Leita í fréttum mbl.is

Tillögur til Borgars Þórs

Borgar Þór Einarsson var kjörinn formaður Sambands Ungra Sjálfstæðismanna á ný afstöðnu þingi sambandsins. Ég er hér með fjórar tillögur til Borgars Þórs, sem settar eru fram í fúlustu alvöru, þrátt fyrir að ýmsilegt gæti virst spaugilegt í þeim. SUS þarf að verða virkara félag. Vinstrimenska er í tísku hjá ungu fólki í dag, og þykir voðalega “töff” og flott. Það er auðvelt að vera á móti, að vilja bæta hag þeirra sem minnst mega sín o.s.frv. Ungir Sjálfstæðismenn þurfa að vera duglegir við að benda á siðferðislega og efnahagslega yfirburði Sjálfstæðisstefnunnar, gera hana “töff” og “cool”. Þegar ég hóf nám við Háskólann á Akureyri sá ég að skólinn var fullur af plagötum frá Samfylkingunni, félagi Herstöðvaandstæðinga og annarra vinstri afla. Ekkert bólaði þó á málflutningi Sjálfstæðismanna. Ég sé fólk útum allt með VG nælur, í Che Guevara bolum og slíku en engan sé ég með Sjálfstæðisflokks barmmerki. Það er orðið tímabært að mála landið blátt – láta í sér heyra. Ef að ungir Sjálfstæðismenn þegja meðan að hugmyndafræði vinstrimanna er predikuð, verður okkar hugmyndafræði undir. Hér koma tillögurnar:

  1. Útvarpsstöð

SUS ætti að koma á laggirnar útvarpsstöð sem flytti pólítískan áróður og fréttir. Nóg er af fréttum í vinstri-sinnuðu ljósi. Efist einhver um það ætti hann að lesa bók Ólafs Teits Guðnasonar, “Fjölmiðlar 2004”. Ýmsir framhaldsskólar, AA-samtökin og fleiri, hafa stofnað útvarpsstöðvar, og ætti SUS alveg að ráða við það verkefni. Ég legg til að Bjarni Már Magnússon verði með fasta þætti um landgrunnsmál, botnvörpu veiðar og réttarstöðu geimvera og að Arnar Þór Stefánsson fjalli um landbúnaðarmál (segja kýr “mu” eða “mö”?) hlustendum til ómældrar skemtunar. Einnig þyrftu að vera alvarlegri þættir um stjórnmál. Ég óska hér með eftir stöðu útvarpsstjóra. Ég bendi einnig á það að ýmis fyrirtæki í þessu landi eru velviljuð í garð Sjálfstæðisflokksins og sníkjuferðir til styrktar stöðinni ættu að vera nokkuð þægilegar.

  1. Ókeypis dagblað

SUS ætti að dreifa blaði sem er í svipuðu formi og Grapevine í sjoppur og skóla, og dásama kosti frjáls markaðshagkerfis, og flytja fréttir af vondri stöðu mála í Venesúela, Kúpu og fleiri haftalöndum. Það eru alltaf einhverjir með áróður gegn kapítalismanum (ég man eftir grein í Grapevine um gjaldþrot Kapítalismanns til að nefna dæmi). Staðreyndin er sú að Kapítalisminn er einn helsti grundvöllur framfara og velmegunnar í heiminum. Benda þarf aðdáendum Sósíalisma á það að Kúpverjar flýja á gúmmíslöngum frá Kúpu og yfir til Bandaríkjanna. Benda þarf á að landsframleiðsla og verðmætasköpun dregst saman á ógnarhraða í Venesúela, þrátt fyrir að þeir flytji út óhemju mikið af olíu. Það mætti einnig benda á ýmislegt óréttlæti í veröldinni. 4000 manns hafa verið teknir af lífi síðan árið 1979 í Íran fyrir það að vera samkynhneigðir. Dauðadómurinn býður einnig þeirra sem stunda kynlíf fyrir hjónaband í Íran, komist “verknaður” þeirra upp, og hafa margir týnt lífi fyrir þær sakir, m.a. 16 ára stelpa í águst í ár. Einnig mætti vekja athygli á því að um 100.000 manns eru þrælar í Súdan. Skemmtilegt væri að segja sögu af nema nokkrum í Harvard sem fór nýlega til Súdan og keypti sér þræl á opnum þrælamarkaði, bara til að prófa. Tala mætti um ótvíræða kosti HNATTRÆNS FRELSIS, sem menn kalla oft alþjóðavæðingu, sem er gildishlaðið neikvætt orð í hugum vinstri manna. Það er margt hægt að skrifa í svona blað. Ég býð sjálfan mig fram til blaðamensku á blaði þessu, og til vara sem ritstjóra, fái ég ekki embætti útvarpsstjóa SUS. Ég minni aftur á þægilegar snýkjuferðir til velviljaðra fyrirtækja.

  1. Sögurýnishópur

SUS ætti að setja á laggirnar sögurýnishóp. Í þessum hópi mætti grafa það upp að ýmsir frambjóðendur nútímalegra jafnaðarmanna vildu banna frjálsa fjölmiðlun í landinu. Þeir vildu m.ö.o. að RÚV eitt fengi að starfa bæði á útvarps og sjónvarpsmarkaði. Vinstri menn voru andvígir því að verslanir fengju að vera opnar allan sólarhringinn, og hafa alltaf viljað banna og banna og banna og banna og banna og svo banna aðeins meira. Þetta ætti að kynna vel og rækilega fyrir ungu fólki í landinu. Síðan mættu SUS liðar vera duglegir við að spyrja þessa stjórnmálamenn spjörunum úr: ,,Hvers vegna máttu Bylgjan og Stöð 2 ekki hefja starfsemi sína?”. ,,En væri það ekki bara hreint og klárt ofbeldi að banna Matarkaupum hf, að hafa búð sína opna seint á kvöldin?”... Þetta yrði skemmtilegt. Minni aftur á þægilegar snýkjuferðir!

  1. Samstarf við fyrri stjórn SUS og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson

Það var einkennilegt að enginn úr fráfarandi stjórn SUS náði kjöri í stjórn á landsþinginu um helgina, nema sá einn sem lýst hafði yfir stuðningi við Borgar Þór. Það var Stefán Friðrik Stefánsson, formaður Varðar á Akureyri, og skrifar hann m.a. pistla hérna hjá okkur á íhaldinu. Það eru margir með mikla reynslu og kunnáttu sem virðast ekki fá að nýta krafta sýna í þágu SUS. Margir þeirra eru með hugmyndafræðina alveg á hreinu, og flinkir talsmenn frelsis í viðskiptum. Hér er ég að tala um marga fráfarandi stjórnarmenn í SUS og Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson sem hlaut 458 atkvæði í formannskosningu Heimdallar um daginn svo að dæmi séu tekin. Slíkum á að veita mikilvæg verkefni, svo sem eins og framkvæmdastjórastöðuna. Það gæti leitt til sátta innan SUS, sem leiddi til þess að fleiri hendur kæmu að starfseminni. Margar hendur vinna létt verk. Óþarfi er að fara í snýkjuferðir til að fjármagna þennan lið.

Kveðja

Sindri Guðjónsson,
ritari Varðar, félags ungra Sjálfstæðismanna á Akureyri, og í ritstjórn íhald.is

P.S. Ég vil þakka Kára Allanssyni fyrir innblástur sem hann veitti mér á leiðinni til og frá Stykkishólmi.

Powered by Hexia

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband