Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 28. mars 2005

Jæja, þá er Bobby Fischer kominn til Íslands. Ég hef fjallað nokkrum sinnum áður um mál hans hér á Íhald.is og lýst þeirri eindregnu skoðun minni að engan veginn hafi verið ástæða fyrir íslenzk stjórnvöld að veita honum íslenzkan ríkisborgararétt. Ég er auk þess ansi hræddur um að sá gjörningur eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Ófáir sögðu, þegar fyrir lá að Fischer kæmi til landsins, að þeir vonuðust til þess að hann myndi róast við það að koma til landsins og hann myndi hætta þeim svívirðilegum yfirlýsingum sínum um Bandaríkin og gyðinga sem hann er alræmdur fyrir og sem hann hefur viðhaft um árabil. Flestir hafa þó án efa gert sér grein fyrir að slíkar vonir voru í bezta falli byggðar á barnaskap enda litlar líkur á að Fischer róaðist við það eitt að koma til Íslands.

Enda hefur það sannast að ekkert hefur breyzt í þeim efnum nú þegar Fischer er kominn til landsins. Yfirlýsingagleðin er sú sama og hatur hans á gyðingum og Bandaríkjunum hefur ekki minnkað. Blaðamannafundur Fischers á Hótel Loftleiðum, daginn eftir komuna til Íslands, sýndi það svo um munaði. Fyrir vikið eru nú uppi vangaveltur um það hvort ummæli hans þar um gyðinga hafi hugsanlega verið brot gegn almennum hegningalögum. Hefur jafnvel formlega verið farið þess á leit við embætti Ríkislögreglustjóra að ummæli Fischers verði rannsökuð. Virðist það mál vera að vinda upp á sig og á eftir að koma í ljós hvert framhald þess verður. Verst er kannski að þetta er ekkert sem ekki mátti eiga von á og furðulegt ef ekki hefur verið gert ráð fyrir því að þessi staða kynni að koma upp.

Ég vil annars taka undir með Agli Helgasyni og fleirum um að fróðlegt væri að sjá vísindalega skoðanakönnun um afstöðu Íslendinga til þeirrar ákvörðunar að veita Fischer íslenzkt ríkisfang. Nú er ég ekki talsmaður þess að íslenzk stjórnvöld eigi að dansa eftir því hvað skoðanakannanir segja. Hins vegar væri gerð slíkrar könnunar áhugaverð í ljósi þess að sumir hafa víst viljað meina að ákvörðun stjórnvalda njóti almenns stuðnings hér á landi. Ég leyfi mér að efast um það. Annars er það eiginlega furðulegt að ekki hafi verið gerð slík könnun ennþá miðað við þá umfjöllun sem þetta mál hefur fengið undanfarnar vikur og mánuði.

Vil að lokum benda á áhugaverðar umfjallanir Stefáns Friðriks Stefánssonar um málið á vef hans www.stebbifr.com.

---

Fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að um helmingur þeirra, sem fengu úthlutað árslaunum úr Launasjóði myndlistarmanna í ár, séu í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna eða í sambúð með meðlimum úthlutunarnefndarinnar. Var listamannalaunum úthlutað fyrir rúmum mánuði síðan og sóttu meira en 230 um laun myndlistarmanna en aðeins 30 voru í boði. Vakti athygli að úthlutunarnefndin veitti þremur stjórnarmönnum úr SÍM laun, en það voru einmitt þeir menn sem skipuðu í úthlutunarnefndina. merkileg “tilviljun”. Þessum þremur stjórnarmönnum voru veitt árslaun en tíu slík voru til skiptanna. Þá veitti úthlutunarnefndin eiginmanni formanns stjórnarinnar laun til sex mánaða og þar að auki var sambýliskonu eins meðlima úthlutunarnefndarinnar úthlutað launum til eins árs. Það par hefur reyndar fengið árslaun til skiptis síðastliðin þrjú ár.

Ef það er ekki eitthvað gruggugt við þetta og rúmlega það þá veit ég ekki hvað. Steininn tók síðan úr þegar formaður SÍM (eiginmaður hennar fékk úthlutað listamannalaunum í hálft ár eins og áður segir) reyndi að beina athyglinn frá þessu með því að væna Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra, um að hafa reynt að hafa áhrif á ákvörðun úthlutunarnefndarinnar og mælast til þess að einum umsækjanda væri veitt listamannalaun. Hvers vegna var formaðurinn að nefna Guðna til sögunnar annars en til að beina athyglinni frá eigin þætti í málinu? Var þessi tilraun vægast sagt lágkúruleg og sýndi enn frekar þá spillingu sem ekki verður betur séð en að þrífist við úthlutun listamannalauna.

Það er annars auðvitað löngu orðið tímabært að afnema listamannalaunin sem slík og þetta mál sýnir það enn betur en áður. Það er ekki ríkisins að ákveða hverjir séu listamenn og hverjir ekki, eða hverjir séu betri listamenn en aðrir, né einhverra aðila á þess vegum. Það er almenningur sem ákveður það með því að fara á myndlistasýningar þeirra sem það eiga skilið og með því að kaupa verk þeirra.

---

Málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands eru enn komin á dagskrá. Ég hef áður ritað grein hér á Íhald.is um mál hennar. Sem kunnugt er ákváðu stjórnvöld að eyrnamerkja ekki skrifstofunni fast framlag á fjárlögum eins og áður umfram aðra aðila hér á landi sem starfa að mannréttindamálum. Þetta var ákveðið í framhaldi þess að Mannréttindaskrifstofan rifti samningi við stjórnvöld þar um fyrir rúmu ári síðan. Þess í stað ákváðu stjórnvöld að gefa öllum aðilum, sem starfa að mannréttindamálum hér á landi, jafna möguleika á að sækja um þennan styrk. Nú eru forsvarsmenn Mannréttindaskrifstofunnar hisn vegar æfir yfir því að dómsmálaráðuneytið hafi ákveðið að styrkja ákveðin verkefni á hennar vegum um rúmar 2 milljónir króna en ekki öll.

Spurningin er hins vegar þessi: Síðan hvenær ber dómsmálaráðuneytinu yfir höfuð að styrkja starf félagsskaparins Mannréttindaskrifstofu Íslands? Staðreyndin er sú að ráðuneytinu ber einfaldlega engin skylda til þess og hefur fullt vald til að ákveða hvað það styrkir og hvað ekki í þeim efnum. Þetta mál allt sýnir vel þá ótrúlegu heimtufrekju sem ósjaldan gerir vart við sig þegar ýmsir einkaaðilar, eins og Mannréttindaskrifstofan, telja sig eiga heimtingu á fjárframlögum úr vösum skattgreiðenda og fara svo í fýlu ef ekki er allt eftir þeirra höfði.

Bendi á góða umfjöllun Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um málið á heimasíðu hans Björn.is.

---

Greint var frá því í Ríkissjónvarpinu að svört atvinnustarfsemi, þar sem útlendingar eru fengnir í vinnu hérlendis án réttinda, hafi blómstrað á höfuðborgarsvæðinu eftir að Íslendingar urðu aðilar að Schengen-samstarfinu. Þetta kemur þó mér ekki beint á óvart enda hef ég gagnrýnt aðild Íslands að Schengen sem er ekkert annað en aðild að vandamálum og vitleysu.

---

Bendi að lokum bæði á áhugaverða páskapredikun hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, og fróðlegan pistil á vefritinu Andríki.is þar sem fjallað er m.a. um stöðu kristinnar trúar, kristinfræðikennslu í grunnskólum, fjölmenningu og fleira.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband