Mánudagur, 24. október 2005
Mánudagspósturinn 24. október 2005

Eins og kunnugt er ályktaði Samband ungra sjálfstæðismanna gegn umsókn Ísland um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á þingi sínu sem haldið var í Stykkishólmi 39. september - 2. október sl. Ályktunin sem samþykkt var á þinginu var svohljóðandi:
Ungir sjálfstæðismenn telja að hætta eigi við framboð um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Ljóst þykir að kostnaðurinn við aðildarferlið, og þá kosningarbaráttu sem heyja þarf vegna aðildar, er gríðarlegur. Jafnframt liggur fyrir að seta í ráðinu muni hafa stóraukin útgjöld til utanríkismála í för með sér sem næg þykja fyrir. Þá hefur engan veginn verið gerð nægileg grein fyrir því hvaða verkefnum Ísland mun beita sér fyrir í Öryggisráðinu eða öðrum ávinningi af setu landsins.
Á þinginu lýsti nýkjörinn formaður SUS, Borgar Þór Einarsson, því yfir að hann hyggðist leggja fram samhljóða tillögu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og var greint frá því í fjölmiðlum að þinginu loknu. Skemmst er frá því að segja að af þessu varð þó ekki og veltir maður því eðlilega fyrir sér hvað hafi eiginlega valdið því...
---
Og í tilefni af því að forystumenn Samfylkingarinnar vilja víst endilega taka upp evru hér á landi í staðinn fyrir íslenzku krónuna. Ég hef nú áður komið inn á það á þessum vettvangi hversu fáránleg sú hugmynd er en það virðast þó engin takmörk vera fyrir því hversu misheppnuð evran er. Nú síðast var greint frá því í Financial Times að evran hefði verið einn veikasti gjaldmiðill heimsins á þessu ári. Þegar 58 helztu gjaldmiðlar heimsins voru bornir saman að þessu leyti kom í ljós að evran var aðeins í 50. sæti.
Ástæðuna fyrir þessu segir blaðið einkum vera stýrivaxtastefna Seðlabanka Evrópusambandsins og sáralítill hagvöxtur á evrusvæðinu. Vitnað er í Mario Mattera, sérfræðing í gjaldeyrismálum hjá Metzler bankanum í Þýzkalandi, sem segir að það sé hvorki útlit fyrir mikinn hagvöxt á evrusvæðinu né vaxtastig sem geti laðað að sér fjárfesta. Mattera bætti því síðan við að miklar efasemdir væru uppi um að Evrópusambandið gæti komið á þeim efnahagsumbótum sem nauðsynlegar væru til að koma evrusvæðinu á réttan kjöl.
Er þetta það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Sveinn Hannesson vilja að Ísland verði hluti af? Þetta blessaða fólk veit augljóslega ekki nokkurn skapaðan hlut hvað það er að tala um.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 21. október 2005
Aðstöðuleysi til módelsvifflugs mótmælt

Módel-svifflugfélagið Gustur mótmælir aðstöðuleysi til módel-svifflugs hér á landi. Nauðsynlegt er að reisa áttstrent fjall, í það minnsta 250 metra hátt. Toppurinn á fjallinu verður að vera sæmilega slétt gras. Bílvegur þarf að vera uppá fjallið. Með þessu væri hægt að stunda módel-svifflug í öllum vindáttum. Best væri að hið opinbera borgaði.
Enginn af meðlimum Gusts hefur sérstakan áhuga á tónlist, íslenska listdansflokknum, knattspyrnu, reiðmennsku, handbolta eða öðrum málum. Skattpeningum okkur, eins og annarra, hefur þó verið varið í aðstöðuuppbyggingu, niðurgreiðslur og styrki til þessara mála.
Öllum áhugamálum Íslendinga á að gera jafnt undir höfði, ef að veita á fé til þeirra úr opinberum sjóðum. Vegleg uppbygging knattspyrnuvalla, glæsileg tónlistarhús, reiðhallir og annað slíkt á kostnað skattgreiðanda er ekki réttlætanlegt nema að jafnræðis sé gætt. Vera má að færri hafi áhuga á módel-svifflugi en knattspyrnu og ýmsum öðrum tómstundum sem ríkisvaldið styrkir, og er það hugsanlega sökum þess að ríkisvaldið hefur ýtt undir iðkun annarra tómstunda með skattpeningum okkar í Gusti, og á kostnað útbreiðslu okkar eigin áhugamáls. Burtséð frá hversu vinsælt eða óvinsælt okkar áhugamál er (en við erum þó í það minnsta 200), þá hefur enginn rétt til að þvinga okkur til að niðurgreiða annarra manna hobbí. Við lítum þannig á að peningum okkar hafi verið stolið áratugum saman. Það er þjófnaður þegar að fjármunir eru teknir úr vasa eins, gegn vilja hans, til að nota í þágu einhvers annars.
Nú er komið að skuldadögum. Nýta skal nú opinbert fé í þágu módel-svifflugs, ellegar skal hið opinbera snúa sér að málum sem koma ríkisvaldinu við, og láta almenning huga að eigin tómstundum.
Sindri Guðjónsson
Miðvikudagur, 19. október 2005
Engu gleymt og ekkert lært

,,Þetta sýnir að hann hefur engu gleymt og ekkert lært," var það sem umræðustjórnmálamaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði að segja um fráfarandi formann Sjálfstæðisflokksins eftir setningarræðu hans á landsþingi flokksins í Kastljósviðtlali s.l. fimmtudag.
Ingibjörg lét þessi orð falla þegar hún var spurð álits á fyrrnefndri ræðu.
Ekki hafði Ingibjörg fyrir því að útskýra hvað hún ætti við með þessum orðum enda er það ekki vaninn í umræðustjórnmálum að útskýra slíkt. Hún tók hins vegar ræðunni illa og vildi lítið kannast við að hlutirnir væru í ólagi hjá Samfylkingunni.
Davíð Oddsson minntist á evruna í ræðu sinni. Gagnrýndi hann Samfylkinguna fyrir að fara fram með illa undirbúið mál og fyrir að hafa staðreyndirnar ekki á hreinu. Þessu tók Ingibjörg að sjálfsögðu illa. Hins vegar eru rök hennar fyrir upptöku evrunnar engin. Ingibjörg legst á lágt plan stjórnmálanna með því að koma fram með tillögu og hefur ekkert fyrir sér í henni heldur vill hún að aðrir komi með nógu góð rök gegn henni.
Þannig segir hún sjálf í viðtalinu: ,,Og ég segi einfaldlega, og sagði þá, að það á að snúa sönnunarbyrðinni við. Það er að segja að það fólk sem telur að evran geti verið vænlegur kostur, geti aukið útflutningstekjur Íslendinga, að hún geti aukið velferð okkar, að það fólk á ekki alltaf að þurfa að sanna mál sitt heldur hinir sem vilja halda uppi þeirri viðskiptahindrunum sem felst í krónunni. Að þeir eigi að þurfa að segja okkur af hverju það sé farsælast fyrir þjóðina að halda upp þessari viðskiptahindrun.
Það er nefninlega það. Velkomin í hugarheim umræðustjórnmála.
Já, það stendur sko ekki á henni Ingibjörgu að koma inn í efnahagsumræðuna. Hún varpar fram illa hugsuðum skoðunum og gerir gott betur, neitar að færa rök fyrir máli sínu.
Á öðrum stað í viðtalinu segir hún að Davíð sé ,,ekki stór maður eftir ræðu sína. Það má s.s. ekki gagnrýna Samfylkinguna eða stefnu hennar og þá er maður kominn niður fyrir virðingu sína.
Takk fyrir umræðustjórnmálin.
Af Ingibjörgu er það annars að frétta að auk þess að bera upp þá tillögu að taka upp evruna helst í gær þá vill hún nú hækka skatta. Ingibjörg hefur s.s. engu gleymt frá því að hún var borgarstjóri. Hún er varla komin inn í þing þegar hún er farin að tala fyrir illa hugsuðum málefnum s.s. skattahækkunum og fl.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Mánudagur, 17. október 2005
Mánudagspósturinn 17. október 2005

Nú er á enda vel heppnaður 36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Það sem stendur upp úr er án nokkurs vafa frábær setningarræða Davíðs Oddssonar, nú fyrrverandi formanns flokksins, sem hann flutti sl. fimmtudag fyrir troðfullri Laugardalshöllinni. Óhætt er að segja að ræðan hafi lagst afar vel í fundarmenn sem sáu ítrekað ástæðu til að klappa fyrir henni á meðan Davíð flutti hana og enn meira þegar flutningi hennar var lokið. Sérstaklega er mér minnisstætt mikið klapp vegna ummæla hans um Evrópusambandið sem og það hvernig Samfylkingin hefur nálgast Evrópumálin. Var í tvígang klappað á meðan Davíð fjallaði um þau mál.
Ræðu Davíðs má annars nálgast á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, bæði á textaformi sem og upptöku af flutningi hennar. Hvet ég alla til að kynna sér hana sem ekki hafa gert það nú þegar og vil ennfremur nota tækifærið til að hvetja til þess að hún verði með einum eða öðrum hætti gefin út. Það skemmir síðan ekki fyrir að ræðan hefur greinilega farið afskaplega illa í marga pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf indælt. Hafa þeir brugðist við með vandræðakenndu fálmi eins og m.a. er fjallað um í Staksteinum Morgunblaðsins í dag.
Hafi hins vegar einhver verið í vafa um pólitíska slagsíðu Fréttablaðsins ætti sá vafi nú að vera endanlega horfinn. Í forsíðufrétt blaðsins um opnunarræðu Davíðs var lögð áherzla, ekki á ræðuna sjálfa, heldur á gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, á hana. Fyrirsögnin var tilsniðin í samræmi við það og allt eftir því. Fyrirsögnin var: Viðbrögð við gagnrýni Davíðs Oddssonar á Samfylkinguna og forsetann: Eins og biturt fórnarlamb. Síðari hlutinn er tilvitnun í Ingibjörgu en ekki þótti þó ástæða til að setja það í það minnsta inn í gæsalappir heldur er því slengt upp eins og um hverja aðra staðreynd væri að ræða.
Síðan er fréttin sem vísað er til inni í blaðinu skoðuð og þar er ekki minnzt á umrædda gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar. Gagnrýninni, sem undir eðlilegum kringumstæðum hefði auðvitað átt að vera algert aukaatriði, er slegið upp sem aðalatriði í stað ræðunnar sjálfrar og hvers vegna? Hver skyldi tilgangurinn með því hafa verið? Eðlileg blaðamennska? Nú er í sjálfu sér ekkert að því frá sjónarhóli blaðamannsins þó kannað væri með skoðun einhverra á ræðunni en að gera aukaatriði að aðalatriði og slá því upp á forsíðu blaðsins hefur augljóslega ekkert með fagleg vinnubrögð að gera. Þetta er ekkert annað en pólitísk misnotkun á Fréttablaðinu sem auðvitað er langt því frá að vera eitthvað nýtt.
Til samanburðar má nefna að forsíðufrétt Fréttablaðsins, um upphaf landsfundar Samfylkingarinnar sl. vor, byggðist ekki á gagnrýni Davíðs Oddssonar á setningarræðu Össurar Skarphéðinssonar. Reyndar hefði Davíð aldrei tekið þátt í slíku enda hefur hann látið þess getið að hann hafi alltaf lagt áherzlu á að láta eins lítið á sér bera í fjölmiðlum og hann hafi getað þegar aðrir flokkar hafi verið með sína landsfundi. Þetta þætti honum sjálfsögð og eðlileg kurteisi. En það er greinilega misjafnt hversu vel fólk er alið upp.
Reyndar var það svo að þó minnzt væri á setningarræðu Össurar í forsíðufrétt Fréttablaðsins daginn eftir setningu landsþings Samfylkingarinnar þá féll hún algerlega í skuggann af annarri pólitískri slagsíðu Fréttablaðsins, afdráttarlausum stuðningi þess við það að Ingibjörg Sólrún næði kjöri sem formaður flokksins. Fyrirsögnin á forsíðunni var: Búist við sigri Ingibjargar. Og síðan var rétt imprað á ræðu Össurar í lok fréttarinnar. Vitnað var í tvær tengdar fréttir inni í blaðinu, á bls. 4 og 16.
Maður hefði svona fyrirfram haldið að á fjórðu síðunni yrði fjallað um setningarræðu formanns flokksins en það var þó aldeilis ekki heldur var þar fjallað um ræðu varaformannsins, Ingibjargar Sólrúnar. Á bls. 16, lengst inni í blaðinu, var síðan loks fjallað um ræðu Össurar. Hvergi í blaðinu var hins vegar að finna einu einustu frétt um álit stjórnmálamanna úr öðrum flokkum á því sem fram kom í ræðum Ingibjargar eða Össurar. Einhver önnur formúla hefur greinilega verið í notkun á ritstjórnarskrifstofum Fréttablaðsins þá en raunin er í dag.
Reyndar var nálgun Kastljóssins á ræðu Davíðs á fimmtudagskvöldið sömuleiðis fyrir neðan allar hellur. Ingibjörg Sólrún var þar sem kunnugt er fengin í drottningarviðtal í sjónvarpssal til að tjá sig um ræðuna fáeinum mínútum eftir að Davíð hafði lokið flutningi hennar. Hvað hefði verið sagt ef þetta hefði verið gert í vor með öfugum formerkjum? Davíð verið fenginn í drottningarviðtal í sjónvarpssal strax eftir ræðu Ingibjargar á landsfundi Samfylkingarinnar til að segja álit sitt á henni?? Að vísu hefði Davíð aldrei tekið þátt í slíkum skrípaleik eins og áður segir.
Á eftir var rætt við Karl Th. Birgisson, blaðamann og fyrrv. framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, og Ólaf Teit Guðnason, blaðamann. Tjáði Karl sig þar um ræðuna vinstri hægri og var síðan beðinn að gefa henni einkunn í lokin af þáttarstjórnendunum þó hann hefði viðurkennt í viðtalinu að hann hefði hvorki heyrt né lesið ræðuna! Það kom þó ekki í veg fyrir að hann léti eins og hann væri sérfróður um innihald hennar og þess umkominn að gagnrýna hana á alla lund. Sá er þó auðvitað munurinn á Ríkissjónvarpinu og Fréttablaðinu í þessum efnum að um er að ræða hefðbundin vinnubrögð hjá því síðarnefnda.
En svo komið sé aftur að meðhöndlun Fréttablaðsins á ræðu Davíðs þá var hún einungis hið bezta mál þegar allt kemur til alls enda ljóst að blaðið gerði lítið annað með þessu útspili sínu en að staðfesta rækilega það sem kom fram í ræðunni um stöðu fjölmiðlamála á Íslandi sem og það sem Davíð og fleiri hafa sagt um þau mál fyrr og síðar.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 14. október 2005
Veljum íslenska vinstrimenn

Fyrirsögn þessi kann að hljóma hálf einkennilega og er vart í anda íhaldsins. Ég er ekki að leggja til að fólk fari að kjósa Vinstri-græna og Samfylkinguna. Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að íslenskir vinstrimenn hafi ákveðna kosti umfram flesta erlenda vinstrimenn. Þeir eiga það til að taka fyrirvaralausar u-beygjur til hægri í einstaka málum. Hvar annarstaðar en hér flykkjast vinstrimenn út á götur til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda til að takamarka völd auðhrings? Hvar annarstaðar finnum við vinstrimenn sem berjast gegn lögum um hringamyndun á markaði? Hinn miðju-sækni Sjálfstæðisflokkur hefur gott að smá aðhaldi frá hægri stöku sinnum, og ekki er það verra þótt aðhaldið komi frá Samfylkingunni.
Þeir Baugsmenn ættu að vita að hag þeirra er þeim mun betur borgið eftir því sem markaðurinn er frjálsari og skattar á fyrirtæki og fjármagnstekjuskattur lægri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið stór skref til að leysa markaðinn undan höftum ríkisvaldsins og hafa lækkað skatta á fyrirtæki og fjármagnstekjuskattinn svo um munar. En það má alltaf gera betur. Það er spurning hvort að þeir Baugsmenn ættu ekki að taka upp samstarf við menn hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn? Væri ekki bara ljómandi gott að veita hinu málamyndandi miðju-moðs-blaði, Mogganum, sem hvetur Sjálfstæðisflokkinn til að færa sig yfir á miðjuna í leiðurum sínum, ærlega ráðningu?
Ókeypis fréttablað inn á heimili landsins, með ærlegri hægri slagsíðu í boði Baugs, myndi gera Moggann með öllu óþarfan.
Sindri Guðjónsson
Miðvikudagur, 12. október 2005
Tvöfeldni á háu stigi

Frjálslyndi flokkurinn hefur sem kunnugt er sent erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem óskað er eftir rökstuddu áliti hans á því hvort Gunnari Örlygssyni, alþingismanni, hafi verið heimilt að segja skilið við flokkinn sl. vor og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Vilja frjálslyndir meina að þingsæti Gunnars sé flokksins en ekki hans og honum hafi því ekki verið heimilt að flytja það með sér yfir í raðir sjálfstæðismanna og þannig styrkja þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar.
Sigurður Líndal, lagaprófessor, tjáði sig um þetta uppátæki Frjálslynda flokksins í fréttum Bylgjunnar 5. október sl. og sagðist efast stórlega um að málið væri tækt til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Stjórnarskrá lýðveldisins væri alveg skýr hvað þessa hluti varðaði, þingmenn væru ekki bundnir af öðru en eigin sannfæringu.
Sagðist Sigurður undrast erindi frjálslyndra í ljósi þessa. Það væri alveg skýrt af ákvæðum stjórnarskrárinnar að Gunnari hefði verið heimilt að yfirgefa Frjálslynda flokkins og ganga til liðs við annan. Í 48. grein stjórnarskrárinnar segir orðrétt: Alþingismenn eru eingöngu bundnir að sannfæringu sinni og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.
Eins og ég hef annars fjallað um áður hér á Íhaldinu er nálgun Frjálslynda flokksins á þessu máli öllu hin undarlegasta. Á sama tíma og frjálslyndir hafa hamast gegn Gunnari fyrir að hafa sagt skilið við sig og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn sáu þeir ekkert að því á sínum tíma og sjá ekki enn að Ólafur F. Magnússon skyldi segja skilið við borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna í lok árs 2001 og ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn í kjölfar þess.
Ólafur hefði auðvitað átt, samkvæmt formúlu frjálslyndra, að segja af sér sem borgarfulltrúi í stað þess að halda embættinu enda væntanlega skoðun þeirra að það hafi verið Sjálfstæðisflokksins en ekki Ólafs, ekki satt? Nei, það gilda víst einhverjar aðrar formúlur í herbúðum Frjálslynda flokksins þegar slíkt beinist gegn öðrum en þeim sjálfum.
Annað dæmi um þessa tvöfeldni má nefna en það var fyrir ári síðan þegar Kristinn H. Gunnarsson var settur út úr öllu þingnefndarstarfi á vegum Framsóknarflokksins. Þá báru formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna víurnar í hann og buðum honum að ganga til liðs við sig. Þá þótti ekkert að því þó þingmaður færði sig um set yfir í annan flokk vegna þess að honum þætti óbærilegt í eigin flokki því það hefði komið niður á ríkisstjórninni.
Það nýjasta í þessum efnum eru upphrópanir sumra um að Gunnar ætli sér að koma í veg fyrir að varamaður hans geti tekið sæti á Alþingi í vetur. Síðan hvenær eiga varaþingmenn einhverja heimtingu að taka sæti á Alþingi? Þetta eru varaþingmenn sem einungis er ætlað að hlaupa í skarðið ef svo illa vill til að viðkomandi þingmenn geti ekki sinnt störfum sínum sem skyldi. Í gegnum tíðina hafa ófáir varaþingmenn aldrei tekið sæti á Alþingi án þess að ástæða hafi þótt til að gera sérstakt mál út af því. En nú þykir allt í einu ástæða til þess.
Ég held að það sé ekkert nema gott um það að segja ef Gunnar hyggst leggja sig fram við að sinna vinnunni sinni í vetur eins og hann á að gera. Ég næ ekki þeim málflutningi að hann sé með því að svína á einhvern eins og sumir hafa viljað orða það. Varaþingmenn eiga einfaldlega enga kröfu um að taka sæti á þingi.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Mánudagur, 10. október 2005
Mánudagspósturinn 10. október 2005

Niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna voru einkar ánægjulegar. Sjálfstæðisflokkurinn mældist þar með 44% fylgi og hafði þá farið upp um heil átta prósetustig frá því mánuði áður. Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um það hverju þetta sætti og margir viljað tengja það við breytingar á forystu flokksins. En hvað sem þessu veldur eru þetta ánægjulegar fréttir og verður fróðlegt að fylgjast með næstu könnunum.
En það er annað sem vakti ekki síður athygli í þessari skoðanakönnun en góður árangur Sjálfstæðisflokksins. Fylgi Samfylkingarinnar heldur nefnilega áfram að minnka eins og raunin hefur verið frá því í vor þegar formannsskipti urðu í flokknum og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við taumunum. Mér skilst að ástæða þess að skipt var um manneskju í brúnni hafi verið óánægja margra flokksmanna með fylgi Samfylkingarinnar.
Samfylkingin ætlaði sér að verða stærsti stjórnmálaflokkur landsins eftir síðustu alþingiskosningar sem kunnugt er en það gekk ekki eftir frekar en önnur markmið hennar fyrir kosningarnar. Flokkurinn fékk þá aðeins 31% fylgi og náði því ekki þeim 35 prósenta múr sem talað var um að ná þyrfti. Sá múr var reyndar færður niður í 30% rétt fyrir kosningarnar þegar sýnt þótti að Samfylkingin myndi ekki standa undir þeir væntingum að komast yfir 35 prósentin.
Um það leyti er Ingibjörg Sólrún tók við sem formaður Samfylkingarinnar í maí sl. mældist fylgi flokksins 34%, í júní mældist það 33%, í júlí 32% og í ágúst var það svo komið niður í 30%. Í síðustu skoðanakönnun Gallup fyrir september var fylgi flokksins svo aðeins 29% og verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig næstu kannanir verða í þessu sambandi líka. Ef fylgið heldur áfram að lækka og jafnvel þó það stæði bara í stað á þessum slóðum hljóta menn að spyrja sig að því hvers vegna þeir hafi eiginlega verið að skipta um foringja í flokknum?
Ekki veit ég nákvæmlega frekar en aðrir hvers vegna fylgi Samfylkingarinnar hefur stöðugt farið lækkandi undanfarna mánuði en það er engu að síður nokkuð ljóst að Ingibjörg Sólrún hefur ekki beint verið að slá í gegn þann tíma sem liðinn er síðan hún var kjörin formaður flokksins. Hún hefur gert hvert axarskaftið á fætur öðru og má þar m.a. nefna algerlega misheppnaða og tilefnislausa gagnrýni á það hvernig staðið var að sölu Landssímans nú í sumar.
Ingibjörg Sólrún hefur komið manni fyrir sjónir sem ráðvilltur og örvæntingarfullur stjórnmálamaður síðan hún tók við taumunum í Samfylkingunni og skyldi engan undra. Ég var persónulega mjög ánægður með það að hún skyldi verða kosin sem formaður flokksins enda er ég sannfærður um að hún sé að mestu útbrunnin sem stjórnmálamaður og standi engan veginn undir þeim vætningum sem gerðar eru til hennar. Fyrir utan það að Samfylkingin með hana sem formann er langtum ólíklegri til að verða aðili að ríkisstjórn en ella.
Síðasta útspil Ingibjargar og Samfylkingarinnar er dæmigert fyrir þá örvæntingu sem virðist fara vaxandi innan flokksins, þ.e. að lýsa því yfir að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Hver vill ganga í Evrópusambandið núna eins og staðan er þar innanborðs bæði pólitískt og efnahagslega og bara að öllu leyti??? Það er allt í bullandi krísu þarna sem enginn sér fyrir endann á. Sennilega verstu krísu sem sambandið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir.
Og evran? Evran er gangandi lík ef marka má sífellt fleiri virta aðila í alþjóðlega fjármálageiranum. Ber þar einkum að nefna annan stærsta banka heimsins, HSBC í London. Bendi að öðru leyti á nýlega grein eftir mig hér á Íhaldinu sem ég reit fyrir skemmstu um evruna og slæma stöðu hennar. Rétt er þó að geta þess að þar var aðeins stiklað á því helzta í því sambandi og er engan veginn um tæmandi yfirlit að ræða um það svartnætti sem evran er stödd í og raunar verið meira eða minna stödd í síðan hún var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill í byrjun árs 2002.
Og Samfylkingin ætlar víst að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi á næstunni um að kannaðir verði kostir og gallar þess að taka upp evruna hér á landi. Bíddu, starfrækir forsætisráðuneytið ekki sérstaka nefnd um Evrópumálin þar sem Samfylkingin hefur sína fulltrúa? Hvers vegna leggur flokkurinn þá ekki fram þessa tillögu í þeirri nefnd sem sérstaklega var sett á laggirnar til að kanna þetta mál og hefur kannski nú þegar gert það?
Annars er Samfylkingunni meira en frjálst mín vegna að óska eftir því, hvort sem það er á Alþingi eða annars staðar, að kannaðir verði kostir og gallar þess fyrir Ísland að taka upp evruna. Engar líkur geta talizt á að niðurstaða slíkrar athugunar yrðu Ingibjörgu Sólrúnu og co. að skapi sé faglega og eðlilega að því verki staðið.
Eins og áður segir er ekki nóg með að evrusvæðið sé á góðri leið með að verða ein rjúkandi rúst heldur liggur fyrir að upptaka hennar hér á landi myndi engan veginn henta íslenzku efnahagslífi. Auk þess sem evran verður ekki tekin upp hér á landi nema samhliða aðild að Evrópusambandinu með öllum þeim ókostum sem slíkur gjörningur myndi hafa í för með sér fyrir Ísland.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 7. október 2005
Af andrúmslofti og meintri græðgi

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, fór mikinn í ávarpi á ársfundi Starfsgreinasambands Íslands í vikunni. Grétar lagði mikla áherslu á að ,,andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi, sem menn hafi ekki áður upplifað jafn sterkt og um þessar mundir.
Grétar útskýrði þessi orð sín ekkert frekar. Hann hélt reyndar áfram og sagði Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp og ég hef ekki séð að stjórnvöld hafi haft uppi neina tilburði til að koma í veg fyrir þessa þróun."
Ég býð ennþá þess tíma þegar verkalýðsforingjar átta sig á því hvernig raunveruleikinn virkar. Grétar hefur nú lagst niður á sama lága plan og ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar með því að útskýra allt það sem þeim mislíkar í samfélaginu sem andrúmsloft sem einhver ber ábyrgð á, í þessu tilviki á það líklega að vera ríkisstjórnin. Allavega segir Grétar í ræðu sinni að ríkisstjórnin hafi ekkert gert til að vinna gegn fyrrnefndu andrúmslofti.
Þá er ekki úr vegi að spyrja, er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að berjast gegn andrúmslofti? Ef að andrúmsloftið er græðgi, eins og margir vilja halda fram, á þá ríksstjórnin að berjast gegn því. Segjum nú að ,,andrúmsloftið væri níska. Gætu þá t.a.m. sölumenn og fl. komið fram í fjölmiðlum og sakað ríkisstjórnina um að berjast ekki gegn þessu.
Ég held þó því miður við getum tæplega haldið því fram að þetta sé velferðarfrumvarp með félagslegum áherslum. Þetta stórkostlega tækifæri til að snúa við blaðinu og hreinlega þurrka út stærstu vankantana á velferðarkerfinu er notað til að færa þeim meira sem mest hafa, með því að útfæra illa tímasettar skattalækkanir þannig að hátekjufólkið fær mest.
Síðan hefur andrúmsloftið, þenslan og græðgin gert það að verkum að sumir atvinnurekendur hafa notfært sér ástandið og fengið til starfa erlent vinnuafl sem síðan er misnotað til að knýja niður kjör á almennum vinnumarkaði," sagði Grétar m.a. í ræðu sinni.
Verkalýðsleiðtogar og margir stjórnmálamenn eru alltof duglegir við að velja sér tískuorð til að vekja athygli á málstað sínum. Oft á tíðum blaðra menn einhverja vitleysu sem ekki nokkur maður skilur en hún hljómar bara vel í eyrum þeirra sem ekki vita betur.
Nú hefur margoft verið sýnt fram á að skattalækkanir núverandi ríksstjórnar eru að koma fólki með lágar- og miðlungs tekjur nokkuð vel. (Hafa skal í huga að ef hér væri vinstri stjórn væru skatta ekkert að lækka). Andrúmsloft, þensla og græðgi hafa ekkert með það að gera að menn skuli flytja inn erlent vinnuafl. Það er einfaldlega hagræðing sem er í takt við allt það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Hagræðing er hins vegar orð sem vinstrimenn og verkalýðsleiðtogar vilja ekki kannast við.
Svo orkar það líka tvímælis að verkalýðsleiðtogar með hátt í milljón á mánuði skuli í sífellu þykjast vera að berjast fyrir málstað láglaunafólks. Þeir eru út takti við raunveruleika þess fólk sem þeir þykjast vera að berjast fyrir.
Það sem einnig er áhugavert að athuga er að Grétar hefur ekkert fyrir sér í því að það hafi fjarað undir samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp. Það er enginn mælikvarði á slíku og þetta aðeins hluti af áróðursstríði ASÍ. Samkennd og samhjálp samkvæmt þeirra skilningi er oftast fólgin í því að seilast í vasa skattgreiðenda og neyða þá til að greiða fyrir hitt og þetta. Grétar gleymir því að hér eru starfræktur fjöldinn allur að líknafélögum sem meira og minna eru rekin á sjálfboðastarfi og frjálsum framlögum. Það er allt í lagi að menn í stöðu eins og Grétar sýni fram á hvað þeir meini með slíkum upphrópunum.
Ég hef áður skrifað um verkalýðsleiðtoga hér á síðuna en ég til oft að þeir geri verkafólk í þjóðfélaginu meiri skaða en gagn. Hvet ég fólk til að lesa þá grein.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Fimmtudagur, 6. október 2005
Ritstjórnarviðhorf - 16 ára stúlka hengd í Íran
Þann 15.águst var 16 ára gömul stúlka hengd á fjölfarinni götu í miðbæ Neka í norður Íran fyrir það að hafa haft samfarir sex sinnum ógift. Stúlkan var dæmd til dauðu í undirrétti, og var dóminum ekki haggað í hæstarétti Írana.
Hún fékk enga lögfræði aðstoð, þrátt fyrir að hafa borið sig eftir henni eftir fremsta megni.
Hvergi í heiminum eru framkvæmdar eins margar dauðarefsingar og í Íran, og mjög oft eru það unglingar sem eru teknir af lífi.
Íhald.is vill vekja athygli á þessu og vekja fólk til vitundar.
Íhald.is fordæmir slíkar refsingar og vonar að fleiri taki undir.
Ritstjórn Íhald.is
Sjá meira um málið:
http://www.iranfocus.com/modules/news/article.php?storyid=80 http://www.iranfocus.com/modules/news/article.php?storyid=137
Miðvikudagur, 5. október 2005
Tillögur til Borgars Þórs

Borgar Þór Einarsson var kjörinn formaður Sambands Ungra Sjálfstæðismanna á ný afstöðnu þingi sambandsins. Ég er hér með fjórar tillögur til Borgars Þórs, sem settar eru fram í fúlustu alvöru, þrátt fyrir að ýmsilegt gæti virst spaugilegt í þeim. SUS þarf að verða virkara félag. Vinstrimenska er í tísku hjá ungu fólki í dag, og þykir voðalega töff og flott. Það er auðvelt að vera á móti, að vilja bæta hag þeirra sem minnst mega sín o.s.frv. Ungir Sjálfstæðismenn þurfa að vera duglegir við að benda á siðferðislega og efnahagslega yfirburði Sjálfstæðisstefnunnar, gera hana töff og cool. Þegar ég hóf nám við Háskólann á Akureyri sá ég að skólinn var fullur af plagötum frá Samfylkingunni, félagi Herstöðvaandstæðinga og annarra vinstri afla. Ekkert bólaði þó á málflutningi Sjálfstæðismanna. Ég sé fólk útum allt með VG nælur, í Che Guevara bolum og slíku en engan sé ég með Sjálfstæðisflokks barmmerki. Það er orðið tímabært að mála landið blátt láta í sér heyra. Ef að ungir Sjálfstæðismenn þegja meðan að hugmyndafræði vinstrimanna er predikuð, verður okkar hugmyndafræði undir. Hér koma tillögurnar:
- Útvarpsstöð
SUS ætti að koma á laggirnar útvarpsstöð sem flytti pólítískan áróður og fréttir. Nóg er af fréttum í vinstri-sinnuðu ljósi. Efist einhver um það ætti hann að lesa bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlar 2004. Ýmsir framhaldsskólar, AA-samtökin og fleiri, hafa stofnað útvarpsstöðvar, og ætti SUS alveg að ráða við það verkefni. Ég legg til að Bjarni Már Magnússon verði með fasta þætti um landgrunnsmál, botnvörpu veiðar og réttarstöðu geimvera og að Arnar Þór Stefánsson fjalli um landbúnaðarmál (segja kýr mu eða mö?) hlustendum til ómældrar skemtunar. Einnig þyrftu að vera alvarlegri þættir um stjórnmál. Ég óska hér með eftir stöðu útvarpsstjóra. Ég bendi einnig á það að ýmis fyrirtæki í þessu landi eru velviljuð í garð Sjálfstæðisflokksins og sníkjuferðir til styrktar stöðinni ættu að vera nokkuð þægilegar.
- Ókeypis dagblað
SUS ætti að dreifa blaði sem er í svipuðu formi og Grapevine í sjoppur og skóla, og dásama kosti frjáls markaðshagkerfis, og flytja fréttir af vondri stöðu mála í Venesúela, Kúpu og fleiri haftalöndum. Það eru alltaf einhverjir með áróður gegn kapítalismanum (ég man eftir grein í Grapevine um gjaldþrot Kapítalismanns til að nefna dæmi). Staðreyndin er sú að Kapítalisminn er einn helsti grundvöllur framfara og velmegunnar í heiminum. Benda þarf aðdáendum Sósíalisma á það að Kúpverjar flýja á gúmmíslöngum frá Kúpu og yfir til Bandaríkjanna. Benda þarf á að landsframleiðsla og verðmætasköpun dregst saman á ógnarhraða í Venesúela, þrátt fyrir að þeir flytji út óhemju mikið af olíu. Það mætti einnig benda á ýmislegt óréttlæti í veröldinni. 4000 manns hafa verið teknir af lífi síðan árið 1979 í Íran fyrir það að vera samkynhneigðir. Dauðadómurinn býður einnig þeirra sem stunda kynlíf fyrir hjónaband í Íran, komist verknaður þeirra upp, og hafa margir týnt lífi fyrir þær sakir, m.a. 16 ára stelpa í águst í ár. Einnig mætti vekja athygli á því að um 100.000 manns eru þrælar í Súdan. Skemmtilegt væri að segja sögu af nema nokkrum í Harvard sem fór nýlega til Súdan og keypti sér þræl á opnum þrælamarkaði, bara til að prófa. Tala mætti um ótvíræða kosti HNATTRÆNS FRELSIS, sem menn kalla oft alþjóðavæðingu, sem er gildishlaðið neikvætt orð í hugum vinstri manna. Það er margt hægt að skrifa í svona blað. Ég býð sjálfan mig fram til blaðamensku á blaði þessu, og til vara sem ritstjóra, fái ég ekki embætti útvarpsstjóa SUS. Ég minni aftur á þægilegar snýkjuferðir til velviljaðra fyrirtækja.
- Sögurýnishópur
SUS ætti að setja á laggirnar sögurýnishóp. Í þessum hópi mætti grafa það upp að ýmsir frambjóðendur nútímalegra jafnaðarmanna vildu banna frjálsa fjölmiðlun í landinu. Þeir vildu m.ö.o. að RÚV eitt fengi að starfa bæði á útvarps og sjónvarpsmarkaði. Vinstri menn voru andvígir því að verslanir fengju að vera opnar allan sólarhringinn, og hafa alltaf viljað banna og banna og banna og banna og banna og svo banna aðeins meira. Þetta ætti að kynna vel og rækilega fyrir ungu fólki í landinu. Síðan mættu SUS liðar vera duglegir við að spyrja þessa stjórnmálamenn spjörunum úr: ,,Hvers vegna máttu Bylgjan og Stöð 2 ekki hefja starfsemi sína?. ,,En væri það ekki bara hreint og klárt ofbeldi að banna Matarkaupum hf, að hafa búð sína opna seint á kvöldin?... Þetta yrði skemmtilegt. Minni aftur á þægilegar snýkjuferðir!
- Samstarf við fyrri stjórn SUS og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson
Það var einkennilegt að enginn úr fráfarandi stjórn SUS náði kjöri í stjórn á landsþinginu um helgina, nema sá einn sem lýst hafði yfir stuðningi við Borgar Þór. Það var Stefán Friðrik Stefánsson, formaður Varðar á Akureyri, og skrifar hann m.a. pistla hérna hjá okkur á íhaldinu. Það eru margir með mikla reynslu og kunnáttu sem virðast ekki fá að nýta krafta sýna í þágu SUS. Margir þeirra eru með hugmyndafræðina alveg á hreinu, og flinkir talsmenn frelsis í viðskiptum. Hér er ég að tala um marga fráfarandi stjórnarmenn í SUS og Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson sem hlaut 458 atkvæði í formannskosningu Heimdallar um daginn svo að dæmi séu tekin. Slíkum á að veita mikilvæg verkefni, svo sem eins og framkvæmdastjórastöðuna. Það gæti leitt til sátta innan SUS, sem leiddi til þess að fleiri hendur kæmu að starfseminni. Margar hendur vinna létt verk. Óþarfi er að fara í snýkjuferðir til að fjármagna þennan lið.
Kveðja
Sindri Guðjónsson,
ritari Varðar, félags ungra Sjálfstæðismanna á Akureyri, og í ritstjórn íhald.is
P.S. Ég vil þakka Kára Allanssyni fyrir innblástur sem hann veitti mér á leiðinni til og frá Stykkishólmi.
Mánudagur, 3. október 2005
Mánudagspósturinn 3. október 2005

Sú var tíðin að áróður íslenzkra aðdáenda Evrópusambandsins gekk allur meira eða minna út á það að við Íslendingar værum að missa af einhverri hamingjulest til paradísar með því að standa fyrir utan sambandið. Talað var um hástemmd hugtök í því sambandi eins og "Evrópuhraðlestina" og sitthvað í þá veruna. Þessi málflutningur var sérstaklega áberandi á síðasta áratug nýliðinnar aldar. En svo breyttist þetta allt fyrir aðeins fáeinum árum og síðan hefur áróðurinn allur verið með allt öðru móti. Ekki er lengur skírskotað til Evrópusambandsins sem einhvers konar paradísar þar sem lífið sé svo miklu, miklu betra en utan þess. Rauði þráðurinn er heldur ekki lengur sá að það sé eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að ganga í sambandið. Nú eru skilaboðin þau að Ísland muni fyrr eða síðar neyðast til að ganga í Evrópusambandið hvort sem fólkinu í landinu líkar það betur eða verr og því sé eins gott að gera það bara sem fyrst. Hin meinta paradís er sem sagt orðin að meintri nauðung í munni íslenzkra Evrópusambandssinna.
Annars er þessi merkilega þróun út af fyrir sig ekki skrítin ef málið er skoðað nánar. Það hefur einfaldlega reynst sífellt erfiðara og erfiðara fyrir íslenzka áhangendur Evrópusambandsins að telja fólki trú um að það sé gott að ganga í sambandið, sérstaklega með tilliti til efnahagsmála. Og undir það síðasta hafa þeir augljóslega með öllu gefið slíkar tilraunir upp á bátinn og þess í stað tekið þann pól í hæðina að reyna að sannfæra fólk um að það muni ekki hafa neitt val um það hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Það sé bara afgreitt mál og fólk muni ekki hafa neitt um það að segja. Eins lýðræðisleg og þau skilaboð nú eru! En Evrópusambandið verður nú seint skilgreint sem lýðræðislegasta fyrirbæri sem fyrirfinnst og kannski smitast eðli þess út til þeirra sem trúa á það í blindni.
Spurningin í nýjustu könnuninni á Pólitík.is, vefriti ungra jafnaðarmanna, er einmitt lýsandi dæmi um þennan hugsunarhátt skósveina Evrópusambandsins hér á landi. Hún er svo hljóðandi: Eigum við taka upp evruna þegar við göngum í ESB? Fyrir það fyrsta efast ég stórlega um að þeir sem ábyrgð bera á þessari spurningu séu frekar en aðrir þess umkomnir að fastnegla að jafn ólíklegur atburður eigi sér stað á einhverjum tímapunkti í framtíðinni og að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í annan stað lýsir spurningin auðvitað alveg ótrúlegri vanþekkingu á Evrópumálunum en eins og flestir vita sem eitthvað vita um þann málaflokk er upptaka evrunnar skilyrði fyrir aðild nýrra ríkja að sambandinu. Þannig að það yrði ekkert val um það hvort evran yrði tekin upp hér á landi eða ekki tækju Íslendingar á annað borð upp á þeirri endemis vitleysu að ganga í Evrópusambandið.
Ég sendi annars ritstjóra Pólitík.is (sem reyndar er víst hættur núna) tölvupóst fyrir helgi og benti honum á þetta til gamans en bað hann samt lengstra orða að hrófla ekki við könnuninni þar sem ég hefði ekkert á móti því að pólitískir andstæðingar mínir skytu sig í fótinn með því að opinbera vanþekkingu sína. Ég fékk að vísu ekkert svar frá ritstjóranum en hann hefur a.m.k. greinilega orðið við ósk minni því könnunin er enn á sínum stað óbreytt. Það er einkar ánægjulegt :)
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 30. september 2005
Þing kemur saman – forsetaskipti á Alþingi

Alþingi verður sett á morgun af forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu eftir hefðbundna messu í Dómkirkjunni. Óhætt er að fullyrða að þáttaskil séu í þinginu nú þegar að það kemur saman að nýju á þessu hausti. Fjórir þingmenn hafa horfið á braut frá síðasta þingfundi, þau Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar I. Birgisson. Þrjú þau fyrstnefndu hafa tekið þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang og hafa því sagt af sér þingmennsku en Gunnar hefur hinsvegar tekið sér ársleyfi frá störfum, enda orðinn bæjarstjóri í Kópavogi, fyrstur sjálfstæðismanna.
Í stað þeirra taka nú sæti á þingi þau Ásta Möller, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Mest þáttaskil fylgja óneitanlega brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf Davíðs að mínu mati. Valdaferill hans var gríðarlega öflugt tímabil í sögu þjóðarinnar og hann leiddi það af miklum krafti - var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill.
Fleiri þáttaskil fylgja setningu þingsins á þessu hausti. Á fyrsta þingfundi verður Sólveig Pétursdóttir fyrrum dómsmálaráðherra, kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þeirra sem sitja á þingi. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mjög mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hefur Halldór Blöndal setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni og umbjóðendur sína í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað í.
Hef ég ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég vildi að Halldór sæti áfram á forsetastóli Alþingis. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði.
Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið.
Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Það hafa fáir menn á vettvangi þingsins verið vinnusamari og ötulli við að vinna að baráttumálum til eflingar virðingu þingsins sem stofnunar en hann. Andstæðingar hans réðust óhikað að honum og fundu honum óvirðuleg orð vegna þess að hann dirfðist að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem hann gerði við þingsetningu fyrir ári, eins og fyrr segir. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því.
Það var til marks um ómerkilegheit stjórnarandstöðunnar að hún allt að því sakaði Halldór um að níða niður þingið með því að tjá skoðanir sínar í þingsetningarræðu sinni í fyrra. Að mínu mati er Alþingi hinn eini sanni vettvangur frjálsrar umræðu, þar sem allar skoðanir mega koma fram, af hálfu þeirra sem kjörnir eru þar til trúnaðarstarfa, hvort sem um er að ræða þá sem hljóta kjör til þeirra verka af hálfu þjóðarinnar sem þingmenn eða þeirra sem þingmenn kjósa til forystu á vettvangi þingsins sjálfs. Það er öllum frjálst að hafa skoðanir, tjá þær og verja ef einhverjir eru ósammála. Það er aldrei hægt að ætlast til að allir séu sammála um hitamál samtímans.
Það er rétt sem Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður og forveri Halldórs á leiðtogastóli Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra , sagði í blaðaviðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að stjórnmálin séu enginn hægindastóll. Það er alveg ljóst að sá stjórnmálamaður sem situr á stóli forseta Alþingis er ekki á pólitískum hægindastóli. Hann sækir sitt umboð til kjósenda, rétt eins og aðrir þingmenn, en hefur vissulega umboð sitt til forsetastarfa frá þingmönnum. Það hefur gustað oft um Halldór á ferli hans hann hefur sett mark sitt á íslensk stjórnmál. Á þeim sex árum sem hann gegndi embætti forseta Alþingis voru þingmenn sumir hverjir misjafnlega vel sáttir við stjórn Halldórs sem forseta á þingfundum.
En það er til marks um virðinguna sem þingmenn bera fyrir persónu Halldórs Blöndals hversu vel þeir kvöddu hann er hann stýrði sínum síðasta þingfundi í maímánuði, fyrir þinglok. Þar töluðu fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu af virðingu um störf hans og forystu af hálfu þingsins seinustu árin. Hann átti það enda vel skilið - þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans.
Það er óhætt að segja að ég hafi mjög lengi borið mikla virðingu fyrir þessum mæta manni, þau ár sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hér fyrir norðan. Eins og flestir vita er ég formaður í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Einn forvera minna á þeim stóli er Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Á 75 ára afmæli Varðar fyrir tæpum tveim árum var Halldór gerður að heiðursfélaga í Verði. Átti Halldór þá nafnbót svo sannarlega vel skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið.
Halldór hefur unnið af krafti í öllum sínum stjórnmálastörfum og frægur er fyrir löngu orðinn metnaður hans í samgöngumálum og tillaga hans um Stórasandsveg er þar frægust og vonandi verður hún að veruleika, fyrr en síðar. Hann var formaður Varðar 1964-1965 - varð það upphafið á litríkum stjórnmálaferli hans og forystu fyrir norðlenska sjálfstæðismenn. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt. Ég vil nota tækifærið og óska Halldóri góðs á þeim þáttaskilum er hann lætur af forsetaembættinu og tekur við formennsku í einni af mikilvægustu nefndum þingsins, utanríkismálanefnd.
Það er alveg ljóst að það verður gaman að fylgjast með þingstörfunum í vetur. Þó veturinn verði væntanlega kaldur verður funheitt í íslenskum stjórnmálum á kosningavetri.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 28. september 2005
Velkominn til starfa Árni: Það er nóg að gera

Árni M. Mathiesen hefur nú tekið við starfi fjármálaráðherra. Árni er að mínu mati mjög merkilegur maður. Hann hefur þurft að taka óvinsælar ákvarðanir og hefur staðið fastur á bakvið þær hvernig sem vindar blása. Frægt er þegar sjómenn buðu Árna ekki að taka þátt í sjómannadeginum í heimabæ sínum fyrir nokkrum árum. Það eru ekki margir stjórnmálamenn sem hafa það hugrekki að standa fast á bakvið ákvarðanir sínar. Margir hverjir breyta skoðunum eftir nýjust könnunum og eru eins og vinhanar sem ekkert fá staðist. Sem betur fer hafa slíkir stjórnmálamenn ekki verið við völd í landsstjórninni undanfarin ár. En það er nú annað mál.
Árni Mathiesen tekur við góðu búi af Geir H. Haarde. Reyndar tók Geir einnig við góðu búi af Friðriki Sophussyni á sínum tíma. Allt frá því að Davið Oddsson myndaði sínu fyrstu ríkisstjórn árið 1991 hafa ríkisfjármál verið tekin föstum höndum. Fyrsta verk þáverandi fjármálaráðherra var að ná tökum á þeirri stanslausu eyðslusemi og vanrækslu ríkissjóðs sem forveri hans í starfi, Ólafur Ragnar Grímsson, stóð fyrir. Á s.l. 14 árum hefur náðst að halda verðbólgu í jafnvægi og vel verið hugsað um ríkissfjármálin. Eitt stærsta verkefni núverandi ríkissjórnar hefur verið að einkavæða stór ríkisfyrirtæki eins og bankana, Símann og fleiri fyrirtæki sem eru að sjálfsögðu betur farin í höndum einkaaðila eins og dæmin með bankana hafa sýnt. En jæja, látum þetta nægja af lofsöng um ráðherrana.
Það er mikið verk eftir óunnið. Nýr fjármálaráðherra þarf að taka enn fastar á útgjöldum ríkissjóðs til að hægt sé að lækka skatta enn frekar en það sem hefur þegar verið lofað. Ekki geri ég ráð fyrir öðru en að núverandi ríkisstjórn standi við þær skattalækkanir sem þegar hafa verið tilkynntar. En betur má ef duga skal. Enn er ríkið að standa í gæluverkefnum stjórnmálamann og enn er ríkið að borga undir sérhagsmunahópa verulegar fúlgur af fjármagni sem væri betur komið hjá skattgreiðendum sjálfum. Þó svo að núverandi ríkisstjórn hafi oft á tíðum verið eyðslusöm þá hefur hún gengið lengra en margar aðrar í lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Geri ég ráð fyrir að á því verði framhald.
Eins og áður var minnst á hefur þessi ríkisstjórn verið stórtæk í einkavæðingu. Hins vegar er ríkið enn að vasast í ýmiss konar rekstri sem er betur falinn í höndum einkaaðila. Eins og sést í svari fv. fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar á ríkið enn hluti, misstóra þó, í mörgum fyrirtækjum. Tel ég brýnt að losað verði um þessa eignarhluta sama hversu stórir þeir eru. Fyrirtæki eins og Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspóstur, Sunnlensk orka og svo frv. eru dæmi um fyrirtæki sem einkaaðilar eru fullfærir um að eiga og reka. Jafnframt á ríkið hluta í mörgum fyrirtækjum tengdum ferðaiðnaði s.s. hótelum, hestaleigum, frumkvöðlasetrum og svo frv. Það má e.t.v. vera að ríkisvaldið hafi á sínum tíma hjálpað ákveðnum fyrirtækjum að hefja rekstur (aðallega í gegnum Byggðarstofnun) og eigi því enn eignarhluta í þeim fyrirtækjum. En samt sem áður tel ég að ríksvaldið beri að draga sig úr atvinnurekstri á samkeppnismarkaði og setja hluti sína á sölu.
Hér var aðeins stiklað á stóru um umsjón ríkisfjármála og mögulega einkavæðinug ríkisfyrirtækja. Eins og sést er af nógu að taka og því biða fjölmörg verkefni nýs ráðherra.
Ég óska Árna til hamingju með nýtt starf og óska honum alls hins besta. Jafnframt vona ég að Árni hafi engu gleymt frá því að hann var sjálfur í Sambandi Ungra Sjálfstæðismanna og muni á næstu tveimur árum beita sér fyrir aðhaldi í ríkisrekstri og einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Mánudagur, 26. september 2005
Mánudagspósturinn 26. september 2005

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarsins, vill endilega skipta íslenzku krónunni út fyrir evruna og segir hana vera varanlega lausn fyrir íslenzkt efnahagslíf til að losna við sveiflur. Þetta hefur Sveinn reyndar verið að tuða um í einhver ár án þess að því hafi fylgt merkilegur rökstuðningur og var þetta síðast haft eftir honum í frétt í Fréttablaðinu 21. september sl. Ég veit ekki hvort Sveinn hefur fylgst með þróun evrunnar og evrusvæðisins síðan evran var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill í byrjun árs 2002, en ummæli hans benda ekki beint til að sú sé raunin. Fyrir það fyrsta veit Sveinn væntanlega mætavel að evran verður ekki tekin upp hér á landi nema með því að ganga í Evrópusambandið með öllum þeim ókostum sem því myndi fylgja fyrir Ísland einkum hvað snýr að fullveldi landsins, lýðræði, sjávarútvegsmálum og efnahagsmálum almennt.
Þess utan hefur evrusvæðið einfaldlega verið að reynast afskaplega illa á undanförnum árum. Annar stærsti banki heimsins, HSBC í London, gaf út skýrslu í sumar sem bar nafnið European meltdown? þar sem m.a. kom fram að reynslan af evrusvæðinu væri svo slæm að það gæti verið sumum af aðildarríkjum þess í hag að yfirgefa það og taka upp sína fyrri sjálfstæðu gjaldmiðla á ný. Nefnir bankinn sérstaklega Þýzkaland, Ítalíu og Holland til sögunnar í þessum efnum sem hafi beinlínis beðið skaða af upptöku evrunnar.
Það sem einkum veldur þessu að mati HSBC bankans er miðstýring Seðlabanka Evrópusambandsins á stýrivöxtum innan evrusvæðisins sem hafi leitt af sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir aðildarríki svæðisins og gert þeim erfitt fyrir að hafa eðlilega stjórn á efnahagslífi sínu. Bankinn segir ennfremur í skýrslunni að hættan á því að evrusvæðið liðist í sundur sé komin á það stig að það sé nauðsynlegt fyrir aðildarríki þess að velta alvarlega fyrir sér kostum þess að segja skilið við það. Og fleiri hafa talað á hliðstæðum nótum s.s. bandaríski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Milton Friedman, sem sagði m.a. í viðtali við fréttavefinn Euobserver.com á síðasta ári að sterkar líkur væru á því að evrusvæðið liði undir lok á næstu árum.
Í sumar var ennfremur greint frá því að OECD teldi útlit fyrir að hagvöxtur í aðildarríkjum evrusvæðisins myndi dragast saman um helming á næstu tveimur áratugum ef ekki yrðu gerðar róttækar kerfisbreytingar í efnahagsmálum svæðisins í því augnamiði að halda hagvexti í takti við önnur aðildarríki stofnunarinnar. Ef breytingar yrðu ekki gerðar myndi afleiðingin verða sú að þjóðartekjur á mann myndu dragast saman í samanburði við Bandaríkin og önnur lönd. Ástæða þessa væri einkum sú að almenningur í evrulöndunum væri að eldast og þar með myndi framleiðsla dragast saman ef ekki yrðu gerðar breytingar.
Fram kom í umfjöllunum fjölmiðla af málinu að OECD væri sífellt að verða gagnrýnni á frammistöðu evrulandanna í efnahagsmálum. Helstu kerfisbreytingar sem nauðsynlegt er að ráðast í að mati stofnunarinnar eru m.a. aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði, aukin samþætting innri markaðarins og aukið frumkvöðlastarf. Þá þurfi einnig að auka framleiðni svo og aðhald í opinberum fjármálum. Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu sérstaka áætlun árið 2000 sem m.a. var ætlað að stuðla að þessum umbótum og átti sambandið að verða upplýstasta, öflugasta og samkeppnishæfasta efnahagssvæði í heiminum árið 2010. Flestir eru hins vegar sammála um að Evrópusambandið sé lengra frá þessu markmiði í dag en þegar áætlunin var samþykkt og að útilokað sé að það náist á tilsettum tíma.
Og svona mætti lengi halda áfram um slæmt ástand evrusvæðisins en ég læt nægja að fjalla að lokum um nokkur meginatriði. Meðalatvinnuleysi innan evrusvæðisins er í kringum 10% og hefur verið lengi og hagvöxtur er lítill sem enginn. Á sama tíma eru þau aðildarríki Evrópusambandsins í Vestur-Evrópu sem ekki hafa tekið upp evruna, Svíþjóð, Bretland og Danmörk, að gera það mun betra í efnahagsmálum en evrulöndin þó við Íslendingar séum þó að gera það betra en löndin þrjú og evrusvæðið samanlagt. Hagsveiflur aðildarríkja evrusvæðisins hafa ekki samlagast eins og til stóð sem aftur hefur þýtt að miðstýrðir stýrivextir innan þess henta í raun engu þeirra eins og áður er komið inn á. Verðlag innan svæðisins hefur heldur ekki samlagast þrátt fyrir að kennismiðir Evrópusambandsins hafi lofað öðru. Þvert á móti hefur munurinn þar á aukizt síðan evran var tekin í noktun sem almennur gjaldmiðill og er nú orðinn meiri en gerist á milli einstakra ríkja Bandaríkjanna.
Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var af Gallup á meðal neytenda í aðildarríkjum evrusvæðisins og birt var í marz sl. sögðust meira en 90% aðspurðra vera þeirrar skoðunar að tilkoma evrunnar hefði orðið til þess að hækka verðlag. Þetta er í samræmi við aðrar kannanir um sama efni sem gerðar hafa verið á undanförnum árum síðan evran var tekin í notkun sem almennur gjaldmiðill. Samkvæmt könnun sem gerð var fyrir þýzka blaðið Stern í ágúst sl. vilja 56% Þjóðverja að Þýzkaland segi skilið við evrusvæðið og taki upp þýzka markið á nýjan leik.
Í ljósi þessa alls er kannski ekki að furða að mikill meirihluti Íslendinga sé á móti því að skipta íslenzku krónunni út fyrir evruna og hafi verið nú um árabil samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið fyrir Samtök iðnaðarins sjálf. Er þetta það sem Sveinn Hannesson vill að Ísland verði hluti af? Ég verð bara að segja eins og er að ég veit ekki hvar blessaður maðurinn hefur verið!
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 23. september 2005
Fólskuleg vinnubrögð núverandi stjórnar Heimdallar

Aldrei datt mér í hug að ég þyrfti að skrifa á vefrit þetta gegn mínum eigin flokksmeðlimum. Hins vegar er ekki hjá því komist um þessar mundir þar sem manni blöskrar vinnubrögð núverandi stjórnar Heimdallar. Það er einmitt sama stjórn og sakaði fyrrverandi stjórnarmeðlimi um ólýðræðisleg vinnubrögð og um að halda Heimdalli í hópi fámennrar klíku eins og Bolli Thoroddsen núverndi formaður orðaði það fyrir ári síðan. Bolli hélt því fram að Heimdalli væri stjórnað að fámennri klíku og enginn annar kæmist að. Rétt er þó að taka fram að rúmlega 900 manns mættu á síðasta aðalfund til að kjósa stjórn. Fámenn klíka það.
Að sjálfsögðu voru ásaknir Bolla og yfirmanna hans tilefnislausar til þess eins að koma nafni sínu á blað og gera aðra tortryggilega. Sjálfur hef ég góða reynslu af því hversu opið starf Heimdallar var áður ólíkt því sem Bolli og félagar hans halda fram. Fyrir landsþing SUS árið 2001 í Borgarnesi sótti ég um aðgang að þinginu. Magnús Þór Gylfason sem þá var formaður sendi mér tölvupóst (án þess að þekkja mig neitt) og tilkynnti mér að ég gæti farið sem einn af 150 fulltrúum Heimdallar. Á þinginu sjálfu tók ég þátt í málefnstarfi eins og allir aðrir og hafði gaman af. Í rúmlega tvö ár hef ég verið virkur meðlimur í starfi SUS og Heimdallar. Þar sem lítið hefur verið um starfsemi Heimdallar s.l. vetur hefur maður beitt kröftum sínum í starfi SUS í staðinn.
Aldrei hefur mér fundist neitt annað en að ég og allir þeir sem áhuga hafa séu velkomnir í starf ungra sjálfstæðismanna. Þó svo að oft sé tekist á um hugmyndir og málefni er það gert á málefnalegan hátt og að lokum er komist að niðurstöðu sem SUS síðan fylgir eftir. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með málum ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur stjórn Heimdallar gert sig seka um lygi og ólýðræðisleg vinnubrögð. Núverandi stjórn Heimdallar (eða öllu heldur þeir sem hafa stjórn félagsins í vasanum) hafa meinað fjölmörgum virkum þátttakendum í starfi ungra sjálfstæðismanna aðgang að landsþingi SUS sem halda á um n.k. mánaðarmót. Um er að ræða fjölda fyrrverandi stjórnarmeðlima, núverandi varastjórnarmeðlimi í SUS og aðra virka þáttakendur í starfi ungliðahreyfingarinnar, þ.m.t. mig sjálfan.
Ekki er það þó svo að ég hafi fengið neitun frá Heimdalli um aðgang að þinginu heldur hefur núverandi stjórn Heimdallar haldið aftur upplýsingum um þingfulltrúa sína. Þeir hafa ekki séð sóma sinn í því að tilkynna umsækjendum um stöðu sína. Núna er vika í þing og enn hefur ekkert svar borist. Ekki veit ég hvernig fólk á að panta sér hótelgistingu á Stykkishólmi, gera ráðstafnir gegnvart vinnu, námi eða fjölskyldu til að vera burtu heila helgi ef ekkert svar berst frá stjórn félagsins um hvort að menn fá að fara eða ekki. Að sjálfsögðu er þetta allt saman mjög skrýtið en virðist bera þann vott að stjórn Heimdallar hafi valið þingfulltrúa sína áður en umsóknarfrestur var úti. Hvernig þeir völdu veit enginn þar sem það er leyndarmál stjórnarinnar.
Þrátt fyrir þetta dirfist Bolli Thoroddsen (sá sem ,,opna vildi Heimdall á sínum tíma þó ekki hafi félagið verið lokað) að segja í fjölmiðlum að það sem ráðið hafi vali á fulltrúum Heimdallar til þingsins sé m.a. virkni í starfi og að horft hafi verið til fyrrverandi forystumanna félagsins. Eins og hér sést er þetta ekki satt.
Vefritið Íhald.is var hóf greinarskrif fyrir tæplega ári síðan eða í byrjun október 2004. Eins og segir í lýsingu á vefritinu er tilgangur vefritsin sað ,,stuðla að og taka þátt í frjálsri og opinberri umræðu um ýmis málefni. Pistlahöfundar vefritsins hafa fundið samhljóm í ýmsum hægrisinnuðum vefritum og að sjálfsögðu í Sjálfstæðiflokknum enda allir sjálfstæðismenn.
Á því hefur nú orðið breyting ef ég tala fyrir sjálfan mig. Ástæða þess að ég hóf afskipti af stjórnmálum er sú að ég ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti og tel að með þeim stjórnmálarökum sem ég hef haldið uppi hér á vefritinu ásamt reglulegum pistlum á sus.is sé henni fyrir bestu. Að sjálfsögðu er eru ekki allir sammála því að íhaldssemi og frjálshyggja séu þjóðinni og þjóðarhagnum fyrir bestu og ber mér að sjálfsögðu að virða það. Ég geri þó þá kröfu að menn takist á á málefnalegan hátt en beiti ekki fólskubrögðum og blekkingum. Maður hefði þó búist við átökum frá öðrum flokkum um málefni áður en maður gerði ráð fyrir fúskhætti og brellubrögðum samflokksmanna sinna.
Ég lít á Bolla Thoroddsen sem pólitískan andstæðing minn þar sem hann hefur gerst sekur um að einangra og loka starfi Heimdallar og hefur að mínu mati ekki haldið uppi þeim sjónarmiðum sem Heimdallur ætti að halda upp á hverjum degi. Það sama gildir um núverandi stjórn Heimdallar og þá sem að þessum vinnubrögðum standa.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 21. september 2005
Sérleyfi til að einn græði en hinn ekki
Það er greinilegt að þeir sem vilja minnkandi afskipti ríkissins að hinum ýmsu þáttum þjóðlífssins eiga mikið verk fyrir höndum. Í Morgunblaðinu í gær má sjá ágæta fréttskýringu á útboði Vegagerðarinnar til rekstur á svokallaðri flugrútu en sá rekstur felur í sér að koma flugfarþegum til og frá Leifsstöð til höfuðborgarsvæðisins. Nú er það auðvitað spurning hvort að ríkið eigi að útdeila og/eða styrkja slík verkefni eða hvort að það eigi ekki að leyfa frjálsum markaði að útkljá hverjir eru færir til að sinna slíku.
En, eins og áður sagði þá var nýlega opnað fyrir útboð til reksturs flugrútunnar. Kynnisferðir (sem í dag er eitt af stærstu hópferðabíla fyrirtækjum landsins) hafa frá árinu 1979 haft sérleyfi sérleyfi til áætlunaraksturs á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Þetta þýðir það að Kynnisferðir hafa einir hópferðabíla mátt selja skipulagðar ferðir frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar.
Ekki fara sögur af því hvernig rekstri þess fyrirtækis hefur verið háttað en fyrir utan það að reka flugrútuna sinna Kynnisferðir að sjálfsögðu ýmislegum ferðum fyrir ferðamenn og verkefnum tengdum ferðamennsku og rekstir hópferðabíla.
Í fyrrnefndri fréttaskýringu er heft eftir Þránni Sigfússyni, framkvæmdarstjóra Kynnisferða að ,,hægt sé að reka flugrútuna og sérleyfi í Bláa Lónið með einhverju hagnaði án styrkja en til að dæmið gangi upp varðandi allan pakkann þurfi að hagræða miklu og nýta bílana sem best. Það eitt má lesa úr þessari yfirlýsingu framkvæmdastjórans að fyrirtækið sé ekki rekið enda nýtur það ýmissa ríkisstyrkja þrátt fyrir að hafa einkaleyfi frá ríkinu til að sinna ákveðnum verkefnum. Já það hlýtur að vera erfitt að þurfa að hagræða og nýta bílana vel. Þvílík kvöð og pína sem á menn er lagt.
Ríkið ætti tafarlaust að láta af sérleyfisstefnu sinni og leyfa þeim aðilum sem áhuga hafa á að sinna fólksflutningu á hópferðabílum að sinna því án afskipa ríkissins. Nú er ekki ósanngjarnt að spyrja fyrst að það er sérleyfi á fólksflutningum frá Leifsstöð, af hverju er þá ekki sérleyfi líka á fólksflutningum á Gullfoss og Geysi? Af hverju gefur ríkið ekki út sérleyfi á það hvaða fyrirtæki megi sinna akstri á Gullfoss og Geysi á hverjum degi? Er eitthvað meira vit í því að allir fái að keyra upp í Haukadal en aðeins einn megi keyra til Keflavíkur?
Ég tel að slíkt eigi að vera á hendi einkaaðila en ekki ríkissins. Það gildir að sjálfsögðu ekki bara um rekstur flugrútunnar heldur er ófsakanlegt að einn aðili fái sérleyfi til að keyra fólk frá A til B án þess að annar aðili geti boðið upp á sömu þjónustu. Þingvallarleið, Sæmundur, Sérleyfisbíla Keflavíkur, Vestfjarðarleið, Allrahanda, HP Rútur og fleiri mega s.s. ekki halda uppi skipulögðum ferðum til eða frá Leifstöð af því að ríkisvaldið hefur úthlutað leyfinu til Kynnisferða. Þó að nú kunni að verða breyting á með útboði í reksturinn þýðir það ekki að öll þessi fyrirtæki megi reyna fyrir sér í bransanum heldur koma annaðhvort Kynnisferðir eða þá eitthvað eitt annað fyrirtæki sérleyfi til að sinna verkefninu.
,,Við og samgönguráðuneytið viljum tryggja það að allt flug fái þjónustu
- Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri í Morgunblaðinu 20.sept 2005 þegar hann er spurður um ástæðu þess að gefið er út sérleyfi á rekstri flugrútunnar og tekur fram að væri ekki sérleyfi væri hætta á að næturflugi yrði ekki sinnt.
Þetta hafði aðstoðarvegamálastjóri að segja um málið þegar hann var inntur álits. Já, hann telur að næturflugi yrði bara jafnvel ekki sinnt. En hverjir hafa hagsmuni að því að næturflugi sé sinnt? Eru það ekki þeir sem eru að flytja ferðamenn til landsins og þeir sem ætla sér síðan að hýsa þá, þ.e.a.s. flugfélögin og hótelin?
Það á að leyfa þeim aðilum sem standa í ,,bransanum að sinna honum frá a til ö. Ríkið á að hætta öllum rekstri og styrkjum til ferðamannaiðnaðarins enda á hann að standa undir sér sjálfur. Ef menn treysta sér til að flytja ferðamenn til landsins og hýsa þá, þá hljóta menn að treysta sér til að koma þeim á milli staða.
Ríkið á ekki að gefa út einkaleyfi á verkefnum sem þessum heldur að leyfa þeim sem treysta sér í að sinna þeim að gera það. Að gefa út sérleyfi á fólksflutningum er gamaldags aðferð og býður upp á lélega fyrirgreiðslupólitík. Ríkið á að sjálfsögðu ekki að vera með puttana í því hverjir sinna þessum verkefnum.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Mánudagur, 19. september 2005
Mánudagspósturinn 19. september 2005

Í nýlegri grein á heimasíðu sinni tönglast Össur Skarphéðinsson á þeirri goðsögn, sem ófáir íslenzkir Evrópusambandssinnar hafa reynt að halda á lofti á umliðnnum árum, að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sé ástæðan fyrir þeim miklu efnahagsumbótum og uppgangi sem átt hefur sér stað hér á landi sl. áratug eða svo. Þessari goðsögn gerði Viggó Örn Jónsson góð skil í grein á Sus.is á dögunum og benti á að ef EES-samningurinn væri það sem valdið hefði þessum umbótum og því góðaæri sem hér hefur ríkt ætti það sama að eiga við um allt Evrópusambandið enda eru öll aðildarríki sambandsins aðilar að samningnum ásamt EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein. En því er nú öðruvísi farið eins og kunnugt er enda hafa flest aðildarríki Evrópusambandsins verið pikkföst í bullandi efnahagslægð í mörg ár á sama tíma og allt hefur verið í bullandi uppsveiflu hér á landi.
Það er því alveg ljóst fyrir alla þá sem vilja á annað borð sjá að EES-samningurinn, með öllum sínum kostum og göllum, er ekki ástæðan fyrir þeirri efnahagsuppsveiflu sem Íslendingar hafa notið á undanförnum árum nema þá að mjög takmörkuðu leyti. Sú kenning bara einfaldlega gengur ekki upp þrátt fyrir einlæga og augljósa óskhyggju Össurar og félaga.
Þessi goðsögn er annars tilkomin á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er hún runnin undan rifjum íslenzkra Evrópusambandssinna sem vilja meina að það sé svo æðislegt að ganga í Evrópusambandið og að EES-samningurinn sé til marks um það. Þau "rök" falla þó auðvitað algerlega um sig sjálf í ljósi þess sem á undan er sagt. Ef það væri svo frábært að vera í Evrópusambandinu ættu allavega í það minnsta meirihluti þeirra ríkja í Vestur-Evrópu, sem voru aðilar að sambandinu fyrir stækkun þess til austurs á síðasta ári, að vera í þvílíkri uppsveiflu eins og við Íslendingar og hafa verið á undanförnum árum. Sú er þó engan veginn raunin eins og vel er kunnugt. Á góðum degi er í mesta lagi hægt að telja til þrjú til fjögur þessara aðildarríkja Evrópusambandsins þar sem hlutirnir eru í ágætu ásigkomulagi og ástæðan fyrir því er yfirleitt flest annað en aðildin að sambandinu. Það er því ljóslega um að ræða algerar undantekningar í þessu sambandi og að sama skapi langt því frá einhverja reglu.
Í annan stað er um að ræða ófáa pólitíska andstæðinga núverandi ríkisstjórnar, og þó einkum Sjálfstæðisflokksins, sem geta ekki sætt sig við þá staðreynd að ríkisstjórnin undir forystu sjálfstæðismanna hafi stuðlað að títtnefndum efnahagsumbótum og reyna því að eigna einhverju öðru heiðurinn af því. Þessir aðilar geta þó ekki eignað sér sjálfum þesar framfarir enda hafa þeir yfirleitt reynt flest til að koma í veg fyrir þær í gegnum tíðina. Í báðum tilfellum er hins vegar allajafna um að ræða sama fólkið og má það helzt finna í Samfylkingunni. Össur Skarphéðinsson er einmitt mjög gott dæmi um slíkan einstakling.
Það er síðan hlægilegt og í raun grátbroslegt að sjá Össur reyna að eigna Alþýðuflokknum upphaf þeirrar einkavæðingar sem unnið hefur verið að á undanförnum árum í ljósi þess að íslenzkir kratar hafa alla tíð barizt gegn henni og breyttist það lítið eftir að Samfylkingin var stofnuð.
Að lokum má nefna að í greininni talar Össur síðan um að Sjálfstæðisflokkurinn sé haldinn Evrópufælni, væntanlega vegna þess að flokkurinn vill ekki ganga í Evrópusambandið og skyldi engan undra! Það er nefnilega þannig með Evrópusambandssinnana að ef fólk er ekki sammála þeim og vill ekki ganga í sambandið að þá er það haldið Evrópufælni eða eitthvað álíka (það þarf þó auðvitað ekki að taka það fram að Evrópusambandið og Evrópa eru ekki eitt og hið sama þó Össur kunni að halda það). Ef umræðan um Evrópumál hér á landi miðar ekki að því að Ísland gangi í Evrópusambandið þá kvarta þeir sáran yfir því að það sé engin umræða um málið. Það er sem sagt engin umræða nema umræðan sé á þeirra forsendum. Öðruvísi má ekki ræða þessi mál.
Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is
Föstudagur, 16. september 2005
Halldór á forsætisráðherrastóli í eitt ár

Í gær var ár liðið frá því að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við embætti forsætisráðherra af Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Davíð hafði þá setið á forsætisráðherrastóli samfellt í rúm þrettán ár. Samhliða þessu tók Davíð við embætti utanríkisráðherra af Halldóri, sem þá hafði verið á þeim stóli í tæpan áratug. Ljóst var við þessi tímamót að Halldór hefði mikla reynslu til að takast á hendur þetta mikla verkefni að verða verkstjóri í ríkisstjórn Íslands. Hann er starfsaldursforseti Alþingis og hefur setið á þingi í þrjá áratugi. Halldór hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, í ár sem forsætisráðherra, rúm 9 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra.
Það var vissulega til marks um traust persónulegt samstarf Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að þeir skiptust á embættum í stjórn flokkanna, sem setið hefur í áratug, án beinna átaka eða togstreitu um valdastóla. Eftirsjá var af Davíð úr forystusæti ríkisstjórnarinnar, enda er hann mun öflugri stjórnmálamaður en Halldór. Mörgum sjálfstæðismönnum þótti enda mjög súrt í broti að miklu minni flokkur tæki við forsæti í ríkisstjórn landsins. Það er enda deilt mjög um ágæti þess að Halldór varð forsætisráðherra. Það hefði farið best á því auðvitað að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði leitt stjórnina, enda forystumaður mun stærri stjórnmálaflokks, með miklu öflugra umboð kjósenda.
En nú þegar að Halldór hefur setið sem forsætisráðherra í ár er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg. Hvernig hefur þetta fyrsta ár Halldórs í embættinu verið? Mörgum dettur eflaust í hug orðin vandræðagangur og erfiðleikar. Óhætt er að fullyrða að Halldór hafi haldið allt öðruvísi á málum í embætti og í formennsku flokksins en Steingrímur Hermannsson, forveri hans á formannsstóli, gerði meðan hann gegndi síðast á sama tíma bæði formennsku í Framsóknarflokknum og forsætisráðherraembættinu, 1988-1991. Steingrímur hefur enda gagnrýnt Halldór svo eftir hefur verið tekið. Halldór fetar aðrar leiðir og ekki er laust við að gæti þar áhrifa frá Blair og vinnubrögðum hans í almennri umræðu.
Í pólitík sinni undanfarin ár hefur hann safnað að sér liði fyrrum fréttamanna sem aðstoðarmanna og almennatengslaráðgjöfum innan flokksins og í ráðuneytinu. Almennt séð er einsdæmi hér á landi að forsætisráðherra hafi á sínum snærum á að skipa fjölda fyrrum fréttamanna í opinberu hlutverki sem málsvara flokksins og ráðuneytisins, bæði í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi. Með þessa menn innanborðs tekst Halldóri oft að spinna umræðuna og túlka með öðrum hætti og beina henni í aðra farvegi. Er upp koma stór mál eru sendir af örkinni spunameistararnir þrír, þeir eru virkir í netskrifum innan flokksins og eru málsvarar Halldórs víða. Spuninn teygir sig því víða.
Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart var sótt að Halldóri á fyrri hluta ársins vegna ýmissa mála. Eins og flestir vita er þekkja til mælinga á persónufylgi forsætisráðherra landsins í gegnum árin hefur Halldór hlotið óvenjuslæma útreið í könnunum.
Altént höfum við ekki séð slíkar tölur mjög lengi og t.d. hafði Davíð Oddsson sem forsætisráðherra sterka stöðu í embætti og mikinn stuðning í skoðanakönnunum, en var vissulega umdeildur. En staða Halldórs er mun veikari. Vissulega verður að taka tillit til þess að Halldór er formaður smáflokks skv. skoðanakönnunum og því hægt að búast við að formenn slíkra flokka njóti minna fylgis en forystumenn stærstu flokka landsins í embættinu. Er greinilegt að Halldór hefur brugðist við þessum könnunum og dapri stöðu í mælingum meðal landsmanna með markvissum hætti, annað er að minnsta kosti ekki hægt að sjá hjá spunasérfræðingunum hans. Þeir hafa sótt fram fyrir hönd Halldórs og staðið vörð um stöðu hans á opinberum vettvangi.
Athygli vakti fyrr á árinu er spunameistarar hans tilkynntu að Halldór myndi feta í fótspor forsætisráðherra Bretlands og halda blaðamannafundi reglulega til að ræða málin við fjölmiðlamenn. Fátt hefur komið út úr því. Reyndar sagði Halldór á frægum blaðamannafundi í júní vegna umræðunnar um tengsl hans við Skinney-Þinganes vegna sölunnar á Búnaðarbankanum að það væri fyrsti reglulegi blaðamannafundurinn hans. Síðan hefur mjög lítið gerst. Innan Framsóknarflokksins hefur ástandið verið eldimt, það hefur blasað við enda hefur hitnað mjög yfir yfirborði flokksins. Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins, en einmitt eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra fyrir ári.
Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að yrði hápunktur ferils hans. Komu viss grunnátök í flokknum vel fram á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars. Þar var ekki bara tekist á í lokuðum herbergjum um stefnuna og stöðu mála, heldur fyrir opnum tjöldum. Sérstaklega átti þetta við um Evrópumálin. Þar var tekist á með mjög ákveðnum hætti. Hefur verið merkilegt að sjá forystumenn flokksins takast á um málið og tjá ólíka sýn til ESB. Að lokum fór svo á flokksþinginu að ESB-stefna flokksins sem átti að vera mjög afgerandi varð mjög útvötnuð og sagði nær ekkert nýtt. Voru það mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn aðildar innan flokksins.
Við lok flokksþingsins var Halldór endurkjörinn formaður flokksins. Hlaut hann rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en síðast. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlýtur lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Ekki var um að ræða átakaþing hjá flokknum hvað varðar kosningar forystumanna, þeir voru endurkjörnir með yfirgnæfandi hætti, en hlutu þó veikara umboð en síðast.
Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins.
Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár. Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson.
Stefán Friðrik Stefánsson
stebbifr(a)simnet.is
Fimmtudagur, 15. september 2005
Ritstjórnarviðhorf - Hrós til Brynju Þorgeirsdóttur - Kóngur um stund
Brynja Þorgeirsdóttir fréttamaður á Stöð 2 stýrði stórgóðum þætti í sumar - hestaþættinum Kóngur um stund.
Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með þættinum Kóngur í stund í sumar. Þættirnir eru vel gerðir og mjög skemmtilegir. Finnst mér rétt að hrósa Brynju og öllum þeim sem koma að gerð þáttanna. Hann varð til að vekja upp meiri áhuga á hestamennsku og gaf manni skemmtilega innsýn inn í heim hestamennskunnar.
Þetta er að sjálfsögðu ekkert tengt stjórnmálum en það er nú gaman að gleyma þeim öðru hvoru.
Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is
Miðvikudagur, 14. september 2005
„Hún hætti ekki að grenja, svo við skutum hana“

Samkvæmt anti-slavery.com eru a.m.k. 100.000 Súdanir þrælar. Í suttu máli, þá fara menn frá norður Súdan til suður Súdan í ,,þræla veiðar. ,,Veiðimennirnir njóta í sumum tilfellum aðstoðar súdanskra stjórnvalda. Þeir sem ,,veiðast eru aðallega konur og börn. Þau eru bundin föst við dýr sem notuð eru til að bera þau norður. Á leiðinni er mörgum konum og stúlkum nauðgað. Börn sem ekki geta þagað eru skotin. Veiðimennirnir halda þrælunum sjálfir, eða selja þá á opnum mörkuðum. Drengir eru látnir vinna erfiðisvinnu og hugsa um dýr. Þeir sofa úti með dýrunum og er gefið ömurlegt fæði. Reyni þeir að flýja er komið í veg fyrir að þeir geti hlaupið á ný með því að eyðileggja sinar í fótum þeirra. Konur og stúlkur eru látnar vinna heimilisstörf á daginn og þeim er nauðgað á nóttunni. Þrælarnir þola yfirleitt daglegar barsmíðar, og margskonar annað andlegt og líkamlegt ofbeldi.
Og hvað gerum við á vesturlöndum? Ekki mikið. Milljónir vesturlandabúa, andstæðingar kapítalisma, hópast saman til að mótmæla því að fólk í þriðja heiminum vinni hjá GAP, Nike, Levis og fleiri fyrirtækjum af fúsum og frjálsum vilja, fyrir laun sem teldust mjög góð í Súdan. Þrælasalar í Súdan og súdönsk stjórnvöld þurfa að gerast vestrænir kapítalistar til að fá einhver veruleg viðbrögð frá vestrænum mannúðar frömuðum vegna framferðis síns. Hið tvöfalda siðgæði sumra vinstrisinnaðra siðapostulla ætti að vera augljóst öllum þeim sem opna augun.
Það þarf að gera eitthvað í þessu máli, og ég skora á verðandi utanríkisráðherra Íslands, Geir Haarde, að beita sér fyrir því. Ég fyrir mitt leyti myndi helst vilja sjá fjölþjóða her fara til Súdan og binda enda á þetta rugl.
Condoleezza Rice hefur mikið talað um að taka verði til hendinni í Súdan. Condi er afar mælsk og greind. Hún hefur gríðarlega yfirgripsmikla þekkingu á umheiminum, sem er afar góður kostur í hennar starfi. Hún er fyrrum háskólaprófessor og talar fjögur tungumál reiprennandi. Að uppfylla kynja og kynþáttakvóta hefur aldrei verið hennar hlutverk. Hún er einfaldlega lang best til þess fallinn að vera utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ég legg til að Bandaríkjamenn kjósi hana forseta 2008.
Sindri Guðjónsson
Nýjustu færslur
- Íhald.is fer í frí
- Get a life
- Batnandi mönnum er bezt að lifa
- Bretum ferst að saka okkur um að skaða lífríki Norður-Atlants...
- Jón Baldvin: Úlfur í sauðsgæru
- Ég var hleraður hjá Kaupfélagi Húnvetninga!
- Bölvuð auðmannastéttin
- Örvænting íslenzkra krata tekur á sig ýmsar myndir
- Fullyrt um vilja þjóðarinnar og ófæddra Íslendinga
- Hvað er maðurinn að tala um?
- Vinstrimenn hækka skatta í Noregi - "Surprise! Surprise!"
- Hringlandaháttur allra flokka
Eldri færslur
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
- Desember 2005
- Nóvember 2005
- Október 2005
- September 2005
- Ágúst 2005
- Júlí 2005
- Júní 2005
- Maí 2005
- Apríl 2005
- Mars 2005
- Febrúar 2005
- Janúar 2005
- Desember 2004
- Nóvember 2004
- Október 2004