Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2005

Mánudagspósturinn 7. mars 2005

Siv Friðleifsdóttir gagnrýndi Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, á Alþingi í vikunni fyrir að hafa látið þau orð falla í samtölum við fjölmiðla að hann gæti ekki séð að neitt nýtt hefði gerzt í Evrópumálunum hér á landi í kjölfar ályktunar flokksþings Framsóknarflokksins fyrir rúmri viku síðan.
Ekki væri hægt að sjá á texta ályktunarinnar að stefna flokksins hefði nokkuð breyzt þrátt fyrir yfirlýsingar Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, um að ályktunin markaði tímamót. Gagnrýndi Siv Davíð fyrir að líta málið öðrum augum en Halldór og talaði um að nýjan tón á stjórnarheimilinu vegna ummæla Davíðs um málið.

Eins og áður segir hefur Halldór Ásgrímsson talað talsvert um meint tímamót vegna ályktunar flokksþings Framsóknarflokksins í Evrópumálum. Hann hefur þó verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni í þeim efnum þar sem þeir eru fáir sem tekið hafa undir skilning hans á efni ályktunarinnar. Þetta er auðvitað ekki skrítið ef menn kynna sér ályktunina, aðdraganda þess að hún var samþykkt á flokksþinginu og ekki sízt ályktun flokksþings framsóknarmanna í Evrópumálum árið 2003 sem er svo að segja alveg eins en gengur þó nokkuð lengra ef eitthvað er.

En aftur að ummælum Sivjar. Manni kom nú þetta upphlaup hennar mjög á óvart vægast sagt enda erfitt að sjá tilefnið fyrir því (sumir hafa reyndar sagt að Siv hafi aðeins verið gerð út af Halldóri sem ekki hafi lagt í að segja þetta sjálfur). Davíð var inntur svara í fjölmiðlum við því hvort hann væri sammála túlkun Halldóri á ályktun flokksþings framsóknarmanna. Davíð sagði bara sína skoðun, hann gæti ekki séð að nein breyting hefði átt sér stað svo framarlega sem hann væri læs. Hvað átti hann að segja? Svara gegn eigin sannfæringu? Eða bara segjast ekki geta tjáð sig um málið? Hvaða viðkvæmni er þetta í Siv? Vitanlega sagði hann bara sína skoðun.

Og talandi um nýjan tón á stjórnarheimilinu. Ef slíkur tónn er til staðar í þessum efnum er hann ekki kominn frá Davíð. Svo mikið er víst. Ummæli hans voru í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna en í því sambandi eru ummæli Halldórs í bezta falli á gráu svæði. Samt datt Davíð ekki í hug að vera með eitthvað upphlaup vegna þess heldur lét sér nægja að segja bara sína skoðun þegar eftir því var leitað.

---

Greint var frá því á Mbl.is í gær að Ríkisútvarpið hafi síðast verið rekið með tekjuafgangi árið 1997 en síðan þá hafi samanlagður taprekstur numið ríflega 1400 milljónum króna. Kom einnig fram að á undanförnum áratug hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í nánast ekki neitt. Eigið fé stofnunarinnar 80 milljónir í árslok 2003, en talið er að það hafi nær horfið á síðasta ári.

Rekstrarhalli Ríkisútvarpsins á síðasta ári nam um 100 milljónum króna samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum efnahagsreiknings.
Fjárhagsáætlanir þessa árs gera ráð fyrir hallalausum rekstri en stjórnendur stofnunarinnar eru svartsýnir á að það takist nema þeim verði heimilað að hækka afnotagjöldin um 7%. Fram á það var farið í nóvember sl., en gjöldin hækkuðu um sama hlutfall í fyrravor.

Maður veit eiginlega ekki hvað segja á við svona fréttum þó þetta komi í sjálfu sér ekki svo á óvart. Hvurslags fjármálastjórn er hjá Ríkisútvarpinu?
Er peningum hreinlega sturtað niður í klósettið þar á bæ?
Og svo er eina lausn manna að hækka í sífellu álögur á almenning til að standa straum af endalausum hallarekstri. Þetta minnir óhugnanlega á stjórnunaraðferðir R-listans hér í Reykjavíkurborg.

Það er löngu tímabært, og rúmlega það, að allur rekstur Ríkisútvarpsins verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar og að fram fari upplýst og opin umræða um það hver framtíð stofnunarinnar eigi að vera. Er sjálfsagt að þar séu skoðaðar allar hliðar málsins og þ.á.m. hvort ekki sé rétt að einkavæða Ríkisútvarpið að hluta eða í heild.

---

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í vikunni að Íslendingar ættu að stefna að Evrópuaðild. Það er nefnilega það.
Mín spurning er þessi: Hvenær hætti Ísland að vera hluti að Evrópu?

---

Vil að lokum fagna þeirri vinnu sem hafin er í því skyni að endurnýja skipa- og flugvélakost Landhelgisgæzlunnar. Um er að ræða löngu tímabært og þarft verk.

Hjörtur J. Guðmundsson


Verkalýðshömlur og gamaldags hugarfar

Þjóðfélagið er sífellt að þróast í frjálslyndisátt og sífellt eru menn að skilja við og líta frá gömlum hlutum. Einn af þeim hlutum sem er á undanhaldi (sem betur fer) eru stórir verkalýðssamningar og miðstýrðar ákvarðanir fyrir stóran hóp manna. Við skulum taka nokkur dæmi um afturhaldsstefnu verkalýðsforingja.

Aðför að kennurum?
Nýlega var tilkynnt að tíu kennarar í skóla Ísaks Jónssonar ætluðu að gera sérsamning við stjórn skólans um sín kjör. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn vilji semja beint við sína yfirmenn, sérstaklega ef samið er um hærri laun en kjarasamningar gera ráð fyrir.
Fyrirfram hefði maður haldið að Kennarasamband Íslands (KÍ) myndi fagna því að kennarar væru þarna að fá hærri laun en almennur ,,taxti” kennara gerði ráð fyrir. Nei, svo var nú ekki. Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, segir samninginn vera aðför að kennarastarfinu og í framhaldi af því hótar sambandið að kæra samninginn. Það er hvorki meira né minna, bara aðför að kennarastarfinu. Það má s.s. ekki skv. formanni KÍ borga einum kennara hærri laun en öðrum. Hann vill ekki að skólar eða öllu heldur stjórnendur skólanna semji e.t.v. beint við sína starfsmenn (kennarana). Nei, það skulu gilda sömu lög og reglur um alla kennara og ekki orð um það meir.

Nú er það reyndar þannig að um 90% kennara hafa hlotið sömu eða allavega svipaða menntun og flest allir fengið þá menntun á sama stað. Þeir vinna flestir við svipaðar aðstæður og eiga mjög margt sameiginlegt sem stétt. Gott og vel. En það þýðir samt ekki að þeir ,,megi ekki” fá mismunandi laun eftir dugnaði, getu, hæfni, skilvirkni og svo frv.
Þetta var einmitt ástæðan fyrir því að illa gekk að semja við KÍ hér fyrir áramót. (Reyndar er það nú þannig að kennarar fá aðeins hærri laun eftir starfsaldri. En það er allt eftir fyrirfram settum römmum sem settir eru upp af KÍ). Það er hvorki hægt né er það sanngjarnt að samið sé fyrir tæplega 5 þúsund manns sömu kjör. Það er auðvitað út í hött. En þetta vill KÍ samt sem áður. Og það er ekki nóg með að bara KÍ vilji slíka samninga. Þeir hafa ASÍ og fleiri verkalýðsfélög á bakvið sig.

Þá er ekki ósanngjarnt að spyrja hvort að sömu verkalýðsfélög vilji að allir vörubílstjórar á landinu séu með sömu laun? Þeir eru allir búnir að fara í gegnum sama námið (meiraprófið) og vinna flest allir við sömu aðstæður. Eiga allir málarar í landinu að hafa sömu laun? Ef að málarameistari ræður til sín málara og vill borga honum hærri laun en gengur og gerist af því að honum finnst hann góður í sínu fagi, á þá að kæra málarameistarann? Væri samningur hans við málarann ,,aðför að málarastarfinu”? Málarar eru menntaðir menn og eiga auðvitað að fá laun í samræmi við það. Þeir fóru líka í gegnum nám til að læra sitt fag. (Sama á við um aðrar iðnstéttir)

Löglegir sjómenn
Annað dæmi svipað þessu er samningur útgerðarfélagsins Brims við starfsmenn sína. Þar var gengið framhjá verkalýðsfélaginu og samið beint á milli útgerðarinnar og sjómannanna. Nokkrum dögum síðar mættu forsvarsmenn verkalýðsfélaganna á svæðið og reyndu að stöðva löndun úr skipi Brims. Þeir notuðu svipaða frasa og Eiríkur og sögðu að þetta væri ólöglegt og aðför að sjómanannastarfinu. Þeir höfðu svo sem engin fleiri rök fyrir í því önnur en þau að þeir hefðu ekki komið nálægt samningnum. Fljótlega voru þeir leiddir með skottið á milli lappanna inn í næsta lögreglubíl enda var vera þeirra á bryggjunni og stöðvun á vinnu annarra manna það eina sem var ólöglegt. Þeir gengu lengra en KÍ og kærðu samninginn. Samningurinn var hinsvegar löglegur og verkalýðshreyfingin hafði ekki erindi sem erfiði.

Það er ótrúlegt að verkalýðsforingjar skuli ætla að stjórna hluta fólki í nafni félagshyggjunnar. Flestir eru þetta menn með tæplega milljón á mánuði sem ætla að taka sér það vald að semja um lág laun fyrir alla aðra. Er ekki eðlilegra að hver og einn semji við sína yfirmenn um laun. Jú ef að einhverjir telja sig þurfa að semja saman þá gera þeir það bara sín á milli. Ef að maður rekur fyrirtæki með 20 starfsmönnum þá er það auðvitað hans mál að semja við sína starfsmenn. Það er svo starfsmannanna að ákveða hvort að þeir vilji semja einn og sér eða sem hópur. Ef þeir semja sem hópur eru þeir auðvitað að binda hvorn annan í ákveðna fjötra. En það er kannski það sem þeir vilja og þá er það þeirra mál. En þegar utanaðkomandi aðili kemur og ákveður hvernig og um hvað þeir semja þá erum við komin á hála braut.

VR og leigubílstjórar
Ég hef áður fjallað um viðbrögð formanns VR við því þegar dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um að rýmka um opnunartíma verslana á hátíðisdögum. Formaður VR kvartaði undan því að VR hefði ekki verið haft með í ráðum. Ég ætlað s.s. ekkert að fara út í það aftur en þetta lýsir samt gamaldags hugsunarhætti verkalýðsfélaga. (reyndar hefur VR verið hvað duglegast að færa sig í átt til nútímans). Þarna var ekki verið að skylda búðir til að hafa opið á hátíðisdögum og hvað þá starfsfólkið til að vinna heldur var verið að aflétta banni um að hafa opið á tilteknum dögum. Þar sem síðan verslunarmanna og starfsfólks þeirra að semja um vinnuskyldu og þ.h. Þegar fyrirtæki er opið allan ársins hring ræður fólk sig þangað í vinnu vitandi það. Þetta þarf ekki að vera flókið.

Og nýjasta dæmið. Gamaldags verkalýðs og félagshyggju hugsun er ekki bara bundið við ríku verkalýðsforingjana. Samgönguráðherra hefur rýmkað reglur um akstur leigubifreiða milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Þetta þýðir að leigubílstjórar frá Reykjavík mega nú taka farþega úr Leifsstöð eða Keflavík til Reykjavíkur eftir að hafa skilað af sér farþega þar og sömuleiðis mega leigubílstjórar frá Keflavík nú taka farþega til baka frá Reykjavík þegar þeir hafa skutlað farþegum þangað fyrir. Fyrirfram hefði maður gert ráð fyrir því að leigubílstjórar hefðu fagnað þessari rýmkun á vinnusvæði þeirra. Nei, ekki aldeilis. Í Morgunblaðinu í gær (3. mars) er leitað eftir viðbrögðum leigubílstjóra við þessu.

Við skulum hafa eitt í huga. Samgönguráðherra var ekki að skylda menn til að keyra á ákveðnum svæðum heldur var hann (líkt og dómsmálaráðherra í dæminu hér á undan) að rýmka úreltar reglur. Það er ekki hlutverk ríkisins að ákveða hvar leigubílstjórar mega vinna vinnuna sína. Ef að maður vill keyra leigubíl á hann að geta gert það hvar og hvenær sem er. Það er síðan leigubílstjóranna að setja upp rétt og sanngjarnt gjald og þeirra að ákveða hvar þeir vilja keyra og hvenær. Haft er eftir leigubílstjórum í MBL í gær að sumir ,,nenni ekki” að keyra farþega til Keflavíkur á morgnana og bíða síðan í langri röð í Leifsstöð eftir að fá næsta túr. Þeir komi þá bara til með að keyra tómir til Reykjavíkur aftur. Gott og vel. Það er þá þeirra mál. Þeir verða auðvitað að meta það eftir aðstæðum. En þeim er allavega ekki bannað lengur að taka farþega frá Leifsstöð.
Haft er eftir öðrum að leigubílstjórar í Keflavík muni færa sig í ,,harkið” í Reykjavík og það verði engir leigubílstjórar eftir í Keflavík. Þetta er auðvitað rangt. Ef það er markaður fyrir leigubílstjóra í Keflavík mun einhver sinna því.

Menn þurfa að læra að haga seglum eftir vindi. Það þýðir ekki að skammast út í ráðherrann fyrir að rýmka reglurnar þó svo að það komi einstaka aðila illa.

Gísli Freyr Valdórsson


Nýtum tímann!

Sem kunnugt er hefur mikið starf verið unnið á undanförnum árum við að færa eignarhald og rekstur fyrirtækja í hendur einkaaðila með einkavæðingu þeirra. Því ber að fagna enda eru nú flestir orðnir þeirrar skoðunar að alla jafna eigi opinberir aðilar ekki að standa í samkeppnisrekstri við einkaaðlila og einkarekstur sé í flestum tilfellum heppilegasta rekstrarformið.

Fyrirtæki í eigu ríkisins
Mikið verk er þó enn óunnið hvað þetta varðar eins og glögglega kom í ljós í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar á Alþingi. Þar kom í ljós að ríkið og stofnanir þess eiga eignarhluti í u.þ.b. 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum víðs vegar um landið. Í flestum tilvikum er vandséð að rétt sé að ríkið eigi þessa hluti. Stefán Friðrik Stefánsson hefur þegar gert þessum lista góð skil hér á síðunni í nýlegri grein. Því er óþarft að tíunda nánar það sem þar kemur fram, en engu að síður rétt að hnykkja á málinu þar sem um brýnt hagsmunamál er að ræða fyrir allan almenning að ríkið dragi sig í meira mæli út úr atvinnurekstri.

Einkavæðing síðustu ára
Á síðustu árum hafa allmörg fyrirtæki verið færð úr eigu ríkisins í hendur einkaaðila. Ánægjuleg dæmi um vel heppnaða einkavæðingu eru sala ríkisbankanna, fyrst Fjárfestingabanka atvinnulífsins og svo Landsbankans og Búnaðarbankans. Ávinningurinn hefur skilað sér til alls þorra almennings þar sem aukin samkeppni hefur skapast og bankarnir farið að kappkosta að bjóða betri kjör. Í því sambandi má nefna lækkaða vexti á lánum til íbúðakaupa, þar sem bankarnir tóku nýverið að undirbjóða Íbúðalánsjóð – nokkuð sem ekki var í spilunum fyrir fáeinum misserum síðan. Eigendur bankanna hafa hagrætt í rekstrinum þannig að þrátt fyrir að kjör neytenda séu nokkru betri en áður er hagnaður bankanna líka meiri, sem skilar sér í fjárfestingum til eflingar atvinnulífsins. Það er í raun ótrúlegt til þess að hugsa að aðeins eru fáein misseri síðan bankarnir voru að mestu reyrðir í klafa hins óheppilega ríkisrekstrar.

Af öðrum fyrirtækjum sem að fullu hafa verið færð í hendur einkaaðila frá árinu 1991 má nefna Ríkisskip, Jarðboranir, SR-Mjöl, Lyfjaverslun Íslands, Skýrr, Íslenska aðalverktaka og Áburðarverksmiðjuna.
Til stendur að selja Símann á næstu misserum og fagna ber viljayfirlýsingum Iðnaðarráðherra og Fjármálaráðherra þess efnis að Landsvirkjun verði breytt í hlutafélag á næstu árum. Það eykur líkur á sölu hennar fyrr en síðar, þó Vinstri grænir virðist ætla að þvælast fyrir því ferli á vettvangi borgarstjórnar.

Nýtum tímann
Umrædd þróun er einkum því að þakka að hér hefur setið fremur hægrisinnuð ríkisstjórn allt frá árinu 1991. Ekki er víst að svo verði um alla framtíð. Því er mikilvægt að tíminn sé vel nýttur til einkavæðingarinnar. Vinstri menn hafa engan sérstakan áhuga á einkavæðingu. Komist þeir til valda eru þeir því líklegir til að stöðva það ferli sem verið hefur undanfarin ár. Ólíklegra er þó að samstaða náist meðal þeirra um að snúa þróuninni við í verulegum atriðum, þó þeir kynnu að stöðva hana að sinni. Það er því ekki úr vegi, nú þegar kjörtímabilið er tæplega hálfnað, að þingmenn og ráðherrar setjist yfir áðurnefndan lista og geri gangskör að því að koma þessum málum í betra horf.

Þorsteinn Magnússon


« Fyrri síða

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband