Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 21. febrúar 2005

Allsherjarnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum sl. fimmtudag að leggja ekki til við Alþingi að Bobby Fischer fái íslenzkan ríkisborgararétt að svo stöddu. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði að loknum fundinum að umsókn Fischers byggi á því að með íslenzkan ríkisborgararétt hefði Fischer betri lagalega stöðu í deilum sínum við stjórnvöld í öðru landi. „Það sem meðal annars ræður minn afstöðu er að stjórnvöld hafa þegar gripið til aðgerða til að tryggja að Bobby Fischer geti komið hingað til lands, þegar þetta liggur fyrir tel ég ekki að ástæða sé til að veita honum ríkisborgararétt að svo stöddu, meðal annars vegna þess að með því væri verið að hafa afskipti af deilum hans við stjórnvöld annars ríkis,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku þessari niðurstöðu meirihluta alsherjarnefndar illa og vildi Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins sem sæti á í nefndinni, meina að þetta þýddi að íslenzk stjórnvöld væru að ganga á bak orða sinna gagnvart Fischer og að það væri vegna þrýstings frá Bandaríkjastjórn. Í kvöldfréttum Ríkisstjórnvarpsins, sama dag og niðurstaða nefndarinnar lá fyrir, sagði Sigurjón: „Ég vil einnig minna á að það var einnig ákvörðun utanríkisráðherra þjóðarinnar að bjóða þessum manni í heimsókn, en síðan þegar hann ætlar að mæta til landsins, að þá er bara skellt dyrunum á hann.”

Ummæli Sigurjóns eru auðvitað alveg stórundarleg í ljósi þess að aldrei stóð til að veita Fischer íslenzkan ríkisborgararétt. Honum hefur einungis verið boðið hér dvalarleyfi. Hins vegar kom í ljós, eftir að íslenzk stjórnvöld buðust til að veita Fischer dvalarleyfi að það dygði að öllum líkindum ekki til að japönsk yfirvöld heimiluðu honum að koma hingað til lands. Að halda því fram að íslenzk stjórnvöld hafi á efnhvern hátt gengið á bak orða sinna er furðulegt og þá alveg sér í lagi yfirlýsingar um að þau hafi látið undan einhverjum þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum. Fróðlegt væri ef Sigurjón færði einhver rök fyrir þeim fullyrðingum sínum.

---

Kostuleg frétt birtist á síðum Fréttablaðsins sl. mánudag. Þar var sagt frá því að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, gæti vart haldið embætti sínu áfram ef brezkir kjósendur „greiddu atkvæði gegn evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Þetta var haft eftir Alan Milburn, ráðherra í ríkisstjórn Blair og stjórnanda kosningabaráttu Verkamannaflokksins. Og áfram var sagt í blaðinu að Milburn hafi gert að því skóna að kynni að segja af sér ef Bretar „felldu það í atkvæðagreiðslu að taka upp evruna.“

Þetta er allt gott og blessað að því undanskyldu að engin þjóðaratkvæðagreiðsla er fyrirhuguð í Bretlandi um evruna heldur um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins sem er auðvitað allt annar hlutur. Í erlendum fréttum af ummælum Milburns kemur það líka berlega í ljós að hann var að tala um þjóðaratkvæðið um stjórnarskrána sem fyrirhugað er á næsta ári.
Hvernig hægt er að klúðra jafn stuttri frétt er mér hulin ráðgáta.

---

Vefsíða Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, varð 10 ára í vikunni. Vefsíðan hefur frá upphafi verið skilvirkur og fróðlegur vettvangur fyrir alla áhugamenn um stjórnmál á Íslandi. Vefsíðan hefur ekki sízt verið öflugur miðill fyrir Björn til að koma á framfæri skoðunum sínum og sjónarmiðum á mönnum og málefnum á líðandi stund og á sama tíma verið öðrum áhugamönnum um stjórnmál hvatning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Við á Íhald.is viljum óska Birni til hamingju með áfangann og vonum að hann haldi áfram á sömu braut.

---

Kristinn H. Gunnarsson hefur verið tekinn í sátt af forystu Framsóknarflokksins og veitt nefndarseta í tveimur þingnefndum. Er það mál manna að tilgangurinn með þessu sé þó fyrst og fremst sá að tryggja Halldóri Ásgrímssyni góða kosningu til áframhaldandi formennsku á flokksþingi framsóknarmanna sem haldið verður innan skamms.

---

Að lokum má nefna að Atlantsolíu opnaði sína fyrstu bensínstöð í Reykjavík í gær sunnudag. Bensínstöðin er sjálfsafgreiðslustöð og er staðsett á Sprengisandi við enda Bústaðavegar á mótum Reykjanesbrautar. Ber að sjálfsögðu að fagna aukinni samkeppni í sölu á eldsneyti á höfuðborgarsvæðinu.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband