Leita í fréttum mbl.is

Mánudagspósturinn 19. september 2005

Í nýlegri grein á heimasíðu sinni tönglast Össur Skarphéðinsson á þeirri goðsögn, sem ófáir íslenzkir Evrópusambandssinnar hafa reynt að halda á lofti á umliðnnum árum, að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sé ástæðan fyrir þeim miklu efnahagsumbótum og uppgangi sem átt hefur sér stað hér á landi sl. áratug eða svo. Þessari goðsögn gerði Viggó Örn Jónsson góð skil í grein á Sus.is á dögunum og benti á að ef EES-samningurinn væri það sem valdið hefði þessum umbótum og því góðaæri sem hér hefur ríkt ætti það sama að eiga við um allt Evrópusambandið enda eru öll aðildarríki sambandsins aðilar að samningnum ásamt EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein. En því er nú öðruvísi farið eins og kunnugt er enda hafa flest aðildarríki Evrópusambandsins verið pikkföst í bullandi efnahagslægð í mörg ár á sama tíma og allt hefur verið í bullandi uppsveiflu hér á landi.

Það er því alveg ljóst fyrir alla þá sem vilja á annað borð sjá að EES-samningurinn, með öllum sínum kostum og göllum, er ekki ástæðan fyrir þeirri efnahagsuppsveiflu sem Íslendingar hafa notið á undanförnum árum nema þá að mjög takmörkuðu leyti. Sú kenning bara einfaldlega gengur ekki upp þrátt fyrir einlæga og augljósa óskhyggju Össurar og félaga.

Þessi goðsögn er annars tilkomin á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er hún runnin undan rifjum íslenzkra Evrópusambandssinna sem vilja meina að það sé svo æðislegt að ganga í Evrópusambandið og að EES-samningurinn sé til marks um það. Þau "rök" falla þó auðvitað algerlega um sig sjálf í ljósi þess sem á undan er sagt. Ef það væri svo frábært að vera í Evrópusambandinu ættu allavega í það minnsta meirihluti þeirra ríkja í Vestur-Evrópu, sem voru aðilar að sambandinu fyrir stækkun þess til austurs á síðasta ári, að vera í þvílíkri uppsveiflu eins og við Íslendingar og hafa verið á undanförnum árum. Sú er þó engan veginn raunin eins og vel er kunnugt. Á góðum degi er í mesta lagi hægt að telja til þrjú til fjögur þessara aðildarríkja Evrópusambandsins þar sem hlutirnir eru í ágætu ásigkomulagi og ástæðan fyrir því er yfirleitt flest annað en aðildin að sambandinu. Það er því ljóslega um að ræða algerar undantekningar í þessu sambandi og að sama skapi langt því frá einhverja reglu.

Í annan stað er um að ræða ófáa pólitíska andstæðinga núverandi ríkisstjórnar, og þó einkum Sjálfstæðisflokksins, sem geta ekki sætt sig við þá staðreynd að ríkisstjórnin undir forystu sjálfstæðismanna hafi stuðlað að títtnefndum efnahagsumbótum og reyna því að eigna einhverju öðru heiðurinn af því. Þessir aðilar geta þó ekki eignað sér sjálfum þesar framfarir enda hafa þeir yfirleitt reynt flest til að koma í veg fyrir þær í gegnum tíðina. Í báðum tilfellum er hins vegar allajafna um að ræða sama fólkið og má það helzt finna í Samfylkingunni. Össur Skarphéðinsson er einmitt mjög gott dæmi um slíkan einstakling.

Það er síðan hlægilegt og í raun grátbroslegt að sjá Össur reyna að eigna Alþýðuflokknum upphaf þeirrar einkavæðingar sem unnið hefur verið að á undanförnum árum í ljósi þess að íslenzkir kratar hafa alla tíð barizt gegn henni og breyttist það lítið eftir að Samfylkingin var stofnuð.

Að lokum má nefna að í greininni talar Össur síðan um að Sjálfstæðisflokkurinn sé haldinn “Evrópufælni”, væntanlega vegna þess að flokkurinn vill ekki ganga í Evrópusambandið og skyldi engan undra! Það er nefnilega þannig með Evrópusambandssinnana að ef fólk er ekki sammála þeim og vill ekki ganga í sambandið að þá er það haldið Evrópufælni eða eitthvað álíka (það þarf þó auðvitað ekki að taka það fram að Evrópusambandið og Evrópa eru ekki eitt og hið sama þó Össur kunni að halda það). Ef umræðan um Evrópumál hér á landi miðar ekki að því að Ísland gangi í Evrópusambandið þá kvarta þeir sáran yfir því að það sé engin umræða um málið. Það er sem sagt engin umræða nema umræðan sé á þeirra forsendum. Öðruvísi má ekki ræða þessi mál.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg(a)hi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband