Leita í fréttum mbl.is

Bush-blinda og galdrakarlar

Ólafur Hannibalsson skrifar oft greinar í miðopnu Fréttablaðsins. Ólafur er vel meinandi maður, en haldinn fjórða-stigs Bush-blindu. Bush-blinda lýsir sér í krónískum ásökunum um illt innræti og vafasaman ásetning bandarískra stjórnvalda. Þessi blinda er til í fimm stigum, og lýsir hæsta stigið sér þannig, að öll vandamál heimsins eru talin orsök Bush, vina hans (t.a.m. Blairs eða Davíðs), og ýmissa forvera Bush í forsetastól Bandaríkjanna. Bush er þó ætíð verstur allra, enda afar illa gefinn, lesblindur og siðblindur.

Þann 29. júní birti Fréttablaðið grein eftir Ólaf sem heitir „Vald og veruleiki“. Í grein þessari segir Ólafur um innrásina í Írak: „Átyllan reyndist engin; Saddam átti engin gereyðingarvopn. Allur undirbúningur styrjaldarinnar var byggður á lygum, fölskum veruleika sem var búinn til í Washington með því að hagræða skýrslum leyniþjónustanna og laga staðreyndir eftir hentugleikum.“ Undir lok greinarinnar segir hann svo: „Stjórnvöld kæra sig kollótt um hverju lesendur virtra fjölmiðla, eins og New York Times, trúa, það sem skiptir máli er hvað hægt er að fá hinn breiða fjölda til að trúa, hvaða blekkingum þarf að beita, hvaða lygar þarf að spinna upp til þess að skapa það andrúmsloft að hægt sé að hefja stríð.“

Í þessari grein er samsagt ákveðin samsærikenningin sett fram, hana er hægt að orða svona: „Bush, og pörupiltar hans í Hvíta húsinu, vildu fara í stríð í Írak. Til þess að fá stuðning almennings fengu þeir þá hugmynd að búa til sögu þess efnis að Saddam Hussein ætti gereyðingarvopn. Áróðursvél Bush-stjórnarinnar sá svo um að reyna að láta almenning halda að þessi saga væri sönn.“

Það sem ég skil ekki varðandi þessa meintu blekkingarvél, er hvernig Bush tókst að fá ýmsa stríðsandstæðinga eins og Jacques Chirac, Hillary Clinton og ýmsa demókrata sem ekki höfðu síðri aðstöðu en Bush til að vita hver sannleikurinn væri í málinu, t.a.m. eins og fyrrum utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Clintons, í lið með sér til að dreifa „lyginni“ til almennings.

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, sagði þann 16. október 2002: „Það sem er í húfi hér, er að svara þeirri ógn sem stafar af gereyðingarvopnum Íraka. Baghdad-stjórnin hefur notað slík vopn í fortíðinni, og við höfum sannanir sem benda til þess að Íraksstjórnin hafi verið að framleiða fleiri slík vopn undanfarin fjögur ár í fjarveru vopnaeftirlitsins.“

Hillary Clinton sagði þann 10 október 2002: „Á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan vopnaeftirlitið fór, hefur Saddam unnið að því að byrgja sig upp af efna-og sýklavopnum, koma sér upp eldflaugum og hefjast handa við kjarnorku áætlun. Hann hefur einnig aðstoðað og veitt hryðjuverkamönnum hæli, meðal annars Al-Qaeda mönnum, þó að ekkert bendi til þess að hann hafi verið viðriðin árásirnar 11. september. Þrátt fyrir það er ljóst að sé hann látinn óáreittur, mun Saddam auka getu sína til að heyja efna- og sýklavopnastríð, og mun halda áfram að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum.“

William Cohen, fyrrum varnarmálaráðherra Clintons, sagði eftirfarandi í apríl 2003: „Ég er algerlega fullviss um að það séu vopn... Ég sá sannanir fyrir því árið 1998 þegar vopnaeftirlitsmönnum var meinaður aðgangur að vöruhúsum, og þeir sáu stóra trukka ferja vopnin úr húsunum í þrjár klukkustundir áður en þeir fengu inngöngu.“

Ég gæti haldið endalaust áfram að vitna í ýmsa frammámenn um heim allan, fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum, og leyniþjónustustarfsmenn ýmissa landa og mikla stríðsandstæðinga sem sögðu að gereyðingarvopn væru í Írak. Já, Bush „samsærisvélin“ teygði anga sína víðar en ætla mætti. Hún var jafnvel byrjuð að útbreiða þessar „lygar“ áður en Bush komst til valda. Bill Clinton sagði árið 1998: „Samfélag þjóðanna gæti séð meira af þeirri ógn sem stafar af Írak: Rautt land sem á gereyðingarvopn, er tilbúið að nota þau, eða afhenda þau hryðjuverkamönnum. Ef að við bregðumst ekki við í dag, mun Saddam og allir þeir sem fylgja í fótspor hans verða enn sterkari og djarfari á morgun.“ Starfsmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna sagði árið 1998: „Enn þann dag í dag, eru Írakar langt frá því að hafa afvopnast, samkvæmt mjög trúverðugum upplýsingum sem við hjá UNSCOM (vopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna) höfum aflað. Írakar eiga enn sýklavopn, eins og miltisbrand, botulinum toxin og clostridium perfringens, í nægilega miklum mæli til að fylla marga tugi af sprengjum og eldflaugaoddum. Þeir hafa einnig getuna til að halda áfram að framleiða þessi vopn. Írakar eiga líklega nokkur tonn af VX taugagasi, sarin taugagasi, og sinnepsgasi, sem geymt er í sperngjum og eldflaugaoddum...“

Það er að er sjálfsögðu aðeins ein leið til að eiga við galdrakarl eins og Bush sem fær vini og óvini í fortíð og framtíð til að útbreiða „Búss-neskar“ villukenningar um írösk gereyðingarvopn. Safna saman sprekum og halda galdrabrennu.

Sindri Guðjónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband