Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2005

Mánudagspósturinn 28. febrúar 2005

Reynt var að fá það í gegn á flokksþingi Framsóknarflokksins um og fyrir helgina að lýst væri yfir stuðningi við að stefnt yrði að því að hefja aðildarviðræðar við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili eða því næsta. Einnig að vegna meintrar óljósrar framtíðar EES-samningsins og almennrar þróunar innan sambandsins væru líkur á að hagsmunum Íslands væri betur borgið innan þess. Fleira mætti og nefna sem stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandið reyndu að fá í gegn en voru gerðir algerlega afturreka með. Andstaðan meðal flokksmanna við aðildarviðræður við Evrópusambandið mun hafa verið gríðarlega mikil og þar á meðal voru lykilmenn í flokknum.

Aðildarsinnar urðu að lokum að sætta sig við ályktun í þeim efnum sem er í raun hvorki fugl né fiskur. Felur endanleg útgáfa hennar í reynd óbreytt ástand í sér í öllu sem einhverju máli skiptir. Má segja að samkvæmt henni muni framsóknarmenn bara halda áfram að ræða þessi mál sín á milli og velta fyrir sér hugsanlegum markmiðum Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið einhvern tímann í framtíðinni. Málið verði svo tekið aftur upp á næsta flokksþingi Framsóknarflokksins eftir tvö ár. M.ö.o. „status quo“. Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru eftir sem áður ekki á dagskrá hér á landi og alls ekki aðild sem slík.

Þó má auðvitað búast við því að íslenzkir Evrópusambandssinnar reyni að halda einhverjum haus eftir þessa útreið og gera einhverjar tilraunir til að túlka niðurstöðu flokksþings framsóknarmanna sér í hag. Það leynir sér þó ekki hvernig leikar fóru og sér í lagi ekki ef ályktunin sem samþykkt var að lokum er borin saman við fyrri tillögur að henni. Eða svo vitnað sé í frétt af málinu á Bylgjunni í gær sunnudag en þar sagði að stöðugur flótti hefði verið á meðal Evrópusambandssinna áflokksþinginu og að engu líkara væri en að þeir væru með sjö gíra aftur á bak eins og sagt hefði verið um ítalska herinn í síðari heimstyrjöldinni.

Niðurstaðan flokksþings Framsóknarflokksins um helgina er einfaldlega áfall fyrir íslenzka Evrópusambandssinna. Það sér hver maður. Uppskera þeirra er einfaldlega andspyrnu rýr ef einhver, þá ekki sízt miðað við það hvað lagt var af stað með í upphafi.

---

Frá því var greint í brezka viðskiptablaðinu The Business á dögunum að stórfyrirtæki með aðsetur í löndum Evrópusambandsins fjárfestu nú í auknum mæli fyrir utan sambandið. Þetta sýnir ný könnun sem gerð var af rannsóknarstofnuninni Goldman Sachs. Ástæðan er fyrst og fremst kæfandi reglugerðafargan innan Evrópusambandsins.

---

Og meira af Evrópusambandinu en mikill minnihluti spænskra kjósenda samþykkti fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins um þarsíðustu helgi. Þátttaka var þó afleit og tóku aðeins 42% Spánverja þátt í henniþrátt fyrir að spænsk stjórnvöld hafi reyntallt til að fá þá til að taka þátt – og styðja stjórnarskrána. Af þeim tiltölulega fáu sem sáu ástæðu til að taka þátt samþykkti mikill meirihluti stjórnarskrána sem engum kom á óvart enda eru sagt að engin þjóð sé eins Evrópusambandssinnuð og Spánverjar.Að öðru leyti skal bent á afar skemmtilega frásögn af þessu máli á Vefþjóðviljanum.

---

Að lokum má nefna að í fréttum Ríkisútvarpsinsí gær sunnudag var talað um að deilur hefðu orðið innan Framsóknarflokksins á flokksþinginu um helgina með vegna kristinna gilda Hvítasunnumanna. Þetta er auðvitað vægast sagt furðulegt orðalag. Ber að skilja það sem svo að fréttamaðurinn telji Hvítasunnumenn vera þá einu sem aðhyllast kristin gildi?

Hjörtur J. Guðmundsson


Ritstjórnarviðhorf - Leigubílar og textagerð

Samgönguráðherra hefur ákveðið að breyta reglum um sérleyfi leigubíla um akstur milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness. Eins og komið hefur í ljós hafa leigubílstjórar frá Reykjavík ekki mátt taka farþega úr Leifsstöð eða Keflavík til Reykjavíkur eftir að hafa skilað af sér farþega þar og sömuleiðis hafa leigubílstjórar frá Keflavík ekki mátt taka farþega til baka frá Reykjavík þegar þeir hafa skutlað farþegum þangað fyrir.

Þetta er gott átak samgönguráðherrra. Það er gott að ríkið skuli vera að létta af boðum og bönnum. Það er auðvitað út í hött að setta hafi verið reglur um að akstur leigubílstjóra til að byrja með. En það má nú vel vera einhver góð og gild ástæða fyrir því. Það get ég ekki dæmt um. En þessi breyting var löngu tímabær. Eins og alltaf er einhverjir á móti þessu. Örfáir leigubílstjórar hafa látið í sér heyra vegna þessa. Þeir vilja meina að nú sé verið að ryðjast inn á ,,þeirra svæði."
Orðin dæma sig sjálf og gaman væri að vita hver hefði gefið þeim þetta ákveðna svæði þeirra.

Út í annað. Núna áðan (sunnudag) var ég að flétta á milli stöðva svona til að drepa tímann áður en leikur Liverpool og Chelsea byrjaði. Það er svo sem ekki frásögu færandi nema að því leytinu til að ég rakst á þátt um nokkra unga vísindamenn sem höfðu tekið sig til og hellt rauðri málningu yfir ísjaka og ætluðu sér svo að fylgjast með hreyfingum og hugsanlegur ferðalagi jakans. Þetta fannst þeim spennandi og rosalega gaman. Gott og vel.

Í lok þáttarins er haft eftir einum af ungu mönnunum (sem var danskur) ,,Det er bedre en Sex!" og átti hann þá væntanlega við spenninginn að klífa upp á ísjakann og hella yfir hann málningu.

Nema hvað. Þetta var á íslenskri stöð og því skylt að þýða allt erlent tungumál. Það var ekkert verið að skafa af hlutunum heldur var setningin þýdd á þennan hátt, ,,þetta er sko betra en að ríða!" (ath. ekki mín eigin orð)

Og hvaða sjónvarpsstöð ætli þetta hafi verið. Popp-Tívi? Nei. Skjár Einn? Nei. Stöð 2? Nei. Nei þetta var sko RÚV kl. 15 á sunnudagseftirmiðdegi, menningarstólpur Íslands. Það er gott að hin ríkisrekna sjónvarpsstöð skuli gæta þess að allir fái eitthvað við sitt hæfi og haldin sé verndarhendi um menninguna. Að sama skapi er auðvitað nauðsynlegt að þýða alla hluti. Já já.

Velunnarar RÚV hafa einmitt haft þau orð uppi að ef RÚV sinnir ekki skyldu sinni um þýðingar á erlendu tungumáli og sjái einnig til þess að menninginareftirspurninni sé fullnægt, þá geri það enginn.

Gisli Freyr


Breytingar á Landsvirkjun – púnkteraður R-listi

Í síðustu viku undirrituðu Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík, viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun og fyrirtækið hlutafélagavætt í kjölfarið á komandi árum.

Um er að ræða mikil tímamót í sögu Landsvirkjunar og mikla uppstokkun á fyrirtækinu sem ber að fagna mjög, er það hárrétt skref að sveitarfélögin víki úr fyrirtækinu. Svo virðist vera sem að iðnaðarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafi skrifað undir þessa yfirlýsingu án þess að kanna til fulls bakland sitt í öllu málinu. Er ekki hægt að sjá betur en að algjört ósætti sé nú komið upp bæði innan Framsóknarflokksins og R-listans með málið og stöðu þess. Ef marka má yfirlýsingar nokkurra þingmanna Framsóknar og borgarfulltrúa VG innan R-listans er engin samstaða um yfirlýsingar ráðherra og borgarstjóra í málinu.

Eins og kannski mátti búast við ætla vinstri grænir sér að gera allt til að stöðva málið, ef marka má yfirlýsingar formanns flokksins í þingumræðu í vikunni. Það blasir við að meirihlutaaflið í borgarstjórn er tvístraður í afstöðu sinni. Er ljóst að meirihluti er í borgarstjórn við þessar tillögur, en það er þverpólitískur meirihluti. Þingflokkur VG sá ástæðu til að tjá sig sérstaklega um málið fyrir tæpri viku. Ef marka má þær yfirlýsingar er mótmælt af hálfu flokksins mjög kröftuglega öllum áformum um frekari markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustu á sviði orkuframleiðslu og orkudreifingar. Það örlar því eins og jafnan áður á gömlum kommatóni í þessu spileríi vinstri grænna. Þeir sem fylgst hafa með vinstri grænum í orkumálaumræðu kippa sér varla mjög upp við þessa stöðu mála, enda muna flestir hvernig flokkurinn hefur talað þegar jafnan er vikið talinu að hlutafélagavæðingu orkufyrirtækja. Við hér á Akureyri þekkjum þetta vel frá þeim tímapunkti er Norðurorka var gerð að hlutafélagi fyrir þrem árum.

Nú ber svo hinsvegar við að forysta VG í þinginu og borgarstjórn er ekki samhljóma forystu VG í bæjarstjórn Akureyrar. Það er afar merkilegt að á sama tíma og Steingrímur J. Sigfússon hækkar raustina í þinginu gegn hugmyndum um breytingar á Landsvirkjun, og talar með svartagallstóni af gömlum stíl, lýsa Valgerður Bjarnadóttir bæjarfulltrúi vinstri grænna, hér í bæ, og Jón Erlendsson varabæjarfulltrúi, sem starfar nú sem bæjarfulltrúi í fjarveru Valgerðar, yfir stuðningi sínum við þessar breytingar. En allt annað blasir við á vettvangi VG í borgarstjórn, þar sem borgarfulltrúinn Björk Vilhelmsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, sem situr í borgarstjórn í fjarveru Árna Þórs Sigurðssonar og VG sem heild í borginni tjá andstöðu sína við ætlaðar breytingar. Við blasir því að óbreyttu að afar ólíklegt sé að það gerist eitthvað í þessum málum fyrr en eftir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Hefur formaður vinstri grænna og borgarfulltrúar flokksins enda talað með þeim hætti að allt skuli gera til að hindra þessa niðurstöðu mála.

Það stefnir því margt í að vinstri grænir ætli að setja R-listann í gíslingu í þessu máli og hindra framgang þess. R-listinn er auðvitað eins og allir vita margbrotinn og þetta mál ekki hið fyrsta eða eina á kjörtímabilinu sem staðfestir hversu R-listinn er tvístraður. Nægir mörgum að sjá allar borgarstjóraráðningarnar sem hafa sýnt hversu mjög þetta valdabandalag vinstri manna lafir saman með öllum áföllum í því eina markmiði sínu að Sjálfstæðisflokknum skuli ekki komið til valda. Það markmið hefur lengi verið eina límið sem heldur þessu ólíka fólki og óskyldu flokksörmum saman í einni sæng. Það er svosem vart tíðindi þegar kemur í ljós að enn einn borgarstjóri R-listans hefur ekkert bakland í málinu og hefur samið um eitthvað sem ekkert samkomulag er svo um. Það er vissulega með ólíkindum að borgarstjóri hafi ekki kynnt sér betur bakland sitt áður en samkomulagið var undirritað og gert betur grein fyrir honum. Sama má eflaust segja um iðnaðarráðherrann.

Er alveg ljóst núna af hverju ekki var hægt að skrifa undir þessa yfirlýsingu í lok nóvember eins og að var stefnt fyrir starfslok Þórólfs Árnasonar þáverandi borgarstjóra. Bakland hans, sem var brostið áður, var ekki til staðar í þessu máli. Á meðan innri látum og átökum um ýmis mál innan borgarstjórnarmeirihlutans hefur staðið er borgin eins og stjórnlaus bíll, enginn veit hvert hann stefnir nema þá til glötunar. Hvort R-listinn lafir, með nokkrum smákóngum í aftursætinu og lægsta samnefnaranum í framsætinu, til vors 2006 og býður fram í kosningum þá er svo stóra spurningin. Á meðan er R-listinn á vegferð á púnktereðum bíl. Þetta er veruleikinn sem blasir við og birtist okkur helst í átökunum um málefni Landsvirkjunar nú. Er það vissulega með ólíkindum ef innri átök í R-listanum verða til að stöðva þetta mikla framfaramál.

Stefán Friðrik Stefánsson


Hvalirnir éta okkur út á gaddinn

Hvað er það sem haldið hefur lífinu í íslensku þjóðinni um aldir?Sauðkindin segir eflaust einhver. Hann hefur nokkuð til síns máls en í mínum huga er það sjórinn og það sem í honum lifir sem hefur verið okkar lífsbjörg. Vissulega hefur hann tekið sinn toll en hann hefur líka gefið mikið á móti. Gull úr greipum Ægis hefur gert okkur að bjargálna þjóð. Um það verður ekki deilt. Menn geta hins vegar endalaust rifist um hvort við höfum nýtt þessa auðlind rétt.

Af hverju eru firðir landsins ekki lengur fullir af fiski, af hverju er ekki lengur vaðandi síld fyrir Norðurlandi á hverju sumri og svona mætti áfram telja. Þetta geta menn jagast um í það endalausa, án þess að nokkur geti sannað að hann hafi rétt fyrir sér. Það liggja nefnilega litlar rannsóknir fyrir um þróun fiskistofna á Íslandsmiðum í byrjun síðustu aldar.

Sem betur fer vöknuðu landsmenn upp við vondan draum, þegar þeir sáu í hendi sér að stórtæk fiskiskip útlendinga voru að þurrka upp fengsæl mið. Þá var sett landhelgi, sem tók ár og áratugi að berjast fyrir að væri virt. Það tókst að lokum og við bárum síðan gæfu til að koma stjórn á eigin veiðar. Fyrir vikið eru Íslendingar í fararbroddi í heiminum hvað varðar hóflega nýtingu á auðlindum sjávarins. Menn geta deilt um aflamark hverju sinni, en ég held að það sé hafið yfir dægurþras, að á þessu verður að vera stjórn. En það láta ekki allir að þeirri stjórn, því miður.

Það tók forfeður okkar ekki langan tíma, að átta sig á því, að lífskeðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Ein tegund lifir af annarri, þannig að ofveiði á einni tegund gat kostað hrun hjá annarri tegund. Og menn sáu það í hendi sér að þótt vargurinn væri ekki eftirsóttur í matarkistuna, þá varð að halda honum í skefjum. Annars át hann allt það sem forfeður okkar sóttust eftir.

Fyrir hverja?
Ég rifja þessar staðreyndir upp vegna þess að mér finnst fólk gleyma þessu í annríki dagsins, eða kastar þessu fyrir róða vegna áróðurs og áreitis frá þeim sem halda að við getum lifað á lofti og draumsýn.

Ég geri út skip, sem ekki er talið stórt á nútímamælikvarða, en það hefur reynst mér og mínum mannskap farsælt. Ég get ekki haldið því til veiða nema hluta úr árinu. Vegna hvers? Vegna þess að veiðiheimildir eru takmarkaðar. Ég sætti mig við þau rök sem þar liggja að baki, en ég sætti mig ekki við þá staðreynd að á sama tíma eru hvalveiðar bannaðar. Fyrir vikið stækkar hvalastofninn og stækkar stjórnlaust.

Hvalirnir éta fiskinn sem við vildum gjarnan veiða og veldur okkur þar að auki miklu tjóni við veiðarnar. Mitt skip hefur verið að veiðum síðan viku af janúar. Á þeim tíma hafa hvalavöður valdið milljóna tjóni á okkar veiðarfærum. Með það í huga veit ég að tjónið skiptir tugum ef ekki hundruðum milljóna yfir flotann allan. Þetta gengur ekki lengur.

Fyrir nokkrum áratugum voru hvalveiðar ábatasöm atvinnugrein á Íslandi. Ef við förum aftur til fyrstu áratuga síðustu aldar þá voru veiðarnar og vinnslan stóriðja þess tíma. Hvorki meira né minna. Síðan var þessu hætt vegna þess að stjórnvöld voru beygð til hlýðni af verndunarsamtökum, sem skilja ekki gang lífsins. Það mátti ekki veiða sel, hvað þá að ganga í selskinnsflíkum. Það má ekki veiða hval og nú hefur verið orðað að friða þorskinn. Á meðan sveltur stór hluti mannkynsins heilu hungri. Á hverju þrífst það fólk sem lætur svona? Lifir það á loftinu einu saman? Á hverju lifðu forfeður þeirra? Hvað veitti þeim skjól og yl?

Hræðslan ein
Ég veit að þessi svonefndu náttúruverndarsamtök eru öflug. Þetta eru ekki áhugamenn, þetta eru atvinnumenn sem svífast einskis og virðast hafa nógaf peningum. Þeir sögðust sjá til þess að enginn legði sér íslenskar afurðir til munns ef við hættum ekki hvalveiðum. Stjórnvöld létu að vilja þeirra í hræðslukasti. Loksins var ákveðið að hefja vísindalegar veiðar á hrefnu. Þá kom í ljós að þessi samtök höfðu eignast öfluga talsmenn hér innanlands. Þar fóru fyrir ferðaþjónustupáfar, sem töldu hvalaskoðunina, öfluga atvinnugrein, hrynja vegna þessara veiða. Í þeirri umræðu kom reyndar fram að þessi grein á varla bót fyrir boruna á sér. En vonandi vænkast hagur strympu, því reynslan hefur sýnt að ekki minnkaði ásókn í hvalaskoðun þrátt fyrir veiðarnar.

Það er öllum ljóst sem til þekkja að hvalastofnar hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum, svo mjög að þeir éta margfalt það magn af fiski sem íslenski flotinn dregur úr sjó. Fari svo fram sem horfir verða kvótar og önnur stjórnun fiskveiða gersamlega tilgangslaus. Við eigum að hefja hvalveiðar strax. Annars éta hvalirnir okkur út á gaddinn.

Sverrir Leósson


Mánudagspósturinn 21. febrúar 2005

Allsherjarnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum sl. fimmtudag að leggja ekki til við Alþingi að Bobby Fischer fái íslenzkan ríkisborgararétt að svo stöddu. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði að loknum fundinum að umsókn Fischers byggi á því að með íslenzkan ríkisborgararétt hefði Fischer betri lagalega stöðu í deilum sínum við stjórnvöld í öðru landi. „Það sem meðal annars ræður minn afstöðu er að stjórnvöld hafa þegar gripið til aðgerða til að tryggja að Bobby Fischer geti komið hingað til lands, þegar þetta liggur fyrir tel ég ekki að ástæða sé til að veita honum ríkisborgararétt að svo stöddu, meðal annars vegna þess að með því væri verið að hafa afskipti af deilum hans við stjórnvöld annars ríkis,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku þessari niðurstöðu meirihluta alsherjarnefndar illa og vildi Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins sem sæti á í nefndinni, meina að þetta þýddi að íslenzk stjórnvöld væru að ganga á bak orða sinna gagnvart Fischer og að það væri vegna þrýstings frá Bandaríkjastjórn. Í kvöldfréttum Ríkisstjórnvarpsins, sama dag og niðurstaða nefndarinnar lá fyrir, sagði Sigurjón: „Ég vil einnig minna á að það var einnig ákvörðun utanríkisráðherra þjóðarinnar að bjóða þessum manni í heimsókn, en síðan þegar hann ætlar að mæta til landsins, að þá er bara skellt dyrunum á hann.”

Ummæli Sigurjóns eru auðvitað alveg stórundarleg í ljósi þess að aldrei stóð til að veita Fischer íslenzkan ríkisborgararétt. Honum hefur einungis verið boðið hér dvalarleyfi. Hins vegar kom í ljós, eftir að íslenzk stjórnvöld buðust til að veita Fischer dvalarleyfi að það dygði að öllum líkindum ekki til að japönsk yfirvöld heimiluðu honum að koma hingað til lands. Að halda því fram að íslenzk stjórnvöld hafi á efnhvern hátt gengið á bak orða sinna er furðulegt og þá alveg sér í lagi yfirlýsingar um að þau hafi látið undan einhverjum þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum. Fróðlegt væri ef Sigurjón færði einhver rök fyrir þeim fullyrðingum sínum.

---

Kostuleg frétt birtist á síðum Fréttablaðsins sl. mánudag. Þar var sagt frá því að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, gæti vart haldið embætti sínu áfram ef brezkir kjósendur „greiddu atkvæði gegn evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Þetta var haft eftir Alan Milburn, ráðherra í ríkisstjórn Blair og stjórnanda kosningabaráttu Verkamannaflokksins. Og áfram var sagt í blaðinu að Milburn hafi gert að því skóna að kynni að segja af sér ef Bretar „felldu það í atkvæðagreiðslu að taka upp evruna.“

Þetta er allt gott og blessað að því undanskyldu að engin þjóðaratkvæðagreiðsla er fyrirhuguð í Bretlandi um evruna heldur um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins sem er auðvitað allt annar hlutur. Í erlendum fréttum af ummælum Milburns kemur það líka berlega í ljós að hann var að tala um þjóðaratkvæðið um stjórnarskrána sem fyrirhugað er á næsta ári.
Hvernig hægt er að klúðra jafn stuttri frétt er mér hulin ráðgáta.

---

Vefsíða Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, varð 10 ára í vikunni. Vefsíðan hefur frá upphafi verið skilvirkur og fróðlegur vettvangur fyrir alla áhugamenn um stjórnmál á Íslandi. Vefsíðan hefur ekki sízt verið öflugur miðill fyrir Björn til að koma á framfæri skoðunum sínum og sjónarmiðum á mönnum og málefnum á líðandi stund og á sama tíma verið öðrum áhugamönnum um stjórnmál hvatning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Við á Íhald.is viljum óska Birni til hamingju með áfangann og vonum að hann haldi áfram á sömu braut.

---

Kristinn H. Gunnarsson hefur verið tekinn í sátt af forystu Framsóknarflokksins og veitt nefndarseta í tveimur þingnefndum. Er það mál manna að tilgangurinn með þessu sé þó fyrst og fremst sá að tryggja Halldóri Ásgrímssyni góða kosningu til áframhaldandi formennsku á flokksþingi framsóknarmanna sem haldið verður innan skamms.

---

Að lokum má nefna að Atlantsolíu opnaði sína fyrstu bensínstöð í Reykjavík í gær sunnudag. Bensínstöðin er sjálfsafgreiðslustöð og er staðsett á Sprengisandi við enda Bústaðavegar á mótum Reykjanesbrautar. Ber að sjálfsögðu að fagna aukinni samkeppni í sölu á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu.

Hjörtur J. Guðmundsson


Ó borg, mín borg ...

Reykjavík hefur stækkað og vaxið í yfir þúsund ár. En aldrei jafn mikið og síðustu hundrað árin. Um aldarmótin 1800-1900 var Reykjavík illa farin af fátækt og húsnæðisskorti og Ísland var eitt af fátækustu löndum í Evrópu á þessum tíma og sjálfsagt hefur höfuðborgin borið brag af því.
Á þessum tíma var aðalbyggð Reykjavíkur í kringum miðbæinn og í næsta nágrenni við hann. Þá voru sveitabæir á Skólavörðuholti og nokkuð langt „í bæinn.”

Íbúar í Reykjavík voru um 6.700 árið 1901, eða 8,5% af öllum landsmönnum. Árið 1907 var byrjað að tala um embætti borgarstjóra og var Páll Einarsson ráðinn árið eftir. Á þessum tíma var Reykjavík tæplega tíu þúsund manna bær og því vekur það nokkra athygli að uppi voru hugmyndir um borgarsjóra en ekki bæjarstjóra. Reykjvíkingar hafa greinilega snemma byrjað að hugsa stórt.

Á árum fyrri heimsstyrjaldar voru gífurleg húsnæðisvandamál í Reykjavík. Þeir sem ekki höfðu efni á eigin húsnæði bjuggu í kjallaraholum, háaloftum og í skúrræksnum. Ennþá var sveitabragur á bænum og ekki bætti úr skák til að hér voru miklar frosthörkur og skortur á ýmsum nauðsynjum. Aldrei hefur mælst meira frost í Reykjavík en í janúar árið 1918 eða –24,5°C. Þó voru bjartsýnustu menn farnir að gera sér hugmyndir um hverfaskipulag og sáu fyrir sér alvöru bæ.

Guðmundur Hannesson læknir gaf úr Um skipulag bæja árið 1916. Hann gagnrýndi þá hægför sem honum fannst bæjaryfirvöld sýna bænum og kynnti í leiðinni nýjar hugmyndir sínar um bæjarskipulag. Hann taldi það sjálfsagðan hlut að bæjaryfirvöld einuðust allt bæjarlandið og leigðu það síðan út. Þessi stefna varð ofan á á næstu árum og bærinn eignaðist sjálfur landið í kring. Guðmundur mælti einnig með því að sérstakt hverfi yrði fyrir einbýlishús, annað fyrir opinberar byggingar og enn annað fyrir fyrirtæki og verslanir. Knud Zimsen hafði orðið borgarstjóri árið 1914 og hann lét ekki gagnrýna sig á þennan hátt tvisvar. Reykvíkingar voru orðnir tæp sextán þúsund og það var ekki hjá því komist að stækka sjóndeildarhringinn.

Snemma á þriðja áratugnum fóru menn að taka til hendinni. Bærinn fór að teygja úr sér. Byggðin færðist nokkuð í austur en Vesturbærinn einkenndist enn af sveitarbæjum og stórum túnum. Það var byrjað að koma „borgarbragur” á bæinn. Fyrsta tillaga að heildarskipulagi var lögð fram 12. janúar 1928. Gert var ráð fyrir að Reykjavík yrði bara innan Hringbrautar og næstu ár á eftir var 85% byggðarinnar þannig. Árið 1930 voru íbúar Reykjavíkur rúm 28.000 eða 26% Íslendinga.

Það var hins vegar ekki fyrr en á miðjum fjórða áratug sem menn fóru að byggja eitthvað að ráði fyrir utan Hringbraut. Á kreppuárunum hægðist hinsvegar örlítið á byggðarþróun bæjarins. Þrátt fyrir það voru byggðar fyrstu blokkirnar í Reykjavík. Þær voru reistar við Barónsstígi og einnig var byrjað að huga að hverfum utan Hringbrautar, t.d. voru reistar blokkir á Melunum. Knud Zimsen hætti sem borgarstjóri árið 1932 og við tók Jón Þorláksson. Jón er að mínu mati einn mikilfenglegasti stjórnmálamaður á Íslandi. Hann var verkfræðingur að mennt og einbeitti sér mjög að virkjunum og orkunýtingu. Þrátt fyrir kreppuár voru yfir 90% heimla upplýst með rafmagni. Samt hafði rafstöðin við Elliðaárnar tekið til starfa aðeins um áratug áður eða 1921

Þó það hljómi ekki vel má samt segja að Íslendingar hafi verið eina þjóðin sem græddi á seinni heimsstyjöldinni. Við fengum hingað her sem tók að sér varnir landsins og upp hófts gífurleg uppbygging. Efniviður og fjármagn flæddu inn í landið. Alveg eins og Reykjavík hafði liðið fyrir fátækt landsins um aldarmótin, naut hún núna þeirra uppbyggingar sem var í landinu. Árið 1940 voru Reykvíkingar um 38.000 eða um 31% þjóðarinnar. Þegar mest var um Breta voru þeir næstum jafnmargir og Reykvíkingar. Þá kom auðvitað flugvöllurinn og braggahverfin. Vatnsmýri og Hagarnir voru orðnir að byggingarsvæðum. Árið 1946 var hafin kennsla í Melaskóla og segir það nokkuð til um hvað bærinn hafði vaxið í vesturátt. Næstu ár á eftir var nokkuð jöfn byggðarþróun. Reykjavík þandist út í Hlíðarnar, Fossvoginn og Laugarneshverfi. Það var s.s. byggt í allar áttir.

Árið 1960 voru Reykvíngar orðnir um 72.000 eða um 41% landsmanna. Aldrei hefur hlutfallið verið svo mikið. Þann 1. janúar árið 1962 var Reykjavík formlega breytt úr bæ í borg. Á sjötta áratugnum var hafist handa við að byggja Breiðholtið. Sú hverfisuppbygging teygði sig langt inn í sjöunda áratuginn. Byggt var í Bakkahverfi, síðan í Fella og Hólahverfi og loksins í Seljahverfi. Þessi hverfi spruttu hratt upp en hafa vaxið lítið síðustu áratugi enda svæðið að mestu uppbyggt. Ekki hægt að segja skilið við sjöunda áratuginn án þess að minnast á Geirsnef Geirs Hallgrímssonar, en hann var þá borgarstjóri og lét gera gífurlega landfyllingu í ósinn neðan við Ártúnsholtið. Þetta svæði þekkjum við í dag sem útivstarsvæði.

Byrjað var að hverfisskipuleggja Árbæjarhverfi á sjöunda áratugnum. Hann hafði verið lítt byggður fram að því. Íbúarnir voru orðnir um 82.000 árið 1970. Fjölgað hafði um þúsund manns á ári. Hlutfallið var 40% af landsbyggðinni.
Reykvíkingum fjölgaði ekki mikið á áttunda áratugnum og aðeins hafði fjölgað um tvö þúsund manns árið 1980. Þá voru íbúar í Reykjavík um 84.000. Hlutfall íbúa í Reykjavík var komið niður í 36,5% af landsbyggðinni. Þetta var töluvert bakslag miðað við síðustu áratugi á undan. Byggðarþróunin var auðvitað samræmi við þetta.

Davíð Oddsson varð borgarsjóri árið 1982. Hann lofaði Reykvíkingum bjartari framtíð og meiri uppbyggingu. Hann stóð við loforðið.
Um miðjan níunda áratuginn var Grafarvogurinn farinn að taka á sig hverfismynd. Byrjað var á Hamra og Foldahverfi. Seinna teygði íbúarbyggðin sig í norður og vestur átt. Árið 1990 voru Reykvíkingar orðnir um 98.000. Íbúum hafði fjölgað um fjórtán þúsund á einum áratug. Til varð Rimahverfi, Húsahverfi og Engjahverfi. Hafa skal í huga að til urðu fleiri blokkir út um alla borg og því þéttist kjarninn mjög mikið. Ekki er alltaf hægt að setja saman víkkun þéttkjarnans og íbúarfjölgun þó svo að það haldi oftast hönd í hönd. Á meðan Grafarvogurinn var að vaxa mjög hratt fjölgaði einnig í hverfum eins og Breiðholti, Árbæ og í Holtunum. Meðalstærð íbúðanna hefur aukist mjög mikið, rými á mann er nú a.m.k. fjórfalt meira en það var árið 1920.
Grafarvogurinn hefur hins vegar stækkað mjög mikið á nær tuttugu árum.
Á tíunda áratugnum sameinaðist Reykjavíkurborg Kjalanesinu og við stækkaði borgarlandið þá um helming. Fyrir það var borgarland Reykjavíkur um 123m2.
Árið 2000 hafði aftur fjölgað um tæp 14.000 á einum áratug og voru Reykvíkingar orðnir um 111.500 eða um 39,5% af íbúafjölda landsins. Byrjað var að byggja í Grafarholti. Grafarvogurinn hefur haldið áfram að stækka síðustu árin með tilkomu Víkur og Staðarhverfis. Grafarholtið vex jafnt og þétt og nýjasta hverfisskipulag liggur nú fyrir um Norðlingaholtið.
Í dag, um 100 árum og sextán borgarstjórum síðar, er borgarland Reykjavíkur nú 274,5 m2. Þéttbýli er 46,5m2. Land Reykjavíkur borgar er um 0,2% af Íslandi.
Frá aldarmótunum 1800-1900 hefur íbúarfjöldi Reykvíkinga sextánfaldast. Til gamans má geta að íbúatala New York og London hefur aðeins fjórfaldast á um 100 árum.

Þessi langi pistill hér á undan ætti að fylla alla Reykvíkinga stolti. Þetta er ,,Borgin okkar.” Hins vegar horfa Reykvíkingar ekki fram á bjarta tíma á meðan R-lisinn er hér við völd. Skuldirnar hækka, borgarstjóri hleypur frá verkefninu til að ,,meika það” annars staðar, annar borgarstjóri lendir í vandræðum og ári síðar kemur út 1000 bls. skýrsla sem kemur honum í meiri vandræði og ekki dettur R-listanum að undirbúa sig fyrir það á þessu ári sem leið heldur snúa við honum bakinu og fara sjálf í baklás. Valinn er lægsti samnefnarinn af borgarstjórnarflokknum til að verða borgarstjóri en ekkert gerist í borginni nema að skuldir og gjöld hækka.

Nú eru um fjórtán mánuðir í kosningar. R-lisinn stendur allsber af valdhroka og málamiðlanatillögum sín á milli sem snúast ekki um hag Reykvíkinga heldur að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Farið hefur verið illa með fé borgaranna og hefur R-lista elítan eytt þeim af sinni eigin hentisemi.

Já, það er hægt að skrifa endarlaust um misferli, valdhroka, stjórnleysi, ábyrgðarleysi, forystuleysi, hækkun gjalda, hækkun útvars og svo frv., en Reykvíkingar sjá í hvað stefnir og að öllum líkindum mun R-listinn fara frá völdum að sveitastjórnarkosningum liðnum. Ef ekki munum við fara aftur á byrjunarreit.

Gísli Freyr Valdórsson


Ríkið í megrun!

Fyrir nokkrum vikum lagði Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður,fram fyrirspurn til fjármálaráðherra umeignarhlut ríkisins í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Óhætt er að fullyrða að svarið komi á óvart og sé í senn bæði sláandi og ótrúlegt. Ríkið á eignarhlut í rétt um 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ríkissjóður átti í alls 24 fyrirtækjum 1. desember 2004. Ríkisstofnanir í A-hluta eiga frá 0,9 prósent til 100% í 29 fyrirtækjum. Fyrirtæki Byggðastofnunar eru alls 78 talsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á alls 64. 11 fyrirtæki voru í eigu annarra ríkisfyrirtækja.

Þessar upplýsingar eru að mínu mati með ólíkindum.
Tek ég heilshugar undir mat Sigurðar Kára, sem fram hefur komið í fjölmiðlum seinustu daga, þess efnis að ríkið sé alltof fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi. Það er enginn vafi á því að mikilvægt sé að sameina Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Byggðastofnun.
Það er óneitanlega skondið að ÁTVR á 20 prósenta eignarhlut í Endurvinnslunni! Þetta gengur vart að mínu mati og þarf að stokka allt dæmið upp, með mjög afgerandi hætti. Ef marka má svar fjármálaráðherra á ríkið hlut í félögum sem reka upplýsinga- og tæknifyrirtæki, hótel, baðhús, fiskiðju, fiskeldi, flugskóla, endurvinnslu, saumastofur, sjávarútvegsvinnslu, og svona mætti alltof lengi telja.

Það er að mínu mati með ólíkindum að fjármálaráðherra hafi ekki stokkað stöðu mála meira upp en raun ber vitni. Það þarf að fara betur yfir þetta dæmi og leita eftir því hvers vegna ríkið sé bæði stórtækt og ótrúlega áberandi í beinum fyrirtækjafjárfestingum.
Til dæmis er merkilegt að ríkissjóður á 54% í baðfélagi Mývatnssveitar, 22,4% í Barra hf. 17,8% í Endurvinnslunni (sem ÁTVR á 20% í nota bene), 42,2% í Flugskóla Íslands og 100% í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Er þetta bara stutt dæmi. Hvet ég alla til að kynna sér ítarlega niðurstöður svarsins við fyrirspurninni, skoða stöðu mála og fara yfir listann lið fyrir lið. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft fjármálaráðuneytið nú í tæp 14 ár samfellt. Er þessi niðurstaða ekki ásættanleg fyrir okkur sjálfstæðismenn og vinna þarf að því að stokka stöðu þessara mála upp með markvissum hætti. Leita þarf leiða til að haga málum með öðrum hætti. Er hér komið verðugt verkefni fyrir fjármálaráðherra til að vinna úr og nokkuð umhugsunarefni í leiðinni fyrir hann. Það verður flestum (vonandi öllum) ljóst þegar litið er yfir þessar niðurstöður að þetta gengur ekki upp. Það er ótækt að ríkið eigi hlut í hótelum, saumastofum, fiskeldi og fleiru því sem of langt væri upp að telja. Er það mikil lexía eflaust fyrir alla að renna yfir listann og fara yfir þetta.

Vel má vera að Framsóknarflokkurinn og tengslin við hann hafi magnað upp þessa lista eða leitt til þess að á þeirra vegum sé staðið í hinu og þessu sem ríkið á ekki að koma nærri. Ekki skal ég fullyrða að svo sé, en sá grunur læðist óneitanlega að þeim sem rennur yfir listann. Ekki þarf að fræða fólk um hvernig Framsóknarflokkurinn hefur unnið til fjölda ára í styrkjaleppasjóðum og tengdum málum. En það er ótækt að Sjálfstæðisflokkurinn viðhaldi svona kerfi og þetta verður að taka allt í gegn. Einfalt mál í mínum huga og okkar ungliða innan Sjálfstæðisflokksins.

Stefán Friðrik Stefánsson


Mánudagspósturinn 14. febrúar 2005

Ríkisstjórn borgaraflokkanna í Danmörku hélt velli í þingskosningunum sem fram fóru þar í landi þann 8. febrúar sl. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir, Venstre og Íhaldsflokkurinn, og Danski þjóðarflokkurinn héldu meirihluta sínum á danska þinginu.
Danskir jafnaðarmenn guldu hins vegar sögulegt afhroð og misstu fimm þingmenn frá því í kosningunum 2001. Þá þótti árangur þeirra afar slæmur. Sósíalíski þjóðarflokkurinn missti einn mann á þingi en Einingarlistinn bætti við sig tveimur mönnum og Radikale Venstre átta.

Á vinstrivængnum náðu því Radikale Venstre mestum árangri í kosningunum. Það sem þykir þó sögulegast við kosningarnar er að fosætisráðherra Venstre nái endurkjöri. Það hefur ekki gerzt í heila öld. Venstre missti að vísu fjóra menn, en samstarfsflokkarnir bættu það upp. Íhaldsflokkurinn bætti við sig tveimur mönnum og Danski þjóðarflokkurinn tveimur að sama skapi. Undarlegt er að í aðdraganda kosninganna virtist ýmislegt benda til þess að síðastnefndi flokkurinn myndi tapa talsverðu fylgi en annað kom sem sagt á daginn þegar talið var upp úr kjörkössunum.

Ófáir vinstrimenn í Evrópu, þ.á.m. hér á landi, hafa brugðist ókvæða við niðurstöðum kosninganna. Hafa þeir reynt að hugga sig við árangur Radikale Venstre í kosningunum þó raunin sé sú að sá flokkur sé fyrst og fremst einhvers konar miðjuflokkur sem fær fylgi sitt bæði af vinstri og hægrivængnum þó það liggi nokkuð meira til vinstri. Sérstaklega hefur árangur Danska þjóðarflokksins farið illa í marga vinstrimenn.

Hafa í kjölfar kosninganna heyrzt ófáar raddir af vinstrivængnum vonast til þess að Venstre og Íhaldsflokkurinn skipti Danska þjóðarflokknum út fyrir Radikale Venstre sem samstarfsflokk. Það verður þó að teljast afar ólíklegt þar sem flokkurinn hefur gerólíka stefnu í veigamiklum málaflokkum á við hægriflokkana tvo, þá ekki sízt þegar kemur að innflytjendamálunum, Íraksmálinu og skattalækkunum.

---

Skákmeistarinn Ilya Gurevich sendi nýverið frá sér opið bréf þar sem hann biður Íslendinga að athuga hvað þeir séu að gera í máli Bobby Fischers. Hann segist furða sig mjög á tilraunum íslenzkra stjórnvalda til að bjarga Fischer úr klóm Bandaríkjamanna. Gurevich hvetur fólk til að kynna sér ummæli Fischers um Gyðinga og hvað hann hafi sagt eftir árásina á World Trade Center þann 11. september 2001.
Þá hafi hann fagnað dauða þúsunda saklausra borgara og látið í ljós ósk um tortímingu allra gyðinga.

Ástæða þess að Fischer situr nú í japönsku fangelsi er að hann braut gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á Júgóslavíu 1992 og fór þangað og tefldi. Gurevich segir að Fischer hafi verið vel meðvitaður um þá áhættu sem hann tók með þátttöku sinni, en hann hafi engu síður ákveðið að fara og tefla í þeirri von að vinna þriggja miljóna dollara verðlaunafé. Honum hafi verið vel kunnugt um að hann myndi ekki eiga afturkvæmt til Bandaríkjanna.

---

Þingmenn Frjálslynda flokksins lögðu á dögunum fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að hætt verði að skylda karla til að klæðast ávallt jakkafötum og bindi í þingsal í því skyni að færa klæðnað þingmanna til nútímalegs horfs. Fyrir það fyrsta vissi ég ekki að það væri gamaldags að klæðast jakkafötum og bindi við ýmis tækifæri, en vart er hægt að túlka tillögu þingmannanna öðruvísi.
Það þykir eðlilegt við ófá tækifæri að karlar klæðist með þessum hætti og þá ekki sízt þar sem hugmyndin er að halda uppi ákveðinni háttvísi og virðingu. Og ef einhvers staðar er ástæða til að huga að slíku í þjóðfélaginu þá er það væntanlega á Alþingi sem gjarnan er nefnd virtasta stofnun landsins.

---

Loks var greint frá því á sunnudag að ríkisstjórnarflokkarnir væru að leggja lokahönd á frumvarp þar sem lagt verður til að afnotagjöld Ríkisútvarpsins verði lögð niður í núverandi mynd.
Mun ætlunin vera að leggja frumvarpið fram á vorþingi. Þetta kom fram í viðtali Morgunblaðsins við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna þó réttast væri að stofnunin öll væri tekin til gagngerrar endurskoðunar.
Lengi hefur legið fyrir að það fyrirkomulag, að allir eigendur viðtækja á Íslandi væru skyldaðir til að greiða Ríkisútvarpinu afnotagjöld hvort sem þeir nýttu sér þjónustu þess eða ekki, væri úrelt auk þess að vera á allan hátt ósanngjarnt.

Hjörtur J. Guðmundsson


Tímaskekkja í útvarpslögum

Tungumálið er eitt af því sem sameinar okkur sem þjóð. Það er órjúfanlegur hluti af sögu okkar og menningu. Því er eðlilegt að menn leitist við að standa vörð um það. Slíkir tilburðir geta þó gengið allt of langt eins og nýleg dæmi sýna.

Síðastliðinn fimmtudag komst útvarpsréttarnefnd að þeirri niðurstöðu að útsendingar Skjás Eins á knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni með enskri lýsingu, brytu í bága við 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga.
Þar segir:

,,Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.”

Niðurstöðu nefndarinnar má telja eðlilega miðað við það hvernig löggjöfinni er háttað, þó vissulega megi deila um hvort flokka eigi útsendingar frá knattspyrnuleikjum sem fréttatengt efni. Í úrskurði sínum leggur nefndin áherslu á þann tilgang útvarpslaganna ,,að vernda og efla íslenska tungu” og beri að hafa hliðsjón af honum við skýringu á 1. mgr. 8. gr. laganna.
Ekki skal efast um að sá tilgangur býr að baki umræddri lagagrein.

Ekki fæ ég betur séð en að í umræddu lagaákvæði gæti forræðishyggju sem erfitt er að réttlæta. Vandséð er að umræddar útsendingar séu á nokkurn hátt skaðlegar íslenskri tungu, eða grafi undan þeirri viðleitni manna ,,að vernda hana og efla.” Ekki veit ég til að það hafi verið talið skaðlegt móðurmálskunnáttu manna að læra önnur tungumál. Hér hlýtur að vera um tvískinnung að ræða því mikil áhersla er jú lögð á tungumálakennslu í starfi grunnskóla og framhaldsskóla. Ekki þekki ég dæmi þess að það nám hafi grafið undan íslenskukunnáttu fólks. Mannsheilinn er nefnilega þeim kostum búinn að geta tileinkað sér margt án þess að það bitni hvað á öðru!

Sjálfur hef ég lengi haft gaman að enskri knattspyrnu. Sem unglingur hlustaði ég gjarnan á útsendingar BBC þegar uppáhaldsliðið mitt var að keppa. Ég efast stórlega um að það hafi skaðað íslenskukunnáttu mína. Sé henni ábótavant eru aðrar ástæður fyrir því!
Í seinni tíð hefur komið fyrir að ég horfi á liðið mitt í endurvarpaðri útsendingu úr hollensku sjónvarpi, með hollenskum þulum. Merkilegt nokk – þá er ég ekki enn farinn að rugla hollenskunni og íslenskunni saman! Hvort það er af því að ég sé svo tregur og seinn að tileinka mér hollenskuna skal ósagt látið!

Vert er að hafa í huga að verulegur hluti afþreyingarefnis í íslensku sjónvarpi er á enskri tungu. Í langflestum tilvikum er efnið birt með íslenskum texta. En einnig er aðgengi að erlendum sjónvarpstöðvum mun greiðara en var fyrir nokkrum árum að ekki sé talað um aðgengi að efni á hinum ýmsu tungumálum á netinu. Því tel ég að þær greinar útvarpslaga sem ganga svo langt sem að framan er rakið séu í besta falli tímaskekkja en hallast raunar fremur að því að þeirra hafi aldrei verið þörf. Meðan eftirspurn er eftir efni með íslenskum texta eða knattspyrnuleikjum með íslenskum lýsendum eru líkur fyrir því að slíkt verði í boði.

Ég tel rétt að breyta útvarpslögum í þá veru að heimildir til útsendinga á erlendum tungumálum verði rýmkaðar. Yfirvöld menntamála ættu að taka því fagnandi að fá aðstoð við enskukennslu í formi lýsinga á knattspyrnuleikjum. Var ekki einhvern tímann sagt að maður lærði tungumál best þegar um væri að ræða efni sem vekur áhuga manns? Hér er um að ræða íþyngjandi reglur sem ekki eru bara óþarfar heldur beinlínis til óþurftar.

Nú hafa 15 þingmenn lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á umræddum lögum í þá veru að heimilt verði að senda út íþróttaviðburði með erlendum lýsingum.
Ég skora á Alþingi að samþykkja frumvarpið fljótt og vel.

Þorsteinn Magnússon


Mánudagspósturinn 7. febrúar 2005

Til eru þeir aðilar hér á landi sem telja sig geta séð fyrir óorðna hluti og fullyrt um það hvernig þeir verði í framtíðinni. Á fundi í síðustu viku á vegum Evrópusamtakanna og Félags stjórnmálafræðinema hélt Þórarinn G. Pétursson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, því blákalt fram að okkur Íslendingum yrði ekki stætt utan Myntbandalags Evrópu, og þar með Evrópusambandsins, þegar Bretland, Svíþjóð, Danmörk og Noregur hefðu tekið upp Evruna. Ekki er talað um “ef” heldur “þegar”. Eins og þetta sé bara frágengið, eitthvað sem er eins fjarri sannleikanum og hægt er.

Maður spyr sig því óhjákvæmilega hvaðan Þórarinn hefur þá gáfu að geta fullyrt að svona muni þetta verða, eitthvað sem enginn dauðlegur maður getur mögulega vitað fyrir víst? Hefur hann kannski fengið einhver boð að handan um málið? Staðreyndin er nefnilega sú að hann getur ekkert fullyrt um þessi mál frekar en ég eða hver annar. Hins vegar er hér um að ræða málflutning í anda helzta áróðursbragðs íslenzkra Evrópusambandssinna í dag, þ.e. að reyna að telja okkur Íslendingum trú um að við munum fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið hvort sem okkur líkar betur eða verr – eins “lýðræðislegur” og sá málflutningur nú er.

Þessi áróðursaðferð hjá Evrópusambandssinnunum er þó ekki margra ára gömul.
Fyrir aðeins fáum árum síðan gekk áróður þeirra allur út á að við Íslendingar værum að missa af einhverri meintri hamingjulest til paradísar, þ.e. Evrópusambandsins.
Nú er hins vegar þessi meinta paradís, sem þeir töluðu um áður, orðin að einhverri meintri nauðung. Ástæðan er einföld; það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að telja fólki trú um að aðild að sambandinu sé eitthvað sem ástæða sé til að sækjast eftir.

---

Greint var frá því að íranskur karlmaður á fimmtugsaldri hafi gefið sig fram við lögregluna á Höfn í Hornafirði sl. þriðjudagskvöld og óskaði að sér yrði veitt hæli hér á landi þar til hann héldi áfram til Kanada. Kom fram að ekki væri ljóst hvernig maðurinn hefði komist til landsins en tungumálaefiðleikar hafi gert erfitt að afla upplýsinga frá honum. Leikur grunur á að hann hafi komist til landsins með skipi.

Það var sem sagt ekkert vitað um veru mannsins í landinu fyrr en hann gaf sig fram við yfirvöld. Það er ekki að furða að Útlendingastofnun telji að það séu hundruðir ólöglegra innflytjenda í landinu. Ástæðan fyrir þessari stöðu mála er annars vafalítið fyrst og fremst ein: Schengen!
Svo er bara spurningin hvernig eigi að senda hann úr landi ef ekki verður komizt að því með hvaða hætti hann komst inn í landið, þ.e. verði umsókn hans um hæli hafnað.

---

John Kerry hélt því fram í upphafi vikunnar að myndband frá Osama bin Laden hafi gert útslagið um að hann tapaði fyrir George W. Bush í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember sl. Kerry sagði í viðtali á NBC-sjónvarpsstöðinni að forskotið sem hann hafði á Bush í aðdraganda kosninganna hefði tapast niður eftir að myndbandið birtist. Jájá, alltaf þægilegt að geta kennt einhverjum öðrum um eigin ófarir en sér sjálfum.

---

Ástandið í Hollandi batnar ekki mikið. Í vikunni var greint frá því að talið sé að samtök íslamskra öfgamanna hyggist skipuleggja tilræði við hollenzku þingkonuna Ayaan Hirsi Ali. Leikur jafnvel grunur á að samtökin hyggist myrða fleiri hollenzka þingmenn. Hirsi Ali er sem kunnugt er sómölsk að uppruna og þekkt fyrir gagnrýni sína á íslamstrú.

---

Greint var frá því í fréttum að samtals hefðu um 693 þúsund farþegar komið til landsins um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári miðað við 584 þúsund farþega árið 2003. Þetta mun vera 18,6% aukning en á árinu 2003 fjölgaði komufarþegum um 18,3% miðað við árið 2002. Einnig var sagt frá því að farþegum um Keflavíkurflugvöll hefði fjölgaði um tæp 16% í janúar miðað við sama tíma í fyrra. Enn bólar sem sagt ekkert á þessu hruni í ferðamannaiðnaðinum sem andstæðingar hvalveiða voru búnir að spá fyrir um.

---

Rúmar 5 milljónir Þjóðverja eru nú án atvinnu og hefur atvinnuleysi í Þýzkalandi ekki verið meira síðan í upphafi kreppunnar miklu. Þýzkaland er sem kunnugt er sterkasta efnahagskerfi Evrópusambandsins. Hver vill ekki vera hluti af þessu?

Hjörtur J. Guðmundsson


Næsta síða »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband