Leita í fréttum mbl.is

Þeir sletta skyrinu...

Nú fyrir skömmu réðust þrír einstaklingar inn á alþjóðlega ráðstefnu um áliðnaðinn sem haldin var á hóteli í Reykjavík. Fundarefnið er vissulega eldfimt í hugum sumra en engu að síður kom það mér nokkuð á óvart að félagsskapur sem kallar sig Náttúruvaktina stóð mótmælastöðu fyrir framan hótelið til þess að mótmæla því ,,svo lítið beri á” að slík ráðstefna væri haldin hér á landi eins og segir í frétt á www.visir.is. Það fór þó ekki minna fyrir þeim en svo að fánar erlendra ríkja sem flaggað hafði verið fyrir utan hótelið voru dregnir í hálfa stöng af aðilum sem tóku þátt í mótmælunum.

Tvöhundruð fulltrúar aðila sem starfa í áliðnaði sátu ráðstefnuna og var þeim skiljanlega mjög brugðið þegar þeir urðu fyrir grænlitaðri súrmjólkurblöndu þremenninganna enda hefði hæglega eitthvað annað og alvarlegra en mjólkurafurð getað verið þarna á ferðinni. Tríóið var handtekið af lögreglu í kjölfar árásar sinnar og fengu að gista fangageymslur. Einn þeirra var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinum tveimur var sleppt eftir yfirheyrslur.

Þegar litið er á hverjir einstaklingarnir þrír sem þarna voru að verki eru vakna margar spurningar. Fyrstan ætla ég að nefna Paul Gill en hann er breskur atvinnumótmælandi sem kenndi á námskeiði í borgaralegri óhlýðni sem haldið var í Reykjavík fyrir skömmu. Annar þáttakandi í árásinni á ráðstefnugestina var Arna Ösp Magnúsardóttir en hún var kynnt til leiks sem ,,hugrakkur borgari” í frétt Stöðvar 2 af námskeiði Gills og tók þátt í því. Ég get illa tekið undir þennan titil sem Stöð 2 gaf henni. Miklu frekar ætti að kalla hana barnalegan borgara enda árás þeirra félaga á saklausa ráðstefnugestanna miklu frekar í ætt við barnaskap heldur en hugrekki. Þriðji aðilinn heitir síðan Ólafur Páll Sigurðsson en hann er einn þeirra sem skipuleggur tjaldbúðirnar sem fyrirhugað er að koma upp við Kárahnjúka í sumar í mótmælaskyni við þær framkvæmdir sem þar eru í fullum gangi. Líkt og fjölmiðlar hafa einnig réttilega bent á eftir atburðinn gengdi hann starfi framkvæmdastjóra Náttúruvaktarinnar á tímabili og er fullgildur meðlimur í samtökunum.

Náttúruvaktin hefur hins vegar gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að þvo hendur sínar af árás þremenninganna á hina saklausu ráðstefnugesti. Í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í kjölfar árásarinnar segir að samtökin tengist árásinni ekki á nokkurn hátt en jafnframt að þau voni að efnið hafi verið umhverfisvænt og benda ennfremur á að hafi einhver spjöll verið unnin með árásinni séu þau fullkomlega afturkræf ólíkt fyrirhugaðri aðför álrisanna að íslenskri náttúru. Ég er alls ekki að halda því fram að Náttúruvaktin standi á bak við árásina með nokkrum hætti enda hafa aðgerðir íslenskra náttúruverndarsamtaka verið með friðsömum hætti hingað til. Hins vegar tel ég mjög ósmekklegt hvernig þeir hnýta aftan við þessum athugasemdum varðandi afturkræfni skemmda sem hugsanlega voru unnar á fatnaði ráðstefnugesta sem og tæknibúnaði hótelsins.

Í Austurglugganum þann 20. maí síðastliðinn var viðtal við Norðfirðinginn Þórarin Einarsson en hann sat fund sem haldinn var í maí til skipulagningar mótmælunum upp við Kárahnjúka nú í sumar. Þar segir hann m.a.: ,,Það stendur ekki til að fremja nein skemmdarverk á Kárahnjúkum. Þau hafa þegar verið unnin.”

Það er ágætt að vita það. Hins vegar verður fólk bara að fyrirgefa þótt ég eigi erfitt með að gleypa því að ekkert muni koma upp á við Kárahnjúka í sumar. Sporin hræða svo sannarlega og nægir þá bara að líta til þess atburðar sem varð á ráðstefnunni góðu og voru reifaðir hér að framan. Ég er þess fullviss að það verða einhver læti í sumar við Kárahnjúka og lögreglan hér eystra mun hafa nóg að gera við að hafa hemil á því fólki sem ætlar sér þangað upp eftir til þess að sýna borgaralega óhlýðni eða ,,borgaralegt hugrekki” eins og þeir sem það iðka kjósa að kalla það.

Það varð síðan ekki til þess að draga úr óróleika mínum þegar ég las áfram í viðtali blaðamanns Austurgluggans við Þórarinn. ,,Þórarinn segist eiga erfitt með að tjá sig um hugsanlegan fjölda mótmælenda í sumar en segir þó að áhugi erlendis frá sé talsverður. Mótmælin munu verða á svipuðum tíma og G-8 fundurinn í Skotlandi og reikna má því með að þaðan komi fólk.” Þetta er að vísu eitthvað sem legið hefur fyrir frá því fyrst fór að kvissast út um mótmælin. Það breytir því hins vegar ekki að það fólk sem mannar G-8 mótmæli víða um heim er langt frá því að vera friðarins fólk. Fréttamyndir sýna heilu borgirnar lagðar meira og minna í rúst vegna óeirða þeirra sem mótmæla undir formerkjum andstöðu við hnattvæðingu.

Er það virkilega svona fólk sem við viljum fá hingað til lands til þess að mótmæla fullkomlega löglegum framkvæmdum á hálendinu? Við megum nefninlega ekki gleyma því að þrátt fyrir allt eru framkvæmdirnar við Kárahnjúka fullkomlega löglegar og því gjörsamlega óþolandi og ólíðandi ef að örfáir einstaklingar ætla sér að hafa truflandi áhrif á þessar framkvæmdir með skemmdarverkum eða ólátum.

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk mótmæli. Það er þeirra réttur. Hins vegar verða öll slík mótmæli að vera með friðsömum hætti. Það er gjörsamlega óþolandi ef menn grípa til ofbeldisfullra aðgerða í mótmælum sínum. Slíkt er málstað þess síður en svo til framdráttar og skilar engum árangri.

Gunnar R. Jónsson
grj@visir.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband