Leita í fréttum mbl.is

Glæpir í Guantanamo

Þó að ég sé jákvæður í garð utanríkisstefnu Bandaríkjamanna, og hafi stundum reynt að koma til skila þeirra hlið á ýmsum málum, að þá er þessi pistill ekki til þess gerður að hygla þeim.

Eins og allkunna er, þá reka Bandaríkjamenn fangabúðir í Guantanamo flóa á Kúpu. Þar eru menn sem sitja í varðhaldi án dóms og laga. Þessir menn sæta einnig einhverjum pyntingum, þó að ég telji mögulegt að sögusagnir um grimmd fangavarða í þeirra garð kunni að vera eitthvað ýktar.

Ég hef reynt að finna greinar um málið í hægrisinnuðustu og ,,staðföstustu” vefritum sem ég þekki til að kynna mér hlið Bandaríkjamanna. Það er erfitt að segja hvað það er sem fer nákvæmlega fram í Guantanamo fangelsinu, og er það einmitt vandamálið.
Það er þó ljóst að menn eru beittir einhverju ofbeldi til þess að knýja menn til að láta upplýsingar sem að gagni gætu komið í té. Eitt er víst, að þegar allt fór úrskeiðis í Abu Graif voru nýkomnir til starfa þar ,,yfirheyrslu sérfræðingar” og yfirmenn frá Guantanamo fangelsinu. Það virðist ekki hafa haft jákvæð áhrif á meðferð fanga þar.

Það er tvennt sem ég hef að athuga við Guantanamo:

Í fyrsta lagi er ekki réttað yfir mönnum, (nema þá ef til vill í leynum), og mönnum er haldið án þess að ákveðin ákæra sé lögð fram. Á miðöldum mátti refsa mönnum fyrir það að vera þjófar eða vondir menn almennt, þó að ekkert ákveðið tilvik um þjófnað eða glæp væri fyrir hendi. Síðan mótuðust reglur þess efnis að einungis mætti ákæra og dæma menn fyrir ákveðna glæpi, en ekki bara fyrir það að vera glæpamaður almennt. Mér sýnist Bandaríkjamenn vera að hverfa aðeins til starfshátta miðalda í Guantanamo í þeim skilningi að menn eru ekki alltaf settir í varðhald fyrir það að hafa framið eitthvað tiltekið afbrot, sem hægt er að benda á, og dæma fyrir, heldur virðist sem einhverjum mönnum sé haldið fyrir það að vera líklega afbrotamenn, án þess að vera ákærðir fyrir neitt sérstakt. Bretar geta ekki leyft sér að hneppa IRA-hryðjuverkamenn í varðhald, án þess að ákæra þá og gefa þeim tækifæri á réttarhöldum og þar af leiðandi málsvörn. Bandaríkjamenn ættu ekki heldur að leyfa sér að hneppa menn í varðhald án ákæru og réttarhalda. Hlutirnir þurfa að vera gerðir opinberlega, en ekki í leynum og án eftirlits. Eftirlitsleysi og ,,leynimakk” af þessu tagi býður hættunni heim – stjórnvöld gætu misnotað vald sitt.

Í örðu lagi finnst mér miðaldalegt að beita pyntingum til upplýsingaöflunar.

Enginn maður skal sæta pyntingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. – 5. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Þess má geta að Bandaríkjamenn neita því að pyntingar þeirra í garð fanganna séu ómannúðlegar. Þær eru pyntingar engu að síður, og ég fæ ekki betur séð en að þær séu ómannúðlegar.

Bandaríkjamenn verða að vera öðrum fyrirmynd í þessum efnum til þess að geta betur staðið vörð um réttlætið og frelsið um víða veröld, og staðið gegn ofríki einræðisstjórna í garð þegna sinna. Það var gott að sjá mann dæmdan í 10 ára fangelsi vegna framferði síns í Abu Graif, og fleiri eiga eftir að vera ákærðir í tengslum við það mál. Breskir dómstólar munu einnig fljótlega dæma breska hermenn sem sekir gerðust um pyntingar í Írak. Þetta eru skref í rétta átt. Hæstiréttur Bandaríkjanna (US Supreme court) komst að þeirri niðurstöðu í nýlegu máli að ekki mætti hafa fangana í Guantanamo í haldi án ákæru og réttarhalda að eilífu. Það styttist því vonandi í það að stjórnvöld í Bandaríkjunum endurskoði aðferðir sínar eitthvað í þessum efnum.

Þess má geta að lokum, að fangarnir í Guantanamo eru ekki allir alsaklausir góðborgarar, þó að sumir haldi því fram. Abdullah Mehsud, sem sleppt var úr fangabúðunum fór til að mynda rakleitt til Pakistan, tók þar kínverska gísla, og umvafði þá dínamít sprengjum. Það er full ástæða fyrir Bandaríkjamenn að halda úti fangabúðum og slíku. Það þarf hinsvegar að gera hlutina með öðrum hætti. Rétta á yfir mönnum og ekki á að beita líkamsmeiðingum, að minnsta kosti ekki gagnvart mönnum sem aldrei hafa fengið tækifæri til þess að reyna að sína fram á sakleysi sitt, telji þeir sig saklausa, fyrir hlutlausum og sanngjörnum dómstóli.

Einræðisherrar og ofríkismenn (eins og t.d. Castro á Kúbu, og stjórnvöld í Íran) sem halda mönnum í varðhaldi án dóms og laga, setja menn í hlekki, svipta þá svefni, láta þá svelta og hvaðeina, geta nú borið fyrir sig að þetta geri nú Bandaríkjamenn líka.

Hér getur þú lesið ávarp fulltrúa Bandaríkjamanna, sem er og fyrrum þolandi pyntinga, á ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1998. Saga hans er gott dæmi um hvað getur gerst ef að eftirlitslausar pyntingar sem stundaðar eru af stjórnvöldum fara úr böndunum.

Sindri Guðjónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband