Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2005

Alfreð viðurkennir misferli sitt

Þegar ég var lítill gerði ég dáldið sem ég átti ekki að gera. Móðir mín var búin að banna mér að fara yfir ákveðan götu í bænum (sem er s.s. alveg eðlilegt að foreldrar geri) og ætlaðist til þess að ég hlýddi því. Einn daginn ákvað vinur minn að fara yfir götuna ,,ægilegu” og ég gat að sjálfsögðu ekki verið minni maður og elti hann.

En á einhvern óskiljanlegan hátt komast foreldar alltaf að öllu og þegar hetjan ég kom heim mættu mér reiðir foreldrar. Ég var spurður af hverju ég hefði farið þangað sem ég fór þegar búið var að banna mér það. Í staðinn fyrir að neita fyrir allt saman og láta eins og ég hefði verið í næsta nágrenni allan tímann sagði ég þeim að vinur minn (sem ég man ekki hvað heitir af því að hann talaði aldrei við mig aftur) hefði nú farið þarna fyrst.

Þetta þóttu mér sjálfsögð viðbrögð og get réttlætt þau með góðum rökum – ég var sjö ára.

Í byrjun júní færðu Ungir Sjálfstæðismenn Alfreð Þorsteinssyni, formanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, Monopoly spilið að gjöf. Eins og fram kemur í tilkynningu SUS var þetta gert til að ,,mótmæla taumlausri eyðslu Alfreðs á kostnað borgarbúa.”

Fram kemur í tilkynningu SUS að vonandi láta Alfreð sér nægja að kaupa eignir fyrir þá spilapeninga sem eru í spilinu en hætti á sama tima að leika sér með skattfé borgarbúa. En eins og margoft hefur komið fram og allir sjá nema Alfreð sjálfur hefur hann hingað til farið frjálslega með það fé sem tilheyrir borgarbúum.

Alfreð hins vegar vill ekki eins og áður sagði kannast við neitt af þessu og sendi spilið til baka með þeirri kveðju að Davíð Oddsson hefði nú á sínum tíma byggt Perluna og hefði þar með ,,bruðlað” meira með fjármuni borgarinnar. Það er nú bara það.

Til hamingju Alfreð Þorsteinsson – Þú ert búinn að vinna argjúmentið um það hver bruðlar mest með peninga! Já, það vantar ekki að hann Alfreð sé málefnalegur. Svona álíka málefnalegur og ég var þegar ég var sjö ára.

En bíðum nú við. Við skulum hafa eitt í huga. Davíð Oddsson var borgarstjóri Reykvíkinga í 9 ár og á því tímabili var Perlan byggð. Hún var s.s. byggð í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Alfreð Þorsteinsson er EKKI borgarstjóri Reykjavíkur. Hann getur því ekki sett sig á háan hest með því að bera sig saman við fyrrverandi borgarstjóra. Hvaða skoðun sem menn hafa á Perlunni eða fleiru sem framkvæmt var í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar, þá réttlætir ekkert það brask og bruðl sem á sér stað í Orkuveitunni undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar. Það er ekki hlutverk OR að standa í fjarskipaviðskiptum, rækjueldi, sumarbústaðabyggð og fleiru. Þetta er verkefni sem einkaaðilar eiga að taka sér fyrir hendur og ef svo vill til að hið opinbera ákveður að

Nú má vel vera að Alfreð líti á sig sem borgarstóra. Hver veit nema Alfreð sé valdamesti leikmaðurinn í samstarfi R-listans. Ekki veit ég það og ekki vita borgarbúar hver stjórnar á bakvið tjöldin í valdasamstarfi R-listans. Enda er það ekkert skrítið þar sem þeir vita það stundum ekki sjálfir. Það hlýtur að vera erfitt að eiga samstarf við flokka sem hafa enga hugsjón nema þá að sjálfstæðismenn komist ekki til valda í borginni.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir bendir réttilega á það í grein að flokkarnir sem standa að R-listanum eru ,,málefnafátækir og stefnulausir.” Það er út af því sem að allir geta leikið sér í sínu horni og þeir einu sem þurfa að gjalda eru borgarbúar með skattpeningum sínum.

Virðing Alfreðs og félaga (ef félaga skyldi kalla) í R-listanum fyrir fjármagni borgarbúa er nákvæmlega engin. Borgarbúar eiga betra skilið og það eru komið að borgarbúum að sigra næstu kosningar.

Gísli Freyr Valdórsson

Birtist áður á sus.is


„Ísland opnasta land í Evrópu“

Á undanförnum árum hafa ýmsir aðilar hér á landi haldið því statt og stöðugt fram að Ísland væri á góðri leið með að verða að einhvers konar fasistaríki þegar kæmi að málefnum innflytjenda og að íslenzk stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að erlendir einstaklingar gætu sezt hér að. Sérstaklega hefur þessu verið haldið fram í tengslum við komur fólks til landsins sem óskað hefur eftir pólitísku hæli hér. Hafa fjölmiðlar ennfremur tekið virkan þátt í því í gegnum tíðina að skapa umrædda mynd af stefnu stjórnvalda í þessum málum. Var þetta sérstaklega áberandi fyrir rúmu ári síðan þegar frumvarp dómsmálaráðuneytisins til breytinga á útlendingalögum lá fyrir Alþingi.

Í síðustu viku var greint frá því að nokkrir erlendir einstaklingar, sem sótt hafa um pólitískt hæli hér á landi og eru í umsjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar á meðan mál þeirra eru skoðuð, hafi farið í kröfugöngu um bæinn og kvartað yfir því að það tæki langan tíma að afgreiða mál þeirra hjá hinu opinbera. Sögðust þeir hafa lítið við að vera á meðan mál þeirra væru skoðuð og kröfuðust þess að fá hér búsetu- og atvinnuleyfi ef marka má fréttir fjölmiðla af málinu. Höfðu þeir uppi stór orð um íslenzk stjórnvöld og sögðu þeim m.a. vera sama um sig og að þau litu ekki á sig sem mannverur.

Fyrst í stað höfðu flestir fjölmiðlar ekki fyrir því að kanna hver afstaða fulltrúa stjórnvalda kynni að vera til málsins utan Morgunblaðið sem hafði strax samband við Hjördísi Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar. Í kjölfarið rættist smám saman úr fréttaflutningi annarra fjölmiðla af málinu. Kom í ljós að mótmælendurnir höfðu á engan hátt komið kvörtunum sínum á framfæri við félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ og kom Hjördís algerlega af fjöllum þegar hún frétti af mótmælunum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 26. júní sl. var síðan rætt við Jóhann R. Benediktsson, sýslumann á Keflavíkurflugvelli, en embætti hans rannsakar flest þau mál sem koma upp vegna umsókna um hæli hér á landi. Sagði Jóhann að fyrir lægi að langflestir hælisleitendur, sem kæmu hingað til lands, væru að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og væru í reynd ekki pólitískir flóttamenn. Sagði hann rannsókn þessara mála flókna og taka sinn tíma og ekki bætti síðan úr skák í þeim tilfellum sem viðkomandi einstaklingar gæfu upp rangar upplýsingar um sig, en fjölmörg slík mál kæmu upp á hverju ári. Sagði hann ennfremur að aðbúnaður hælisleitenda hér á landi væri mun betri en í öðrum löndum þar sem þeir væru yfirleitt geymdir í sérstökum búðum og fengju ekki að fara frjálsir ferða sinna ólíkt því sem gerðist hér á landi.

Sagt var frá því í fréttatímanum að t.a.m. hafi einn þeirra einstaklinga, sem tóku þátt í mótmælunum í Reykjanesbæ, óskað eftir hæli hér á landi í fyrra. Þegar íslenzk yfirvöld hafi farið að rannsaka mál hans hafi hann látið sig hverfa af landi brott. Eftir það hafi frétzt af manninum í Hollandi þar sem hann hafi einnig sótt um hæli. Þegar þarlend yfirvöld hafi farið að rannsaka mál hans hafi hann leikið sama leikinn og látið sig hverfa. Það hafi síðan verið í janúar á þessu ári sem hann hafi komið aftur hingað til lands og þá undir öðru nafni en þegar hann kom hingað fyrst. Hann hafi óskað eftir atvinnu- og dvalarleyfi hér en ekki fengið og þá óskað eftir hæli sem flóttamaður í annað sinn. Sagði að lokum í fréttinni að vitað væri að maðurinn hefði nú þegar stöðu flóttamanns í Þýzkalandi.

Kvöldið eftir ræddi síðan Stöð 2 við Þóri Guðmundsson hjá Rauða krossi Íslands. Sagði hann Rauða krossinn ekki gera miklar athugasemdir við það hvernig flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna væri framfylgt hér á landi og að hann teldi Ísland vera eitt opnasta land Evrópu í þessum efnum. Sagði hann ennfremur eðlilegt að það tæki tíma að kanna vel mál þeirra sem sæktu um hæli hér á landi svo hægt væri að skera úr um það hverjir ættu rétt á hæli og hverjir ekki. Sagði hann að hvert land hefði rétt á að setja reglur um það hverjir kæmu til landsins og hverjir ekki og að það væri ekkert óeðlilegt við það. Þeir sem uppfylltu ekki skilyrði íslenzkra stjórnvalda, sem og skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, ættu ekki rétt á að vera hérna.

Óneitanlega eru einkum þau orð Þóris, að Ísland sé eitt opnasta land Evrópu þegar kemur að möguleikum útlendinga til að setjast hér að, merkileg í ljósi þeirra fullyrðinga sem getið var í upphafi greinarinnar. Ljóst er að þær fullyrðingar eru algerlega úr lausu lofti gripnar og rúmlega það. Það gleymist líka í hamagangnum, við að láta stjórnvöld líta illa út í þessum málum en alla þá sem sækja hér um hæli vel, að einstaklingar sem óska eftir stöðu flóttamanna hér á landi á fölskum forsendum, og leggja þar með mikla vinnu á stjórnvöld við að komast til botns í málum þeirra, eru með því að tefja afgreiðslu á málum þeirra einstaklinga sem raunverulega kunna að eiga rétt á hæli hér á landi. Um þá hlið málsins er þó ekkert fjallað í fjölmiðlum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Mánudagspósturinn 27. júní 2005

Nú nýverið lauk árlegri ráðstefnu Alþjóðahvalveiðiráðsins í Seoul í Suður-Kóreu og verður að viðurkennast að niðurstöður hennar hafi verið ákveðin vonbrigði þar sem ekki tókst að ná samkomulagi um hvalveiðar í atvinnuskyni eins og margir höfðu vonazt eftir. Var talið að mögulegt yrði að slíkt samkomulag næðist eftir að Danir lýstu yfir stuðningi við það en sú varð þó ekki raunin þegar á reyndi. Var haft eftir íslenzku sendinefndinni að ráðstefnunni lokinni að ólíklegt væri að hvalveiðar yrðu leyfðar af ráðinu í nánustu framtíð.

Alþjóðahvalveiðiráðið er reyndar löngu orðið að óttalegum brandara. Ráðið var upphaflega sett á laggirnar til að stuðla að skynsamlegri stjórnun hvalveiða en hefur í seinni tíð orðið að eins konar hvalfriðunartæki sem er alfarið mótfallið hvalveiðum eins og þær leggja sig. Aðild að ráðinu eiga fjölmörg ríki sem hafa ekki nokkra einustu hagsmuni af hvalveiðum og liggja sum þeirra ekki einu sinni að sjó eins og t.a.m. Austurríki, Sviss og Tékkland svo dæmi séu tekin. Er ekki að furða að komið hafi beinlínis fram tillögur um að ráðið verði endurskírt Aþjóðahvalverndunarráðið og að stofnað verði nýtt Alþjóðahvalveiðiráð sem raunverulega hafi það að markmiði sínu að stuðla að skynsamlegri nýtingu hvalastofna.

Eins og kunnugt er höfum við Íslendinga stundað vísindaveiðar á hval hér við land undanfarin ár. Kölluðu þær veiðar í fyrstu á mikil mótmæli erlendis frá og þá ekki sízt frá ýmsum erlendum náttúruverndarsamtökum s.s. Grænfriðungum. Skoðanakannanir hafa þó sýnt að mikill meirihluti Íslendinga sé hlynntur veiðunum. Áróðurinn gegn þeim var einkum á þá leið að þær myndu leggja íslenzkan ferðamannaiðnað meira eða minna í rúst og skaða ímynd Íslands erlendis. Ferðamannastraumurinn til landsins myndi dragast verulega saman sem aftur myndi m.a. þýða mikinn fjárhagslegan skaða fyrir þjóðarbúið.

Þetta gekk þó ekki eftir og hefur ekkert lát orðið í aukningu á komum ferðamanna til Íslands þó við hæfum vísindaveiðar á hval. Það er því kannski ekki að furða að lítið hafi heyrzt í andstæðingum veiðanna um langt skeið. Ein rökin gegn veiðunum eru að engir markaðir séu fyrir hvalkjöt í heiminum. Það er kannski ýmislegt til í því eins og staðan er í dag enda engin furða þegar algert hvalveiðibann hefur verið í gildi í heiminum í að verða tvo áratugi. Talsverða markaðssetningu þarf venjulega til þegar verið er að kynna nýja framleiðslu og væntanlega eru hvalaafurðir engin undantekning í þeim efnum.

Samkvæmt mati vísindanefndar Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins eru hrefnu- og langreyðarstofnar við Ísland nú nálægt því eða búnar að ná þeirri stofnstærð sem þeir voru í áður en skipulegar veiðar hófust hér við land fyrir tæpri öld síðan. Telur nefndin að óhætt sé að veiða 200 hrefnur og 150 langreyðar við Ísland án þess að þessir hvalastofnar beri af því skaða. Er það mat nefndarinnar að Mið-Atlantshafshrefnustofninn við Ísland telji nú um 44 þúsund dýr og að í svonefndum Austur-Grænlands-Íslands langreyðarstofni séu um 25 þúsund dýr.

Rökin gegn hvalveiðum á tegundum sem ekki eru í útrýmingarhættu, s.s. hrefnu, eru nær undantekningalaust tilfinningarök. Málflutningurinn gengur þá yfirleitt út á að ekki megi veiða hvali yfir höfuð á þeim forsendum að allir hvalir séu í útrýmingarhættu sem er alrangt. Einnig er því t.a.m. haldið fram að hvalir séu svo gáfaðar skepnur og því megi ekki veiða þá. Viða er það hreinlega orðið að lífstíl hjá ákveðnum einstaklingum, ásamt ýmsu öðru hliðstæðu, að berjast gegn hvalveiðum og í ófáum tilfellum hefur umrætt fólk klárlega litla hugmynd um staðreyndir málsins. Trúir því t.a.m. virkilega að allir hvalir séu í útrýmingarhættu enda hafa ýmis náttúruverndarsamtök beinlínis alið á slíkri fáfræði og vitleysu.

Grænfriðungar eru kannski þau samtök sem einna mest áberandi hafa verið í andstöðunni við hvalveiðar í heiminum. Það er nú ekki eyðandi mörgum orðum í þau samtök en ég vil samt koma aðeins inn á málflutning þeirra. Nýverið var skip á þeirra vegum statt í Reykjavíkurhöfn og af því tilefni var rætt við talsmann þeirra í Morgunblaðinu þann 21. júní sl. Þar sagði hann m.a. að Grænfriðungar væru á móti hvalveiðum vegna þess að þeir óttuðust að frekari veiðar á hval myndu þýða að finna yrði markaði fyrir afurðirnar. Ef þeir markaðir fyndust myndi það þýða enn meiri sókn í hvalveiðar sem skila myndi sér í þrýstingi á að auka veiðikvóta. Þetta myndi á endanum þýða ofveiði og hrun hvalastofna. Hér er auðvitað verið að mála skrattann all hressilega á vegginn en það sem kannski athyglisverðast er við þessi “rök” er að með þeim mætti t.a.m. alveg eins tala fyrir því að hætt yrði að veiða þorsk eða nánast hvaða aðra sjávarafurð.

Talsmaðurinn var þá spurður að því hvort Grænfriðungar væru mótfallnir hvalveiðum ef tryggt yrði að þær leiddu ekki til ofveiði eða hruns hvaðastofna. Svarið stóð ekki á sér, talsmaðurinn sagði það engu skipta fyrir afstöðu Grænfriðunga. Þeir væru eftir sem áður algerlega á móti hvalveiðum, hvort sem það kynni að leiða til ofveiði og hruns eða ekki. Auðvitað er þessi málflutningur tóm vitleysa en á sama tíma lýsandi fyrir málflutning margra þeirra sem mótfallnir eru hvalveiðum. Það má eiginlega segja að þessir aðilar séu einfaldlega á móti hvalveiðum „aþþþíbara“. Það er auðvitað ekki hægt að ræða málefnalega við slíkt fólk.

Eins og staðan er í dag eru Norðmenn eina þjóðin í heiminum sem stundar hvalveiðar í atvinnuskyni, en við Íslendingar ásamt Japönum stundum vísindaveiðar á hvölum. Þrátt fyrir spár um annað af hálfu andstæðinga hvalveiða hafa veiðar Norðmanna ekki haft í för með sér neinar slæmar afleiðingar fyrir þá s.s. viðskiptabönn eða aðrar alþjóðlegar refsiaðgerðir. Lítil sem engin hætta verður því að teljast á því að sú yrði raunin í tilfelli okkar Íslendinga ef við tækjum þá ákvörðun að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni eins og frændur okkar Norðmenn að loknum þeim vísindaveiðum sem nú standa yfir, hvað sem hinu svokallaða Alþjóðahvalveiðiráði kann að finnast um það.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Hægðu á þér – tökum slysin úr umferð!

Í vikunni hófst þjóðarátak Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Er þetta fimmta sumarið í röð sem VÍS stendur fyrir því. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að þeirri nöpru staðreynd að beint samhengi sé á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Það er margsannað að meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru jafnan mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. VÍS mun samhliða þessu þjóðarátaki standa fyrir auglýsingaherferð þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Samhliða því verður vakin athygli á nýjum leiðbeinandi umferðarmerkjum sem Vegagerðin mun setja upp í sumar á hættulegum vegaköflum á landinu. Verða þau sett upp á svokölluðum svartblettum þar sem slysahætta er jafnan mjög mikil.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 13 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum hér í nágrenni heimabæjar míns, Akureyri, en fjórir hafa látist í tveim hörmulegum slysum í Öxnadal seinustu vikur. Á árinu 2004 létu 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Ef marka má tölur sem kynntar voru við upphaf þjóðarátaksins hafa níu af 13 banaslysum á þessu ári orðið í dreifbýli, eða tæplega 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli. Þetta eru dapurlegar tölur sem þarna sjást. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum – einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.

Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar.

Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila. Það er þó mitt mat að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikurnar. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Sú varð nú ekki aldeilis raunin.

Fyrir nokkrum vikum birtist okkur önnur auglýsingaherferð þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál!

En ég fagna þjóðarátaki VÍS í umferðarmálum. Ragnheiður Davíðsdóttir leiðir þetta þjóðarátak sem fyrr af miklum krafti og er öflugur talsmaður þess. Í grunninn séð vekur þetta okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu ára og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða – það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Í kjörorði þessa þjóðarátaks er komin lykilsetning okkar í umferðinni að mínu mati: Hægðu á þér – tökum slysin úr umferð!

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Þeir sletta skyrinu...

Nú fyrir skömmu réðust þrír einstaklingar inn á alþjóðlega ráðstefnu um áliðnaðinn sem haldin var á hóteli í Reykjavík. Fundarefnið er vissulega eldfimt í hugum sumra en engu að síður kom það mér nokkuð á óvart að félagsskapur sem kallar sig Náttúruvaktina stóð mótmælastöðu fyrir framan hótelið til þess að mótmæla því ,,svo lítið beri á” að slík ráðstefna væri haldin hér á landi eins og segir í frétt á www.visir.is. Það fór þó ekki minna fyrir þeim en svo að fánar erlendra ríkja sem flaggað hafði verið fyrir utan hótelið voru dregnir í hálfa stöng af aðilum sem tóku þátt í mótmælunum.

Tvöhundruð fulltrúar aðila sem starfa í áliðnaði sátu ráðstefnuna og var þeim skiljanlega mjög brugðið þegar þeir urðu fyrir grænlitaðri súrmjólkurblöndu þremenninganna enda hefði hæglega eitthvað annað og alvarlegra en mjólkurafurð getað verið þarna á ferðinni. Tríóið var handtekið af lögreglu í kjölfar árásar sinnar og fengu að gista fangageymslur. Einn þeirra var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald en hinum tveimur var sleppt eftir yfirheyrslur.

Þegar litið er á hverjir einstaklingarnir þrír sem þarna voru að verki eru vakna margar spurningar. Fyrstan ætla ég að nefna Paul Gill en hann er breskur atvinnumótmælandi sem kenndi á námskeiði í borgaralegri óhlýðni sem haldið var í Reykjavík fyrir skömmu. Annar þáttakandi í árásinni á ráðstefnugestina var Arna Ösp Magnúsardóttir en hún var kynnt til leiks sem ,,hugrakkur borgari” í frétt Stöðvar 2 af námskeiði Gills og tók þátt í því. Ég get illa tekið undir þennan titil sem Stöð 2 gaf henni. Miklu frekar ætti að kalla hana barnalegan borgara enda árás þeirra félaga á saklausa ráðstefnugestanna miklu frekar í ætt við barnaskap heldur en hugrekki. Þriðji aðilinn heitir síðan Ólafur Páll Sigurðsson en hann er einn þeirra sem skipuleggur tjaldbúðirnar sem fyrirhugað er að koma upp við Kárahnjúka í sumar í mótmælaskyni við þær framkvæmdir sem þar eru í fullum gangi. Líkt og fjölmiðlar hafa einnig réttilega bent á eftir atburðinn gengdi hann starfi framkvæmdastjóra Náttúruvaktarinnar á tímabili og er fullgildur meðlimur í samtökunum.

Náttúruvaktin hefur hins vegar gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að þvo hendur sínar af árás þremenninganna á hina saklausu ráðstefnugesti. Í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í kjölfar árásarinnar segir að samtökin tengist árásinni ekki á nokkurn hátt en jafnframt að þau voni að efnið hafi verið umhverfisvænt og benda ennfremur á að hafi einhver spjöll verið unnin með árásinni séu þau fullkomlega afturkræf ólíkt fyrirhugaðri aðför álrisanna að íslenskri náttúru. Ég er alls ekki að halda því fram að Náttúruvaktin standi á bak við árásina með nokkrum hætti enda hafa aðgerðir íslenskra náttúruverndarsamtaka verið með friðsömum hætti hingað til. Hins vegar tel ég mjög ósmekklegt hvernig þeir hnýta aftan við þessum athugasemdum varðandi afturkræfni skemmda sem hugsanlega voru unnar á fatnaði ráðstefnugesta sem og tæknibúnaði hótelsins.

Í Austurglugganum þann 20. maí síðastliðinn var viðtal við Norðfirðinginn Þórarin Einarsson en hann sat fund sem haldinn var í maí til skipulagningar mótmælunum upp við Kárahnjúka nú í sumar. Þar segir hann m.a.: ,,Það stendur ekki til að fremja nein skemmdarverk á Kárahnjúkum. Þau hafa þegar verið unnin.”

Það er ágætt að vita það. Hins vegar verður fólk bara að fyrirgefa þótt ég eigi erfitt með að gleypa því að ekkert muni koma upp á við Kárahnjúka í sumar. Sporin hræða svo sannarlega og nægir þá bara að líta til þess atburðar sem varð á ráðstefnunni góðu og voru reifaðir hér að framan. Ég er þess fullviss að það verða einhver læti í sumar við Kárahnjúka og lögreglan hér eystra mun hafa nóg að gera við að hafa hemil á því fólki sem ætlar sér þangað upp eftir til þess að sýna borgaralega óhlýðni eða ,,borgaralegt hugrekki” eins og þeir sem það iðka kjósa að kalla það.

Það varð síðan ekki til þess að draga úr óróleika mínum þegar ég las áfram í viðtali blaðamanns Austurgluggans við Þórarinn. ,,Þórarinn segist eiga erfitt með að tjá sig um hugsanlegan fjölda mótmælenda í sumar en segir þó að áhugi erlendis frá sé talsverður. Mótmælin munu verða á svipuðum tíma og G-8 fundurinn í Skotlandi og reikna má því með að þaðan komi fólk.” Þetta er að vísu eitthvað sem legið hefur fyrir frá því fyrst fór að kvissast út um mótmælin. Það breytir því hins vegar ekki að það fólk sem mannar G-8 mótmæli víða um heim er langt frá því að vera friðarins fólk. Fréttamyndir sýna heilu borgirnar lagðar meira og minna í rúst vegna óeirða þeirra sem mótmæla undir formerkjum andstöðu við hnattvæðingu.

Er það virkilega svona fólk sem við viljum fá hingað til lands til þess að mótmæla fullkomlega löglegum framkvæmdum á hálendinu? Við megum nefninlega ekki gleyma því að þrátt fyrir allt eru framkvæmdirnar við Kárahnjúka fullkomlega löglegar og því gjörsamlega óþolandi og ólíðandi ef að örfáir einstaklingar ætla sér að hafa truflandi áhrif á þessar framkvæmdir með skemmdarverkum eða ólátum.

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk mótmæli. Það er þeirra réttur. Hins vegar verða öll slík mótmæli að vera með friðsömum hætti. Það er gjörsamlega óþolandi ef menn grípa til ofbeldisfullra aðgerða í mótmælum sínum. Slíkt er málstað þess síður en svo til framdráttar og skilar engum árangri.

Gunnar R. Jónsson
grj@visir.is


Mánudagspósturinn 20. júní 2005

Egill Helgason gerir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, að umfjöllunarefni í nýlegum pistli á vefsvæði sínu á Vísi.is. Reyndar kallar Egill Heimssýn „hreyfingu Evrópuandstæðinga á Íslandi“ og virðist þar með falla í þá gryfju sem sumir eru fastir í að geta ekki gert greinarmun á annars vegar landfræðilega fyrirbærinu “Evrópu” og hins vegar fyrst og fremst stjórnmálafræðilega fyrirbærinu “Evrópusambandinu”. Nema þetta orðalag sé einfaldlega meðvitað og Egill sé með þessu að leggja sitt lóð á vogaskálarnar í þeim einkennilega áróðri Evrópusambandsinna að þetta tvennt sé eitt og hið sama?

En hvað um það. Egill segir að Heimssýn sé samsett á hliðstæðan hátt og „nei-hreyfingin í Evrópu“ (reyndar leyfi ég mér að efast stórlega um að Egill hafi einhverja yfirsýn yfir samsetningu þeirra nokkur hundruð félagsmanna sem eru í Heimssýn). Þar séu t.a.m. „gamlir sósíalistar“ og tekur hann Ragnar Arnalds sem dæmi um það. Einnig „ungir andstæðingar hnattvæðingarinnar“, sem er sá titill sem Ármann Jakobsson fær, „evróskeptíkerar úr ysta hægri stóra hægri flokksins“, sem er skilgreining Egils á Sigurði Kára Kristjánssyni, frjálshyggjumenn eins og Birgir Tjörvi Pétursson og að lokum segir Egill að „með laumist fulltrúar þeirra sem séu andsnúnir innflytjendum“ og nefnir hann mig sem dæmi um það.

Ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að þessum einkunnagjöfum sé ætlað að draga upp dökka mynd af þeim sem í hlut eiga. Finnst mér t.a.m. furðulegt að Egill geri að því skóna að Sigurður Kári sé einhvers konar hægriöfgamaður og fróðlegt þætti mér líka að fá rök fyrir þeirri fullyrðingu að ég sé andsnúinn innflytjendum þó ég hafi vissulega lagt áherzlu á mikilvægi aðlögunar í gegnum tíðina, þegar kemur að innflytjendamálunum, og eðlilegs aðhalds í samræmi við það. Eitthvað sem flestir gera sennilega í dag.

Reyndar virðist Egill ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga í Evrópumálunum og má þannig t.a.m. nefna að sl. haust kom Daniel Hannan, þingmaður brezka Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu, til Íslands á vegum Heimssýnar og var m.a. í viðtali í Silfri Egils. Var Egill víst afar hrifinn af Hannan og var stuttu síðar svo ánægður með grein eftir hann í brezka tímaritinu The Spectator að hann sá ástæðu til að skrifa sérstaklega um hana á vefsvæði sínu á Vísi.is og leggja áherzlu á það helzta sem Hannan hafði að segja.

Í grein sinni fjallaði Hannan um það hvað við Íslendingar værum að gera það gott fyrir utan Evrópusambandið og að ástæða þess væri sú að við hefðum haft vit á því að standa fyrir utan það. Ennfremur sagði hann að Bretar gætu tekið okkur sér til fyrirmyndar um að ekkert mál væri fyrir ríki að standa fyrir utan sambandið. Hannan lýsti svo þeirri von sinni í lok greinarinnar að Íslandi auðnaðist að standa áfram fyrir utan Evrópusambandið um ókomna tíð. Þetta nefndi Egill allt í skrifum sínum á Vísi.is án þess að gera við það nokkra athugasemd. Hannan er vitanlega einn af þeim sem mynda nei-hreyfinguna í Evrópu sem Egill er núna svo afskaplega uppi á kant við af einhverjum ástæðum.

Ekki er hægt að sjá annað en að mikils ósamræmis gæti hjá Agli í þessum efnum sem annars vegar segir í pistli sínum að í „meginstraumi stjórnmálanna“ detti engum heilvita manni í hug annað en að Ísland eigi samleið með Evrópusambandinu og að EES-samningurinn sé „svo gott sem aðild“ en tekur síðan undir með Daniel Hannan um að við Íslendingar séum að gera það eins gott og raun ber vitni vegna þess að við höfum haft vit á því að ganga ekki í sambandið!

Það vill nefnilega svo til að hin svokallaða nei-hreyfing í Evrópu inniheldur svo miklu fleiri en bara eitthvað fólk sem er vel til hægri eða vel til vinstri þó reynt hafi verið að mála hlutina þannig upp af fjölmörgum stuðningsmönnum Evrópusamrunans. Ég gæti nefnt til sögunnar í því sambandi ýmsar evrópskar hreyfingar og fleiri aðila víða í hinu pólitíska landslagi sem hafa ýmislegt við þann samruna að athuga sem verið hefur í gangi innan Evrópusambandsins. Að ýja að því að öll slík gagnrýni byggst allajafna á einhverri útlendingaandúð og verndarhyggju er auðvitað stórmerkilegt í ljósi þess að Evrópusambandið sjálft er tollabandalag sem beitir háum verndartollum til þess að standa vörð um þá framleiðslu sem fram fer innan múra þess.

Staðreyndin er einfaldlega sú að andstaðan við aukinn samruna innan Evrópusambandsins, og við aðild að því í þeim tilfellum sem það á við, er oftar en ekki byggð á forsendum frelsis, lýðræðis, fullveldis og andstöðu við miðstýringu og reglugerðafargan. Sú er einmitt einkum raunin hér á landi sem og t.a.m. í Bretlandi og víðar.

Fullyrðing Egils um að í „meginstraumi stjórnmálanna“ detti engum heilvita manni í hug að Ísland eigi ekki samleið með Evrópusambandinu og að EES-samningurinn sé „svo gott sem aðild“ er síðan furðuleg þó ekki nema bara í ljósi þeirrar staðreyndar að aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi, Samfylkingin, hefur aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni og hefur í raun og veru ekki enn lagt í að setja það stefnumál á dagskrá. Hvar er þessi meginstraumur? Er það Samfylkingin? Er Sjálfstæðisflokkurinn þá t.a.m. utan hans? Nær er reyndar að segja að í meginstraumi stjórnmálanna hér á landi sé sú skoðun ríkjandi að Ísland eigi ekki erindi í Evrópusambandið, a.m.k. ekki í nánustu framtíð.

Og að halda því fram að EES-samningurinn sé svo gott sem aðild að Evrópusambandinu þarf í sjálfu sér ekki að ræða mikið, svo augljós er munurinn þarna á milli, jafnvel þó menn vilji ekki sjá hann. Það er t.d. bara nýbúið að sýna fram á að við erum ekki að taka yfir nema brot af lagagerðum sambandsins í gegnum samninginn, þvert á fyrri og margítrekaðar fullyrðingar íslenzkra Evrópusambandssinna. Þó aðeins sé litið til þessa eina atriðis er það nóg til að sjá að himinn og haf er á milli aðildar að Evrópusambandinu annars vegar og EES-samningsins hins vegar.

Annars veltir maður því eðlilega fyrir sér að lokum hvort það skyldi vera einskær tilviljun að Egill taki upp á því að skrifa þennan neikvæða pistil um Heimssýn og meðlimi hreyfingarinnar einmitt núna þegar allt er á öðrum endanum innan Evrópusambandsins eins og kunnugt er og reyndar rúmlega það? Gæti verið að um sé að ræða misheppnaða tilraun til að beina athyglinni að einhverju öðru þegar kemur að Evrópumálunum en þeirri alvarlegu stjórnmálakreppu sem þar er við líði og fjallað hefur verið rækilega um í fjölmiðlum á undanförnum vikum – íslenzkum Evrópusambandssinnum væntanlega til mikillar mæðu? Annað tilefni á ég a.m.k. bágt með að koma auga á.

---

Annars hafa leiðtogar Evrópusambandsins ákveðið að setja fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins á ís og á að taka ákvörðun um framhald málsins eftir einhverja mánuði, jafnvel ekki fyrr en að ári. Í millitíðinni er hugmyndin að leggja enn meira kapp á að reka áróður fyrir stjórnarskránni í aðildarríkjum Evrópusambandsins og þá einkum þeim auðvitað sem hafa lofað þegnum sínum þjóðaratkvæðagreiðslum um málið. Telja ýmsir að slíkur aukinn áróður muni ekki skila miklu og jafnvel snúast upp í andhverfu sína enda ógrynni fjár þegar verið varið í þeim tilgangi af Evrópusambandinu sjálfu sem og aðildarríkjunum en án þess að það hafi skilað sér betur en raun ber vitni.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu meira eða minna vera sammála um það að sambandið hafi aldrei verið í eins mikilli stjórnmálakreppu og nú er raunin. Og nú er bara að bíða þess að Eiríkur Bergmann Einarssin mæti í viðtal hjá einhverjum fjölmiðlanna sem hlutlaus sérfræðingur í Evrópumálum og segi að það sé eðlilegt ástand að Evrópusambandið sé í stöðugri stjórnmálakreppu. Eða svo sagði hann allavega þegar leiðtogar sambandsins voru að rembast við að koma sér saman um efni stjórnarskrárinnar hér um árið. Spurningin er þá bara hvort það sé líka eðlilegt ástand innan Evrópusambandsins að þar sé í ófáum tilfellum viðvarandi efnahagskreppa?

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
 
(Birt einnig á www.heimssyn.is)


Þjóðhátíðarpistill

Íslensk þjóðernishyggja er og verður alltaf tengt órjúfanlegum böndum við ímynd þjóðveldisins og hefur hún því iðulega byggst á endurreisn þess í einhverri mynd. Einkenni þessa gullaldartíma sem miðað er við byggist í huga þjóðarinnar á sjálfákvörðunarrétti hennar og sjálfsstæði sem við glötuðum en öðluðumst á ný eftir langa baráttu, á þingræðinu sem við glötuðum en endurreistum í áðurnefndri baráttu og því frelsi einstaklingsins sem óneitanlega var hornsteinn þess samfélags sem hér blómstraði á þjóðveldisöld. Auðvitað einnig á virðingu fyrir sögunni, menningunni, tungunni og hefðunum sem orðið hafa einkennandi fyrir íslenska þjóðmenningu í gegnum árin.

Vissulega var þetta frelsi ekki allra, en jafnframt var óvíða jafn frjálst samfélag nokkurs staðar í nálægum löndum eins og hér ríkti á þessum tíma, og vissulega var þjóðveldið ekki hreint lýðræði eins og við skiljum það í dag, en ímynd þess í okkar huga er eftir sem áður jafn verðmæt og kröftugur leiðarvísir enn í dag líkt og á hápunkti sjálfsstæðisbaráttunnar. Það er nauðsyn hverri þjóð að hafa sterka sjálfsmynd byggða á traustum grunni í sögu hennar, menningu og upplifun, sem sameinar hana, sérstaklega á góðum stundum eins og í dag er við fögnum á sjöunda áratug íslensks sjálfstæðis.

Þessi sjálfsmynd og þessi sameiginlegu gildi eru í hættu vegna ósanngjarns samanburðar íslenskrar þjóðernishyggju, eða föðurlandshyggju, við andlýðræðisleg, fasísk öfl sem upp komu um miðja síðustu öld og misnotuðu sér þær tilfinningar sem þjóðerniskenndin vekur í brjóstum manna. Hægt er að misnota allt, en því fer fjarri að slík notkun réttlæti að hugmyndinni um þjóðina sé varpað á bálköst sögunnar og skipt út fyrir eitthvað annað, hvort sem það sé fjölmenningarhyggju, pan-evrópuhyggju eða heimsborgara- eða stéttasjálfsmyndir.

Þau grundvallargildi sem íslenskt þjóðfélag byggir á verður að vera hafið yfir flokkadrætti og dægurþras, og hefur það tekist að mestu hérlendis sem af er, þó ákveðnar blikur séu á lofti. Það minnir okkur á að sjálfsstæðisbaráttunni lýkur í raun aldrei alveg. En hvort sem Íslendingar séu til vinstri eða hægri í efnahagsmálum, frjálslyndir eða íhaldssamir í siðferðis- og samfélagsmálum þá verðum við að standa vörð um áðurnefnd grundvallargildi, lýðræðið, sem löngum hefur verið í formi þingræðislegs valds Alþingis, sjálfsstæðið, sjálfsstæði einstaklingsins og þjóðarinnar og þjóðmenningarinnar, þar af hið ástkæra ylhýra, sem okkur ber skylda til að varðveita og miðla áfram til komandi kynslóða Íslendinga.

Því er okkur brýn nauðsyn að tryggja að þær kynslóðir sem alast upp á Íslandi í framtíðinni beri þessa sjálfsmynd í brjósti og haldi í heiðri hin sameiginlegu grundvallargildi, sama hver uppruni þeirra er, kyn, húðlitur eða annað. Okkur, líkt og öðrum vestrænum löndum, er mikil nauðsyn að tryggja að nýjir íbúar landsins og þá sérstaklega afkomendur þeirra séu og verði af hug og hjarta fyrst og fremst Íslendingar. Við megum ekki tapa niður þeim árangri að þúsundir Íslendinga dagsins í dag eigi sér erlenda forfeður en líta samt sem áður fyrst og fremst á sig sem Íslendinga. Að hér myndist aðskilin samfélög sem búi hlið við hlið í landinu án nauðsynlegs samgangs líkt og við sjáum allt of víða í Evrópu, Kanada og víðar vegna fjölmenningarhugmyndarinnar er algerlega óásættanlegt, við megum ekki við því að þriðja eða fjórða kynslóð innflytjenda til landsins líti enn á sig sem aðkomumenn í heimalöndum sínum.

Það er því spurning hvort það sé nóg að við stöndum í pontu og tölum fjálglega um þjóðina, menninguna og grunngildin einu sinni á ári, á þeim hátíðisdegi sem nú við fögnum, en það er þó að minnsta kosti ágætis áminning um að enn er meira sem sameinar okkur heldur en sundrar. Tryggjum að svo verði áfram, fögnum þjóðhátíðardegi okkar með stolti í hjarta og miðlum þessum samhug stolt áfram til komandi kynslóða, allra Íslendinga hvað svo sem forfeður okkar hafa búið lengi í landinu.

Höskuldur Marselíusarson


Jean Monnet og hugmyndin um Bandaríki Evrópu

Frakkinn Jean Monnet (1888-1979) er gjarnan kallaður arkitekt Evrópusamrunans eins og þeir þekkja sem kunnugir eru forsögu Evrópusambandsins. Monnet var helzti hvatamaður þess að fyrsta skref Evrópusamrunans var tekið árið 1951 með stofnun kola- og stálbandalagsins á milli Frakklands, Vestur-Þýzkalands, Belgíu, Hollands, Ítalíu og Lúxemburg. Hann var síðan skipaður fyrsti forseti yfirstjórnar bandalagsins, sem má í raun segja að hafi verið nokkurs konar forveri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Monnet lét ekki þar við sitja og hélt áfram að vinna að auknum samruna á milli þeirra ríkja sem stofnuðu kola- og stálbandalagið auk þess sem fleiri Vestur-Evrópuríkjum var boðin aðild að því. Árið 1955 stofnaði hann samtök sem hann kallaði “Action Committee for the United States of Europe” sem lagði línurnar fyrir þróun kola- og stálbandalagsins yfir í að verða að Evrópusambandinu eins og við þekkjum það í dag.

Allt starf sitt byggði Monnet í raun á þeirri sannfæringu sinni að það sem valdið hefði tveimur heimstyrjöldum í Evrópu hafi verið sjálfstæði og fullveldi ríkja álfunnar. Það væri því lykilatriði að hans mati fyrir því að tryggja friðinn í Evrópu að afnema í raun fullveldi þeirra steypa þeim saman í eitt sambandsríki hliðstæðu við Bandaríki Norður-Ameríku.

Margir líta einmitt svo á að það sé Evrópusambandinu að þakka að ekki hafi orðið stríð í Vestur-Evrópu í meira en hálfa öld. Það sjónarmið er þó vægast sagt umdeilt og eru þeir ófáir sem telja t.a.m. að ástæður þess séu fyrst og fremst Atlantshafsbandalagið, kalda stríðið og tilvist hins sameiginlega óvinar í austri á meðan á því stóð. Sjálfur er ég þar á meðal.

En hvernig sem þau mál nú annars eru þá vil ég að lokum, þá einkum í tilefni af þeirri stjórnmálakreppu sem Evrópusambandið er í um þessar mundir eftir að Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins, nefna til sögunnar tvær áhugaverðar tilvitnanir í Monnet:

"Europe's nations should be guided towards the superstate without their people understanding what is happening. This can be accomplished by successive steps each disguised as having an economic purpose, but which will eventually and irreversibly lead to federation." (Jean Monnet, 30. apríl 1952)

"There will be no peace in Europe, if the states are reconstituted on the basis of national sovereignty ... The countries of Europe are too small to guarantee their peoples the necessary prosperity and social development. The European states must constitute themselves into a federation ..." (Jean Monnet, 5. ágúst 1943)

Þessar mjög svo fróðlegu tilvitnanir sýna vel bæði það að markmið upphafsmanna Evrópusamrunans var sambandsríki strax í byrjun og að Monnet lagði strax grunninn að ólýðræðislegu eðli Evrópusambandsins um að byggja upp umrætt sambandsríki smám saman þannig að almenningur í þeim ríkjum sem í hlut ættu tæki ekki eftir því og að sem allra minnst þyrfti að hafa hann með í ráðum.

Það er heldur ekki annað að sjá en að þeir sem verið hafa í forystu fyrir Evrópusambandið og forvera þess í gegnum tíðina hafi fylgt þessari aðferðafræði svo um munar og bendir ekkert til þess að látið verði af þeirri háttsemi.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Mánudagspósturinn 13. júní 2005

Ruglið í kringum hinar nýju höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur heldur áfram. Ekki er nóg með að kostnaðurinn við bygginguna sjálfa hafi farið langt fram úr öllum áætlunum heldur var upplýst fyrir helgina að kostnaður vegna frágangs lóðarinnar við hana væri nú áætlaður um 300 milljónir króna en átti upphaflega að vera vel innan við 100 milljónir! Endanlegar kostnaðartölur liggja þó ekki enn fyrir að sögn forsvarsmanna Orkuveitunnar þannig að kostnaðurinn gæti hæglega orðið mun meiri. Þá alveg sérstaklega í ljósi þess hvernig aðilar á vegum R-listans halda venjulega á málum þegar fjármunir borgarbúa eru annars vegar. Þar stenzt sjaldan neitt og endar oftar en ekki í margföldum þeim kostnaðartölum sem gert var ráð fyrir í byrjun og því vart að furða að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar hafi aldrei verið eins slæm og í dag.

Tilraunir forsvarsmanna Orkuveitunnar til að réttlæta þetta ótrúlega bruðl hafa síðan verið fyrir neðan allar hellur og raunar rúmlega það. Í tilkynningu frá þeim vegna málsins var m.a. sagt að kostnaðurinn hafi farið „eitthvað“ fram úr áætlun. Það segir kannski sitt um fjármálastjórn R-listans þegar 200 milljónir af skattfé borgarbúa eru kallaðar “eitthvað”. Síðan er stærð lóðarinnar undir höfuðstöðvarnar nefnd til sögunnar sem afsökun fyrir framúrkeyslunni. Gallinn við þetta er auðvitað sá að lóðin hefur ekkert breytzt og var alveg jafn stór þegar gert var ráð fyrir innan við 100 milljónum í frágang hennar eins og í dag. Hvað breyttist? Það var a.m.k. svo sannarlega ekki lóðin og fyrir vikið kemur stærð hennar því auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut við hvers vegna kostnaður við frágang hennar hefur hlaupið upp úr öllu valdi.

Síðan segir í tilkynningunni að Orkuveitan hafi það að stefnu sinni „að mannvirki hennar séu fyrirtækinu og íbúum höfuðborgarsvæðisins til sóma og lóðir séu snyrtilegar og vel hirtar.“ Persónulega finnast mér reyndar höfuðstöðvar Orkuveitunnar með eindæmum ljótar en látum það liggja á milli hluta. Ég held að ekki ætti nú að vera vandkvæðum bundið að ganga með sómasamlegum hætti frá umræddri lóð í kringum höfuðstöðvarnar fyrir um 100 milljónir króna og auk þess held ég að íbúar höfuðborgarsvæðisins myndu frekar vilja sjá mismuninn notaðan í að lækka orkureikninga þeirra í stað þess að þurfa að horfa upp á að þeim sé eytt í enn eitt gæluverkefni Alfreðs Þorsteinssonar.

---

Leiðtogar átta helztu iðnríkja heims ákváðu að fella niður um 2.600 milljarða króna skuldir fátækustu ríkja Afríku við lánastofnanir á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Vil ég í því sambandi benda á afar góðan pistil á Vefþjóðviljanum um þá ákvörðun. Tek ég heils hugar undir þá skoðun Vefþjóðviljans að slíkar ráðstafanir dugi skammt einar og sér og varla það. Eina raunverulega og varanlega lausnin á vanda Afríkuríkja í þessum efnum er vitanlega sú að komið verði á nauðsynlegum stjórnarfarslegum og efnahagslegum umbótum innan þeirra svo tryggt sé að þau lendi ekki í sömu hljólförunum á ný innan fárra ára. Niðurfellingar skulda og aðrar hliðstæðar lekavarnir eru einfaldlega engar lausnir nema samhliða þeim fari fram nauðsynlegar umbætur á efnahags- og stjórnkerfi þessara ríkja.

---

Stjórnmálakreppan í Evrópusambandinu heldur áfram og liggur við að hægt sé að fá eins margar útgáfur af því hvert framhaldið verði varðandi fyrirhugaða stjórnarskrá sambandsins eins og forystumennirnir innan þess eru margir. Sumir vilja halda staðfestingarferlinu á stjórnarskránni áfram eins og ekkert hafi í skorizt og hunza þannig í raun þá lýðræðislegu ákvörðun Hollendinga og Frakka að hafna henni í nýafstöðnum þjóðaratkvæðagreiðslum. Aðrir vilja að látið sé staðar numið á meðan ákveðið verði hvert framhaldið verði. Hvert það verður mun sennilega fyrst skýrast á fundi leiðtoga Evrópusambandsins á næstunni þar sem sameiginleg stefna verður væntanlega mótuð í þessum málum. Hins vegar verða að teljast allar líkur á því að reynt verði að fara í kringum vilja Frakka og Hollendinga og annarra aðildarríkja sambandsins sem hugsanlega eiga eftir að hafna stjórnarskránni líka. Spurningin er bara hvernig það verður gert og hversu mikið af innihaldi stjórnarskrárinnar tekizt verður að koma í gagnið.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Umræða um skipulagsmál – kosningamálið í borginni

Nú þegar ár er til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík blasir við að skipulagsmálin muni verða aðalmál kosningabaráttunnar. Enginn vafi leikur á því að ferskar hugmyndir sjálfstæðismanna varðandi byggð á eyjunum við borgina og markviss sýn til næstu áratuga í þeim efnum hafi leitt umræðuna á nýtt plan. Það er enda engin furða að borgarfulltrúum R-listans hafi sviðið það mjög að hafa misst frumkvæðið og aflið í umræðunni frá sér. R-listinn hefur núna stjórnað borginni í ellefu ár, sem er vissulega mjög langur tími. Hvað stendur eftir í málefnum borgarinnar skipulagslega séð eftir þrjú kjörtímabil R-listans? Ekki er það mikið. Staðan er þannig að mörg verkefni standa eftir óleyst og margt í því sem skiptir máli er í hreinu klúðri. Eins og við höfum séð af atburðarás undanfarinna vikna innan R-listans veitir ekki af að hvíla það gegnumsýrða og útúrþreytta valdabandalag vinstrimanna.

Ljóst er að það hefur hrist upp í stöðunni að sjálfstæðismenn hafi lagt til að byggð verði ný hverfi á eyjunum við borgina: í Akurey, Viðey, Engey og Örfirisey auk Geldinganess. Borgarstjórnarflokkurinn opnaði kosningabaráttu sína á ferskum valkosti í skipulagsmálum og komu með nýjar hugmyndir sem opna víðtæka og krefjandi umræðu um hvernig haga eigi málum á komandi árum í borginni varðandi framtíðarskipulag byggðar. Í gær hélt borgarstjórnarflokkurinn svo íbúaþing um tillögur sínar. Þar var fólki gefið tækifæri til að koma með sínar hugmyndir og ábendingar á tillögurnar í málefnavinnu sem þar fór fram. Þetta vinnuferli sjálfstæðismanna er þeim mjög til sóma. Með þessu gefst fólki – hinum almenna kjósanda – færi á að segja sínar skoðanir og vera aktívir þátttakendur í að móta aðra og heilsteyptari borgarmynd – skapa betri borg. Er alveg ljóst að fara þarf nýjar leiðir í skipulagsmálum sem fleiri málaflokkum á komandi árum.

Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil hefur skilað nægum verkefnum og fjölda úrlausnarefna sem þarf að leysa. Þeir sem kynna sér skipulagsmálin sjá ekkert nema ókláruð verkefni og áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Þessari vinnu sjálfstæðismanna, vinnu að betri borg, lýkur ekki með þessu íbúaþingi - öðru nær. Framundan eru fleiri íbúaþing, fundir um skipulagsmálin í öllum hverfum borgarinnar, á næstu mánuðum. Er gott að Sjálfstæðisflokkurinn fer þessa leið við að vinna málin. Enda er ekki furða að R-listinn sé í fýlu með stöðu mála.  Nú koma borgarfulltrúar R-listans svo fram einn af öðrum í fjölmiðla þessa dagana til að svara tillögum sjálfstæðismanna - ferskum hugmyndum inn í nýja tíma. Og hverjar eru lausnir R-listans? Engar í heildina. Það kemur einn borgarfulltrúinn með eina tillögu, annar með aðra og svona koll af kolli. R-listinn er ekki samhentur í skipulagsmálunum.

Það eru algjörar bútasaumslausnir á öllum stigum, forysta vinstrimanna í Reykjavík hefur skilað af sér nægum verkefnum sem R-listinn hefur ekki verið bógur að leysa. Í vikunni kom Stefán Jón svo fram algjörlega að því er virtist prívat og persónulega fram með hugmyndir um byggð í Vatnsmýrinni. Lagði hann að auki til hringveg um miðborgarsvæðið með tengingu frá Vatnsmýrarbyggðinni yfir á Álftanes. Það hefur nú komið fram í fjölmiðlum að þetta var bara skoðun Stefáns Jóns, þetta er ekki tillaga R-listans. R-listinn eftir ellefu ára valdasetu og forystu í skipulagsmálum borgarinnar allan þann tíma er ekki samhentur og þar liggur vandinn í málinu. Skipta þarf um áherslur og fólk í forystu málaflokksins. Það vantar nýja sýn - ferska sýn til framtíðar. Sú sýn er í tillögum sjálfstæðismanna í skipulagsmálunum. Allavega er þar tekið frumkvæði í nýjar áttir og opnað á umræðu um mikilvægar hliðar skipulagsmálanna.

Eftir stendur þó í annars spennandi og markvissum tillögum eitt stórt og mikið gap í skipulagsmálum borgarinnar. Það er auðvitað Vatnsmýrin, vettvangur innanlandsflugsins. Þar verður að mínu mati einn helsti meginátapunktur væntanlegra borgarstjórnarkosninga í skipulagsmálum. Það blasir alveg við að umræðan mun verða öflug um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tjái stefnu sína af krafti í þeim málum. Eins og flestir vita (og ég lýsti í ítarlegum pistli hér þann 22. apríl sl.) vil ég að áfram verði flugvöllur innan borgarmarkanna. Hvernig hefur R-listinn unnið þetta mál seinustu árin? Þeir sem kynna sér stöðu þess hljóta að spyrja sig um hversu marga hringi einn sveitarstjórnarmeirihluti getur farið án þess að höktast frá því skakkur. R-listinn hefur tekið marga kippi og snúninga í þessu máli. Er reyndar svo að erfitt er að fylgjast með öllu ferli þess í þeirra nafni.

Frægt varð þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóri, festi völlinn í sessi árið 1999 til ársins 2016. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar var ákveðið að borgarbúar myndu ganga að kjörborðinu og segja sitt álit. Undanfarin ár hafa svo borgarfulltrúar R-listans boðað að flugvöllurinn eigi að fara í nánustu framtíð. Á sama tíma vinnur Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og fyrrum formaður skipulagsnefndar borgarinnar, að því ásamt samgönguráðherra að því að til komi samgöngumiðstöð í borginni sem gerir ráð fyrir nýrri flugstöð samhliða því. Samkomulag þessa efnis var undirritað fyrr á þessu ári. Fól það samkomulag í sér að gera úttekt á flugvellinum í Vatnsmýrinni sem grunn að því að ákveða örlög hans. Nú hefur verið svo skipuð nefnd til að vinna grunnvinnu að úttektinni sem vinnast skal af óháðum aðilum. Eftir sem áður er stefnt að samgöngumiðstöðinni á Vatnsmýrarsvæðinu.

Stefnir svo meirihluti borgarstjórnar nú að alþjóðlegri samkeppni um framtíð Vatnsmýrarinnar: án þess að vita hvort þar verði flugvöllur eður ei. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessu ferli. Merkilegt er að meirihluti borgarstjórnar geti ekki bara talað hreint út. Vill hann flugvöll áfram í Reykjavík eða ekki. Við höfum séð af tillögum Stefáns Jóns að hann vill völlinn burtu, borgarstjóri hefur talað fyrir því og líka hefur það heyrst frá Degi Eggertssyni formanni skipulagsnefndar. En á sama tíma og þau tala fyrir breytingum á fyrrnefnd samgöngumiðstöð að rísa sem hlýtur að festa flugvöllinn í sessi. Það blasir eiginlega við. Annars er undarlegt að R-listinn geti ekki bara talað hreint út um þessi mál. Nú blasir við að Háskólinn í Reykjavík hyggur á að byggja nýtt aðsetur sitt við jaðar flugvallarins og Öskjuhlíðarinnar. Eftir standa ártölin 2016 og 2024 sem endapunktar flugvallar en ekki er tekið af skarið, málið velkist alltaf í nefndum. Þetta ferli allt er langvinnt og kostulegt fyrir þennan borgarstjórnarmeirihluta.

Í þessum efnum er talað er um flugvöllinn leiðist mér þegar menn eru að tala um þetta sem grunn hvort hann sé í Vatnsmýrinni. Það er að sjálfu sér aukaatriði að mínu mati. Grunnpunktur af minni hálfu er eins og fyrr segir að hann sé á höfuðborgarsvæðinu. Ef flugvöllur á að fara úr Vatnsmýrinni verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það að leggja af miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík mun þýða grundvallarbreytingu á samgönguháttum landsins og með því er kallað á uppstokkun á öðrum þáttum sem sameiginlega hafa verið byggðir upp af öllum landsmönnum. Það er því ljóst að verði þessi samgöngumiðstöð lögð af á höfuðborgarsvæðinu í þeirri mynd sem við þekkjum hana nú, þurfi og sé vart hjá því komist að skilgreina að nýju bæði verkefni og ekki síður þjónustuhlutverk höfuðborgar Íslendinga. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.

En allt er þetta grundvöllur umræðu um málið í heildinni á komandi mánuðum. Þar verða án vafa skiptar skoðanir, ólíkar áherslur og stefnumótun í þá átt að skapa borgarmynd næstu ára og áratuga. Það er því enginn vafi á því í mínum huga að skipulagsmálin verða meginþema næstu kosninga, sá málaflokkur sem mestu mun skipta og tekist verður á um ólíka sýn til framtíðar. Það höfum séð seinustu daga, sé mið tekið af umræðunni í borgarstjórn og sá kippur sem hefur komið í pólitíska umræðu um málaflokkinn eftir kynningu sjálfstæðismanna á tillögum sínum. Í grunninn verður kosið um það hvort borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar í skipulagsmálum og kjósa breytingar í forystu sinni á næsta kjörtímabili eða halda áfram sömu braut og verið hefur undanfarin ellefu ár undir forystu valdabræðings vinstrimanna.

Grunnpunktur kosningabaráttunnar er mikilvægi þess að Reykvíkingar velji hugmyndir sem leiði til breytinga – leggja grunninn að betri borg. Sú framtíðarsýn sem hentar best í þá átt er hjá Sjálfstæðisflokknum.

Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is


Næsta síða »

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband