Leita í fréttum mbl.is

Hættum að snuðra í einkamál annarra

Lagt hefur nú verið fram á þingi, frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í frumvarpinu felst einkum að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans að frumvarpinu eru fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Rökin að baki frumvarpinu eru nokkur en þau eru einna helst þau að telja verður að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti mjög gegn rétti einstaklinga til friðhelgis einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru án vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari.

Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er mjög til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hafi á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Þar að auki er minnt á að með niðurfellingu kæruheimildar gjaldenda vegna skattákvörðunar þriðja manns hafi forsendur að baki framlagningu skattskráa einstaklinga brostið. Frumvarpið mun ekki fela í sér að dregið verði úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er veitt í núverandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti, bregðast við undanskotum frá skatti eða til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um. Frumvarpið gerir ekki síst ráð fyrir því að núverandi eftirlit verði eftir sem áður í höndum skattyfirvalda. Verði frumvarpið að lögum ljúki hinsvegar einkaskattrannsóknum borgaranna hvers á öðrum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur margoft ályktað um þetta mál og enginn vafi á því að það er stefna flokksins að þessar breytingar eigi sér stað. Að mínu mati eiga viðkomandi þingmenn mikið hrós fyrir að stíga þetta skref og vinna í takt við stefnu flokksins í þessum efnum. Sérstaklega hrósa ég þeim þó fyrir að leggja áherslu á þetta baráttumál ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára. Það hefur mjög lengi verið stefna SUS að þessi breyting verði gerð á. Það er okkur ungliðum, rétt eins og flokkmönnum almennt, ánægjuefni að frumvarpið hafi verið lagt fram. Er Sigurður Kári mælti fyrir frumvarpinu fór hann yfir grunn þess í ítarlegri ræðu og kynnti það vel. Að lokinni ræðu Sigurðar Kára var fróðleg umræða um málið.
Var mjög merkilegt að kynna sér afstöðu þingmanna til þess.

Sérstaklega fannst mér merkilegt að heyra skoðanir Ögmundar Jónassonar. Snerist hann öndverður gegn áætluðum breytingum og talaði af krafti gegn þeim. Var merkilegt að sjá þetta gamla og úrelta forræðishyggjuhjal hjá Ögmundi. Ekki er hægt að segja að tal hans sé nýtt af nálinni. Forræðishyggja Ögmundar og annarra þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er fyrir löngu orðið landsþekkt og þarf vart að hafa um það mörg orð. En það er vissulega mjög fyndið að sjá grunn VG og vinstrikreddur opinberast með svo galopnum hætti. En Ögmundur er og verður forræðishyggjumaður, það breytist ekki svo glatt eins og við vitum öll sem fylgjumst með honum, flokknum og þeim sem sitja í umboði hans á löggjafarþinginu.

Fleiri vinstrisinnaðir þingmenn komu í pontu og tóku undir málflutning Ögmundar eða grunnstef hans: semsagt að það komi fólki úti í bæ við hvað Jón Jónsson verkamaður í Breiðholtinu, eða Jón Jónsson athafnamaður í Grafarvogi, er með í laun. Þetta er grunnpunktur vinstrimanna virðist vera að það sé málefni almennings hvað næsti maður hafi í laun eða vilji svala forvitni sinni með því að vita allt um hagi viðkomandi að þessu leyti. Ég og við sjálfstæðismenn almennt segjum að þetta gangi ekki upp. Þetta frumvarp er sett fram umfram allt til að fá umræðu um málið og vonandi leiða til þess að tekin verði upp önnur vinnubrögð og annað fyrirkomulag taki við. Þetta frumvarp er mikilvægt og sett fram sem grunnpunkt í mikilvægt prinsippmál: það að almenningur hafi sín lykilmál, tekjugrunn sinn sem sitt einkamál.

Eða það er mitt mat og okkar sjálfstæðismanna. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn þessu og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík. Þessir gamaldags vinstrimenn ættu að taka af sér hofmóðugu gleraugun og horfa fram fyrir sig án þeirra. Það gæti orðið þeim gæfuleg ákvörðun. Ekki veitir þeim af að hugsa málið frá öðrum forsendum og frá öðrum grunni beint. Ég tek bara undir orð Sigurðar Kára í umræðunni: "Við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað náunginn í sama stigahúsi og við er með í laun." Það er því verðugt verkefni okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega okkar ungra sjálfstæðismanna að kalla til Ögmundar og félaga hans í forræðishyggjunni: komið þið inn í framtíðina, ekki veitir ykkur af!

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband