Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2005

Börn í stríði

Það er 15. mars 2004. Þú ert ísraelskur hermaður og vinnur við að leita á fólki þegar það vill fara yfir landamærin til Ísraels. 11 ára drengur er næstur í röðinni. Þú leitar á honum, og finnur að hann er með sprengju innanklæða. Drengurinn verður gersamlega frávita af ótta. Þú kallar á auka mannskap, og einn þeirra flýtir sér að taka sprengjuna úr sambandi. Strákurinn róast strax. Við yfirheyrslur kemur í ljós að hann átti að fara með sprengjuna til konu sem stödd var hinumegin við landamærin. Hinsvegar ætlaði ,,samstarfsmaður” drengsins að gangsetja sprengjuna með farsíma, ef að svo óheppilega vildi til að hann yrði gómaður í hliðinu, til þess að drepa nærstadda hermenn, og um leið drenginn. Sem betur fer áttaði einn vörðurinn sig fljótt og aftengdi sprengjuna í tæka tíð. Þú ferð í háttinn, sáttur við að vera á lífi. Viku seinna gómar þú 14 ára stelpu...

Þetta gerðist í alvöru. Börnum Palestínumanna er otað í fremstu víglínu í stríði þeirra við Ísraela. Börn aðstoða ekki bara við smygl, heldur taka þátt í öllum mögulegum ofbeldisaðgerðum og eru oft vel vopnuð. Palestínsk börn eru þjálfuð upp af Heimastjórn Palestínumanna til að bera vopn, skjóta og fara í stríð. Þetta er hreinlega grátleg meðferð á börnum, þau eiga betra skilið. Hér er hægt að lesa um það hverslags uppfræðslu börn fá í Palestínu. Einnig er hægt að skoða það barnaefni sem börnum er boðið upp á af palestínsku heimastjórninni hér. Þeir sem senda börn sín í stríð, bera ábyrgð á dauða þeirra.

Palestínumenn hljóta meiri fjárhagsaðstoð en nokkur þjóð í heiminum. Það væri vel til fundið að verja hluta þess fjár til þess að ráða fullorðna málaliða til að sjá um þau ódæðisverk sem falin eru börnum. (Enn betra væri einfaldlega að nota eitthverjar krónur í uppbyggingu, en stór hluti fer í vasa spilltra manna.)

"Að láta börn taka þátt í vopnuðum átökum er ólíðandi. Við skorum á leiðtoga Palestínumanna að hætta slíku."
-Amnesty International

"We can forgive the PLO Arabs for killing our children. We cannot forgive them for forcing us to kill their children."
-Golda Meir 1972

Sindri Guðjónsson


Mánudagspósturinn 6. júní 2005

Eins og rækilega hefur verið greint frá í fréttum sendi Samband ungra sjálfstæðismanna Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og oddvita framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur, spilið Monopoly að gjöf fyrir helgina. Var það von SUS að Alfreð myndi fyrir vikið láta sér nægja að spila spilið, sem eins og kunnugt er gengur út á það að kaupa eignir fyrir spilapeninga, og hætti fyrir vikið að leika sér með fjármuni borgarbúa. Var tilefnið samþykkt meirihluta stjórnar Orkuveitunnar um að standa að byggingu fleiri hundruð sumarbústaða við Úlfljótsvatn sem eins og allir vita er ekki fyrsta gæluverkefnið sem Alfreð og félagar í meirihluta stjórnarinnar fara út í og nægir þar sennilega að nefna fjárfestingar á sviði risarækjueldis og gagnamiðlunar sem kostað hafa borgarbúa milljarða króna.

Viðbrögð Alfreðs voru annars merkileg en hann ákvað að endursenda spilið með þeim skilaboðum að SUS ætti frekar að gefa það Davíð Oddssyni vegna þess að hann hafi á sínum tíma staðið fyrir því sem borgarstjóri Reykjavíkur að Orkuveitan byggði Perluna í Öskjuhlíð. Verður það að teljast alveg furðulegt að fullorðinn maður skuli taka upp á því að afsaka eigin vitleysu og bruðl með því að benda á aðra og segja að þeir séu ekkert skárri og taka síðan sem dæmi í því sambandi ákvörðun sem tekin var fyrir um 15 árum síðan þegar töluvert annar hugsunarháttur var í gangi varðandi afskipti opinberra aðila, eða aðila á þeirra vegum, af atvinnulífinu en um er að ræða í dag. Það er einu sinni eitt að benda á að eitthvert uppátæki sé ekki einsdæmi, sé verið að ýja að slíku, en allt annað að reyna að nota slíkt til að afsaka uppátækið.

Segir það sennilega meira en margt annað um málefnalega stöðu Alfreðs í þessum efnum að hann skuli kjósa að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði í stað þess að reyna að verja umrædd uppátæki sín með málefnalegum hætti, eitthvað sem ekki hefur tekizt hingað til.

---

Hollendingar fóru að dæmi Frakka og höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins sl. miðvikudag, en með enn meira afgerandi hætti. Tæpur þriðjungur hollenzkra kjósenda greiddu atkvæði gegn samþykkt stjórnarskrárinnar, eða um 63% þeirra sam þátt tóku. Kosningaþátttaka var um 62%. Höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarskránni hefur skapað gríðarlega pólitíska óvissu innan Evrópusambandsins og á sama tíma hrundið af stað eins konar “dómínó”-áhrifum að því er virðist. Þannig snerist afstaða Dana til stjórnarskrárinnar algerlega við eftir að fyrir lá að henni hefði verið hafnað í Frakklandi og Hollandi. Það gerðist aðeins á einni viku ef marka má skoðanakannanir. Nú eru um 56% þeirra Dana sem afstöðu taka andvígir stjórnarskránni en fram til þessa hafa stuðningsmenn stjórnarskrárinnar verið í meirihluta.

Niðurstaðan í Frakklandi og Hollandi hefur líka leitt til þess að nokkrar skoðanakannanir í röð sýndu í vikunni að mikill meirihluti Norðmanna sé nú á móti því að Noregur gangi í Evrópusambandið, eða um 56%, en fram til þessa hafa aðildarsinnar þar í landi yfirleitt verið í meirihluta upp á fáein prósentustig. Hvert framhaldið verður í þessum málum er ekki gott að segja og skýrist sennilega fyrst að einhverju marki á fundi forystumanna Evrópusambandsins sem fram fer um næstu helgi.

---

Að lokum er rétt að minnast þess að á þessum degi árið 1944 gerðu hersveitir bandamanna innrás í Normandy í Frakklandi sem þá var hersetið af Þjóðverjum. Innrásin fékk dulnefnið “Operation Overlord” og var innrásardagurinn nefndur “D-day”. Innrásin er stærsta innrás frá hafi sem gerð hefur verið í sögunni og endaði með því að bandamenn náðu fótfestu í Frakklandi og gátu í framhaldinu sótt í átt til Þýzkalandi úr vestri. Ítarlegar upplýsingar um innrásina má t.a.m. finna í alfræðiorðabókinni Wikipedia.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


Evrópusambandssinnaður vandræðagangur

Upplýst var á Alþingi fyrir skemmstu að við Íslendingar höfum verið að taka upp innan við 6,5% af lagagerðum Evrópusambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) á þeim rétt rúma áratug sem við höfum verið aðilar að honum. Voru þessar upplýsingar fengnar frá skrifstofu EFTA í Brussel en ljóst er að þær eru í hrópandi mótsögn við þann áróður sem íslenzkir Evrópusambandssinnar hafa haldið að almenningi hér á landi á undanförnum árum þess efnis að umrætt hlutfall væri 70-80% og jafnvel allt upp í 90%. Hafa þær fullyrðingar verið eitt af lykilatriðunum í áróðri þeirra fyrir því að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, þ.e. að við værum hvort sem er að taka upp nánast allar lagagerðir sambandsins og gætum því allt eins gengið í það. Nú hefur hins vegar verið sýnt fram á svo um munar að ekki hefur verið steinn yfir steini í þessum málflutningi.

Það hefur annars verið afar fróðlegt, svo ekki sé meira sagt, að fylgjast með neyðarlegum viðbrögðum þeirra forystumanna íslenzkra Evrópusambandssinna sem tjáð hafa sig um þessar nýfengnu upplýsingar. Hafa viðbrögðin helzt einkennst af fálmi og vandræðalegum tilraunum til þess að hanga á einhverjum smáatriðum í því skyni að reyna að draga 6,5% töluna í efa. Það er reyndar ekki sama hvaða forystumaður Evrópusambandssinna á í hlut. Þannig hafa Eiríkur Bergmann Einarsson, fyrrv. stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, reynt að draga niðurstöðu skrifstofu EFTA í efa á sama tíma og Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, hefur gengizt við henni eftir því sem bezt verður séð.

Andrés ritaði grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem ekki kom fram neinn efi um það að 6,5% talan ætti við rök að styðjast. Hins vegar vildi hann meina að áhrif þeirra tæplega 6,5% lagagerða Evrópusambandsins, sem Ísland hefur gengizt undir vegna EES-samningsins, skiptu meira máli en hversu hátt hlutfall af heildarlagagerðum sambandsins við hefðum tekið upp. Þarna kveður auðvitað við algerlega nýjan tón í málflutningi Evrópusambandssinna í þessum efnum sem einmitt hefur hingað til allur snúist um það hversu hátt hlutfallið væri en ekki um vægi einstakra lagagerða.

Eins og áður segir hefur tilgangurinn með þeim málflutningi verið sá að telja almenningi á Íslandi trú um að við værum að taka yfir nánast allar lagagerðir Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og gætum því allt eins bara gengið í sambandið. Einn sjálfskipaði “Evrópusérfræðingurinn” úr þeirra röðum gekk jafnvel svo langt hér um árið að segja að Evrópuumræðan hér á landi ætti ekki að snúast um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið heldur hvort það ætti að ganga úr því.

En nú hefur sem sagt verið sýnt fram á með afgerandi hætti að þessi ómerkilegi áróður hefur verið algerlega úr lausu lofti gripinn og rúmlega það. Þar með hefur verið gert að engu eitt af lykilatriðunum í málflutningi íslenzkra Evrópusambandsinna og því í sjálfu sér ekki að furða að þeir séu í sárum.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is

(Birtist áður í Fréttablaðinu 2. júní 2005)


Kynbundinn launamunur

Runólfur Ágústsson rektor viðskiptaháskólans á Bifröst greindi frá því í fréttum RÚV síðastliðinn laugardag að hátt í 50% munur væri á launum nýlega útskrifaðra karla og kvenna frá skólanum en skólinn kannaði nýlega stöðu og störf útskrifaðra viðskiptafræðinga og lögfræðinga. Runólfur sagðist telja meginskýringuna vanmat atvinnulífsins á vinnukrafti kvenna og að þessi kynbundni launamunur væri hneisa. Við útskrift frá skólanum nýverið undirrituðu rektor og félagsmálaráðherra samning um að við skólann yrði stofnað rannsóknarsetur vinnuréttar og jafnréttismála. Félagsmálaráðherra lagði til við þetta tækifæri að undirbúið yrði að veita sérstakar viðurkenningar til þeirra fyrirtækja sem sköruðu fram úr í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði sérstaklega með tilliti til launa og stöðu kvenna í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækjum. Einnig kom fram hjá Runólfi að til stendur að stofna átakshóp meðal kvenna í útskriftarhópi næsta háskólaárs í því skyni að styðja þær og efla en meðal annars verður farið með þeim í gegnum ráðningarferli og slíkt. Í þriðja lagi stendur til að kynna íslensku atvinnulífi þessar niðurstöður og fá fyrirtækin í lið með skólanum við að breyta þessu.

Ónothæf mæling?
Degi síðar var rætt við Ara Edvald framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í kvöldfréttum þar sem hann sagði könnun viðskiptaháskólans ónothæfa sem mælingu á launamun milli karla og kvenna og færði góð rök fyrir þeirri skoðun sinni. Í könnuninnni er ekki að reynt að mæla launamun fyrir sambærileg störf heldur er hún fyrst og fremst vísbending um hvernig þessu tiltekna fólki vegnar á fyrstu árum sínum í atvinnulífinu eftir útskrift. Fram kom að sjónarmið samtakanna er að óskynsamlegt er að mismuna fólki á vinnumarkaði á grundvelli nokkurs annars en hæfni og vinnuframlags – annað feli í sér óstjórn. Ari sagði einnig að verið gæti að konur geri ekki nægilega miklar kröfur þegar þær ganga til samninga um laun og vísaði í samtöl sín við ýmsa aðila úr atvinnulífinu um fólk sem kemur í starfsviðtöl.

Sennilegar skýringar
Telja verður afar ósennilegt að fyrirtæki hafi það að meðvitaðri stefnu að borga konum lægri laun en körlum. Hví ættu þau að hafa slíka stefnu? Hvaða hagsmunum væru þau að þjóna með því? Laun eru að meginstefnu niðurstaða frjálsra samninga milli atvinnurekanda og launþega. Samtök vinnuveitenda og launþega semja í kjarasamningum um tiltekin lágmarkskjör. Svo semja einstakir launþegar gjarnan við vinnuveitendur sína um betri kjör. Þar er hlutverk vinnuveitandans fyrst og fremst það að ná samningi sem er sem hagstæðastur fyrir fyrirtækið innan þess ramma sem lög og kjarasamningar marka. Ef viðsemjandinn gerir tiltölulega lágar kröfur er lítill hvati fyrir vinnuveitandann að semja um mun hærri laun en krafan lýtur að. Þetta hlýtur skynsamt fólk að sjá.

Ég tel þannig að Ari eigi kollgátuna þegar hann bendir á hugsanlegar skýringar á launamun kynjanna. Það kemur líka heim og saman við könnun sem Verlsunarráð gerði fyrir nokkrum árum þar sem fram kom að konur gera að meðaltali um 30% lægri launakröfur en karlar.

Taka verður undir orð Ara um að óskynsamlegt er fyrir fyrirtæki að mismuna fólki á grundvelli annars en hæfni og vinnuframlags. Í þeim efnum er engin ástæða til að ætla annað en að konur standi að jafnaði jafnfætis körlum. Hæfir stjórnendur umbuna því starfsfólki sem stendur sig vel. Því má ætla að í fyllingu tímans hverfi sá kynbundni launamunur sem nú er til staðar. En til að svo verði verða konur jafnt sem karlar að vera ófeimnar við að gera hæfilegar launakröfur.

Vondar leiðir
Sumir hafa lagt til róttækari aðgerðir til að sporna við launamuninum en Runólfur og félagar á Bifröst. Meira að segja hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi um sérstaka stofnun sem hefði svipaðar heimildir og Samkeppnisstofnun til að gera innrásir í fyrirtæki og leggja hald á gögn í því skyni að fletta ofan af hugsanlegri mismunun! Síðan væri hægt að beita fyrirtæki viðurlögum ef í ljós kæmi að einstaklingur fengi lægri laun en einstaklingur af gagnstæðu kyni fyrir sambærilegt starf! Slíkar hugmyndir eru óhæfa og mega aldrei verða að veruleika. Hvers vegna segi ég það? Jú, því að í raun væri með því verið að afnema samningsfrelsið á vinnumarkaðinum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og öllum til tjóns. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á ég m.a. við að líklegt má telja að slíkt myndi hægja verulega á hjólum atvinnulífsins með tilheyrandi aukaverkunum svo sem auknu atvinnuleysi. Um veruleg höft á atvinnulífið væri að ræða. Svipað má segja um hugmyndir um lögbundna kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja. Með slíkum aðgerðum væri verið að skerða með óforsvaranlegum hætti – að mínu áliti – frelsi eigenda fyrirtækjanna til að velja þá stjórnendur sem þeir treysta best. Ef ég á fyrirtæki, hvers vegna ætti ég ekki að mega ráða hverjir stýra því? Ef þrjár vinkonur stofna fyrirtæki og leggja sjálfar út í tilheyrandi kostnað, hvers vegna mega þær ekki stýra því sjálfar án þess að vera skikkaðar til að skipa karl með sér í stjórnina??

Aðrar leiðir
Aðrar leiðir eru farsælli til að ná þeim markmiðum sem um ræðir. Það er engin ástæða til að ætla að konur þurfi að ná lakari samningum en karlar ef þær gera á annað borð nægar kröfur, eins og ég hef þegar komið inn á. Sé það rétt hjá Runólfi að atvinnulífið hafi vanmetið þær konur sem skólinn hefur útskrifað ættu viðkomandi konur að krefjast launa í samræmi við hæfni sína enda hljóta að vera til aðrir vinnuveitendur sem meta þær að verðleikum. Að sama skapi er full ástæða til að ætla að konum í stjórnum fyrirtækja fjölgi eftir því sem fleiri konur hasla sér völl í viðskiptum og sanna hæfni sína í fyrirtækjarekstri. Það er hagur fyrirtækja að velja sem hæfasta stjórnendur, en að ganga ekki fram hjá hæfri konu vegna karls sem hefur minni hæfni. Einnig er morgunljóst að eftir því sem konur fjárfesta meira í atvinnulífinu fjölgar þeim konum sem geta gert kröfu um stjórnarsæti á grundvelli eignarhlutar í viðkomandi félagi.

Sú leið sem félagsmálaráðherra leggur til – að verðlauna fyrirtæki sem skara fram úr í jafnréttismálum er góð að því leyti að hún er hvetjandi án þess að vera íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Einnig er bara gott um það framtak Bifrestinga að segja að koma á fót áðurnefndum átakshóp enda má leiða að því líkur eins og áður er vikið að að oft þurfi konur að temja sér að gera ríkari kröfur í sínum starfssamningum til að fá þau laun sem þær eiga skilið.

Þorsteinn Magnússon
thorstm@hi.is


« Fyrri síða

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband