Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2005

Skattar lækka; er ríkisreksturinn of góður?

Nú um áramót lækkar skattprósentan um 1% sem er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar. Skattalækkun sem þessi er að sjálfsögðu af hinu góða enda skattar gjarnan of háir á Íslandi. Samkvæmt loforði stjórnarflokkana á skattprósenta ríkisvaldsins eftir að lækka um 2% til viðbótar við þau 2% sem hann hefur nú þegar lækkað um þessi áramót.

Að sama skapi hefur bæði erfðafjárskattur og eignarskattur verið afnuminn og það er greinilegt að slíkt afnám skatta kemur öllum vel, ekki síst eldra fólki sem hefur eytt allri sinni ævi í að vinna hörðum höndum til að eignast t.a.m. húsin sín og aðrar eigur.

Reyndar hefur útsvar sveitafélaga hækkað á flestum stöðum og þannig búið að ,,stela” hluta skattalækkunnar ríkisstjórnarinnar. Í flestum sveitafélögum stendur ekki til að lækka útsvarið. Á því eru þó örfáar untantekningar eins og Seltjarnarnes þar sem reksturinn er til fyrirmyndar. Það bæjarfélag er á sama tíma að lækka útsvar og lækka skuldir íbúa þess.

Nú stendur til að greiða upp mest allar skuldir ríkissjóðs. Það er ekki nóg með að skuldirnar lækki heldur sparar ríkið sér gífurlega mikið fjármagn sem annars ætti að fara í vaxtagreiðslur á þeim lánum sem fyrir voru. Skattar eru að lækka og stefna núverandi stjórnvalda er að lækka þá enn meira. Best yrði auðvitað að ríkisstjórnin og Alþingi tækju sig til og minnkuðu útgjöld ríkissins þannig að hægt sé að lækka skatta enn meir. Ymiss gæluverkefni, misnotkun ríkisfjármangs, óreiða og skipulagsleysi einkennir oft ríkisútgjöldin og það eru skattgreiðendur sem borga reikninginn. En svona á heildina litið er rekstur ríkisvaldsins góður. Allavega það góður að skattarnir eru að lækka.

En þá kemst maður ekki hjá því að spyrja sig, er hann kannski of góður? Og hvað á ég við með því. Jú, segjum sem svo að eftir tvö ár komist vinstri stjórn til valda. Við skulum nú vona okkar allra vegna að svo verði ekki en það gæti gerst. (minnir svoldið á launaverndar auglýsingarnar - ,,ég meina það gæti gerst”)

Þá myndi sú ríkisstjórn byrja með gott tromp á hendi, lágir skattar og litlar sem engar skuldir. Það er alveg fullkomið form fyrir vinstri menn. Á meðan hægri stjórn væri vís með að lækka skatta enn frekar en þeir verða vorið 2007 og taka til í ríkisútgjöldum þá geri ég ráð fyrir að vinstri menn sjái sér leik á borði við að keyra skattana og skuldirnar upp komist þeir til valda. Já, það er hægt að hækka bæði, sjáum til dæmis rekstur Reykjavíkurborgar.

Auðvitað munu vinstri menn aldrei fara út í kosningabaráttuna vorið 2007 með það loforð að skattar og skuldir verði búnar að hækka þegar kosið verður aftur 2011 (þ.e.a.s. ef að hugsanleg vinstri stjórn sitji í fjögur ár sem er ekki líklegt frekar en áður hér á landi.) En eins og sagan kennir okkur virðist það vera almennt að vinstri menn kunna lítið að fara með almannafé. Aftur nefni ég Reykjavíkurborg sem dæmi. Þar hefur almannfé horfið hraðar en borgarstjórarnir sjálfir og borgarbúum öllum er sendur reikningurinn, eða öllu heldur börnum núverandi borgarbúa því ef fer sem fram horfir eru það þau sem koma til með að borga reikninginn. Já, gjaldfrjálsi leikskólinn dugir því skammt.

Það er því mjög líklegt að ef vinstri stjórn kemst hér á muni hagvöxtur stöðvast að einhverju marki og sú uppsveifla sem hefur verið hér síðasta áratuginn mun sveiflast eitthvert annað en upp. Þess vegna þurfa hægri menn að vera duglegir við að koma málefnum sínum fram, ekki síst í efnahagsmálum. Hér má ekki verða ríkisstjórn sem verður lauslát í fjármálum eins og R-listinn hefur verið. Hvorki við né börnin okkar höfum efni á því né eigum það skilið.

Að öðru leyti óska ég lesendum öllum gleðilegs árs og þakka þær góðu móttökur sem Íhald.is hefur fengið.

Gísli Freyr Valdórsson


Ingibjörg Sólrún er tónlaus lúður í íslenskum stjórnmálum

,,Ef við byggjum í réttarríki væri Davíð Oddsson kominn á bak við lás og slá”
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 1987

,,Davíð nýtur valdanna, það fer ekki á milli mála. Ég man eitt sinn er ég sá hann niðri í miðbæ Reykjavíkur á 17. júní. Það gekk hann um ljómandi eins og barn í eigin afmæli. Ég held að Davíð upplifi tímamót í sögu Reykjavíkur eins og þau væru hans eigin. Það er eins og hann geti ekki gleymt því eitt augnablik að hann er borgarstjóri.”
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um Davíð Oddsson 1989

Í vor urðu formannsskipti í flokknum. Eftir mjög harða kosningabaráttu sigraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svila sinn, Össur Skarphéðinsson. Hún hafði tilkynnt framboðið tveimur árum áður eftir að flokkurinn hafði ekki náð takmarki sínu í þingkosningunum árið 2003. Ingibjörg hafði nokkrum mánuðum fyrir kosningar stigið inn í landspólitíkina og var þá orðinn forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Reyndar fór það alveg framhjá Samfylkingarmönnum að forsætisráðherra er ekki kosinn í beinni kosningu en það virtist litlu máli skipta. Samfylkingin náði eins og áður sagði ekki takmarki sínu í kosningunum.

Þá var settur á stofn sérstakur framtíðarhópur ,, til að móta og útfæra nánar þá stefnu flokksins sem samþykkt var á stofnfundi í maí árið 2000." Lítið hefur þó komið frá framtíðarhópnum sem hægt er að telja sem innlegg í stjórnmálaumræðuna.

Nú, þegar flokkurinn mælist með minna fylgi en nokkru sinni fyrr þá er það allt í einu ekki vandamál formannsins heldur vandamál ,,forystunnar.” Já, forystan þarf að bæta sig og koma sér saman um málefni til að vinna eftir. Að sjálfsögðu hvílir engin ábyrgð á formanninum. Það er forystan gott fólk. Þetta er allavega það sem ISG lét hafa eftir sér þegar hún var ynnt álits á slæmu gengi flokksins.

Reyndar hafa þingmenn flokksins að vissu leyti tekið undir þetta. Þegar tvær þingkonur Samfylkingarinnar sátu fyrir svörum í Silfri Egils fyrir örfáum vikum um lítið fylgi flokksins í skoðanakönnunum voru þær sammála um að flokkurinn þyrfti að móta sér framtíðarstefnu og leggja hana almennilega á borðið. Þær bættu því svo við að flokkurinn hefði verið að vinna að ákveðnum málum og verið að ,,móta sig innan frá.”

Þetta er allt mjög skrautlegar yfirlýsingar bæði formanns og þingmanna flokksins. Flokkurinn er búinn að fara í gegnum tvennar þingkosningar einu sinni í gegnum sveitarstjórnarkosningar. Það var búin til fyrrnefndur framíðarhópur til að móta og útfæra stefnuna og ekki nóg með það heldur veitti núverandi formaður flokksins honum forystu. Og árangurinn: Enginn.

Og í stað þess að ,,móta stefnuna” hefur Ingibjörg nú tekið upp á því að bjóða hinum og þessum ,,feitum” embættum í ríkisstjórn sem er ekki einu sinni til. Jónarnir tveir eru allt í einu orðnir helsta von formannsisn um vinsældir. Rétt er þó að taka fram að þetta var einhliða ákvörðun Ingibjargar en ekki þeirra fjölmörgu þingmanna sem hugsanlega hefðu áhuga á að taka ráðherrasæti í ríkisstjórn (verði hún nokkurn tímann til).

Nei, sannleikurinn er sá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er tónlaus lúður í pólitík. Hún talar þegar hún heldur að það komi sér vel. Yfirlýsingar eins og þær að frjálshyggja sé á undanhaldi, Ísland eigi að taka upp Evruna og að hækka beri fjármagnstekjuskatt eru aðeins laglausir tónar sem eiga að krydda á stjórnmálaumræðuna. Á meðan Ingibjörg talar um að frjálshyggjan sé á undan haldi er hver þjóðin á fætur annari að kjósa sér hægri stjórnir og allflestir sjá að vinstrimenn kunna lítið að fara með opinbert fé og málefni. Besta dæmi hérlendis er R-listinn.

Borgarstórnarferill Ingibjargar er til skammar (þó að hún skammist sín eflaust ekki) og pólitík hennar hefur í næstum tuttugu ár snúist um hatur á Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum en ekki eigin pólitískum hugsjónum. Nú þegar Davíð Oddsson er horfinn að sjónarsviði stjórnmálanna og Ingibjörgu hefur og mun aldrei takast að vinna hann í nokkrum kosningum þarf hún að finna sig í pólitík upp á nýtt. Ingibjörg virðist enga fasta stefnu hafa í nokkru máli og er fylgi flokksins eftir því.

Ef Ingibjörg kemst til valda vill hún ráða sem mestu sjálf. Þeir sem þekkja til starfa hennar í Reykjavíkurborg vita að hún starfar eftir eigin hug en talar út á við um ,,umræðustjórnmál” og ,,virkt lýðræði” sem er ekkert annað en innantómt blaður. Hún mun reyna að hefja samningaviðræður við ESB, hækka skatta og skuldir og skilja reikninginn eftir handa börnum okkar. Hún mun setja sína vini og kunningja í helstu stöður og jafnvel búa til nýjar ef þess þarf. Hún hefur gert þetta allt áður.

Nú af hverju er íhaldsmaðurinn að velta sér svona mikið upp úr Ingibjörgu og Samfylkingunni? Jú, ástæðan er einföld. Samfylkingin er upphaflega búin til til að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og veita honum aðhald og samkeppni. Á milli vinstri og hægri afla landsins eiga að vera átök og umræður um ólíkar skoðanir og málefni. Þau eiga hins vegar að vera málefnaleg og fara fram með heildarhag þjóðarinnar í huga. Ekki að byggjast upp af persónulegu hatri eins stjórnmálamanns á öðrum. Ef að Samfylkingin hefði skýra stefnu þá væri það verðugt verkefni að takast á við flokkinn á sönnum vettvangi stjórnmálanna. Það er ekki hægt í dag. Samfylkingin veit ekki einu sinni sjálf hvar hún vill staðsetja sig í stjórnmálum, hvernig eigum við þá að rökræða við þá á málefnalegum vettvangi?

Gísli Freyr Valdórsson




Ritstjórnarviðhorf - Góð grein á Vef-þjóðviljanum

Reyndar eru flestar greinar á Vef-þjóðviljanum mjög góðar.
Ég mæli þó sérstaklega með að fólk lesi grein vefritsins frá jóladag.
Greinina má nálgast hér.

Gísli Freyr


Mánudagspósturinn 26. desember 2005

Einhverjir kunna að hafa haldið (eða kosið að halda) að óeirðirnar í úthverfum franskra borga, sem stóðu hvað hæst í síðasta mánuði, hafi verið eitthvað sem bundið væri við Frakkland. Það er þó langt frá því að vera svo. Það eru til hverfi í flestum borgum í Vestur-Evrópu sem fólk veigrar sér við að fara inn í, þá ekki sízt vegna ofbeldis. T.a.m. í Stokkhólmi. Það fékk mikla athygli byrjun síðasta mánuðar þegar Nalin Pekgul, formaður Kvennasamtaka sænska Jafnaðarmannaflokksins, lýsti því yfir í viðtali við sænska ríkisútvarpið að hún og fjölskylda hennar hefðu ákveðið að flytja úr úthverfinu Tensta í Stokkhólmi.

Pekgul hafði búið í Tensta í 25 ár eða allt frá því hún kom fyrst til Svíþjóðar árið 1980 sem flóttamaður frá Kúrdistan 13 ára gömul. Hún er velþekktur stjórnmálamaður í Svíþjóð og var t.a.m. þingmaður á sænska þinginu fyrir jafnaðarmenn 1994-2002. Ástæða þess að Pekgul og fjölskylda hennar – eiginmaður og tvö börn – ákváðu að flytja frá Tensta er sú að trúaröfgar og ofbeldi hafa færst í aukana í hverfinu sem er að mestu leyti byggt innflytjendum. Hún sagði ennfremur í samtali við sænska ríkisútvarpið að hún teldi fjölskyldu sína ekki örugga lengur í hverfinu.

Hér fer á eftir þýðing á frétt sænska ríkisútvarpsins um viðtalið við Pekgul:

„Nalin Pekgul, þekktur jafnaðarmaður og talsmaður úthverfa sem að miklu leyti eru byggð innflytjendum, er að yfirgefa sitt eigið úthverfi Tensta vegna þess að hún telur að það sé orðið of óöruggt. „Tensta hefur orðið of hættulegt fyrir börnin,“ segir hún. ... Hún segir í samtali við P1 Studio Ett að ástæða þess að hún vilji flytja sé vaxandi ofbeldi og bókstafstrú í Tensta. Kornið sem fyllti mælinn var atvik sem átti sér stað í tengslum við markaðstorgið í Tensta sl. haust þar sem maður var særður skotsárum stutt frá heimili fjölskyldunnar. „Ég var á leið heim með syni mínum. Það var blóð úti um allt. Það er ekkert gamanefni fyrir átta ára gamalt barn að þurfa horfa upp á slíkt,“ segir Nalin Pekgul. Talið er að maðurinn hafi lifað af vegna þess að hann var í skotheldu vesti. Það veldur Nalin Pekgul einnig áhyggjum. „Ég gerði mér grein fyrir því þá að margir klæðast skotheldum vestum hér. Hvað hefur gerst hér hugsaði ég. Er þetta Tensta? Ég hlýt að hafa misst af því sem var að gerast hér á undanförnum árum.“

Nalin Pekgul segir að hún forðist að koma heim seint að kvöldi núorðið. „Einhver verður alltaf að koma til móts við mig á neðanjarðarlestarstöðinni ef ég kem seint heim,“ segir hún. ... Nalin Pekgul, sem er múslimi sjálf, hefur einnig tekið eftir því að íslömsk bókstafstrú hefur vaxið fiskur um hrygg í Tensta. Börnin hennar koma heim og furða sig á því að hún skuli ekki klæðast hijab og að fjölskyldan skuli ekki fara í mosku. Þau hafa einnig heyrt að múslimar séu betri en kristnir. „Mér líkar það ekki þegar sonur minn kemur heim og segir: „Mamma, við múslimar ljúgum ekki, en það gera kristnir því þeir eru guðlausir.“ Hann hefur þetta ekki frá okkur. Við gerðum ekki ráð fyrir þessum trúaröfgum,“ segir hún. Nalin Pekgul og fjölskylda hennar eru nú að leita að húsnæði í meira blönduðu hverfi af bæði innflytjendum og innfæddum Svíum.“

Hjörtur J. Guðmundsson
Hjorturg(a)hi.is


Gleðileg Jól

Ritstjórn Íhald.is óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.
Hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.

Jólakveðjur,
Ritstjórn Íhald.is


Þarf sérstök lög um fjölmiðla?

Um fjölmiðla eiga aðeins að gilda sömu lög og sett eru á önnur fyrirtæki. Fjölmiðlar þurfa að lifa við framboð og eftirspurn eins og allar aðrar neysluvörur. Alveg eins og eigendum Myllunnar er heimilt að ákveða sjálfir hvernig brauð þeir framleiða er eigendum fjölmiðla heimilt að ákvarða rekstur og ritstjórnarstefnu sína. Myllan þarf hins vegar að gera grein fyrir því hvað vörur þeirra innihalda og gefa upp grundvallar-upplýsingar um vöru og starfssemi sína. Það sama þarf að gilda um fjölmiðla. Hafa skal í huga að umræðan um ritstjórnarstefnu fjölmiðla annars vegar og eignarhalds á fjölmiðlum hins vegar er ekki sami málaflokkurinn.

En hver veittir fjölmiðlum aðhald? Svarið liggur auðvitað í því að það eru neytendurnir sjálfir sem veita þeim aðhald eins og öllum öðrum fyrirtækjum. Ef einstaklingur er óánægður með Húsasmiðjuna verslar hann í Byko, ef hann er óánægður með Krónuna verslar hann í Bónus og svo framvegis. En þá vaknar spurningin, en ef það er ekkert val?

Ef svo bæri til að einn aðili næði hér eignarhaldi á öllum fjölmiðlum er auðvitað komin upp staða sem væri óbærileg til skamms tíma litið. Hér skal viðukennt að það eru jú fjölmiðlar sem stjórna meira og minna umræðunni í landinu þó að ekki sé dregið úr afstöðu minni til þess að þeir séu ekki fjórða valdið. En það væru ekki eðlilegar aðstæður á þjóðmálaumræðunni ef henni væri stjórnað af einum manni eða einu fyrirtæki. Slíkar aðstæður hafa komið upp fyrir utan fjölmiðlamarkaðinn. Icelandair var um tíma eina flugfélagið sem hélt uppi áætlunarflugi til og frá Íslandi. Ekki voru sett sér lög um flugsamgöngur til og frá landinu vegna þessa. Hins vegar leysti markaðurinn úr þessu sjálfur þegar komið var á fót flugfélagi í samkeppni við Icelandair. Það sama gildir um fjölmiðla. Þess vegna ber stjórnvöldum að tryggja það að hér sé svigrúm til frjálsrar samkeppni. Það gera þau með því að setja samkeppnislög og hafa sem mest frelsi fyrir menn til að athafna sig.

Ef hér á landi væri aðeins starfandi ein matvöruverslun þá er það markaðarins að skera úr um hvort þörf sé á fleirum eða ekki. Ef starfræktar eru tvær verslanir en aðeins eftirspurn eftir einni er það neytenda að skera úr um hvor það er sem starfar áfram. Ekki er hægt að koma í veg fyrir (nema með sérstakri lagasetningu) að einn aðili eignist meirihluta fjölmiðla en hafa skal í huga að magn fjölmiðla takmarkast ekki við þá sem nú koma út. Ef einhver er ósáttur við að einn aðili eignist alla þá fjölmiðla sem nú koma út ætti sá hinn sami að stofna fjölmiðil og auka þannig framboð á fjölmiðlum. Um þessar mundir koma til að mynda út fjögur dagblöð. Ef einhver hefur hug á að bæta því fimmta við munu neytendur sjálfir skera úr um hvort að þörf sé á fimm dagblöðum. Nú, ef ekki þá þarf væntanlega eitt eða fleiri dagblað að víkja af markaðnum. Þá er það einnig neytenda að skera úr um hvaða blað það verður. Þetta er aðeins gróft dæmi um frjálsa samkeppni.

Starfsheiður fjölmiðlamanna
Það ætti að vera kappsmál hvers fjölmiðlamanns að vera góður í starfi sínu. Hver fjölmiðlamaðurinn á fætur öðrum á Íslandi hefur sagt ef eigendur fjölmiðilsins sem hann starfaði fyrir myndi skipta sér af fréttaflutningi að þá myndi hann/hún ganga út. Þetta hjómar allt saman mjög vel ef satt reynist en hins vegar hefur annað komið á daginn. Nú er ekki óeðlilegt þó að eigendur móti ritstjórnarstefnu síns fjölmiðils. Hins vegar væri það óásættanleg vinnuaðstaða fyrir fréttamenn ef eigendur skiptu sér í sífellu af einstaka fréttum þeirra. Þeir blaða- og fréttamenn sem starfa á íslenskum fjölmiðlum vita það einir hvort að svo sé eða ekki. En það ætti að vera metnaður hvers fjölmiðlamanns að vanda verk sín og vinna þau af kostgæfni, heiðarleika og sanngirni. Það gerir hann sjálfan og fjölmiðilinn sem hann vinnur á traustverðan og eykur virðingu hans. Enginn fjölmiðlamaður vill vera þekktur fyrir að hlýða yfirskipun eigenda fjölmiðilsins. Hins vegar er það alveg ljóst að blaðamenn flytja ekki neyðarlegar fréttir af eigendum sínum. Þeir verða því sjálfir að meta hvernig þeir vernda starfsheiður sinn.

Ólafur Teitur Guðnason skrifar vikulega pistla í Viðskiptablaðið þar sem hann gagnrýnir ýmsa starfshætti fjölmiðla og veitir þeim þar vissulegt aðhald. Hann er vel að því kominn þar sem hann er sjálfur reyndur blaðamaður og þekkir því til verka. Það er hins vegar athyglisvert að flestir þeir sem orðið hafa fyrir gagnrýni af hans hálfu hafa tekið því illa og gefið í skyn að þar sé vegið að starfsheiðri þeirra. Fæstir hafa þó geta hrakið gagnrýnina. Það er nauðsynlegt fyrir fjölmiðlamenn að fá gagnrýni innan frá eins og pistlar Ólafs Teits eru dæmi um.

En fyrst og fremst eru það neytendur sem veita fjölmiðlunum aðhald. Fjölmiðar hafa aðeins þá ábyrgð að gera sig trúverðuga í augum neytenda og það gera þeir væntanlega með heiðarleika, hreinskilni og vandvirkni. Ef vandamál koma upp á fjölmiðlamarkaði mun markaðurinn sjálfur sjá um að refsa þeim sem gerast brotlegir og verðlauna þá sem vinna samkvæmt lögum og reglum.

Gísli Freyr Valdórsson


Osama Hussein og Saddam Bin Laden - Annar hluti

Ég byrjaði á því að telja upp staðreyndir sem tengja stórn Saddams Hussein við al Qaeda síðastliðinn miðvikudag. Ég held hér áfram og byggi enn á bókinni Disinformation eftir Richard Miniter. Hver staðreyndin um sig sannar svo sem ekki endilega mikið, en þegar þeim er safnað saman, er óumdeilanlegt að tengsl al Qaeda og Íraka undir stjórn Saddams Husseins eru miklu meiri en “vel upplýstir” Evrópubúar þykjast vita. Því var einmitt nýlega haldið fram í Speglinum að alls engin tengsl hefðu verið milli þessara aðila. Því var svo bætt við að bandarískur almenningur hafi samt sem áður talið svo vera, og líklega væri um að kenna blekkingum bandarískra stjórnvalda... Speglinum skjátlast. Áfram með smjörið:

- Haustið 1998 lofuðu írösk stjórnvöld að aðstoða al Qaeda við þróun vopna. Íraski herforinginn Farouk al hijazi sagði í Mai 2003, að bin Laden hefði tekið Íraka á orðinu, og hefði beðið Íraka um sprengjur framleiddar í Kína (Kínverjar voru alltaf mjög duglegir við að selja Saddam Hussein vopn), og einnig beðið um frekari aðstöðu til æfinga.

- Abdul Rahman Yasin, al Qaeda maður sem gangsetti sprengjuna í árásinni á Tvíburaturnanna árið 1993, flúði til Írak. Í Tigrit, heimabæ Saddams Hussein, fundust gögn sem sanna að hann fékk bæði hús og mánaðarleg laun frá írösku stjórninni, eins og menn grunuð á tímum Clintons.

- ABC fréttastöðin flutti frétt um þetta árið 1994.

- Árásirnar 11. september voru að miklu leyti skipulagðar í Þýskalandi. Sex mánuðum áður en þær voru framkvæmdar handtók Þýska lögreglan starfsmenn írösku leyniþjónustunnar, sem grunaðir voru um njósnir. Arabískt blað, gefið út í París (al-Watan al-Arabi) flutti fréttir af þessu, og sögðu hantökuna tengjast áformum Íraka um að ráðast að bandaríska hagsmuni um víða veröld, í samstarfi við herskáa íslamska bókstafstrúarhópa, og var al Qaeda og bin Laden sérstaklega getið.

- Abbas al-Janabi sem lengi var sérstakur aðstoðarmaður Uday, sonar Saddams Hussein, flúði til Vesturlanda árið 1998, og sagði fréttamönnum aftur og aftur að bein og sterk tengsl væru milli Íraka og al Qaeda.

- Margir þeir sem segja að Írakar og al Qaeda menn hafi alls ekki tengst neinum böndum vitna í Zubaydah, mikilvægan al Qaeda mann, sem sagði það ólíklegt að bin Laden myndaði formlegt bandalag með Íraköum, því að það gæti haft í för með sér framsal á sjálfstæði al Qaeda. En þessi sami maður, Zubaydah, sagði einnig að æðstu menn al Qaeda, svo sem eins og Abu Musab al-Zarqawi, hefðu góð tengsl og gott samband við leyniþjónustu Íraka.

- Eftir að Talibanar höfðu verið hraktir frá völdum í Afganistan, hópuðust al Qaeda menn þaðan til Bagdad, og mynduðu þar starfstöð.

- Skjöl sem fundust í Írak sýna að al Qaeda foringinn Abu Musab al-Zarqawi lagðist inn á sjúkrahús Uday (sonar Saddams) eftir að hafa særst í bardögum við Bandaríkjamen í Afganistan.

- Eftir aðgerð dvaldist al-Zarqawi í þjálfunarbúðum í norður-Írak. Í oktober 2002, uþb ári áður en Bandamenn gerðu innrásina í Írak, var Lawerence Foley, bandarískur embættismaður, drepinn í Amman í Jórdaníu. Morðinginn sagðist hafa fengið fyrirskipanir og stuðning frá hóði al-Zarqawi í Írak.

- Írakar neituðu tvisvar að framselja al-Zarqawi.

- Bin Laden sendi Abu Abdullah al-Iraqi nokkrum sinnum til Írak á árunum 1997-2000 til að ná í eitraðar gastegundir. Samkvæmt Abu Abdullah al-Iraqi sjálfum, var samvinna hans við Íraka “árangursrík.”

- Í mai 2000 handóku Kúrdneskir andstæðingar Saddams Hussein, Mohamed Mansour Shahab, sem ráðinn hafði verið af Íraksstjórn til að flytja vopn til bin Laden í Afganistan.

- Hisham al-Hussein, sendiherra íraka í Filipseyjum var vísað úr landi fimm vikum áður en innrásin í Írak hófst, fyrir þær sakir að hafa rætt ítrekað í gsm síma við leiðtoga hryðjuverkahópa í samstarfi við al Qaeda, m.a. við leiðtoga Abu Sayyaf skömmu áður og eftir að samtökin höfðu spregnt naglasprengju í borginni Zamboanga sem varð 23 að bana.

Þetta er ágætt í bili... Ef skðaður er fyrstai og annan hluta þessa greinaflokks er hægt að sjá að samkvæmt býsna mörgum ólíkum heimildum áttu al Qaeda menn og Írakar í samstarfi, hvað svo sem spegillinn tautar og raular. Þriðji hluti verður birtur við fyrsta tækifæri.

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 19. desember 2005

Forystuekla Samfylkingarinnar virðist engan endi ætla að taka. Á sínum tíma var mikið rætt um það innan flokksins að annað hvort þyrfti að fá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem þá var enn borgarstjóri Reykjavíkur, eða Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi sendiherra, til að taka við forystu hans. Svo fór að lokum, eins og kunnugt er, að Ingibjörg var kosin formaður flokksins sl. vor og síðan hefur fylgi flokksins bókstaflega hrunið ef marka má skoðanakannanir.

Fyrir vikið hafa þær raddir nú færst í aukana sem vilja að Jón Baldvin komi að forystu Samfylkingarinnar með einum eða öðrum hætti. M.ö.o. reyndist það ekki nóg að Ingibjörg Sólrún tæki við forystu flokksins eins og ófáir töldu. Hún hefur a.m.k. enn sem komið er ekki reynst sá sterki foringi sem stuðningsmenn hennar vildu meina að hún yrði. Raunar þvert á móti ef eitthvað er sem aftur hlýtur að valda því annars ágæta fólki talsverðu hugarangri.

Að öðru leyti er ekki hægt að túlka vangavelturnar um komu Jóns Baldvins að forystu Samfylkingarinnar öðruvísi en ákveðinn áfellisdóm yfir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún hafi einfaldlega ekki staðið undir þeim væntaningum sem gerðar voru til hennar. Að öðrum kosti væri auðvitað engin þörf á því að velta fyrir sér komu Jóns Baldvins að forystumálum flokksins.

---

Birti að öðru leyti hér grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu þann 14. desember sl. sem svar við gagnrýni á grein sem ég hafði áður skrifað í blaðið um fylgishrun Samfylkingarinnar.

Samfylkingarmenn í sárum

Hjálmtýr Heiðdal, kvikmyndagerðarmaður, ritaði grein í Morgunblaðið á dögunum og kvartaði sáran yfir því að ég og einhverjir fleiri hefðum að undanförnu tjáð okkur í blaðinu um fylgishrun Samfylkingarinnar sem átt hefur sér stað allt frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður flokksins sl. vor. Orðrétt segir hann um mína aðkomu að því máli: „Ungur maður að nafni Hjörtur J. Guðmundsson (einn af ritstjórum vefritsins íhald.is) gerir mikla atlögu sem eingöngu byggist á niðurstöðum skoðanakannana (Mbl. 6. des.). Allur málatilbúnaður hans hrynur ef næsta skoðanakönnun sýnir vaxandi gengi Samfylkingarinnar - Hjörtur er ekki málefnalegri en svo.“

Það er nefnilega það. Fyrst ber nú að geta þess að ég sagði aldrei neitt um það í greininni minni hvað framtíðin kynni að bera í skauti sínu í þessum efnum þó Hjálmtýr geri að því skóna, enda er ég eðli málsins samkvæmt ekki frekar en aðrir í aðstöðu til að segja neitt til um það. Eins og þeir vita sem lásu greinina var ég einungis að tala um það hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefði þróast frá því Ingibjörg var kjörin formaður flokksins sem er ekki beint eitthvað til að hrópa húrra fyrir! Það er annars furðulegt að á sama tíma og Hjálmtýr sakar mig um að vera ómálefnalegur skuli hann gera mér upp skoðanir með þessum hætti.

Í annan stað er merkilegt að Hjálmtýr (sem ég býst við að sé Samfylkingarmaður) reyni að gera lítið úr því að ég skuli hafa byggt mál mitt „eingöngu“ á skoðanakönnunum. Samfylkingin er nú fræg fyrir það að hafa í gegnum tíðina byggt heilu stefnurnar á að því er virðist litlu öðru en skoðanakönnunum. Yfirleitt hefur ekki þurft mikið meira en eina slíka könnun til þess. Sennilega er nóg að nefna Evrópumálin í því sambandi. Greinin mín var hins vegar byggð á heilum átta skoðanakönnunum, sex frá Gallup og tveimur frá Fréttablaðinu, sem allar bar að sama brunni. Fylgi Samfylkingarinnar hefur bókstaflega hrunið sl. sex mánuði!

Ég geri annars ráð fyrir því að næst þegar Samfylkingin vekur máls á einhverju á grundvelli skoðanakannana, ég tala nú ekki um ef aðeins verður um að ræða eina slíka, að þá muni Hjálmtýr skrifa grein í Morgunblaðið og kvarta yfir því hversu ómálefnaleg forysta flokksins er. Svona ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur. Greinin mín fjallaði um það hvernig fylgi Samfylkingarinnar hefði þróast sl. sex mánuði og eðlilega byggði ég því mál mitt á skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í því sambandi. Ef Hjálmtýr veit um einhverja betri aðferð til að mæla fylgi stjórnmálaflokka á milli kosninga en slíkar kannanir þá gæti ég trúað að forsvarsmenn Gallup og hliðstæðra aðila yrðu áhugasamir að heyra meira um þá uppgötvun.

En að öllu gamni slepptu þá er staðreyndin einfaldlega sú að þetta er ekkert annað en væl í Hjálmtý með fullri virðingu fyrir honum og hans skoðunum. Það er hins vegar meira en skiljanlegt að stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar séu í einhverri tilvistarkreppu þessa dagana. Ekki lái ég þeim það. Hjálmtýr kvartar sáran yfir því m.a. að skuldinni af minnkandi fylgi Samfylkingarinnar sé skellt á Ingibjörgu. Er hún ekki formaður flokksins? Var ekki Össuri alltaf kennt um allt sem aflaga fór í þessum efnum þegar hann var formaður? Og ef þessa þróun má ekki rekja að miklu leyti til Ingibjargar, hvers þá?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Ályktun Veritas um viðskipti með landbúnaðarvörur

Veritas lýsir yfir ánægju sinni með þá yfirlýsingu Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Hong Kong að Ísland sé tilbúið að draga verulega úr framleiðslutengdum stuðningi við innlendan landbúnað og lækka tolla að því tilskyldu að önnur ríki geri slíkt hið sama. Veritas vill þó hvetja íslensk stjórnvöld eindregið til að ganga skrefi lengra og setja öðrum ríkjum heimsins gott fordæmi með því að hefja sem allra fyrst vinnu við að draga úr þeim viðskiptahöftum sem við líði eru á Íslandi þegar kemur að verslun með landbúnaðarvörur óháð því hvað önnur ríki kunna að gera.

Veritas
www.veritas-iceland.com


Ráðuneytisstjórar fari og komi með ráðherrum

Það er ráð að skoða sífellt helstu hlutverk stjórnmálamanna og annara embættismanna er snýr að deglegri stjórn hins opinbera. Allt frá árinu 1991 hefur verið unnið staðfastlega að því að bæta rekstur ríkisins og gera hann skilvirkari. Það hefur tekist vel þó að enn sé langt í land. En miðstýringu stjórnmálamanna af daglegu lífi borgarans hefur verið aflétt að miklum hluta. Mörg stór ríkisfyrirtæki hafa verið seld, má þar helst nefna ríkisbankana tvo og nú nýlega Landssímann. Þar með hefur ríkið dregið verulega úr áhrifum sínum á fjármálamarkaði og hætt afskiptum af rekstri á fjarskiptamarkaði.

Flest verkefni á vegum ríkisins eru boðin út og þar er farið eftir fyrirfram ákveðnum lögum sem fylgst er með að farið sé eftir. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn ákveði sjálfir hverjir fái hvaða verkefni og svo frv.

En þó er eitt sem ég vil einnig sjá. Í dag er málum þannig háttað að ráðuneytisstjórar eru ráðnir til fimm ára í senn en það eru ráðherrarnir sjálfir sem þá skipa. Þannig getur ráðherra og ráðuneytisstjóri komið frá sitthvorum væng stjórnmálanna. Samkvæmt öllum lögum og reglum á þetta ekki að skipta máli þar sem ráðuneytisstjóranum ber að fara eftir skipunum ráðherrans enda er hann í vinnu fyrir hann. Honum ber að vinna af óhlutdrægni og hlutleysi. Hins vegar kennir raunveruleikinn okkur að þannig eru hlutirnir ekki alltaf. Ég tel að meiri árangur geti náðst í stefnumörkun hins opinbera ef að ráðuneytisstjórarnir fylgja ráðherrunum inn og út úr ráðuneytunum. Eini starfsmaðurinn sem það gerir í dag er aðstoðmaður ráðherra en hann sér um persónulega þjónustu við ráðherrann á meðan ráðuneytisstjórinn sér um daglegan rekstur ráðuneytisins og að koma stefnumálum ráðherrans og ríkisstjórnarinnar á framfæri. Þegar skipt er um forseta í Bandaríkjunum er jafnframt skipt um meirihluta starfsmanna í Hvíta Húsinu. Það sama gildir um önnur ráðuneyti þar í landi. Þannig getur forsetinn og aðrir ráðherrar komið málum sínum í gegn með aðstoð og ráðgjöf starfsfólks síns. Starfsmannastjóri Hvíta Hússins (sem er nokkurs konar ráðuneytisstjóri) sér um dagleg málefni ráðuneytissins fyrir hönd forsetans. Á Íslandi gætu ráðherrar auðveldað störf sín til muna með því að fá að ráða sjálfir ráðuneytisstjóra á meðan þeir gegna embætti.

Næstu verkefni
Næstu verkefni núverandi ríkisstjórnar er væntanlega að halda áfram einkavæðingu ríkissfyrirtækja og halda ríkisrekstrinum í góðu horfi. Varðandi starfsmannamál hins opinbera er mikilvægt að halda uppi gæða og árangursstjórnun. Opinberir starfsmenn þurfa að hafa sama vinnurétt og aðrir, hvorki meiri né minni. Það á að vera hægt að segja upp opinberum starfsmanni sannist að hann sé ekki að standa sig í starfi og/eða fari ekki eftir tilmælum yfirmanna sinna. Ráðherrar þurfa að hafa leyfi til að rifta ráðningasamningum forstöðumanna ríkisstofnana ef þeir eru ekki að standa sig. Það er ekki heilbrigt og ekki í takt við nýskipun í ríkisrekstri að forstöðumenn geti skilað stofnun sinni í halla ár eftir ár og samt haldið stöðu sinni. Það fengi enginn skipstjóri að sigla sama bátnum mörg ár ef hann veiðir ekki. Sama gildir um forstjóra og deildarstjóra almennra fyrirtækja í einkaeigu. Ef þeir standa sig ekki í starfi er skipt um ,,karlinn í brúnni.” Hið opinbera ætti ekki að vera undanskilið þessu.

Þá vakna væntanlega upp spurningar hvort að stjórnmálamenn geti beitt fólskubrögðum við að segja upp pólitískjum andstæðingum sínum. Svarið við því er einfalt. Ekki ef skipuritið er nógu skýrt og stjórnmálamenn fá ekki að ráða í störfin. Ráðherrann ætti ekki að geta rekið eða ráðið kerfisstjórann í ráðuneytinu. Það er væntanlega einhver deildarstjóri sem sér um það en ekki stjórnmálmaður. Að sama skapi hef ég áður tekið fram að það þarf að sýna fram á ástæðu ef segja á fólki upp.

Þá er það stóra spurningin. Eru embættismenn, já eða stjórnmálamenn, lýðræðinu hættulegir. Ég tel svo ekki vera. Svo lengi sem kerfið er opið og menn fara eftir stjórnsýslu og upplýsingalögum [1] munu embættismenn og stjórnmálamenn vega upp á móti hvor öðrum samfélaginu til góðs. Það gilda skýr lög um starfssemi embættismanna og eftir þeim ber að fara. Kosturinn við lýðræðið er jú auðvitað sá að við getum ,,losnað við ríkisstjórnina án þess að þurfa að skjóta hana.” [2]

Gísli Freyr Valdórsson

Grein þessi er unnin upp úr ritgerð sem fjallar um hvort að stjórnmálamenn og embættismenn séu hættulegir lýðræðinu. Ritgerðin mun birtast í heild sinni á www.veritas-iceland.com.


[1] Bæði stjórnsýslulögin og upplýsingalögin voru sett á í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Markmið þeirra var að gera kerfið gegnsærra og opnara.

[2] Hannes H. Gissurarson, Hvar á maðurinn heima? bls. 135


Næsta síða »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband