Leita í fréttum mbl.is

Ótækar aðgerðir flutningabílstjóra

Sem kunnugt er hafa flutningabílstjórar boðað aðgerðir í dag til að mótmæla breytingum á skattlagningu díselolíu sem varð um síðastliðin mánaðamót sem fól í sér verulega hækkun vörugjalds á díselolíu ásamt afnámi þungaskatts. Bílstjórarnir hafa hótað því að loka helstu samgönguæðum til og frá borginni til að undirstrika óánægju sína með umrædda skattlagningu. Svo virðist sem þeir ætli að virða að vettugi aðvaranir lögreglu og ábendingar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og fleiri aðila um þá augljósu hættu sem aðgerðirnar geta skapað. Þegar þetta er ritað hafa flutningabílstjórar hafið aðgerðir sínar og aka í löngum lestum um götur borgarinnar. Ekki hafa þeir þó enn gert alvöru úr þeim hótunum sínum að loka umferðaræðum þó aðgerðirnar hafi þegar valdið nokkrum töfum á umferð.

Það er einkennilegt að bílstjórarnir skuli kjósa að beina aðgerðum sínum gegn hagsmunum almennings með svo róttækum hætti sem raun ber vitni. Bílstjórarnir eiga í útistöðum við löggjafann og stjórnvöld vegna íþyngjandi ákvarðana þeirra en kjósa samt sem áður að grípa til aðgerða sem bitna harðast á almenningi sem ekkert hefur haft með áðurnefndar ákvarðanir að gera. Þeir velja háannatíma um mestu ferðahelgi ársins til aðgerða sinna og kjósa að tefja og trufla saklausa borgara sem eru á leið í fríið. Af málflutningi forsvarsmanns þeirra má ráða að þeir skeyti engu um þá hættu sem þeir skapa með aðgerðunum. Aðgerðirnar eru fráleitt til þess fallnar að vekja samúð almennings með málstað bílstjóranna – þvert á móti eru þær mjög til þess fallnar að afla þeim óvinsælda. Einnig má á það benda að margir hinna almennu borgara hafa sjálfir orðið fyrir barðinu á umræddum breytingum, þ.e. þeir sem reka olíuknúna bíla og aka mikið. Það er kaldhæðnislegt að aðgerðir bílstjóranna skuli í ofanálag bitna á því fólki.

Fulltrúar lögregluyfirvalda hafa lýst því yfir að aðgerðunum verði mætt af fullri hörku. Annað væri enda óeðlilegt enda ótækt að fámennur þrýstihópur komist upp með að lama að stórum hluta helstu samgönguæðar landsins – enda um brot bæði á hegningarlögum og umferðarlögum að ræða geri bílstjórarnir alvöru úr sínum ítrustu hótunum.

Bílstjórar sem aðrir verða að sæta því að þeir geta ekki komist upp með að kúga stjórnvöld til hlýðni við sig með ofstopa og yfirgangi. Málstaður þeirra hefur fram til þessa notið nokkurrar samúður hjá mér eins og m.a. má sjá af nýlegum skrifum mínum í pistli sem nýverið birtist á vef ungra sjálfstæðismanna. Sú samúð mín fer ört dvínandi eftir því sem aðgerðunum vindur fram.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


Óþjóðalýður við Kárahnjúka

Það mátti vera ljóst þegar tjaldbúðarhaldarar reyndu að höfða til þess óþjóðalýðs sem sett hefur mark sitt á samkomur eins og G8 fundinn í Skotlandi nýlega um að koma hingað til lands og taka þátt í mótmælunum við Kárahnjúka að þau yrðu allt annað en friðsæl. Og það kom á daginn, líkt og fréttir undanfarinna daga hafa leitt í ljós. Eitthvað verður það að teljast undarlegur skilningur á friðsælum mótmælaaðgerðum að beita ofbeldisaðgerðum eins og að klippa kynningarbæklinga, mála á skilti, bíla, hús og annar slíkur vandalismi, og reyna að stöðva framkvæmdir með valdi, líkt og að standa fyrir vinnandi mönnum, skera á bíldekk, stela lyklum úr bílum og jafnvel hlekkja sig við þá.

,, Mótmælin hafi verið friðsamleg og samskipti við verkamenn vinaleg þar til lögregla kom á svæðið. Hún hafi skipað mönnum á vinnuvélunum sem fólkið var hlekkjað við að setja vélarnar í gang.”

Úr yfirlýsingu mótmælenda:

Augljós hljóta að þykja öfugmælin í þessari yfirlýsingu, þar sem samskipti hvar annar aðilinn beitir aðferðum sem þessum eru sögð friðsæl og vinaleg. Flestir vörubílstjórar sem ég þekki til eru sjálfstæðir verktakar og hafa tekjur sínar af atvinnutækjum sínum og langtímafjárfestingum, bílunum, sem þessir ofbeldismenn ætla að stöðva með þessum aðferðum. Þannig eru þeir að reyna að svipta menn lifibrauði sínu, enda geta tafir þýtt mikinn fjárhagslegan skaða ef í óefni fer. Skiptir þar í raun ekki hvort um sé að ræða littla vörubílaeigandann sem tekið hefur að sér verkefni við fluttning jarðefna, eða stóri verktakinn sem fengið hefur sér marga undirverktaka, á því er einungis stigsmunur, en ekki eðlismunur.

En þar er kominn lykillinn að eðli slíkra hópa atvinnumótmælenda sem leggja að jöfnu baráttu fyrir verndun náttúrunnar og baráttu gegn kapítalisma. Og þá er það jafnframt skiljanlegra hví þessir erlendu aðilar leggja næst leið sína frá fundi leiðtoga átta helstu iðnríkja heims, hvar mótmælin snerust að mestu gegn því aukna frjálsræði sem ríkir í heimsviðskiptum, hingað til lands. Iðnvæðing litla Íslands þykir alls ekki nógu sniðugt að því er virðist, eigum við heldur að hundsa allan ávinning sem kapítalisminn og nýting náttúruauðlindanna getur skilað okkur og gerast sýningargripir fyrir erlenda auðjöfra sem hingað leggja leið sína fjórðung úr ári. Ekki nema von maður spyrji.

Athygliverð eru ummæli Birgittu Jónsdóttur, eins af skipuleggjendum mótmælanna aðspurð um hvort þeir ætluðu að virða afturköllun leyfis til uppsetningar búðanna á núverandi landi:

„Ég hef ekki trú á öðru. Það hefur alltaf verið ætlunin að búðirnar sjálfar séu fullkomlega löglegar,“ segir Birgitta,

Getur verið að þarna sé hún að vísa í að skipuleggjendur hafi alltaf ætlað að horfa í gegnum fingur sér með að sumir tjaldbúðagestir beittu ólöglegum, ófriðsömum ofbeldisaðgerðum eins og þeim sem við höfum séð eiga sér stað undanfarið? Þá falla um sjálft sig rök þau sem Benóný Ægisson notaði í bréfi sínu til landeigenda, um að hópurinn hafi ekki brotið gegn skilyrðum fyrir notkun landsins undir búðirnar.

Athyglivert hefur verið að heyra rök mótmælendanna gegn virkjuninni og stóriðju yfir höfuð, enda voru þessi sömu rök notuð á sínum tíma þegar farið var í lýðræðislega umræðu hér á landi um þessa framkvæmd og þar á undan um byggingu Eyjabakkavirkjunar, sem betur fer var hætt við og virkjun við Kárahnjúka ákveðin í staðinn sem sáttalausn. Má segja að þessir aðilar komi fullseint inn í umræðuna, enda langflestir þeirra útlendingar og kæmi því ekki á óvart þó sumir myndu kalla þetta afskipti af innanríkismálum okkar, enda búið að taka þessa ákvörðun eftir þeim lýðræðislegu leikreglum sem við höfum kosið að byggja samfélagið og sameiginlegar ákvarðanir þess á fyrir löngu.

Þó að sú ákvörðun hafi ekki farið eins og þessi litli hópur, sem dregið hefur til sín erlenda ofstopamenn, vildi og að friðsöm mótmæli á sínum tíma hafi ekki dugað til að sannfæra þjóðina um málstað þeirra. Það réttlætir einfaldlega ekki að gripið sé til eignarspjalla og ofbeldis þó einhverjir andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar telji að friðsöm mótmæli hafi ekki skilað nægilegum árangri. Þeim er auðvitað frjálst að mótmæla eins og öðrum sé það gert með friðsömum hætti í samræmi við leikreglur lýðræðisins. En með ofbeldi og skrílshætti, eins og þeim sem átti sér stað á Kárahnjúkum á dögunum, eru menn einfaldlega að leggja lýðræðið til hliðar og lýsa því yfir að það sé í góðu lagi að það sé gert telji menn sig ekki geta náð markmiðum sínum með lýðræðislegum hætti.

Þar með eru þeir að gefa öðrum, sem kunna að vera þeirrar skoðunar að lýðræðið nægi þeim ekki til að ná markmiðum sínum, tilefni til að gera slíkt hið sama. Slíkt framferði er einungis til þess fallið að grafa undan lýðræðinu.

Höskuldur Marselíusarson


Mánudagspósturinn 25. júlí 2005

Össuri Skarphéðinssyni, fyrrv. formanni Samfylkingarinnar, er tíðrætt um aðkomu Gísla Marteins Baldurssonar að borgarmálunum í grein sem birtist í Blaðinu 20. júlí sl. undir fyrirsögninni „Gísli Marteinn og efinn“. Össur talar þar um að honum finnist Gísli hikandi í því hvernig hann hyggist beita sér í borgarmálunum og segir m.a. af því tilefni að Gísli sé haldinn því „sem er hættulegast stjórnmálamanni – óvissu um hvert beri að stefna.“ Össur segir Gísla vera að bíða eftir niðurstöðu skoðanakönnunar frá Gallup, um það hvern fólk vilji sjá sem leiðtoga sjálfstæðismanna í borginni, áður en hann tilkynnir hvort hann ætli að sækjast eftir leiðtogasætinu eða ekki.

Þetta er auðvitað vægast sagt furðuleg nálgun hjá Össuri í ljósi þess Gísli hefur ekki sagt að hann ætli sér að verða leiðtogi sjálfstæðismanna í borginni. Fjölmiðlar hafa hins vegar sótt hart að honum og spurt hann ítrekað að því og eðlilega hefur hann ekkert útilokað. Þess utan hefur hann einungis sagt að hann sækist eftir einu af efstu sætunum á lista sjálfstæðismanna, eitthvað sem einungis hlýtur að teljast eðlilegt fyrir metnaðarfullan stjórnmálamann. Enn er talsverður tími til stefnu og ekkert sem segir að Gísli þurfi að taka endanlega ákvörðun í þessum efnum strax.

En hvað sem því annars líður þá er ég nú ekki viss um að Össur sé beint bezt til þess fallinn að væna aðra um stefnuleysi. Samfylkingin undir hans forystu þótti ekki beint stefnufastasti stjórnmálaflokkur landsins. Össur segir í grein sinni að það virki „aldrei vel þegar stjórnmálamenn láta reka fyrir vindum skoðanakannana.“ Samfylkingin hefur einmitt ósjaldan verið sökuð um að dansa eftir því hvað skoðanakannanir hafa sagt hverju sinni og það ekki að ástæðulausu eins og dæmin sanna. Tökum bara eitt gott dæmi um þetta.

Í upphafi árs 2002 var skoðanakönnun frá Gallup birt sem sýndi að mikill meirihluti landsmanna væri hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Í kjölfarið tilkynnti Össur að Samfylkingin hyggðist setja aðild að sambandinu á oddinn fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Þessu lýsti hann yfir reglulega allt það ár og síðan var farið út í sérstaka póstkosningu á meðal félagsmanna Samfylkingarinnar um haustið sem fær án efa sinn sess í sögubókunum fyrir einstaklega ólýðræðislega framkvæmd og lélega þátttöku.

Meirihluti þeirra fáu félagsmanna Samfylkingarinnar, sem höfðu fyrir því að taka þátt í póstkosningunni, heimiluðu að aðild að Evrópusambandinu yrði sett á stefnuskrá flokksins. Síðan gerðist það í upphafi árs 2003 að skoðanakannanir voru birtar sem sýndu að staðan hefði algerlega snúizt við og að mikill meirihluti landsmanna væri nú á móti aðild að sambandinu. Stuttu síðar tilkynnti Össur að aðild yrði ekki sett á oddinn í kosningabaráttu Samfylkingarinnar.

Og þetta er svo sannarlega aðeins eitt dæmi af fjölmörgum þar sem Össur hefur gerzt sekur um stefnuleysi og að dansa eftir því hvað skoðanakannanir hafa sagt hverju sinni. Þannig að kannski hefur hann nú séð að sér í þeim efnum og tilgangurinn með greininni verið að miðla af eigin reynslu. En ef sú er raunin þá hefur hann greinilega alveg gleymt að taka það fram í henni.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt í Blaðinu 28. júlí 2005)


Ríkisútvarpið á krossgötum

Óhætt er að fullyrða að Ríkisútvarpið sé á krossgötum. Á þessu ári eru 75 ár liðin frá stofnun þessa rótgróna ríkisfjölmiðils. Um þessar mundir eru einnig að eiga sér stað breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, hefur sagt starfi sínu lausu og hættir eftir rúman mánuð, þann 1. september nk. Þann dag tekur hann til starfa í utanríkisþjónustunni og mun í vetur verða sendiherra Íslands í Kanada. Deilt var um störf Markúsar í vetur samhliða fréttastjóraráðningu hjá fréttastofu útvarps og hann hefur nú ákveðið að skipta um vettvang. Hefur hann starfað með hléum hjá RÚV allt frá árinu 1966. Hann var einn af fyrstu fréttamönnum Sjónvarpsins og starfaði þar allt til þess að hann varð stjórnmálamaður. Markús Örn sat í borgarstjórn 1970-1985 og var um tíma forseti borgarstjórnar. Hann varð formaður útvarpsráðs í byrjun níunda áratugarins og var ráðinn eftirmaður Andrésar Björnssonar á útvarpsstjórastóli árið 1985.

Markús Örn var ráðinn borgarstjóri árið 1991 er Davíð Oddsson varð forsætisráðherra og hætti þá sem útvarpsstjóri. Hann var borgarstjóri í þrjú ár en hóf aftur störf hjá RÚV er hann var ráðinn framkvæmdastjóri útvarps árið 1996. Markús Örn var að nýju ráðinn sem útvarpsstjóri árið 1997 og tók við starfinu af Pétri Guðfinnssyni við starfslok hans, en Pétur hafði lengi verið framkvæmdastjóri Sjónvarps og var ráðinn útvarpsstjóri er sr. Heimir Steinsson lét af störfum árið áður og tók að nýju við fyrra starfi sínu sem prestur á Þingvöllum. Nú þegar að Markús Örn er á útleið, endanlega að því er virðist óneitanlega, úr starfi útvarpsstjóra og lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu eftir langt starf blasir við að breytingar blasi við hjá Ríkisútvarpinu og þar þurfi að stokka verulega upp. Jafnframt er ljóst að starf útvarpsstjóra hefur breyst mjög í tímanna rás og við eftirmanni Markúsar Arnar blasi nýtt starfsumhverfi og aðstæður í harðnandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Í gær rann út umsóknarfrestur um embætti útvarpsstjóra. Er fresturinn rann út höfðu 22 lagt inn umsókn, þ.á.m. reynt fjölmiðlafólk og áhugafólk um ríkisfjölmiðilinn af ýmsu tagi ennfremur. Margt hefur breyst í fjölmiðlaumhverfinu á undanförnum árum og við Ríkisútvarpinu blasir allt annað landslag á fjölmiðlamarkaði en fyrir einungis átta árum er Markús Örn Antonsson var öðru sinni ráðinn til starfa á útvarpsstjórastól. Því vakti það óneitanlega athygli að þegar þetta mikla starf, stjórnendastarf þessarar öflugu fjölmiðlastofnunar ríkisins voru ekki gerðar neinar hæfniskröfur eða útlistað nánar hverskonar aðila væri auglýst eftir eða hvaða sýn hann hefði til verkefnisins. Í grunninn tel ég mikilvægt að á þessum stóli sitji aðili sem hafi starfað að fjölmiðlum, þekki starfsumhverfið því mjög vel og sé sviðsvanur á þessum vettvangi. Meðal umsækjenda eru margir slíkir aðilar.

Við blasir að á 75 ára afmæli sínu að Ríkisútvarpið sé í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasi við stofnuninni. Við blasir að breyta þurfi til í innra kerfi Ríkisútvarpsins. Var að mínu mati alveg sláandi að lesa umfjöllun Morgunblaðsins um RÚV fyrr á árinu. Hún sannaði svo ekki varð um villst að Ríkisútvarpið sé á algjörum villigötum og taka verði rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati með rekstrartölum sem komu fram í umfjöllun Moggans. Í stuttu máli sagt kom þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og hafi nemið ríflega 1400 milljónum króna. Ennfremur kom fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið.

Er ekki hægt lengur að fljóta sofandi að feigðarósi er kemur að málefnum RÚV.
Taka verður hlutina til endurskoðunar og stokka allhressilega upp. Fyrir nokkrum mánuðum lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, fram á Alþingi frumvarp til breytinga á útvarpslögum. Ánægjuefni var að slíkt frumvarp skyldi loks lagt fram eftir margar tilraunir menntamálaráðherra af hálfu Sjálfstæðisflokksins til að stokka upp stöðuna og færa RÚV til nútímans. Í frumvarpi ráðherrans er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpinu verði breytt í sameignarfélag. Þannig getur Ríkisútvarpið að mörgu leyti starfað sem hlutafélag. Þessi staða mála er þó skýrt merki þess að ekki standi til að einkavæða Ríkisútvarpið, sem mér þykja mjög slæm tíðindi. Það hefur verið skoðun mín til fjölda ára að ríkið eigi ekki að vera á fjölmiðlamarkaði eða eigi allavega að draga sig meira út úr honum. Eins og fram hefur komið verða afnotagjöldin lögð niður og er áætlað að nefskattur komi til sögunnar í staðinn.

Ein mikilvæg breyting sem blasir við er að til sögunnar mun koma rekstrarstjórn í stað pólitísks útvarpsráðs. Markmiðið með breytingunni er að gera slíka rekstrarstjórn ábyrga fyrir stefnumótun fyrirtækisins og ekki síður fjárreiðum þess. Mun samkvæmt tillögunum verða bundinn endi á það að slík rekstrarstjórn vinni í dagskrármálum beint og ráðningu starfsmanna eins og nú er gert. Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun loks heyra sögunni til. Eins og öllum varð ljóst í deilunum um ráðningu fréttastjóra útvarpsins í mars og apríl á þessu ári er útvarpsráð barn síns tíma. Sú skipan mála sem það er byggt á og eðli þess við að fara yfir umsóknir og meta þær er fyrir löngu gengin sér til húðar. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint.

Eins og ég hef sagt alla tíð frá því að menntamálaráðherra lagði fram frumvarp sitt harma ég að ekki sé gengið lengra í átt til nauðsynlegra breytinga á RÚV. Jákvæðir punktar eru þá helst tilkoma rekstrarstjórnarinnar, sem taka mun á rekstrarmálum RÚV og ber loks ábyrgð á rekstrinum og tengdum málum. Það hefur lengi verið einn af akkilesarhælum RÚV að þar hefur verið raðað upp í fremstu röð hverri silkihúfunni á eftir annarri sem enga ábyrgð ber á rekstrarlegum forsendum. Nú breytist það. Rekstrarlegar forsendur verða loks meginstef hjá RÚV. Hinsvegar er slæmt að farin sé einhver málamiðlunarleið að hætti Framsóknar og endað í einhverju sameignarfélagsformi en ekki farið beint í hlutafélagaformið, sem er hið eina og réttasta í grunninum sem forsenda. Þetta frumvarp verður rætt á þingi í haust samhliða umræðu um ný fjölmiðlalög. Er hárrétt að bæði sé rætt á sama tíma, enda nátengd mál að mínu mati sem þurfa að vinnast samtvinnað í gegnum þingið.

Þegar að Þorgerður Katrín lagði fram frumvarp sitt undir lok þingvetrarins hafði stjórnarandstaðan auðvitað skoðanir á því. Sumt átti að vera svona en ekki með öðrum hætti og allt eftir því. Merkilegust var þó óneitanlega tillaga VG um framtíðarsýn fjölmiðlabatterís ríkisins. Kom þar fram sá vilji flokksins að koma á fót dagskrárráði í RÚV. Það myndi auðvitað miðstýra dagskrárgerð. Það er ekki að spyrja að framtíðarsýn VG - miðstýringaráráttan er sjaldan fjarri þeim. Eins og fyrr segir um frumvarp menntamálaráðherra tel ég það ágætt skref en þó ekki gott að öllu leyti. Sem hægrisinnuðum einstakling í stjórnmálalitrófinu tel ég það í raun afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Menn eru að veita RÚV alltof mikið fríspil til að vera á markaðnum. Með því getur RÚV staðið að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins, t.d. á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum fjölmiðlunar.

Þetta vinnur algjörlega gegn mínum grunnskoðunum um RÚV. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verði að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það höfum við í SUS auðvitað sagt til fjölda ára og allir vita afstöðu okkar til málsins. Mér hefur alla tíð þótt tímaskekkja að ríkið standi í þessum rekstri. Margir tala um að nauðsynlegt sé að ríkið reki útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar og reyna að réttlæta tilveru ríkisstöðva á ýmsan hátt, til að reyna að viðhalda úreltu systemi. Að mínu mati er óeðlilegt að ríkið standi í því að kaupa erlent afþreyingarefni í samkeppni við einkastöðvar og hafi á dagskrá t.d. Sjónvarpsins. Meginhluti þess efnis sem þar er getur vel verið á dagskrá einkastöðvanna. Eina forsendan að mínu mati fyrir því að ríkið reki sjónvarpsstöð er sú að þar væri innlent menningar- og afþreyingarefni að öllu leyti eða allavega ráðandi hluti af dagskránni. Þannig er það ekki í dag, langt frá því. Meginefnið er erlent efni.

Eins og fyrr segir blasir nýtt fjölmiðlaumhverfi við nýjum útvarpsstjóra. Er mikilvægt að við starfinu taki fjölmiðlamanneskja sem þekkir sviðið mjög vel og þau verkefni sem við blasa. Vona ég að menntamálaráðherra ráði til starfans þann aðila sem er líklegur til að stýra þessu fleyi rétta átt, í markvissa átt til uppstokkunar og breytinga og leiði vinnuferlið þar með öðrum hætti og taki til hendinni. Ekki veitir af því ef RÚV á að standa undir nafni sem fjölmiðill allra landsmanna, en ekki safnhaugur erlends afþreyingarefnis t.d. í sjónvarpi. Reyndar má segja að Rás 1 sé flaggskip útvarpsstöðvanna. Þar er áhugavert efni allan daginn. Með aldrinum hef ég lært sífellt betur að meta það sem þar er boðið upp á. Þar er innlend dagskrá í hávegum höfð og öflug dagskrárgerð sem RÚV getur vissulega verið stolt af. Hinsvegar hef ég aldrei skilið tilvist Rásar 2 og tel rétt að hún verði lögð niður sem fyrst.

Fyrir fjórtán árum er Markús Örn Antonsson varð borgarstjóri var starfið auglýst, sem eðlilegt er. Að lokum var ráðinn til starfans klerkur utan úr sveit, mikill heiðursmaður og menningarlega sinnaður maður vissulega. Hinsvegar hafði hann litla sem enga reynslu af fjölmiðlastörfum og ekki verið þekktur fyrir afrek á þeim vettvangi. Hef ég jafnan verið þeirrar skoðunar að þá hafi átt að ráða þá manneskju sem var öflugust á því sviði að leiða RÚV sem fjölmiðlafyrirtæki. Margir urðu hissa við val þáverandi menntamálaráðherra og það var umdeilt mjög lengi hvernig að því var staðið. Nú, sem þá auðvitað, er það menntamálaráðherra sem heldur á þessu ferli og það er Þorgerðar Katrínar að velja til starfans þann sem hún vill að vinni á sínum forsendum og leiði RÚV með þeim hætti sem frumvarp hennar gerir ráð fyrir að RÚV verði á komandi árum. Verður fróðlegt að sjá hver sá aðili verður.

Við blasir enn harðnandi samkeppni hjá RÚV. 365 – ljósvakamiðlar hafa ákveðið að hefja útsendingar á fréttastöð í sjónvarpi sem muni ganga í allavega 16 tíma á dag og halda úti fréttaveitu til landsmanna í gegnum daginn. Spyrja má sig að því hver tilgangur RÚV sé orðinn ef hægt ef einkaaðilar geta haldið úti fréttaveitu með þessum tagi sem gengur allan daginn og getur með því haldið á almannavarnarhlutverkinu sem RÚV hefur jafnan haft. Frægt varð annars að RÚV varð síðust allra til að segja frá frægum Suðurlandsskjálftum fyrir fimm árum. Þar fór almannavarnargildið fræga út í veður og vind. Sjónvarpið sýndi frá EM í fótbolta og lét leikina halda áfram þrátt fyrir stöðu mála og útvarpið var mun seinna með fréttirnar en Bylgjan sem hélt vel á þessari stórfrétt. Með tilkomu fréttastöðvar af þessu tagi er komin fréttaveita sem haldið getur á stórfréttum allan sólarhringinn, hvað svo sem RÚV gerir.

Óneitanlega tel ég að 365 skjóti boltanum mjög hátt með því að starta þessari fréttastöð. Það má deila um hvort pakkinn muni ganga eða þá hvort að menn séu að tefla á vöð sem halda ekki. En tillagan er djörf og ef hún gengur er kominn fjölmiðill sem mun byggjast upp sem öflug fréttaveita til allra landsmanna, í gegnum sjónvarpið, netið og útvarpið – allt í senn. Þannig að við blasir að RÚV er á öðrum tilvistargrunni þegar að nýr útvarpsstjóri sest á skrifstofu sína í haust og tekur til við að stjórna þessu rótgróna fjölmiðlaveldi ríkisins. Spyrja má sig að því hvort sá risi er á brauðfótum eða muni geta aðlagað sig að breyttum tímum með auðveldum hætti samhliða breytingunum sem steðja að þessu gamla veldi. Sótt er allavega harkalega að honum og fróðlegt hvernig nýr yfirmaður stjórnar fleytunni á þeirri vegferð sem framundan er. Það mun allavega að ég tel fljótt reyna á hvernig hann heldur á verkefninu sem framundan er.

Grunnur alls sem ég ætlast til á næstunni af menntamálaráðherra við val þessa yfirmanns fjölmiðlaveldis ríkisins er að fagmanneskja í fjölmiðlunarstörfum taki við starfinu og þar verði nýjar og ferskar hugmyndir aðalsmerki. Það verður merkilegt að sjá til verka nýja útvarpsstjórans í vetur og hvaða breytingar, ef nokkrar, muni koma með nýjum húsbónda. Það er þó alveg ljóst að nýr útvarpsstjóri hefur stórt og mikið verkefni fyrir höndum og næg úrlausnarefni bíða hans eða hennar er tekið verður til við það sem bíður á skrifborðinu í Efstaleiti.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Umræður á villigötum

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur tilnefnt alríkisdómarann John Roberts í embætti hæstaréttardómara í stað Sandra Day O'Connor, sem hefur sagt af sér embætti sökum aldurs. Sandra Day O´Connor var fyrsta konan til að verða hæstaréttardómari en það var Ronald Reagan sem hana tilnefndi. En það er nú önnur saga.

Robert er fimmtugur að aldri. Hann er útskrifaður með lögfræðipróf frá Harvard og hefur um nokkurt skeið unnið við opinbera stjórnsýslu í Washington DC. Hann vann m.a. á lögfræðiskrifstofu Hvíta Hússins í tíð Ronald Reagans og var um tíma aðstoðarmaður Williams Rehnquists, núverandi forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann hefur síðan 2003 verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington en Bush forseti skipaði hann einnig í það embætti.

Hér fer smá lýsing á stöðu Roberts sem höfð er beint upp úr mbl.is: ,,Roberts þykir íhaldssamur í skoðunum og gæti átt erfiða tíma fyrir höndum þegar Bandaríkjaþing fjallar um útnefninguna þótt hann eigi stuðningsmenn bæði meðal repúblikana og demókrata. Frjálslyndir hópar segja, að Roberts hafi tekið afstöðu í málum, sem fjalla um málfrelsi og trúfrelsi og gæti sem hæstaréttardómari þrengt þessi réttindi. Þá segja hópar, sem berjast fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Robers hefur hins vegar sagt sjálfur, að dómur réttarins í málinu Roe gegn Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur, jafngilti lögum í landinu og hann muni virða þau lög þrátt fyrir persónulegar skoðanir.”

Ekki hef ég svo sem sérstaka skoðun á því hvaða dómara Bush forseti velur. Það er auðvitað innaríkismál í BNA. En þann 1. júlí s.l. tilkynnti Sandra Day O’Connor um afsögn sína og síðan þá hafa farið fram heitar umræður um næsta dómara sem tæki sæti hennar í hæstaréttir. Vinstri menn segjast vera ,,hræddir” um að forsetinn velji of harðan hægri íhaldsmann í embættið sem enga virðingu beri fyrir m.a. rétti kvenna til fóstureyðinga, hjónaböndum samkynhneigðra og svo frv. Hægri menn hafa lagt á það að áherslu að forsetinn velji einhvern sem stendur með rétti barna til lífs, varðveiti hjónaband milli karls og konu og svo frv. Já það eru skiptar skoðanir um þessi mál. Hvort sem um er að ræða Bandaríki Norður Ameríku eða önnur lönd.

En það verður aftur sem áður áhugavert að sjá hvernig fréttir verða fluttar af tilnefningunni. Ekki kæmi mér á óvart að bæði Stöð 2 og fréttastofa Ríkissjónvarpsins eigi eftir að minnast á Robert sem íhaldsaman hægrimann sem sé á móti fóstureyðingum og mála þannig mynd af honum að hann sé ekki hæfur í embætti dómara. Það er einnig áhugavert hvernig vinsti menn taka upp umræðu um þessi mál. Vinstrimenn sem sífellt tala um að vilja aukið lýðræði og aukna umræðu um ýmsa hluti vilja hana bara svo lengi sem þeir geta stjórnað henni.

Tökum tilnefningu Bush sem dæmi. Nú er greinilegt að meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum er sammála Bush í siðferðismálum, t.a.m. málefnum samkynhneigðra og réttinum til fóstureyðinga. Bush var lýðræðislega kosinn og hefur því rétt til að tilnefna dómara. En það er ekki nóg. Öldungadeild þingsins þarf síðan að samþykkja tilnefninguna. Gott og vel. Þingið var nú líka lýðræðislega kosið. En hvernig bregðast vinstri menn við. Þeir eru ,,hræddir” um að einhver verði tilnefndur sem ekki er fylgjandi þeirra skoðunum. Í stað þess að sætt sig við að lýðræðið hafi fengið að ráða beita þeir brögðum með því að mála upp svarta mynd að þeim sem ekki eru sammála skoðunum þeirra.

Það er alveg ótrúlegt hvernig þeir mála sjalfa sig upp sem frelsishetjur hvað eftir annað. Flestir vinstrimenn í BNA telja að þeir séu að halda upp grundvallarmannréttindum og rétti kvenna með því að berjast fyrir frjálsum rétti fóstureyðinga. Þeir sem hins vegar eru á annari skoðun eru íhaldssamir öfgamenn sem enga virðingu bera fyrir mannréttindum. Að sama skapi eru þeir sem ekki styðja rétt samkynhneigðra til að ganga í lögbundið hjónaband hommahatar og aftuhaldsseggir. Já, það vantar sko ekki málefnalegheitin hjá vinstri mönnunum.

Eitt sinn átti ég í viðræðum við nokkrar vinstri sinnaðar konur. Þær voru að tala um það að þær vildu að Ríkið niðurgreiddi getnaðarvarnir fyrir unglinga. Þegar ég var inntur álits á þessu sagði ég að sjálfsögðu að Ríkið ætti ekki að skipta sér af kynlífi unglinga og hvað þá að nota skattpeninga til að niðurgreiða það. Þetta fannst þeim nú ekki mikið vit í. En svo lagði ég upp annað dæmi. Segjum sem svo að Ríkið ákveði að eyða X mikilli upphæð í að niðurgreiða getnaðarvarnir. Þar er Ríkið farið að skipta sér af kynlífi og barneignum. Síðan kæmist önnur stjórn til valda sem segði, ,,Jæja, nú hættum við að eyða X mikilli upphæð í getnaðarvarnir unglina, en eyðum sömu upphæð í kennslu um skírlífi fyrir hjónaband.” Þetta sló nú ekki alveg í gegn hjá vinstri sinnaða saumaklúbbnum. Talað var um hægri öfgar, mannréttindabrot og allan þann pakka.

Það er alveg greinilegt að vinstri menn vilja eins og áður sagði hafa umræður í gangi ef að þeir geta stjórnað þeim en ef á annað borð einhver er með aðra skoðun þá er sú skoðun hvað eftir annað máluð upp sem öfgar, mannréttindabrot, þröngsýni, afurhaldssemi og svo frv.

Rétt er að taka fram að ritstjórn Íhald.is hefur ekki lýst sig andsnúna hjónaböndum samkynhneigðra.
Það sem hér er skrifað að ofan er skrifað umræðunnar vegna.

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is

Powered by Hexia

Mánudagspósturinn 18. júlí 2005

Í Fréttablaðinu 12. júlí sl. birtist frétt undir fyrirsögninni „Það er vilji þjóðarinnar að haldið verði í málskotsréttinn“. Sennilega væri ekki hægt að kveða fastar að orði þó reynt væri. Þegar fréttin er lesin er þessa mjögsvo afgerandi fullyrðingu hins vegar hvergi að finna. Í henni er rætt við Jónínu Bartmarz, þingmann Framsóknarflokksins sem sæti á í nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Er m.a. vitnað í hana þar sem hún segir: „Ég held að það sé ekki vilji þjóðarinnar að afnema málskotsréttinn ...“ Það er nefnilega það. Jónína segist halda að þjóðin vilji halda í málskotsréttinn en Fréttablaðið telur sig hins vegar vera í aðstöðu til að fullyrða að svo sé á grundvelli orða hennar. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?

Annars hefur umræðan um hinn svokallaða „málskotsrétt“ forseta Ísland verið all merkileg á köflum. Þannig mætti t.a.m. nefna aðeins eitt atriði. Eins og þekkt er eru forystumenn Samfylkingarinnar iðnir við að tala um að innleiða þurfi beinna lýðræði á Íslandi, halda fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur o.s.frv. (reynslan sýnir reyndar að yfirleitt er slíkt tal úr þeirri átt talið eitt). En þrátt fyrir það hafa þeir sett sig upp á móti þeirri hugmynd að sett verði ákvæði í stjórnarskrána í stað ákvæðisins um „málskotsréttinn“ svonefnda þar sem kveðið verði á um að almenningur geti með einhverjum hætti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um ákveðin mál að eigin frumkvæði og án þess milliliðar sem aðkoma forsetans að málinu óneitanlega felur í sér. Þetta er auðvitað að því gefnu að menn séu þeirrar skoðunar að forsetinn hafi raunverulega það vald að synja lögum frá Alþingi staðfestingar sem ég notabene er ekki.

Forystumenn Samfylkingarinnar hafa annars farið í mun fleiri hringi í þessu máli en bara þennan  - eins og þeirra er von og vísa. Þannig hafa þeir t.a.m. ásamt fleirum í stjórnarandstöðunni sakað ríkisstjórnina um að hafa „haft af þjóðinni“ þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin á síðasta ári. Á sama tíma vilja þeir að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem það hefur beinlínis verið stundað í gegnum tíðina að fara í kringum vilja almennings í þjóðaratkvæðagreiðslum ef hann hefur ekki verið í samræmi við vilja forystumanna sambandsins. Þ.e.a.s. auðvitað í þau sárafáu skipti sem almenningi þar á bæ hefur verið leyft að tjá hug sinn til einhverra samrunaskrefanna innan þess með þeim hætti.

Þetta er annars t.a.m. í stíl við það þegar forystumenn Samfylkingarinnar hafa haldið því fram að stjórnvöld rækju ekki sjálfstæða utanríkisstefnu gagnvart Bandaríkjastjórn. Á sama tíma vilja þeir hins vegar að Ísland gangi í Evrópusambandið þar sem ljóst er að engin sjálfstæð utanríkisstefna yrði rekin af hálfu okkar Íslendinga kæmi til aðildar. Kveðið er á um sameiginlega utanríkisstefnu sambandsins í fyrirhugaðri stjórnarskrá þess eins og kunnugt er og þó stjórnarskráin sé vissulega í uppnámi, og óvíst hvort hún taki einhvern tímann gildi, þá hafa forystumenn Evrópusambandsins lýst því yfir að jafnvel þó svo verði ekki beri að halda áfram því starfi sem þegar er hafið við að koma á sérstöku embætti utanríkisráðherra sambandsins, sjálfstæðri utanríkisstefnu þess sem og utanríkisþjónustu sem smám saman er ætlað að koma í stað sjálfstæðra utanríkisþjónusta aðildarríkjanna.

Þessi framganga forystumanna Samfylkingarinnar er auðvitað alveg gríðarlega trúverðug. Annars er það nú auðvitað svo að það kemur lítið á óvart að þeir séu sjálfum sér ósamkvæmir og tali í endalausa hringi. Slíkt er fyrir löngu orðið fremur að reglu en undantekningu.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Bush-blinda og galdrakarlar

Ólafur Hannibalsson skrifar oft greinar í miðopnu Fréttablaðsins. Ólafur er vel meinandi maður, en haldinn fjórða-stigs Bush-blindu. Bush-blinda lýsir sér í krónískum ásökunum um illt innræti og vafasaman ásetning bandarískra stjórnvalda. Þessi blinda er til í fimm stigum, og lýsir hæsta stigið sér þannig, að öll vandamál heimsins eru talin orsök Bush, vina hans (t.a.m. Blairs eða Davíðs), og ýmissa forvera Bush í forsetastól Bandaríkjanna. Bush er þó ætíð verstur allra, enda afar illa gefinn, lesblindur og siðblindur.

Þann 29. júní birti Fréttablaðið grein eftir Ólaf sem heitir „Vald og veruleiki“. Í grein þessari segir Ólafur um innrásina í Írak: „Átyllan reyndist engin; Saddam átti engin gereyðingarvopn. Allur undirbúningur styrjaldarinnar var byggður á lygum, fölskum veruleika sem var búinn til í Washington með því að hagræða skýrslum leyniþjónustanna og laga staðreyndir eftir hentugleikum.“ Undir lok greinarinnar segir hann svo: „Stjórnvöld kæra sig kollótt um hverju lesendur virtra fjölmiðla, eins og New York Times, trúa, það sem skiptir máli er hvað hægt er að fá hinn breiða fjölda til að trúa, hvaða blekkingum þarf að beita, hvaða lygar þarf að spinna upp til þess að skapa það andrúmsloft að hægt sé að hefja stríð.“

Í þessari grein er samsagt ákveðin samsærikenningin sett fram, hana er hægt að orða svona: „Bush, og pörupiltar hans í Hvíta húsinu, vildu fara í stríð í Írak. Til þess að fá stuðning almennings fengu þeir þá hugmynd að búa til sögu þess efnis að Saddam Hussein ætti gereyðingarvopn. Áróðursvél Bush-stjórnarinnar sá svo um að reyna að láta almenning halda að þessi saga væri sönn.“

Það sem ég skil ekki varðandi þessa meintu blekkingarvél, er hvernig Bush tókst að fá ýmsa stríðsandstæðinga eins og Jacques Chirac, Hillary Clinton og ýmsa demókrata sem ekki höfðu síðri aðstöðu en Bush til að vita hver sannleikurinn væri í málinu, t.a.m. eins og fyrrum utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Clintons, í lið með sér til að dreifa „lyginni“ til almennings.

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, sagði þann 16. október 2002: „Það sem er í húfi hér, er að svara þeirri ógn sem stafar af gereyðingarvopnum Íraka. Baghdad-stjórnin hefur notað slík vopn í fortíðinni, og við höfum sannanir sem benda til þess að Íraksstjórnin hafi verið að framleiða fleiri slík vopn undanfarin fjögur ár í fjarveru vopnaeftirlitsins.“

Hillary Clinton sagði þann 10 október 2002: „Á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan vopnaeftirlitið fór, hefur Saddam unnið að því að byrgja sig upp af efna-og sýklavopnum, koma sér upp eldflaugum og hefjast handa við kjarnorku áætlun. Hann hefur einnig aðstoðað og veitt hryðjuverkamönnum hæli, meðal annars Al-Qaeda mönnum, þó að ekkert bendi til þess að hann hafi verið viðriðin árásirnar 11. september. Þrátt fyrir það er ljóst að sé hann látinn óáreittur, mun Saddam auka getu sína til að heyja efna- og sýklavopnastríð, og mun halda áfram að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum.“

William Cohen, fyrrum varnarmálaráðherra Clintons, sagði eftirfarandi í apríl 2003: „Ég er algerlega fullviss um að það séu vopn... Ég sá sannanir fyrir því árið 1998 þegar vopnaeftirlitsmönnum var meinaður aðgangur að vöruhúsum, og þeir sáu stóra trukka ferja vopnin úr húsunum í þrjár klukkustundir áður en þeir fengu inngöngu.“

Ég gæti haldið endalaust áfram að vitna í ýmsa frammámenn um heim allan, fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum, og leyniþjónustustarfsmenn ýmissa landa og mikla stríðsandstæðinga sem sögðu að gereyðingarvopn væru í Írak. Já, Bush „samsærisvélin“ teygði anga sína víðar en ætla mætti. Hún var jafnvel byrjuð að útbreiða þessar „lygar“ áður en Bush komst til valda. Bill Clinton sagði árið 1998: „Samfélag þjóðanna gæti séð meira af þeirri ógn sem stafar af Írak: Rautt land sem á gereyðingarvopn, er tilbúið að nota þau, eða afhenda þau hryðjuverkamönnum. Ef að við bregðumst ekki við í dag, mun Saddam og allir þeir sem fylgja í fótspor hans verða enn sterkari og djarfari á morgun.“ Starfsmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna sagði árið 1998: „Enn þann dag í dag, eru Írakar langt frá því að hafa afvopnast, samkvæmt mjög trúverðugum upplýsingum sem við hjá UNSCOM (vopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna) höfum aflað. Írakar eiga enn sýklavopn, eins og miltisbrand, botulinum toxin og clostridium perfringens, í nægilega miklum mæli til að fylla marga tugi af sprengjum og eldflaugaoddum. Þeir hafa einnig getuna til að halda áfram að framleiða þessi vopn. Írakar eiga líklega nokkur tonn af VX taugagasi, sarin taugagasi, og sinnepsgasi, sem geymt er í sperngjum og eldflaugaoddum...“

Það er að er sjálfsögðu aðeins ein leið til að eiga við galdrakarl eins og Bush sem fær vini og óvini í fortíð og framtíð til að útbreiða „Búss-neskar“ villukenningar um írösk gereyðingarvopn. Safna saman sprekum og halda galdrabrennu.

Sindri Guðjónsson


Eignarréttur bænda gjarnan fótum troðinn

Sem kunnugt er er langmestur hluti byggilegs landsvæðis utan þéttbýlis á Íslandi í eigu bænda. Um þessi landsvæði gilda enn að mörgu leyti nokkuð forneskjulegar reglur sem eru einkum til þess fallnar að binda hendur jarðeigenda. Þessar reglur bera keim af óhóflegri forræðishyggju yfirvalda og takmarka rétt eigenda til hagnýtingar og ráðstöfunar landsins.

Á síðasta ári tóku gildi ný jarðalög, lög 81/2004. Með þeim var að nokkru aflétt þeim hömlum sem áður voru við lýði en þó hefði með réttu mátt stíga stærri skref í þá átt. Ég ætla að taka nokkur dæmi úr jarðalögum og fleiri lögum þar sem eignarrétti landeigenda eru reistar skorður.

Taka lands úr landbúnaðarnotum
Samkvæmt 5.-7. grein jarðalaga er óheimilt að taka land sem nýtt er til landbúnaðar eða nýtanlegt er til slíkrar starfsemi til annarra nota nema að fengnu sérstöku leyfi landbúnaðarráðherra. Umsókn um slíkt til ráðherra þarf að fylgja uppdráttur staðfestur af skipulagsyfirvöldum. Fari svo að landbúnaðarráðherra veiti umrætt leyfi – sem engan veginn er öruggt – öðlast leyfið fyrst gildi við þinglýsingu. Þessi áskilnaður um að leyfið öðlist fyrst gildi við þinglýsingu er nýmæli í hinum nýju lögum og því er hið nýja ákvæði jafnvel meira íþyngjandi fyrir landeiganda en ákvæði eldri laga.

Með öðrum orðum er bóndi sem vill til dæmis nýta hluta lands síns undir sumarbústaðabyggð eða aðra starfsemi sem ekki fellur undir landbúnað háður leyfi landbúnaðarráðherra og skipulagsyfirvalda til þess arna. Slíkt fyrirkomulag hlýtur að virka letjandi á framkvæmdagleði manna og ekki er í fljótu bragði sjáanleg nauðsyn þess að reisa þessar skorður við landnotkun eigenda. Hvað varðar yfirvöldin um það hvernig menn nota sínar landareignir, svo fremi að nýtingin skerði ekki hagsmuni annarra?

Takmarkanir á framsali
Með nýju jarðalögunum urðu umtalsverðar úrbætur varðandi rétt landeigenda til framsals á landinu. Eldri lög kváðu á um forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðunum og raunar var samþykki sveitarstjórnar áskilið til að sala gæti átt sér stað og einnig samþykki opinberrar nefndar sem bar heitið jarðanefnd. Meira að segja hafði sveitarstjórnin heimild til þess að krefjast þess að verð eignarinnar yrði metið af dómkvöddum mönnum ef henni þótti verðið óeðlilegt, og gilti það verð þá sem söluverð! Þannig var loku fyrir það skotið að verð eignanna réðist af framboði og eftirspurn á frjálsum markaði. Hér erum við ekki að tala um einhverja forneskju heldur lög sem giltu allt þar til á síðasta ári! Sem betur fer hefur þessu nú verið breytt með hinum nýju lögum. Raunar vildi landbúnaðarráðherra viðhalda forkaupsrétti sveitarfélaga á jörðunum en meirihluti landbúnaðarnefndar Alþingis hlutaðist til um að það ákvæði var fellt út úr frumvarpinu – góðu heilli fyrir landeigendur.

Ennþá er þó fyrir hendi forkaupsréttur ábúenda jarða, þeirra sem setið hafa jarðirnar í sjö ár eða lengur. Þeir geta líkt og sveitarfélögin gátu samkvæmt eldri lögum krafist mats dómkvaddra manna á verðinu, telji þeir verðið vera ,,bersýnilega ósanngjarnt”. Verðið samkvæmt matinu gildir þá sem söluverð. Þannig eru í vissum tilvikum enn fyrir hendi verulegar hömlur á því að verð jarðanna ráðist á frjálsum markaði þó úrbæturnar séu miklar frá eldri lögum. Þess má loks geta að 31. grein skipulags og byggingarlaga felur í sér nokkuð víðtækar forkaupsréttarheimildir sveitarfélaga.

Byggingarleyfi
Í 43. grein skipulags og byggingarlaga segir að:

,,Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.”

Ákvæði IV. kafla laganna, sem vísað er til, taka til ,,hvers kyns bygginga ofan jarðar og neðan.”

Slíkar reglur geta vissulega átt rétt á sér upp að vissu marki þegar um er að ræða öryggismál og það að mannvirkin séu nægilega trygg, meðal annars að teknu tilliti til þess að nýir eigendur mannvirkisins eiga rétt á því að það uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur um öryggi og frágang. Hins vegar má leiða að því líkur að of langt sé gengið þegar engar breytingar má gera á mannvirkjunum án sérstaks leyfis. Þá má spyrja hvaða hagsmuni verið er að vernda með því að banna mönnum að rífa niður gömul hús í dreifbýli, nema þeir hafi til þess tilskilin leyfi. Sérstök sjónarmið geta þó átt við um friðaðar byggingar sem hafa minjagildi. Rétt er að hafa í huga að byggingarleyfin eru gjaldskyld og því fellur kostnaður af skriffinskunni óhjákvæmilega á landeigendur. Auðveldara er að réttlæta hömlur sem þessar í þéttbýli vegna sjónarmiða nábýlisréttar, þó svo að þar megi vissulega einnig huga að breytingum.

Hagnýting auðlinda í eignarlöndum
Verulegar hömlur eru settar á nýtingu manna á auðlindum í eignarlöndum sínum samkvæmt auðlindalögum.

Lögin taka til nýtingar auðlinda svo sem jarðefna, jarðhita og grunnvatns. Almennt er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi ráðherra, þó allnokkrar undantekningar séu gerðar frá því í lögunum. Samkvæmt 6. grein laganna hefur landeigandi ekki einu sinni forgangsrétt að nýtingarleyfi fyrir auðlindir í landi sínu nema hann hafi fyrst sótt um leyfi til rannsókna á þeim! Réttur landeigenda til nýtingar grunnvatns og jarðhita takmarkast við ákveðið umfang og miðast að mestu við eigin afnot. Þannig eru verulegar hömlur á því að hann geti til dæmis sett á stofn hitaveitu eða vatnsveitu á eigin vegum og selt þannig öðrum orkuna. Raunar kveða lögin á um forgangsrétt sveitarfélaganna til þess arna. Þá hafa lögin að geyma eignarnáms- og bótaákvæði. Meðal annars er kveðið á um að ef samkomulag næst ekki milli landeigandans og þess aðila sem auðlindina vill nýta um endurgjald getur ráðherra tekið landið eignarnámi. Þannig er komið í veg fyrir að landeigandinn geti selt öðrum orkuna á markaðsverði þrátt fyrir að hún sé unnin af hans landgæðum.

Að lokum
Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum dæmum um það að eignarréttur landeigenda í dreifbýli sé skertur. Fleiri dæmi mætti að ósekju nefna, til dæmis um ýmsar aðrar hömlur sem skipulags og byggingarlög fela í sér. Það er umhugsunarefni hvort ekki megi víða stíga skref í þá átt að minnka þær takmarkanir á eignarréttinum sem áður var vikið að.

Þó ber vissulega að fagna þeim víðtæku úrbótum sem urðu með hinum nýju jarðalögum sem tóku gildi í fyrra. Þar er ekki síst fyrir að þakka meirihluta landbúnaðarnefndar sem tók af skarið í veigamiklum atriðum eins og áður er getið. Sem kunnugt er hefur verð jarða farið mjög hækkandi síðustu misserin. Ekki er ósennilegt að nefndar lagabreytingar eigi einhvern þátt í því þar sem menn hafa nú meira svigrúm til að semja um verð við sölu landareigna sinna auk þess sem söluferlið er nokkuð einfaldara. Þannig komast bændurnir nær því að hljóta réttlátt verð fyrir eignirnar.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


Mánudagspósturinn 11. júlí 2005

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, ritaði grein í Morgunblaðið 28. júní sl. undir fyrirsögninni „Evrópa er svarið“ þar sem hann fjallaði um þá stjórnmálakreppu sem Evrópusambandið er í um þessar mundir. Eins og kunnugt er er sú kreppa einkum tilkomin í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir rúmum mánuði síðan og ekki bætti úr skák að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins skyldu ekki geta komið sér saman um hvernig fjármagna ætti sambandið á næstu árum. Það var annars löngu orðið tímabært að eitthvað að marki heyrðist frá íslenzkum Evrópusambandssinnum um stöðuna innan sambandsins en þeir hafa nær algerlega þagað þunnu hljóði um þau mál síðan hún kom upp. Svo neyðarlegt hefur þetta ástand raunar verið að pólitískir andstæðingar þeirra hafa beinlínis óskað eftir því opinberlega að þeir tjáðu sig nú eitthvað um málið.

En svo vikið sé að grein Andrésar þá byrjar hann hana á því m.a. að segja að líkja mætti erfiðleikum Evrópusambandsins við vaxtarverki unglings sem væri „að breytast í fullorðna manneskju.“ Í kjölfarið þessara orða veltir maður því óneitanlega fyrir sér í hvað sambandið er nákvæmlega að breytast að mati Andrésar? Eitt ríki? Og í framhaldi af því hvenær megi búast við því að þessir vaxtaverkir Evrópusambandsins taki enda? Eða má eiga von á slíkum vandræðalegum afsökunum úr herbúðum Evrópusambandssinna um alla framtíð í hvert sinn sem eitthvað bjátar á hjá sambandinu?

Andrés segir síðan að mörg stór mál bíða Evrópusambandsins og nefnir þar m.a. fyrirhugaða aðild Búlgaríu, Rúmeníu og Króatíu sem og aðildarviðræður við Tyrki. Tilgangurinn með því að nefna þetta til sögunnar er ljóslega sá að reyna að sýna fram á að engan bilbug sé að finna á sambandinu þrátt fyrir stjórnmálakreppuna. Miklar líkur verða þó að teljast á því að búið væri að leggja öll áform um frekari stækkun Evrópusambandsins á hilluna um óákveðinn tíma ef forystumenn sambandsins hefðu ekki verið búinir að gefa þessum ríkjum opinberlega loforð um að hefja við þau aðildarviðræður á ákveðunum tíma áður en núverandi aðstæður komu upp. Enda lýstu ýmsir forystumenn Evrópusambandsins yfir efasemdum, eftir höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskránni, um að rétt væri að halda áfram með frekari stækkunaráform. Rökin fyrir því að halda áfram í þeim efnum eru því ekki þau að allt sé í himnalagi innan Evrópusambandsins, sem augljóslega er ekki raunin, heldur þau að það yrði aðeins til að auka á álitshnekk sambandsins út á við ef það hætti við að hefja viðræður við umrædd ríki eins og til stóð.

Síðan segir Andrés að erfiðleikar, eins og þeir sem Evrópusambandið glímir við um þessar mundir, séu ekki nýjir af nálinni í sögu sambandsins en að það hafi áður staðið slíkt af sér. Hann bætir síðan við að því sé þó ekki að neita að aðstæðurnar núna séu mun flóknari en áður eftir að aðildarríki Evrópusambandsins eru orðin 25 og hvert með sínar áherzlur. Sem notabene er einmitt einn helzti veikleiki sambandsins. Það þarf þó auðvitað ekki að hafa mörg orð um það að þó Evrópusambandið hafi staðið ýmislegt af sér hingað til (þá aðallega með ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og þekkt er) þýðir það vitanlega ekki að það muni ávallt verða raunin. Evrópusambandið er auðvitað ekki eilíft frekar en önnur mannanna verk þó margur sanntrúaður Evrópusambandssinninn kunni e.t.v. að halda það. Hvað annars kemur út úr þeirri kreppu sem sambandið er í núna veit auðvitað enginn.

Andrés viðurkennir síðan að höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskrá Evrópusambandsins hafi verið pólitískt áfall fyrir sambandið – enda sennilega ekki annað hægt. Hann viðurkennir ennfremur að forystumenn Evrópusambandsins hafi ekki verið í takti við almenning í aðildarríkjum þess og segir síðan að þeir verði „að finna þá tónlist sem íbúar Evrópu [lesist Evrópusambandsins] eru tilbúnir að hlusta á.“ Þetta hljómar allt mjög vel hjá Andrési þó hann hafi mér vitanlega ekki séð ástæðu til að nefna þetta áður. En svo segir Andrés: „Það er hins vegar ljóst að öll skynsamlega (!) rök hníga að því að finna sameiginlega leið til að þróa Evrópu [lesist aftur Evrópusambandið] áfram.“ Þróa Evrópusambandið hvert áfram? Hvernig sér Andrés þá þróun fyrir sér? Nú erum við s.s. komin aftur að unglingnum með vaxtarverkina. Og það sem meira er, hver eru öll þessi skynsamlegu rök? Þau fylgdu ekki með í greininni þó að um vægast sagt ansi mikla fullyrðingu sé að ræða.

En það á sem sagt að hlusta á almenning í aðildarríkjum Evrópusambandsins en samt að halda áfram á sömu braut í þróun sambandsins. Öðruvísi verða orð Andrésar varla skilin. Hvernig gengur þetta upp? Hvað ef almenningur vildi t.d. vinda ofan af Evrópusambandinu og breyta því bara í einfalt fríverzlunarsvæði? Það er sennilega ekki mikil hætta á að hlustað yrði á slíkt af hálfu forystumanna sambandsins enda auðvitað um að ræða kolrangt svar, svona eins og „nei“ í þeim tiltölulega fáu þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið um samrunaskref innan þess.

Andrés segir svo að aðildarríki Evrópusambandsins muni finna lausn á þeirri stjórnmálakreppu sem sambandið er í því það sé „ekki nein önnur skynsamleg leið til fyrir þau varðandi framtíðina, hvort sem er félagslega, stjórnmálalega og efnahagslega.“ Fullyrðingagleðin heldur áfram og allur rökstuðningur heldur að sama skapi áfram að vera víðsfjarri. Það má vel vera að fyrir Andrési og mörgum skoðanabræðrum hans sé hér um að ræða eitthvert náttúrulögmál en svo er þó langt því frá í raunveruleikanum.

Ég held að það sé tímabært fyrir Evrópusamtökin að þau upplýsi hvernig þau sjái fyrir sér þróun Evrópusambandsins í framtíðinni. Ertu Evrópusamtökin hlynnt fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins? Eru þau hlynnt því að því verði breytt í eitt ríki? Það væri sérstaklega áhugavert að fá svar við þessum spurningum í ljósi þess að samtökin eru aðilar að regnhlífarsamtökunum European Movement sem einmitt hafa það sem sitt helzta markmið að stuðla að því að Evrópusambandinu verði breytt í sambandsríki („united federal Europe“) ef marka má heimasíðu þeirra. Eru Evrópusamtökin hlynnt þessu markmiði? Ef svo er ekki, hvað eru þau þá að gera í þessum félagsskap?

Svar við þessari spurningu er einmitt ekki sízt áhugavert í ljósi fullyrðingar Andrésar um að ljóst sé „að hræðsluáróður andstæðinga Evrópusambandsins um yfirþjóðlegt vald og súperríki Evrópu“ eigi ekki við rök að styðjast. Það þarf þó ekki annað en að lesa fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins (fyrir þá sem leggja í það) til að sjá hver hugmyndin með henni er öðru fremur. Reyndar er alveg nóg að lesa fyrsta hluta hennar til þess. Þess utan er auðvitað alveg merkilegt að því sé haldið fram að Evrópusambandið sé ekki yfirþjóðlegt vald því það er nákvæmlega það sem sambandið er. Stjórnvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins verða þannig að fara eftir ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi sambandsins og hvers vegna? Jú, vegna þess að ákvarðanirnar eru teknar af yfirþjóðlegu valdi sem þau hafa gengizt undir.

Andrés lýkur svo grein sinni á enn einni fullyrðingunni: „Smáríkin innan ESB bera ekki skarðan hlut frá borði í stækkaðri Evrópu og ef eitthvað er þá eru smærri ríkin að styrkja stöðu sína í Evrópu nútímans.“ Það er nefnilega það og sem fyrr er allur rökstuðningur víðsfjarri. Annars er ég þó það sæmilegur í landafræði að ég efa stórlega að Evrópa hafi eitthvað stækkað að ráði á undanförnum árum. En að öllu gamni slepptu er þarna auðvitað átt við Evrópusambandið eins og áður þegar talað er um Evrópu enda eitt lykilatriðið í áróðri Evrópusambandssinna að telja fólki trú um að Evrópa og Evrópusambandið sé eitt og hið sama. Það þarf þó varla mikla skynsemi til að sjá í gegnum slíkt þó Evrópusambandssinnar haldi greinilega að hægt sé að telja fólki trú um hvaða vitleysu sem er.

Og að lokum með vísan í fyrirsögnina á grein Andrésar; Ef Evrópusambandið er svarið, hver er þá spurningin?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Hryðjuverkaárás í London – mikilvægi samstöðu

Tugir almennra borgara létu lífið í fjórum sprengingum í London í gærmorgun og fjölmargir særðust lífshættulega. Heimsbyggðin stendur sem felmtri slegin eftir þessi mannskæðu hryðjuverk í miðborg London, sem skaða saklausa borgara og er beint að þeim þáttum sem veldur mestum skaða, samgöngukerfi Lundúnaborgar. Mannlífið í borginni hefur farið úr skorðum sínum eftir hryðjuverkaárásina. Erfitt er að komast um, umferðarhnútur hefur myndast á milli staða og með því að lama neðanjarðarlestakerfið eru auðvitað lamaðar samgöngur á mikilvægum punktum í borginni. Margir höfðu lengi búist við að hryðjuverkamenn myndu láta til skarar í Bretlandi, en þegar það gerðist varð undrun fólks þess því meiri. Áfallið er mikið og breskt samfélag er sem lamað eftir árásirnar. Lengi hefur al-Qaeda talað um að ráðast á Bretland og nú hefur það gerst, illu heilli. Lögreglu hafði ekki borist viðvörun um að hryðjuverk væru yfirvofandi. Kemur þetta hryðjuverk sem þruma úr heiðskíru lofti eftir að London var í vikunni valin sem vettvangur Ólympíuleikanna árið 2012.

Áður óþekkt sella sem tengir sig við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin hefur nú lýst þessu hryðjuverki á hendur sér. Bera hryðjuverkin að öllu leyti handbragð al-Qaeda. Mjög margt er líkt með hryðjuverkinu á Spáni þann 11. mars 2004. Sprengjur í bakpokum sprungu þá í lestum í miðborginni og í úthverfum. Tæplega 200 manns létu lífið í þessu hryðjuverki. Lengi vel fullyrtu spænsk yfirvöld að ETA stæði að baki þeim, en bakpokasprengjur og koparhvellhettur sem tendraðar eru með boðum úr farsíma báru þó ekki merki um handbragð ETA. Ljóst varð því fljótt að al-Qaeda stóð að baki. Hryðjuverkaárásin í London var líkt og hryðjuverkaárásin í Madrid bæði ófyrirleitin og grimmdarleg. Henni var einvörðungu beint gegn saklausum borgurum. Ætlunin var í senn bæði að myrða og særa óbreytta borgara. Árásunum var ekki beint að þjóðarleiðtogum eða hefðarfólki. Þeir sem féllu í valinn, særðust og urðu fyrir henni að einhverju leyti er saklaust fólk, venjulegt fólk í London, af ólíkum uppruna sem ekkert hefur sér til sakar unnið og var aðeins á röngum stað á röngum tíma.

Vinnubrögð af þessu tagi og árásin sem slík, í senn bæði nú og í fyrra á Spáni, ætti að mínu mati endanlega að sannfæra alla heimsbyggðina um hvernig al-Qaeda og tengd hryðjuverkasamtök vinna. Þau skeyta engu um mannslíf, svífast einskis til að ráðast að vestrænum gildum og mannlegri tilveru. Hér er auðvitað ekki einvörðungu um að ræða árás á breskt samfélag, breska þegna og tilveru þeirra. Þetta er auðvitað aðför að öllum sem tilheyra vestrænu samfélagi. Þessu ber að taka með þeim hætti og það ber auðvitað að bregðast við með ákveðnum hætti. Uppræta þarf hryðjuverkasamtök sem vinna með þessu tagi og ráðast að saklausum borgurum með svo grimmdarlegum og ógeðfelldum hætti. Jafnframt má búast við að vestrænt samfélag sameinist í viðbrögðum sínum. Í London er undarleg stemmning í kjölfar þessara hryðjuverka. Í raun má segja að íbúar borgarinnar séu sterkir og standi eftir þessa árás staðráðið í að standa vörð um gildi tilveru sinnar og láti þessa grimmdarlegu aðför að sér styrkja sig í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ró er yfir borginni og íbúarnir þar eru að jafna sig á áfallinu.

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, var staddur á leiðtogafundi átta helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi þegar hryðjuverkaárásin í London átti sér stað í gærmorgun. Hann ávarpaði bresku þjóðina og heimsbyggðina alla vegna þessa skelfilega voðaverks frá Skotlandi um morguninn. Hann sagði þar að hryðjuverkaárásirnar hefðu verið gerðar vegna þess að á sama tíma væru leiðtogar helstu iðnríkja heims að funda. Sagði hann það sérstaklega villimannslegt að árásirnar hefðu verið gerðar á sama tíma, og þjóðarleiðtogar sætu á fundi til að ræða um aðgerðir til að aðstoða Afríku og draga úr loftslagsbreytingum. Þá sagði forsætisráðherrann að þrátt fyrir þetta illverki hryðjuverkamanna myndu Bretar standa vörð um þau gildi og lifnaðarhætti sem þeir hefðu alla tíð haft í heiðri og staðfesta landsmanna, væri meiri en hryðjuverkamanna, sem vildu í senn valda saklausu fólki dauða og limlestingum og koma fram öfgastefnu víðsvegar um heim. Hefur þetta sannast af viðbrögðum landsmanna við hryðjuverkunum. Ennfremur er ljóst að árásin mun ekki vega að þeim verkefnum sem þar átti að ræða.

Blair sagði í yfirlýsingu sinni í gærmorgun að hann og ríkisstjórn hans myndu í samstarfi við landsmenn alla berjast gegn vágestinum. Ekki kæmi til greina að láta hann eyðileggja það sem byggt hafði verið upp í bresku samfélagi. Blair kom fram af festu og krafti með yfirlýsingu sinni og sannaði styrk sinn sem stjórnmálamanns að mínu mati með ræðu sinni í Skotlandi. Hann var augljóslega mjög skelkaður er hann flutti ræðuna og sýndi með tignarlegum hætti rétt viðbrögð og að mínu mati var þetta með betri ræðum stjórnmálaferils forsætisráðherrans. Hann sýndi og sannaði styrk sinn sem forystumanns í stjórnmálum og kom fram af festu og ákveðni við erfiðar aðstæður í sögu þjóðarinnar. Eftir hádegið hélt forsætisráðherrann svo til London til að fylgjast betur með stöðu mála. Sat hann þar fundi með ríkisstjórninni og borgaryfirvöldum. Ávarpaði hann svo bresku þjóðina að nýju seinnipartinn í embættisbústað sínum, Downingstræti 10. Fundurinn hélt áfram í Gleneagles og tók Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, við stjórn hans í fjarveru forsætisráðherrans sem kom svo aftur til Skotlands í gærkvöldi. Í dag mun svo ráðast hver niðurstaða fundarins er.

Er tilkynnt hafði verið um hryðjuverkin í London í gærmorgun komu leiðtogar iðnríkjanna átta á fundinum í Gleneagles fram opinberlega saman auk gesta sinna á fundinum, leiðtogum annarra ríkja. Þeir stóðu þar saman meðan Blair las yfirlýsingu í nafni þeirra allra. Þetta skelfilega hryðjuverk varð til þess að þeir urðu sammála um framkvæmdir og orðið samstaða verður vonandi lykilorð þessa leiðtogafundar, er honum lýkur formlega. Það þarf að vinna sameinað að þeim verkefnum sem skipta máli, samstaða og samheldni þarf að verða niðurstaða þessa fundar. Það má ekki láta hryðjuverkaöflin eyðileggja þennan fund og yfirskyggja hann með þessum skelfilega verknaði. En nú er þetta hryðjuverk og atlaga hryðjuverkaafla að breskum þegnum og bresku samfélagi er orðin staðreynd er mikilvægast auðvitað að leiðtogar þjóðanna standi saman og ennfremur að allir heimsbúar séu sameinaðir í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Gleymum því ekki að það er ásetningur þessara niðurrifsafla að sundra samstöðu heimsins. Það mun ekki takast, svo lengi sem við stöndum saman gegn þeirri ógn sem blasir við. Baráttan gegn hryðjuverkum hefur tekið á sig nýja mynd við tíðindi gærdagsins í Lundúnum. Atburðir gærdagsins eru áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku. En mikilvægast er eins og ég hef sagt að standa vörð um samstöðu þjóðanna í baráttunni. Nú er tækifærið til að sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkum af enn meiri krafti en áður.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Skattabylting í Austur-Evrópu

Pólsk stjórnvöld tilkynntu nýverið að þau hyggðust koma á flötum 18% skatti á tekjur fyrirtækja og einstaklinga. Sama verður að segja um hlutfall virðisaukaskatts. Eins og staðan er í dag eru skattar á fyrirtæki 19% í Póllandi og tekjuskattur einstaklinga 40%. Með breytingunum er ætlunin að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara, eitthvað sem ekki þykir vanþörf á. Hreinsa burt flókið kerfi alls kyns skattahlutfalla og undanþága. Gera pólsk stjórnvöld ráð fyrir að aukinn hagvöxtur muni bæta hinu opinbera upp tekjumissinn auk þess sem búist er við að lægri skattar þýði að fólk verði líklegra til að standa í skilum. Er hugmyndin að næstu þrjú ár fari í að koma þessum breytingum á.

Pólski Íhaldsflokkurinn (Platforma Obywatelska), sem er í stjórnarandstöðu eins og er, hefur lagt til að gengið verði enn lengra í lækkun skattahlutfallsins og komið verði á 15% flötum skatti, en þingkosningar verða í Póllandi næsta haust. Póland er þó langt því frá eina dæmið í Evrópu um þessa þróun sem hófst fyrir margt löngu. Hafa mörg ríki í Austur-Evrópu þegar komið á flötum skatti. Má þar fyrst nefna Eistland, sem hóf þessa þróun árið 1991 með 26% flötum skatti sem síðar var lækkaður í 20%, en einnig t.a.m. Lettland, Slóvakíu, Serbíu, Rúmeníu, Georgíu, Úkraínu og Rússland. Í síðastnefnda landinu er skatthlutfallið aðeins 13%. Tilgangurinn er alls staðar fyrst og fremst að laða að erlendar fjárfestingar og gera löndin samkeppnishæfari.

Er hér um að ræða afar áhugaverða og spennandi þróun sem enn hefur þó ekki náð til Vestur-Evrópu. Þó eru ýmsar þreifingar til staðar. Þannig hefur brezka Adam Smith stofnunin kynnt niðurstöður rannsóknar þess efnis að brezk stjórnvöld gætu tekið upp 22% flatan tekjuskatt án þess að það myndi hafa í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð. Ástæðan er einkum sögð vera sú að tilraunir til að komast hjá skattlagningu myndu dragast verulega saman. Madsen Pirie, forseti stofnunarinnar, sagði af því tilefni að flatur skattur væri það sem koma skyldi. Sú þróun færðist smám saman yfir Evrópu. Það sem væri að gerast í Austur-Evrópu væri tilraun sem ætti sér stað í raunheimi, ekki væri aðeins um að ræða einhverja tilgátu. Og reynslan hefði sýnt að þetta virkaði!

Þróunin í Austur-Evrópu hefur ekki hvað sízt ýtt við þýzkum stjórnvöldum. Gerhard Schröder, kanslari Þýzkalands, tilkynnti á dögunum að skattar á þýzk fyrirtæki yrðu lækkaðir úr 25% í 19%, þá einkum í því skyni að reyna að slá á gríðarlegt atvinnuleysi í landinu en einnig til að sporna við því að fyrirtækin flyttu starfsemi sína austur á bóginn. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna þar sem þýzkar borgir leggja líka ýmsar álögur á þýzk fyrirtæki og segja hagfræðingar að lækkunin sé því nær því að hafa farið úr 38% í 32% að meðaltali. Auk þess hyggjast þýzk stjórnvöld hækka fjármagnstekjuskatta til mótvægis. Í skýrslu sem unnin var fyrir þýzka fjármálaráðuneytið nýverið var lagt til að komið yrði á 30% flötum skatti á einstaklinga og fyrirtæki í Þýzkalandi, en slíkt er þó ekki enn sem komið er á dagskrá þar í landi.

Mikil bylting hefur átt sér stað í skattamálum hér á landi á síðustu árum fyrir tilstuðlan ríkisstjórna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af leitt. Á rúmum áratug hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 51% í 18% og einnig hafa verið samþykkt lög sem fela í sér að eignarskattar fyrirtækja og einstaklinga verði afnumdir. Einstaklingar hafa heldur ekki farið varhluta af þessum miklu umbótum í skattaumhverfinu hér á landi þegar kemur að almennum tekjuskatti. Hann hefur verið lækkaður verulega á undanförnum árum og nú síðast tilkynnti ríkisstjórnin fyrir síðustu jól að hann yrði lækkaður enn frekar fyrir lok þessa kjörtímabils eða um 4%.

Eins og kunnugt er hélt Verzlunarráð Íslands nýverið viðskiptaþing þar sem m.a. voru kynntar tillögur um að komið yrði á 15% flötum skatti hér á landi á tekjur fyrirtækja og einstaklinga sem og á neyzlu. Ber að sjálfsögðu að fagna þessum tillögum. Það verður ennfremur fróðlegt að fylgjast áfram með þróuninni í Austur-Evrópu og vonandi að hún nái fyrr en síðar hingað til lands.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birt áður á www.sus.is)


Mánudagspósturinn 4. júlí 2005

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lýsti þeirri skoðun sinni nýverið í ræðu sem hann flutti í Bandaríkjunum að hann teldi Íslendinga eiga meiri samleið með Bandaríkjamönnum en Evrópusambandinu, þá sérstaklega þegar kæmi að efnahagsmálum. Sagði hann að einsleit reglugerðasmíð sambandsins fyrir aðildarríki þess væri ekki endilega jafnheppileg og það fyrirkomulag sem til staðar væri í bandarísku samfélagi. Að hans mati hefðu einstök ríki Bandaríkjanna mun meira svigrúm og frelsi á margvíslegum sviðum en gerðist í Evrópusambandinu.

Haft var eftir „einum leiðtoga stjórnarandstöðunnar“ í Blaðinu 28. júní sl. af þessu tilefni að forsetinn stjórnaði ekki utanríkisstefnu Íslands. Þessi ágæti stjórnarandstöðuleiðtogi vildi þó greinilega ekki láta nafns síns getið af einhverjum ástæðum. En hvað sem því líður þá hafa stjórnarandstæðingar hingað ekki séð ástæðu til að gera neinar athugasemdir við það þegar forsetinn hefur verið að tjá sig opinberlega um hápólitísk álitamál, hvort sem það hefur verið hér heima eða erlendis, og raunar allajafna fagnað þeim afskiptum hans og um leið skammað ýmsa aðra fyrir að gagnrýna hann í þeim efnum. Nú kveður hins vegar greinilega við talsvert annar tónn úr herbúðum stjórnarandstæðinga.

Rétt er að geta þess að þó ég sé vissulega mjög sammála Ólafi Ragnari í samanburði hans á Bandaríkjunum og Evrópusambandinu frá íslenzkum bæjardyrum séð þá er ég engu að síður þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk þess sem gegnir forsetaembættinu hverju sinni að tjá sig með svo afgerandi hætti um hápólitísk málefni, hvort sem um er að ræða skipan mála á íslenzkum fjölmiðlamarkaði eða samband Íslands og Evrópusambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Alfreð viðurkennir misferli sitt

Þegar ég var lítill gerði ég dáldið sem ég átti ekki að gera. Móðir mín var búin að banna mér að fara yfir ákveðan götu í bænum (sem er s.s. alveg eðlilegt að foreldrar geri) og ætlaðist til þess að ég hlýddi því. Einn daginn ákvað vinur minn að fara yfir götuna ,,ægilegu” og ég gat að sjálfsögðu ekki verið minni maður og elti hann.

En á einhvern óskiljanlegan hátt komast foreldar alltaf að öllu og þegar hetjan ég kom heim mættu mér reiðir foreldrar. Ég var spurður af hverju ég hefði farið þangað sem ég fór þegar búið var að banna mér það. Í staðinn fyrir að neita fyrir allt saman og láta eins og ég hefði verið í næsta nágrenni allan tímann sagði ég þeim að vinur minn (sem ég man ekki hvað heitir af því að hann talaði aldrei við mig aftur) hefði nú farið þarna fyrst.

Þetta þóttu mér sjálfsögð viðbrögð og get réttlætt þau með góðum rökum – ég var sjö ára.

Í byrjun júní færðu Ungir Sjálfstæðismenn Alfreð Þorsteinssyni, formanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, Monopoly spilið að gjöf. Eins og fram kemur í tilkynningu SUS var þetta gert til að ,,mótmæla taumlausri eyðslu Alfreðs á kostnað borgarbúa.”

Fram kemur í tilkynningu SUS að vonandi láta Alfreð sér nægja að kaupa eignir fyrir þá spilapeninga sem eru í spilinu en hætti á sama tima að leika sér með skattfé borgarbúa. En eins og margoft hefur komið fram og allir sjá nema Alfreð sjálfur hefur hann hingað til farið frjálslega með það fé sem tilheyrir borgarbúum.

Alfreð hins vegar vill ekki eins og áður sagði kannast við neitt af þessu og sendi spilið til baka með þeirri kveðju að Davíð Oddsson hefði nú á sínum tíma byggt Perluna og hefði þar með ,,bruðlað” meira með fjármuni borgarinnar. Það er nú bara það.

Til hamingju Alfreð Þorsteinsson – Þú ert búinn að vinna argjúmentið um það hver bruðlar mest með peninga! Já, það vantar ekki að hann Alfreð sé málefnalegur. Svona álíka málefnalegur og ég var þegar ég var sjö ára.

En bíðum nú við. Við skulum hafa eitt í huga. Davíð Oddsson var borgarstjóri Reykvíkinga í 9 ár og á því tímabili var Perlan byggð. Hún var s.s. byggð í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Alfreð Þorsteinsson er EKKI borgarstjóri Reykjavíkur. Hann getur því ekki sett sig á háan hest með því að bera sig saman við fyrrverandi borgarstjóra. Hvaða skoðun sem menn hafa á Perlunni eða fleiru sem framkvæmt var í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar, þá réttlætir ekkert það brask og bruðl sem á sér stað í Orkuveitunni undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar. Það er ekki hlutverk OR að standa í fjarskipaviðskiptum, rækjueldi, sumarbústaðabyggð og fleiru. Þetta er verkefni sem einkaaðilar eiga að taka sér fyrir hendur og ef svo vill til að hið opinbera ákveður að

Nú má vel vera að Alfreð líti á sig sem borgarstóra. Hver veit nema Alfreð sé valdamesti leikmaðurinn í samstarfi R-listans. Ekki veit ég það og ekki vita borgarbúar hver stjórnar á bakvið tjöldin í valdasamstarfi R-listans. Enda er það ekkert skrítið þar sem þeir vita það stundum ekki sjálfir. Það hlýtur að vera erfitt að eiga samstarf við flokka sem hafa enga hugsjón nema þá að sjálfstæðismenn komist ekki til valda í borginni.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir bendir réttilega á það í grein að flokkarnir sem standa að R-listanum eru ,,málefnafátækir og stefnulausir.” Það er út af því sem að allir geta leikið sér í sínu horni og þeir einu sem þurfa að gjalda eru borgarbúar með skattpeningum sínum.

Virðing Alfreðs og félaga (ef félaga skyldi kalla) í R-listanum fyrir fjármagni borgarbúa er nákvæmlega engin. Borgarbúar eiga betra skilið og það eru komið að borgarbúum að sigra næstu kosningar.

Gísli Freyr Valdórsson

Birtist áður á sus.is


„Ísland opnasta land í Evrópu“

Á undanförnum árum hafa ýmsir aðilar hér á landi haldið því statt og stöðugt fram að Ísland væri á góðri leið með að verða að einhvers konar fasistaríki þegar kæmi að málefnum innflytjenda og að íslenzk stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að erlendir einstaklingar gætu sezt hér að. Sérstaklega hefur þessu verið haldið fram í tengslum við komur fólks til landsins sem óskað hefur eftir pólitísku hæli hér. Hafa fjölmiðlar ennfremur tekið virkan þátt í því í gegnum tíðina að skapa umrædda mynd af stefnu stjórnvalda í þessum málum. Var þetta sérstaklega áberandi fyrir rúmu ári síðan þegar frumvarp dómsmálaráðuneytisins til breytinga á útlendingalögum lá fyrir Alþingi.

Í síðustu viku var greint frá því að nokkrir erlendir einstaklingar, sem sótt hafa um pólitískt hæli hér á landi og eru í umsjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar á meðan mál þeirra eru skoðuð, hafi farið í kröfugöngu um bæinn og kvartað yfir því að það tæki langan tíma að afgreiða mál þeirra hjá hinu opinbera. Sögðust þeir hafa lítið við að vera á meðan mál þeirra væru skoðuð og kröfuðust þess að fá hér búsetu- og atvinnuleyfi ef marka má fréttir fjölmiðla af málinu. Höfðu þeir uppi stór orð um íslenzk stjórnvöld og sögðu þeim m.a. vera sama um sig og að þau litu ekki á sig sem mannverur.

Fyrst í stað höfðu flestir fjölmiðlar ekki fyrir því að kanna hver afstaða fulltrúa stjórnvalda kynni að vera til málsins utan Morgunblaðið sem hafði strax samband við Hjördísi Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar. Í kjölfarið rættist smám saman úr fréttaflutningi annarra fjölmiðla af málinu. Kom í ljós að mótmælendurnir höfðu á engan hátt komið kvörtunum sínum á framfæri við félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ og kom Hjördís algerlega af fjöllum þegar hún frétti af mótmælunum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 26. júní sl. var síðan rætt við Jóhann R. Benediktsson, sýslumann á Keflavíkurflugvelli, en embætti hans rannsakar flest þau mál sem koma upp vegna umsókna um hæli hér á landi. Sagði Jóhann að fyrir lægi að langflestir hælisleitendur, sem kæmu hingað til lands, væru að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og væru í reynd ekki pólitískir flóttamenn. Sagði hann rannsókn þessara mála flókna og taka sinn tíma og ekki bætti síðan úr skák í þeim tilfellum sem viðkomandi einstaklingar gæfu upp rangar upplýsingar um sig, en fjölmörg slík mál kæmu upp á hverju ári. Sagði hann ennfremur að aðbúnaður hælisleitenda hér á landi væri mun betri en í öðrum löndum þar sem þeir væru yfirleitt geymdir í sérstökum búðum og fengju ekki að fara frjálsir ferða sinna ólíkt því sem gerðist hér á landi.

Sagt var frá því í fréttatímanum að t.a.m. hafi einn þeirra einstaklinga, sem tóku þátt í mótmælunum í Reykjanesbæ, óskað eftir hæli hér á landi í fyrra. Þegar íslenzk yfirvöld hafi farið að rannsaka mál hans hafi hann látið sig hverfa af landi brott. Eftir það hafi frétzt af manninum í Hollandi þar sem hann hafi einnig sótt um hæli. Þegar þarlend yfirvöld hafi farið að rannsaka mál hans hafi hann leikið sama leikinn og látið sig hverfa. Það hafi síðan verið í janúar á þessu ári sem hann hafi komið aftur hingað til lands og þá undir öðru nafni en þegar hann kom hingað fyrst. Hann hafi óskað eftir atvinnu- og dvalarleyfi hér en ekki fengið og þá óskað eftir hæli sem flóttamaður í annað sinn. Sagði að lokum í fréttinni að vitað væri að maðurinn hefði nú þegar stöðu flóttamanns í Þýzkalandi.

Kvöldið eftir ræddi síðan Stöð 2 við Þóri Guðmundsson hjá Rauða krossi Íslands. Sagði hann Rauða krossinn ekki gera miklar athugasemdir við það hvernig flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna væri framfylgt hér á landi og að hann teldi Ísland vera eitt opnasta land Evrópu í þessum efnum. Sagði hann ennfremur eðlilegt að það tæki tíma að kanna vel mál þeirra sem sæktu um hæli hér á landi svo hægt væri að skera úr um það hverjir ættu rétt á hæli og hverjir ekki. Sagði hann að hvert land hefði rétt á að setja reglur um það hverjir kæmu til landsins og hverjir ekki og að það væri ekkert óeðlilegt við það. Þeir sem uppfylltu ekki skilyrði íslenzkra stjórnvalda, sem og skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, ættu ekki rétt á að vera hérna.

Óneitanlega eru einkum þau orð Þóris, að Ísland sé eitt opnasta land Evrópu þegar kemur að möguleikum útlendinga til að setjast hér að, merkileg í ljósi þeirra fullyrðinga sem getið var í upphafi greinarinnar. Ljóst er að þær fullyrðingar eru algerlega úr lausu lofti gripnar og rúmlega það. Það gleymist líka í hamagangnum, við að láta stjórnvöld líta illa út í þessum málum en alla þá sem sækja hér um hæli vel, að einstaklingar sem óska eftir stöðu flóttamanna hér á landi á fölskum forsendum, og leggja þar með mikla vinnu á stjórnvöld við að komast til botns í málum þeirra, eru með því að tefja afgreiðslu á málum þeirra einstaklinga sem raunverulega kunna að eiga rétt á hæli hér á landi. Um þá hlið málsins er þó ekkert fjallað í fjölmiðlum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Mánudagspósturinn 27. júní 2005

Nú nýverið lauk árlegri ráðstefnu Alþjóðahvalveiðiráðsins í Seoul í Suður-Kóreu og verður að viðurkennast að niðurstöður hennar hafi verið ákveðin vonbrigði þar sem ekki tókst að ná samkomulagi um hvalveiðar í atvinnuskyni eins og margir höfðu vonazt eftir. Var talið að mögulegt yrði að slíkt samkomulag næðist eftir að Danir lýstu yfir stuðningi við það en sú varð þó ekki raunin þegar á reyndi. Var haft eftir íslenzku sendinefndinni að ráðstefnunni lokinni að ólíklegt væri að hvalveiðar yrðu leyfðar af ráðinu í nánustu framtíð.

Alþjóðahvalveiðiráðið er reyndar löngu orðið að óttalegum brandara. Ráðið var upphaflega sett á laggirnar til að stuðla að skynsamlegri stjórnun hvalveiða en hefur í seinni tíð orðið að eins konar hvalfriðunartæki sem er alfarið mótfallið hvalveiðum eins og þær leggja sig. Aðild að ráðinu eiga fjölmörg ríki sem hafa ekki nokkra einustu hagsmuni af hvalveiðum og liggja sum þeirra ekki einu sinni að sjó eins og t.a.m. Austurríki, Sviss og Tékkland svo dæmi séu tekin. Er ekki að furða að komið hafi beinlínis fram tillögur um að ráðið verði endurskírt Aþjóðahvalverndunarráðið og að stofnað verði nýtt Alþjóðahvalveiðiráð sem raunverulega hafi það að markmiði sínu að stuðla að skynsamlegri nýtingu hvalastofna.

Eins og kunnugt er höfum við Íslendinga stundað vísindaveiðar á hval hér við land undanfarin ár. Kölluðu þær veiðar í fyrstu á mikil mótmæli erlendis frá og þá ekki sízt frá ýmsum erlendum náttúruverndarsamtökum s.s. Grænfriðungum. Skoðanakannanir hafa þó sýnt að mikill meirihluti Íslendinga sé hlynntur veiðunum. Áróðurinn gegn þeim var einkum á þá leið að þær myndu leggja íslenzkan ferðamannaiðnað meira eða minna í rúst og skaða ímynd Íslands erlendis. Ferðamannastraumurinn til landsins myndi dragast verulega saman sem aftur myndi m.a. þýða mikinn fjárhagslegan skaða fyrir þjóðarbúið.

Þetta gekk þó ekki eftir og hefur ekkert lát orðið í aukningu á komum ferðamanna til Íslands þó við hæfum vísindaveiðar á hval. Það er því kannski ekki að furða að lítið hafi heyrzt í andstæðingum veiðanna um langt skeið. Ein rökin gegn veiðunum eru að engir markaðir séu fyrir hvalkjöt í heiminum. Það er kannski ýmislegt til í því eins og staðan er í dag enda engin furða þegar algert hvalveiðibann hefur verið í gildi í heiminum í að verða tvo áratugi. Talsverða markaðssetningu þarf venjulega til þegar verið er að kynna nýja framleiðslu og væntanlega eru hvalaafurðir engin undantekning í þeim efnum.

Samkvæmt mati vísindanefndar Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins eru hrefnu- og langreyðarstofnar við Ísland nú nálægt því eða búnar að ná þeirri stofnstærð sem þeir voru í áður en skipulegar veiðar hófust hér við land fyrir tæpri öld síðan. Telur nefndin að óhætt sé að veiða 200 hrefnur og 150 langreyðar við Ísland án þess að þessir hvalastofnar beri af því skaða. Er það mat nefndarinnar að Mið-Atlantshafshrefnustofninn við Ísland telji nú um 44 þúsund dýr og að í svonefndum Austur-Grænlands-Íslands langreyðarstofni séu um 25 þúsund dýr.

Rökin gegn hvalveiðum á tegundum sem ekki eru í útrýmingarhættu, s.s. hrefnu, eru nær undantekningalaust tilfinningarök. Málflutningurinn gengur þá yfirleitt út á að ekki megi veiða hvali yfir höfuð á þeim forsendum að allir hvalir séu í útrýmingarhættu sem er alrangt. Einnig er því t.a.m. haldið fram að hvalir séu svo gáfaðar skepnur og því megi ekki veiða þá. Viða er það hreinlega orðið að lífstíl hjá ákveðnum einstaklingum, ásamt ýmsu öðru hliðstæðu, að berjast gegn hvalveiðum og í ófáum tilfellum hefur umrætt fólk klárlega litla hugmynd um staðreyndir málsins. Trúir því t.a.m. virkilega að allir hvalir séu í útrýmingarhættu enda hafa ýmis náttúruverndarsamtök beinlínis alið á slíkri fáfræði og vitleysu.

Grænfriðungar eru kannski þau samtök sem einna mest áberandi hafa verið í andstöðunni við hvalveiðar í heiminum. Það er nú ekki eyðandi mörgum orðum í þau samtök en ég vil samt koma aðeins inn á málflutning þeirra. Nýverið var skip á þeirra vegum statt í Reykjavíkurhöfn og af því tilefni var rætt við talsmann þeirra í Morgunblaðinu þann 21. júní sl. Þar sagði hann m.a. að Grænfriðungar væru á móti hvalveiðum vegna þess að þeir óttuðust að frekari veiðar á hval myndu þýða að finna yrði markaði fyrir afurðirnar. Ef þeir markaðir fyndust myndi það þýða enn meiri sókn í hvalveiðar sem skila myndi sér í þrýstingi á að auka veiðikvóta. Þetta myndi á endanum þýða ofveiði og hrun hvalastofna. Hér er auðvitað verið að mála skrattann all hressilega á vegginn en það sem kannski athyglisverðast er við þessi “rök” er að með þeim mætti t.a.m. alveg eins tala fyrir því að hætt yrði að veiða þorsk eða nánast hvaða aðra sjávarafurð.

Talsmaðurinn var þá spurður að því hvort Grænfriðungar væru mótfallnir hvalveiðum ef tryggt yrði að þær leiddu ekki til ofveiði eða hruns hvaðastofna. Svarið stóð ekki á sér, talsmaðurinn sagði það engu skipta fyrir afstöðu Grænfriðunga. Þeir væru eftir sem áður algerlega á móti hvalveiðum, hvort sem það kynni að leiða til ofveiði og hruns eða ekki. Auðvitað er þessi málflutningur tóm vitleysa en á sama tíma lýsandi fyrir málflutning margra þeirra sem mótfallnir eru hvalveiðum. Það má eiginlega segja að þessir aðilar séu einfaldlega á móti hvalveiðum „aþþþíbara“. Það er auðvitað ekki hægt að ræða málefnalega við slíkt fólk.

Eins og staðan er í dag eru Norðmenn eina þjóðin í heiminum sem stundar hvalveiðar í atvinnuskyni, en við Íslendingar ásamt Japönum stundum vísindaveiðar á hvölum. Þrátt fyrir spár um annað af hálfu andstæðinga hvalveiða hafa veiðar Norðmanna ekki haft í för með sér neinar slæmar afleiðingar fyrir þá s.s. viðskiptabönn eða aðrar alþjóðlegar refsiaðgerðir. Lítil sem engin hætta verður því að teljast á því að sú yrði raunin í tilfelli okkar Íslendinga ef við tækjum þá ákvörðun að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni eins og frændur okkar Norðmenn að loknum þeim vísindaveiðum sem nú standa yfir, hvað sem hinu svokallaða Alþjóðahvalveiðiráði kann að finnast um það.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Hægðu á þér – tökum slysin úr umferð!

Í vikunni hófst þjóðarátak Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Er þetta fimmta sumarið í röð sem VÍS stendur fyrir því. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að þeirri nöpru staðreynd að beint samhengi sé á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Það er margsannað að meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru jafnan mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. VÍS mun samhliða þessu þjóðarátaki standa fyrir auglýsingaherferð þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Samhliða því verður vakin athygli á nýjum leiðbeinandi umferðarmerkjum sem Vegagerðin mun setja upp í sumar á hættulegum vegaköflum á landinu. Verða þau sett upp á svokölluðum svartblettum þar sem slysahætta er jafnan mjög mikil.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 13 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum hér í nágrenni heimabæjar míns, Akureyri, en fjórir hafa látist í tveim hörmulegum slysum í Öxnadal seinustu vikur. Á árinu 2004 létu 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Ef marka má tölur sem kynntar voru við upphaf þjóðarátaksins hafa níu af 13 banaslysum á þessu ári orðið í dreifbýli, eða tæplega 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli. Þetta eru dapurlegar tölur sem þarna sjást. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum – einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.

Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar.

Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila. Það er þó mitt mat að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikurnar. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Sú varð nú ekki aldeilis raunin.

Fyrir nokkrum vikum birtist okkur önnur auglýsingaherferð þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál!

En ég fagna þjóðarátaki VÍS í umferðarmálum. Ragnheiður Davíðsdóttir leiðir þetta þjóðarátak sem fyrr af miklum krafti og er öflugur talsmaður þess. Í grunninn séð vekur þetta okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu ára og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða – það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Í kjörorði þessa þjóðarátaks er komin lykilsetning okkar í umferðinni að mínu mati: Hægðu á þér – tökum slysin úr umferð!

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Þeir sletta skyrinu...

Nú fyrir skömmu réðust þrír einstaklingar inn á alþjóðlega ráðstefnu um áliðnaðinn sem haldin var á hóteli í Reykjavík. Fundarefnið er vissulega eldfimt í hugum sumra en engu að síður kom það mér nokkuð á óvart að félagsskapur sem kallar sig Náttúruvaktina stóð mótmælastöðu fyrir framan hótelið til þess að mótmæla því ,,svo lítið beri á” að slík ráðstefna væri haldin hér á landi eins og segir í frétt á www.visir.is. Það fór þó ekki minna fyrir þeim en svo að fánar erlendra ríkja sem flaggað hafði verið fyrir utan hótelið voru dregnir í hálfa stöng af aðilum sem tóku þátt í mótmælunum.

Tvöhundruð fulltrúar aðila sem starfa í áliðnaði sátu ráðstefnuna og var þeim skiljanlega mjög brugðið þegar þeir urðu fyrir grænlitaðri súrmjólkurblöndu þremenninganna enda hefði hæglega eitthvað annað og alvarlegra en mjólkurafurð getað verið þarna á ferðinni. Tríóið var handtekið af lögreglu í kjölfar árásar sinnar og fengu að gista fangageymslur. Einn þeirra var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinum tveimur var sleppt eftir yfirheyrslur.

Þegar litið er á hverjir einstaklingarnir þrír sem þarna voru að verki eru vakna margar spurningar. Fyrstan ætla ég að nefna Paul Gill en hann er breskur atvinnumótmælandi sem kenndi á námskeiði í borgaralegri óhlýðni sem haldið var í Reykjavík fyrir skömmu. Annar þáttakandi í árásinni á ráðstefnugestina var Arna Ösp Magnúsardóttir en hún var kynnt til leiks sem ,,hugrakkur borgari” í frétt Stöðvar 2 af námskeiði Gills og tók þátt í því. Ég get illa tekið undir þennan titil sem Stöð 2 gaf henni. Miklu frekar ætti að kalla hana barnalegan borgara enda árás þeirra félaga á saklausa ráðstefnugestanna miklu frekar í ætt við barnaskap heldur en hugrekki. Þriðji aðilinn heitir síðan Ólafur Páll Sigurðsson en hann er einn þeirra sem skipuleggur tjaldbúðirnar sem fyrirhugað er að koma upp við Kárahnjúka í sumar í mótmælaskyni við þær framkvæmdir sem þar eru í fullum gangi. Líkt og fjölmiðlar hafa einnig réttilega bent á eftir atburðinn gengdi hann starfi framkvæmdastjóra Náttúruvaktarinnar á tímabili og er fullgildur meðlimur í samtökunum.

Náttúruvaktin hefur hins vegar gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að þvo hendur sínar af árás þremenninganna á hina saklausu ráðstefnugesti. Í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í kjölfar árásarinnar segir að samtökin tengist árásinni ekki á nokkurn hátt en jafnframt að þau voni að efnið hafi verið umhverfisvænt og benda ennfremur á að hafi einhver spjöll verið unnin með árásinni séu þau fullkomlega afturkræf ólíkt fyrirhugaðri aðför álrisanna að íslenskri náttúru. Ég er alls ekki að halda því fram að Náttúruvaktin standi á bak við árásina með nokkrum hætti enda hafa aðgerðir íslenskra náttúruverndarsamtaka verið með friðsömum hætti hingað til. Hins vegar tel ég mjög ósmekklegt hvernig þeir hnýta aftan við þessum athugasemdum varðandi afturkræfni skemmda sem hugsanlega voru unnar á fatnaði ráðstefnugesta sem og tæknibúnaði hótelsins.

Í Austurglugganum þann 20. maí síðastliðinn var viðtal við Norðfirðinginn Þórarin Einarsson en hann sat fund sem haldinn var í maí til skipulagningar mótmælunum upp við Kárahnjúka nú í sumar. Þar segir hann m.a.: ,,Það stendur ekki til að fremja nein skemmdarverk á Kárahnjúkum. Þau hafa þegar verið unnin.”

Það er ágætt að vita það. Hins vegar verður fólk bara að fyrirgefa þótt ég eigi erfitt með að gleypa því að ekkert muni koma upp á við Kárahnjúka í sumar. Sporin hræða svo sannarlega og nægir þá bara að líta til þess atburðar sem varð á ráðstefnunni góðu og voru reifaðir hér að framan. Ég er þess fullviss að það verða einhver læti í sumar við Kárahnjúka og lögreglan hér eystra mun hafa nóg að gera við að hafa hemil á því fólki sem ætlar sér þangað upp eftir til þess að sýna borgaralega óhlýðni eða ,,borgaralegt hugrekki” eins og þeir sem það iðka kjósa að kalla það.

Það varð síðan ekki til þess að draga úr óróleika mínum þegar ég las áfram í viðtali blaðamanns Austurgluggans við Þórarinn. ,,Þórarinn segist eiga erfitt með að tjá sig um hugsanlegan fjölda mótmælenda í sumar en segir þó að áhugi erlendis frá sé talsverður. Mótmælin munu verða á svipuðum tíma og G-8 fundurinn í Skotlandi og reikna má því með að þaðan komi fólk.” Þetta er að vísu eitthvað sem legið hefur fyrir frá því fyrst fór að kvissast út um mótmælin. Það breytir því hins vegar ekki að það fólk sem mannar G-8 mótmæli víða um heim er langt frá því að vera friðarins fólk. Fréttamyndir sýna heilu borgirnar lagðar meira og minna í rúst vegna óeirða þeirra sem mótmæla undir formerkjum andstöðu við hnattvæðingu.

Er það virkilega svona fólk sem við viljum fá hingað til lands til þess að mótmæla fullkomlega löglegum framkvæmdum á hálendinu? Við megum nefninlega ekki gleyma því að þrátt fyrir allt eru framkvæmdirnar við Kárahnjúka fullkomlega löglegar og því gjörsamlega óþolandi og ólíðandi ef að örfáir einstaklingar ætla sér að hafa truflandi áhrif á þessar framkvæmdir með skemmdarverkum eða ólátum.

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk mótmæli. Það er þeirra réttur. Hins vegar verða öll slík mótmæli að vera með friðsömum hætti. Það er gjörsamlega óþolandi ef menn grípa til ofbeldisfullra aðgerða í mótmælum sínum. Slíkt er málstað þess síður en svo til framdráttar og skilar engum árangri.

Gunnar R. Jónsson
grj@visir.is


Mánudagspósturinn 20. júní 2005

Egill Helgason gerir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, að umfjöllunarefni í nýlegum pistli á vefsvæði sínu á Vísi.is. Reyndar kallar Egill Heimssýn „hreyfingu Evrópuandstæðinga á Íslandi“ og virðist þar með falla í þá gryfju sem sumir eru fastir í að geta ekki gert greinarmun á annars vegar landfræðilega fyrirbærinu “Evrópu” og hins vegar fyrst og fremst stjórnmálafræðilega fyrirbærinu “Evrópusambandinu”. Nema þetta orðalag sé einfaldlega meðvitað og Egill sé með þessu að leggja sitt lóð á vogaskálarnar í þeim einkennilega áróðri Evrópusambandsinna að þetta tvennt sé eitt og hið sama?

En hvað um það. Egill segir að Heimssýn sé samsett á hliðstæðan hátt og „nei-hreyfingin í Evrópu“ (reyndar leyfi ég mér að efast stórlega um að Egill hafi einhverja yfirsýn yfir samsetningu þeirra nokkur hundruð félagsmanna sem eru í Heimssýn). Þar séu t.a.m. „gamlir sósíalistar“ og tekur hann Ragnar Arnalds sem dæmi um það. Einnig „ungir andstæðingar hnattvæðingarinnar“, sem er sá titill sem Ármann Jakobsson fær, „evróskeptíkerar úr ysta hægri stóra hægri flokksins“, sem er skilgreining Egils á Sigurði Kára Kristjánssyni, frjálshyggjumenn eins og Birgir Tjörvi Pétursson og að lokum segir Egill að „með laumist fulltrúar þeirra sem séu andsnúnir innflytjendum“ og nefnir hann mig sem dæmi um það.

Ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að þessum einkunnagjöfum sé ætlað að draga upp dökka mynd af þeim sem í hlut eiga. Finnst mér t.a.m. furðulegt að Egill geri að því skóna að Sigurður Kári sé einhvers konar hægriöfgamaður og fróðlegt þætti mér líka að fá rök fyrir þeirri fullyrðingu að ég sé andsnúinn innflytjendum þó ég hafi vissulega lagt áherzlu á mikilvægi aðlögunar í gegnum tíðina, þegar kemur að innflytjendamálunum, og eðlilegs aðhalds í samræmi við það. Eitthvað sem flestir gera sennilega í dag.

Reyndar virðist Egill ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga í Evrópumálunum og má þannig t.a.m. nefna að sl. haust kom Daniel Hannan, þingmaður brezka Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu, til Íslands á vegum Heimssýnar og var m.a. í viðtali í Silfri Egils. Var Egill víst afar hrifinn af Hannan og var stuttu síðar svo ánægður með grein eftir hann í brezka tímaritinu The Spectator að hann sá ástæðu til að skrifa sérstaklega um hana á vefsvæði sínu á Vísi.is og leggja áherzlu á það helzta sem Hannan hafði að segja.

Í grein sinni fjallaði Hannan um það hvað við Íslendingar værum að gera það gott fyrir utan Evrópusambandið og að ástæða þess væri sú að við hefðum haft vit á því að standa fyrir utan það. Ennfremur sagði hann að Bretar gætu tekið okkur sér til fyrirmyndar um að ekkert mál væri fyrir ríki að standa fyrir utan sambandið. Hannan lýsti svo þeirri von sinni í lok greinarinnar að Íslandi auðnaðist að standa áfram fyrir utan Evrópusambandið um ókomna tíð. Þetta nefndi Egill allt í skrifum sínum á Vísi.is án þess að gera við það nokkra athugasemd. Hannan er vitanlega einn af þeim sem mynda nei-hreyfinguna í Evrópu sem Egill er núna svo afskaplega uppi á kant við af einhverjum ástæðum.

Ekki er hægt að sjá annað en að mikils ósamræmis gæti hjá Agli í þessum efnum sem annars vegar segir í pistli sínum að í „meginstraumi stjórnmálanna“ detti engum heilvita manni í hug annað en að Ísland eigi samleið með Evrópusambandinu og að EES-samningurinn sé „svo gott sem aðild“ en tekur síðan undir með Daniel Hannan um að við Íslendingar séum að gera það eins gott og raun ber vitni vegna þess að við höfum haft vit á því að ganga ekki í sambandið!

Það vill nefnilega svo til að hin svokallaða nei-hreyfing í Evrópu inniheldur svo miklu fleiri en bara eitthvað fólk sem er vel til hægri eða vel til vinstri þó reynt hafi verið að mála hlutina þannig upp af fjölmörgum stuðningsmönnum Evrópusamrunans. Ég gæti nefnt til sögunnar í því sambandi ýmsar evrópskar hreyfingar og fleiri aðila víða í hinu pólitíska landslagi sem hafa ýmislegt við þann samruna að athuga sem verið hefur í gangi innan Evrópusambandsins. Að ýja að því að öll slík gagnrýni byggst allajafna á einhverri útlendingaandúð og verndarhyggju er auðvitað stórmerkilegt í ljósi þess að Evrópusambandið sjálft er tollabandalag sem beitir háum verndartollum til þess að standa vörð um þá framleiðslu sem fram fer innan múra þess.

Staðreyndin er einfaldlega sú að andstaðan við aukinn samruna innan Evrópusambandsins, og við aðild að því í þeim tilfellum sem það á við, er oftar en ekki byggð á forsendum frelsis, lýðræðis, fullveldis og andstöðu við miðstýringu og reglugerðafargan. Sú er einmitt einkum raunin hér á landi sem og t.a.m. í Bretlandi og víðar.

Fullyrðing Egils um að í „meginstraumi stjórnmálanna“ detti engum heilvita manni í hug að Ísland eigi ekki samleið með Evrópusambandinu og að EES-samningurinn sé „svo gott sem aðild“ er síðan furðuleg þó ekki nema bara í ljósi þeirrar staðreyndar að aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi, Samfylkingin, hefur aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni og hefur í raun og veru ekki enn lagt í að setja það stefnumál á dagskrá. Hvar er þessi meginstraumur? Er það Samfylkingin? Er Sjálfstæðisflokkurinn þá t.a.m. utan hans? Nær er reyndar að segja að í meginstraumi stjórnmálanna hér á landi sé sú skoðun ríkjandi að Ísland eigi ekki erindi í Evrópusambandið, a.m.k. ekki í nánustu framtíð.

Og að halda því fram að EES-samningurinn sé svo gott sem aðild að Evrópusambandinu þarf í sjálfu sér ekki að ræða mikið, svo augljós er munurinn þarna á milli, jafnvel þó menn vilji ekki sjá hann. Það er t.d. bara nýbúið að sýna fram á að við erum ekki að taka yfir nema brot af lagagerðum sambandsins í gegnum samninginn, þvert á fyrri og margítrekaðar fullyrðingar íslenzkra Evrópusambandssinna. Þó aðeins sé litið til þessa eina atriðis er það nóg til að sjá að himinn og haf er á milli aðildar að Evrópusambandinu annars vegar og EES-samningsins hins vegar.

Annars veltir maður því eðlilega fyrir sér að lokum hvort það skyldi vera einskær tilviljun að Egill taki upp á því að skrifa þennan neikvæða pistil um Heimssýn og meðlimi hreyfingarinnar einmitt núna þegar allt er á öðrum endanum innan Evrópusambandsins eins og kunnugt er og reyndar rúmlega það? Gæti verið að um sé að ræða misheppnaða tilraun til að beina athyglinni að einhverju öðru þegar kemur að Evrópumálunum en þeirri alvarlegu stjórnmálakreppu sem þar er við líði og fjallað hefur verið rækilega um í fjölmiðlum á undanförnum vikum – íslenzkum Evrópusambandssinnum væntanlega til mikillar mæðu? Annað tilefni á ég a.m.k. bágt með að koma auga á.

---

Annars hafa leiðtogar Evrópusambandsins ákveðið að setja fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins á ís og á að taka ákvörðun um framhald málsins eftir einhverja mánuði, jafnvel ekki fyrr en að ári. Í millitíðinni er hugmyndin að leggja enn meira kapp á að reka áróður fyrir stjórnarskránni í aðildarríkjum Evrópusambandsins og þá einkum þeim auðvitað sem hafa lofað þegnum sínum þjóðaratkvæðagreiðslum um málið. Telja ýmsir að slíkur aukinn áróður muni ekki skila miklu og jafnvel snúast upp í andhverfu sína enda ógrynni fjár þegar verið varið í þeim tilgangi af Evrópusambandinu sjálfu sem og aðildarríkjunum en án þess að það hafi skilað sér betur en raun ber vitni.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu meira eða minna vera sammála um það að sambandið hafi aldrei verið í eins mikilli stjórnmálakreppu og nú er raunin. Og nú er bara að bíða þess að Eiríkur Bergmann Einarssin mæti í viðtal hjá einhverjum fjölmiðlanna sem hlutlaus sérfræðingur í Evrópumálum og segi að það sé eðlilegt ástand að Evrópusambandið sé í stöðugri stjórnmálakreppu. Eða svo sagði hann allavega þegar leiðtogar sambandsins voru að rembast við að koma sér saman um efni stjórnarskrárinnar hér um árið. Spurningin er þá bara hvort það sé líka eðlilegt ástand innan Evrópusambandsins að þar sé í ófáum tilfellum viðvarandi efnahagskreppa?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
 
(Birt einnig á www.heimssyn.is)


Þjóðhátíðarpistill

Íslensk þjóðernishyggja er og verður alltaf tengt órjúfanlegum böndum við ímynd þjóðveldisins og hefur hún því iðulega byggst á endurreisn þess í einhverri mynd. Einkenni þessa gullaldartíma sem miðað er við byggist í huga þjóðarinnar á sjálfákvörðunarrétti hennar og sjálfsstæði sem við glötuðum en öðluðumst á ný eftir langa baráttu, á þingræðinu sem við glötuðum en endurreistum í áðurnefndri baráttu og því frelsi einstaklingsins sem óneitanlega var hornsteinn þess samfélags sem hér blómstraði á þjóðveldisöld. Auðvitað einnig á virðingu fyrir sögunni, menningunni, tungunni og hefðunum sem orðið hafa einkennandi fyrir íslenska þjóðmenningu í gegnum árin.

Vissulega var þetta frelsi ekki allra, en jafnframt var óvíða jafn frjálst samfélag nokkurs staðar í nálægum löndum eins og hér ríkti á þessum tíma, og vissulega var þjóðveldið ekki hreint lýðræði eins og við skiljum það í dag, en ímynd þess í okkar huga er eftir sem áður jafn verðmæt og kröftugur leiðarvísir enn í dag líkt og á hápunkti sjálfsstæðisbaráttunnar. Það er nauðsyn hverri þjóð að hafa sterka sjálfsmynd byggða á traustum grunni í sögu hennar, menningu og upplifun, sem sameinar hana, sérstaklega á góðum stundum eins og í dag er við fögnum á sjöunda áratug íslensks sjálfstæðis.

Þessi sjálfsmynd og þessi sameiginlegu gildi eru í hættu vegna ósanngjarns samanburðar íslenskrar þjóðernishyggju, eða föðurlandshyggju, við andlýðræðisleg, fasísk öfl sem upp komu um miðja síðustu öld og misnotuðu sér þær tilfinningar sem þjóðerniskenndin vekur í brjóstum manna. Hægt er að misnota allt, en því fer fjarri að slík notkun réttlæti að hugmyndinni um þjóðina sé varpað á bálköst sögunnar og skipt út fyrir eitthvað annað, hvort sem það sé fjölmenningarhyggju, pan-evrópuhyggju eða heimsborgara- eða stéttasjálfsmyndir.

Þau grundvallargildi sem íslenskt þjóðfélag byggir á verður að vera hafið yfir flokkadrætti og dægurþras, og hefur það tekist að mestu hérlendis sem af er, þó ákveðnar blikur séu á lofti. Það minnir okkur á að sjálfsstæðisbaráttunni lýkur í raun aldrei alveg. En hvort sem Íslendingar séu til vinstri eða hægri í efnahagsmálum, frjálslyndir eða íhaldssamir í siðferðis- og samfélagsmálum þá verðum við að standa vörð um áðurnefnd grundvallargildi, lýðræðið, sem löngum hefur verið í formi þingræðislegs valds Alþingis, sjálfsstæðið, sjálfsstæði einstaklingsins og þjóðarinnar og þjóðmenningarinnar, þar af hið ástkæra ylhýra, sem okkur ber skylda til að varðveita og miðla áfram til komandi kynslóða Íslendinga.

Því er okkur brýn nauðsyn að tryggja að þær kynslóðir sem alast upp á Íslandi í framtíðinni beri þessa sjálfsmynd í brjósti og haldi í heiðri hin sameiginlegu grundvallargildi, sama hver uppruni þeirra er, kyn, húðlitur eða annað. Okkur, líkt og öðrum vestrænum löndum, er mikil nauðsyn að tryggja að nýjir íbúar landsins og þá sérstaklega afkomendur þeirra séu og verði af hug og hjarta fyrst og fremst Íslendingar. Við megum ekki tapa niður þeim árangri að þúsundir Íslendinga dagsins í dag eigi sér erlenda forfeður en líta samt sem áður fyrst og fremst á sig sem Íslendinga. Að hér myndist aðskilin samfélög sem búi hlið við hlið í landinu án nauðsynlegs samgangs líkt og við sjáum allt of víða í Evrópu, Kanada og víðar vegna fjölmenningarhugmyndarinnar er algerlega óásættanlegt, við megum ekki við því að þriðja eða fjórða kynslóð innflytjenda til landsins líti enn á sig sem aðkomumenn í heimalöndum sínum.

Það er því spurning hvort það sé nóg að við stöndum í pontu og tölum fjálglega um þjóðina, menninguna og grunngildin einu sinni á ári, á þeim hátíðisdegi sem nú við fögnum, en það er þó að minnsta kosti ágætis áminning um að enn er meira sem sameinar okkur heldur en sundrar. Tryggjum að svo verði áfram, fögnum þjóðhátíðardegi okkar með stolti í hjarta og miðlum þessum samhug stolt áfram til komandi kynslóða, allra Íslendinga hvað svo sem forfeður okkar hafa búið lengi í landinu.

Höskuldur Marselíusarson


Jean Monnet og hugmyndin um Bandaríki Evrópu

Frakkinn Jean Monnet (1888-1979) er gjarnan kallaður arkitekt Evrópusamrunans eins og þeir þekkja sem kunnugir eru forsögu Evrópusambandsins. Monnet var helzti hvatamaður þess að fyrsta skref Evrópusamrunans var tekið árið 1951 með stofnun kola- og stálbandalagsins á milli Frakklands, Vestur-Þýzkalands, Belgíu, Hollands, Ítalíu og Lúxemburg. Hann var síðan skipaður fyrsti forseti yfirstjórnar bandalagsins, sem má í raun segja að hafi verið nokkurs konar forveri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Monnet lét ekki þar við sitja og hélt áfram að vinna að auknum samruna á milli þeirra ríkja sem stofnuðu kola- og stálbandalagið auk þess sem fleiri Vestur-Evrópuríkjum var boðin aðild að því. Árið 1955 stofnaði hann samtök sem hann kallaði “Action Committee for the United States of Europe” sem lagði línurnar fyrir þróun kola- og stálbandalagsins yfir í að verða að Evrópusambandinu eins og við þekkjum það í dag.

Allt starf sitt byggði Monnet í raun á þeirri sannfæringu sinni að það sem valdið hefði tveimur heimstyrjöldum í Evrópu hafi verið sjálfstæði og fullveldi ríkja álfunnar. Það væri því lykilatriði að hans mati fyrir því að tryggja friðinn í Evrópu að afnema í raun fullveldi þeirra steypa þeim saman í eitt sambandsríki hliðstæðu við Bandaríki Norður-Ameríku.

Margir líta einmitt svo á að það sé Evrópusambandinu að þakka að ekki hafi orðið stríð í Vestur-Evrópu í meira en hálfa öld. Það sjónarmið er þó vægast sagt umdeilt og eru þeir ófáir sem telja t.a.m. að ástæður þess séu fyrst og fremst Atlantshafsbandalagið, kalda stríðið og tilvist hins sameiginlega óvinar í austri á meðan á því stóð. Sjálfur er ég þar á meðal.

En hvernig sem þau mál nú annars eru þá vil ég að lokum, þá einkum í tilefni af þeirri stjórnmálakreppu sem Evrópusambandið er í um þessar mundir eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins, nefna til sögunnar tvær áhugaverðar tilvitnanir í Monnet:

"Europe's nations should be guided towards the superstate without their people understanding what is happening. This can be accomplished by successive steps each disguised as having an economic purpose, but which will eventually and irreversibly lead to federation." (Jean Monnet, 30. apríl 1952)

"There will be no peace in Europe, if the states are reconstituted on the basis of national sovereignty ... The countries of Europe are too small to guarantee their peoples the necessary prosperity and social development. The European states must constitute themselves into a federation ..." (Jean Monnet, 5. ágúst 1943)

Þessar mjög svo fróðlegu tilvitnanir sýna vel bæði það að markmið upphafsmanna Evrópusamrunans var sambandsríki strax í byrjun og að Monnet lagði strax grunninn að ólýðræðislegu eðli Evrópusambandsins um að byggja upp umrætt sambandsríki smám saman þannig að almenningur í þeim ríkjum sem í hlut ættu tæki ekki eftir því og að sem allra minnst þyrfti að hafa hann með í ráðum.

Það er heldur ekki annað að sjá en að þeir sem verið hafa í forystu fyrir Evrópusambandið og forvera þess í gegnum tíðina hafi fylgt þessari aðferðafræði svo um munar og bendir ekkert til þess að látið verði af þeirri háttsemi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband