Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2005

Styrktarsöfnun fyrir New York Times algerlega óþörf

Eins og kunnugt er hafa forsvarsmenn Þjóðarhreyfingarinnar svonefndrar viljað meina að auglýsing sú, sem þeir birtu á dögunum í bandaríska stórblaðinu New York Times þar sem stuðningi Íslands við innrásina í Írak var mótmælt, hafi vakið mikil viðbrögð erlendis. Þess sjást að vísu engin sérstök merki og hefur maður aðallega bara einhverjar innantómar yfirlýsingar forsvarsmanna hreyfingarinnar fyrir því og ýmissa skoðanabræðra þeirra. Áður en auglýsingin var birt sögðu forystumennirnir ennfremur að markmið sitt með auglýsingunni væri m.a. það að hún myndi vekja athygli annarra fjölmiðla í heiminum sem myndu í framhaldinu segja frá henni í fréttum sínum.

Á heimasíðu hreyfingarinnar, sem í augnablikinu telur heila fjóra einstaklinga, er að finna leiðara þar sem reynt er að sýna fram á mikla umfjöllun erlendra fjölmiðla.
Er þar vitnað í Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóra, þar sem hann hefur uppi stóryrði mikil um það að auglýsingin hafi svínvirkað og fréttin um hana hafi farið víða um heiminn. Engar heimildir eru þó nefndar þessu til sönnunar frekar en fyrri daginn, en eftir tilvitnunina í Jónas kemur viðbót frá Þjóðarhreyfingunni svokölluðu þar sem fólki er bent á að skoða heimspressuna og fara í því skyni inn á Google-leitarvélina og slá inn: "Icelanders Take Anti Iraq War Campaign to US".

Gott og vel. Ég gerði þetta og jújú, það komu upp all nokkrar síður og þar á meðal fjölmiðlasíður frá ýmsum löndum þó fæstar þeirra geti þó flokkast undir það að vera þekktir fjölmiðlar, ég taldi aðeins um sjö slíka. En það sem er hins vegar hvað áhugaverðast við þetta er að alls staðar er um að ræða sömu fréttina og að hún er ekki rituð af erlendum blaðamanni eða blaðamönnum sem tóku eftir auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar svonefndu í New York Times eins og til var ætlast.
Nei, hún er rituð af ágætum íslenzkum blaðamanni sem starfar á Morgunblaðinu og sem hefur vitanlega ekki þurft að sjá auglýsinguna í bandaríska stórblaðinu til að vita af málinu og fjalla um það.

Þessi frétt hans mun hafa birzt upphaflega hjá Reuters-fréttastofunni og þaðan borizt til einhverra annarra erlendra fjölmiðla (reyndar fá sjónarmið íslenzkra stjórnvalda mun meiri athygli í fréttinni en sjónarmið Þjóðarhreyfingarinnar svonefndrar).
M.ö.o. er ekki að sjá að auglýsingin í New York Times hafi skilað þeim árangri sem til var ætlast, þ.e. að birting hennar í blaðinu myndi hafa það í för með sér að erlendir fjölmiðlamenn tækju sig til og rituðu um málið. Nei, það mun hafa þurft íslenzkan blaðamann til að vekja athygli á málinu á Reuters-fréttastofunni og þá fyrst hefur áhugi einhverra erlendra fjölmiðla vaknað á því að fjalla um málið.

Þannig að það hefði sennilega verið nóg fyrir Þjóðarhreyfinguna svokallaða að kaupa t.d. bara heilsíðuauglýsingar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV og síðan hefði hinn umræddi íslenzki blaðamaður getað skrifað um málið fyrir Reuters og sagt að stuðningi Íslands við innrásina í Írak hefði verið mótmælt með heilsíðuauglýsingum í öllum stærstu dagblöðum Íslands. Að öllum líkindum hefði sá gjörningur skilað sér í álíka mikilli fjölmiðlaathygli og auglýsingin í New York Times fékk – nema hvað hægt hefði verið að spara umtalsverðar fjárhæðir og verja þeim frekar til mannúðarstarfa í Írak í stað þess að styrkja eigendur New York Times.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Fyrri síða

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband