Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 24. Janúar 2005

Hin sjálfskipaða Þjóðarhreyfing fjögurra einstaklinga birti margumrædda auglýsingu sína í bandaríska blaðinu The New York Times sl. föstudag. Þar var þess m.a. krafizt að Ísland yrði tekið af listanum yfir þau ríki sem studdu innrás bandamanna í Írak fyrir hálfu öðru ári síðan. Þar var það ennfremur fullyrt að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu brotið lög með því að taka þá ákvörðun að styðja innrásina án samráðs við Alþingi. Daginn eftir var greint frá því á Mbl.is að þessi listi væri ekki lengur til samkvæmt fréttum Reuters fréttastofunnar og að hann hefði ekki verið notaður í marga mánuði. Bandarísk stjórnvöld hefðu tekið nýjan lista í gagnið, um það leyti sem hinn eldri var lagður af, og á honum væru aðeins þau ríki sem lagt hefðu til hermenn í Írak. Frá þessu var m.a. greint í erlendum fjölmiðlum vel áður en Þjóðarhreyfingin svonefnda lagði af stað með umrætt uppátæki sitt, t.a.m. af AFP-fréttastofunni í október sl.

Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, lýsti svo þeirri skoðun sinni í viðtali við Stöð 2 á laugardag að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu verið í fullum lögformelgum rétti með að lýsa yfir stuðningi Íslands við innrásina í Írak og hefðu ekki þurft að gera það í samráði við Alþingi. Maður spyr sig því óhjákvæmilega að því hvers vegna forsvarsmenn hinnar svokallaðrar Þjóðarhreyfingar hafi ekki verið búnir að vinna heimavinnuna sína sem skyldi í þessum efnum. Þess í stað var bara vaðið af stað með látum og kastað til höndunum í samræmi við það á kostnað annarra.
Ekki vildi ég vera einn af þeim sem greiddi fyrir þennan brandara í The New York Times. En það er þeirra mál sem það gerðu.

---

Nýjasta hugmynd aðdáendaklúbbs Bobbys Fischer á Íslandi er að hérlend stjórnvöld veiti honum íslenzkan ríkisborgararétt því annars framselji japönsk stjórnvöld karlinn til Bandaríkjanna. Þetta er nú meiri vitleysan allt saman og byrjaði með því að honum var boðið dvalarleyfi hér á landi á þeim forsendum að hann hefði einhver sérstök tengsl við landið. Maðurinn lék skák hér í eitt skipti fyrir 30 árum síðan og það vildi bara svo til að sú skák fór fram á Íslandi. Það er ekki eins og það hafi verið fyrir sérstaka ósk Fischers að svo yrði. Skilst reyndar að hann hafi helzt ekkert vilja koma hingað til lands.

Svo á Fischer vissulega góðan vin hér á landi, Sæmund Pálsson, og án þess að mér komi til hugar að gera lítið úr þeim vinskap þá get ég ómögulega séð að þetta tvennt sé nóg til að réttlæta veitingu íslenzks ríkisborgararéttar. Hversu víða hefur Fischer annars leikið skák í heiminum? Hvers vegna datt engri annarri ríkisstjórn í hug að skipta sér af málum hans nema þeirri íslenzku? Ekki einu sinni þýzkum stjórnvöldum kom það til hugar þó Fischer sé af þýzkum ættum. Hvers vegna?
Nei, mín afstaða er einföld: Bobby Fischer, nei takk!

---

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti í upphafi vikunnar að boðað yrði til þingkosninga í landinu þann 8. febrúar nk. Þó ekki verði sagt að fyrirvarinn sé langur þá er þetta ekkert sem ætti að koma á óvart enda legið í loftinu síðan fyrir jól a.m.k. að boðað yrði til kosninga í fyrra lagi. Kjörtímabilið rennur ekki út fyrr en eftir níu mánuði en samkvæmt dönskum lögum getur sitjandi ríkisstjórn boðað til kosninga talsvert fyrr hugnist henni svo.
Nú hef ég ekki kannað það sérstaklega en ég geri ráð fyrir að þetta sé fyrirkomulag sem komið hafi verið á áður en skoðanakannanir komu til sögunnar eða a.m.k. áður en notkun þeirra varð eins mikil og raun ber vitni í dag.

Fyrir vikið boða ríkisstjórnir í Danmörku gjarnan til þingkosninga nokkru áður en kjörtímabilið rennur út ef þær telja skoðanakannanir þá vera sér hliðhollar. Þetta gerði stjórn jafnaðarmanna líka í lok árs 2001 þegar hún var við völd og taldi sig vera í góðum málum. Hins vegar þróuðust mál þannig að kosningabaráttan snerist öll um málefni innflytjenda og því voru jafnaðarmenn ekki viðbúnir. Fyrir vikið töpuðu þeir kosningunum og hægriflokkarnir komust til valda. Annars er það skemmtilegasta við kosningarnar núna fyrir mína parta að ég verið einmitt úti í Kaupmannahöfn bæði í aðdraganda kosninganna og á kjördag.

---

Þórunn Sveinbjarnardóttir var innt álits á því í fjölmiðlum fyrir helgi að trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið í Fréttablaðið um það sem fjallað var um á fundi í utanríkismálanefnd Alþingis 21. marz 2003, en Þórunn á sæti í nefndinni. Sagði hún að það væri hábölvað að upplýsingarnar væru komnar fram á þennan hátt því þetta þýddi að bæði aðal- og varafulltrúar í utanríkismálanefnd lægju undir grun. Síðan var hún spurð að því hvort það, sem hún var sögð hafa sagt á þessum fundi í frétt blaðsins, væri rétt og sagði hún svo vera eftir því sem hún minnti. Þarna hefði Þórunn auðvitað átt að segja að hún gæti ekkert sagt til um það hvort þetta væri rétt eða ekki enda væri hún bundin trúnaði. En þess í stað ákvað hún að vera beggja vegna borðsins, fyrst gagnrýndi hún lekann harðlega en staðfesti svo að hann væri réttur.

---

Greint var frá því á dögunum að atvinnuleysi á Íslandi hefði mælst 2,5% síðustu þrjá mánuði ársins 2004. Það kallast nú varla slæmt. Til samanburðar má nefna að í Þýzkalandi var atvinnuleysið á sama tíma um 10% og sama er að segja um Frakkland. Reyndar er sömu sögu að segja um meðalatvinnuleysið innan Evrópusambandsins alls. Þetta kann að virka voðalega hrífandi á suma hér á landi, sem eiga sér víst þá ósk heitasta að Ísland gerist aðili að sambandinu, en einhvern veginn á ég persónulega bágt með að deila þeirri hrifningu.

---

Fjallað var síðan um að hundruðir erlendra iðaðar- og verkamanna störfuðu án tilskilinna leyfa á höfuðborgarsvæðinu, bæði í viðhaldi eldri húsa og í nýbyggingum, að sögn Samiðnar. Þetta kemur svo sem ekki á óvart í ljósi yfirlýsinga Georgs K. Lárussonar, fyrrv. forstjóra Útlendingastofnunar, í Fréttablaðinu sl. vor um stofnunin hefði ástæðu til að ætla að hundruðir ólöglegra innflytjenda væru búsett á Íslandi. Þau ummæli Georgs komu mér mjög á óvart enda hélt ég að þetta væri ekki vandamál hér á landi. En hér er vitanlega um að ræða mál sem stjórnvöld þurfa að fara vel ofan í saumana á.

---

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í fréttum Stöðvar 2 á laugardaginn að svonefndur Framtíðarhópur Samfylkingarinnar, sem hún veitir formennsku, vildi að Ísland yrði boðberi friðar í heiminum. Bíddu eitthvað kannast ég við þetta, er þetta ekki nákvæmlega það sama og Ástþór Magnússon hefur predikað um árabil?
Það vantar ekki frumleikann.

---

Sá svo í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sl. fimmtudag að verið var að veita verðlaun á vegum Félags kvenna í atvinnurekstri. Nú hef ég ekkert nema gott um þennan félagsskap að segja, en þegar ég sá fréttina datt mér þetta í hug: Hvað ætli yrði sagt ef stofnað yrði Félags karla í atvinnurekstri? Hvað myndi Femínistafélag Íslands segja við því? Kæmi mér ekki á óvart að slíkt yrði úthrópað sem hin argasta karlremba og tilraun til að setja karlavígi á laggirnar.

Hjörtur J. Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband