Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Sjálfstæðisflokkurinn

Ég var einu sinni mjög hrifinn af Sjálfstæðisflokknum. Ég er það ekki lengur. Ég hef margt við flokkinn að athuga. Mjög margt.

Hins vegar ber flokkurinn höfuð og herðar yfir aðra flokka sem að bjóða munu fram í næstkomandi kosningum, nema að einhver áður óþekktur flokkur verði til með skjótum hætti í tæka tíð.

Þeir sem hyggjast kjósa einhvern annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum ættu að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Ertu tilbúinn til að sjá eignarskattinn endurvakinn? Hvað með hátekjuskattinn? Tekjuskattur var lækkaður um 3% á síðasta kjörtímabili, viltu sjá þá lækkun ganga til baka? Viltu að erfðarfjárskatturinn hækki aftur? Svona mætti lengi telja…

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lækkað skatta á fyrirtæki úr tæpum 50% niður í tæp 25% í sinni valdatíð. Rekur þú kanski lítið fyrirtæki? Hvernig fyndist þér að borga 50% skattinn?

Ef að Sjálfstæðisflokkurinn myndar ekki meirihluta eftir næstu kosningar verður hér vinstristjórn. Það er ekkert flóknara. Vinstristjórnir einkennast af samdrætti, atvinnuleysi, háum sköttum og auknu skrifræði og leiðindum, sem óhjákvæmilega fylgir auknum verkefnum hins opinbera. Vinstrimenn vilja veita ríkinu endalaus verkefni á öllum mögulegum sviðum.

Skárra er að glíma við þennslu en kreppu.

Sindri Guðjónsson
sindri79(a)gmail.com


Meiri samúð með Hezbollah en Ísraelum

Lógó Hezbollah

Samkvæmt nýlegri könnun höfðu Íslendingar frekar samúð með Hezbollah-liðum en Ísraelum á meðan átök þessara aðila stóðu. Þetta er til marks um að eitt megin markmið og herbragð Hezbollah hafi gengið upp.

Þeir gerðu viljandi einungis árásir á Ísraela frá skotpöllum sem þeir staðsettu mitt í fjölmennum fjölskyldu hverfum, til að tryggja að mannfall yrði sem mest þegar Ísraelar myndu bregðast við. Með þessu var best tryggt að neikvæð umfjöllun um Ísraela viðhéldist.

Fréttaflutningur af þjáningum sem Ísraelar öllu Líbönum var ýktur og æstur. Sagt var frá því að 56 manns hefðu dáið í þorpinu Kana. Nokkru seinna var það staðfest að einungis 28 hefðu látist. Haft var eftir forseta Líbanons í fréttum heimsins, Siniora, að 40 manns hefðu dáið í þorpinu Hula, um leið og hann hvatti alla utanríkisráðherra Arabaríkja til að krefjast vopnahlés án skilyrða. Síðar viðurkenndi Siniora að einungis 1 hefði dáið í Hula. Upp komst einnig um ýmsar falsaðar frétta myndir um síðir, svo og að margir þeir sem myndaðir voru sem hjálparstarfsmenn og fórnarlömb, voru beinlíns starfsmenn Hezbollah.

Það vantaði hinsvegar eitthvað upp á æsinginn þegar að segja átti fréttir af neyð eða þjáningum meðal almennra borgara í Ísrael. Ég varð í það minnsta ekki var við eins mikinn fréttaflutningum af þeim rúmlega milljón Ísraelum sem þurftu að búa í sprengjubyrgjum í heilan mánuð, eða þá um þá 300.000 sem flýðu heimil sín annað. Það er kannski hægt að segja að Ísraelar hafi sloppið vel í ljósi þess að 3970 eldflaugum var skotið á land þeirra. “Ekki nema” 160 manns létust og “einungis” 4262 þurftu að fara á sjúkrahús. Beint efnahagstjón Ísraelar var 1.400.000.000 dollarar, og ekki hafa þeir krafið Hezbollah, eða stuðningsmenn þeirra (Íran og Sýrland) um bætur.

Annars er megin munurinn á Hezbollah og Ísraelum sá, að Ísraelar létu rigna miðum með aðvörunum fyrir óbreytta borgara, og þeir hvattir til að yfirgefa þau svæði sem til stæði að sprengja. Hezbollah hafði það hins vegar að sérstöku markmiði að drepa óbreytta borgara, bæði í Ísrael og Líbanon.

Sindri Guðjónsson
sindri79(a)gmail.com

(Myndirnar að neðan sýna annars vegar Hezbollah-liða á fjöldafundi heilsandi með nasistakveðjunni og hins vegar meðlimi í svokallaðri "barnadeild" innan Hezbollah-samtakanna á hersýningu.)

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Frjálslynt íhald á íhald.is

Edmund Burke

Sjálfsagt hafa einhverjir velt því fyrir sér hvaða hugmyndafræði nákvæmlega við aðhyllumst sem stöndum að Veritas og Íhald.is. Margir hafa líka e.t.v. velt fyrir sér hvers vegna við höfum verið að stofna hugveitu með það að markmiði að leggja áherslu á hugmyndafræði íhaldsstefnunnar sem mörgum þykir sennilega þegar hafa mikil ítök og áhrif á Íslandi. Þegar minnst er á íhald verður án efa mörgum hugsað til þess sem kalla mætti evrópskt íhald sem er út af fyrir sig vel skiljanlegt enda er það það íhald sem í sögulegu samhengi hefur lengst af verið áberandi innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta lýsir sér t.d. í þeirri afstöðu að vilja ekki afnema landbúnaðarkerfið eða selja Ríkisútvarpið, eitthvað sem við sem stöndum að Íhald.is viljum hins vegar gera hið fyrsta.

Þessi evrópska íhaldssemi er enn í dag ráðandi hugmyndafræði í flestum svokölluðum hefðbundnum hægriflokkum á meginlandi Evrópu sem og á hinum Norðurlöndunum. Þarna er um að ræða íhaldsmenn sem eru almennt séð engir sérstakir áhugamenn t.a.m. um að lækka skatta, draga úr miðstýringu eða minnka reglugerðafargan þó þeir eigi það stundum til að tala fyrir slíku – þá yfirleitt á mjög hóflegum nótum. Þessir flokkar eru gjarnan hlynntir verndartollum, opinberum niðurgreiðslum og alls kyns afskiptum ríkisvaldsins af hinum og þessum sviðum þjóðfélagsins s.s. menningarmálum. Þeir eru ennfremur tortryggnir á frjáls viðskipti á milli landa og markaðssvæða og geta jafnvel verið mjög íhaldssamir á velferðarkerfi landa sinna.

Þetta íhald er að okkar mati ekki hægrisinnað heldur í besta falli einhvers konar miðjustefna. Jacques Chirac er kannski ágætis dæmi um slíkan íhaldsmann. T.a.m. hefur hann talað mjög afgerandi gegn fríverslun í gegnum tíðina og fyrir því að teknir verði upp verndartollar í Frakklandi í auknum mæli til að vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni við önnur lönd. Það er deginum ljósara frá okkar bæjardyrum séð að Chirac er ekki hægrimaður.

Munurinn á meginlandshugsunarhættinum og þeim engilsaxneska kom einmitt vel fram í deilum Frakka og Breta sumarið 2005 í kjölfar þess að fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins var hafnað í Frakklandi og Hollandi. Chirac sagði stjórnarskránni hafa einkum verið hafnað í Frakklandi vegna þess að hún væri alltof frjálslynd í efnahagsmálum að engilsaxneskri fyrirmynd. Bretum fannst stjórnarskráin hins vegar engan veginn nógu frjálslynd í efnahagsmálum og andstaðan við hana var ekki sízt á þeim forsendum auk lýðræðisins og fullveldisins. Samt er vinstristjórn í Bretlandi!

Það íhald sem við aðhyllumst í meginatriðum mætti kalla engilsaxneskt eða jafnvel amerískt. Það er stundum kallað upp á ensku "right conservatism" eða "free-market conservatism". Í Bretlandi hefur þetta íhald gjarnan verið nefnt frjálslynt íhald. Í mjög stuttu máli felur sú íhaldssemi í sér frjálslyndi í efnahagsmálum en aftur íhaldssemi í siðferðismálum eða persónulegum málum eins og þau mál eru stundum kölluð líka. Ennfremur erum við hlynntir öflugri löggæslu, landvörnum o.s.frv. Finna má ágætis skilgreiningu á þessari íhaldssemi á ameríska frjálshyggjuvefnum Advocates for Self-Government:
 
"Conservatives tend to favor economic freedom, but frequently support laws to restrict personal behavior that violates "traditional values." They oppose excessive government control of business, while endorsing government action to defend morality and the traditional family structure. Conservatives usually support a strong military, oppose bureaucracy and high taxes, favor a free-market economy, and endorse strong law enforcement."

Þetta er íhaldssemi sem hefur að okkar mati alls ekki verið nógu áberandi í þjóðfélagsumræðum á Íslandi og því viljum við breyta.

Hjörtur J. Guðmundsson
hjorturg@hi.is


Tekjujöfnun

Íslenska orðabókin skilgreinir orðið tekjujöfnun sem ,,það að jafna tekjur á milli manna.” Merking orðsins er greinileg, en hvernig er tekjujöfnun í verki? Á Íslandi fer fram tekjujöfnun á hverjum degi. Deilt er daglega um hversu mikil hún á að vera og í hvaða formi hún skal framkvæmd. Dæmi um tekjujöfnun er niðurgreiðsla á lyfja- og heilbrigðisþjónustu. Hvernig þá? Jú, af því að sá sem nýtir sér slíka þjónustu er ekki að greiða fyrir hana að fullu heldur fær sá sami hluta þjónustunnar/vörunnar niðurgreidda úr ríkissjóð. Allir vita að fjármagn það sem situr í ríkissjóð verður ekki til af sjálfu sér.

Maður sem missir vinnuna fær greiddar atvinnuleysisbætur. Sá sem áður hafði vinnu en hefur hana ekki nú hefur rétt á því að fá atvinuuleysisbætur greiddar úr ríkissjóð. Sá sem slasast eða veikist og getur ekki unnið fær greiddar örorkubætur úr ríkissjóð. Fólk með börn fær greiddar barnabætur og fólk sem skuldar ákveðna upphæð fær greiddar vaxtabætur. Allt úr hinum ,,sameiginlega“ sjóð. Tekjujöfnun á sér stað þegar fólk sendir börnin sín í skóla. Hvorki foreldrar skólabarnanna né börnin sjálf greiða fullt verð fyrir þjónustuna. Það er ekkert ókeypis. Það er alltaf einhver sem greiðir.

En burtséð frá því hvort að tekjujöfnun sé réttlætanleg eða ekki getur hún talist bæði sanngjörn og ósanngjörn.

Dæmi um sanngjarna tekjujöfnun.

Það er alltaf gaman að hugsa sér auðveld dæmi þegar maður veltir fyrir sér hugmyndafræði. Við skulum gefa okkur eftirfarandi umræðunnar vegna:

Gefum okkur tuttugu manna hóp staddan á eyðieyju. Einn daginn fæðist barn sem hvorki getur gengið né notað hendurnar af neinu ráði. Þegar fram líða tímar mun þessi einstaklingur ekki geta séð fyrir sér sjálfur, hann mun ekki geta veitt sér til matar, smíðað húsaskjól og svo framvegis.

Þeim aðilum sem fyrir eru á eyjunni ber siðferðisleg skylda til að fæða og klæða þennan einstakling vitandi að hann muni láta lífið ef svo er ekki gert. Það gera hinir íbúarnir með því að leggja á sig einhverja vinnu til að sinna þessum einstakling. Afskiptaleysi þeirra af einstaklingnum væri ómannúðlegt.

Þetta þýðir ekki að fatlaði einstaklingurinn geti sett upp kröfur um hvernig hann vill hafa hlutina í kringum sig. Það þarf hann að semja um við hina íbúa eyjunnar.

Ef dæmið er fært til nútíma vestræns lands liggur í augum uppi hvernig þessari tekjujöfnun skal háttað. Áfram vinna íbúar landsins og sá hluta launa sinna til þeirra sem ekki getað bjargað sér sjálfir.

Dæmi um ósanngjarna tekjujöfnun.

Hér skal tekið fyrir annað dæmi. Aftur skal haldið á eyðieyjuna þar sem ákveðinn fjöldi manna. Fæddir eru tveir aðrir drengir, Pétur og Páll. Þeir eru nú komnir á eigin ábyrgð. Þeir hafa lært að veiða sér til matar og kunna að sama skapi að reisa sér húsaskjól og búa sér til föt. Einnig skal tekið fram að þeir hafa báðir líkamlega burði til að gera alla fyrrnefnda hluti.

Pétur ákveður nú að hann ætli ekki að vinna. Hann er orðinn latur og nennir ekki að vinna sér til matar. Ber hinum íbúum eyjunnar einnig að fæða hann og klæða eins og þeir gera við fatlaða einstaklinginn áður? Nei, langt því frá. Ef hann hefur burði til að fæða sig og klæða sjálfur skal hann gera það sjálfur.

Ef hann nú fótbrotnar og getur ekki veitt sér mat í mánuð. Ber þeim þá skylda til að fæða hann? Nei, ekki heldur. Þeim ber ekki skylda til þess þó að vissulega sé þeim heimilt að sýna þann bróðurkærleika að hjálpa honum. Hann hefði hins vegar átt að safna sér mat þannig að hann gæti nú bjargað sér í mánuð ef enginn á eyjunni vildi vera svo vænn að fæða hann á meðan veikindum hans stendur.

Páll er aftur á móti frumlegri en Pétur. Hann hefur ákveðið að að skreyta nokkra hellisveggi með laufblöðum og sjávarþangi. Enginn hefur ráðið hann til verksins heldur gerir hann þetta af sjálfsdáðum. Hann er viss um að hinum íbúum eyjunnar muni finnast það glæsilegt og vonar að sem flestir njóti þess.

Gallinn á þessari ráðagerð hans er sú að það fer mikil vinna í verkið og hann hefur því ekki tíma til að veiða sér mat.

Þá er spurningin. Hvílir skylda á hinum íbúum eyjunnar að fæða hann á meðan verkinu stendur? Ber þeim siðferðisleg skylda til þess? Svarið er að sjálfsögðu nei. Þeim ber engin skylda til að sjá fyrir honum. Það má vel vera að listaverkið verði stórglæsilegt og allir íbúar eyjunnar verði stórhrifnir. Þá væri tilvalið fyrir Pál að selja aðgang að hellinum. Þá getur hann væntanlega keypt sér mat af öðrum á meðan gerð næsta listaverks stendur.

Auðvitað er það sem hér er skrifað langsótt dæmi en þau eru aðeins til að gefa hugmynd af raunveruleikanum. Það er til fullt af fólki sem annað hvort nennir ekki að vinna eða finnst sjálfsagt að aðrir borgi fyrir áhugamál þeirra. Á sama tíma er til fullt af fólki sem getur ekki unnið og hefur það alla jafna ekki gott fjárhagslega.

Góða helgi…

Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr(a)simnet.is


« Fyrri síða

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband