Leita í fréttum mbl.is

Ríkið í megrun!

Fyrir nokkrum vikum lagði Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður,fram fyrirspurn til fjármálaráðherra umeignarhlut ríkisins í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Óhætt er að fullyrða að svarið komi á óvart og sé í senn bæði sláandi og ótrúlegt. Ríkið á eignarhlut í rétt um 200 hlutafélögum og einkahlutafélögum. Ríkissjóður átti í alls 24 fyrirtækjum 1. desember 2004. Ríkisstofnanir í A-hluta eiga frá 0,9 prósent til 100% í 29 fyrirtækjum. Fyrirtæki Byggðastofnunar eru alls 78 talsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins á alls 64. 11 fyrirtæki voru í eigu annarra ríkisfyrirtækja.

Þessar upplýsingar eru að mínu mati með ólíkindum.
Tek ég heilshugar undir mat Sigurðar Kára, sem fram hefur komið í fjölmiðlum seinustu daga, þess efnis að ríkið sé alltof fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi. Það er enginn vafi á því að mikilvægt sé að sameina Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Byggðastofnun.
Það er óneitanlega skondið að ÁTVR á 20 prósenta eignarhlut í Endurvinnslunni! Þetta gengur vart að mínu mati og þarf að stokka allt dæmið upp, með mjög afgerandi hætti. Ef marka má svar fjármálaráðherra á ríkið hlut í félögum sem reka upplýsinga- og tæknifyrirtæki, hótel, baðhús, fiskiðju, fiskeldi, flugskóla, endurvinnslu, saumastofur, sjávarútvegsvinnslu, og svona mætti alltof lengi telja.

Það er að mínu mati með ólíkindum að fjármálaráðherra hafi ekki stokkað stöðu mála meira upp en raun ber vitni. Það þarf að fara betur yfir þetta dæmi og leita eftir því hvers vegna ríkið sé bæði stórtækt og ótrúlega áberandi í beinum fyrirtækjafjárfestingum.
Til dæmis er merkilegt að ríkissjóður á 54% í baðfélagi Mývatnssveitar, 22,4% í Barra hf. 17,8% í Endurvinnslunni (sem ÁTVR á 20% í nota bene), 42,2% í Flugskóla Íslands og 100% í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Er þetta bara stutt dæmi. Hvet ég alla til að kynna sér ítarlega niðurstöður svarsins við fyrirspurninni, skoða stöðu mála og fara yfir listann lið fyrir lið. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft fjármálaráðuneytið nú í tæp 14 ár samfellt. Er þessi niðurstaða ekki ásættanleg fyrir okkur sjálfstæðismenn og vinna þarf að því að stokka stöðu þessara mála upp með markvissum hætti. Leita þarf leiða til að haga málum með öðrum hætti. Er hér komið verðugt verkefni fyrir fjármálaráðherra til að vinna úr og nokkuð umhugsunarefni í leiðinni fyrir hann. Það verður flestum (vonandi öllum) ljóst þegar litið er yfir þessar niðurstöður að þetta gengur ekki upp. Það er ótækt að ríkið eigi hlut í hótelum, saumastofum, fiskeldi og fleiru því sem of langt væri upp að telja. Er það mikil lexía eflaust fyrir alla að renna yfir listann og fara yfir þetta.

Vel má vera að Framsóknarflokkurinn og tengslin við hann hafi magnað upp þessa lista eða leitt til þess að á þeirra vegum sé staðið í hinu og þessu sem ríkið á ekki að koma nærri. Ekki skal ég fullyrða að svo sé, en sá grunur læðist óneitanlega að þeim sem rennur yfir listann. Ekki þarf að fræða fólk um hvernig Framsóknarflokkurinn hefur unnið til fjölda ára í styrkjaleppasjóðum og tengdum málum. En það er ótækt að Sjálfstæðisflokkurinn viðhaldi svona kerfi og þetta verður að taka allt í gegn. Einfalt mál í mínum huga og okkar ungliða innan Sjálfstæðisflokksins.

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband