Leita í fréttum mbl.is

Einhliða fræðsla um ESB

Í Morgunblaðinu þann 30. janúar sl. birtist grein eftir Kristján E. Guðmundsson, fyrrv. stjórnarmann í Evrópusamtökunum. Til umfjöllunar voru Evrópumálin og var Kristján afar ósáttur við gagnrýni Ingvars Gíslasonar, fyrrv. menntamálaráðherra, á bækling sem Fastanefnd Evrópusambandsins fyrir Ísland og Noreg gaf út á sínum tíma um sambandið og ætlað var að fræða börn á aldrinum 14-18 ára um það. Þótti Ingvari bæklingur þessi fela í sér einhliða upplýsingagjöf um sambandið, m.ö.o. áróður. Þetta vildi Kristján ekki samþykkja og fór þá ósmekklegu leið að ýja að samlíkingu Ingvars og annarra sjálfstæðissinna við þá sem staðið hafa að bókabrennum í gegnum sögna, þ.á.m. þýzka nasista og trúarofstækismenn.

Kristján sagði síðan að þeim hugsunarhætti skyti stundum upp kollinum hjá sjálfstæðissinnum að öll fræðsla um Evrópusambandið væri áróður. Nú er ég virkur þátttakandi í starfi sjálfstæðissinna hér á landi en hef þó aldrei heyrt slíku haldið fram og hef því ekki hugmynd um það hvað Kristján er að fara. Vitanlega er ekki öll fræðsla um sambandið áróður – það segir sig væntanlega sjálft – en þar með er ekki sagt að einhver hluti hennar sé það ekki. Sérstaklega er það spurning þegar sjálfur aðilinn sem fræðst er um stendur að gerð fræðsluefnisins. Og vart batnar það þegar um er að ræða vægast sagt umdeildan aðila eins og Evrópusambandið.

Ein pólitísk sýn
Stóra spurningin er nefnilega sú hvort Evrópusambandið sé heppilegasti aðilinn til að gefa út meint hlutlaust fræðsluefni um sig sjálft? Það er væntanlega það sem Ingvar Gíslason hefur átt við. Í grein hans, sem Kristján vitnar til, segir hann hvergi að allt fræðsluefni um sambandið sé áróður. Þarna er ljóslega aðeins um ómaklega tilraun Kristjáns að ræða til að gera Ingvari upp skoðanir og mála hlutina í einhverjum dökkum litum hans eigin skoðunum til framdráttar. Slík vinnubrögð dæma sig auðvitað sjálf og þann sem þau viðhefur.

Samhliða útgáfu áðurnefnds bæklings var annars komið á fót sérstakri vefsíðu um sama efni. Benti Kristján á þá síðu í grein sinni og sagði þar engan áróður að finna. Þegar málið er hins vegar kannað kemur í ljós að umfjöllunin um Evrópusambandið þar er vægast sagt einhliða. Gagnrýni á þróun Evrópusambandsins hingað til, eða hvert það stefnir, er víðsfjarri. Hins vegar gengur umfjöllunin öll meira eða minna út á að réttlæta og fegra tilvist sambandsins og þróun þess. Það er alveg ljóst fyrir þá, sem eitthvað þekkja til Evrópumálanna, að á þessari síðu fær aðeins ein pólitísk sýn á Evrópusambandið að njóta sín.

Áróður og ekkert annað
Nú veit ég ekki hvað Kristján hefur alizt upp við en í minni heimasveit voru slíkar einhliða umfjallanir um hápólitísk álitamál kallaðar áróður og ekkert annað. Þennan einhliða áróður skilst mér að íslenzkir Evrópusambandssinnar vilji síðan að börnum og unglingum hér á landi sé innprentaður í gegnum skólakerfið. Og fyrst Kristján minntist á trúarofstækismenn og þýzka nasista í grein sinni þá er kannski ekki úr vegi að spyrja að því hverjir hafi í gegnum tíðina verið iðnastir við að nota skólakerfið til að hamra á einhliða pólitískum áróðri? Án þess að ég sé með því að gera neina samlíkingu að öðru leyti.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband