Bloggfærslur mánaðarins, mars 2005
Miðvikudagur, 30. mars 2005
Fóstureyðingar
Um 20% þungana á Íslandi enda í fóstureyðingu. Hér um bil allar fóstureyðingar fara fram frá 6.viku eða síðar, en lang flestar fóstureyðingar eru framkvæmdar fyrir lok 12.viku. Í sumum tilfellum getur verið liðið talsvert mikið lengra á meðgönguna. Strax 6 vikum eftir síðustu blæðingar móður, fjórum vikum eftir getnað, er fóstrið komið með hjarta sem slær og blóð rennur í æðum. Aðal ástæða þess að fóstureyðingar fara yfirleitt ekki fram fyrr en í fyrsta lagi á 6.viku er sú að móðir, sem ekki ætlar sér að verða ólétt, uppgötvar ekki að hún sé þunguð mikið fyrir þann tíma.
Ég mun færa rök fyrir því hér að það sé alla jafna siðferðilega rangt að eyða fóstrum og að þau beri að vernda allt frá getnaði. Ég mun þó ekki leggja fram neinar nákvæmar tillögur til nýrrar löggjafar um fóstureyðingar að svo stöddu, það býður betri tíma.
12 vikna gamalt fóstur
Allir hafa réttinn til lífs, en hvenær öðlast þeir þann rétt?
Það eru allir sammála því að vernda beri rétt manna til lífs. Það er hinsvegar eilíft þrætuepli hvenær fóstur, eða eftir atvikum ófætt barn, sé orðið nógu gamalt til að öðlast þennan rétt til lífs.
Býsna margir í ,,íslenskri net-umræðu hafa sett fram hugmyndir um tímasetningu sem hægt er að miða við í þessum efnum, þó að umræðan hér fari ekki nærri eins hátt og til dæmis í Bandaríkjunum. Í Bretlandi hefur umræðan komist á yfirborðið að meira marki en áður, m.a. vegna mynda sem Stuart Campbell, prófessor, tók til að setja í bók til að fræða verðandi foreldra um þroska barna sinna. Hefur komið í ljós í tengslum við þessar rannsóknir Campbells að jafnvel 11.vikna fóstur séu byrjuð að framkvæma býsna flókna hluti, 12.vikna fóstur hreyfi fætur sína líkt og nýfædd börn gera, 14.vikna fóstur sjúga á sér þumalinn, og ýmislegt fleira mætti tína til. Hefur nú breski Íhaldsflokkurinn gert fóstureyðingar að kosningamáli, og vill þrengja tímaramman sem menn hafa til að láta framkvæma fóstureyðingar.
Það er mjög vandasamt að meta það hvenær fóstur eða ófætt barn er orðið að persónu með réttindi eða orðið það mikil mannvera að ekki megi deyða það með tilliti til þess sem flestir leggja til grundvallar.
Er barn í móðurkviði frekar sjálfstæður einstaklingur á 25.viku en á 19.viku? Er það frekar sjálfstæður einstaklingur á 19.viku en á 13.viku? Felur það sem sumir vilja kalla ,,skilyrðislausan rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama í sér rétt hennar til að deyða ófætt barn, sem á sér jafnaldra meðal yngstu fyririburanna á vökudeild Landspítalans? Menn hafa misjafnar skoðanir á þessu. Sumir vilja miða við þetta og aðrir hitt. Einn segir: ,,Barn öðlast rétt til lífs þegar taugakerfi þess er nokkurn veginn fullmótað, því að þá getur það hugsanlega fundið fyrir sársauka, annar segir: ,,Það öðlast rétt til lífs þegar því er hugað líf utan líkama móður sinnar, því að þá er það í raun sjálfstæður einstaklingur, sá þriðji vill meina að mannlegt líf hefjist við skynjun og meðvitund, og hefur sín heimspekilegu og huglægu rök, og vill að þeim sökum miða við einhvern vissan mánuð, sá fjórði hefur enn aðra skoðun, og rökstyður hana með sínum rökum. Er ekki tímabært að hætta að notast við huglæga kvarða heimspekinnar í þessum efnum sem menn geta deilt um og togað fram og til baka? Hvenær mannslíf verður til er vísindaleg spurning. Það ætti ekki að vera viðfangsefni lögfræðinga, stjórnmálamanna eða heimspekinga að svara því álitamáli, heldur fósturfræðinga. Strax við getnað, þegar eggfruma og sáðfruma mætast og okfruman verður til, hættir eggfruman að vera aðeins hluti af líkama móðurinnar. Strax við getnað hættir sáðfruman að vera til sem slík. Nýtt mannslíf hefur hafist, ný erfðafræðilega einstök mannvera er til.(1) Þetta er svar fósturfræðinnar. (Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þetta atriði nánar geta lesið grein sem heitir When do Human Beings Begin? á heimsiðu félags frjálshyggjumann gegn fóstureyðingum (e.Libertarians for life)) Er ekki betra að losa sig við umdeilanlegar huglægar og tegjanlegar heimspeki vangaveltur og reiða sig á raunvísindin í þessum efnum? Það er um að gera að styðjast við þá einföldu líffræðilegu, óbreytanlegu og hlutlægu staðreynd að mannslífið hefst við getnað. Eftir allt saman eru afleiðingar fóstureyðingar fyrir fóstrið alltaf þær sömu. Hvort sem mér hefði verið ,,eytt strax 6.vikum eftir getnað, drepinn á 6. mánuði meðgöngu, eða 6 mánuðum eftir fæðingu, þá hefði sá aðili sem ,,eyddi mér, tekið mannslíf. Hann hefði komið í veg fyrir að ég gæti skrifað hér grein um fóstureyðingar, haft áhuga á skák, orðið ástfanginn af konunni minni o.s.frv. Þeir sem vilja verja fóstureyðingar benda oft á að hefði mér verið ,,eytt í móðurkviði, þá hefði ég aldrei orðið þess var að ég hefði farið nokkurs á mis, ég myndi einskis sakna. Þetta er ágætis punktur, en hann breytir ekki þeirri staðreynd að ég hefði í raun farið á mis við gersamlega allt. Sá sem svipt hefði mig lífinu með þeim hætti að ,,fóstureyða mér, hefði gersamlega svipt mig öllu sem hægt er að taka.
Margir hafa fært rök gegn því að hægt sé að miða við getnað. Sigurður Hólm Gunnarsson sagði í grein á sinni góðu síðu, skodun.is, að: ,,Ef barn verður til við getnað þá er alveg eins hægt að rökstyðja að í öllum sáðfrumum og öllum eggjum séu ,,verðandi einstaklingar" og því sé það siðlaust að ,,drepa" sáðfrumur og egg.
Þetta tel ég alveg fráleitt. Margir þeir sem segja að mannslíf hefjist við getnað, benda sérstaklega á að sáðfruma sé ekki mannvera, og ekki heldur verðandi mannvera. Það sama á við um eggfrumu. Það er ekki fyrr en sáðfruma og eggfruma hafa komið saman og myndað okfrumu að ný mannvera hefur orðið til. Sáðfruma ein og sér er ekki sjálfstæður og erfðafræðilega einstakur einstaklingur, hvorki verðandi né núverandi. Það er því ekki siðferðislega rangt að drepa sáðfrumu eða egg. Sigurður Hólm væri enginn Sigurður Hólm, hefði hann einungis erfðaefni frá föður sínum, eða einugis frá móður sinni. Við eigum það báðir sameiginlegt að við urðum raunverulega til, þegar að sáðfruman og eggfruman runnu saman í eitt. Fyrir þann tíma vorum við ekki til, og því var ekki hægt að drepa okkur.
Er bann við fóstureyðingum eitt af tækjum karla til að kúga konur?
Ég vil nota smá rúm hér til að tjá mig um þau klassísku rök að konan eigi að fá að ráða yfir eigin líkama, og að bann við fóstureyðingum sé eitt af kúgunartækjum karla. Ég hef áður útskýrt hvers vegna ég telji að ekki sé hægt að líta þannig á að fóstrið sé einungis hluti líkama móðurinnar. Konur eiga að ráða yfir eigin líkama, svo framarlega að þær skaði ekki aðra, þar með talið sín eigin afkvæmi. Varðandi það hvort að bann við fóstureyðingum sé tæki í þágu karla til að kúga konur þá vil ég benda á að karlar eru frekar andvígir banni á fóstureyðingum en konur ef marka má skoðanakönnun sem Gallup gerði árið 2001.
Í grein á heimasíðu Vinstri-grænna las ég efirfarandi: Þrenging eða jafnvel algert bann á réttinum til fóstureyðingar er eitt mikilvægasta vopn karlveldisins til þess að hafa fulla stjórn á konum og kynlífi þeirra.
Það kann að vera að það gerist að karlmenn kúgi konur til að fara ekki í fóstureyðingu og neyði þær til að eiga börn og er það miður.
En hversu oft ætli að hið gagnstæða gerist, að kona sem vill eiga barn, sé neydd í fóstureyðingu af karlmanni, og hún svipt þeim rétti að fá að fæða barn sitt. Er það ekki líka kúgun? Það gerist eflaust oft að verðandi móður er beitt þrýstingi af barnsföður sínum til að fara í fóstureyðingu. Hann telur barneign ekki tímabæra, vill ekki þurfa að sjá fyrir barni, er giftur annari konu og vill ekki að það fréttist að hann hafi tvær í takinu, eða hefur einhverja aðra ástæða til að vilja ekki eignast barn.
Viðkomandi konu langaði að eignast barnið, en var töluð til, og fór í fóstureyðingu. Væri bann við fóstureyðingum ekki til þess fallið að verja slíkar konur? Þarf bann við fóstureyðingum endilega að vera konum almennt til ills? Hefur einhver gert rannsókn á því hvort er algengara, að karlmaður beiti konu þrýstingi til að fara í fóstureyðingu, eða fara ekki í fóstureyðingu? Hvað sem því líður, þá mætti til dæmis, samfara því að rétturinn til fóstureyðinga væri þrengdur, gera sérstakt átak til að gera feður undir erfiðum kringumstæðum ábyrga, því að oft hvílir allt ,,vandamálið á móðurinni, meðan að orsök ,,vandamálsins liggja auðvitað hjá föðurnum, að minsta kosti til jafns við móðurina.
Erfiðu málin
Ég skil vel hvers vegna konur kjósa að fara í fóstureyðingu þegar að getnaður á sér stað vegna nauðgunar. Einnig skil ég vel slíkt val ef að móðirin er í lífshættu. Ég vil þó benda á þetta veggspjald hér frá Feminists for life (félag feminista gegn fóstureyðingum) til umhugsunar varðandi fóstureyðingar vegna nauðgana.
Varðandi fóstureyðingar vegna erfðagalla í fóstri, að þá finnst mér menn fara full geyst. Ég heyrði sagt frá íslenskri konu um daginn sem að á sínum tíma var sterklega ráðlagt að eyða fóstri sínu vegna litningagalla. Hún hugsaði málið og ákvað að gera það ekki. Eftir að barnið fæddist kom í ljós að gallinn reyndist aðeins vera sá að augu barnsins voru ekki eins á litin, að öðru leyti var í lagi með barnið. Menn eru býsna duglegir við það að leita að erfðagöllum. Dæmi eru um það að börn fæðist með áverka eftir legvatnsstungur og þær geta líka framkallað fósturlát. Þessi viðleitni til að tryggja að allir séu allheilir og fullkomnir með því að tortíma þeim sem eru líklegir til að verða ,,byrði, er farin að minna mig á viðleitni Hitlers til að byggja upp hinn fullkoma kynstofn. Hér er skemmtilegt veggspjald frá Feminists for Life til að skoða varðandi það hvort að eyða eigi fóstrum vegna litningagalla.
Þess má geta að í Bandaríkjunum er aðeins um 1% allra fóstureyðinga framkvæmdar vegna nauðgana eða sifjaspella, 1% vegna þess að fóstrið sé ,,gallað og 3% vegna þess að líf móðurinnar hafi verið í hættu. Ég veit ekki hvernig þessu er háttað hér. Hinsvegar hlýtur það að liggja ljóst fyrir að ef um 20% þunganna enda með fóstureyðingu, að þá hafa menn ekki alltaf viðunandi afsökunarástæður.
Nánari lesningu er hægt að nálgast til dæmis á síðu Libertarians for Life (Frjálshyggjumenn gegn fóstureyðingum)
Sindri Guðjónsson
(1) Moore, K. and T.V.N. Persaud. 1998. The Developing Human: Clinically Oriented Embryology (6th ed.), W.B. Saunders Company, Philadelphia, blaðsíða 2-18. Larsen, W.J. 1998. Essentials of Human Embryology, Churchill Livingstone, New York, blaðsíða. 1-17. O'Rahilly, R. and F. Muller. 1996. Human Embryology & Teratology, Wiley-Liss, New York, blaðsíða. 5-55.
Mánudagur, 28. mars 2005
Mánudagspósturinn 28. mars 2005
Jæja, þá er Bobby Fischer kominn til Íslands. Ég hef fjallað nokkrum sinnum áður um mál hans hér á Íhald.is og lýst þeirri eindregnu skoðun minni að engan veginn hafi verið ástæða fyrir íslenzk stjórnvöld að veita honum íslenzkan ríkisborgararétt. Ég er auk þess ansi hræddur um að sá gjörningur eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Ófáir sögðu, þegar fyrir lá að Fischer kæmi til landsins, að þeir vonuðust til þess að hann myndi róast við það að koma til landsins og hann myndi hætta þeim svívirðilegum yfirlýsingum sínum um Bandaríkin og gyðinga sem hann er alræmdur fyrir og sem hann hefur viðhaft um árabil. Flestir hafa þó án efa gert sér grein fyrir að slíkar vonir voru í bezta falli byggðar á barnaskap enda litlar líkur á að Fischer róaðist við það eitt að koma til Íslands.
Enda hefur það sannast að ekkert hefur breyzt í þeim efnum nú þegar Fischer er kominn til landsins. Yfirlýsingagleðin er sú sama og hatur hans á gyðingum og Bandaríkjunum hefur ekki minnkað. Blaðamannafundur Fischers á Hótel Loftleiðum, daginn eftir komuna til Íslands, sýndi það svo um munaði. Fyrir vikið eru nú uppi vangaveltur um það hvort ummæli hans þar um gyðinga hafi hugsanlega verið brot gegn almennum hegningalögum. Hefur jafnvel formlega verið farið þess á leit við embætti Ríkislögreglustjóra að ummæli Fischers verði rannsökuð. Virðist það mál vera að vinda upp á sig og á eftir að koma í ljós hvert framhald þess verður. Verst er kannski að þetta er ekkert sem ekki mátti eiga von á og furðulegt ef ekki hefur verið gert ráð fyrir því að þessi staða kynni að koma upp.
Ég vil annars taka undir með Agli Helgasyni og fleirum um að fróðlegt væri að sjá vísindalega skoðanakönnun um afstöðu Íslendinga til þeirrar ákvörðunar að veita Fischer íslenzkt ríkisfang. Nú er ég ekki talsmaður þess að íslenzk stjórnvöld eigi að dansa eftir því hvað skoðanakannanir segja. Hins vegar væri gerð slíkrar könnunar áhugaverð í ljósi þess að sumir hafa víst viljað meina að ákvörðun stjórnvalda njóti almenns stuðnings hér á landi. Ég leyfi mér að efast um það. Annars er það eiginlega furðulegt að ekki hafi verið gerð slík könnun ennþá miðað við þá umfjöllun sem þetta mál hefur fengið undanfarnar vikur og mánuði.
Vil að lokum benda á áhugaverðar umfjallanir Stefáns Friðriks Stefánssonar um málið á vef hans www.stebbifr.com.
---
Fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að um helmingur þeirra, sem fengu úthlutað árslaunum úr Launasjóði myndlistarmanna í ár, séu í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna eða í sambúð með meðlimum úthlutunarnefndarinnar. Var listamannalaunum úthlutað fyrir rúmum mánuði síðan og sóttu meira en 230 um laun myndlistarmanna en aðeins 30 voru í boði. Vakti athygli að úthlutunarnefndin veitti þremur stjórnarmönnum úr SÍM laun, en það voru einmitt þeir menn sem skipuðu í úthlutunarnefndina. merkileg tilviljun. Þessum þremur stjórnarmönnum voru veitt árslaun en tíu slík voru til skiptanna. Þá veitti úthlutunarnefndin eiginmanni formanns stjórnarinnar laun til sex mánaða og þar að auki var sambýliskonu eins meðlima úthlutunarnefndarinnar úthlutað launum til eins árs. Það par hefur reyndar fengið árslaun til skiptis síðastliðin þrjú ár.
Ef það er ekki eitthvað gruggugt við þetta og rúmlega það þá veit ég ekki hvað. Steininn tók síðan úr þegar formaður SÍM (eiginmaður hennar fékk úthlutað listamannalaunum í hálft ár eins og áður segir) reyndi að beina athyglinn frá þessu með því að væna Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra, um að hafa reynt að hafa áhrif á ákvörðun úthlutunarnefndarinnar og mælast til þess að einum umsækjanda væri veitt listamannalaun. Hvers vegna var formaðurinn að nefna Guðna til sögunnar annars en til að beina athyglinni frá eigin þætti í málinu? Var þessi tilraun vægast sagt lágkúruleg og sýndi enn frekar þá spillingu sem ekki verður betur séð en að þrífist við úthlutun listamannalauna.
Það er annars auðvitað löngu orðið tímabært að afnema listamannalaunin sem slík og þetta mál sýnir það enn betur en áður. Það er ekki ríkisins að ákveða hverjir séu listamenn og hverjir ekki, eða hverjir séu betri listamenn en aðrir, né einhverra aðila á þess vegum. Það er almenningur sem ákveður það með því að fara á myndlistasýningar þeirra sem það eiga skilið og með því að kaupa verk þeirra.
---
Málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands eru enn komin á dagskrá. Ég hef áður ritað grein hér á Íhald.is um mál hennar. Sem kunnugt er ákváðu stjórnvöld að eyrnamerkja ekki skrifstofunni fast framlag á fjárlögum eins og áður umfram aðra aðila hér á landi sem starfa að mannréttindamálum. Þetta var ákveðið í framhaldi þess að Mannréttindaskrifstofan rifti samningi við stjórnvöld þar um fyrir rúmu ári síðan. Þess í stað ákváðu stjórnvöld að gefa öllum aðilum, sem starfa að mannréttindamálum hér á landi, jafna möguleika á að sækja um þennan styrk. Nú eru forsvarsmenn Mannréttindaskrifstofunnar hisn vegar æfir yfir því að dómsmálaráðuneytið hafi ákveðið að styrkja ákveðin verkefni á hennar vegum um rúmar 2 milljónir króna en ekki öll.
Spurningin er hins vegar þessi: Síðan hvenær ber dómsmálaráðuneytinu yfir höfuð að styrkja starf félagsskaparins Mannréttindaskrifstofu Íslands? Staðreyndin er sú að ráðuneytinu ber einfaldlega engin skylda til þess og hefur fullt vald til að ákveða hvað það styrkir og hvað ekki í þeim efnum. Þetta mál allt sýnir vel þá ótrúlegu heimtufrekju sem ósjaldan gerir vart við sig þegar ýmsir einkaaðilar, eins og Mannréttindaskrifstofan, telja sig eiga heimtingu á fjárframlögum úr vösum skattgreiðenda og fara svo í fýlu ef ekki er allt eftir þeirra höfði.
Bendi á góða umfjöllun Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um málið á heimasíðu hans Björn.is.
---
Greint var frá því í Ríkissjónvarpinu að svört atvinnustarfsemi, þar sem útlendingar eru fengnir í vinnu hérlendis án réttinda, hafi blómstrað á höfuðborgarsvæðinu eftir að Íslendingar urðu aðilar að Schengen-samstarfinu. Þetta kemur þó mér ekki beint á óvart enda hef ég gagnrýnt aðild Íslands að Schengen sem er ekkert annað en aðild að vandamálum og vitleysu.
---
Bendi að lokum bæði á áhugaverða páskapredikun hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, og fróðlegan pistil á vefritinu Andríki.is þar sem fjallað er m.a. um stöðu kristinnar trúar, kristinfræðikennslu í grunnskólum, fjölmenningu og fleira.
Hjörtur J. Guðmundsson
Föstudagur, 25. mars 2005
Hættum að snuðra í einkamál annarra
Lagt hefur nú verið fram á þingi, frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu felst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu eru fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Rökin að baki frumvarpinu eru nokkur en þau eru einna helst þau að telja verður að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru án vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari.
Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hafi á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Þar að auki er minnt á að með niðurfellingu kæruheimildar gjaldenda vegna skattákvörðunar þriðja manns hafi forsendur að baki framlagningu skattskráa einstaklinga brostið. Frumvarpið mun ekki fela í sér að dregið verði úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er veitt í núverandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti, bregðast við undanskotum frá skatti eða til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um. Frumvarpið gerir ekki síst ráð fyrir því að núverandi eftirlit verði eftir sem áður í höndum skattyfirvalda. Verði frumvarpið að lögum ljúki hinsvegar einkaskattrannsóknum borgaranna hvers á öðrum.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Að mínu mati eiga viðkomandi þingmenn mikið hrós fyrir að stíga þetta skref og vinna í takt við stefnu flokksins í þessum efnum. Sérstaklega hrósa ég þeim þó fyrir að leggja áherslu á þetta baráttumál ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára. Það hefur mjög lengi verið stefna SUS að þessi breyting verði gerð á. Það er okkur ungliðum, rétt eins og flokkmönnum almennt, ánægjuefni að frumvarpið hafi verið lagt fram. Er Sigurður Kári mælti fyrir frumvarpinu fór hann yfir grunn þess í ítarlegri ræðu og kynnti það vel. Að lokinni ræðu Sigurðar Kára var fróðleg umræða um málið.
Var mjög merkilegt að kynna sér afstöðu þingmanna til þess.
Sérstaklega fannst mér merkilegt að heyra skoðanir Ögmundar Jónassonar. Snerist hann öndverður gegn áætluðum breytingum og talaði af krafti gegn þeim. Var merkilegt að sjá þetta gamla og úrelta forræðishyggjuhjal hjá Ögmundi. Ekki er hægt að segja að tal hans sé nýtt af nálinni. Forræðishyggja Ögmundar og annarra þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er fyrir löngu orðið landsþekkt og þarf vart að hafa um það mörg orð. En það er vissulega mjög fyndið að sjá grunn VG og vinstrikreddur opinberast með svo galopnum hætti. En Ögmundur er og verður forræðishyggjumaður, það breytist ekki svo glatt eins og við vitum öll sem fylgjumst með honum, flokknum og þeim sem sitja í umboði hans á löggjafarþinginu.
Fleiri vinstrisinnaðir þingmenn komu í pontu og tóku undir málflutning Ögmundar eða grunnstef hans: semsagt að það komi fólki úti í bæ við hvað Jón Jónsson verkamaður í Breiðholtinu, eða Jón Jónsson athafnamaður í Grafarvogi, er með í laun. Þetta er grunnpunktur vinstrimanna virðist vera að það sé málefni almennings hvað næsti maður hafi í laun eða vilji svala forvitni sinni með því að vita allt um hagi viðkomandi að þessu leyti. Ég og við sjálfstæðismenn almennt segjum að þetta gangi ekki upp. Þetta frumvarp er sett fram umfram allt til að fá umræðu um málið og vonandi leiða til þess að tekin verði upp önnur vinnubrögð og annað fyrirkomulag taki við. Þetta frumvarp er mikilvægt og sett fram sem grunnpunkt í mikilvægt prinsippmál: það að almenningur hafi sín lykilmál, tekjugrunn sinn sem sitt einkamál.
Eða það er mitt mat og okkar sjálfstæðismanna. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn þessu og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík. Þessir gamaldags vinstrimenn ættu að taka af sér hofmóðugu gleraugun og horfa fram fyrir sig án þeirra. Það gæti orðið þeim gæfuleg ákvörðun. Ekki veitir þeim af að hugsa málið frá öðrum forsendum og frá öðrum grunni beint. Ég tek bara undir orð Sigurðar Kára í umræðunni: "Við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað náunginn í sama stigahúsi og við er með í laun." Það er því verðugt verkefni okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega okkar ungra sjálfstæðismanna að kalla til Ögmundar og félaga hans í forræðishyggjunni: komið þið inn í framtíðina, ekki veitir ykkur af!
Stefán Friðrik Stefánsson
Miðvikudagur, 23. mars 2005
Leikskólar eru ekki og verða ekki ókeypis
Í síðustu viku skrifaði ég grein sem fjallaði í meginatriðum um það hvernig ýmsir aðilar gera í sífellu kröfu á ríkissjóð um að ríkið borgi fyrir hin og þessi áhugamál manna.
Einnig kom fram í greininni að þeir sem kvarta hvað mest undan sífelldum erfiðleikum í rekstri eru sveitastjórnarmenn sem reka sveitafélögin.
Það er virðist vera skrítið mál hvernig sumir sveitarstjórnarmenn reka sveitafélögin sín. Á meðan Akureyrarbær skilar hagnaði af rekstri sínum aukast skuldir Reykjavíkurborgar stöðugt. Hafa ber í huga að Akureyrarbær er ekki að fullnýta ,,rétt sinn með fullu útsvari sem er 13,03%. Það gerir Reykjavíkurborg hins vegar. Borgin hækkaði útsvar sitt í hámark s.l. áramót til að greiða mætti niður skuldir og einfaldlega fá meiri pening inn í rekstur borgarinnar. Eða þannig var það allavega kynnt okkur borgarbúum.
Hér er hægt að athuga tvennt. Af hverju getur Akureyrarbær skilað afgangi af rekstrarfé sínu en ekki Reykjavík? Nú hefði maður haldið að þessu væri öfugt farið þar sem Reykjavíkurborg, með R-listann í fararbroddi (og Steinunni Valdísi í afturtogi), er að fá eins mikið fjármagn og mögulegt er frá einstaklingum og hefur nú nýlega samið við ríkið um að það greiði fasteignaskatt til borgarinnar sem er töluvert fjármagn.
Þegar útsvarið var hækkað um áramótin talaði forseti borgarstjórnar um að tekjur borgarinnar myndu aukast um 900 milljónir á ári. Nú með samingum við ríkið munu tekjur borgarinnar aukast um 690 milljónir á ári. Já, borgin er s.s. að fá rúmlega einn og hálfan milljarð í ,,aukatekjur árlega.
Nú hefði maður gert ráð fyrir því að fjármagn þetta yrði notað til að borga niður þær skuldir sem R-listinn hefur á undanförnum áratug safnað á herðar borgarbúa. Það var jú eins og áður sagði meginforsendan fyrir því að hækka útsvarið. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Í staðinn birtist frétt í síðustu viku um að nú ætlaði borgin að auka enn útgjöld sín. R-listinn virðist nefnilega líta þannig á að þegar tekjur borgarinnar hækki þurfi útgjöldin líka að hækka. Þannig hefur borgin jú verið rekin síðan 1994.
Þetta er nú reyndar ekki alveg rétt hjá mér þannig að ég þarf að bakka með þessa yfirlýsingu mína, þ.e.a.s. að borgin sé fljót að hækka útgjöldin þegar tekjurnar hækka. Það jú víst þannig að útgjöldin hækka bara þegar borgarfulltrúa-elítunni hentar. Þannig hafa menn ekkert sett fyrir sig að stofna til ýmissa gæluverkefna og útgjaldaaukninga þegar þeim sýnist.
Ókeypis leikskólar?
En allavega, snúum okkur að nýjasta útgjalda-útspili borgarinnar. Nú er rúmlega ár í kosningar og R-listinn þarf að hressa upp á ímynd sína. Þannig að nú ætlar borgarstjórn að gefa barnafólki ókeypis pössun allt að sjö tíma á dag. Einhverra hluta vegna telur Steinunn Valdís, sitjandi borgarstjóri R-listans, að fjármál borgarinnar séu í það góðum farvegi að hægt sé að eyða 850 milljónir króna aukalega til að greiða niður leikskólagjöld. En það er nokkuð við þetta að athuga.
Í fyrsta lagi er ekki ,,leikskólaskylda í landinu. Þannig að það er ekki talið nauðsynlegt að börn séu í leikskóla eins og það er talið nauðsynlegt að þau séu í skóla. Það er jú skólaskylda í landinu og þar er á herðum sveitafélaga að standa að rekstri skólanna. Gott og vel.
Það kann að líta vel út fyrir brotinn R-lista að ætla nú að gera vel við barnafólk. En hins vegar er R-listinn þarna að setja auka útgjöld á herðar borgarbúa. Það er ekki sjálfsagt mál að borgin borgi niður leikskólagjöld. Hvað með þá foreldra sem kjósa að vera heima með börnum sínum? Eiga þeir foreldrar ekki jafnmikinn rétt á þessu fjármagni? Er það síðri uppeldisaðferð en að setja börnin á leikskóla? Er ekki sanngjarnt að öll börn séu sett undir sama hatt, bæði þau sem fara á leikskóla og þau sem eru heima? Og hvað með fólkið sem ekki á börn? Af hverju eiga allir borgarbúar að borga undir leikskólapláss barna?
Og annað. Leikskólar eru ekki og verða ekki ókeypis. Þar er alltaf einhver sem borgar. Þó svo að R-listinn sé með þessu útgjaldaspili sínu að reyna að kaupa atkvæði fyrir næstu kosningar þá kemur þetta til með að kosta mikið af peningum eins og áður hefur komið fram. Það er alltaf kostulegt þegar ráðamenn (í þessu tilviki R-listinn) segir við fólk að það sé að fá eitthvað ókeypis.
Barnafólk er ekkert að fá þessa þjónustu ókeypis.
Það er ekki samfélagsskylda borgaranna að borga leikskólapláss fyrir barnafólk. Það má vel vera að það líti vel út að fólk fái frítt leikskólapláss og þeir þurfi að vera leiðinlegir sem mótmæla þessu. En staðreynd málsins er sú að þetta kostar peninga sem skattborgarar eiga ekki að vera skyldugir til að greiða. Það er ekki skylda okkar sem borgum hámarksútsvar í Reykjavík að borga upp ímynd R-listans. Þarna er illa farið með peninga sem hægt væri að eyða í allt annað. Og helst að eyða þeim alls ekki, nema þá að borga upp skuldir. Það eru jú þessir krakkar sem nú eru og verða í gjaldfrjálsum leikskóla sem þurfa síðan að borga þær skuldir sem yfirmenn Steinunnar Valdísar hafa safnað á s.l. áratug. Kannski að það þurfi að senda núverandi borgarstjórn á fjármálanámskeið hjá Akureyrarbæ.
Málefnaleg Steinunn Valdís
Ég er ekki sá eini sem gagnrýni þetta nýjasta útspil R-listans. Bæði fjármálaráðherra og aðrir sveitastjórnarmenn hafa gagnrýnt þetta.
S.l. vikur og mánuði hafa átt sér stað samningaviðræðum milli ríkis og sveitafélaga um tekjuskiptingu þessa tveggja aðila. Mikil vinna hefur farið í þetta en svo virðist sem helsta krafa sveitafélaga sé að fá að hækka útsvar sitt mun meira en nú er heimilt. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin ekki heimilað það.
Sveitastjórnarmenn gagnrýna borgarstjórnina fyrir að greiða niður leikskóla af því að það geti ekki allir fylgt þessu eftir og gert það sama. Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Þeir eru nú fúlir af því að þeir hafa ekki sömu möguleika á að veita þessa þjónustu. Það er auðvitað bara hið besta mál. Þarna hafa önnur sveitafélög fullkomið tækifæri til að fara ekki að fordæmi borgarstjórnar Reykjavíkur. Þarna er fullkomið tækifæri til að eyða ekki meiri peningum skattgreiðenda.
Sú gagnrýni sem helst er varið í er gagnrýni fjármálaráðherra á R-listann.
Geir H. Haarde segir m.a. ,, ... að þetta væri vægast sagt hið furðulegasta mál. Gert hefði verið samkomulag í tekjustofnsnefnd um fullkomlega einhliða tilfærslu mikils fjármagns frá ríki til sveitarfélaga. Hugmyndin hefði verið sú, að þessum peningum væri varið til að mæta þörfum þeirra sveitarfélaga sem standa höllustum fæti fjárhagslega.
Borgarstjóri Reykjavíkur hefði hins vegar ekki getað á sér setið og byrjað að eyða þeim hluta fjármagnsins, sem ætti að renna til Reykjavíkurborgar. Inni í þessum pakka sé, að ríkið hæfi að greiða fasteignagjöld af fasteignum sínum og ljóst væri, að borgin teldi sig nú hafa meira svigrúm, fjárhagslega, en hún hefði haft fyrir samkomulagið.
Og hvernig bregst Steinunn Valdís við?
Jú. á bls. 4 í Fréttablaðinu í dag er haft eftir henni: ,,Ég kippi mér ekki upp við það þó fjármálaráðherra taki eitthvert geðvonskukast. Já, málefnaleg hún Steinunn.
Það má s.s. alls ekki gagnrýna hana eða vinnubrögð R-listans.
Þá eru menn bara að taka ,,geðvonskukast.
Það er ekkert skrítið að fjármálaráðherra komi með þessa gagnrýni. Hann er einn af þeim sem þarf að hlusta á vælið þegar sveitastjórnarmenn biðja um meiri pening. Hann hefur greinilega gefið Reykjavíkurborg mikið eftir og áður en sólin er sest hefur borgarstjórn ákveðið að eyða öllu í einhverja vitleysu. Ef einhver gagnrýnir vinnubrögð Steinunnar Valdísar getur hún ekki svarað til baka á málefnalegan hátt. Það er fjöldi manns (m.a. Geir H. Haarde) sem fara vel með það sem skattgreiðendur borga. Það hefur R-listinn hins vegar ekki gert og ætlar sér aldrei að gera. Steinunn Valdís ætti að sjá sóma sinn í því að biðja fjármálaráðherra afsökunar á þessum orðum. Hún minnir á óþroskaðan ungling sem ekkert hefur til síns máls nema að kalla menn nöfnum.
Gísli Freyr Valdórsson
Mánudagur, 21. mars 2005
Mánudagspósturinn 21. mars 2005
Sú ákvörðun alsherjarnefndar Alþingis að mæla með því að þingið veiti Bobby Fischer íslenzkan ríkisborgararétt er að mínu mati algerlega út í hött. Forsendurnar fyrir þeirri ákvörðun eru í raun engar og alls ekki nægar til að stofnað verði til einhverrar sérmeðferðar í þessu tilfelli. Ég hef alltaf haft vægast sagt miklar efasemdir um að réttlætanlegt sé að t.d. ýmsum erlendum íþróttamönnum sé veittur íslenzkur ríkisborgararéttur með það fyrir augum að þeir keppi fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi. Ég tel það afar hæpnar forsendur og að almennt séð eigi eitt einfaldlega að ganga yfir alla í þessum efnum eins og öðrum. Ekki er réttlætanlegt að sumir fái slíka sérmeðferð af hálfu hins opinbera sem öðrum stendur ekki til boða.
Staðreyndin er sú að Bobby Fischer uppfyllir einfaldlega ekki þau almennu skilyrði sem sett eru fyrir veitingu íslenzks ríkisborgararéttar og er raunar langt frá því. Það væri strax annað ef hann ætti íslenzka konu eins og raunin var með Vladimir Azhkenazy, hljómsveitarstjóra, á sínum tíma. Tengsl Fischers við Ísland eru hins vegar í raun sama og engin. Jú, hann á vissulega góðan vin hérna, Sæmund Pálsson, en það sama gildir sjálfsagt um ófáa einstaklinga erlendis og er vart ávísun á veitingu íslenzks ríkisborgararéttar. Og jú, hann háði ennfremur skákeinvígi hér á landi árið 1972 við Boris Spassky sem var óneitanlega mikil auglýsing fyrir Ísland erlendis.
Hins vegar er raunin sú að Fischer vildi ekki há einvígið á Íslandi heldur í Júgóslavíu. Spassky vildi hins vegar að einvígið færi fram hér á landi. Var tvísýnt um hríð hvernig það mál færi og var ekki fyrr en að sigurlaunin voru tvöfölduð sem Fischer lét til leiðast og samþykkti að tefla hér. Það að einvígi aldarinnar skyldi fara fram hér á landi 1972 var því svo langt því frá Fischer að þakka. Við skuldum honum ekki nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum. Ef við ættum að þakka einhverjum fyrir það þá er það Spassky.
Ísland sem slíkt skiptir Fischer augljóslega engu máli. Mér skilst að sl. haust, þegar hugmyndin kom upp um það að íslenzk stjórnvöld gætu hugsanlega hlutast til um mál hans með einhverjum hætti, hafi hann hafnað því og sagt að hann vildi ekki koma til Íslands m.a. vegna þess að hér væri alltof kalt. Þá hefur hann hugsanlega verið að vonast til þess að einhver önnur ríki myndu bjóðast til beita sér í máli hans. Ennfremur hefur komið fram að Fischer hafi sagt að hann myndi aldrei koma hingað til lands á meðan hér væri bandarísk herstöð. En það er greinilega komið annað hljóð í strokkinn núna.
Ef Ísland skipti einhverju máli í huga Fischers hefði hann án efa komið oftar til landsins en einu sinni fyrir rúmum 32 árum síðan. Mikil áherzla hefur verið lögð á viðskap þeirra Sæmundar og Fischers undanfarna mánuði og hefur dramatíkin í kringum það á stundum verið ansi mikil. Furðulegt er í því ljósi að þeir félagar skuli ekki hafa hizt í rúm 32 ár þrátt fyrir að tækifærin hafi klárlega verið til staðar. Allavega hefði Fischer verið í lófa lagið að hitta Sæmund á þeim tuttugu árum sem liðu frá einvíginu 1972, þegar þeir kynntust, og fram til ársins 1992 þegar Fischer braut gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna á Júgóslavíu með þátttöku í öðru skákeinvígi við Spassky.
Sem kunnugt er er þetta mál allt í kringum Fischer tilkomið vegna brots hans gegn viðskiptabanninu á Júgóslavíu sem m.a. náði yfir íþróttaviðburði. Fyrir einvígið var Fischer varaður við því með formlegum hætti af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að þátttaka í skákmótinu væri brot gegn viðskiptabanninu en hann mun hafa haft það að engu og svarað með því að hrækja á bréfið frá ráðuneytinu á blaðamannafundi. Í framhaldi af því gáfu bandarísk stjórnvöld út ákæru á hendur Fischer. Það er því alveg ljóst að hann vissi vel hvað hann var að gera og hvað hann var að biðja um.
Fólk getur haft sína skoðun á því hvort rétt hafi verið að viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna næði yfir íþróttaviðburði eða hvort bannið hafi átt rétt á sér yfir höfuð. En það breytir ekki þeirri staðreynd að Fischer braut klárlega gegn því og hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Hann verður því einfaldlega að taka afleiðingum gjörða sinna eins og allir aðrir. Svo einfalt er málið.
Hægt væri að fjalla í mun lengra máli um það hversu fáránleg ákvörðun alsherjarnefndar er og á hversu vægast sagt hæpnum forsendum hún er byggð ef forsendur skyldi kalla. Skoðanir Fischers eru t.d. alveg sérstakur kafli út af fyrir sig. Þegar árásin var gerð á Tvíburaturnana í New York árið 2001 mun hann t.a.m. hafa fagnað og svívirðileg ummæli hans um gyðinga eru fyrir neðan allar hellur svo eitthvað sé nefnt.
En málið er þó ekki búið enn og verður fróðlegt að vita hvert framhald þess verður.
Hjörtur J. Guðmundsson
Föstudagur, 18. mars 2005
Þjakaðir, veikir og píndir
Íslendingar eru veikir, þjakaðir og píndir, og ástandið versnar dag frá degi, og er það valdnýðslu og einræðistilburðum núverandi stjórnvalda að kenna, ef marka má bakþanka fréttablaðsins í dag. Súsanna Svavarsdóttir skrifar þar sorgar pistil sem heitir ,,Slímseta guðanna. Þar heldur hún ýmsu vafasömu fram. Það er eitt atriði sem ég vill sérstaklega taka fyrir. Súsanna kvartar yfir því að ríkisstjórnin hendi yfir okkur nýjum sköttum að geþótta, og nefnir sem dæmi væntanlegan nefskatt sem á okkur verður settur í þágu RÚV.
Nú vill svo til að núverandi ríkisstjórn hefur verið að lækka skatta, en ekki hækkað þá. Einnig er hún að afnema skatta, svo sem eins og eignaskattinn, sem fór hæst í 2,95% í valdatíð skattmannsins. (Einnig þekktur sem Ólafur Ragnar Grímsson, sem einnig átti stóran þátt í að koma á hinum alræmda matarskatti.)
Kemur það sérstaklega öldruðum til góða að eignarskatturinn sé lagður niður, þar sem þeir hafa oft litlar tekjur, en eiga hinsvegar sín eigin hús. Einnig er til dæmis búið að lækka erfðarfjárskatt úr allt að 45% í 5%. Ljóst er að bæði erfðafjárskattur og eignaskattur eru ósanngjarnir skattar, þar sem áður hafa verið borgaðir skattar af því sem látið er í arf, og menn borguðu skatta á þeim tíma sem eignamyndun þeirra átti sér stað. Nefskatturinn sem Súsanna nefnir sérstaklega sem dæmi um skattagleði ríkisstjórnarinnar kemur í staðinn fyrir afnotagjöld RÚV, og eftir því sem ég best veit verður sá skattur ekkert þungbærari en afnotagjöldin sem hann leysir af hólmi. Nú er verið að vinna að því að hækka barnabætur um 2400 milljónir, endurgreiðsluhlutfall námslána frá LÍN hefur verið lækkað, tekjuskattur hefur verið að lækka, og mun halda áfram að lækka. Persónuafslátturinn mun hækka um 8% til árins 2007, og skattleysismörk fara hækkandi, já núverandi ríkisstjórn er að ganga að okkur dauðum!
Eitt skemmtilegt dæmi hér í lokin varðandi skattamál.
Fyrir nokkru átti ég í rökræðum við vinkonu mína sem er vinstri sinnuð. (ein af þessum óháðu vinstrimönnum, og kýs Vinstri-græna eða Samfylkinguna eftir því sem við á hverju sinni.) Ég sýndi henni hvað ríkisstjórnin væri að gera í skattamálunum.
Hún sagði; ,,já já, þetta er voðalega flott, en það er eins gott að þeir standi við þetta. Ég er voða hrædd um að þeir geti breytt þessu með einu penna striki og hætt við þetta allt.
Það sem er grátbroslegt við þessa yfirlýsinga hennar er að flokkarnir sem hún styður, eru á móti þessum skattalækkunum. Þannig að ef svo illa vill til að ríkisstjórnin skipti um skoðun og hætti við að lækka skatta, þá væri það einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hefði tekið undir málstað flokkanna sem vinkona mín styður.
Já, það er stundum auðvelt að tala sig í hring.
Sindri Guðjónsson
Miðvikudagur, 16. mars 2005
Hvers virði er ríkissjóður?
Næstum daglega heyrist krafa einhversstaðar að úr þjóðfélaginu um að ríkið skuli koma að hinum og þessum verkefnum og áhugamálum landsmanna. Það er því ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvaða kröfu landsmenn hafa á ,,sjóðinn og í framhaldi af því hvaða takmörk eigi að setja þeim sem stjórna ,,sjóðinum í hvert skipti þ.e.a.s ríkisstjórnin og yfirvöld. Hafa skal í huga að þegar er talað hér um ,,sjóðinn er líka átt við opinbera fjármuni sveitafélaga.
En hvað ber ríkinu skylda til að borga? Hvað er svo áríðandi og nauðsynlegt að það þurfi að taka peninga af fólki til að uppfylla óskir einstakra aðila eða þrýstihópa? Hver getur ákveðið hvað á að borga og hversu mikið?
Mikið hefur verið skrifað um þessi mál síðastliðin ár og erum það við hægri menn sem höfum viljað takmarka útgjöld ríkisins til sérhagsmunahópa og áhugamanna um ýmiss málefni. Oftar en ekki þegar þessi mál eru rædd bregðast vinstri menn hinir verstu við. Þeirra fyrstu vopn eru iðulega að saka hægri menn um að vera anti-menningasinnaðir og nískir. Málefnarökin eru nú oftast ekki sterkari en það.
Það er að sjálfsögðu lýðræðislega kjörnir leiðtogar ríkis og sveitafélaga sem fara með það almannafé sem safnað er saman með ýmiss konar sköttum. En þýðir það að þeir megi fara með það eins og þeim sýnist? Það eru margir sem halda það, bæði þeir sjálfir og almennir borgarar. Mönnum finnst ekkert mál að taka peninga úr almennum sjóðum til að styrkja hitt og þetta.
Áhugamenn um hina og þessa hluti heimta að ríkið fjármagni áhugamál þeirra af því að því beri skylda til þess. Gott dæmi um þetta eru kröfur ýmsa manna um bættari samgöngur. Það er ekki nóg að gerðir hafi verið vegir út um allt land fyrir allar landsbyggðir. Að sjálfsögðu voru vegirnir ekki gerðir sérstaklega fyrir landsbyggðarfólk heldur alla landsmenn sem um þá vilja fara. Gott og vel.
En nú heyrast raddir manna sem vilja fá styttri leiðir sem ,,auðvelda þeim sjálfum að komast á milli staða. Allt í einu er farið að tala um það sem mannréttindi að ríkið borgi göng og auðveldi samgöngur eftir fremsta magni. Þegar samgönguráðherra ákvað á sínum tíma að fresta því að senda út tilboðsgöng í jarðgöng inn á Siglufjörð varð allt vitlaust. Sveitastjórnarmenn á Siglufirði gerðu sér ferð í bæinn til að hitta þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Talað var um að nú væri verið að gera tilraun til að ,,eyða sveitafélaginu og nú væri því öllu lokið. Sem sagt, Siglufjörður sem búinn er að vera sveitafélag langt á annað hundrað ár, leggst af og fer í eyði nema allir landsmenn gefi í púkk og splæsi á þá jarðgöngum og ekki orð um það meir...!
Menningartengd ferðaþjónusta?
Annað dæmi. Í Morgunblaðinu í dag (bls. 6) er mynd af menntamálaráðherra og formanns Sambands sveitafélaga á Austurlandi að undirrita samning sem felur í sér samstarf um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Fram kemur í greininni (og Mogginn lýgur auðvitað ekki) að framlög ríkisins á þessu ári verða 36 milljónir, 37 milljónir á næsta ári og 38 milljónir árið 2007. Rétt er að taka fram að Samband sveitafélaga á Austurlandi er samansett úr 13 sveitafélögum. Já, íbúar í Reykjavík, Hvolsvelli, Akureyri, Stykkishólmi, Ísafirði og fleiri stöðum ætla að gefa þrettán sveitafélögum á Austurlandi 111 milljónir næstu þrjú árin til að byggja upp menningu og menningartengda ferðaþjónustu. Það grátbroslega er að þetta er ekki fyrstu samningurinn sem gerður er við sveitafélög á Austurlandi heldur er þetta (skv. Mbl) í annað sinn sem slíkur samningur er gerður.
En þetta er ekki búið. Í Morgunblaðsgreininni kemur fram að með þessu styrk (bæði nú og áður) hafi ný atvinnutækifæri skapast á Austurlandi. T.d. hafi sum sveitafélögin getað ráðið til sín menningarfulltrúa.
En þetta virðist engum finnast athugunarvert. Aftur og aftur tala stjórnmálamenn og fleiri um ójafna tekjuskiptingu ríkis og sveitafélaga. Samband íslenskra sveitafélaga kvartar reglulega undan því hvað reksturinn er nú erfiður og menn eins og Steingrímur J. Sigfússon hefur gert lítið úr þeim hagvexti og kaupmáttaraukningu sem áttu hefur sér stað s.l. áratug, með því að segja að sveitafélögin líði fyrir það.
Já, að virðist vera erfitt að reka sveitafélag.
En bíðum nú aðeins við. Geta 13 sveitafélög ekki hugað að sínum eigin ,,menningarmálum án ríkisstyrks? Hefði menning og menningartengd ferðaþjónusta lagst af ef ekki hefði til styrksins komið? Hefur austurland eitthvað minna upp á að bjóða en áður? Nei, það er ekki hlutverk ríkissjóðs að styrkja sérhagsmuni ákveðinna sveitafélaga með slíkum styrkjum. Hvernig væri ef sveitafélögin hefðu sleppt því að ráða til sín menningarfulltrúa og sparað þar með bæði launin fyrir þann aðila og þá peninga sem hann væri vís með að eyða. Ef að þrettán sveitafélög vilja bjóða upp á menningartengda ferðaþjónustu verða þau bara að finna leiðir og sameinast um það sjálf hvernig þau vilja haga því. M.ö.o. sníða sér stakk eftir vexti. Það er held ég það erfiðasta sem sveitastjórnarmenn gera í dag. Það er líklega erfiðara en að reka sveitafélag.
Nú eru 111 milljónir svo sem ekkert rosalegur peningur með tilliti til þess að við erum jú rík þjóð. En hversu oft er búið að eyða 111 milljónum hér og 111 milljónir þar í ýmiss verkefni bara af því að einhver hefur verið nógu duglegur að suða. Nú hefði ég ekkert sérstaklega viljað eyða þessum 111 milljónum í eitthvað annað. Best hefði auðvitað verið að eyða þeim ekki. Nema þá til að borga niður skuldir ríkissjóðs.
Já það er nú þannig að margir halda að ríkið eigi endalaust af peningum og ef þeir geta ekki gert hlutina sjálfri þá á ríkið bara að koma þeim til hjálpar. Þetta er vægast sagt undarlegt sjónarmið.
Íþróttir og listir
Forsvarsmenn íþróttahreyfinga hafa talað um að ríkið þurfi að taka sig til og styrkja málstað með fjármagni. Ef að ríkið byggir ekki íþróttaleikvanga, sundlaugar og fleira mun íþróttin hreinlega leggjast útaf.
En þetta eru ekki einu dæmin. Sama gildir um ,,listir og menningu. Um daginn kom Þorsteinn Guðmundsson grínisti fram í þættinum Ísland í dag ásamt Aðalsteini Á. Sigurðssyni formanni Rithöfundasambandsins.
Tekið var dæmi um rithöfund sem seldi aðeins um 300 bækur en sú nefnd sem sér um að úthluta launum fyrir rithöfunda sá samt ástæðu til að gefa honum ,,rithöfundalaun" í þrjú ár.
Gott og vel. Þegar Aðalsteinn var ynntur eftir því hvort að svona menn ættu að vera að fá rithöfundalaun var svarið, ,,já, er þetta ekki dæmi um höfund sem þarf á stuðningi að halda til þess að geta haldið áfram? Síðan hélt hann áfram og útskýrði fyrir þeim sem ekki vita að það að vera rithöfundur væri svoldið sérstakt starf, það væri langtímastarf. Í framhaldi af því talaði Aðalsteinn um það að menn þyrftu nú nokkur ár til að verða góðir höfundar og þyrftu því þennan styrk á meðan. Ég held ég leyfi þessum orðum að dæma sig sjálf.
Þegar öllu er á botninn hvolft er nauðsynlegt að þeir sem fara með opinbert fé fari vel með það. Það er ekki þeirra hlutverk að hlaupa undir bagga með þeim sem ekki er að takast ætlunarverk sitt. Það mætti spara mikla peninga ef forsvarsmenn ríkis og sveitafélaga myndu fara betur með það fjármagn sem þeir hafa í höndunum. Það er ekki hlutverk menntamálaráðherra að sjá til þess að sveitafélög á austurlandi geti boðið upp á fyrrnefnda menningartengda ferðaþjónustu. Það er hlutverk þeirra íbúa sem þar búa. Ef þeir sjá sér hag í því að tengja ferðaþjónustu við menningu sína þá hljóta þeir að koma með aðferðir sem eru bæði hagnýtar og viðráðanlegar um að hrinda því í framkvæmd.
Aftur legg ég áherslu á að bæði sveitarstjórnarmenn og ríkisstarfsmenn sem fara með opinbert fé þurfa að sníða sér stakk eftir vexti. Ef það gengur ekki þurfa þeir einfaldlega að snúa sér að öðru.
Gísli Freyr Valdórsson
Mánudagur, 14. mars 2005
Mánudagspósturinn 14. mars 2005
Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins varð að miklu fjölmiðlamáli í vikunni. Það minnkaði ekki umfjöllun fjölmiðla af málinu að fréttamenn Ríkisútvarpsins voru andsnúnir ráðningunni og misnotuðu aðstöðu sína sem mest þeir máttu til að vekja athygli á eigin skoðunum á málinu. Sögðu þeir ráðninguna pólitíska og mótmæltu því harðlega að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í útvarpsráði, sem er jú pólitískt skipað, hefði mælt með einum einum umsækjanda umfram aðra Auðuni Georgi Ólafssyni. Í sama streng tóku fulltrúar stjórnarandstöðunnar í útvarpsráði.
Fyrir það fyrsta get ég alveg tekið heilshugar undir það sjónarmið að útvarpsráð sé úrelt fyrirkomulag þegar kemur að stjórn Ríkisútvarpsins, enda ljóst að löngu tímabært sé að endurskoða allan rekstur stofnunarinnar. M.a. þarf að skoða alvarlega þann möguleika að hreinlega einkavæða stofunina að hluta eða í heild. Þannig mætti t.d. einkavæða Rás 2 strax, enda engin rök fyrir því að ríkið sé að reka dægurmálaútvarp þegar nóg framboð er af öðrum útvarpsstöðvum á því sviði. Önnur svið mætti síðan skoða í framhaldinu.
En þó útvarpsráð mætti vel leggja niður að mínu mati er ljóst að málflutningur fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í málinu er eins tvöfaldur og hann getur orðið. Um það var fjallað í góðum pistli á Vefþjóðviljanum á dögunum þar sem nefnt er dæmi fyrir aðeins örfáum árum þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar og Framsóknarflokksins beittu sér fyrir því í útvarpsráði að Helgi H. Jónsson væri ráðinn tímabundið sem fréttastjóri Ríkissjónvarpsins. Og fleiri dæmi um þetta hafa verið nefnd til sögunnar. Þá var ekkert talað um að útvarpsráð ætti ekki að skipta sér af mannaráðningum hjá Ríkisútvarpinu.
En allt í lagi, kannski stjórnarandstaðan hafi bara skipt um skoðun. Ef svo er væri ekki úr vegi að hún viðurkenndi, um leið og hún gagnrýnir afskipti útvarpsráðs af ráðningu í stöðu fréttastjóra útvarps nú, að það að mæla með t.a.m. ráðningu Helga H. Jónssonar hér um árið hafi verið ófagleg og röng af hálfu þeirra sjálfra. Svona ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir sem stjórnarandstaðan er alltaf, ekki satt?
---
Mikið eru Evrópusambandssinnar í Framsóknarflokknum eitthvað viðkvæmir fyrir því að Davíð Oddsson hafi vogað sér að hafa skoðun á ályktun flokksþings flokksins í Evrópumálunum á dögunum þegar eftir því var leitað af fjölmiðlum. Þessi grein er gott dæmi um þetta. Þessi viðkvæmni sýnir bara enn betur hvað aðdáendur Evrópusambandsins hér á landi eru í miklum sárum eftir niðurstöðu flokksþingsins.
Það mætti hreinlega halda af greininni að höfundur hennar telji enga aðra túlkun á umræddri ályktun eiga rétt á sér nema túlkun Halldórs Ásgrímsson. Höfundur segir hans orð taka af allan vafa um hvernig túlka eigi ályktunina. Ég tel sjálfan mig nú vera ágætlega skynsaman mann en get þó ekki fyrir nokkurn mun séð hvernig Halldóri tekst að túlka ályktunina sem svo að Framsóknarflokkurinn hafi með henni færst nær því að setja aðild að Evrópusambandinu á dagskrá. Ekki sízt í ljósi þess að ályktun er svo að segja samhljóma ályktun flokksþings flokksins árið 2003.
Nei, staðreyndin er sú að það þarf mikið að gerast til að Framsóknarflokkurinn setji aðild að Evrópusambandinu á oddinn. Eitthvað sem ekkert bendir til að sé að fara að gerast í nánustu framtíð. Til þess er andstaða við aðild innan flokksins einfaldlega allt of mikil sem sannaðist á flokksþinginu á dögunum.
---
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði við fjölmiðla í vikunni, í tilefni af formlegu framboði hennar til formanns Samfylkingarinnar, að flokkurinn ætti að vera í ríkisstjórn vegna stærðar sinnar og stefnumála. Einhvern veginn held ég nú að það sé kjósenda að segja til um það en ekki hennar.
Hjörtur J. Guðmundsson
Föstudagur, 11. mars 2005
Eldfimt ástand hjá RÚV – stofnun í tilvistarkreppu
Óhætt er að fullyrða að mjög eldfimt ástand sé hjá Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, tilkynnti á miðvikudag um ráðningu Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Útvarpsins. Í gær samþykktu 93% starfsmanna Ríkisútvarpsins tillögu þess efnis að útvarpsstjóri ætti að draga ráðningu Auðuns formlega til baka. Áður hafði félag fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu samþykkt að lýsa yfir vantrausti á Markús Örn og ákvörðun hans.
Ljóst er því að allt logar stafna á milli hjá stofnuninni og mikill órói er þar vegna ráðningarferlisins og ákvörðunar útvarpsstjórans. Er vandséð hvernig muni geta gróið um heilt milli starfsmannanna og útvarpsstjóra að óbreyttu. Greinilegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli starfsmanna og yfirstjórnar Ríkisútvarpsins.
Mjög er deilt um hæfni Auðuns Georgs í stöðuna og ekki allir á eitt sáttir um að hann hafi verið ráðinn til starfans. Á það er bent að hann hefur langt í frá mesta starfsreynslu umsækjenda á sviði fréttamennsku. Hann vann í nokkur ár hjá fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en hefur annars unnið mest á sviði rekstrarmála. Greinilegt er að sú reynsla er metin mun frekar en störf að fjölmiðlamálum, sem fyrirfram mætti búast við að yrði aðalhluti starfs nýs fréttastjóra. Það er vissulega undarlegt að fagleg reynsla hafi ekki meira að segja við lokaákvörðun.
Vera má að forysta Ríkisútvarpsins leggi aðra staðla til hliðsjónar við val á yfirmönnum fréttasviðsins og deilda innan þess en áður hafi verið. Vissulega er Auðun Georg mjög hæfur maður og hefur margt sér til ágætis en við blasir að margir hafa mun meiri starfsreynslu að fréttamennsku en hann.
Það er mitt mat, og þetta segi ég sem áhorfandi að fjölmiðlum á daglegum basis, að fréttastjóri sé faglegur stjórnandi fréttamennsku en ekki baunateljari, eins og mögulega má orða það. Í mínum huga hefur alltaf skipt mestu að fréttastjóri á ríkisfjölmiðlunum hafi að baki langan feril að fréttamennsku og helst þá ef mögulegt er stjórnunarreynslu á slíku sviði. Hvað varðar þann þátt er vandséð hvort nýr fréttastjóri hafi verið hæfastur. Hvað varðar stöðu nýs fréttastjóra er ljóst að hún er mjög veik og vandséð hvernig hann geti tekið við valdataumunum þar með krafti og orðið sá sterki fréttastjóri sem fréttastofan þarf á að halda til að halda stöðu sinni sem sú fréttastofa sem flestir landsmenn treysta á. Innri átök hjá RÚV staðfesta að staðan er því að öllu leyti mjög veikluleg og erfið. Vonandi er að innri ágreiningur starfsmanna og yfirmanna leysist með einhverjum farsælum hætti bráðlega.
Annars blasir við að mörgu leyti að Ríkisútvarpið er í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasa við stofnuninni, sem verður 75 ára á þessu ári. Á þessum tímamótum þar blasir við að breyta þarf til í innra kerfi Ríkisútvarpsins. Var að mínu mati alveg sláandi að lesa Morgunblaðið um helgina og fara þar yfir fréttaskýringu um málefni RÚV. Hún sannaði svo ekki varð um villst að Ríkisútvarpið er á algjörum villigötum og taka verður rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati með rekstrartölum sem komu fram í umfjöllun Moggans. Í stuttu máli sagt kemur þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og nemi ríflega 1400 milljónum króna. Í umfjöllun blaðsins kemur ennfremur fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið.
Er ekki hægt lengur að fljóta sofandi að feigðarósi er kemur að málefnum RÚV.
Taka verður hlutina til endurskoðunar og stokka allhressilega upp. Til fjölda ára hefur verið reynt innan stjórnarflokkanna að landa þessu máli og knýja í gegn þær breytingar sem allir sjá að gera þarf. Eins og staðan er nú orðin sjá allir að þessar breytingar verða að eiga sér stað á næstu árum, það verður ekki umflúið. Í vikunni voru kynnt nokkur atriði í væntanlegu frumvarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, sem er í vinnslu. Hefur þetta ekki verið kynnt endanlega en nokkur atriði hafa komið fram. Er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi. Það hefur verið skoðun mín til fjölda ára að ríkið eigi ekki að vera á fjölmiðlamarkaði eða eigi allavega að draga sig meira út úr honum. Eins og fram hefur komið verða afnotagjöldin lögð niður og er áætlað að nefskattur komi til sögunnar í staðinn.
Ein mikilvæg breyting sem blasir við er að til sögunnar mun koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunni er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Það sem helst stendur eftir í látum seinustu daga innan Ríkisútvarpsins er að útvarpsráð er barn síns tíma. Sú skipan mála sem það er byggt á og eðli þess við að fara yfir umsóknir og meta þær er fyrir löngu gengin sér til húðar. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint. Þetta blasir við öllum eftir læti seinustu daga, tel ég að átökin innan RÚV seinustu daga hafi verið kornið sem fyllti gjörsamlega mælinn í þessum efnum.
Mín viðbrögð á þessar tillögur, sem birtar hafa verið í fjölmiðlum og virðast hluti af væntanlegu frumvarpi menntamálaráðherra, eru þær að ég harma að menn stígi ekki skrefið til fulls og geri Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þessar tillögur eru hænufet í átt að þeim grunnbreytingum sem ég tel rökréttastar. Er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra. Uppstokkun mála hvað varðar útvarpsráð er sjálfsögð og eðlileg og ætti að hafa náðst í gegn fyrir lifandis löngu. Ekki líst mér á hugmyndir um nefskatt. Það er döpur útkoma og ekki spennandi, að neinu leyti. Í mínum huga verða tillögurnar að ganga lengra. Það sem nú liggur fyrir ber allan brag málamiðlana ólíkra stefna og skoðana. Það er því ljóst að ég vil taka meira af skarið og ganga lengra. Það er nauðsynlegt eigi að taka málin verulega fyrir og vinna það af krafti. Það sem hér blasir við er ekki grundvöllur þeirra breytinga sem ég tala fyrir, nema að mjög takmörkuðu leyti. Hinsvegar er jákvætt að unnið sé í átt að einhverjum breytingum og náð samstöðu um að færa Ríkisútvarpið í einhverja aðra átt en verið hefur og taka þar stöðuna í gegn að vissu leyti. Ætla ég ekki að vanvirða þá vinnu sem átt hefur sér stað og fagna því að menn fari nokkur skref áfram.
Í pistlum mínum um málefni RÚV sem birst hafa víða seinustu ár hef ég vel kynnt afstöðu mína til Ríkisútvarpsins. Þeir sem hafa lesið þá hafa séð hvert hugur minn stefnir í þessum efnum. Ég vil ganga rösklega til verks og stokka upp RÚV í þá átt að ríkið verði ekki lengur þátttakandi í fjölmiðlarekstri. Ég vil að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Á því leikur enginn vafi. Það er alveg rétt sem Pétur Blöndal sagði í umræðu á þingi í gær að á meðan ríkið rekur fjölmiðil verða pólitísk ítök þar inn að einhverju leyti. Þótti mér Pétur orða þetta vel. Við Pétur erum samherjar í þeim efnum að stokka verði málin upp með róttækum hætti. En fara verður þennan veg á þeim hraða sem rökréttast er hverju sinni. Í þessum efnum vil ég leggja það helst til grundvallar að menn nái samstöðu um breytingar sem geta fært stöðuna þó áfram og menn taki á innri vandamálum sem nú steðja að. Það er mikilvægt, það blasir við á allri stöðu mála og þeim óveðursskýjum sem hrannast upp yfir Efstaleitinu, bæði nú þessa dagana og eins seinustu ár að mörgu leyti.
Stefán Friðrik Stefánsson
Miðvikudagur, 9. mars 2005
Einhliða fræðsla um ESB
Í Morgunblaðinu þann 30. janúar sl. birtist grein eftir Kristján E. Guðmundsson, fyrrv. stjórnarmann í Evrópusamtökunum. Til umfjöllunar voru Evrópumálin og var Kristján afar ósáttur við gagnrýni Ingvars Gíslasonar, fyrrv. menntamálaráðherra, á bækling sem Fastanefnd Evrópusambandsins fyrir Ísland og Noreg gaf út á sínum tíma um sambandið og ætlað var að fræða börn á aldrinum 14-18 ára um það. Þótti Ingvari bæklingur þessi fela í sér einhliða upplýsingagjöf um sambandið, m.ö.o. áróður. Þetta vildi Kristján ekki samþykkja og fór þá ósmekklegu leið að ýja að samlíkingu Ingvars og annarra sjálfstæðissinna við þá sem staðið hafa að bókabrennum í gegnum sögna, þ.á.m. þýzka nasista og trúarofstækismenn.
Kristján sagði síðan að þeim hugsunarhætti skyti stundum upp kollinum hjá sjálfstæðissinnum að öll fræðsla um Evrópusambandið væri áróður. Nú er ég virkur þátttakandi í starfi sjálfstæðissinna hér á landi en hef þó aldrei heyrt slíku haldið fram og hef því ekki hugmynd um það hvað Kristján er að fara. Vitanlega er ekki öll fræðsla um sambandið áróður það segir sig væntanlega sjálft en þar með er ekki sagt að einhver hluti hennar sé það ekki. Sérstaklega er það spurning þegar sjálfur aðilinn sem fræðst er um stendur að gerð fræðsluefnisins. Og vart batnar það þegar um er að ræða vægast sagt umdeildan aðila eins og Evrópusambandið.
Ein pólitísk sýn
Stóra spurningin er nefnilega sú hvort Evrópusambandið sé heppilegasti aðilinn til að gefa út meint hlutlaust fræðsluefni um sig sjálft? Það er væntanlega það sem Ingvar Gíslason hefur átt við. Í grein hans, sem Kristján vitnar til, segir hann hvergi að allt fræðsluefni um sambandið sé áróður. Þarna er ljóslega aðeins um ómaklega tilraun Kristjáns að ræða til að gera Ingvari upp skoðanir og mála hlutina í einhverjum dökkum litum hans eigin skoðunum til framdráttar. Slík vinnubrögð dæma sig auðvitað sjálf og þann sem þau viðhefur.
Samhliða útgáfu áðurnefnds bæklings var annars komið á fót sérstakri vefsíðu um sama efni. Benti Kristján á þá síðu í grein sinni og sagði þar engan áróður að finna. Þegar málið er hins vegar kannað kemur í ljós að umfjöllunin um Evrópusambandið þar er vægast sagt einhliða. Gagnrýni á þróun Evrópusambandsins hingað til, eða hvert það stefnir, er víðsfjarri. Hins vegar gengur umfjöllunin öll meira eða minna út á að réttlæta og fegra tilvist sambandsins og þróun þess. Það er alveg ljóst fyrir þá, sem eitthvað þekkja til Evrópumálanna, að á þessari síðu fær aðeins ein pólitísk sýn á Evrópusambandið að njóta sín.
Áróður og ekkert annað
Nú veit ég ekki hvað Kristján hefur alizt upp við en í minni heimasveit voru slíkar einhliða umfjallanir um hápólitísk álitamál kallaðar áróður og ekkert annað. Þennan einhliða áróður skilst mér að íslenzkir Evrópusambandssinnar vilji síðan að börnum og unglingum hér á landi sé innprentaður í gegnum skólakerfið. Og fyrst Kristján minntist á trúarofstækismenn og þýzka nasista í grein sinni þá er kannski ekki úr vegi að spyrja að því hverjir hafi í gegnum tíðina verið iðnastir við að nota skólakerfið til að hamra á einhliða pólitískum áróðri? Án þess að ég sé með því að gera neina samlíkingu að öðru leyti.
Hjörtur J. Guðmundsson
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004