsöfnun réttinda og peninga, sem og að við erum að byrja að byggja upp séreignalífeyrissjóði, hvort tveggja byggir á því að vinnandi fólk á Íslandi leggur fyrir til mögru árana þegar vinnugetan skerðist.

Slíku er ekki að dreifa víðast hvar þar sem þeir sem treysta á velferðarkerfi síns lands fá frá þeim sem eru vinnandi og eru að borga inn í kerfið í dag, það er gegnumstreymiskerfi þar sem engir peningar safnast upp, heldur eru þeir borgaðir út jafnóðum. Þetta leiðir augljóslega til þess vanda að eftir því sem fleiri eru þiggjendur í kerfinu á móti þeim sem borga inn í kerfið verður álagið á þá sem borga inn meira, og í raun jafnvel það mikið að kerfið hefur ekki efni á að borga jafn mikið og þeir ættu með réttu að fá miðað við hve mikið þeir hafa borgað gegnum árin, og miðað við hvað þeir sem þáðu úr kerfinu fengu á meðan hinir borguðu inn í það.

Þetta er t.d. vandamál í Bandaríkjunum þar sem um 40 vinnandi manns voru um hvern einn sem var gamall eða veikur og lifði á kerfinu (social security) þegar Rosevelt kom því á en er núna komið niður í um 3 á hvern einn og stefnir fljótlega í 2 og síðan er ljóst að fljótlega nær kerfið ekki lengur að standa undir sér. Svipaður vandi blasir við víða um heim og er Ísland ekki undanskilið, þó lífeyrismálin séu í betra horfi hér en víðast annars staðar, vegna þess að enn eru inni í almannatryggingakerfinu allur heilbrigiðskostnaður sem og stór hluti öldrunarþjónustu og annar slíkur kostnaður.

Ágætis hugmynd er að nota peningana sem koma úr sölu Landsímans til að komast fyrir þau vandamál sem kerfið stefnir í, þó varla sé það endanleg lausn á þeim vandræðum að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Brýnt er að stöðva þá þróun að sífellt meira af umsvifum og tekjum ríkissjóðs fari í heilbrigðiskerfið og ýmsan bráðavanda sem sífellt virðist vera að koma upp innan þess. Sérstaklega þegar haft er í huga að eftir því sem þjóðin eldist verður álagið á heilbrigðiskerfið, og þá jafnframt ríkissjóð þeim mun meira.

Missir af íslenska sjúkrasamlagakerfinu
Það er óneitanlega missir af gamla íslenska sjúkrasamlagakerfinu og hefðu menn mátt vera íhaldssamari þegar það var lagt niður og frekar bætt ókosti þess, heldur en kasta því algerlega, sérstaklega þar sem núverandi fyrirkomulag ber enga framtíðarlausn í sér.
Enn þarf vinnandi fólk að borga fyrir þá sem eru sjúkir og gamlir eða á annan hátt þyggjendur í kerfinu af eigin launum gegnum skattana og ekki er ríkið að spara þetta
fé launamannsins til notkunar þegar hann þarf á því að halda. Það hafði jú ýmsa ókosti,
svo sem allt of marga og litla sjóði, en þeir hefðu eflaust verið sameinaðir eins og sveitarfélögin sem um þá sáu og þannig orðið færri og sterkari líkt og þau. Einnig var kerfið í raun gegnumstreymiskerfi, þótt víða hafa einhverjir sjóðir eflaust safnast upp,
en annars staðar hugsanlega skuldir myndast.

Helstu kostirnir voru aðskilnaðurinn milli kaupenda og seljenda þjónustunnar, sem og
að áður fyrr meðan kerfið var við lýði var sérstakt sjúkrasamlagsgjald (sjúkrasjóðsgjald) tekið af hverjum manni, og gat þá sérhver launamaður séð á launaseðli sínum hve mikið af sköttum sínum fóru í heilbrigðiskerfið. Nú er það aðhald sem kerfið hafði óneitanlega af þessu horfið inn í botnlaust hyldýpi ríkiskerfisins með því að nú fær heilbrigðiskerfið allt sitt fé úr ríkissjóði. Þessu þarf að breyta, og væri það góð fjárfesting að nota söluhagnaðinn af Landsímanum til að brúa bilið frá núverandi kerfi yfir í uppsöfnunarkerfi með einhvers konar sameignar- og eða séreignasjúkrasjóðssparnaðarfyrirkomulagi. Einn helsti missir af gamla kerfinu fyrir íhaldsmanninn er að auðveldara hefði verið að komast út úr því yfir í einhvers konar tryggingakerfi enda fól það í sér meiri ábyrgð einstaklingsins, hægt hefði verið að leyfa launamanninum að borga frekar tryggingafélagi fyrir alhliða sjúkratryggingu í stað þess að borga í sjúkrasjóð.

Umbætur á almannatryggingakerfum
Bandaríkjamenn eru að fara út í erfiðar aðgerðir til að komast fyrir þann vanda sem kerfi þeirra stefnir í, með umbótum á sjúkrasjóðs- og almannatryggingakerfi sínu sem áhugavert verður að fylgjast með hvernig til tekst, því þótt við séum ekki lengur með sjúkrasjóði, munum við eiga við sama vanda að stríða, hann er bara ekki jafn sýnilegur og því í raun mun hættulegri.

Einn helsti vandinn sem við þeim blasir er að allir þeir umframpeningar sem hingað til hafa komið inn í kerfið hafa að mestu verið notaðir til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum, með öðrum orðum, ríkinu hefur verið lánað þetta fé. Þannig að skuldbindingar ríkisins vegna kerfisins eru orðnar gríðarlegar og þannig er það í raun eins og okkar kerfi er í dag, allt falið undir altumlykjandi huliðshjúp ríkissjóðs og ósundurliðaðrar skattheimtu hans.

Við þurfum að fara að hugsa til framtíðar í þessum málum. Fæstum Íslendingum í yngri kantinum þætti ásættanlegt að þurfa að borga alla ævi sína skatta og gjöld en horfa svo fram á að þegar þeir verða veikir, sem er þeim mun algengara sem menn eru eldri, eða þurfa á ýmissi öldrunarþjónustu að halda að þá verði ekki til nægir peningar til að veita þeim þessa þjónustu. Nú þegar er farið að skera niður hérlendis hvaða þjónusta er veitt án endurgjalds og hvað þarf að borga sértaklega fyrir á öldrunarheimilum til dæmis, sífellt þarf að borga fyrir fleiri hluti beint.

Það þarf að færa kerfið úr því að vera gegnumstreymiskerfi, þar sem vinnandi fólk dagsins í dag borgar fyrir þá sem eru veikir í dag, í uppsöfnunarkerfi ekki ósvipað lífeyrissjóðunum, helst meira í ætt við séreignalífeyrissparnaðinn a.m.k. að einhverju leyti alla vega, líkt og hugmyndir eru um vestanhafs. Þannig mætti komast fyrir þann vanda að með því að þjóðin eldist meira hlutfallslega, verði kerfið meiri byrði á þeim fáu sem verða vinnandi miðað við þá sem verða á lífeyri eða á annan hátt eru þiggjendur í kerfinu. Slíkt uppsöfnunarkerfi myndi auka nauðsynlegan sparnað í þjóðfélaginu en margir hagfræðingar hafa hvatt til aukins sparnaðar hérlendis.

Auðvitað yrði myndun slíks kerfis flókin þó mögulega væri hægt að fá lífeyrissjóðina inn í það og þyrfti ýmis tæknileg útfærsla að koma til svo hægt sé að tryggja að allir hefðu sem víðtækust réttindi til heilbrigðisþjónustu, hvort sem þeir verða veikir snemma eða seint á lífsleiðinni sem og að ríkið þyrfti eflaust að hlaupa undir bagga með þeim sem allra verst hafa það eða samfélagið á annan hátt. Ríkið á einungis að sjá um ákveðið grunnöryggisnet, að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda, ekki að gera almenning að ölmusuþegum í gegnum ríkisrekin heilbrigðiskerfi.

Aukin ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu kemur þjóðfélaginu í heild til góðs
Nauðsynlegt er að auka ábyrgð fólks á eigin heilsu, við vitum sífellt betur nú til dags hvað það er sem við þurfum að gera til að tryggja langlífi og góða heilsu og auðvitað er ekki nema sanngjarnt að sá sem stundar líkamsrækt af kappi, borðar rétt og á annan hátt fjárfestir miklum tíma, vinnu og orku í að halda líkama sínum við, uppskeri af því með minni heilbrigðiskostnað ásamt auðvitað lengra og betra lífi. En umfram allt þarf að aðskilja milli kaupanda þjónustunnar, hvort sem það er einstaklingurinn beint, eða hann í gegnum ríkið eða einhvers konar trygginga eða sjóðafyrirkomulag, og söluaðila, hvort sem þeir eru vegna stærðarhagkvæmni sameinaðir í einn stóran Landspítala á einum stað, eður ei, og nýta þannig kosti einkarekstursins í að veita þjónustuna. Væri ein leið til þess að bjóða út rekstur nýs hátæknisjúkrahúss sem nú virðist á teikniborðinu.

Höskuldur Marselíusarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband