Leita í fréttum mbl.is

Þegar Hafdís fór til Valhallar

Ég er áhugamaður um stjórnmál og les reglulega pólitískar síður, þ.á.m. vefrit Ungra Jafnaðarmana, Pólitík.is. Sjaldan er ég nú sammála skrifum Ungra Jafnaðarmanna en kann þó að meta að ungt fólk noti fjölmiðla, (t.a.m. netið) til að koma á framfæri pólitískum skoðunum sínum og hugmyndafræði.

En síðustu helgi rakst ég hins vegar á grein eftir Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur þar sem fjallað var um sýningu á myndinni Fahrenhype 9/11 sem fram fór í Valhöll 13. janúar sl. Sjálfur var ég á þessari sýningu og eftir að hafa lesið grein Hafdísar fór ég að efast um að við hefðum verið á sömu sýningu. Ég man allavega að mörgu leyti allt öðruvísi eftir ýmsu sem Hafdís nefnir í grein sinni og get ég því ekki orða bundist með að gera nokkrar athugasemdir í þeim efnum. Ég sé mig tilneyddan til að svara þessari grein þar sem Hafdís Erla segir í flestum tilfellum rangt frá og notar á sama tíma vefritið Pólitík.is til að ráðast með ósanngjörnum hætti á Unga Sjálfstæðismenn.

Fyrir það fyrsta er ekki hægt að skilja grein Hafdísar öðruvísi en að einungis hafi einstaklingar úr röðum repúblikana komið fram í myndinni.
Þetta er ekki rétt enda komu ýmsir demókratar þar einnig fram, þ.á.m. Ed Koch, sem var borgarstjóri New York-borgar frá 1978 til 1989 fyrir demókrata og sat þar áður í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrataflokkinn og Zell Miller, sem er öldungardeildarþingmaður fyrir Demókrataflokkinn og fyrrverandi ríkisstjóri Georgíu. Einnig mætti nefna til sögunnar Dick Morris, sem hefur starfað fyrir báða flokkana en er þekktastur fyrir að hafa verið kosningastjóri Bills Clintons í forsetakosningunum 1996.

Hafdís nefnir einmitt Zell Miller til sögunnar í grein sinni, suðurríkjamanninn með kúrekahattinn sem staddur var á sveitasetri sínu. Hún hefur sennilega gleymt að nefna að hann væri demókrati sem annars kom alveg skýrt fram í myndinni. En gott og vel. Hafdís gagnrýnir líkingarmynd sem Miller dróg upp um að s.l. sumar hafi hann orðið var við eitraðan snák í garði sínum og án þess að taka málið fyrir nefnd eða eitthvað því um líkt þá drap hann snákinn með skóflu. Það er ekki óalgengt að fólk noti líkingarmyndir til að lýsa kenningum, atburðum, lífsháttum og svo frv. Það að Hafdís taki því þannig að hann hefði viljað berja og drepa hryðjuverkamenn með skóflu er bæði barnalegt og segir meira um tilgang skrifa hennar heldur en lýsingarmynd þingmannsins.

Lýsing Hafdísar á veru sinni í Valhöll þetta umrædda kvöld er annars mjög dramatísk, eins og t.d. þegar hún talar um að hún hafi sigið niður í „leðurklætt Valhallarsætið og sundlað" vegna þess að myndin fór eitthvað illa í hana. Þó það sé nú út af fyrir sig aukaatriði þá er sá galli á þessari frásögn að sætin í fundarsalnum í Valhöll eru alls ekki leðurklædd. Það má vel vera að þetta sé ekki viljandi gert hjá henni en ég stórefa það að hún hafi setið í sama sætinu í um þrjá tíma og ekki tekið eftir því hvort að það hafi verið leðurklætt eða ekki. Fyrir utan það eru venjulegir „samkomustólar” sjaldnast úr leðri. Hafdís reynir á þennan hátt að draga upp dökka mynd að starfi Sjálfstæðisflokksins.

Hafdís leggur mikla áherslu á það í grein sinni hversu mikilvægt sé að vera málefnalegur sem er auðvitað sjónarmið sem ég get tekið fullkomlega undir. En það er oft auðveldara að ráðleggja öðrum góða siði en að tileinka sér þá sjálfur. Hún talar um að sá fyrsti sem tekið hafi til máls í umræðunum eftir sýningu myndarinnar hafi talað um að nauðsynlegt væri að kynna sér báðar hliðar svo hægt væri að mynda sér rökstudda skoðun.
En síðan hafi þessi einstaklingur, sem Hafdís segir hafa verið SUS-ara, lýst því yfir að „afturhaldskommatittir hefðu sko engan áhuga á að kynna sér eitt eða neitt sem ekki samræmdist þeirra þröngsýnu skoðun," og bætt við að hann þyrði að veðja að það væri enginn jafnaðarmaður í salnum. Síðan hafi hann hlegið „svo undir tók í Valhöll."
Enn vantar ekki dramatíkina. Gallinn er bara sá að þetta er ekki rétt.

Í fyrsta lagi þekki ég þennan strák og veit fyrir víst að hann er ekki meðlimur í SUS þó Hafdís gefi sér að svo sé. Í annan stað notaði hann aldrei hugtakið „afturhaldskommatittur" og í þriðja lagi sagði hann einfaldlega að hann ætti ekki von á því að t.d. margir ungir jafnaðarmenn hefðu áhuga á að sjá Fahrenhype 9/11 miðað við þau viðbrögð sem hann hefði fengið við myndinni frá fólki sem hann þekkti á vinstrivængnum. Það getur hins vegar passað að hann hafi sagt eitthvað á þá leið að hann þyrði að veðja að enginn ungur jafnaðarmaður væri í salnum en ekki varð ég var við að hann hefði hlegið eitthvað sérstaklega að því, hafi hann gert það, og alls ekki á jafn dramatískan hátt og ætla má af grein Hafdísar. Það hefði varla farið framhjá manni. Hver tilgangur Hafdísar er með því að bæta þarna inn „afturhaldskommatittur” veit ég ekki. Dæmi hver fyrir sig.

Hins vegar tók Hafdís til máls nokkru síðar og sagðist vera ungur jafnaðarmaður og því væri a.m.k. einn slíkur þarna. Brást þessi kunningi minn við því með því að brosa og segja: ,,Jæja...," sem ég skildi sem svo að hann viðurkenndi að hafa hlaupið á sig (og reyndar sagði hann við mig og fleiri síðar um kvöldið að hann hefði verið full fljótur á sér þarna). Við þetta hló hins vegar allur salurinn hins vegar.
En hver er annars munurinn á því að gefa sér að engir ungir jafnaðarmenn væru í salnum og því að gefa sér að umræddur einstaklingur væri í SUS? Ég sé hann ekki. Þannig að kannski Hafdís ætti að líta sér aðeins nær áður en hún skammar aðra fyrir að vera ómálefnalegir?

Síðan segist Hafdís hafa verið í vonlausri stöðu í umræðunum eftir myndina vegna þess að hún hafi verið eina stelpan. Það er heldur ekki rétt þar sem t.a.m. hún sat við hliðina á vinkonu sinni en fyrir utan það, hvað kom kynferði fólks málinu við þarna?
Það voru alveg greinilega nokkrir þarna á hliðstæðri bylgjulengd og hún og hefði maður haldið að það væri það sem máli skipti í þessu sambandi, skoðanir fólks, en ekki kyn þess. Síðan segir Hafdis að hún hafi líka verið eini „afturhaldskommatitturinn" á svæðinu, en hún hafi nú ekki látið það neitt á sig fá og hellt sér út í „brennheitar umræður við SUSarana um Íraksstríðið, áróður og Bush." Reyndar notaði hún ekki orðið „afturhaldskommatittur” þetta kvöld heldur sagðist hún einfaldlega vera jafnaðarmaður.
Þarna gengur hún s.s. enn lengra og gefur sér að allir þarna, aðrir en hún, hafi verið meðlimir í SUS. Varla verður þetta skilið öðruvísi, nema hún hafin algerlega hunsað aðra þarna. Annars mætti halda á allri greininni að hún væri tilraun til að gera einhvern píslarvott úr greinarhöfundinum.

Annar félagi minn sem þarna var staddur minntist á íslamfasisma, og útskýrði það að hin fasísku öfl eins og Al-Quada og skyldir hópar væru að misnota sér nafn Íslam, og höfðuðu til fátækra, lítt upplýstra hópa oftasts ungs fólks með hatri sínu á vesturlöndum og lýðræðis og frelsisgildum þeirra. Hér var alls ekki átt við Íslam almennt, eða hin ýmsu íslömsku lönd og ríkisstjórnir þeirra, eins og Hafdís ýjar að. Baráttan er ekki milli kristni og Íslam, og var alls ekki átt við það – það þarf reyndar ótrúlegt hugmyndaflug og fyrirfram gefnar skoðanir á mönnum og málefnum til að komast að þeirri niðurstöðu – heldur milli öfgaafla sem berjast í nafni Íslam gegn öllum vestrænum menningar og lýðræðisgildum annars vegar og hins vegar frelsisþenkjandi íbúa allra landa.

Jæja, ekki þarf að lengja þetta mál mikið meira. Þó svo að Hafdís Erla hafi komið á áhugaverða bíósýningu hjá Sambandi Ungra Sjálfstæðismanna, farið síðan heim til sín og logið upp grein um atburðarásina gef ég mér ekki að allir Ungir Jafnaðarmenn myndu gera slíkt. Skrif hennar eru ómálefnaleg á allan hátt og einkennast af barnaskap.
Það er eitt að takast á á pólitískum vettvangi og skiptast á skoðunum en annað að búa til sögur, reyna að sverta sína pólitísku andstæðinga með lygum og tilbúningi. Ég vona að Ungir Jafnaðarmenn og ritsjórn Pólitík.is fari ekki að starfa á þeim vettvangi sem Hafdís Erla leggur þarna upp með heldur haldi áfram að veita okkur Sjálfstæðismönnum harða samkeppni í málefnaskoðunum og verði áfram verðugur og sanngjarn andstæðingur. Í framhaldi af því geta ungliðahreyfingarnar og aðrir notað vefrit sín til að takast á málefnalegan og sanngjarnan hátt og þurfa ekki að eyða dýrmætum tíma í að skrifa og svara á þessum grundvelli sem hér hefur verið gert.

Gísli Freyr Valdórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband