Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 14. febrúar 2005

Ríkisstjórn borgaraflokkanna í Danmörku hélt velli í þingskosningunum sem fram fóru þar í landi þann 8. febrúar sl. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir, Venstre og Íhaldsflokkurinn, og Danski þjóðarflokkurinn héldu meirihluta sínum á danska þinginu.
Danskir jafnaðarmenn guldu hins vegar sögulegt afhroð og misstu fimm þingmenn frá því í kosningunum 2001. Þá þótti árangur þeirra afar slæmur. Sósíalíski þjóðarflokkurinn missti einn mann á þingi en Einingarlistinn bætti við sig tveimur mönnum og Radikale Venstre átta.

Á vinstrivængnum náðu því Radikale Venstre mestum árangri í kosningunum. Það sem þykir þó sögulegast við kosningarnar er að fosætisráðherra Venstre nái endurkjöri. Það hefur ekki gerzt í heila öld. Venstre missti að vísu fjóra menn, en samstarfsflokkarnir bættu það upp. Íhaldsflokkurinn bætti við sig tveimur mönnum og Danski þjóðarflokkurinn tveimur að sama skapi. Undarlegt er að í aðdraganda kosninganna virtist ýmislegt benda til þess að síðastnefndi flokkurinn myndi tapa talsverðu fylgi en annað kom sem sagt á daginn þegar talið var upp úr kjörkössunum.

Ófáir vinstrimenn í Evrópu, þ.á.m. hér á landi, hafa brugðist ókvæða við niðurstöðum kosninganna. Hafa þeir reynt að hugga sig við árangur Radikale Venstre í kosningunum þó raunin sé sú að sá flokkur sé fyrst og fremst einhvers konar miðjuflokkur sem fær fylgi sitt bæði af vinstri og hægrivængnum þó það liggi nokkuð meira til vinstri. Sérstaklega hefur árangur Danska þjóðarflokksins farið illa í marga vinstrimenn.

Hafa í kjölfar kosninganna heyrzt ófáar raddir af vinstrivængnum vonast til þess að Venstre og Íhaldsflokkurinn skipti Danska þjóðarflokknum út fyrir Radikale Venstre sem samstarfsflokk. Það verður þó að teljast afar ólíklegt þar sem flokkurinn hefur gerólíka stefnu í veigamiklum málaflokkum á við hægriflokkana tvo, þá ekki sízt þegar kemur að innflytjendamálunum, Íraksmálinu og skattalækkunum.

---

Skákmeistarinn Ilya Gurevich sendi nýverið frá sér opið bréf þar sem hann biður Íslendinga að athuga hvað þeir séu að gera í máli Bobby Fischers. Hann segist furða sig mjög á tilraunum íslenzkra stjórnvalda til að bjarga Fischer úr klóm Bandaríkjamanna. Gurevich hvetur fólk til að kynna sér ummæli Fischers um Gyðinga og hvað hann hafi sagt eftir árásina á World Trade Center þann 11. september 2001.
Þá hafi hann fagnað dauða þúsunda saklausra borgara og látið í ljós ósk um tortímingu allra gyðinga.

Ástæða þess að Fischer situr nú í japönsku fangelsi er að hann braut gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á Júgóslavíu 1992 og fór þangað og tefldi. Gurevich segir að Fischer hafi verið vel meðvitaður um þá áhættu sem hann tók með þátttöku sinni, en hann hafi engu síður ákveðið að fara og tefla í þeirri von að vinna þriggja miljóna dollara verðlaunafé. Honum hafi verið vel kunnugt um að hann myndi ekki eiga afturkvæmt til Bandaríkjanna.

---

Þingmenn Frjálslynda flokksins lögðu á dögunum fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að hætt verði að skylda karla til að klæðast ávallt jakkafötum og bindi í þingsal í því skyni að færa klæðnað þingmanna til nútímalegs horfs. Fyrir það fyrsta vissi ég ekki að það væri gamaldags að klæðast jakkafötum og bindi við ýmis tækifæri, en vart er hægt að túlka tillögu þingmannanna öðruvísi.
Það þykir eðlilegt við ófá tækifæri að karlar klæðist með þessum hætti og þá ekki sízt þar sem hugmyndin er að halda uppi ákveðinni háttvísi og virðingu. Og ef einhvers staðar er ástæða til að huga að slíku í þjóðfélaginu þá er það væntanlega á Alþingi sem gjarnan er nefnd virtasta stofnun landsins.

---

Loks var greint frá því á sunnudag að ríkisstjórnarflokkarnir væru að leggja lokahönd á frumvarp þar sem lagt verður til að afnotagjöld Ríkisútvarpsins verði lögð niður í núverandi mynd.
Mun ætlunin vera að leggja frumvarpið fram á vorþingi. Þetta kom fram í viðtali Morgunblaðsins við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna þó réttast væri að stofnunin öll væri tekin til gagngerrar endurskoðunar.
Lengi hefur legið fyrir að það fyrirkomulag, að allir eigendur viðtækja á Íslandi væru skyldaðir til að greiða Ríkisútvarpinu afnotagjöld hvort sem þeir nýttu sér þjónustu þess eða ekki, væri úrelt auk þess að vera á allan hátt ósanngjarnt.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband