Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 7. febrúar 2005

Til eru þeir aðilar hér á landi sem telja sig geta séð fyrir óorðna hluti og fullyrt um það hvernig þeir verði í framtíðinni. Á fundi í síðustu viku á vegum Evrópusamtakanna og Félags stjórnmálafræðinema hélt Þórarinn G. Pétursson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, því blákalt fram að okkur Íslendingum yrði ekki stætt utan Myntbandalags Evrópu, og þar með Evrópusambandsins, þegar Bretland, Svíþjóð, Danmörk og Noregur hefðu tekið upp Evruna. Ekki er talað um “ef” heldur “þegar”. Eins og þetta sé bara frágengið, eitthvað sem er eins fjarri sannleikanum og hægt er.

Maður spyr sig því óhjákvæmilega hvaðan Þórarinn hefur þá gáfu að geta fullyrt að svona muni þetta verða, eitthvað sem enginn dauðlegur maður getur mögulega vitað fyrir víst? Hefur hann kannski fengið einhver boð að handan um málið? Staðreyndin er nefnilega sú að hann getur ekkert fullyrt um þessi mál frekar en ég eða hver annar. Hins vegar er hér um að ræða málflutning í anda helzta áróðursbragðs íslenzkra Evrópusambandssinna í dag, þ.e. að reyna að telja okkur Íslendingum trú um að við munum fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið hvort sem okkur líkar betur eða verr – eins “lýðræðislegur” og sá málflutningur nú er.

Þessi áróðursaðferð hjá Evrópusambandssinnunum er þó ekki margra ára gömul.
Fyrir aðeins fáum árum síðan gekk áróður þeirra allur út á að við Íslendingar værum að missa af einhverri meintri hamingjulest til paradísar, þ.e. Evrópusambandsins.
Nú er hins vegar þessi meinta paradís, sem þeir töluðu um áður, orðin að einhverri meintri nauðung. Ástæðan er einföld; það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að telja fólki trú um að aðild að sambandinu sé eitthvað sem ástæða sé til að sækjast eftir.

---

Greint var frá því að íranskur karlmaður á fimmtugsaldri hafi gefið sig fram við lögregluna á Höfn í Hornafirði sl. þriðjudagskvöld og óskaði að sér yrði veitt hæli hér á landi þar til hann héldi áfram til Kanada. Kom fram að ekki væri ljóst hvernig maðurinn hefði komist til landsins en tungumálaefiðleikar hafi gert erfitt að afla upplýsinga frá honum. Leikur grunur á að hann hafi komist til landsins með skipi.

Það var sem sagt ekkert vitað um veru mannsins í landinu fyrr en hann gaf sig fram við yfirvöld. Það er ekki að furða að Útlendingastofnun telji að það séu hundruðir ólöglegra innflytjenda í landinu. Ástæðan fyrir þessari stöðu mála er annars vafalítið fyrst og fremst ein: Schengen!
Svo er bara spurningin hvernig eigi að senda hann úr landi ef ekki verður komizt að því með hvaða hætti hann komst inn í landið, þ.e. verði umsókn hans um hæli hafnað.

---

John Kerry hélt því fram í upphafi vikunnar að myndband frá Osama bin Laden hafi gert útslagið um að hann tapaði fyrir George W. Bush í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember sl. Kerry sagði í viðtali á NBC-sjónvarpsstöðinni að forskotið sem hann hafði á Bush í aðdraganda kosninganna hefði tapast niður eftir að myndbandið birtist. Jájá, alltaf þægilegt að geta kennt einhverjum öðrum um eigin ófarir en sér sjálfum.

---

Ástandið í Hollandi batnar ekki mikið. Í vikunni var greint frá því að talið sé að samtök íslamskra öfgamanna hyggist skipuleggja tilræði við hollenzku þingkonuna Ayaan Hirsi Ali. Leikur jafnvel grunur á að samtökin hyggist myrða fleiri hollenzka þingmenn. Hirsi Ali er sem kunnugt er sómölsk að uppruna og þekkt fyrir gagnrýni sína á íslamstrú.

---

Greint var frá því í fréttum að samtals hefðu um 693 þúsund farþegar komið til landsins um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári miðað við 584 þúsund farþega árið 2003. Þetta mun vera 18,6% aukning en á árinu 2003 fjölgaði komufarþegum um 18,3% miðað við árið 2002. Einnig var sagt frá því að farþegum um Keflavíkurflugvöll hefði fjölgaði um tæp 16% í janúar miðað við sama tíma í fyrra. Enn bólar sem sagt ekkert á þessu hruni í ferðamannaiðnaðinum sem andstæðingar hvalveiða voru búnir að spá fyrir um.

---

Rúmar 5 milljónir Þjóðverja eru nú án atvinnu og hefur atvinnuleysi í Þýzkalandi ekki verið meira síðan í upphafi kreppunnar miklu. Þýzkaland er sem kunnugt er sterkasta efnahagskerfi Evrópusambandsins. Hver vill ekki vera hluti af þessu?

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband