Leita í fréttum mbl.is

Eldfimt ástand hjá RÚV – stofnun í tilvistarkreppu

Óhætt er að fullyrða að mjög eldfimt ástand sé hjá Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, tilkynnti á miðvikudag um ráðningu Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Útvarpsins. Í gær samþykktu 93% starfsmanna Ríkisútvarpsins tillögu þess efnis að útvarpsstjóri ætti að draga ráðningu Auðuns formlega til baka. Áður hafði félag fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu samþykkt að lýsa yfir vantrausti á Markús Örn og ákvörðun hans.
Ljóst er því að allt logar stafna á milli hjá stofnuninni og mikill órói er þar vegna ráðningarferlisins og ákvörðunar útvarpsstjórans. Er vandséð hvernig muni geta gróið um heilt milli starfsmannanna og útvarpsstjóra að óbreyttu. Greinilegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli starfsmanna og yfirstjórnar Ríkisútvarpsins.

Mjög er deilt um hæfni Auðuns Georgs í stöðuna og ekki allir á eitt sáttir um að hann hafi verið ráðinn til starfans. Á það er bent að hann hefur langt í frá mesta starfsreynslu umsækjenda á sviði fréttamennsku. Hann vann í nokkur ár hjá fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en hefur annars unnið mest á sviði rekstrarmála. Greinilegt er að sú reynsla er metin mun frekar en störf að fjölmiðlamálum, sem fyrirfram mætti búast við að yrði aðalhluti starfs nýs fréttastjóra. Það er vissulega undarlegt að fagleg reynsla hafi ekki meira að segja við lokaákvörðun.
Vera má að forysta Ríkisútvarpsins leggi aðra staðla til hliðsjónar við val á yfirmönnum fréttasviðsins og deilda innan þess en áður hafi verið. Vissulega er Auðun Georg mjög hæfur maður og hefur margt sér til ágætis en við blasir að margir hafa mun meiri starfsreynslu að fréttamennsku en hann.

Það er mitt mat, og þetta segi ég sem áhorfandi að fjölmiðlum á daglegum basis, að fréttastjóri sé faglegur stjórnandi fréttamennsku en ekki baunateljari, eins og mögulega má orða það. Í mínum huga hefur alltaf skipt mestu að fréttastjóri á ríkisfjölmiðlunum hafi að baki langan feril að fréttamennsku og helst þá ef mögulegt er stjórnunarreynslu á slíku sviði. Hvað varðar þann þátt er vandséð hvort nýr fréttastjóri hafi verið hæfastur. Hvað varðar stöðu nýs fréttastjóra er ljóst að hún er mjög veik og vandséð hvernig hann geti tekið við valdataumunum þar með krafti og orðið sá sterki fréttastjóri sem fréttastofan þarf á að halda til að halda stöðu sinni sem sú fréttastofa sem flestir landsmenn treysta á. Innri átök hjá RÚV staðfesta að staðan er því að öllu leyti mjög veikluleg og erfið. Vonandi er að innri ágreiningur starfsmanna og yfirmanna leysist með einhverjum farsælum hætti bráðlega.

Annars blasir við að mörgu leyti að Ríkisútvarpið er í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasa við stofnuninni, sem verður 75 ára á þessu ári. Á þessum tímamótum þar blasir við að breyta þarf til í innra kerfi Ríkisútvarpsins. Var að mínu mati alveg sláandi að lesa Morgunblaðið um helgina og fara þar yfir fréttaskýringu um málefni RÚV. Hún sannaði svo ekki varð um villst að Ríkisútvarpið er á algjörum villigötum og taka verður rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati með rekstrartölum sem komu fram í umfjöllun Moggans. Í stuttu máli sagt kemur þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og nemi ríflega 1400 milljónum króna. Í umfjöllun blaðsins kemur ennfremur fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið.

Er ekki hægt lengur að fljóta sofandi að feigðarósi er kemur að málefnum RÚV.
Taka verður hlutina til endurskoðunar og stokka allhressilega upp. Til fjölda ára hefur verið reynt innan stjórnarflokkanna að landa þessu máli og knýja í gegn þær breytingar sem allir sjá að gera þarf. Eins og staðan er nú orðin sjá allir að þessar breytingar verða að eiga sér stað á næstu árum, það verður ekki umflúið. Í vikunni voru kynnt nokkur atriði í væntanlegu frumvarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, sem er í vinnslu. Hefur þetta ekki verið kynnt endanlega en nokkur atriði hafa komið fram. Er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi. Það hefur verið skoðun mín til fjölda ára að ríkið eigi ekki að vera á fjölmiðlamarkaði eða eigi allavega að draga sig meira út úr honum. Eins og fram hefur komið verða afnotagjöldin lögð niður og er áætlað að nefskattur komi til sögunnar í staðinn.

Ein mikilvæg breyting sem blasir við er að til sögunnar mun koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunni er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Það sem helst stendur eftir í látum seinustu daga innan Ríkisútvarpsins er að útvarpsráð er barn síns tíma. Sú skipan mála sem það er byggt á og eðli þess við að fara yfir umsóknir og meta þær er fyrir löngu gengin sér til húðar. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint. Þetta blasir við öllum eftir læti seinustu daga, tel ég að átökin innan RÚV seinustu daga hafi verið kornið sem fyllti gjörsamlega mælinn í þessum efnum.

Mín viðbrögð á þessar tillögur, sem birtar hafa verið í fjölmiðlum og virðast hluti af væntanlegu frumvarpi menntamálaráðherra, eru þær að ég harma að menn stígi ekki skrefið til fulls og geri Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þessar tillögur eru hænufet í átt að þeim grunnbreytingum sem ég tel rökréttastar. Er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra. Uppstokkun mála hvað varðar útvarpsráð er sjálfsögð og eðlileg og ætti að hafa náðst í gegn fyrir lifandis löngu. Ekki líst mér á hugmyndir um nefskatt. Það er döpur útkoma og ekki spennandi, að neinu leyti. Í mínum huga verða tillögurnar að ganga lengra. Það sem nú liggur fyrir ber allan brag málamiðlana ólíkra stefna og skoðana. Það er því ljóst að ég vil taka meira af skarið og ganga lengra. Það er nauðsynlegt eigi að taka málin verulega fyrir og vinna það af krafti. Það sem hér blasir við er ekki grundvöllur þeirra breytinga sem ég tala fyrir, nema að mjög takmörkuðu leyti. Hinsvegar er jákvætt að unnið sé í átt að einhverjum breytingum og náð samstöðu um að færa Ríkisútvarpið í einhverja aðra átt en verið hefur og taka þar stöðuna í gegn að vissu leyti. Ætla ég ekki að vanvirða þá vinnu sem átt hefur sér stað og fagna því að menn fari nokkur skref áfram.

Í pistlum mínum um málefni RÚV sem birst hafa víða seinustu ár hef ég vel kynnt afstöðu mína til Ríkisútvarpsins. Þeir sem hafa lesið þá hafa séð hvert hugur minn stefnir í þessum efnum. Ég vil ganga rösklega til verks og stokka upp RÚV í þá átt að ríkið verði ekki lengur þátttakandi í fjölmiðlarekstri. Ég vil að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Á því leikur enginn vafi. Það er alveg rétt sem Pétur Blöndal sagði í umræðu á þingi í gær að á meðan ríkið rekur fjölmiðil verða pólitísk ítök þar inn að einhverju leyti. Þótti mér Pétur orða þetta vel. Við Pétur erum samherjar í þeim efnum að stokka verði málin upp með róttækum hætti. En fara verður þennan veg á þeim hraða sem rökréttast er hverju sinni. Í þessum efnum vil ég leggja það helst til grundvallar að menn nái samstöðu um breytingar sem geta fært stöðuna þó áfram og menn taki á innri vandamálum sem nú steðja að. Það er mikilvægt, það blasir við á allri stöðu mála og þeim óveðursskýjum sem hrannast upp yfir Efstaleitinu, bæði nú þessa dagana og eins seinustu ár að mörgu leyti.

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband