Leita í fréttum mbl.is

Tónlaus Samfylking

Það er rúmlega mánuður síðan umræða um ofurlaun og ójöfnuð fór af stað í þjóðfélaginu. Þá hlupu sósíalistar upp til handa og fóta og létu öllum illum látum um það hvað lífið á Íslandi væri nú erfitt og vont. Allt í einu var ,,samfélagsleg ábyrgð” orðin útþynnt orðahugtak sem hver stjórnmálamaðurinn og verkalýðsfrömuðurinn notaði sér máli sínu til framdráttar í þeirri umræðu sem fór fram á þessum tíma. Nú er hins vegar liðinn meira en mánuður og umræðan löngu búin. Hvorki Össur, Ingibjörg, ASÍ, Guðni né nokkur annar virðist hafa áhyggjur af því lengur hvað fólk hefur það slæmt og hvað fáir útvaldir hafa það allt alltof gott.

En það er athyglisvert að skoða hvernig umræðan fór fram og hver niðurstaðan varð. Ekki stendur til að gera það hér í löngu máli en þó verður stiklað á stóru.

Um leið og Ríkisskattstjóri var búinn að sitja sveittur yfir því að taka til lista yfir þá sem mestu skattana hefðu greitt og sent fjölmiðlum (enda algjört forgangsatriði á þeirri stofnun) fór allt í háaloft. Allt í einu kom í ljós, vinstrimönnum til mikillar óánægju, að til væri fólk á Íslandi með allt of háar tekjur.

Fyrrnefndir sósíalistar byrjuðu á því að ráðast á þessa örfáu menn sem hafa svokölluð ,,ofurlaun” (sem reyndar eru ekki laun heldur ýmiss konar tekjur). Síðan átti að taka lífeyrissjóðina fyrir. Össur og Ingibjörg kölluðu á ,,samfélagslega ábyrgð” lífeyrissjóðanna sem ættu hlutabréf í þessu fjármálafyrirtækjum sem væru að borga allt of há laun. Allt í einu áttu lífeyrissjóðir að hætta að ávaxta fjármagn sitt eins mikið og mögulegt var því að um það bil 10 – 15 manns á Íslandi voru á allt of háum launum að þeirra mati. Þau reyndar töluðu aldrei um hvað væru eðlileg laun en það átti kannski ekkert að fylgja umræðunni?

Flestir þekkja framhaldið og því óþarft að hafa fleiri orð um það. Nema hvað. Er það ekki einkennilegt að málið hafi ekki verið alvarlegra en það að nú er þessari umræðu lokið. Segir það ekki eitthvað um það fólk sem hafði hvað háværustu orðin um þetta ,,hræðilega” ástand sem hér hafði myndast á landinu að umræðan hafi endað í ekki nema 3 vikur?

Nei, ég held að í enn eitt skiptið hafi hinn ,,tónlausi lúður” Samfylkingarinnar blásið innihaldslausu lofti. Íslendingar hafa það alla jafna nokkuð gott og sú staðreynd að nokkrir skuli hafi það ,,ofurgott” gerir aðra ekki fátækari. Það er hlægilegt (en reyndar líka hættulegt) að stjórnmálamenn hafi hvatt lífeyrissjóði landsins til að leggja til hliðar áætlun sína um að hámarka fé sjóðsfélaga og sinna frekar tilfinningastefnu sinni (stjórnmálamannanna).

Ætli ég myndi hafa það betur ef Lífeyrissjóður Verslunarmanna myndi taka fé sitt úr þeim fyrirtækjum sem fært hafa sjóðnum mikinn ávöxt til þess eins að lækka laun örfárra manna? Myndi Samfylkingin bæta mér það upp? Munum við eiga von á því í vetur að vinstri flokkarnir flytji frumvarp þar sem reynt verður að ,,komast yfir” þetta fjármagn? Guðni Ágústsson lét nú hafa eftir sér að ,,ríkið þyrfti að taka meira af þessu til sín” – það var eins og talað úr hjarta Marx og efni í aðra grein.

Góða helgi...

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband