Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 14. mars 2005

Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins varð að miklu fjölmiðlamáli í vikunni. Það minnkaði ekki umfjöllun fjölmiðla af málinu að fréttamenn Ríkisútvarpsins voru andsnúnir ráðningunni og misnotuðu aðstöðu sína sem mest þeir máttu til að vekja athygli á eigin skoðunum á málinu. Sögðu þeir ráðninguna pólitíska og mótmæltu því harðlega að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í útvarpsráði, sem er jú pólitískt skipað, hefði mælt með einum einum umsækjanda umfram aðra – Auðuni Georgi Ólafssyni. Í sama streng tóku fulltrúar stjórnarandstöðunnar í útvarpsráði.

Fyrir það fyrsta get ég alveg tekið heilshugar undir það sjónarmið að útvarpsráð sé úrelt fyrirkomulag þegar kemur að stjórn Ríkisútvarpsins, enda ljóst að löngu tímabært sé að endurskoða allan rekstur stofnunarinnar. M.a. þarf að skoða alvarlega þann möguleika að hreinlega einkavæða stofunina að hluta eða í heild. Þannig mætti t.d. einkavæða Rás 2 strax, enda engin rök fyrir því að ríkið sé að reka dægurmálaútvarp þegar nóg framboð er af öðrum útvarpsstöðvum á því sviði. Önnur svið mætti síðan skoða í framhaldinu.

En þó útvarpsráð mætti vel leggja niður að mínu mati er ljóst að málflutningur fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í málinu er eins tvöfaldur og hann getur orðið. Um það var fjallað í góðum pistli á Vefþjóðviljanum á dögunum þar sem nefnt er dæmi fyrir aðeins örfáum árum þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar og Framsóknarflokksins beittu sér fyrir því í útvarpsráði að Helgi H. Jónsson væri ráðinn tímabundið sem fréttastjóri Ríkissjónvarpsins. Og fleiri dæmi um þetta hafa verið nefnd til sögunnar. Þá var ekkert talað um að útvarpsráð ætti ekki að skipta sér af mannaráðningum hjá Ríkisútvarpinu.

En allt í lagi, kannski stjórnarandstaðan hafi bara skipt um skoðun. Ef svo er væri ekki úr vegi að hún viðurkenndi, um leið og hún gagnrýnir afskipti útvarpsráðs af ráðningu í stöðu fréttastjóra útvarps nú, að það að mæla með t.a.m. ráðningu Helga H. Jónssonar hér um árið hafi verið ófagleg og röng af hálfu þeirra sjálfra. Svona ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir sem stjórnarandstaðan er alltaf, ekki satt?

---

Mikið eru Evrópusambandssinnar í Framsóknarflokknum eitthvað viðkvæmir fyrir því að Davíð Oddsson hafi vogað sér að hafa skoðun á ályktun flokksþings flokksins í Evrópumálunum á dögunum þegar eftir því var leitað af fjölmiðlum. Þessi grein er gott dæmi um þetta. Þessi viðkvæmni sýnir bara enn betur hvað aðdáendur Evrópusambandsins hér á landi eru í miklum sárum eftir niðurstöðu flokksþingsins.

Það mætti hreinlega halda af greininni að höfundur hennar telji enga aðra túlkun á umræddri ályktun eiga rétt á sér nema túlkun Halldórs Ásgrímsson. Höfundur segir hans orð taka af allan vafa um hvernig túlka eigi ályktunina. Ég tel sjálfan mig nú vera ágætlega skynsaman mann en get þó ekki fyrir nokkurn mun séð hvernig Halldóri tekst að túlka ályktunina sem svo að Framsóknarflokkurinn hafi með henni færst nær því að setja aðild að Evrópusambandinu á dagskrá. Ekki sízt í ljósi þess að ályktun er svo að segja samhljóma ályktun flokksþings flokksins árið 2003.

Nei, staðreyndin er sú að það þarf mikið að gerast til að Framsóknarflokkurinn setji aðild að Evrópusambandinu á oddinn. Eitthvað sem ekkert bendir til að sé að fara að gerast í nánustu framtíð. Til þess er andstaða við aðild innan flokksins einfaldlega allt of mikil sem sannaðist á flokksþinginu á dögunum.

---

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði við fjölmiðla í vikunni, í tilefni af formlegu framboði hennar til formanns Samfylkingarinnar, að flokkurinn ætti að vera í ríkisstjórn vegna stærðar sinnar og stefnumála. Einhvern veginn held ég nú að það sé kjósenda að segja til um það en ekki hennar.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband