Leita í fréttum mbl.is

Ó borg, mín borg ...

Reykjavík hefur stækkað og vaxið í yfir þúsund ár. En aldrei jafn mikið og síðustu hundrað árin. Um aldarmótin 1800-1900 var Reykjavík illa farin af fátækt og húsnæðisskorti og Ísland var eitt af fátækustu löndum í Evrópu á þessum tíma og sjálfsagt hefur höfuðborgin borið brag af því.
Á þessum tíma var aðalbyggð Reykjavíkur í kringum miðbæinn og í næsta nágrenni við hann. Þá voru sveitabæir á Skólavörðuholti og nokkuð langt „í bæinn.”

Íbúar í Reykjavík voru um 6.700 árið 1901, eða 8,5% af öllum landsmönnum. Árið 1907 var byrjað að tala um embætti borgarstjóra og var Páll Einarsson ráðinn árið eftir. Á þessum tíma var Reykjavík tæplega tíu þúsund manna bær og því vekur það nokkra athygli að uppi voru hugmyndir um borgarsjóra en ekki bæjarstjóra. Reykjvíkingar hafa greinilega snemma byrjað að hugsa stórt.

Á árum fyrri heimsstyrjaldar voru gífurleg húsnæðisvandamál í Reykjavík. Þeir sem ekki höfðu efni á eigin húsnæði bjuggu í kjallaraholum, háaloftum og í skúrræksnum. Ennþá var sveitabragur á bænum og ekki bætti úr skák til að hér voru miklar frosthörkur og skortur á ýmsum nauðsynjum. Aldrei hefur mælst meira frost í Reykjavík en í janúar árið 1918 eða –24,5°C. Þó voru bjartsýnustu menn farnir að gera sér hugmyndir um hverfaskipulag og sáu fyrir sér alvöru bæ.

Guðmundur Hannesson læknir gaf úr Um skipulag bæja árið 1916. Hann gagnrýndi þá hægför sem honum fannst bæjaryfirvöld sýna bænum og kynnti í leiðinni nýjar hugmyndir sínar um bæjarskipulag. Hann taldi það sjálfsagðan hlut að bæjaryfirvöld einuðust allt bæjarlandið og leigðu það síðan út. Þessi stefna varð ofan á á næstu árum og bærinn eignaðist sjálfur landið í kring. Guðmundur mælti einnig með því að sérstakt hverfi yrði fyrir einbýlishús, annað fyrir opinberar byggingar og enn annað fyrir fyrirtæki og verslanir. Knud Zimsen hafði orðið borgarstjóri árið 1914 og hann lét ekki gagnrýna sig á þennan hátt tvisvar. Reykvíkingar voru orðnir tæp sextán þúsund og það var ekki hjá því komist að stækka sjóndeildarhringinn.

Snemma á þriðja áratugnum fóru menn að taka til hendinni. Bærinn fór að teygja úr sér. Byggðin færðist nokkuð í austur en Vesturbærinn einkenndist enn af sveitarbæjum og stórum túnum. Það var byrjað að koma „borgarbragur” á bæinn. Fyrsta tillaga að heildarskipulagi var lögð fram 12. janúar 1928. Gert var ráð fyrir að Reykjavík yrði bara innan Hringbrautar og næstu ár á eftir var 85% byggðarinnar þannig. Árið 1930 voru íbúar Reykjavíkur rúm 28.000 eða 26% Íslendinga.

Það var hins vegar ekki fyrr en á miðjum fjórða áratug sem menn fóru að byggja eitthvað að ráði fyrir utan Hringbraut. Á kreppuárunum hægðist hinsvegar örlítið á byggðarþróun bæjarins. Þrátt fyrir það voru byggðar fyrstu blokkirnar í Reykjavík. Þær voru reistar við Barónsstígi og einnig var byrjað að huga að hverfum utan Hringbrautar, t.d. voru reistar blokkir á Melunum. Knud Zimsen hætti sem borgarstjóri árið 1932 og við tók Jón Þorláksson. Jón er að mínu mati einn mikilfenglegasti stjórnmálamaður á Íslandi. Hann var verkfræðingur að mennt og einbeitti sér mjög að virkjunum og orkunýtingu. Þrátt fyrir kreppuár voru yfir 90% heimla upplýst með rafmagni. Samt hafði rafstöðin við Elliðaárnar tekið til starfa aðeins um áratug áður eða 1921

Þó það hljómi ekki vel má samt segja að Íslendingar hafi verið eina þjóðin sem græddi á seinni heimsstyjöldinni. Við fengum hingað her sem tók að sér varnir landsins og upp hófts gífurleg uppbygging. Efniviður og fjármagn flæddu inn í landið. Alveg eins og Reykjavík hafði liðið fyrir fátækt landsins um aldarmótin, naut hún núna þeirra uppbyggingar sem var í landinu. Árið 1940 voru Reykvíkingar um 38.000 eða um 31% þjóðarinnar. Þegar mest var um Breta voru þeir næstum jafnmargir og Reykvíkingar. Þá kom auðvitað flugvöllurinn og braggahverfin. Vatnsmýri og Hagarnir voru orðnir að byggingarsvæðum. Árið 1946 var hafin kennsla í Melaskóla og segir það nokkuð til um hvað bærinn hafði vaxið í vesturátt. Næstu ár á eftir var nokkuð jöfn byggðarþróun. Reykjavík þandist út í Hlíðarnar, Fossvoginn og Laugarneshverfi. Það var s.s. byggt í allar áttir.

Árið 1960 voru Reykvíngar orðnir um 72.000 eða um 41% landsmanna. Aldrei hefur hlutfallið verið svo mikið. Þann 1. janúar árið 1962 var Reykjavík formlega breytt úr bæ í borg. Á sjötta áratugnum var hafist handa við að byggja Breiðholtið. Sú hverfisuppbygging teygði sig langt inn í sjöunda áratuginn. Byggt var í Bakkahverfi, síðan í Fella og Hólahverfi og loksins í Seljahverfi. Þessi hverfi spruttu hratt upp en hafa vaxið lítið síðustu áratugi enda svæðið að mestu uppbyggt. Ekki hægt að segja skilið við sjöunda áratuginn án þess að minnast á Geirsnef Geirs Hallgrímssonar, en hann var þá borgarstjóri og lét gera gífurlega landfyllingu í ósinn neðan við Ártúnsholtið. Þetta svæði þekkjum við í dag sem útivstarsvæði.

Byrjað var að hverfisskipuleggja Árbæjarhverfi á sjöunda áratugnum. Hann hafði verið lítt byggður fram að því. Íbúarnir voru orðnir um 82.000 árið 1970. Fjölgað hafði um þúsund manns á ári. Hlutfallið var 40% af landsbyggðinni.
Reykvíkingum fjölgaði ekki mikið á áttunda áratugnum og aðeins hafði fjölgað um tvö þúsund manns árið 1980. Þá voru íbúar í Reykjavík um 84.000. Hlutfall íbúa í Reykjavík var komið niður í 36,5% af landsbyggðinni. Þetta var töluvert bakslag miðað við síðustu áratugi á undan. Byggðarþróunin var auðvitað samræmi við þetta.

Davíð Oddsson varð borgarsjóri árið 1982. Hann lofaði Reykvíkingum bjartari framtíð og meiri uppbyggingu. Hann stóð við loforðið.
Um miðjan níunda áratuginn var Grafarvogurinn farinn að taka á sig hverfismynd. Byrjað var á Hamra og Foldahverfi. Seinna teygði íbúarbyggðin sig í norður og vestur átt. Árið 1990 voru Reykvíkingar orðnir um 98.000. Íbúum hafði fjölgað um fjórtán þúsund á einum áratug. Til varð Rimahverfi, Húsahverfi og Engjahverfi. Hafa skal í huga að til urðu fleiri blokkir út um alla borg og því þéttist kjarninn mjög mikið. Ekki er alltaf hægt að setja saman víkkun þéttkjarnans og íbúarfjölgun þó svo að það haldi oftast hönd í hönd. Á meðan Grafarvogurinn var að vaxa mjög hratt fjölgaði einnig í hverfum eins og Breiðholti, Árbæ og í Holtunum. Meðalstærð íbúðanna hefur aukist mjög mikið, rými á mann er nú a.m.k. fjórfalt meira en það var árið 1920.
Grafarvogurinn hefur hins vegar stækkað mjög mikið á nær tuttugu árum.
Á tíunda áratugnum sameinaðist Reykjavíkurborg Kjalanesinu og við stækkaði borgarlandið þá um helming. Fyrir það var borgarland Reykjavíkur um 123m2.
Árið 2000 hafði aftur fjölgað um tæp 14.000 á einum áratug og voru Reykvíkingar orðnir um 111.500 eða um 39,5% af íbúafjölda landsins. Byrjað var að byggja í Grafarholti. Grafarvogurinn hefur haldið áfram að stækka síðustu árin með tilkomu Víkur og Staðarhverfis. Grafarholtið vex jafnt og þétt og nýjasta hverfisskipulag liggur nú fyrir um Norðlingaholtið.
Í dag, um 100 árum og sextán borgarstjórum síðar, er borgarland Reykjavíkur nú 274,5 m2. Þéttbýli er 46,5m2. Land Reykjavíkur borgar er um 0,2% af Íslandi.
Frá aldarmótunum 1800-1900 hefur íbúarfjöldi Reykvíkinga sextánfaldast. Til gamans má geta að íbúatala New York og London hefur aðeins fjórfaldast á um 100 árum.

Þessi langi pistill hér á undan ætti að fylla alla Reykvíkinga stolti. Þetta er ,,Borgin okkar.” Hins vegar horfa Reykvíkingar ekki fram á bjarta tíma á meðan R-lisinn er hér við völd. Skuldirnar hækka, borgarstjóri hleypur frá verkefninu til að ,,meika það” annars staðar, annar borgarstjóri lendir í vandræðum og ári síðar kemur út 1000 bls. skýrsla sem kemur honum í meiri vandræði og ekki dettur R-listanum að undirbúa sig fyrir það á þessu ári sem leið heldur snúa við honum bakinu og fara sjálf í baklás. Valinn er lægsti samnefnarinn af borgarstjórnarflokknum til að verða borgarstjóri en ekkert gerist í borginni nema að skuldir og gjöld hækka.

Nú eru um fjórtán mánuðir í kosningar. R-lisinn stendur allsber af valdhroka og málamiðlanatillögum sín á milli sem snúast ekki um hag Reykvíkinga heldur að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Farið hefur verið illa með fé borgaranna og hefur R-lista elítan eytt þeim af sinni eigin hentisemi.

Já, það er hægt að skrifa endarlaust um misferli, valdhroka, stjórnleysi, ábyrgðarleysi, forystuleysi, hækkun gjalda, hækkun útvars og svo frv., en Reykvíkingar sjá í hvað stefnir og að öllum líkindum mun R-listinn fara frá völdum að sveitastjórnarkosningum liðnum. Ef ekki munum við fara aftur á byrjunarreit.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband