Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2005
Fimmtudagur, 6. janúar 2005
Feluleikur í Okurveitunni
Í fyrradag (4. janúar) lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar yrði falið að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 1998. Þar skyldi lagt mat á arðsemi þeirra fjárfestinga s.s. Línu.net, Tetra Ísland og Rafmagnslínu. Einnig gerði tillagan ráð fyrir því að bornar yrðu saman upphaflegar áætlanir um fjárútlát til umræddra fyrirtækja og raunveruleg útgjöld til þeirra. Tillagan náði ekki fram að ganga enda var svo sem ekki við öðru að búast en að R-listinn gerði allt til að koma í veg fyrir samþykkt tillögunnar því sennilega væri fátt óþægilegra fyrir listann en það að þessar staðreyndir kæmust fram í dagsljósið hvað þá í hámæli. Raunar virðist vera að R-listinn noti OR gjarnan sem felustað til að hylja hvers kyns óráðsíu og yfirsjónir. Enginn virðist jú betur til þess fallinn að hylja slóð óráðsíunnar en brellumeistarinn Alfreð Þorsteinsson.
Sennilega hefur þó engan órað fyrir því hvaða afgreiðslu tillagan hlyti. Áðurnefndur Alfreð kom með ,,breytingartillögu sem þó virtist lítið eiga skylt við hina upphaflegu tillögu sem lögð var fram. Það stóð þó ekki á Stefáni Jóni Hafstein, sem stýrði fundinum, að aðstoða við brellur Alfreðs og afgreiða hina nýju tillögu sem breytingartillögu.
Hin nýja tillaga var þess efnis að borgarstjóra yrði falið að láta gera óháða úttekt á fjárfestingu fyrirtækja opinberra aðila í fjarskiptafyrirtækjum frá árinu 1998 þar sem jafnframt yrði leitast við að leggja mat á arðsemi þessara fjárfsestinga.
Þessi ,,breytingartillaga fékkst að sjálfsögðu samþykkt.
Það er ekkert annað! Ekki einasta drepur R-listinn málinu á dreif með þessu útspili heldur arkar hann ótrauður áfram þá braut að seilast langt út fyrir verksvið sitt á kostnað borgarbúa! Vissulega verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða úttektarinnar verður, og eflaust má finna fleiri dæmi um það að ríki og sveitarfélög hafi fjárfest í fjarskiptafyrirtækjum með misjöfnum árangri. Það er þó ekki sjáanlegt hvers vegna það ætti að vera hlutverk eins sveitarfélags að fara ofan í saumana á því.
Það má líkja þessu við það að bæjarstjórn Trékyllisvíkur ákveddi í krafti meirihluta síns að bæjarstjóranum yrði falið að gera úttekt á kostnaði íslenska ríkisins af uppbyggingu sendiráða erlendis og arðsemi þeirra fyrir þjóðarbúið allt á kostnað útsvarsgreiðenda í Trékyllisvík, og í þeim tilgangi einum að draga athyglina frá einhverju óþægilegu máli heima fyrir! Það er löngu tímabært að R-listinn fari að nota fé okkar borgarbúa í þarfari verkefni og hætti að safna frekari skuldum með svona uppátækjum.
Vissulega kann að vera að R-listinn skjóti sig í fótinn með þessu tiltæki. Vart verður að finna í skýrslunni dæmi um annað sveitarfélag þar sem tapað fé vegna austurs í fjarskiptafyrirtæki nemur milljörðum líkt og raunin er varðandi Línu.net. Þar hefur fjármunum borgarbúa bókstaflega verið kastað á glæ eins og sjá mátti í áramótaskaupinu.
Það hlýtur að sæta furðu hve lítinn áhuga fjölmiðlar hafa sýnt því að kryfja málefni
R-listans og Orkuveitunnar, ekki síst í ljósi þess hve sumir þeirra hafa virst óþreytandi við að gagnrýna landstjórnina, ýmist með réttu eða röngu. Óneitanlega læðist að sá grunur að meira aðhald væri veitt af hendi ákveðinna fjölmiðla ef aðrir en vinstri menn sætu við stjórnvölinn í borginni. Vissulega er eðlilegt að sveitarstjórnarstiginu sé nokkru minni gaumur gefinn í almennri umræðu, en hafa ber í huga að um stærsta sveitarfélag landsins er að ræða og um leið höfuðborg þess. Hér er um stórmál að ræða og Reykvíkingar eiga rétt á að vita hvernig hér er haldið á málum.
Þorsteinn Magnússon
Miðvikudagur, 5. janúar 2005
Hugsum um peninga
Nú er ungi sjálfstæðismaðurinn ekki að hvetja til græðgi eða eintómrar peningahyggju, þvert á móti. Hins vegar eru mikið af peningum í umferð í landinu og því ekki úr vegi að ungt fólk taki skynsamlega afstöðu til þeirra, sé duglegt að vinna fyrir þeim og fari vel með þá í framtíðinni. Samt sem áður eru fulltrúar stjórnmálaflokka í landinu sem láta sér það litlu skipta hvernig fólk fer með peninga. Ekki það að það eigi nokkuð að koma stórnmálaflokkum við, en vinstri menn virðast hvað eftir annað taka upp hanskann fyrir þá sem hafa að sjálfsdáðum komið sér í fjárhagsleg vandræði. Þegar upp koma vandamál er það ríkinu að kenna og nú undanfarið er farið að kenna bönkunum um.
Steingrímur J. Sigfússon hefur t.d. kennt ríkisstjórninni um það glapræði að selja ríkisbankanna og þ.a.l. hafi fjármálaheimurinn farið á vitlausa braut og allt sé hér á leiðinni norður og niður. Vinstri menn voru mikið á móti sölu ríkisbankanna og börðust hart gegn því. Í dag kenna þeir bæði ríkinu og bönkunum um hvernig komið er fyrir fjölda manns. Staðreyndin er reyndar sú að fjölda fólks er að taka lán sem það ræður ekki við, kaupir hitt og þetta og leyfir sér ýmsan munað sem það hefur ekki efni á.
Þar er hins vegar hvorki efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar né bönkunum um að kenna. Annar þingmaður stjórnarandstöðunnar, Jóhanna Sigurðardóttir, reynir ítrekað að slá pólitískar keilur með því að ætla að taka upp hanska litla mannsins og fylla hann af efnislitlum loforðum um að ef hann kýs vinstri flokkana næst muni líf hans verða svo miklu miklu betra. Smá hagfræðiþekking og heilbrigð skynsemi segir okkur auðvitað að lífið er ekki svona einfalt.
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og núverandi ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar hafa lagt á sig mikla vinnu s.l. áratug við að skapa hér hagsæld og velmegun fyrir alla landsmenn. Það hefur tekist af því að mikillar hagsýnni hefur verið gætt og menn hafa myndað hér stöðugleika sem ekki er auðvelt að raska. Þetta hefði ekki tekist ef hér hefði setið vinstri stjórn. Menn hafa sýnt skynsemi og aukið frelsi markaðarins til að hagsæld gæti orðið. Vinstri flokkarnir boða þveröfuga stefnu. Það að hækka lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur og ýmsar aðrar bætur er ekki spurning um mannréttindi né sanngjarna eða góða efnahagsstjórn. Vinstri menn telja sig vera að tala fyrir fátæka manninn og fyrir kosningar lofa þeir fólki öllu fögru sem ekki vinnur sjálft fyrir laununum sínum. Nú er ekki verið að gera lítið úr láglaunafólki né því fólki sem hefur einhverja fötlun sem kemur í veg fyrir að það geti unnið sér inn laun. Maður hugsar sig samt tvisvar um þegar öryrkjum fjölgar hratt og uppi eru stanslausar kröfur í þjóðfélaginu um hærri bætur hér og hærri bætur þar.
Lág laun eru ekki helsta ástæða fátæktar á Íslandi. Til er of mikið að fólki sem fer hreinlega illa með peninga sína, tekur kolrangar ákvarðanir í lífinu og svo þegar allt er komið í koll, kennir það öðrum um.
Höfum eitt á hreinu; þó svo að bankarnir auglýsi grimmt allskonar lán og yfirdrætti, þá þýðir það ekki að þeir séu að gefa út fría peninga. Það að unglingur gangi í unglingaklúbb bankanna og fari síðan og kaupi sér tölvu á láni (væntanlega með undirskrift foreldra) þýðir ekki að hann hafi verið neyddur til þess. Það að maður fari í dag, taki nýtt húsnæðislán og endurnýi allt innbúið á 4,15% vöxtum þýðir ekki að bankinn eða sú hagsæld í landinu sem nú ríkir hafi neytt viðkomandi aðila til að fara á eyðslufyllerí.
Samfélagið er allt sem betur fer að breytast í þá átt að ríkisafskipti eru að verða minni og fólk verður meira og meira ábyrgara fyrir sínu eigin lífi. Þetta þóknast vinstri mönnum illa. Þeir vilja halda fólki í fátæktargildrum með því að hækka bætur og eyða eins miklu og þeir mögulega geta af fjármagni ríkissins. Staðreynd málsins er einfaldlega sú að allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að vinna sér til hnífs og skeiðar. Þegar fólk getur auðveldlega lifað af bætum frá ríkinu er engin hvatning né drifkraftur til að gera neitt. Hvernig væri nú ef vinstri menn hættu að setja menn í flokka eins og litli maðurinn og fátæki maðurinn og áttuðu sig á því að til að hagsæld skapist fyrir alla þá þarf frelsi einstaklingsins að vera í fyrirrúmi sem og frelsi markaðarins. Það er einstaklinganna sjálfra að sækjast eftir því sem þeirra er og undir þeim sjálfum komið að halda því og fara vel með það sem þeir hafa í höndunum.
Það skal tekið skýrt fram hér að ekki er verið að gera lítið úr því fólki sem hefur minna á milli handanna en flestir aðrir. Hins vegar er gagnrýnisvert hvernig vinstri flokkar ætla sífellt að festa fólk í sama fari með eintómum innihaldslausum loforðum.
Ég hvet fólk til þess að vera duglegt og fara vel með það fjármagn sem það hefur á milli handanna. Að vera ríkur hefur ekkert með það að gera hvað maður hefur í tekjur heldur hvað maður eyðir litlu og auðvitað í hvað maður eyðir. Hugsum um peninga með skynsemi.
Gísli Freyr Valdórsson
Greinin birtist áður þann 28.des 2004 á sus.is
Mánudagur, 3. janúar 2005
Norðmenn eru ekki á leið í ESB
Talið er afar ólíklegt að Evrópusambandsaðild verði tekin á dagskrá í Noregi á næstu árum. Ástæðan er ekki sízt stjórnmálalandslagið í landinu, en þrátt fyrir að tveir stærstu stjórnmálaflokkar Noregs, Verkamannaflokkurinn og Hægri flokkurinn, séu fylgjandi aðild þá eiga þeir ekki samleið í neinum öðrum stórum málaflokki.
Því er talið útilokað að þeir myndi ríkisstjórn saman og fyrir vikið ekki í kortunum að mynduð verði ríkisstjórn í Noregi að óbeyttu sem sett gæti aðild að Evrópusambandinu á dagskrá, enda allir hinir flokkarnir meira eða minna andsnúnir aðild.
Þingkosningar verða í Noregi á þessu ári en flestir virðast þó sammála um að Evrópumálin verði ekki eitt af aðalmálunum í kosningabaráttunni, þ.á.m. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra landsins. Norskir Evrópusambandssinnar hafa raunar lýst því yfir að þeir muni ekki mæla með því að Norðmenn sæki um aðild að Evrópusambandinu í þriðja skiptið nema það sé nokkuð öruggt að hún verði samþykkt.
Það yrði ekki gott fyrir þeirra málstað að þurfa að fara með þriðja nei-ið til Brussel,
en eins og kunnugt er hafa Norðmenn tvisvar hafnað aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæði, 1972 og 1994. Raunar virðist það vera nokkuð almenn skoðun í Noregi að ekkert vit sé í að sækja um aðild að sambandinu að nýju nema það endi örugglega með aðild.
Stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa yfirleitt verið í meirihluta í skoðanakönnunum upp á nokkur prósentustig í gegnum tíðina. Sjálfstæðissinnar hafa þó alltaf komizt með reglulegu millibili í meirihluta inn á milli, síðast í ágúst sl.
Hafa stjórnmálaskýrendur sagt í því sambandi að fylgi við aðild sé hvorki nógu mikið í Noregi nú né nógu stöðugt til þess að hægt sé að hugleiða nýjar aðildarviðræður af einhverri alvöru. Oft áður hafi verið mun meiri og stöðugari stuðningur við aðild en nú. Aðrir hafa bent á að í raun sé spurning hversu mikið skoðanakannanir, sem gerðar eru þegar engin sérstök barátta er í gangi á milli stuðningsmanna og andstæðinga Evrópusambandsaðildar, segi til um niðurstöðu hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu
um málið komi einhvern tímann til hennar.
Í því sambandi hefur t.a.m. verið bent á það hvernig leikar fóru í Svíþjóð á síðasta ári þegar kosið var um það hvort taka ætti upp evruna þar í landi eða ekki.
Þegar sænska ríkisstjórnin ákvað að setja málið í þjóðaratkvæði höfðu skoðanakannanir ítrekað sýnt að mikill meirihluti Svía styddi upptöku evrunnar. Síðan hófst barátta andstæðra fylkinga og niðurstaðan varð, eins og kunnugt er, að sænskir kjósendur höfnuðu evrunni með afgerandi hætti. Fleiri dæmi væru um slíka þróun mála.
Það sé því full ástæða til að fara varlega í það að draga of miklar ályktanir af skoðanakönnunum sem gerðar eru þegar ekki er virkilega verið að takast á um málið.
Hjörtur J. Guðmundsson
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004